Category: Málfar

Hinsti

Lýsingarorðið hinsti / hinstur er um margt sérkennilegt og miklar takmarkanir eru á notkun þess – beygingarlegar, setningafræðilegar og merkingarlegar. „Eins og mörg önnur lýsingarorð, sem tákna stefnu í tíma eða rúmi, er það ekki haft í frumstigi“ segir Gísli Jónsson í Morgunblaðinu 1995. Sum orð þessarar merkingar eru til bæði í miðstigi og efsta stigi, eins og efri efstur, neðri neðstur og síðari síðastur; sum þeirra eru aðeins til í miðstigi, svo sem hægri og vinstri; og enn önnur eru aðeins til í efsta stigi, svo sem næstur og fjærstur. Sama gildir um hinstur – miðstigið hindri er vissulega gefið upp í orðabókum fornmáls en kemur mjög sjaldan fyrir þar og aldrei í nútímamáli. Í Íslenskri orðabók er það gefið upp en sagt „fornt/úrelt“.

Orðið kemur nær eingöngu fyrir hliðstætt, í veikri beygingu – hinsti dagur, hinsta för, hinsta sinn – enda er hinsti flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók og vísað á hinstur. Orðið er nær aldrei haft í stöðu sagnfyllingar – við segjum varla *hann var hinstur, *hún var hinst, *það var hinst þótt við getum sagt hann var síðastur, hún var síðust, það var síðast. Dæmi um sterku beyginguna á tímarit.is eru sárafá og flest úr skáldskap, krossgátum eða beinlínis umfjöllun um orðið hinstur. Aðeins í undantekningartilvikum eru þau úr samfelldu máli, eins og „En einhver stundin verður hinst“ í Morgunblaðinu 2008. Aftur á móti er slæðingur af dæmum um atviksorðið hinst sem ekki er í orðabókum nema Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924.

Í Íslenskri orðabók er hinstur skýrt 'aftastur, síðastur', í Íslenskri samheitaorðabók er síðastur gefið upp sem samheiti við hinstur, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'síðastur'. Notkunardæmin gefa samt vísbendingu um að þessi merkingarlýsing sé ekki nógu nákvæm. Í Íslenskri orðabók er dæmið hinsta kveðja, í Íslenskri samheitaorðabók er það til hinstu stundar, og í Íslenskri orðabók eru dæmin hann barðist hetjulega til hinstu stundar, hennar hinsta ósk var að vera jörðuð við hlið manns síns og þau kvöddust í hinsta sinn á brautarpallinum. Það er varla tilviljun sem ræður þessu vali notkunardæma – þau benda eindregið til þess að hinsti merki ekki bara 'síðasti', heldur felist í orðinu einhvers konar endanleiki sem oft tengist dauða.

Lausleg athugun á textum í Risamálheildinni staðfestir þetta. Meira en ¾ af dæmum um hinsti er úr minningargreinum Morgunblaðsins og megnið af því sem eftir stendur er af svipuðum toga. Á eftir hinsti koma langoftast nafnorð eins og sinn, kveðja, stund, hvíla, dagur, för, ferð, ósk, svefn, vilji, kall o.s.frv. sem vísa eindregið til andláts. Vissulega eru dæmi um annað – „Síðustu Debenhams verslanirnar lokuðu í hinsta skipti í gær, laugardag“ segir t.d. í Viðskiptablaðinu 2021, „Geimskutlan Discovery tók á loft í hinsta skipti í dag“ segir í Morgunblaðinu 2012, o.fl. En fyrirsögn á mbl.is í gær, „Hinsta heimsókn Guðna innanlands í embætti“ var samt í ósamræmi við málhefð þótt ekki sé hægt að segja að hún sé beinlínis röng.

Seiðin smoltuðust

Á vefmiðlum var í dag vitnað í frétt um „Strok laxfiska úr landeldisstöð“ í Öxarfirði á vef Matvælastofnunar en þar segir: „Seiðin voru u.þ.b. 70-80 gr. og ósmoltuð. Ekki er hægt að útiloka að seiðin hafi smoltast í settjörn og komist út í sjó.“ Lýsingarorðið (ó)smoltaður og sögnina smolta(st) er ekki að finna í neinum orðabókum í merkingu sem þarna geti átt við og ekki furða að þau komi ýmsum ókunnuglega fyrir sjónir enda var spurt út í merkingu smoltast í tveimur málfarshópum í dag. Við athugun reynist sögnin komin úr ensku en nafnorðið smolt (einnig til sem sögn) er skýrt 'a young salmon at the stage when it migrates from fresh water to the sea' eða 'ungur lax á því stigi sem hann færir sig úr ferskvatni til sjávar'.

Orðið er ekki alveg nýtt í íslensku – elsta dæmi sem ég finn um sögnina er í Frey 1987: „Á tímabilinu maí–júlí „smolta“ seiðin og eru þá tilbúin að fara í sjó.“ Miðmyndin smoltast kemur einnig fyrir – í Morgunblaðinu 1989 segir: „Þegar laxaseiðið hefur náð vissri stærð […] tekur það á sig sjógöngubúning, „smoltast“. Af sögninni er leitt nafnorðið smoltun – „Þegar laxaseiðin eru orðin þyngri en 20–25 g. ganga þau að vori til í gegnum líffræðilega þróun sem nefnist „smoltun“ segir í Frey 1984. Nafnorðið smolt kemur einnig fyrir – í viðtali við Skúla Pálsson á Laxalóni í Helgarpóstinum 1985 segir: „„Smolt“, það er það sem við köllum þau, þegar seiðin fara að taka mat.“ Lýsingarorðið smoltaður kemur einnig fyrir.

