Category: Málfar

Frjálsarnar

Í fréttum og lýsingum frá Ólympíuleikunum heyrist og sést orðið frjálsar býsna oft – „fimleikar og frjálsar í fararbroddi“ stóð í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í dag, „Á að breyta reglum í frjálsum?“ stóð í annarri fyrirsögn fyrr í vikunni. Þetta er auðvitað stytting úr frjálsar íþróttir en það samband hefur tíðkast lengi í málinu – elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1916 en samsetningin frjálsíþróttir sést fyrst 1938. Það er ekkert einsdæmi að samband lýsingarorðs og nafnorðs sé stytt á þennan hátt – „kostar tré af þeirri stærð einn bláan, þ.e. eitt þúsund krónur“ segir t.d. í Degi 1988; „Skyldi hann fá sér tvo sterka um morguninn fyrir messu“ segir í Nýjum vikutíðinum 1963. Þetta er ekki síst algengt ef sambandið er einhvers konar heiti.

En stundum er myndin frjálsarnar notuð – „Eitrað lúkk hjá okkar manni þegar frjálsarnar duttu í gang!“ skrifaði Edda Sif Pálsdóttir á X í gær og hlekkjaði á færslu Sigurbjörns Árna Arngrímssonar. Þessi orðmynd getur ekki verið beygingarmynd af lýsingarorðinu frjáls heldur er þarna búið að bæta greini við myndina frjálsar og gera hana þannig að nafnorði. Þetta er ekki alveg nýtt – elsta dæmi um það á tímarit.is er „Það passaði vel fyrir mig að eiga barn á þessum tíma og fá smáhvíld frá frjálsunum“ í DV 2001. Dæmi frá því upp úr aldamótum er að finna á samfélagsmiðlum – „farðu í sturtu það styttist frjálsarnar“ segir á Hugi.is 2003; „Svo byrja frjálsarnar líka næstu helgi“ segir á Bland.is 2004.

Vegna þess að myndin frjálsar er oft notuð án meðfylgjandi nafnorðs í merkingunni 'frjálsar íþróttir' er ekkert undarlegt að farið sé að meðhöndla hana sem nafnorð, enda gæti hún formsins vegna verið fleirtala af kvenkynsnafnorði. En út frá myndunum frjálsar í nefnifalli og þolfalli og frjálsum í þágufalli er ekki hægt að sjá hvort um lýsingarorð eða nafnorð er að ræða og þess vegna er óhjákvæmilegt að halda sig við hefðbundna málnotkun í greiningu og greina þær myndir sem lýsingarorð. Öðru máli gegnir um eignarfallið – það er frjálsra af lýsingarorðinu en ætti að vera frjálsa af nafnorði því að -ra getur ekki verið eignarfallsending nafnorðs. En eignarfallið er sjaldgæft og ég hef ekki fundið dæmi um myndina frjálsa án greinis.

En eignarfall með greini var notað í „ákveðinn hápunktur frjálsanna“ á RÚV í dag og á Twitter 2015 – „Tala nú ekki um það – alfræðiorðabók frjálsanna!“ Myndir með greini sýna vitanlega að orðið er notað sem nafnorð. Um ótvíræðu nafnorðsmyndirnar frjálsarnar og frjálsunum eru 16 dæmi á tímarit.is og 26 í Risamálheildinni og þessi notkun virðist færast í vöxt en er einkum bundin við óformlegt málsnið – enn sem komið er að minnsta kosti. Þetta er ekki heldur neitt einsdæmi – til dæmis eru nafnorðin franskar(nar) og frönskur(nar) mynduð á svipaðan hátt af styttingunni franskar í merkingunni 'franskar kartöflur'. Mér finnst svona orðmyndun skemmtileg og sé ekkert athugavert við hana og því enga ástæðu til að amast neitt við henni.

Þvílíka fjörið

Orðið þvílíkur er greint sem fornafn í Ritmálssafni Árnastofnunar og sem óákveðið fornafn í Íslenskri nútímamálsorðabók en í ýmsum orðabókum er það greint sem lýsingarorð og einnig í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, enda hefur það veika beygingu. En hún virðist ekki vera gömul – elstu dæmi sem ég finn um hana eru frá árinu 2000. Í Munin það ár segir „Þvílíka ruglið“, í Eyjafréttum segir „En stíflan brast með þessu þvílíka marki hjá Inga“ og í Morgunblaðinu segir „Þetta er búið að vera þvílíka rennireiðin“. „Fjöldi dæma er um veiku beyginguna á samfélagsmiðlum frá næstu árum eftir aldamótin en í öðrum textum fara dæmi ekki að sjást að ráði fyrr en 2007 og hefur farið ört fjölgandi, einkum á síðustu tíu árum.

Veika beygingin kemur fram við sömu aðstæður og veik beyging lýsingarorða, þ.e. í ákveðnum nafnliðum. Það sem gerir nafnliði ákveðna er einkum ákveðinn greinir á nafnorði, lausi greinirinn hinn og ábendingarfornöfnin og þessi. Dæmi með ákveðnum greini og þessi má sjá hér að framan en einnig má finna dæmi með lausa greininum, svo sem – „Hinn þvílíki undirbúningur sem sést hér á sér fáa líka“ í DV 2009. Það er því ljóst að orðið þvílíkur er farið að haga sér eins og lýsingarorð að flestu leyti – stigbreytist reyndar ekki en fyrir því eru merkingarlegar ástæður eins og hjá ýmsum lýsingarorðum. Ég legg því til að þvílíkur verði framvegis greint sem lýsingarorð – eins og farið er að gera með ýmis sem áður var talið fornafn.

