Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenska í stjórnarsáttmála

Ég var að skoða stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Hér er ekki vettvangur til að segja skoðun á honum í heild en ég staldraði við það sem ég fann um íslensku, íslenskt táknmál og máltækni:

  • Íslensk tunga er dýrmæt auðlind og á stóran þátt í að skapa sterkt samfélag. Íslenskan er tenging okkar við sögu okkar og menningu og mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu. Við ætlum að styðja við tunguna með því að leggja áherslu á að íslenskan sé skapandi og frjór hluti af umhverfi okkar. Sérstök áhersla verður lögð á að börn og ungmenni nýti tungumálið í leik og námi með auknu framboði af nýju námsefni á íslensku og með því að hlúa að barnamenningu.
  • Huga þarf að eflingu íslenskukennslu fyrir alla kennaranema í takt við breyttar aðstæður í samfélaginu.
  • Þá verður áfram unnið að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni.
  • Efla þarf íslenskukennslu fyrir kennaranema og auka símenntun í takt við breyttar aðstæður.
  • Ráðist verður í átak til að stuðla að fjölbreyttri nýsköpun í námsgagnagerð og auknu framboði af nýju námsefni, ekki síst á íslensku, fyrir öll skólastig.
  • Mörkuð verður stefna um íslenskt táknmál með sérstakri áherslu á málumhverfi táknmálstalandi barna og námsefni á leik- og grunnskólastigi.
  • Markáætlun um samfélagslegar áskoranir á sviði máltækni, umhverfismála og sjálfbærni, tæknibreytinga á vinnumarkaði og heilbrigðisvísinda verður framhaldið allt kjörtímabilið.
  • Áfram verður markvisst unnið að því að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi.

Það er ástæða til að fagna þessum áformum. Nú er bara að vona að við þetta verði staðið.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fögnum nýjungum

Mér finnst að við eigum að fagna nýjungum í máli, svona yfirleitt. Þær endurnýja málið og auðga það iðulega, andstætt því sem oft er haldið fram, þótt frá því séu vissulega undantekningar eins og nefnt er hér á eftir. Stundum kemur nýtt orð, nýr framburður, ný beyging eða ný setningagerð algerlega í stað þess sem áður var – þá er málið í sömu stöðu og áður, hvorki fjölskrúðugra né fáskrúðugra. En hitt er líka algengt að nýjungin sé viðbót en eldra málbrigði lifi áfram góðu lífi. Þá hefur málið auðgast – sem hlýtur að vera jákvætt. Tökum nokkur dæmi.

Ný orð um ný fyrirbæri eru augljóslega nauðsynleg og auðga málið. Oft er því þó haldið fram að tiltekin ný orð séu „óþörf“, og jafnvel „orðskrípi“, t.d. ristavél, og sagt að eitthvert orð sé að „útrýma“ öðru. Þannig hef ég oft séð því haldið fram að snjóstormur sé að útrýma byl, stórhríð og fleiri orðum, púðursnjór að útrýma lausamjöll, snjófjúk að útrýma skafrenningi, svo að aðeins séu nefnd orð um snjó. En tíðnitölur úr textum sýna að þetta er fjarri sanni – eldri orðin lifa góðu lífi. Þarna hafa bæst við ný orð sem strangt tekið eru „óþörf“ – en þau auðga málið. Það má vel vera að sumum þyki þau síðri en þau sem fyrir voru, en þarna fær fólk val. En jafnvel þótt nýju orðin kæmu algerlega í stað þeirra gömlu rýrir það ekki orðaforðann.