Í Morgunblaðinu 1997 segir: „þegar vissri stærð er náð eru seiðin sett í sleppitjarnirnar og þar dvelja þau þar til ákveðnum þroska er náð. Þau „smolta“ eins og sagt er á afleitri íslensku, en ekkert orð í ylhýra málinu er til yfir þetta ástand á seiðinu.“ Það er samt ekki alveg rétt – í Morgunblaðinu 1987 segir: „laxaseiði með „fingraförum“, áður en þau taka að smolta eða silfrast.“ Sögnin silfrast hefur sem sé eitthvað verið notuð í þessari merkingu – í myndatexta í Veiðimanninum 1975 segir: „Lengst til hægri […] eru stífalin eins árs seiði, sem ekki hafa silfrast.“ En í Morgunblaðinu 1990 er rökstutt að þetta sé óheppilegt orð og sagt: „Hentugra myndi að taka upp hinar alþjóðlegu orðmyndanir „smoltun“, að „smolta“ og að „afsmolta“.“

Ég er ekki laxveiðimaður og þekki ekki orðafar á því sviði, en ef marka má texta á tímarit.is og í Risamálheildinni eru sögnin smolta(st), nafnorðin smolt og smoltun og lýsingarorðið smoltaður fremur notuð á seinustu árum, þótt öll séu orðin mjög sjaldgæf í þessum textum, en silfra(st), silfrun og silfraður virðast vera að hverfa. Nafnorðið smolt er reyndar til í málinu fyrir og merkir 'bráðin fita á yfirborði vökva, einkum fuglafeiti' eða 'flot' samkvæmt Íslenskri orðabók. Sögnina smolta er hins vegar ekki að finna í orðabókum en í athugasemd við áðurnefnda fyrirspurn um smoltast í hópnum Skemmtileg íslensk orð var sagt: „ég þekki, og nota, sögnina að smolta, sem þýðir að fleyta froðu ofan af þegar maður sýður kjötsúpu.“

En þessi merking orðanna er sárasjaldgæf í nútímamáli og stendur ekki í vegi fyrir að þau séu tekin upp í annarri merkingu. Þau falla ágætlega að málinu, enda til í því fyrir eins og áður segir, og ástæðulaust að amast við hinni nýju merkingu þeirra þótt hún sé tekin að láni. Á hinn bóginn má velta fyrir sér ábyrgð fjölmiðla í þessu sambandi. Þegar frétt um málið var birt á vef Ríkisútvarpsins var sagt til skýringar: „Seiði teljast smoltuð þegar þau hafa þroskast nóg til að lifa í sjó“, en í fréttum Vísis og mbl.is í dag var sögnin smoltast tekin skýringalaust upp úr frétt MAST. Vegna þess hversu sjaldgæf sögnin er leyfi ég mér að efast um að margir lesendur hafi skilið hana og það hefði mátt ætlast til að þeir miðlar sem notuðu hana skýrðu hana í leiðinni.

Að vera búinn

Sambandið vera búinn að í merkingunni 'hafa lokið einhverju' er mjög algengt í nútímamáli – ég er búinn að lesa bókina, ég er búinn að slá garðinn o.s.frv. Þetta samband er líka til í fornu máli en merkir þar 'reiðubúinn, tilbúinn'. Það er stundum augljóst eins og í setningunni „Þú hefir og enn fyrr tekið mig með valdi og varst þá búinn að veita mér bana“ í Hallfreðar sögu – þarna er óhugsandi af merkingarlegum ástæðum að búinn sé í nútímamerkingu. En í setningum eins og „En er Haraldur konungur var búinn að stíga á hest sinn þá bað hann kalla til sína Áka búanda“ í Heimskringlu er þetta ekki augljóst – þarna gæti nútímalesandi skilið „búinn að stíga á hest sinn“ sem 'kominn á bak' en rétta merkingin er 'tilbúinn að stíga á bak'.

Ef við vitum að um er að ræða texta frá 16. öld eða fyrr leikur þó í raun enginn vafi á því að um merkinguna 'reiðubúinn, tilbúinn' er að ræða. Nútímamerkingin kom fyrst fram í lok 16. aldar en eins og venja er um málbreytingar tók það hana töluverðan tíma að ganga yfir og þess vegna getur stundum leikið vafi á því hvor merkingin á við í 17. aldar textum, en frá og með 18. öld er væntanlega óhætt að gera ráð fyrir nútímamerkingunni. Um þetta hefur töluvert verið skrifað – m.a. gerði Mörður Árnason þessari breytingu skil í BA-ritgerð sinni, „Búinn er nú að stríða“ en heiti ritgerðarinnar er tilvitnun í Passíusálma Hallgríms Péturssonar þar sem nýja merkingin kemur fram: „Fyrir blóð lambsins blíða / búinn er nú að stríða / og sælan sigur vann.“

Samspilið milli sambandanna vera búinn að (gera eitthvað) og hafa (gert eitthvað) er mjög margbrotið – stundum er hægt að nota bæði samböndin í u.þ.b. sömu merkingu, stundum er hægt að nota þau bæði en með einhverjum merkingarmun, og stundum gengur bara annað sambandið. Við þetta bætist að tilfinning málnotenda fyrir þessum samböndum, merkingu þeirra og notkun, virðist vera talsvert mismunandi og gæti verið að breytast. Þótt sambandið sé fjögur hundruð ára gamalt í málinu og hafi lengi verið mjög algengt er iðulega er hnýtt í það og það talið ofnotað og fremur tilheyra óformlegu málsniði. Um þetta hefur heilmikið verið skrifað og ekki stendur til að reyna að gera þessu máli skil hér – aðeins nefna örfá atriði.

Jón G. Friðjónsson segirvera búinn að sé „jafnan notað með lifandi frumlagi (ekki hlutum)“. Það má þó finna fjölmörg dæmi frá ýmsum tímum um að frumlag sé ekki lifandi vera. Í Íslendingi 1862 segir: „háskóli vor er búinn að standa í hálfa öld.“ Í Íslendingi 1875 segir: „Hann er nú einn, sem vjer álítum að seint muni lækna kindur sínar fyrri en stjórnin er búinn að lækna hann sjálfan.“ Í Norðanfara 1878 segir: „vaninn er búinn að rígbinda og blinda skynsemi og samvizku manna.“ Jón segir einnig: „Ýmsar hömlur eru á notkun þess, t.d. munu fæstir geta notað það með sögnunum sofna, vakna, deyja, lifna við og mörgum fleiri.“ Þetta er sjálfsagt misjafnt milli málnotenda, en gömul dæmi má þó finna um búinn að sofna og búinn að deyja.

