Um daginn skrifaði ég pistil með fyrirsögninni „Félag atvinnurekenda gegn íslenskunni“ þar sem ég sagði frá umsögn félagsins um drög að nýrri reglugerð um plastvörur sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hugðist innleiða og er í samráðsgátt stjórnvalda. Þessi reglugerð myndi m.a. fela í sér að skylt yrði að merkja einnota plastvörur á íslensku og því var félagið mjög andvígt því að það myndi koma „illa niður á örmarkaði eins og Íslandi“, vera „verulegt inngrip í atvinnufrelsi“ og myndi „stuðla að því að umræddar vörur hækki í verði“ – og það myndu neytendur „að sjálfsögðu“ greiða. Í upptalningu á þeim hagsmunum sem félagið taldi að Alþingi þyrfti að hafa í huga í þessu sambandi voru hagsmunir íslenskunnar hvergi nefndir.
En nú hefur Félag atvinnurekenda fengið öflugan liðsmann í þessari baráttu gegn íslenskunni – sjálfan umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem þó lagði reglugerðardrögin fram. Nú er hann búinn að skipta algerlega um kúrs (og ekki í fyrsta skipti) og „segir mögulegt að reglurnar verði ekki innleiddar að fullu“ – „þessi stranga tungumálakrafa felur í sér mjög íþyngjandi kröfur á atvinnulíf og neytendur“ bætir hann við og tekur þannig fullkomlega undir málflutning Félags atvinnurekenda. „Þetta bitnar sérstaklega illa á Íslandi af því við erum örhagkerfi og við erum fámennt málsvæði og það skiptir gríðarlega miklu máli að við höldum vöku okkar og tryggjum að svona reglur séu aðlagaðar að íslenskum aðstæðum“ segir ráðherrann.
Það er hárrétt hjá ráðherra að við erum fámennt málsvæði. En einmitt þess vegna erum við svo viðkvæm fyrir utanaðkomandi þrýstingi og því enn mikilvægara en ella að við tökum því fegins hendi þegar færi gefst á að gera íslenskunni hærra undir höfði. Það skýtur skökku við að ríkisstjórn sem segist í stefnuyfirlýsingu sinni munu „hlúa að íslenskri tungu“ skuli ætla að krefjast undanþágu frá kröfu um notkun tungunnar. Rökin um að sérreglur þurfi að gilda fyrir fámenn málsvæði eru stórhættuleg vegna þess að þau tengjast ekki þessu máli sérstaklega – þeim er hægt að beita til að réttlæta alls konar tilslakananir á notkun íslensku. Að því marki sem sérreglur þarf fyrir fámenn málsvæði ættu þær að styrkja málið, ekki veikja.
Ráðherrann segist munu „gæta ítrustu hagsmuna Íslands í þessu máli“. Þá á hann væntanlega við „atvinnulíf og neytendur“ sem hann vísar sérstaklega til. Hagsmunir atvinnulífsins – innflytjenda og seljenda – eru vitanlega þeir að kostnaður þeirra við vöruna sé sem minnstur. En þótt það séu vissulega hagsmunir neytenda að varan sé sem ódýrust eru það líka ótvíræðir hagsmunir þeirra að hafa allar upplýsingar um hana á móðurmáli sínu. Og til lengri tíma litið eru það vitanlega líka hagsmunir neytenda að ekki sé slakað á kröfum um notkun íslensku á öllum sviðum. Síðast en ekki síst snýst þetta auðvitað um hagsmuni íslenskunnar – hver ætlar að gæta þeirra? Þjóðtungan virðist því miður ekki eiga sér marga málsvara í ríkisstjórn.