Á undanförnum áratugum hefur framburður orða sem skrifuð eru með gs, ks og x verið að breytast – í stað þess að orð eins og kex og hugsa séu borin fram með önghljóði (eins og í t.d. ekta) á undan s er borið fram lokhljóð (eins og í t.d. vagga). Þetta er breyting sem við tökum lítið eftir, truflar okkur ekkert og skaðar málið ekki – eitt hljóð kemur í stað annars en engin orð falla saman. En á sínum tíma var barist mjög harkalega gegn svonefndu „flámæli“, ekki síst með þeim rökum að það myndi valda víðtæku samfalli orða. Þannig yrði ekki lengur gerður munur á veður og viður, sker og skyr, grön og grun. En í fyrsta lagi er hreint ekki víst að þessi orð hefðu fallið saman – vel má vera að „flámælt“ fólk hafi heyrt mun á þeim þótt þau hljómuðu eins í eyrum annarra. Í öðru lagi er það samfall orða sem þarna hefði orðið mun minna en það sem varð með samfalli i og y, í og ý á sínum tíma – og við komumst ágætlega af með það.

Ósjaldan eru gerðar athugasemdir við breytta beygingu orða – að Haraldar sé komið í stað Haralds, áratugs í stað áratugar, til Selfossar í stað til Selfoss, vegna byggingu í stað vegna byggingar, réði í stað réð, ollað í stað valdið, sjálfs síns í stað sjálfs sín, senti í stað þátíðarinnar sendi, og svo mætti lengi telja. En málið verður ekki fátæklegra eða verra þótt ein beygingarending leysi aðra af hólmi. Hliðstæðar breytingar eru fjölmargar í málsögunni og margar hverjar fullkomlega viðurkenndar. Þær trufla okkur ekkert því að þær urðu fyrir okkar minni, og við vitum oftast ekki af þeim. Öðru máli gegnir ef heill beygingarflokkur eða beygingarmynstur hyrfi eins og gerðist þegar köttur, fjörður og hliðstæð orð fengu ketti, firði í þolfalli fleirtölu í stað köttu, fjörðu. En ekkert slíkt er að gerast nú.

Sama máli gegnir með setningafræðilegar breytingar. Það skaðar málið ekki nokkurn skapaðan hlut þótt einhverjar sagnir breyti um frumlagsfall og mig langar verði mér langar, ég hlakka verði mér hlakkar o.s.frv. Tilbrigði í fallstjórn sagna og forsetninga skaða ekki heldur, t.d. rústa herbergið eða rústa herberginu, skeina mig eða skeina mér, spá í þetta eða spá í þessu. Aftur á móti má færa rök að því að ýmsar setningafræðilegar nýjungar auðgi málið. Sambandið gæti hafa kom fram á 18. öld en hefur ekki útrýmt hefði getað enda merkingin ekki sú sama. Nýleg sambönd með vera að eins og ég er ekki að skilja þetta útrýma ekki ég skil þetta ekki enda merkingin aðeins önnur. Meira að segja nýja þolmyndin svokallaða, það var barið mig, er notuð á svolítið annan hátt en sú hefðbundna og því ættu þær að geta lifað samhliða í málinu.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að nýjungar trufli okkur, fari í taugarnar á okkur og við eigum erfitt með að fella okkur við þær. Við viljum hafa málið eins og það var – eða okkur var kennt að það ætti að vera – þegar við vorum að alast upp. En við þurfum samt að sýna nýjungum umburðarlyndi. Fólkið sem notar þær á alveg jafn mikinn rétt á tungumálinu og við. Og frá sjónarmiði tungumálsins eru
nýjungar yfirleitt jákvæðar – bera vott um að málið er lifandi og skapandi og auðga það yfirleitt frekar en hitt, eins og áður segir.

Undantekningar frá því eru örfáar. Ein er sú sem ég hef oft heyrt amast við, að nota sambandið notast við í stað þess að segja einfaldlega nota. En notast við merkir í mínu máli og margra annarra ekki bara 'nota', heldur 'nota vegna þess að ekki er völ á neinu betra'. Það er óeðlilegt í mínu máli að segja t.d. ég notaðist við tölvu til að skrifa ritgerðina. Hins vegar væri eðlilegt að segja ég notaðist við lélega tölvu til að skrifa ritgerðina, eða ég notaðist við blýant til að skrifa ritgerðina. Höldum áfram að gera þennan greinarmun á nota og notast við – annars verður málið fátæklegra.