Mestöll skrif um vera búinn fjalla um vera búinn að (gera eitthvað), sem er vissulega elsta sambandið með vera búinn, en nokkur önnur hafa smátt og smátt orðið til. Sambönd þar sem forsetningarliður með kemur í stað nafnháttar virðast koma til um miðja 19. öld – elsta dæmi sem ég finn er í Þjóðólfi 1852: „Þegar spásagnarmaðurinn var búinn að því, heimtar hann peninga af bónda fyrir.“ Fallorð forsetningarinnar er alltaf fornafn í þessu sambandi – búinn að því, búinn að þessu, búinn að öllu, búinn að einhverju. Þótt komi á eftir búinn bæði í búinn að lesa og búinn að þessu er það nafnháttarmerki í fyrra tilvikinu, forsetning í því seinna. Jón G. Friðjónsson telur líklegast að þágufallið á fornafninu sé tilkomið fyrir áhrif frá vera að því.

En á eftir búinn getur einnig komið forsetningin með og engar hömlur eru á þeim orðum sem hún tekur með sér. Slík sambönd eru a.m.k. síðan á fyrri hluta 19. aldar – „var hann búinn með hana seinast í ágústó“ segir í Skírni 1833; „Aptur borgfirzka vinnumanninum verðum við að svara, þegar hann er búinn með brjefið sitt“ segir í Fjölni 1836. Einnig er til sambandið vera búinn á því í merkingunni 'vera örmagna, uppgefinn' og vera (alveg) búinn í sömu merkingu. Auk þess er búinn oft notað án þess að nokkuð komi á eftir þegar ljóst er af samhengi hvað það er sem er búið. Allt eru þetta atriði sem eru bundin við búinn en eiga ekki við sambönd með hafa þótt bæði vera búinn að (gera eitthvað) og hafa (gert eitthvað) gangi oft í sama umhverfi,

Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2006 segist Jón G. Friðjónsson hafa „veitt því athygli að notkun orðasambandsins vera búinn að + nh. hefur aukist talsvert á kostnað hafa + lh.þt.“ og í pistli í Málfarsbankanum segir Jón: „Mikill (of)vöxtur hefur færst í þetta nýmæli í nútímamáli.“ Það má vera rétt að notkun sambandsins hafi aukist á undanförnum áratugum og notkunarsvið þess víkkað. Ég fæ þó ekki betur séð en á seinni hluta 19. aldar hafi það verið mikið notað og ekki ólíkt því sem er í nútímamáli – jafnvel frekar óformlegu. Ég hef grun um, án þess að geta fært sönnur á það, að sambandið hafi orðið fyrir barðinu á einstrengingslegri málvöndun 20. aldarinnar sem hafi komið á það hálfgerðu óorði – en þetta þarf að skoða nánar.

Flokkshestar og flokksgæðingar

Orðið flokkshestur er ekki í orðabókum þótt það sé orðið aldargamalt í málinu. Elsta dæmi um það er í Heimskringlu 1927: „gömlu flokkshestunum liggur aftur á móti við fælni, ef þeir sjá einhvern, sem vantar flokksmerkið“. En síðan líður hátt í hálf öld uns það sést næst, í Tímanum 1971: „Í bókum hans eru skúrkarnir frjálslyndir menntamenn, og hetjurnar góðir og íhaldssamir flokkshestar.“ Í Alþýðublaðinu 1973 segir: „í augum flokkanna er þing Sameinuðu þjóðanna einskonar náttúrulækningahæli fyrir útjaskaða flokkshesta.“ Í Alþýðublaðinu 1976 segir: „Þær eru líka skrifaðar af „venjulegu“ fólki og um daglegt líf, en ekki uppsuða misviturra leigupenna lundleiðra flokkshesta.“ Upp úr þessu verður orðið nokkuð algengt.

En hvað merkir flokkshestur? Í Þjóðviljanum 1977 segir: „Ég verð að játa að ég hef ekki verið neinn flokkshestur í starfi en hef þó borgað gíróseðla samviskusamlega.“ Í minningargrein um mann sem vann mikið fyrir flokkinn sinn í Alþýðublaðinu 1985 segir: „Einatt er talað óvirðulega um slíka menn og þeim valdar nafngiftir eins og „flokkshestar“ eða „fótgönguliðar“. Í Bæjarins besta 1997 segir: „Þetta hlutverk mun vera velþekkt hjá hinum svokölluðu flokkshestum sem vaða eld og eimyrju fyrir flokkinn sinn hversu annarlega stefnu sem hann kann að reka.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Ég hef alltaf verið pólitískur en aldrei verið flokkshestur. Ég leyfi mér að vera gagnrýninn og greinandi á þann hátt sem mér sýnist sannast og best.“

Orðið virðist því helst notað um fólk sem styður flokkinn sinn gagnrýnislaust gegnum þykkt og þunnt, vinnur mikið fyrir hann og styrkir hann á ýmsan hátt. Oft fylgir lýsingarorðið gamall – í Vísi 1978 segir: „Þeim hefur verið ýtt til hliðar að kosningum loknum af gömlu flokkshestunum.“ Yfirleitt vísar gamall þá fremur til langrar veru í flokknum og íhaldssemi og sterkrar stöðu sem af henni leiðir fremur en til aldurs þeirra sem um er rætt, enda einnig til ungir flokkshestar – „Alþýðuflokks- og alþýðubandalagsmenn kvarta sáran undan því hve lítið er um unga „flokkshesta“ innan þeirra raða“ segir í Luxus 1985 og þar er væntanlega átt við fólk sem er fúst til að fórna sér fyrir flokkinn og leggja á sig vinnu fyrir hann.