Í gær var hér vitnað í setninguna „Það var tryllt í gær, þvílíka stemningin í höllinni“ í viðtali á mbl.is fyrr á þessu ári. Hliðstæð dæmi eru mjög algeng. Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Þetta var þvílíka stuðið.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Á meðan við lékum okkur galdraði frænka fram þvílíka veisluborðið.“ Í Morgunblaðinu 2015 segir: „þvílíka þolinmæðin sem þú sýndir barnabörnunum þínum.“ Í Morgunblaðinu 2016 segir: „Hér er dottin á þvílíka blíðan með logn og sól.“ Í Fréttatímanum 2017 segir: „Þau eru rosalega dugleg að bjóða okkur í mat og það eru nú þvílíku veislurnar.“ Í Morgunblaðinu 2018 segir: „Þvílíka partíið sem hefur verið á Króknum aðfaranótt sunnudags.“ Í Eyjafréttum 2023 segir: „Þvílíka batteríið í kringum þetta.“

Til skamms tíma hefði þvílíkur verið haft þarna í sterkri beygingu og nafnorðið án greinis – þvílík stemning í höllinni – og spurningin er hvers vegna þetta breytist. Í umræðum var bent á líkindi við sambönd eins og ljóta ruglið / ástandið o.s.frv. og meiri vitleysan / hörmungin o.s.frv. þar sem líka er notuð veik beyging lýsingarorðs og ákveðinn greinir á nafnorði án sýnilegrar ástæðu – við þetta mætti bæta sambandinu góða kvöldið sem stundum er amast við. Svo má líka spyrja hvort þvílík stemning og þvílíka stemningin merki alveg það sama. Mér finnst stundum að þvílíka stemningin sé eða geti verið sterkara en þvílík stemning en svo getur líka verið að þetta sé bara breyting á formi án merkingarlegrar ástæðu eða áhrifa.

Snoðlíkt umferðaróhapp

Í frásögn mbl.is af bílveltu í Hafnarfirði í gær segir: „Snoðlíkt umferðaróhapp varð fyrr í kvöld þegar bíll hafnaði utan vegar í Hafnarfirði og lenti á hliðinni.“ Ég staldraði við þessa frétt vegna þess að orðið snoðlíkt kom mér ókunnuglega fyrir sjónir. Merking þess er þó nokkuð ljós af samhenginu vegna þess að haft eftir varðstjóra hjá Slökkviliðinu: „Þetta er nánast copy-paste“ – af fyrra óhappinu. Lýsingarorðið snoðlíkur er líka að finna í bæði í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók þar sem það er skýrt 'keimlíkur, dálítið líkur (í útliti)'. Orðið er hins vegar ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók enda mjög sjaldgæft á prenti – aðeins 65 dæmi á tímarit.is en 25 í Ritmálssafni Árnastofnunar, mörg hver þau sömu.

Elsta dæmi sem ég finn um orðið er í bréfi frá Sigurði Péturssyni í Ási í Hegranesi 1850: „getur þú til gamans borið saman hvaða snoðlíkt þetta er gjöfum Björns á Hofstöðum.“ Elsta dæmið á tímarit.is og í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr Íslendingi 1860: „Það er aðdáanlegt, hvað þessi ályktunin er snoðlík hinni fyrri.“ Dæmin á tímarit.is dreifast á flesta áratugi frá 1860, aldrei fleiri en tíu á sama áratug, níunda áratug síðustu aldar – nefna má að níu af tíu dæmum frá þeim áratug eru úr sama blaði og flest frá sama blaðamanni. Aðeins sex dæmi eru frá þessari öld og því er nokkuð óvænt að finna tvö dæmi til viðbótar á samfélagsmiðlum – annað er frá 2019 á Málefnin.com: „þessi vesalings maður, mr. Butt's, hann er snoðlíkur Alfred E. Neuman.“

Árin 1922-1923 birtust í Tímanum fjölmargir pistlar Þórbergs Þórðarsonar með yfirskriftinni „Orðabálkur“. Í þeim fyrsta segir: „Undir þessari fyrirsögn hefir ritstjóri Tímans leyft mér að birta framvegis í hverju tölublaði orð og orðasambönd úr safni mínu, ásamt skýringum, sem mér eru á þeim kunnar.“ Í einum pistlinum segir: „snoðlíkur (stigbreytist ekki?), 1., áþekkur, sviplíkur. Suðursv.“ Þórbergur safnaði orðum úr töluðu máli og fyrst hann tekur snoðlíkur upp er ljóst að hann hefur talið það sjaldgæft. Það þarf hins vegar ekki að segja neitt þótt hann tengi það Suðursveit því að hann var þaðan og hefur þekkt orðið frá heimaslóðum sínum. En dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar virðast ekki tengjast sérstökum landshluta.

Uppruni orðsins snoðlíkur er ekki skýrður í orðabókum og óljóst hvernig eigi að skilja fyrri liðinn, snoð­-, í þessu samhengi. Orðið snoð er skýrt 'stutt og þétt hárlag á dýrum, sem gjarna fellur burt og rýmir fyrir nýju hári eða ull' í Íslenskri orðsifjabók og þar er einnig að finna lýsingarorðin snoðkopsulegur og snoðkoppslegur í merkingunni 'kollhúfulegur (t.d. eftir klippingu), sviplítill' og nafnorðið snoðkoppur í merkingunni 'sviplítill maður'. Þessi orð sýna að snoð- er notað í orðum sem vísa til útlits sem rímar við skýringuna á snoðlíkur í orðabókum. Lýsingarorðið snoðinn getur líka merkt 'sneyddur einhverju' og hugsanlega vísar snoðlíkt til þess að eitthvað sé líkt þegar búið er að snoða það – svipta það sérkennum sínum.