Posted on Færðu inn athugasemd

Um sótt og dauða íslenskunnar

Nýbakaður verðlaunahafi Jónasar Hallgrímssonar, Arnaldur Indriðason, var spurður um stöðu íslenskrar tungu í Menningunni í Sjónvarpinu í gær. Hann sagði að það hefði heyrst að hún myndi lognast út af á hundrað árum, en hafði sem betur fer ekki trú á því. Þetta er spádómur sem oft er vitnað í og ég hef stundum séð rakinn til mín.

Það er alveg rétt að ég nefndi þetta í Orðbragði árið 2013 en þá verður að hafa í huga að þetta var sagt í umræðu um stöðu málsins í stafrænum heimi. Ég sagði: „Og það er alveg ljóst að við munum aldrei geta komið okkur upp öllum þessum gagnasöfnum eða þeim hugbúnaði sem er til fyrir stóru tungumálin. En ég held að ef við gerum ekki eitthvert átak, eða að minnsta kosti reynum ekki að ná í skottið á þróuninni þá sé ansi mikil hætta á að íslenska verði ekki til eftir 100 ár.“

Á þessum tíma var ekkert að gerast í íslenskri máltækni og full ástæða til svartsýni á þessu sviði. En að lokum tóku stjórnvöld við sér og nú er allt á fullu eins og kemur vel fram hér. Þar að auki hefur umræða um íslenskuna aukist mikið og orðið jákvæðari – enda er það frumforsenda fyrir því að málið lifi.

Við fáum ekki ungu kynslóðina með okkur nema tveimur skilyrðum sé fullnægt. Við þurfum að gera henni kleift að nota íslensku á þeim sviðum og um þau efni sem hún hefur áhuga á, og við þurfum að leyfa henni að nota málið eins og hún vill, í stað þess að vera alltaf að gagnrýna málnotkun hennar og ætlast til þess að hún noti það á sama hátt og við þessi eldri.

Ef stjórnvöld halda áfram að styðja þróun á sviði máltækni, ef íslenskan fær að þróast í takt við samfélagið, og ef við hlúum að henni og notum hana á öllum sviðum er engin ástæða til að ætla annað en hún geti lifað í hundrað ár í viðbót – og miklu lengur. En það gerist ekki af sjálfu sér. Við þurfum að hafa metnað fyrir hennar hönd og sérstaklega sjá til þess að börnin okkar geti notað hana og vilji gera það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Bubbi og íslenskan

Ég fór á Níu líf í Borgarleikhúsinu í gær. Þar var minnst á að ýmsir sjálfskipaðir verndarar íslenskunnar gagnrýndu texta Bubba harðlega í upphafi fyrir hvers kyns „málvillur“ og bragfræðilega hnökra. Eins og kom fram í sýningunni var meira að segja haldinn fundur í Háskólanum um svokallaða „gúanótexta“ Bubba, Tolla bróður hans og fleiri. Þótt ég væri í Háskólanum á þessum tíma var ég ekki á þessum fundi í nóvember 1980, en rámaði í hann og fann frásagnir af honum í blöðum.

Sem betur fer lét Bubbi þessa gagnrýni ekki brjóta sig niður — flýði ekki yfir í enskuna sem hefði sjálfsagt verið auðveldast, heldur hélt áfram að yrkja á íslensku. Það hefur hann gert alla tíð og þannig verið ungu tónlistarfólki mikilvæg fyrirmynd. Bubbi hefur líka alltaf talað máli íslenskunnar og ég lít á hann sem mikinn velgjörðarmann málsins. Í blaðaviðtali í fyrra sagði hann:

