Category: Málfar

Út í öfga(r)

Í Málvöndunarþættinum var spurt hvort ætti að segja öfgarnar eða öfgarnir, þ.e. hvort orðið öfgar væri kvenkyns- eða karlkynsorð. Orðið er venjulega aðeins í fleirtölu en á tímarit.is má þó finna tvö dæmi um eintöluna öfg – „Ein öfgin býður annarri heim“ í Tímanum 1962 og „Hin öfgin er sú“ í Alþýðublaðinu 1968. Allar orðabækur segja orðið kvenkynsorð en bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri orðsifjabók kemur þó fram að staðbundin dæmi séu um karlkynið. Jón G. Friðjónsson segir þó í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2006 „ljóst að kk.-myndirnar hafa ekki náð að festa rætur“ og við þeim er líka varað í Málfarsbankanum: „Nafnorðið öfgar er kvenkynsorð í fleirtölu. Þetta gengur út í öfgar (ekki „öfga“). Þau ræddu málin án öfga.

Nefnifallið öfgar gæti verið hvort heldur sem er karlkyns- eða kvenkynsorð, og sama má segja um þágufallið öfgum og eignarfallið öfga – einnig með greini, öfgunum og öfganna. Það er bara í þremur beygingarmyndum sem munur kynjanna kemur fram. Í nefnifalli með greini er karlkynið öfgarnir en kvenkynið öfgarnar, og í þolfalli er karlkynið öfga og öfgana en kvenkynið öfgar og öfgarnar. Vegna þessa mikla samfalls er iðulega óljóst í hvaða kyni verið er að nota orðið, þótt oft sé vissulega hægt að ráða það af meðfylgjandi fornafni eða lýsingarorði (þessar öfgar kvk., miklir öfgar kk.). Hljóðasambandið -öfg- kemur líka fyrir bæði í karlkyni, eins og í höfgi, og kvenkyni, eins og í göfgi – hvorugt þeirra orða er reyndar notað í fleirtölu.

Fáein gömul dæmi má finna um karlkynsmyndir orðsins, það elsta í Lögbergi 1906: „Vér verðum að bíða rólegir átekta, forðast öfga og árásir.“ Í Austra 1911 segir: „Við öfgana kannast hann sjálfur.“ Í Vestra 1912 segir: „Grein þessari hefir verið svarað af ýmsum Vestur-Íslendingum sem hingað komu í sumar, er telja greinina fara með öfga.“ Í Heimskringlu 1920 segir: „afturhaldið togar í á aðra hliðina en öfgarnir á hina.“ Í Tímariti íslenzkra samvinnufélaga 1924 segir: „Öfgarnir voru hins vegar afsakanlegir.“ Í Bréfum og ritgerðum Stephans G. Stephanssonar má finna bæði „Þrátt fyrir alla öfga, gera þeir stundum við, þar sem hinir ganga frá“ og „eitthvað, sem ég aðeins sagði sem alvörulausa öfga, til að ofbjóða öðrum“.

Vegna þess hve margar beygingarmyndir falla saman og stofngerðin sker ekki úr um kynið er ekki undarlegt að kyn öfga sé á reiki. Við það bætist að fleirtöluendingin -ar er dæmigerðari fyrir karlkyn en kvenkyn svo að búast mætti við því að karlkynið sækti á – og sú virðist vera raunin. Í Risamálheildinni að frátöldum samfélagsmiðlum eru rúm 800 dæmi um nefnifalls- og þolfallsmyndina öfgarnar – fjórtán sinnum fleiri en samtals um samsvarandi karlkynsmyndir, öfgarnir og öfgana. En í samfélagsmiðlahlutanum eru um 350 dæmi um karlkynsmyndirnar en aðeins helmingi fleiri, um 700, um kvenkynsmyndina. Þetta bendir til þess að í óformlegu málsniði sé öfgar á hraðri leið yfir í karlkyn. Ég sé ekki neina ástæðu til að ergja sig yfir því.

Messing, látún – og brass

Á mbl.is sá ég í morgun fyrirsögnina „Stál tekur við af brassi á heimilum“ og í fréttinni sagði: „Þó að þetta sé klassískt efni þá hefur það undanfarin ár vikið fyrir gull- og brasslitu.“ Ég minnist þess ekki að hafa séð orðin brass og brasslitur áður í þessari merkingu og þau er ekki að finna í íslenskum orðabókum en ég þóttist þó sjá að þarna væri um að ræða enska orðið brass sem er skýrt 'messing' eða 'látún' í ensk-íslenskum orðabókum og er 'málmblanda, blanda af kopar og sinki'. Bæði messing og látún eru tökuorð en gömul í málinu – það fyrrnefnda a.m.k. frá því um miðja þrettándu öld en það síðarnefnda a.m.k. frá því um 1400. Þau hafa bæði lengi verið algeng í málinu – á tímarit.is eru rúm 4.300 um messing en rúm 3.100 dæmi um látún.