Annað skylt orð er flokksgæðingur sem skýrt er 'valdamikill maður innan stjórnmálaflokks' í Íslenskri nútímamálsorðabók en orðið vísar þó ekki síst til þeirra sem flokkurinn hampar og hyglar á ýmsan hátt. Þetta orð er bæði eldra og mun algengara en flokkshestur – elsta dæmið er í Baldri 1909: „eignum þjóðarinnar, sem þeir eru kærðir um að hafa selt í hendur auðfjelaga og ýmsra flokksgæðinga.“ Í Lögbergi 1915 segir: „óráðvandir flokksgæðingar draga dollarana í miljóna tali úr ríkissjóði.“ Í Eimreiðinni 1916 segir: „eða til að borga skuldir flokkanna frá síðustu kosninga-erjunum, og skuldir flokksgæðinganna.“ Í Skildi 1924 segir: „það er svo handhægt að hafa þessa verslun til yfirráða, ef búa þarf til stöðu handa flokksgæðingi.“

Oftast virðist vera nokkur merkingarmunur á flokkshesti og flokksgæðingi en stundum eru orðin þó notuð í sömu merkingu. Í Morgunblaðinu 2005 segir t.d. um nýjan leiðtoga Kína: „Svarið virðist vera að hinn nýi leiðtogi sé vel taminn flokkshestur […] Flest benti til þess að hann væri fyrst og fremst þægur flokksgæðingur.“ Trúlegt er að orðið flokkshestur sé myndað með hliðsjón af flokksgæðingur sem er eldra eins og fyrr segir – orðið gæðingur er skýrt bæði 'maður í sérstakri náð hjá valdamönnum' og 'mjög góður reiðhestur' í Íslenskri nútímamálsorðabók. En önnur fyrirmynd gæti verið vinnuhestur sem er skýrt 'sá eða sú sem er mjög duglegur við vinnu' – það samræmist vel hlutverki flokkshestanna.

Heldur betur algengt orðasamband

Orðasambandið heldur betur í merkingunni 'aldeilis, svo sannarlega' er ekki nýtt í málinu. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Vísi 1915: „á laugardagskveldið var ætlaði eg […] á verslunarmannaballið á »Hótel Reykjavík«, og var heldur betur búinn að dubba mig upp í kjól og glansleðursstígvél.“ Í sama blaði sama ár segir: „Eg hefi þá heldur betur ástæðu að muna eftir yður.“ Í Höfuðstaðnum 1916 segir: „Þegar pilturinn fór, var hann trúlofaður stúlku hér, sem honum þótti heldur betur vænt um.“ Í Eimreiðinni 1920 segir: „Tvö glorhungruð bjarndýr ráðast þá alt í einu á þá, sem á ísnum eru, og vandast þá málið heldur betur.“ Í Ljósberanum 1924 segir: „Ætluðum við nú heldur betur að koma að þeim óvörum, sem í skóginum bjuggu.“

Sambandið heldur betur getur tekið með sér neitunina ekki og merkir þá 'alls ekki, aldeilis ekki'. Það sýnir að orðin í sambandinu hafa í raun slitið tengslin við uppruna sinn og heldur betur er farið að haga sér sem ein heild, ígildi atviksorðs. Þessi notkun fer fyrst að sjást upp úr 1970 þegar dæmum um sambandið snarfjölgar. Í Alþýðublaðinu 1972 segir: „Þegar í ljós kom strax í fyrstu forkosningunum, að svo var heldur betur ekki, varð Muskie í fyrstu ráðvilltur.“ Í Vísi 1973 segir: „Svo er nú heldur betur ekki.“ Í Dagblaðinu 1977 segir: „Hinir leikmennirnir níu vildu heldur betur ekki hlíta þessum úrskurði dómarans.“ Í Tímanum 1977 segir: „landsliðsmenn okkar voru heldur betur ekki á þeim buxunum að gefast upp.“

Sambandið heldur betur er mjög oft notað sem ákveðið jákvætt svar við spurningu í merkingunni 'svo sannarlega'. Sú notkun er ekki ný – elsta dæmi sem ég rakst á um hana er í Lögbergi 1941: „Þú hefir sjálfsagt komið til Rocky Mountains (Klettafjallanna)?“ „Já, heldur betur.“ Þarna er heldur betur notað til að hnykkja á -inu en fljótlega var farið að nota það eitt og sér, án – í Degi 1947 segir: „Mundum við ekki vera gáfuleg, að hlæja á meðan sulturinn syrfi að?“ „Heldur betur.“ Á seinustu árum hefur orðið sprenging í þessari notkun sambandsins, en jafnframt er farið að nota það í margvíslegu öðru setningafræðilegu umhverfi, ekki síst í upphafi setninga. Hér eru nokkur dæmi frá síðustu árum um fjölbreytta notkun sambandsins:

„Heldur betur dró annars til tíðinda í þættinum“; „Heldur betur eru þær að toppa á réttum tíma“; „Heldur betur hefði ég viljað sjá meira frá mínum mönnum“; „Heldur betur veit ég það“; „Heldur betur kastaðist í kekki hjá hjónunum í kvöldverðinum“; „Heldur betur er farið að styttast í leikinn“; „Heldur betur að lifna yfir KR-ingum“; „Heldur betur að skemmast“; „Heldur betur kominn tími á nýtt“;  „Heldur betur líkindi með þessum tveim“; „Heldur betur nóg að gerast á Old Trafford“; „Heldur betur óskabyrjun hjá honum í búningi Keflavíkur“; „Heldur betur rassskelling hér á Vodafone vellinum!!“ „Heldur betur ágætis upphitun fyrir skemmtilegt laugardagskvöld“; „Heldur betur góð staða heimamanna þegar gengið er til búningsklefa“.