„Það kemur í ljós að í þjóðfélagi okkar eru þúsundir haldnir málótta. Í staðinn fyrir að gera íslenskuna skemmtilega þannig að börn hlakki til að fara í íslenskutíma þá er búið til regluverk og svo eru krakkar lamdir niður. Þegar ég spyr unga krakka í tónlistinni: Hvers vegna syngið þið ekki á íslensku krakkar? þá segja þau: Nei, ef maður gerir það er maður bara tekinn niður.“

Þetta má ekki gerast. Við eigum að ýta undir að íslenska sé notuð alltaf og alls staðar, jafnvel þótt það sé ekki nákvæmlega sama íslenska og við ólumst upp við eða okkur var kennt að væri rétt. Íslenska er alls konar. Það er sjálfsagt að leiðbeina ungu fólki þar sem við á, en sífelld gagnrýni og leiðréttingar hrekur það í fang enskunnar. Ég tek heilshugar undir með Silju Aðalsteinsdóttur sem endaði framsöguræðu sína á framangreindum fundi haustið 1980 á þessum orðum:

„Það hryllilegasta sem getur komið fyrir íslenska tungu er ekki að á hana séu ort misjöfn kvæði samkvæmt reglum bókmenntastofnunar. Fyrrum voru ort þúsund danskvæði á íslensku, þar af er kannski eitt óskorað listaverk. Það hafa verið ortar tíuþúsund rímur á íslensku til þess að nokkrar gætu orðið til sem bæru af. Það hafa verið ortir hundraðþúsund sálmar á íslensku, af þeim eru fimmtíu sem lifa meðan tungan er töluð.

Nei, það hryllilegasta sem komið getur fyrir íslenska tungu er ekki að á hana sé ýmislegt ort heldur hitt að fólk hætti að nota hana til að koma reynslu sinni á framfæri við náunga sinn. Frjáls tjáning allra þegnanna er undirstaða listsköpunar í landinu.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Málfarsumræða á villigötum

Svona er tekið á móti nýkjörnum formanni Kennarasambandsins í Málvöndunarþættinum. Í athugasemdum við innleggið segir m.a.: „Ætti hann kannski frekar að vera formaður nemendafélagsins…“, „Tók eftir því, ææææ“, „Ekki byrjar það vel“, „Úff“, „Agalegt að maðurinn skuli vera svona blæsma á máli.“, „Æ,,,,, dapurt“, „Sei sei sei ekki er það efnilegt maður minn“, „Úps“, „Ég held að það þurfi að skerpa verulega á íslenskukennslu í skólum“, „Tók samstundis eftir þessu, usss,uss, usss“, „Er þetta ekki frágangssök ?“, „Heimur versnandi fer...“, „kommon hann er kennari og kann ekki íslensku !!!“

Svona fordómar ná auðvitað ekki nokkurri átt. Hér er verið að gera því skóna að eitt atriði í málfari manns — atriði sem er eðlilegur hluti af málkerfi verulegs hluta þjóðarinnar — geri hann óhæfan til að gegna því starfi sem hann er kosinn til. En þar fyrir utan sagði Magnús alls ekki mér langar. Hann byrjar á einhverju sem er ógreinilegt og gæti verið hvort heldur mi- eða mé-, en segir svo greinilega mig langar. Seinna í fréttinni segir hann aftur mig langar, og í Kastljósi sama kvöld sagði hann nokkrum sinnum mig langar en aldrei mér langar. Þarna var verið að skrökva upp á hann.

Þetta er dapurlegur vitnisburður um íslenska málfarsumræðu. Fólk heyrir það sem það vill heyra, og ansi mörgum þykir ekki verra ef kennurum verður á í messunni. Svo étur hver upp eftir öðrum og hneykslast. En að dæma fólk eftir þeim málfarslegu tilbrigðum sem því eru eiginleg er engu betra en mismunun á grundvelli „kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“ sem er bannað í Stjórnarskrá. Það er rangt og það er ljótt. Það er óþolandi.