Þetta eru þó aðeins getgátur, og uppruninn skiptir svo sem ekki öllu máli – það er ljóst hvað orðið merkir. Eins og segir í upphafi kannaðist ég ekki við það en konan mín segist þekkja það frá foreldrum sínum og blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina þar sem ég rakst á orðið hefur notað það oftar í fréttaskrifum sínum nýlega – „Eldgosið sem hófst milli Sundhnúka og Stóra-Skógfells í gærmorgun er snoðlíkt síðustu tveimur gosum“ og „Kokkabakgrunnur Grjasnovs er einnig snoðlíkur bakgrunni annars Rússa“. Þetta er gott dæmi um að orð geta lifað góðu lífi í málinu áratugum og öldum saman þrátt fyrir að þau komist sjaldan á prent, og sýnir jafnframt að ritað mál er oft mjög ófullkomin heimild um raunverulega málnotkun í töluðu máli.

Frjálslyndi eða ergelsi

Ég veit að mörgum í þessum hópi – og miklu fleiri utan hans – finnst ég alltof frjálslyndur í málfarslegum efnum. Ég amast ekki við ýmsum þekktum „málvillum“, nýjungum í máli og enskum „slettum“ eða mæli þeim jafnvel bót – meðal þess sem ég hef nýlega fjallað um á jákvæðan hátt er fleirtalan menningar, eintalan trúarbragð, sögnin tana, framburðurinn tvem, orðið reiðhjólamaður, framsöguháttur í stað viðtengingarháttar, og svo mætti lengi telja. Ég hef líka varið málbreytingar í nafni kynhlutleysis, erlendan hreim og ófullkomna íslensku þeirra sem eru að læra málið. Mér finnst mjög skiljanlegt að þetta gangi fram af fólki sem alið er upp við hefðbundin íslensk málvöndunar- og málhreinsunarviðhorf – eins og við erum flest.

Þessi afstaða stafar ekki af andstöðu við íslenska málhefð en ekki heldur af sérstöku frjálslyndi heldur byggist á raunsæju viðhorfi til tungumálsins og breytinga á því. Í viðtali á Bylgjunni um daginn var ég spurður hvort það væri eitthvað í nútímamáli sem færi gríðarlega í taugarnar á mér og ég svaraði: „Nei. Ég er hættur að láta nokkuð fara í taugarnar á mér. Ég gerði það áður, ég lét allt mögulegt fara í taugarnar á mér. En ég áttaði mig á því að það skilar engu og ef eitthvað svona gerir sig líklegt til að fara í taugarnar á mér þá fer ég að skoða það – hvernig það er notað, uppruni og eitthvað svoleiðis.  Og þá endar oft með því að mér finnst þetta mjög áhugavert og átta mig á því að þetta er í raun og veru eitthvað sem er mjög áhugavert.“

Það sem ég er að reyna að gera í pistlum mínum er sem sé að fjalla um hvaðeina í máli, málfræði og málfari á fræðilegan hátt, en þó þannig að það sé skiljanlegt fólki sem ekki hefur sérmenntun í málfræði og er farið að ryðga í skólamálfræðinni – stundum mistekst það örugglega. En ég hef þá bjargföstu trú að fræðsla sé betri en fordómar, skilningur betri en hneykslun. Ef við áttum okkur á uppkomu og eðli einhverrar tiltekinnar málbreytingar eða nýjungar sjáum við kannski að hún er ekki einhver tilviljanakennd rökleysa eða málspjöll, heldur á sér eðlilegar og röklegar skýringar. Það kann jafnvel að leiða til þess að við tökum þessa breytingu eða nýjung í sátt í stað þess að eyða tíma og orku í að ergja okkur á henni – sem skilar hvort eð er engu.

Þótt ég komist oft að þeirri niðurstöðu í pistlum mínum að sú breyting eða nýjung sem er til umfjöllunar sé saklaus eða jafnvel eðlileg er það í raun aukaatriði og mér alveg að meinalausu þótt fólk sé mér ósammála um það. Fræðslan er aðalatriðið, og jafnvel þótt lesendur verði áfram andsnúnir breytingunni eða nýjunginni eftir lestur pistils um hana tel ég samt að fræðslan gagnist þeim vegna þess að þekking á óvininum er alltaf mikilvæg. Það er auðveldara að berjast gegn breytingum og nýjungum ef fólk áttar sig á eðli þeirra og ástæðum þess að þær koma upp og ef ég tel að andóf gegn tiltekinni breytingu eða nýjung í íslensku sé í þágu málsins hika ég ekki við að segja það – og hef lagst gegn ýmsum breytingum sem ég hef skrifað um.

En málið hefur alltaf verið að breytast og verður að breytast til að þjóna samfélagi hvers tíma, og ég er sannfærður um að einstrengingsleg barátta gegn öllum breytingum og nýjungum í máli er til bölvunar vegna þess að hún fær málnotendur upp á móti málinu. Ef sífellt er verið að amast við málfari fólks, segja því að það tali vitlaust, kunni ekki íslensku o.s.frv., er það ekki til þess fallið að skapa jákvætt viðhorf til málsins. Baráttu fyrir íslenskunni verður þess vegna að reka á jákvæðum nótum með því að stuðla að notkun málsins við allar aðstæður, með því að hvetja fólk til að nota málið, tala saman, lesa og skrifa á íslensku – og ekki síst tala við börnin, lesa fyrir þau og veita þeim jákvætt og auðugt máluppeldi. En sleppa því að ergja sig.