Í þessum dæmum sem fengin eru úr Risamálheildinni er sambandið yfirleitt í frekar lausum setningafræðilegum tengslum við það sem á eftir kemur – sem getur ýmist verið fullkomin setning með sögn í persónuhætti, nafnháttarsetning eða setningarliður sem ýmist hefst á lýsingarhætti þátíðar, nafnorði eða lýsingarorði. Eins og hér hefur komið fram á þetta samband sér langa sögu í málinu og vitanlega er það góð og gild íslenska. En óneitanlega finnst sumum það ofnotað um þessar mundir og æskilegt væri að huga að meiri tilbreytingu í orðavali – það er til dæmis venjulega hægt að nota aldeilis eða (svo) sannarlega í stað heldur betur en tíðni fyrrnefnda orðsins virðist mjög á niðurleið og þeirri þróun mætti vel snúa við.

Segin saga

Hér var nýlega spurt um orðið segin sem kemur eingöngu fyrir í sambandinu það er segin saga sem er skýrt 'alltaf er þetta svona, þetta bregst ekki' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið er merkingarlega og hljóðfræðilega líkt sögninni segja en er samt engin venjuleg beygingarmynd af þeirri sögn og er greint sem sjálfstætt lýsingarorð, seginn, í orðabókum – reyndar eru bæði seginsaga og segjandssaga/-sögn (sem merkt er úrelt) sjálfstæð flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 en vísað á seginn í báðum tilvikum. Setningarleg staða orðsins bendir helst til að það sé afbrigðilegur lýsingarháttur þátíðar, segin haft fyrir sögð, en merkingin er þó önnur en í það er sögð saga – enda kemur í ljós við nánari athugun að uppruninn er annar.

Í bréfi frá Konráð Gíslasyni til Gríms Thomsen 1890 segir: „Enn ef jeg kallaði segin í segin saga eða segjand í segjandsaga eða segjandi í segjandi saga participium praeteritum [lýsingarhátt þátíðar], þá væri jeg æðisgenginn; […] segin saga er ekki = sögð saga, heldur = segjandi saga (= 'saga, sem er segjandi, af því að hún er sönn').“ Í grein í Stíganda 1944 segir Björn Sigfússon: „Það er segin saga er gamalt orðtak um „sögu“, sem mjög oft hefur gerzt og víða og er á almæli. Fyrst mun þetta hafa verið segjandasaga (< segjandi saga, saga sem alltaf mátti segja eða alltaf var verið að segja). En úr segjand-, sem ýmsum varð torskilið, bjuggu menn til fráskilið lo., seginn, í skyldri merkingu og mega nútíðarmenn vel hafa það orð.“

Í athugasemdum við Orðakver Finns Jónssonar í Tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga 1925 segir Páll Bjarnason: „“Seginsaga”, svo ritað og rakið: segjands = saga = segjandi manns (gömul ef-s mynd). Þótt nú segjand-saga væri til í einu orði eða með bandi, þá er rangt að skrifa seginsaga í einu orði, því það er fram borið í tveimur orðum eins og hver önnur sjálfstæð orð og engar álíkur til, er heimili, að halda því fram að segjands verði segin. Aftur á móti er það algild regla að mynda lýsingarorð ítrekunar merkingar af sögnum, með því að skeyta -inn við nafnháttarstofn, t. a. m. dettinn, sem oft dettur, söngvinn, hygginn, seginn; segin saga merkir því sama sem tíðsögð saga, mál manna = það, sem satt er, því sjaldan lýgur almanna rómur.“

Það er því ljóst að segin er ekki komið af lýsingarhætti þátíðar eins og virst gæti í fljótu bragði, en skiptar skoðanir eru sem sé um upprunann – Konráð, Finnur og Björn telja segin komið af lýsingarhætti nútíðar, segjandi, en Páll telur orðið myndað beint af nafnhættinum með viðskeytinu -in. Lausnina má líklega finna í Ólafs sögu helga þar sem segir: „„Skuluð þér,“ segir hann, „hér vera og sjá þau tíðindi er hér gerast. Er yður þá eigi segjandi saga til, því að þér skuluð frá segja og yrkja um síðan.““ Þetta merkir væntanlega 'það þarf ekki að segja þér söguna' (því að þú ert vitni). En í öðru handriti sögunnar frá því seint á 13. öld stendur segjandssaga í stað segjandi saga og verður því að telja líklegt að fyrrnefnda skýringin sé rétt.

Óljóst er hvenær farið var að nota myndina segin – sjálfstæða eða í sambandinu seginsaga. Elsta dæmið um hana sjálfstæða í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á Odysseifskviðu frá fyrri hluta 19. aldar: „Það er segin saga, þegar hússbændurnir eru ekki uppi yfir þrælunum, þá nenna þeir ekkert handtak að vinna.“ Elsta dæmi um seginsaga á tímarit.is er úr Dagfara 1906 – „er þá seginsaga að nöfn á verkfærum og handtökum eru útlend“. Þótt hún eigi sér líklega rætur í lýsingarhætti nútíðar þýðir það vitanlega ekki að rangt sé frá samtímalegu sjónarmiði að greina hana sem lýsingarorðið seginn eins og orðabækur gera – fjölmörg dæmi eru um að lýsingarhættir, bæði þátíðar og nútíðar, verði að lýsingarorðum.

Það má samt spyrja hvort seginn sé nokkuð til sem sjálfstætt lýsingarorð, þar sem eina mynd þess sem kemur fyrir er segin sem kemur eingöngu fyrir í þessu sambandi. Því væri hugsanlega eðlilegra að líta á seginsaga sem samsett orð, enda er til fjöldi samsettra orða með -saga sem seinni lið, svo sem kjaftasaga, lygasaga, dæmisaga, þjóðsaga o.s.frv. Samsetningin seginsaga er vissulega til eins og áður segir, og í Stafsetningarorðabók Halldórs Halldórssonar (þriðju útgáfu 1982) og Réttritunarorðabók Baldurs Jónssonar frá 1989 er gefinn kostur á þeim rithætti. Gegn þessu mælir þó áherslan – hún er venjulega álíka þung á segin og saga sem bendir til þess að málnotendur skynji þetta sem tvö orð. Höldum okkur bara við lýsingarorðið seginn.