Orðið brass og samsetningar af því hefur reyndar verið algengt í málinu lengi í tengslum við hljóðfæri og tónlist – brassband, brasshljómsveit, brasshljóðfæri, brasstónlist, brasskvintett, brasstónlistarmaður o.s.frv. Sumar þessara samsetninga eins og brassband koma fyrir í vesturíslensku blöðunum frá því fyrir 1900 (oftast þá í tveimur orðum, brass band) en fara ekki að sjást í blöðum á Íslandi fyrr en um 1970 að því er virðist. En í öðrum merkingum fer ekki að bera á orðinu fyrr en fyrir 20 árum eða svo. Á Málefnin.com 2004 segir: „Ég […] pússa allt silfur og brass.“ Dæmi á Bland.is 2005 bendir til þess að orðið sé þá ekki mjög kunnuglegt í þessari merkingu: „Ég held allavega að það sé kallað brass, svona gullitaður þungur málmur.“

Það er ekki fyrr en eftir miðjan síðasta áratug sem orðið brass og samsetningar af því fara að sjást í þessari merkingu í prentmiðlum. Í Stundinni 2016 segir: „ég fæ sérstaka klígju af gömlum járnhnífapörum, hnífapörum úr burstuðu járni og úr brassi.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir: „Fæturnir á borðinu mega gjarnan vera með brass-áferð sem þykir sérlega falleg núna.“ Í Mannlífi 2019 segir: Íbúðin er ansi vönduð en þar mætast marmari, brass og viður á sjarmerandi hátt.“ Á mbl.is 2020 segir: „Ég hef alltaf verið meira fyrir silfur en gull en brassliturinn hefur verið að koma aðeins inn hjá mér í skreytingum.“ Í Vísi 2021 segir: „Þess vegna lá efnisvalið nokkuð augljóst fyrir, þar sem Nero Marquina marmari og burstað brass eru allsráðandi.“

Þótt bæði messing og látún hafi lengi verið notuð í íslensku fellur hvorugt orðið sérlega vel að málinu. Fyrrnefnda orðið er venjulega haft í hvorugkyni en íslensk hvorugkynsorð enda yfirleitt ekki á -ing – reyndar var það frekar haft í kvenkyni áður fyrr eins og sést í dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, svo sem „á milli þeirra er breið messing, sem vér nefnum látún“ úr Reisubók séra Ólafs Egilssonar frá miðri 17. öld. Einnig eru dæmi um myndina mersing. Síðarnefnda orðið einnig er venjulega haft í hvorugkyni en karlkynsmyndin látúnn kemur þó fyrir í fornu máli. En tvíkvæður stofn af þessu tagi, þar sem hvorugt atkvæðið eða hlutann ( eða tún) er hægt að tengja öðru íslensku orði, ber greinilega með sér að vera tökuorð.

Aftur á móti fellur hvorugkynsorðið brass ágætlega að málinu og rímar við gömul orð eins og hlass, kjass og skass auk nýlegri tökuorða eins og dass, hass, krass, pass, smass o.fl. Þarna erum við sem sé með þrjú tökuorð – tvö gömul sem bera erlendan uppruna með sér, eitt nýlegt sem gæti formsins vegna verið af norrænum uppruna. Vissulega er almennt séð æskilegt að halda sig við þau orð sem lengi hafa verið notuð í málinu, en á móti kemur að það er líka æskilegt að tökuorð falli vel að þeim orðum sem eru fyrir í málinu. Ef tekin hefði verið meðvituð ákvörðun um að taka upp brass í staðinn fyrir messing og látún fyndist mér það ekki fráleitt, en líklegra er samt að upptaka brass stafi af hugsunarlausri yfirfærslu úr ensku.

Íslendingavandamál

Í nýrri grein Snorra Mássonar á Vísi talar hann um „augljóst og alvarlegt útlendingavandamál, eins og stöðu tungumálsins hjá nýbúum“ og segir: „Mistekist hefur hrapallega að tryggja að aðfluttir tileinki sér tungumálið, svo illa að í alþjóðlegri skýrslu hljóta Íslendingar sérstaka falleinkunn. Minna en 19% innflytjenda hafa náð góðum tökum á hinu opinbera máli hér í landi, á meðan sama hlutfall stendur til dæmis í 90% í Portúgal, 85% í Ungverjalandi og tæpum 80% á Spáni.“ Þetta er rétt, en mikilvægt er að spyrja hvað liggi að baki þessum mikla mun. Stafar hann af því að innflytjendur á Íslandi séu tornæmari, latari, áhugalausari, metnaðarlausari eða neikvæðari í garð þjóðtungunnar en innflytjendur í öðrum Evrópulöndum?

Ég á bágt með að trúa því að svo sé – og sé ekkert sem bendir til þess að þann mun sem þarna er á Íslandi og öðrum Evrópulöndum megi rekja til innflytjendanna sjálfra. Þá stendur eftir að ástandið hlýtur að stafa af aðstæðum á Íslandi. Þar skiptir meginmáli að það liggur fyrir fyrir – sem Snorri nefnir ekki þótt það komi fram í skýrslunni sem hann vísar til – að það fé sem Íslendingar verja til að kenna innflytjendum íslensku er ekki nema brot af því sem önnur Norðurlönd verja til að kenna sín mál. Innflytjendur hér eiga til dæmis ekki kost á ókeypis íslenskunámskeiðum við komu til landsins – þótt þeir geti oft fengið endurgreiðslu gegnum stéttarfélög sín þurfa þeir yfirleitt að vera búnir að greiða stéttarfélagsgjöld í einhverja mánuði til þess.

Snorri segir: „Góðu fólki mislíkar það af hugmyndafræðilegum ástæðum að kenna vandamál við hópa sem gætu talist jaðarsettir í einhverjum skilningi. Ef það hjálpar því fólki í gegnum þessa umræðu að firra útlendinga allri ábyrgð á að læra tungumálið í því landi sem þeir flytjast til, getum við gert það hér fyrir sakir umræðunnar. Þá stendur að minnsta kosti eftir Íslendingavandamál. Það er að við höfum ekki tryggt að fólk sem hingað flyst læri tungumálið okkar.“ Þetta er vissulega vandamál, en það er ekki „af hugmyndafræðilegum ástæðum“ sem mörgum finnst óheppilegt að kenna það við útlendinga, heldur vegna þess að það er rangt. Það er eins og þegar maðurinn sem var stolið frá var kallaður „Jón þjófur“ upp frá því.