En fyrir utan það að þessi umræða er ósanngjörn og óviðunandi gagnvart þeim sem um ræðir er hún stórskaðleg fyrir íslenskuna. Það er grundvallaratriði fyrir framtíð íslenskunnar að ímynd hennar sé jákvæð og umræða um hana byggð á skilningi og umburðarlyndi. Við fáum ekki almenning með okkur, allra síst unga fólkið, ef við erum sífellt að fetta fingur út í málfar fólks, jafnvel gömul tilbrigði sem stór hluti þjóðarinnar hefur alist upp við, og dæma fólk eftir málfari sem því er eiginlegt. Slík umræða gerir ekki annað en skapa málótta og er í raun skemmdarverk.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fangum við ketti – eða föngum?

Í nýlegri frétt Ríkisútvarpsins um bann við lausagöngu katta var talað við mann sem lýsti því hvað gerist „ef við fangum dýrið“ – fangum borið fram með á, fángum, eins og við gerum flest. Þetta var tekið upp í Málvöndunarþættinum, væntanlega til að vekja athygli á „villunni“. Ef a er í stofni orðs kemur ö í þess stað á undan endingunni -um, í nafnorðum, sögnum og lýsingarorðum. Nafnorðið kjaftaskur verður kjaftöskum í þágufalli fleirtölu, sögnin útata verður útötum í fyrstu persónu fleirtölu, og lýsingarorðið snjall verður snjöllum í þágufalli fleirtölu. Þess vegna mætti búast við að sögnin fanga yrði föngum í dæminu hér að framan – og það verður hún líka oftast.

En samt er ekki alveg ljóst að rétt sé að flokka fangum sem villu. Fyrsta persóna fleirtölu af sögninni einangra er ýmist einöngrum eða einangrum, og þótt þágufall fleirtölu af nafnorðinu leiðangur sé aðeins gefið sem leiðöngrum í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er myndin leiðangrum líka töluvert algeng samkvæmt tímarit.is. Þarna verður að hafa í huga að í máli okkar flestra er borið fram á en ekki a á undan ng, og sömuleiðis au en ekki ö. Þar af leiðir að hljóðavíxlin í þessum orðum eru ekki milli a og ö, eins og er í kjaftaskur, útata og snjall og stafsetningin bendir til, heldur milli á og au.

Orð með á í stofni breyta því venjulega ekki á undan endingunni -um – þágufall fleirtölu af fáni er fánum, fyrsta persóna fleirtölu af lána er lánum, þágufall fleirtölu af smár er smáum, o.s.frv. Orð með a í stofni eiga engra kosta völ þegar þau fá endinguna -um – þau verða að breyta a í ö, annars brjóta þau ófrávíkjanlegar reglur málsins. Myndir eins og *kjaftaskum og *útatum eru útilokaðar í íslensku. En þegar um er að ræða orð með á í stofni á undan ng á málið val. Það getur kosið að taka tillit til þess að á er orðið til við tvíhljóðun úr a (eins og stafsetningin gefur til kynna) og breytt því á sama hátt og a myndi breytast, þ.e. í ö – sem kemur út sem tvíhljóðið au á undan ng. Þetta er það sem langoftast gerist, og það gefur okkur leiðöngrum, einöngrum – og föngum, af sögninni fanga.

En málið getur líka kosið að meðhöndla á á undan ng á sama hátt og hvert annað á, og haldið því óbreyttu þótt -um komi á eftir. Það gefur okkur leiðangrum, einangrum – og fangum, eins og sagt var í fréttinni sem vísað var til í upphafi. Þessi kostur er mun sjaldnar valinn en hinn, nema í einstöku orðum – einangrum er miklu algengara en einöngrum eins og bent er á í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Í mörgum orðum með ang stendur a aldrei óbreytt á undan -um – t.d. er þágufall fleirtölu af nafnorðinu fangi aldrei *fangum. Hins vegar eru rúm 50 dæmi um það á tímarit.is að lýsingarorðið ástfanginn verði ástfangnum í þágufalli fleirtölu, þótt ástföngnum sé vissulega fjórum sinnum algengara.