Bankasýslan greiðir söluráðgjöfum fyrir aðkomu sína

Ég hef að mestu leyti forðast að skrifa hér um afturbeygingu – ekki vegna þess að um hana sé ekkert að segja eða reglur um hana séu svo ljósar að þær þurfi ekki að ræða. Þvert á móti – þær reglur eru fjarri því að vera einfaldar og ráðast af samspili beygingarlegra, setningafræðilegra og merkingarlegra þátta, auk þess sem málnotendur hafa oft mismunandi skoðanir á einstökum setningum. Þetta er því sannarlega verðugt umfjöllunarefni en kannski ekki heppilegt fyrir þennan vettvang því að það krefst oft flókinna útskýringa sem geta orðið torskildar öðrum en þeim sem hafa meiri kunnáttu í setningafræði en hægt er að ætlast til af almennum málnotendum. Ég stenst þó ekki mátið að fjalla um setningu í frétt í Heimildinni í gær:

„Bankasýsla ríkisins ætlar ekki að taka ákvörðun um [hvort hún greiði söluráðgjöfum valkvæða þóknun fyrir aðkomu sína að sölu á hlut í Íslandsbanka fyrir rúmum tveimur árum] fyrr en athugun Fjármálaeftirlitsins á þætti þeirra í söluferlinu liggur fyrir.“ Af samhengi er ljóst að afturbeygða eignarfornafnið sína vísar til andlagsins söluráðgjöfum, og sama máli gegnir um persónufornafnið þeirra. Þessi setning var til umræðu í Málvöndunarþættinum þar sem málshefjandi taldi afturbeygingu ranglega notaða í „fyrir aðkomu sína“ – það væri eins og vísað væri til frumlagsins hún þannig að verið væri að ræða um þóknun til Bankasýslunnar sjálfrar en þar sem svo væri ekki ætti að standa þarna „fyrir aðkomu þeirra“ – söluráðgjafanna.

Málið snýst sem sé um það hvort afturbeygingin hljóti að vísa til frumlagsins þarna, eins og vissulega er langalgengast, eða hvort hún geti vísað til andlagsins. Um slíka vísun eru ýmis dæmi að fornu og nýju. Í Grettis sögu segir: „Grettir þakkaði honum fyrir heilræði sín.“ Í Þórarins þætti ofsa segir: „Eyjólfur kvaðst þakka konungi fyrir gjafar sínar og vinmæli.“ Í báðum tilvikum er ljóst að afturbeygingin vísar til andlags, honum í fyrri setningunni en konungi í þeirri seinni – Grettir er ekki að þakka fyrir eigin heilræði og Eyjólfur ekki að þakka fyrir eigin gjafir. Þetta eru alveg hliðstæðar setningar og „hún greiði söluráðgjöfum valkvæða þóknun fyrir aðkomu sína“ – af merkingarlegum ástæðum er ljóst að vísað er til andlags, ekki frumlags.

Í nútímamáli má finna fjölda sambærilegra dæma með sögninni greiða. Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Einnig neituðu hjónin að greiða þeim fyrir vinnu sína.“ Í frétt á vef Ríkisútvarpsins 2012 segir: „Kröfuhafar greiða slitastjórn fyrir störf sín.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Hún hvetur fólk til að styðja við bakið á listamönnum og greiða þeim fyrir störf sín og listaverk.“ Í Bændablaðinu 2021 segir: „Skattgreiðendur eru þegar að greiða bændum fyrir framleiðslu sína.“ Í Fréttablaðinu 2021 segir: „Ríkið greiðir björgunarsveitunum fyrir störf sín við eldgosið í Geldingadölum.“ Í öllum þessum tilvikum er ljóst af merkingu og samhengi að afturbeygingin vísar til andlags – undirstrikaða liðarins í setningunum – en ekki til frumlags.

Það er sem sé ekkert athugavert við að láta afturbeygingu vísa til andlags eins og gert er í áðurnefndri frétt Heimildarinnar. Hitt er rétt að afturbeygingin er þarna valkvæð (sem hún er aldrei þegar vísað er til frumlags) – í stað afturbeygða eignarfornafnsins má eins nota persónufornafn. Það má líka halda því fram að í sumum tilvikum geti verið heppilegra að nota persónufornafn til að forðast misskilning – í setningum eins og „Ákærði kvaðst hafa rétt piltinum dótið sitt“ í héraðsdómi frá 2007 er óljóst hvort ákærði eða pilturinn á dótið. Í umræddri frétt hefur þeirra í næstu setningu líka sömu vísun og sína og það getur verið ruglandi. En það breytir því ekki að setningin í frétt Heimildarinnar er í fullu samræmi við málkerfið.

Kynslóð

Í fornu máli merkir nafnorðið kynslóð yfirleitt 'ætt, ættkvísl'. Í Gylfaginningu segir: „Kona hans hét Frigg Fjörgynsdóttir og af þeirra ætt er sú kynslóð komin er vér köllum ása ættir.“ Í Egils sögu segir: „Frá börnum Þorsteins er komin kynslóð mikil og margt stórmenni.“ Þessi merking er líklega alveg horfin en kom fyrir allt fram á seinni hluta tuttugustu aldar – „Af þessu fólki hefur komið kjarnmikil kynslóð“ segir t.d. í Morgunblaðinu 1969. En merkingin hefur breyst – í Íslenskri orðabók er orðið skýrt annars vegar 'ættliður' og sú merking er gömul, a.m.k. síðan á 16. öld – og hins vegar 'sá hluti samfélagsþegna sem er á líkum aldri'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'hópur manna, dýra eða jurta á svipuðum aldri'.