Það er hins vegar alveg rétt hjá Snorra að þetta er „Íslendingavandamál“ – en forsendur hans eru rangar. Íslendingavandamálið felst ekki í því „að við höfum ekki tryggt að fólk sem hingað flyst læri tungumálið okkar“, heldur í því að við höfum ekki skapað aðstæður sem auðveldi fólki að læra íslensku – það skortir faglegar, félagslegar og fjárhagslegar forsendur. Við bjóðum ekki nógu mörg námskeið og ekki nógu víða og námskeiðin sem þó eru í boði eru sjaldnast ókeypis, við gerum fólki sjaldnast kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma, við höfum ekki samið nóg af hentugu kennsluefni, við höfum ekki menntað nógu marga hæfa kennara, og við höfum ekki varið nándar nærri nógu miklu fé í að móta og framfylgja stefnu á þessu sviði.

Við þetta bætist að enskukunnátta er almenn á Íslandi þannig að það er auðvelt að búa hér og starfa árum og jafnvel áratugum saman án þess að læra málið. Það er samt ósanngjarnt og rangt að tala um „það grátlega litla hlutfall útlendinga sem sér ástæðu til að læra íslensku“ – rannsóknir sýna nefnilega að innflytjendur vilja flestir læra málið. En fyrir utan þá erfiðleika sem áður voru nefndir er ein ástæðan fyrir því að íslenskukunnátta þeirra er ekki almennari en raun ber vitni neikvætt viðhorf margra Íslendinga gagnvart „ófullkominni“ íslensku og sá siður margra að skipta yfir í ensku ef viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku, þannig að fólk sem er að læra málið fær enga æfingu í því að nota það, missir móðinn og hættir námi.

„Þróunin er á fleygiferð og með hverju ári minnka hvatarnir fyrir fólk að læra tungumálið“ segir Snorri og bætir við: „Með þessu áframhaldi er hætt við því að þjóðfélagið skiptist í auknum mæli upp í tvo aðskilda hópa, íslenskumælandi fólk og svo enskumælandi fólk.“ Þetta er alveg rétt og ég hef margsinnis skrifað um þetta hér – bæði andvaraleysi gagnvart aukinni enskunotkun og hættuna á tvískiptu þjóðfélagi, og ég tek fullkomlega undir það með Snorra að við þessu verður að bregðast ef við viljum halda í íslenskuna. En það gerum við ekki með því að tala um „útlendingavandamál“ heldur með því að átta okkur á því að við berum sjálf ábyrgð á stöðunni og það er okkar að leysa þetta mál – í sátt og samlyndi við innflytjendur.

Nýyrði í stað tökuorðs: skriðdreki

Ég skrifaði hér fyrr í dag um tökuorðið tank sem í Íslenskri orðsifjabók er talið komið úr ensku en líklega í gegnum dönsku. En í ensku hefur orðið ekki bara merkinguna 'stórt lokað ílát undir vökva' eins og í íslensku, heldur líka merkinguna 'skriðdreki'. Sú merking orðsins er mun yngri, frá 1916, en runnin frá hinni merkingunni – hvernig það gerðist er áhugaverð saga sem ekki á heima hér en er rakin í greininni „Skriðdrekar. Hvernig „tankarnir“ hluti sína nafngift“ í Sjómannablaðinu Víkingi 1959. En í fyrstu var orðið líka notað í þessari merkingu í íslensku og elstu dæmi í málinu um báðar merkingar eru jafngömul. Í Morgunblaðinu 1916 segir: „Jörðin er sem eitt forarfen, og jafnvel „tank“-bifreiðarnar hafa ekki getað aðhafst neitt verulegt.“

Orðið tank var oft notað í þessari merkingu í íslenskum blöðum – framan af gjarna innan gæsalappa. Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Hollendingar eru nú farnir að smíða sér brynvarðar bifreiðar eftir fyrirmynd brezku „tankanna“ og „Segir í erlendum blöðum að tankarnir hafi orðið Bretum að ómetanlegu gagni. Þjóðverjar hafi allsstaðar hlaupist á brott, er þeir sáu tankana koma.“ (Í sömu frétt er þó notuð ensk fleirtölumynd: „Þá óku 12 tanks af stað úr herbúðum Breta.“) Í Alþýðublaðinu 1920 segir: „Tankar notaðir til að moka snjó af vegum. Hinar ægilegu vígvélar tankarnir eru nú notaðir til friðsamlegri vinnu í Frakklandi en í stríðinu.“ Í Vísi 1929 segir: „Höfðu þeir þá flutt austur eftir flugvélar, tanka og önnur nýtísku hernaðartæki.“

En fljótlega fóru að koma fram ýmsar íslenskar samsvaranir. Í Heimskringlu 1917 segir: „Bretar hafa skriðdreka sína hina stóru – tanks – sem ekkert hefur unnið á enn þá.“ Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Í orustum […] seinni hluta sumarsins, hafa Bretar óspart teflt fram hinum miklu „bryndrekum“, „the tanks“.“ Í Heimskringlu 1918 segir: „Kaledín foringja hefur verið líkt við brynreið (tank). Í Vísi 1918 segir: „Landbryndrekinn „The Tank“ veltir sér áfram yfir skotgrafir.“ Í Vestra 1918 segir: „Nokkrum metrum handar situr enskur brynbarði (tank) fastur.“ Í Heimskringlu 1927 segir: „flugvélin, gasið, járndrekinn, sem kallaður er “tank” og neðansjávarbáturinn.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1931 segir: „Nýjasti landdrekinn (tank).“