Það er því ljóst að myndin fangum af sögninni fanga á sér skýrar hliðstæður og er í sjálfu sér eðlileg og í samræmi við reglur málsins, en hins vegar styðst hún ekki við hefð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kostningar

Í gær var talsverð umræða á netinu um að orðið Kostningar, þannig ritað, birtist þeim sem fóru inn á vef Kennarasambandsins til að kjósa formann. Sumum fannst þetta koma úr hörðustu átt en í ljós kom að starfsfólk Kennarasambandsins bar enga ábyrgð á þessari stafsetningu. Nú er ég hlynntur samræmdri stafsetningu og tel eðlilegt að henni sé fylgt, og ætla því ekki að fara að mæla þessum rithætt bót. Samt sem áður hef ég mikla samúð með þeim sem skrifaði orðið svona í þessu tilviki.

Þetta er nefnilega fjarri því að vera eina dæmið um þennan rithátt. Á tímarit.is skipta dæmin hundruðum, þau elstu frá 1875. Það er augljóst að ritvilla sem svo mörg dæmi eru um er ekki einhver venjuleg prentvilla, heldur hlýtur að eiga sér einhverja ástæðu. Það er almenn regla í íslensku að þar sem s og n standa saman í riti kemur t inn á milli í framburði. Þess vegna er fyrri hluti orða eins og kostn-aður og kosn-ingar borinn fram á nákvæmlega sama hátt, þótt t sé aðeins ritað í fyrra orðinu. Það er ekkert skrítið við það að fólki finnist eðlilegt að skrifa þetta t sem það heyrir greinilega, sérstaklega þar sem það er skrifað í orðum sem eru borin eins fram.

Við þetta bætist að ef við förum að velta rithættinum fyrir okkur er ekki ólíklegt að við komumst að þeirri niðurstöðu að þarna hljóti að eiga að vera t. Það liggur nefnilega beint við að tengja kosningar við orðið kostur – í kosningum er alltaf verið að velja milli einhverra kosta. Tengingin við kjósa er í raun og veru miklu langsóttari – þar kemur kos- aðeins fyrir í lýsingarhætti þátíðar og ekki með n á eftir nema í þágufalli eintölu karlkyns og hvorugkyns (kosnum/kosnu) og fleirtölunni (kosnir/kosnar). En sögulega séð er kosning leitt af kjósa en ekki af kostur, og þar sem íslensk stafsetning byggist einkum á uppruna orða er það ritað án t.

Posted on Færðu inn athugasemd

Menni sem kynhlutlaust orð

Það hefur verið stungið upp á að nota orðið man sem kynhlutlaust orð í stað maður eða manneskja, m.a. í samsetningum, og til eru konur sem titla sig t.d. þingman og forstöðuman. Ég skil ástæðuna, en þetta orð er að mínu mati ekki mjög heppilegt. Það er fyrir í málinu í annarri merkingu, þ.e. 'kona' eða 'ófrjáls manneskja, karl eða kona' og ef það er notað í kynhlutlausri merkingu í stað maður er verið að gefa því nýja merkingu. Það er svo sem ekki frágangssök og hefur stundum tekist vel, t.d. í orðum eins og sími og skjár. En annað er að aukaföll orðsins eru mjög svipuð aukaföllum af maður – þ.e. man mani mans og mann manni manns. Orðið lendir oft í áhersluleysi, sérstaklega þegar það er seinni hluti samsettra orða, og við þau skilyrði er lengdarmunur hljóða lítill sem enginn og orðin falla því saman í framburði.