En „á líkum / svipuðum aldri“ er auðvitað mjög lausleg skilgreining og í nýlegu innleggi hér var lýst þeirri tilfinningu að merking orðsins hefði breyst á undanförnum áratugum, frá því að vísa til u.þ.b. þrjátíu ára niður í tíu ár eða svo. Ég er samt ekki viss um að merkingin hafi breyst og held frekar að breytingin felist í því að merkingin ‚ættliður‘ sem var algeng áður fyrr sé minna notuð en áður – eins og m.a. má ráða af því að hennar er ekki getið í Íslenskri nútímamálsorðabók. Hún kemur t.d. fram í Tímanum 1954: „Hér hafa fjórar kynslóðir ættar minna búið, og börn mín verða fimmta kynslóðin.“ Í Alþýðublaðinu 1935 segir: „En foreldrar mínir, og foreldrar þeirra, og ættfeður mínir um margar kynslóðir, voru bændafólk.“

En oft hefur orðið ekki beinlínis merkinguna 'ættliður' heldur vísar til skiptingar samfélagsins í aldurshópa sem hver spannar dæmigerðan tíma eins ættliðar – u.þ.b. þrjátíu ár. Í Skírni 1911 segir: „Það er talið svo, að ætíð séu þrjár kynslóðir manna uppi í senn: gamalmennin, sem eru að lúka dagsverkinu, eða hafa lokið því; miðaldramennirnir, sem eru önnum kafnir við aðalstörf lífs síns, og æskan, sem er að búa sig til verka.“ Á tuttugustu öld var svo farið að gefa ýmsum aldurshópum sérstök nöfn og kenna þá ýmist við þann tíma þegar hópurinn var að alast upp  og mótast eða við einhverja eiginleika hópsins – talað um aldamótakynslóð, kreppukynslóð, lýðveldiskynslóð, eftirstríðskynslóð, bítlakynslóð, 68-kynslóð, hippakynslóð o.s.frv.

Þarna spannar hver kynslóð mun styttri tíma en þrjátíu ár. Í sumum tilvikum er mjög stutt á milli kynslóða og sama fólkið gæti oft talist til fleiri en einnar, t.d. lýðveldiskynslóðarinnar og eftirstríðskynslóðarinnar, eða 68-kynslóðarinnar og hippakynslóðarinnar. Samt sem áður eru ákveðin atriði talin – með réttu eða röngu – einkenna hverja kynslóð en vitanlega eru þar miklar einfaldanir og alhæfingar. Á seinustu árum hafa bæst við fjölmörg kynslóðaheiti sem skarast meira eða minna – X-kynslóðin, Y-kynslóðin, krúttkynslóðin, þúsaldarkynslóðin, klámkynslóðin, snjallsímakynslóðin, tölvukynslóðin, lýðræðiskynslóðin, gullkynslóðin o.m.fl. Í raun og veru er tímavíddin að miklu leyti horfin úr orðinu kynslóð en vísað til einkenna hópsins þess í stað.

Að krop(p)na úr kulda

Í gær var hér spurt um orðið kropna sem fyrirspyrjandi hafði heyrt þar sem venja er að nota sögnina krókna, í sambandinu krókna úr kulda. Í umræðum var bent á að sögnin kropna kemur fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og er skýrð 'dø af Kulde' – 'deyja úr kulda'. Hún er líka í Íslenskri orðabók en þar skrifuð kroppna og skýrð 'krókna' eða 'kreppast, herpast saman (af kulda)'. Sögnin kemur fyrir í fornu máli í síðarnefndu merkingunni – „Hún var svo armsköpuð að hún var kropnuð öll saman svo að báðir fætur lágu bjúgir við þjóin uppi“ segir t.d. í Heimskringlu. Framburður myndanna kropna og kroppna er nákvæmlega sá sami þannig að eðlilegt er að þær séu notaðar á víxl í handritum.

Gömul dæmi eru einnig til um krop(p)na í merkingunni 'krókna'. Í handriti frá því í lok 15. aldar segir: „En ölmusumenn guðs hungraðir og kalnir kropna fyrir hans dyrum.“ Í Biskupa-annálum Jóns Egilssonar frá fyrri hluta 17. aldar segir: „Þar skammt eptir kom sú skúr um fardaga, að fimmtigi kúa þá kroppnaði í Biskupstúngum.“ Í Vatnsfjarðarannál yngri frá seinni hluta 17. aldar segir: „komst fólkið á land mestan part, en kropnaði þó fjöldi af því, á land kom, sökum þess það var silki klætt einasta.“ Í Ölfusvatnsannál frá miðri 18. öld segir: „Kroppnaði þá víða sauðfé og sumstaðar kálfar“ og „nautpeningur, hestar og fé, sem magurt var, kroppnaði og dó“. En yngri dæmi um þessa merkingu í krop(p)na hef ég ekki fundið.

Sögnina krókna er skýrð 'deyja úr kulda, vosbúð' eða 'hnipra sig saman' í Íslenskri orðabók og sama gildir um myndina krokna – í Íslenskri orðsifjabók er talið hugsanlegtkrókna sé orðið til úr krokna fyrir áhrif frá nafnorðinu krókur. Elstu dæmi um báðar þessar myndir eru frá 17. öld og er svo að sjá sem þær – og síðar eingöngu krókna – hafi leyst krop(p)na af hólmi. Í Ísafold 1912 segir Andrés Björnsson: „Að kroka er alþýðumál nyrðra, og hefi eg einkum heyrt það sagt um gripi, sem standa í skjóli fyrir illviðrum. […] Að kroka þýðir því að standa boginn (optast af kulda), og til þess svarar verbum inchoativum að krokna (nú krókna) = byrja að kreppast (af kulda), sem nú hefir fengið merkinguna: að deyja úr kulda.“