Þarna eru ýmis ágæt orð – bryndreki, brynbarði (bæði orðin voru fyrir í málinu í merkingunni 'brynvarið herskip'), landbryndreki, brynreið (sem kemur fyrir í fornu máli), járndreki, landdreki – en elsta orðið, skriðdreki, er það eina sem hefur lifað, enda mjög lýsandi orð. Það er áhugavert hvernig örlög orðsins tank sem kom inn í málið í tveimur merkingum á sama tíma hafa orðið mismunandi eftir merkingu. Í annarri merkingunni helst orðið sem tökuorð og aðlagast hljóð- og beygingakerfi málsins með tímanum, en fyrir hina merkinguna eru búin til ýmis nýyrði (eða nýmerkingar) sem eru notuð jöfnum höndum fyrstu árin en fljótlega – þegar um 1930 – vinnur eitt þeirra afgerandi sigur. En bæði tökuorðið og nýyrðið eru ágætis orð.

Það er í sjálfu sér eðlilegt – og heppilegt – að mismunandi orð skulu hafa verið valin fyrir mismunandi merkingar tökuorðsins tank. Hins vegar má spyrja hvers vegna orðið hafi haldið sér í merkingunni 'stórt lokað ílát undir vökva' en nýtt orð – eða ný orð – komið í staðinn í merkingunni ‚'brynvarið ökutæki á skriðbeltum, búið til hernaðar með öflugum byssum' eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók. Hugsanlega hefur það haft áhrif að danska notaði ekki tank í þessari merkingu en danska orðið, kampvogn, er þó óskylt því íslenska. Í enskri bók frá 1919 um uppruna skriðdreka þar sem enska heitið tank er skýrt segir reyndar „the name has now been adopted by all countries in the world“ sem er augljóslega ekki rétt.

Aðlögun tökuorðs: tank

Í textanum „Hann var einusinni lítill“ úr revíunni „Fornar dyggðir“ sem flutt var í Reykjavík 1938 koma fyrir eftirfarandi línur: „Hann var áður miklu grennri, hann var áður barasta slank, / en hann er orðinn eins og tunna, eða eins og olíutank.“ Það sem þarna er áhugaverðast frá málfræðilegu sjónarmiði er orðið olíutank. Það er nefnilega gott dæmi um það hvernig tökuorð sem festast í málinu aðlagast reglum málsins smátt og smátt, beygingarlega og hljóðfræðilega. Í Íslenskri orðsifjabók er talið að orðið tank í merkingunni 'stórt lokað ílát undir vökva' sé komið úr ensku en líklega í gegnum dönsku. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1916: „Rétt á eftir var gefin skipun um það frá brúnni, að losa sjó úr „tank“ nr. 2.“

Í Íslenskri orðsifjabók eru nefndar þrjár myndir orðsins – tank, tanki og tankur. Vitanlega er orðið endingarlaust í ensku og dönsku, og þannig er það líka í elstu íslensku dæmunum. Það sést reyndar ekki í dæminu úr Morgunblaðinu 1916 því að þar er orðið í þágufalli sem getur vel verið endingarlaust, en í auglýsingu í Morgunblaðinu 1917 segir: „Tank fyrir 4 smál. af olíu.“ Í Vísi 1930 segir: „Talið er, að tank með „nafta gasoline“ hafi sprungið.“ Í Morgunblaðinu 1939 segir: „Nýr olíutank í Keflavík.“ Við þetta má bæta dæminu úr „Fornum dyggðum“ hér að framan. En annars eru flest dæmin um orðið í þolfalli og þágufalli og því ekki hægt að segja til um nefnifallsmyndina – ýmsar myndir gætu tilheyrt hverri áðurnefndra mynda sem er.

Þegar tökuorð kemur inn í málið fær það alltaf eitthvert kyn. Oft fellur stofngerð þess betur að einu kyni en öðru, eða útilokar eitt eða fleiri kyn. Orð með stofngerðina -ank- getur t.d. varla lent í kvenkyni nema þá með því að breyta a í ö, eins og í hönk. Aftur á móti gæti slíkt orð lent í hvorugkyni, sbr. bank, en karlkynið varð þó fyrir valinu í tank – e.t.v. fyrir áhrif frá dönsku þar sem orðið er samkyns, tank(en). En til að laga sig að málinu beygingarlega þarf karlkynsorð með þessa stofngerð að fá endingu í nefnifalli eintölu, og það getur verið annaðhvort -i (veik beyging), eins og banki, eða -ur (sterk beyging). Fjöldi dæma er um hvort tveggja, en vegna samfalls beygingarmynda er oft útilokað að átta sig á nefnifallsmynd út frá mynd í texta.