Ólíkar menningar

Í umræðu um nafnorð sem aðallega eða eingöngu eru notuð í annarri tölunni bar orðið menning á góma, en það orð er venjulega eingöngu haft í eintölu. Orðið kemur fyrir í fornu máli og er skýrt 'lærdom, kundskab, dannelse' eða 'menntun, þekking, siðfágun' í Ordbog over det norrøne prosasprog – „er þér kunnig ætt hans og auður fjár og menning góð“ segir t.d. í Gunnlaugs sögu ormstungu. Þetta var aðalmerking orðsins lengst af, a.m.k. fram undir 1900 – „Sjáanlegt virðist, að þetta sje gjört í þarfir skólabúsins, en ekki piltum til menningar“ segir t.d. í Ísafold 1891; „Lögðu þau hjón mikla rækt við uppeldi barna sinna og veittu þeim mikið fé til menningar“ segir í Austra 1896. Þessi merking býður tæpast upp á fleirtölu.

En í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er menning skýrt 'Dannelse, Kultur, Civilisation' – 'dannelse' eða 'siðfágun' helst en tvær merkingar hafa bæst við, 'kultur' eða 'siðir, venjur og hefðir' og 'civilisation' eða 'siðmenning'. Merkingin 'siðmenning' er greinilega komin til í setningunni „margar þjóðir hafa orðið að berjast fyrir trú sinni, frelsi sínu eða jafnvel menning mannkynsins“ í Almanaki hins íslenska Þjóðvinafjelags 1895. Merkingin 'siðir, venjur og hefðir' er komin til þegar farið er að tala um íslenska menningu en elsta dæmi um það er í Öldinni 1896: „Þetta var nú blómatími íslenzkrar menningar.“ Sambandið íslensk menning verður svo algengt fljótlega upp úr aldamótunum 1900 og þar með þessi merking.

Fyrstnefnda merkingin – og sú upprunalega – er að miklu leyti horfin úr nútímamáli en tvær þær síðarnefndu eru mjög algengar og það er stundum óheppilegt að sama orðið, menning, skuli venjulega vera notað um hvort tveggja. En þrátt fyrir að þessar tvær merkingar, einkum 'siðir, venjur og hefðir', kalli á fleirtölu hefur orðið að mestu haldið í þá hegðun sem var eðlileg með upphaflegu merkingunni, að vera eingöngu notað í eintölu. Í Íslensk-danskri orðabók og Íslenskri orðabók er þó gert ráð fyrir fleirtölu – á eftir uppflettimynd stendur „-ar, -ar“ – en fleirtala orðsins er ekki gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og í Málfarsbankanum segir: „Orðið menning er kvenkynsnafnorð sem yfirleitt er aðeins notað í eintölu.“

Vissulega má finna slæðing af dæmum um að talað sé um menningar á tímarit.is en stundum þá innan gæsalappa. Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Draumurinn um að hægt sé að sameina ólíkar menningar, þó ekki sé nema í stuttan tíma.“ Í Dagblaðinu 1978 segir: „Mismunandi einstaklingar hafa mismunandi gildisáherzlu. Mismunandi menningar einnig.“ Í Tímanum 1991 segir: „Með tilkomu fornleifafræði, mannfræði og félagsvísinda fóru menn að tala um mismunandi „menningar“ í stað mismunandi manneðlis.“ Í Ritinu 2002 segir: „Þá hafa mannfræðingar lengi litið svo á að í heiminum séu margar ólíkar menningar, að við getum talað um íslenska menningu, danska menningu, menningu Nuerfólksins o.s.frv.“

Til að uppfylla þörfina fyrir að geta notað menningu í fleirtölu er iðulega gripið til fleirtölu orðsins menningarheimur sem er skýrt 'stórt samfélag þar sem ákveðin menning er ríkjandi' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið er gamalt í málinu – elsta dæmi frá 1897 – en var ekki ýkja algengt fyrr en undir 1990. Á tíunda áratugnum hljóp mikill vöxtur í notkun þess en þó margfalt meiri í notkun fleirtölumynda en eintölumynda. Það verður tæpast skýrt á annan hátt en að fleirtalan sé notuð í svolítið annarri merkingu en eintalan – sem fleirtala af menning. Þetta sést vel á dæmum eins og „í Wales takast á tveir menningarheimar, annars vegar sá velski og hins vegar sá enski“ í Morgunblaðinu 1997. Þarna er verið að tala um mismunandi menningu.

Það er vel þekkt að mörg orð sem áður voru eingöngu notuð í eintölu hafa nú fengið fleirtölu vegna þess að merking þeirra hefur hliðrast til eða víkkað – orð eins og keppni, smit, fíkn, flug, þjónusta, orðrómur, látbragð, fælni og mörg fleiri. Í sumum tilvikum er fleirtalan viðurkennd en ekki öðrum eins og ég hef skrifað um. Eins og áður segir var eðlilegt af merkingarlegum ástæðum að orðið menning væri ekki notað í fleirtölu í upphaflegri merkingu sinni, en allt frá því á nítjándu öld hefur orðið einnig haft merkingar þar sem fleirtala væri eðlileg, og mikil notkun fleirtölunnar menningarheimar á seinni árum sýnir glöggt að full þörf er fyrir að geta talað um margar menningar. Mér finnst að við eigum ekki að hika við að gera það.