Ég hef því áður lagt hér til (og Margrét Guðmundsdóttir á undan mér) að orðið menni verði tekið upp í þessum tilgangi. Kosturinn við menni er að það er af sömu rót og maður og manneskja, en er hvorugkynsorð. Menni er til í málinu en aðeins sem seinni liður samsetninga. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að leyfa því að standa sjálfstætt – merkingin er sú sama og það hefur í samsetningunum. Það eru fordæmi fyrir því að orðhlutar sem áður voru aðeins til sem seinni liður samsetninga hafi verið gerðir sjálfstæðir, svo sem hýsi og þýði. En svo er um að gera að halda áfram að nota -menni í þeim samsetningum sem fyrir eru og búa til fjölmargar nýjar – vísindamenni, alþingismenni, námsmenni, verslunarmenni, verkamenni, lögreglumenni, stýrimenni, iðnaðarmenni, leiðsögumenni, formenni o.fl.

Ég hef heyrt þá skoðun að samsetningar með -menni veki einhver neikvæð hughrif eða séu smættandi á einhvern hátt. En þótt við höfum vissulega ýmis neikvæð orð eins og illmenni, smámenni, ómenni, fúlmenni, varmenni, lítilmenni, dusilmenni, stertimenni, rustamenni, skítmenni og löðurmenni eru jákvæðu orðin miklu fleiri – ljúfmenni, snyrtimenni, stórmenni, prúðmenni, góðmenni, glæsimenni, ofurmenni, fyrirmenni, hraustmenni, mikilmenni, heljarmenni, karlmenni, hreystimenni, valmenni, gáfumenni, frægðarmenni, göfugmenni, eðalmenni, lipurmenni, séntilmenni, þrekmenni og afarmenni – svo að bara séu tínd til orð sem 10 dæmi eða fleiri eru um í Risamálheildinni. Og það er svo sem ekki eins og allar samsetningar með -maður séu jákvæðar.

Vitanlega tæki tíma að venjast því að nota menni og samsetningar af því á þennan hátt, eins og önnur ný orð. Og vitanlega er ég ekki að leggja til að hætt verði – hvað þá bannað – að nota orðið maður á kynhlutlausan hátt. Auðvitað ræður fólk sinni málnotkun, en það er mikilvægt að fólk sem ekki getur eða vill nota maður sem kynhlutlaust orð eigi annarra kosta völ. Ég get t.d. ómögulega sagt ég hitti mann sem ég þekki í gær ef það var kona sem ég hitti. Þá verð ég að segja ég hitti konu sem ég þekki. En kannski kæri ég mig ekkert um að láta kynið koma fram – fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Þá væri gagnlegt að geta sagt ég hitti menni sem ég þekki í gær. Ég er sjálfur farinn að nota menni á þennan hátt og finnst það venjast ágætlega.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að strauja kortið

Hér hefur stundum verið fjallað um orð sem í upphafi voru gagnsæ en hafa nú misst gagnsæi sitt – ekki vegna breytinga sem á þeim hafa orðið, heldur vegna þess að einhverjar breytingar, einkum samfélags- eða tæknibreytingar, valda því að þau hafa glatað tengslunum við upprunann. Þetta er mjög algengt á seinustu áratugum vegna örra tæknibreytinga. Upphaflega fólst t.d. augljós líking í því að nota orðið mús um stjórntæki tölvu. En nú eru tölvumýs iðulega skottlausar og orðið jafnvel notað um reit eða titt í lyklaborðinu sem gegnir sama hlutverki. Þá er forsenda líkingarinnar auðvitað á bak og burt, en orðið helst.

Eitt dæmi um þetta er orðið strauja í sambandinu strauja kortið. Þegar farið var að nota greiðslukort á Íslandi árið 1983 voru posar ekki komnir, hvað þá snertilaus afgreiðsla. Þess í stað voru kortin lögð á sérstakt tæki (stundum kallað handþrykkivél) undir marglaga eyðublað með kalkipappír sem upphæðin hafði verið skrifuð á. Síðan var sleða rennt yfir hvorttveggja þannig að blaðið þrýstist niður á kortið og upphleyptu stafirnir á kortinu birtust á blaðinu. Svo þurfti að senda eitt af afritunum í banka.