Þótt ekki muni miklu virðist veika myndin tanki vera eldri. Í Víði 1931 segir: „Allt í einu kom leki á bensíntankann.“ Í Alþýðumanninum 1932 segir: „Við einn „bensíntankann“ stöðvast ein bifreiðin.“ Í Vísi 1943 segir: „Í sumar var byggður tanki fyrir olíu.“ Elsta dæmi sem ég finn um sterku myndina tankur er í Vélstjóraritinu 1936: „Hvað mundi olían vega mikið, ef tankurinn er fullur?“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1940 segir: „Tankurinn átti að vera næstum samlitur sandinum.“ Sterka beygingin varð ofan á og er nú nær einhöfð og sú veika er líklega að mestu horfin úr málinu en í Morgunblaðinu 2017 er þó fyrirsögnin „Hljómleikar í olíutanka“ og í fréttinni segir: „Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að gera tankann manngengan.“

En til að fella tökuorðið tank fullkomlega að íslensku þurfti líka að aðlaga það hljóðfræðilega. Meginþorri Íslendinga ber orð með hljóðaröðinni -ank- ekki fram með a, heldur með tvíhljóðinu á -ánk-. Framan af hefur tank þó væntanlega verið borið fram með a eins og ráða má af því að í dæminu úr „Fornum dyggðum“ rímar (olíu)tank á móti danska tökuorðinu slank sem ég held að hafi alltaf verið borið fram með a. Mér finnst tankur með a en ekki á hljóma mjög kunnuglega og held að sá framburður hafi tíðkast lengi og víða – mun víðar en í heimkynnum einhljóðaframburðarins á Vestfjörðum. En núorðið er tankur líklega yfirleitt borið fram tánkur, með á, eins og við er að búast. Þar með hefur þetta tökuorð lagað sig fullkomlega að málinu.

Hvenær verður „villa“ rétt (og eldri mynd „röng“)?

Í Málvöndunarþættinum var vakin athygli á því að viðmælandi í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi sagði „Það búa mikið af hugverkabóndum í Reykjavík suður“. Eins og við var að búast olli þetta hneykslun – „Skömm er að þessu!“, „Úff. Blaðabörnin sitja við skriftir“, „Af hverju ráða Vísismenn ekki fólk sem kann íslensku“, „Lágmark að kunna að beygja starfsheitið líka í fleirtölu“ o.fl. Í þessu tilviki var um að ræða óundirbúið viðtal og engin ástæða til að ætla annað en um einfalt mismæli hafi verið að ræða – öllum getur okkur orðið á að mismæla okkur, ekki síst í aðstæðum eins og þessum þar sem hljóðnemi er rekinn framan í okkur. Smávægilegt mismæli kemur málvöndun ekkert við og ætti auðvitað ekki að kalla á slíka hneykslun.

En eins og bent var á í umræðum um þetta er myndin bóndum í þágufalli fleirtölu engin nýjung – þvert á móti. Í fornu máli var ó í öllum eintölumyndum orðsins bóndi eins og nú, en í fleirtölu beygðist orðið bœndrbœndrbóndumbónda. Nefnifall og þolfall fleirtölu höfðu því annað stofnsérhljóð en aðrar beygingarmyndir orðsins og það stafaði af því að þessar tvær myndir höfði áður i í endingu sem dró stofnsérhljóðið í átt til sín en féll síðan brott. En þegar í fornu máli var æ farið að stinga sér niður í þágufalli og eignarfalli fleirtölu fyrir áhrif nefnifalls og þolfalls, og um 1400 voru nýju myndirnar bændum og bænda orðnar algengar. Eldri myndunum bregður þó fyrir fram eftir öldum og jafnvel enn í dag en þar getur oft verið um fyrnsku að ræða.

Það eru vissulega sáralitlar líkur á því að viðmælandi Stöðvar tvö hafi verið að bregða fyrir sig fornri beygingarmynd, en þetta dæmi vekur samt ýmsar spurningar. Þegar verið er að dæma um „rétt“ mál og „rangt“ er aldur eitt helsta viðmiðið – eldri myndir eru taldar „betri“ og „réttari“ en þær yngri. Ef það viðmið væri notað í þessu tilviki hlyti myndin bóndum því að teljast „rétt“ – og „réttari“ en bændum. Ég efast þó um að nokkrum dytti í hug að halda því fram, vegna þess að myndin bóndum hefur ekki tilheyrt lifandi máli í margar aldir. Þetta er þó ekki ósvipað því að myndir eins og læknir í þolfalli eintölu og læknirar í nefnifalli fleirtölu eru taldar „rangar“ en lækni og læknar „réttar“, enda þótt fyrrnefndu myndirnar væru nær einhafðar í nokkrar aldir.

En það er líka rétt að athuga að þegar myndir eins og bændum og bænda fara að koma upp, um 1300 eða fyrr, voru þær auðvitað „villur“, í þeim skilningi að þær voru frávik frá málhefðinni. Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að amast hafi verið við slíkum tilbrigðum í máli á þeim tíma, þótt trúlegt sé að eldri kynslóðin hafi þusað eitthvað yfir málfari þeirrar yngri eins og á öllum tímum. En þessar „villur“ virðast hafa fengið að breiðast út uns þær urðu normið og hættu að vera „villur“. Spurningin er hins vegar hvaða áhrif það hefur á eldri myndirnar – verða þær þá „villur“ í staðinn? Og hvenær gerist það? Eða halda kannski myndir sem einu sinni voru „réttar“ áfram að vera það, óháð því hvort þær eru eitthvað notaðar eða ekki?