Það er því ljóst að sagnirnar krop(p)pna og krokna / krókna eru báðar gamlar í málinu – sú fyrrnefnda þó eldri að því er virðist – og höfðu mjög svipaða merkingu. Uppruni þeirra er ekki sá sami en vegna líkinda bæði í merkingu og framburði virðist þeim hafa slegið saman fyrir löngu. Myndin krókna er nær einhöfð í nútímamáli en tilvist kropna í Íslensk-danskri orðabók sýnir að sú sögn hefur eitthvað þekkst í byrjun 20. aldar, þrátt fyrir að engin dæmi yngri en frá 18. öld virðist finnast um hana á prenti – í merkingunni ‚deyja úr kulda‘. Einhver yngri dæmi má hins vegar finna um hana í merkingunni 'kreppast, herpast saman' – í kvæði í Lögréttu 1925 segir t.d.: „þá skulu þínar vesölu, mögru kjúkur kropna.“

En svo dúkkar krop(p)na allt í einu upp hér í fyrirspurn þegar komið er nokkuð fram á 21. öldina, þrátt fyrir að ekkert hafi til hennar spurst mjög lengi. Þetta sýnir tvennt. Í fyrsta lagi að þótt við heyrum óvanalegar orðmyndir sem okkur virðist í fyrstu að hljóti að vera einhvers konar misskilningur eða villa borgar sig ekki að hrapa að ályktunum. Í öðru lagi að orð geta lifað lengi í töluðu máli, jafnvel öldum saman, án þess að komast nokkuð á prent. Vegna hljóðfræðilegra líkinda krop(p)na og krókna er vissulega hugsanlegt að þarna sé um misheyrn að ræða, og það hefði ég talið ef gömul dæmi um krop(p)na hefðu ekki fundist – en í ljósi þess að sú sögn var til finnst mér eðlilegast að telja að hún hafi lifað óslitið í málinu.

Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á íslensku

Ég skrifaði hér um daginn að ákvæði Laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu um að „allt tal og texti sé á lýtalausri íslensku“ í Ríkisútvarpinu væri í raun marklaust vegna þess að „lýtalaus íslenska“ væri ekki til, ef lýsingarorðið lýtalaus er skilið bókstaflega sem 'gallalaus'. Einhverjum fannst þetta vera orðhengilsháttur hjá mér og töldu eðlilegt að túlka „lýtalaus íslenska“ svo að það merkti ekki 'algerlega gallalaust mál', heldur 'íslenska sem samræmist málstaðli'. Látum svo vera, en það leysir samt ekki vandann – þeirri viðmiðun er erfitt að beita vegna þess að íslenskur málstaðall er hvergi skráður í heild sinni og tekur ekki á fjölmörgum álitamálum. Þess vegna er oft ekki hægt að segja hvort tiltekið málfar samræmist málstaðli.

En jafnvel þótt við gefum okkur að hægt væri að nota málstaðalinn sem viðmið um lýtalausa íslensku væri það viðmið ótækt vegna þess að það myndi útiloka stóran hluta málnotenda – e.t.v. ekki frá því að koma fram í Ríkisútvarpinu en a.m.k. frá störfum við fréttamennsku og dagskrárgerð hjá stofnuninni. Það á bæði við um fólk sem á íslensku ekki að móðurmáli og talar hana því með ýmsum frávikum í framburði, beygingum, setningagerð og fleiru, og einnig fólk sem á íslensku að móðurmáli en notar ýmis tilbrigði sem ekki eru viðurkennd í málstaðlinum. Slík útilokun væri ekki í anda þess meginhlutverks Ríkisútvarpsins „að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi“.

Þess vegna þarf að fella brott lýsingarorðið lýtalaus en viðkomandi lagagrein þess í stað að verða: „Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á íslensku.“ Það opnar á margvísleg tilbrigði sem sjálfsagt er að fái að heyrast í Ríkisútvarpinu en ákvæðið má síðan útfæra nánar í málstefnu stofnunarinnar. Það er líka í fullu samræmi við ákvæði þjónustusamnings Ríkisútvarpsins og menningar- og viðskiptaráðherra þar sem segir að í málstefnu stofnunarinnar skuli setja fram „viðmið um mismunandi málsnið eftir tegundum dagskrárefnis“ – og í samræmi við málstefnuna sjálfa þar sem segir: „Mikilvægt er að hafa í huga að málsnið getur verið með ýmsu móti og misjafnlega formlegt. Orðaval og talsmáti kann að taka mið af því.“

Íslenska með pólskum hreim er íslenska. Mér langar og ég vill er íslenska. Það var barið mig er íslenska. Hán og kvár er íslenska. Meira að segja öll velkomin er íslenska. Kannski er ekkert af þessu „lýtalaus íslenska“, en íslenska samt – og það er það sem skiptir máli. Öll þessi tilbrigði myndu samræmast breyttu lagaákvæði eins og það er sett fram hér á undan. En það verður því miður ekki sagt um allt efni Ríkisútvarpsins. Í sumum tilvikum, einkum í ýmsum útvarpsþáttum sem fjalla um menningu og listir, er stundum svo mikið um erlend orð í íslensku samhengi að tæplega er hægt að segja að viðkomandi efni sé á íslensku vegna þess að það er nær óskiljanlegt fyrir almenna hlustendur sem ekki hafa sérþekkingu á því sem verið er að tala um.

Þetta er óviðunandi. Vitanlega má sýna því skilning að oft vantar íslensk orð, ekki síst þegar verið er að ræða um nýjungar og nýja strauma á ýmsum sviðum eins og oft er í þessum þáttum. Það má líka sýna því skilning að viðmælendur eru oft ekki vanir að tala um efnið við annað fólk en það sem lifir og hrærist í sama heimi, þar sem sérhæfður orðaforði er eðlilegur. En sú skylda hvílir þá á dagskrárgerðarfólki að gera efnið aðgengilegt almenningi. Það má t.d. gera með því að brýna það fyrir viðmælendum fyrir fram að reyna að nota íslensk orð eða útskýra erlend orð – og með því að stöðva viðmælendur sem nota erlend orð og biðja þá um að skýra þau fyrir hlustendum. Þetta er vel hægt að gera, og verður að gera til að uppfylla skyldur Ríkisútvarpsins.