Trúarbragð

Allmörg samsett nafnorð hafa orðið -bragð sem seinni lið. Mörg þessara orða eru einkum notuð í fleirtölu þótt eintölumyndum bregði fyrir af þeim flestum og séu jafnvel gefnar upp í orðabókum – þetta eru orð eins og aflabrögð, bolabrögð, fangbrögð, hvílubrögð, vinnubrögð o.fl. Eitt fárra orða af þessu tagi sem nánast aldrei komu fyrir í eintölu til skamms tíma er trúarbrögð. Elsta dæmi um eintöluna á tímarit.is er í Morgunblaðinu 1980: „Þjónkun og tilbeiðsla á manna-guðum og er komma-guðinn áhrifamestur sem trúarbragð. […] En Jesú Kristur er ekki trúarbragð.“ Í Morgunblaðinu 1984 segir: „Hún er kristið verkefni, því kristni er trúarbragð friðarins.“ Í Pressunni 1991 segir: „hann er kynntur eins og æsandi trúarbragð.“

Þetta eru einu dæmin um eintöluna trúarbragð sem ég finn fram til aldamóta á tímarit.is, en í Risamálheildinni er hátt á áttunda hundrað dæma frá þessari öld – flest af samfélagsmiðlum en þó um þrjátíu úr öðrum textum, nær öll frá síðustu tíu árum. Sem dæmi má nefna „Íþróttin er trúarbragð hér“ á fótbolti.net 2012, „Fyrir múslima er Íslam ekki nýtt trúarbragð“ á Vísi 2015, „Aðspurður segir hann að tilgangur stofnunar trúfélagsins hafi verið að iðka elsta trúarbragð í heimi“ á mbl.is 2019, og „Fyrir margan Íslendinginn er áfengi hálfgert trúarbragð“ í Skessuhorni 2019. Á samfélagsmiðlum er hins vegar fjöldi dæma strax á upphafsárum þeirra upp úr aldamótum sem bendir til þess að eintalan hafi verið orðin algeng í talmáli fyrir aldamót.

Þessi breyting er í sjálfu sér mjög eðlileg og skiljanleg. Það er ekkert í merkingu orðsins trúarbrögð sem kallar á fleirtölu – ekki frekar en í orðunum forföll og mistök sem ég hef áður skrifað um. Þvert á móti – trúarbrögð er samheiti við trú sem er vitanlega eintöluorð. Orðið trúarbrögð vísar til afmarkaðs teljanlegs fyrirbæris – það er hægt að tala um tvenn trúarbrögð, mörg trúarbrögð o.s.frv. Þess vegna er ekki undarlegt að málnotendum finnist eðlilegt að nota eintöluna trúarbragð þegar vísað er til eins fyrirbæris af þessari tegund en noti trúarbrögð í vísun til fleiri slíkra – í Íslenskri orðabók er m.a.s. tekið fram að trúarbrögð sé „stundum notað sem flt. af trú“ enda er ekki hægt að nota trú í fleirtölu í þessari merkingu.

Öðru máli gegnir um hin orðin sem nefnd voru hér að framan – eintölumyndirnar aflabragð, bolabragð, fangbragð, hvílubragð og vinnubragð koma ýmist aldrei eða örsjaldan fyrir. Það er eðlilegt vegna þess að öfugt við trúarbrögð vísa þau ekki til afmarkaðra teljanlegra fyrirbæra – það er ekki talað um *tvenn vinnubrögð, *mörg vinnubrögð eða neitt slíkt heldur fjölbreytt vinnubrögð eða eitthvað slíkt. Þess vegna er ekkert sem kallar á aðgreiningu eintölu og fleirtölu í þessum orðum, öfugt við trúarbrögð, og því engin þörf fyrir sérstakar eintölumyndir. Eintalan trúarbragð er orðin a.m.k. aldarfjórðungs gömul og er greinilega töluvert útbreidd og í mikilli sókn. Hún er fullkomleg eðlileg og rökrétt og ég sé enga ástæðu til að amast við henni.

Svo að segja – ef svo má segja

Orðasambandið svo að segja hefur lengi verið mjög algengt í málinu – rúm sextíu þúsund dæmi eru um það á tímarit.is en notkun þess virðist hafa náð hámarki um miðja síðustu öld og farið smátt og smátt minnkandi síðan. Ég finn sambandið ekki í neinum orðabókum en í mínu máli merkir það 'um það bil', 'nokkurn veginn', 'næstum því' eða eitthvað slíkt og það rímar vel við ýmis dæmi á tímarit.is frá því að ég var á máltökuskeiði. Í Símablaðinu 1960 segir: „Svo að segja allir mínir vinir hafa slitið kunningsskap við mig.“ Í Rétti 1960 segir: „Nú eru svo að segja öll þessi störf unnin af föstum starfsmönnum.“ Í Almanaki Hins íslenzka þjóðvinafélags 1960 segir: „Geimgeislar eru […] atómkjarnar, sem berast um geiminn með svo að segja ljóshraða.“

Annað samband sem er svipað bæði að orðalagi og merkingu er ef svo má/mætti segja sem er ekki heldur í orðabókum. Um það eru meira en nítján þúsund dæmi á tímarit.is. Það samband er ekki heldur í orðabókum en merkir í mínu máli 'ef hægt er að orða þetta þannig', 'svo að notuð sé líking' eða eitthvað slíkt – er oft notað þegar ekki á að skilja það sem sagt er alveg bókstaflega. Þetta sést í dæmum eins og „Húsmóðirin er ef svo má segja mið og möndull viðskiptalífs samtíðarinnar“ í Samvinnunni 1960, „Hér verður að slá striki yfir fortíðina, gefa mönnum upp sakir, ef svo má segja“ í Morgunblaðinu 1960, og „Maðurinn er spendýr, og það þeirra, sem við viljum gjarnan telja æðst, efst á blaðinu, ef svo má segja“ í Úrvali 1960.