Ég ætla ekkert að svara þessum spurningum, enda veit ég ekki til þess að nokkurt einhlítt svar sé til við þeim. Það virðist vera mjög tilviljanakennt hvaða breytingar eru viðurkenndar sem „rétt mál“ og hverjar ekki, og eins og ég hef áður sagt virðast (óorðuð) rök fyrir því að telja eitthvað „rangt mál“ stundum einfaldlega vera: „Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.“ En það eru auðvitað engin rök – við eigum að hafa kjark til að skipta um skoðun, viðurkenna að þótt við höfum kennt eitthvað á sínum tíma, eftir bestu vitund, kann það að vera úrelt. Það er eðlilegt að vilja halda í málhefðina, en nauðsynlegt að átta sig á því að hún getur breyst – og þegar breyting er komin vel af stað getur barátta gegn henni verið skaðleg.

Stórort hrós

Á vefnum fótbolti.net var í gær fyrirsögnin „Stórorð í garð Sveindísar – „Er að komast í heimsklassa““. Eins og seinni hluti fyrirsagnarinnar bendir til vísar fyrri hlutinn til þess að Sveindísi hafi verið hrósað, og í innleggi hér áðan var spurt: „Er þetta ekki óvenjulegt um hrósyrði?“ Ég tók undir það og benti á að í Íslenskri orðabók er lýsingarorðið stórorður skýrt 'sem notar stór, þung orð, gífuryrtur' eða 'skömmóttur' – í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'sem notar stór og gróf orð'. Ég fékk samt bakþanka og fór að velta því fyrir mér hvort stórorður væri alltaf neikvætt orð og hvort stór orð væru alltaf neikvæð, eða hvort hægt sé að vera stórorður á jákvæðan hátt, eins og orðið er notað í umræddri fyrirsögn.

Í fornu máli virðist stórorður merkja 'yfirlætislegur' eða eitthvað slíkt – ‚er hovmodig i sine Udtalelser‘ segir í Ordbog over det gamle norske Sprog eftir Johan Fritzner. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið skýrt 'som bruger store ord; stortalende' en stortalende merkir 'som praler, overdriver eller virker selvhævdende', þ.e. 'sem gortar, ýkir eða virkar sjálfbirgingslegur'. Samkvæmt þessum skýringum virðist orðið helst vísa til þess að 'taka stórt upp í sig' eða 'taka djúpt í árinni' og sú er t.d. merkingin í „Hann vill þó ekki vera stórorður um framtíðina, enn sem komið er“ á vef Ríkisútvarpsins 2021. Stóru orðin þurfa ekki endilega að vera gróf eins og skýringar nútímamálsorðabókanna benda til, þótt svo sé vissulega oft.

Í Skírni 1936 segir Einar Ólafur Sveinsson: „skrásetjarinn segir þá jarteikn mjög gætilega, en gefur í skyn, að sumir séu stórorðari í lofi um hana, og að svo mundi vera í útlendum jarteiknabókum.“ Hér er stórorður augljóslega notað á jákvæðan hátt í merkingunni 'taka djúpt í árinni', og mér finnst þetta ekkert óeðlilegt. Hins vegar sé ég ekki betur en sambandið stórorður í garð sé ævinlega notað neikvætt – í því felist alltaf einhvers konar ádeila eða árás en aldrei hrós. Niðurstaðan er því sú að fyrirsögn eins og Stórorð í hrósi um Sveindísi hefði samrýmst íslenskri málhefð – og jafnvel Stórorð um Sveindísi í jákvæðri merkingu ef „Er að komast í heimsklassa“ fylgdi á eftir – en fyrirsögnin eins og hún er á fótbolti.net geri það ekki.

Imbi(nn)

Þegar ég var að alast upp í norðlenskri sveit á sjöunda áratugnum hafði maður lítið veður af slangri og hvers kyns unglingamáli – „götumáli“ eða „skrílmáli“ eins og það var stundum kallað í þá daga. Helst var að svoleiðis bærist með frændsystkinum að sunnan sem komu í heimsókn eða sumardvöl. Eitt slíkt tilvik var karlkynsorðið imbi sem ég man eftir að hafa lært af frænda mínum, líklega sumarið 1965, og þótti sniðugt og nýttist oft vel í orðahnippingum. Þetta orð var þá ekki gamalt í málinu eins og marka má af fyrirspurn sem „Póstinum“ í Vikunni barst snemma árs 1963. „Ég hef undanfarið hnotið um orðið imbi, og virðist orðið vera mörgum tamt. Ég finn þetta orð ekki í Blöndal. Getur þú nokkuð frætt mig um uppruna þess?“

„Pósturinn“ var ekki í vandræðum með það og sagði: „Orðið, skilst mér, hefur nýlega rutt sér til rúms, og fer það vel í munni, þótt langt sé frá því, að það eigi sér íslenzkan eða norrænan uppruna. Orðið er komið úr rómönskum málum, t. d. franska: imbécile, enska: imbecile, og þar fram eftir götunum. Þetta þýðir svo fábjáni eða heimskingi og virðist hafa haldið sömu merkingu í sinni nýju, íslenzku mynd.“ Í Nýjum vikutíðindum skömmu síðar sagði: „Tvö orð virðast vera orðin algeng í talmáli Reykvíkinga, og þau eru ,,alki“ og „imbi“. Imbi þýðir fáráðlingur, en alki áfengissjúklingur.“ Í Þjóðviljanum 1967 sagði: „Mér er sagt, að orðið imbi, sem algengt er að verða í Reykjavík, sé dregið af imbecil, sem líklega er latína.“

Um miðjan sjöunda áratuginn var orðið útbreitt og hafði getið af sér afkvæmi eins og kemur fram í Þjóðviljanum 1966: „Nýju orði skýtur upp í viðræðum manna og virðist eiga enskan uppruna eins og fleiri á hinum síðustu dögum. „Heldurðu að ég sé imbi?“ spyrja krakkar ef telja á þeim trú um eitthvað ótrúlegt. Og nú sé ég prentað í Alþýðublaðinu á sunnudaginn orðið „imbakassi“, sem virðist orðið allalgengt nafn á sjónvarpstæki. Mér skilst að „imbi“ sé notað í merkingunni auli eða flón og er líklega komið gegnum enska orðið „imbecile“ úr hinu latneska „imbecillus“, sem mun svipaðrar merkingar. Orðið imbakassi segir þá nokkra sögu um álit manna á hermannasjónvarpinu, en það er eina sjónvarpið sem Íslendingum hefur verið tiltækt.“

Elsta dæmi um orðið imbakassi á tímarit.is er þó aðeins eldra, í Fálkanum í ársbyrjun 1965: „Þá er sjónvarpið, eða „imbakassinn“, komið inn á annað hvert heimili Reykjavíkur, og í þetta þokkatæki glápir fólkið daginn út og daginn inn.“ Eins og bent er á í Slangurorðabókinni er orðið hliðstætt idiot box sem hafði verið notað í sömu merkingu í ensku síðan um miðjan sjötta áratuginn. Það er athyglisvert að enska orðið skuli ekki hafa verið tekið beint inn sem *idjótabox (eða *idjótakassi) því að bæði idjót og box voru algeng tökuorð í málinu á þessum tíma. Þótt einhver dæmi finnist vissulega um imbecile box í þessari merkingu í ensku virðist það vera mjög sjaldgæft og allar líkur eru þess vegna á því að imbakassi sé íslensk nýmyndun.

En fljótlega var farið að stytta imbakassi í imbi – elsta dæmi sem ég finn um þá merkingu er í Vísi 1976. Orðið var þá oftast haft með ákveðnum greini eins og sést í samtali í smásögu í Vikunni 1983: „Sést ekkert illa í imbanum hjá þér?“ – „Imbanum?“ – „Já, sko sjónvarpinu. Maður kallar það stundum imbakassa, eða barasta imba, af því maður verður algjör imbi af því að horfa of mikið á það. Imbi er sko bjáni.“ Þetta er í raun mjög áhugaverð orðmyndun – enska orðið imbecile er stytt í imbi og af því er mynduð samsetningin imbakassi sem síðan er aftur stytt í imbi – sem varð fljótlega aðalmerking orðsins. Í Risamálheildinni virðast vera a.m.k. tíu sinnum fleiri dæmi um orðið í merkingunni ‚sjónvarp‘ en í merkingunni ‚fábjáni‘.

Orðið imbi fer ágætlega í málinu, bæði hljóðfræðilega og beygingarlega, og í þættinum „Tungutak“ í Morgunblaðinu 2011 segir að það hafi „greinlega öðlast þegnrétt“ í íslensku, enda er það gefið athugasemdalaust í Íslenskri nútímamálsorðabók – þó aðeins í merkingunni 'sá eða sú sem er heimskur, heimskingi' – en imbakassi er þar merkt „óformlegt“. Í Íslenskri orðabók en imbi merkt „óforml.“ en þar er imbinn einnig flettiorð merkt „slangur“ og vísað á imbakassi. Bæði imbi(nn) og imbakassi áttu sinn blómatíma á seinustu tveim áratugum tuttugustu aldar en eru nú orðin frekar sjaldgæf og jafnvel hallærisleg – í Morgunblaðinu 2014 segir: „Ég fletti upp orðinu sjónvarp í samheitaorðabók enda imbi eða imbakassi löngu orðið klént.“

„Ágústi vantar gúmmístígvél“

Vefverslunin Boozt.com fór að auglýsa vörur sínar á Íslandi fyrir fáum árum og framan af eingöngu á ensku, e.t.v. að viðbættu einu íslensku orði eða tveimur. Ég skrifaði oft um þetta hér fyrir tveimur árum og kvartaði þrisvar yfir því til Neytendastofu sem á að hafa eftirlit með því að Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sé framfylgt, m.a. ákvæðinu „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku“. Ég skrifaði einnig ritstjórum fjölmiðla sem birtu þessar auglýsingar og benti á ábyrgð fjölmiðla í þessu efni. Ég veit ekki hvort þessar kvartanir og þessi skrif höfðu einhver áhrif, en nokkuð er það að skömmu eftir þetta fór verslunin að auglýsa á íslensku að mestu leyti og hefur gert það síðan, að ég held.

Nú ber hins vegar svo við að Boozt birtir auglýsingu sem vekur mun meiri neikvæð viðbrögð en auglýsingar á ensku gerðu nokkurn tíma, þrátt fyrir að vera á íslensku, vegna þess eins að í henni kemur fyrir setningin „Ágústi vantar gúmmístígvél“. Þarna er komin hin hryllilega „þágufallssýki“ sem barið hefur verið inn í þjóðina áratugum saman að séu einhver verstu málspjöll sem hægt er að hugsa sér. Fólk heitir því að versla aldrei við Boozt vegna þessa og segir „vekur furðu að þetta sé ekki leiðrétt“, „ósköp aumkunarvert að heyra“, „óþolandi þágufallssýki“, „skelfilegt að hlusta á þetta“, „mér verður illt“, „guð minn góður“, „fáráðar eru víst illa að sér“, „tek andköf í hvert sinn“, „óskiljanlegt, af hverju er þetta leyft?“ – o.s.frv.