Í mínum huga er skýr merkingarmunur á þessum tveimur samböndum og mér finnst hann koma vel fram í þessum dæmum. Sambandið ef svo má segja er ekki hægt að skilja sem 'um það bil', 'nokkurn veginn' eða 'næstum því' í framangreindum dæmum. Hins vegar er oft hægt að skilja svo að segja á báða vegu og þannig hefur það verið lengi. Elsta dæmi um sambandið er í Skírni 1832: „þann 25ta ágúst höfðu Rússar, svo að segja, algjörliga sezt um borgina.“ Í Skírni 1832 segir: „sálarinnar fjör bar líkamans krapta ofrliða og hann dó svo að segja með pennann í hendinni.“ Bæði þessi dæmi finnst mér hugsanlegt að skilja á báða vegu þótt mér finnist merking á við 'þetta ber ekki að skilja bókstaflega' vera nærtækari í seinna dæminu en því fyrra.

En í seinni tíð finnst mér ég stundum heyra eða sjá dæmi sem ég gæti ekki sagt. Á Bland.is 2010 segir: „En það stoppar mig ekki í að vilja vera kurteisari í dag en í gær, svo að segja.“ Á mbl.is 2016 segir: „Hún er ekki með umboðsmann og því ein á báti, svo að segja.“ Á DV 2019 segir: „Með snjallkerfinu geturðu verið komin heim til þín á 5 sekúndum, svo að segja.“ Á Vísi 2020 segir: „Bólusetningin fer fram í tveimur umferðum, svo að segja.“ Á mbl.is 2020 segir: „Símar sem eru með appið virkt skiptast á lyklum, svo að segja.“ Í þessum dæmum er ekki hægt að skilja svo að segja sem 'um það bil', 'nokkurn veginn' eða 'næstum því', heldur hlýtur það að merkja 'ef hægt er að orða það þannig', 'svo að notuð sé líking' eða eitthvað slíkt.

Það er svo sem hugsanlegt að slík notkun sambandsins hafi tíðkast alla tíð – oft kæmu báðar merkingarnar til greina og erfitt að átta sig á því hvernig ætlast er til að sambandið sé skilið, og einmitt þess vegna er vel skiljanlegt að merking þess breytist. Það er samt rétt að athuga að í ensku er til sambandið so to speak sem er 'used to explain that what you are saying is not to be understood exactly as stated' eða 'notað til að útskýra að það sem þú ert að segja beri ekki að skilja alveg bókstaflega'. Ég hef grun um að merking sambandsins í ensku sé farin að hafa áhrif á notkun svo að segja í íslensku. Vegna líkinda sambandanna er það ekki óeðlilegt eins og áður segir, en mér fyndist samt æskilegt að halda þeim aðgreindum, hvoru með sína merkingu.

Að tana

Í innleggi hér fyrr í dag var sagt „Í mínu ungdæmi talaði maður um að fara í sólbað en í dag tanar fólk“ – og spurt hvaða skoðanir fólk hefði á sögninni tana sem hefur verið töluvert notuð á síðustu árum. Elstu dæmi um hana á samfélagsmiðlum eru frá 2005 en hún fer smátt og smátt að sjást í öðrum textum á næstu árum eftir það. Á fótbolti.net 2008 segir: „Eftir æfingu fór liðið úr næstum hverri spjör og tanaði grimmt fyrir leikinn á morgun.“ Á DV 2012 segir: „Þar er merkilega sólríkt allan ársins hring og auðvelt að tana sig í tætlur.“ Á mbl.is 2015 segir: „Á hlýjum sólardögum má svo fá sér sundsprett í lauginni og tana smá.“ Á Vísi 2021 segir: „Hugmyndin kom upp þegar ég var með sameiginlegum vinkonum okkar úti að tana.“

Í umræðum um þetta kom fram að sumum finnst sögnin tana óþörf – á íslensku sé talað um að liggja í sólbaði eða sóla sig. Sögnin er vissulega tökuorð úr ensku, tan, og merkir þar 'to become brown, or to make someone's body or skin, etc. brown, from being in the sun', þ.e. 'að verða brúnt, eða gera líkama einhvers eða húð o.s.frv. brúnt af dvöl í sólinni'. Ef sögnin tana merkir það sama í íslensku, eins og hún virðist yfirleitt gera, þá jafngildir hún ekki því að liggja í sólbaði – bæði vegna þess að hægt er að liggja í sólbaði án þess að hafa brúnku að markmiði, og líka vegna þess að hægt er að fá brúnku á annan hátt en liggja í sólinni. Á Hugi.is 2009 segir: „Hvernig helduru eiginlega að fólk hafi tanað áður en ljósabekkir komu til?“

Sögnin tana þjónar því ákveðnu hlutverki sem önnur orð ná ekki yfir. Hún fellur ágætlega að málinu og hefur sömu stofngerð og beygingu og ýmsar aðrar sagnir – ana, bana, flana, mana, spana, stjana, trana, vana o.fl. Hún hefur líka getið af sér lýsingarorðið tanaður sem er mjög algengt – „Massaður og tanaður, eina leiðin til að lifa“ segir í DV 2005; „ef ég vil vera tönuð þá fer ég bara í ljós sko“ segir á Hugi.is 2006. Nafnorðið tan er einnig algengt – „Ég nennti ekki alveg að fara í útskriftarferð sem er nánast einungis til að skemmta sér og næla sér í tan“ segir á Vísi 2008; „Guli búningurinn er fínn við tanið“ segir á fótbolti.net 2015; „Hér áður fyrr var ég hrædd um að missa af taninu ef ég væri með sólarvörn“ segir á mbl.is 2019.