Þetta er aðeins lítið brot af athugasemdum við áðurnefnda setningu úr hópunum Skemmtileg íslensk orð og Málvöndunarþátturinn og við innlegg um setninguna hafa verið skrifaðar hátt í tvö hundruð athugasemdir sem langflestar taka undir hneykslunina í upphafsinnleggjunum. Ég fann hins vegar ekki nema eitt dæmi um það í þessum hópum að vakin hefði verið athygli á auglýsingum Boozt á ensku á sínum tíma, og sárafá ummæli voru um það innlegg – fólkið sem nú hneykslast sem mest þagði þunnu hljóði. Það mætti ætla að fólk hugsaði svipað og höfundur lesendabréfs í Þjóðviljanum 1950: „En þó leiðinlegt sé, að daglegt mál sé mengað útlendum orðum, með meira og minna röngum framburði, er það illskárra en þágufallssýki og flámæli.“

Mér finnst þetta vera einkar skýrt en jafnframt dapurlegt dæmi um þær villigötur sem umhyggja fyrir íslensku máli leiðist oft út á. Það er engin ástæða til að ætla annað en flest þeirra sem leggja þarna orð í belg beri hag tungunnar fyrir brjósti, en hneykslun og fordæming er ekki til þess fallin að efla íslenskuna eða vekja jákvæðar tilfinningar í garð hennar. Við það bætist að þarna er um að ræða einstaklega lítilfjörlegt atriði sem skiptir í raun engu máli – hefur engin áhrif á málkerfið og skiptir engu fyrir framtíð íslenskunnar eða samhengið í íslensku máli. Bæði frumlags- og andlagsfall mikils fjölda sagna hefur breyst á undanförnum öldum án þess að það trufli okkur nokkuð og oftast án þess að við vitum af því eða tökum eftir því.

En af einhverjum ástæðum hefur hin svokallaða „þágufallssýki“ orðið að tákni hins illa í huga þjóðarinnar – e.t.v. að hluta til vegna sjúkdómsvæðingarinnar sem felst í heitinu sem festist við þessa smávægilegu breytingu sem breiðist smám saman út þrátt fyrir áratuga baráttu gegn henni og er nú eðlilegt mál talsverðs hluta þjóðarinnar. „Þágufallssýki“ hefur iðulega verið notuð til að gera lítið úr fólki og niðurlægja það á ýmsan hátt – ef þið efist um það skuluð þið leita að „þágufallssýki“ á tímarit.is. Það er ljótt og vont – bæði fyrir fólkið sem á í hlut en ekki síður fyrir íslenskuna. Ég treysti því að Ágústi verið útveguð gúmmístígvél á næstunni, en aðalatriðið er að þjóðinni hætti að skorta umburðarlyndi gagnvart tilbrigðum í máli.

Að elska fast

Um daginn var spurt um það í Málvöndunarþættinum hvort rétt væri að tala um að elska fast. Flestum fannst þetta fráleitt en einn þátttakenda í umræðunni sagðist hafa séð það nýlega í bók. Í Risamálheildinni má finna um fimmtíu dæmi um þetta samband, öll af samfélagsmiðlum nema eitt: „frænka var glæsileg og hjartahlý manneskja sem elskaði fast og innilega“ í Morgunblaðinu 2021. Elstu dæmin eru frá 2008: „Eins gott að þau elskist ekki fast“ og „Ég elska þig, fast!“ á Bland.is og „ég elska þig svo fast“ á Hugi.is. Flest dæmin um þetta eru þó á twitter frá síðustu fimm árum, þar á meðal þessi tvö frá 2021: „Er eg su eina sem finnst “elska svo fast” bara ekki meika sens?“ og „Skrítnasta málfarstrendið þessa dagana finnst mér „að elska svo fast“.“

Þessar athugsemdir benda til þess að sambandið elska fast sé orðið nokkuð útbreitt en sýna jafnframt að það fellur ekki öllum í geð. Það er eðlilegt þar sem um nýjung er að ræða, en elska fast er samt ekki endilega merkingarlega fráleitt. Atviksorðið fast getur merkt 'af ákefð' eða 'alveg eindregið' eins og í drekka fast, sækja fast, horfa fast á, standa fast á, leggja fast að einhverjum o.fl. Merking orðsins í elska fast er svipuð og í þessum samböndum og þess vegna er ekki hægt að halda því fram að sambandið sé „órökrétt“ á nokkurn hátt. Ekki er gott að segja hvers vegna farið er að nota fast með sögninni elska en hugsanlegt er að þar spili inn í áhrif frá öðrum samböndum á sama merkingarsviði, svo sem kyssa fast og knúsa fast.

Það hvaða atviksorð er notað með tiltekinni sögn fer ekki bara eftir merkingu orðanna heldur einnig og ekki síður eftir hefð. Þótt merkingarlega sé í sjálfu sér ekkert síðra að nota atviksorðið fast en atviksorðið heitt með sögninni elska er hefð fyrir því síðarnefnda en ekki því fyrrnefnda. Sambandið elska fast er nýlegt og enn fremur sjaldgæft og þess vegna mæli ég með því að við höldum okkur við hefðina. En hefðir af þessu tagi geta breyst, og það væru engin málspjöll þótt elska fast breiddist út og yrði viðtekin málnotkun. Til gamans má reyndar nefna að þótt stutt sé síðan elska fast fór að heyrast kemur það fyrir í kvæði frá miðri sautjándu öld eftir séra Stefán Ólafsson í Vallanesi  – „Ingunni gerði hann elska fast / áður en hún lét fallerast.“