Vitanlega er það rétt sem nefnt var í umræðum að sögnin tana er ekki gagnsæ, í þeim skilningi að við áttum okkur á merkingu hennar út frá skyldum orðum þótt við þekkjum hana ekki. Sögnin á sér ekki frændgarð í íslensku þótt hún sé byrjuð að byggja hann upp í orðunum tanaður og tan. En „gagnsæi“ íslenskunnar er goðsögn eins og Þórarinn Eldjárn skrifaði í Morgunblaðinu 2015: „Ekkert orð er gagnsætt nema það sé samsett úr öðrum orðum eða leitt af öðru orði. Ef samsetningarnar eru leystar upp eða frumorðið fundið endum við alltaf á orðum sem eru ekkert frekar gagnsæ í íslensku en í öðrum málum.“ Hann mælti með tökuorðum og sagði: „Hvorugkynsnýyrðið app, fleirtala öpp, er […] mun betra orð en hið „gagnsæja“ smáforrit.“

Vittu til, sjáðu til – og sérðu til

Orðasambandið vittu til var nefnt hér í umræðum um boðháttinn vittu fyrr í vikunni. Þetta samband er hvorki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók Íslenskri orðabók en er hins vegar í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og skýrt 'det vil du nok faa at se (om n-t fremtidigt), þ.e. 'það áttu örugglega eftir að sjá (um eitthvað í framtíðinni)'. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Iðunni 1885: „„En vittu til“ sagði jeg við samferðamann minn, í gamni, „við eigum eptir eitthvað illt ólifað áður kvöld er komið“.“ Í Þjóðólfi 1900 segir: „Vittu til! Hver aldur á sín börn og sín einkenni.“ Í Bjarka 1902 segir: „Og vittu til, þín bíða bein / og bitar fram í skauti tíða.“ Í Nýjum kvöldvökum 1913 segir: „En vittu til, faðir minn, þetta stendur ekki lengi.“

Í þessum dæmum kemur fram það einkenni sambandsins að það er oftast í lausum setningarlegum tengslum við það sem fer á eftir eða undan – þótt vittu til væri sleppt stæði eftir fullkomin setning. Stundum tekur sambandið þó með sér aukasetningu, ýmis spurnarsetningu eða skýringarsetningu. Í Lögbergi 1891 segir: „Vittu til, hvort jeg geri það ekki.“ Í Þjóðviljanum 1971 segir: „Nú erum við búnir að því, og vittu til að ekki líður á löngu þar til síldin kemur hingað aftur.“ Þessi dæmi eru ekki mörg og stór hluti þeirra frá þessari öld, ekki síst úr stjörnuspám, t.d. „Kynntu hugmynd með öllum þeim ákafa sem þú átt til og vittu til að hún nær fótfestu“ og „Vittu til, hvort þú kemur ekki tíu sinnum meiru í verk“ í Morgunblaðinu 2006.

Annað samband ekki ósvipað er sjáðu til. Sambandið sjá til er skýrt 'bíða og láta málin þróast' í Íslenskri nútímamálsorðabók með dæminu sjáum til hvort gatan verður ekki lagfærð þar sem það tekur með sér spurnarsetningu. Slík dæmi koma vissulega fyrir í boðhætti annarrar persónu eintölu – „Sjáðu til hvort ég geri það ekki“ segir í Fróða 1911. Þetta er þó fremur sjaldgæft –langoftast er sambandið í lausum setningarlegum tengslum við umhverfi sitt, eins og vittu til, og þá er merkingin fremur 'sko!' sem nefnd er í Íslenskri orðabók. Elsta dæmi um það er í „Ævintír af Eggérti Glóa“ í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „Sjáðu til! óréttindin eru vön að hefna sín.“ Í Íslandi 1897 segir: „Sjáðu til, hjerna er fuglinn“ og „Sjáðu til, nú líður yfir hana aftur“.

Í dæmunum hér að framan standa vittu til og sjáðu til alltaf fremst í setningu – eða í raun oftast framan við setningu vegna þess að þau eru ekki í setningartengslum við það sem á eftir kemur nema þegar þau taka með sér spurnar- eða skýringarsetningu. En þessi sambönd geta einnig staðið aftast í – eða aftan við – setningu. Í Bjarma 1926 segir: „En Björn fyrirgefur mjer það aldrei, og hann hefnir sín, vittu til.“ Í Tímanum 1976 segir: „Þetta breytist hér eftir, vittu til.“ Í Öldinni 1893 segir: „En þarna er nafn mitt, sjáðu til.“ Í Freyju 1899 segir: „Nei, sjáðu þarna, þarna nokkuð fjær, jú, þarna læðist eitthvað, sjáðu til.“ Samböndin geta líka staðið alveg sér: „Vittu til!“ segir í Þjóðólfi 1900, „Sjáðu til!“ segir í Lögbergi 1912.

En einnig er til sambandið sérðu til. Myndin sérðu er vitanlega til sem spurnarmynd af sjá, sérðu þetta?, en ekki verður betur séð en hún sé notuð sem boðháttur í sambandinu sérðu til sem er notað alveg á sama hátt og sjáðu til. Þetta samband kemur einnig fyrir ýmist á undan eða eftir setningu og var lengi einkum í vesturíslensku blöðunum. Í Lögbergi 1912 segir: „Við reynum til að halda bók yfir gerðir okkar, sérðu til.“ Í Heimskringlu 1924 segir: „Sérðu til, nú fer hann – á leikhúsið.“ Í Bændablaðinu 2003 segir: „„Jú, sérðu til,“ hvíslaði Japaninn, „ég ætla nefnilega að verða fljótari að hlaupa en þú“.“ Í Morgunblaðinu 2007 segir: „Þið sjáið það á könnunum að stór hluti af íhaldsmönnum vill endilega fara með Steingrími, sérðu til.“

Málfarssmánun – málfarsskömm

Nafnorðið smánun er gamalt í málinu – elsta dæmi um það er í Baldri 1868: „hefur hann […] orðið að sæta smánun og ofsóknum skrílsins og óþjóðalýðs hins argasta.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'það að smána e-n, sýna e-m óvirðingu' en sögnin smána er aftur skýrð 'sýna (e-m) óvirðingu, valda (e-m) skömm, auðmýkja (e-n)'. Orðið var sárasjaldgæft þar til það var notað í breytingu á almennum hegningarlögum 1973: „Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða sæti sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum.“ Nú er sögnin smána notuð í samsvarandi lagagrein og nokkrum öðrum greinum hegningarlaga.

Eftir 1990 jókst tíðni orðsins talsvert en þó einkum eftir aldamót – í Risamálheildinni eru tæp þúsund dæmi um það. „Nú hefur smánun gengið í endurnýjun lífdaga og allir og amma þeirra eru smánaðir“ er fyrirsögn greinar í DV 2019 og á síðustu tíu árum hafa orðið til ýmsar samsetningar sem enda á -smánun. Með smánun er þá átt við það þegar gert er lítið úr fólki og það niðurlægt vegna einhverra tiltekinna eiginleika í útliti, skapgerð, hegðun o.fl. Algengustu samsetningarnar hafa verið fitusmánun, líkamssmánun, druslusmánun og þolendasmánun en þetta breytist ört. Samsvarandi orð með seinni liðinn -skömm eða -skömmun eru einnig stundum notuð í sömu merkingu þótt þau snúi oft frekar að upplifun þeirra sem verða fyrir smánun.

Auðvitað er ekki nýtt að fólk sé smánað fyrir útlit, skapgerð, hegðun og ýmislegt annað – öðru nær. Það er bara nýlega farið að tala um þetta og með umtali skapast þörf fyrir orð. En inn í þessa umræðu vantar eina tegund smánunar sem hefur lengi verið mikið stunduð og í hávegum höfð á Íslandi – að smána fólk fyrir það málfar sem það hefur alist upp við og því er eiginlegt. Þetta kemur sérlega skýrt fram í þeim orðum sem höfð eru um tiltekin frávik frá því sem talið er „rétt“ mál. Ég hef áður skrifað um nafnorðið þágufallssýki og lýsingarorðið þágufallssjúkur sem sjúkdómsvæða léttvæga breytingu á frumlagsfalli fáeinna sagna – hún er kölluð „alvarlegur kvilli“ sem „smitar ört“ og tengd við „landfarsótt“, „limafallssýki“, „niðurfallssýki“ o.fl.

Annað orð er flámæli. Fyrri hluti þess orðs vísar væntanlega til merkingarinnar 'sem víkkar út, gapandi' eins og lýsingarorðið flár er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók (sú merking merkt „gamalt“) – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er flámæli skýrt 'Ord, der udtales med for meget sænket Tunge'. En ekki fer hjá því að hugrenningatengsl skapist við aðra merkingu orðsins flár, 'svikull, undirförull' sem og sambandið mæla flátt. Þó er flámæli eitt skásta orðið um þetta framburðareinkenni – önnur eru t.d. „flámælska, flámælgi, hljóðvilla, hljóðsýki“ segir Björn Guðfinnsson í Mállýzkum I frá 1946, og í Hljóðfræði frá 1975 bætir Árni Böðvarsson við „málflái, flágella, Suðurnesjamál, Nesjamál […] og „að tala upp á e-ið““.

Sú smánun sem flest þessi orð fela í sér fer auðvitað ekki á milli mála. Þriðja orðið sem mætti nefna er eignarfallsflótti sem Málfarsbankinn skýrir svo: „Sú tilhneiging að nota þágufall (eða nefnifall) í stað eignarfalls nefnist eignarfallsflótti.“ Þetta er svo sem frekar saklaust miðað við hin orðin, en í þessu samhengi liggur þó beint við að skilja orðið flótti þannig að lagt sé á flótta undan vandanum í stað þess að takast á við hann. Orðin þágufallssýki, flámæli og eignarfallsflótti eru sérlega skýr dæmi um það hvernig málfar fólks hefur verið notað til að gera lítið úr því og niðurlægja það – smána það. Það mætti kalla þetta málfarssmánun sem bæði meðvitað og ómeðvitað hefur verið beitt til að láta fólk upplifa málfarsskömm. Hættum því.