Sú athöfn að renna sleðanum yfir kortið var fljótlega kölluð að strauja. Elsta dæmi sem ég finn um þetta er í umfjöllun Morgunblaðsins síðla árs 1985 um sprengingu í notkun nýjungarinnar greiðslukorta og galla sem henni fylgja: „Forráðamenn kortafyrirtækjanna benda á, að afgreiðslufólki verði það helst á að gleyma að „strauja“, þ. e. að valsa yfir útskriftarnóturnar.“ Það liggur beint við að nota sögnina strauja um þessa athöfn þannig að þessi orðnotkun var í upphafi mjög gagnsæ.

Árið 1990 var farið að nota svokallaða posa þar sem upplýsingar á kortinu eru skráðar rafrænt í stað þess að kortið sé straujað. Það tók einhver ár að skipta handþrykkivélunum út fyrir posana, en líklega er óhætt að segja að slíkar vélar hafi sáralítið verið notaðar undanfarinn aldarfjórðung og stór hluti landsmanna hafi aldrei séð slíkt tæki. Samt er sambandið strauja kortið miklu algengara nú en á tímum handþrykkivélanna, þótt forsenda líkingarinnar sé farin. Þetta er gott dæmi um að orð sem komast í almenna notkun fara að lifa sjálfstæðu lífi, óháð uppruna sínum, og geta haldist í málinu þótt þau séu ekki lengur gagnsæ.

En reyndar sýnist mér að merkingin í strauja kortið hafi breyst dálítið og þrengst. Það merkir ekki lengur 'borga með greiðslukorti' eins og upphaflega, heldur oftast 'eyða peningum' og jafnvel 'eyða ótæpilega' eða 'eyða um efni fram'. Í Fréttablaðinu 2014 segir „Erlendir ferðamenn hafa aldrei straujað kortin sín fyrir hærri fjárhæð hér á landi en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs“, í Morgunblaðinu 2017 segir „Með þessu móti má einnig dreifa kostnaðinum yfir lengra tímabil í stað þess að strauja kortið óheyrilega í desember“ og í DV 2017 segir „Ég þurfti engu að síður að halda niðri í mér andanum þegar ég straujaði kortið“.

Posted on Færðu inn athugasemd

-ósa: Vannýtt viðskeyti

Í Facebook-hópnum Málspjall skapaðist nýlega skemmtileg umræða um orðið kynósa sem Þórunn Valdimarsdóttir rithöfundur notaði í Kiljunni um daginn þegar hún talaði um að Íslendingar hefðu verið „kynósa þjóð“. Þetta orð virðist vera mörgum ókunnugt og sannarlega er það ekki algengt. Það er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók en fáein dæmi eru þó um það í Risamálheildinni og á tímarit.is og það er flettiorð í Íslenskri orðabók með skýringunni „gegnsýrður af kynlífshugsun og -atferli“. Orðið hefur á undanförnum áratugum ekki síst verið notað í umræðu um bókmenntir en í seinni tíð líka um konur, og virðist oft notað í svipaðri merkingu og femme fatale.

Elsta dæmi um orðið er að finna í bréfi Magnúsar Ásgeirssonar skálds til Snorra Hartarsonar, sem birtist í Helgafelli 1944. Þar er verið að fjalla um nýlegar bækur, og um Nátttröllið glottir eftir Kristmann Guðmundsson segir m.a.: „Bókin er að vísu mjög kynósa (sbr. danósa hjá Sigurði meistara á Akureyri) […].“ Þetta orðalag bendir til þess að Magnús hafi búið orðið til og sé þarna að nota það í fyrsta skipti. Vísunin til Sigurðar Guðmundssonar er væntanlega í grein í Munin 1934, þar sem segir: „Og ótrúlega margir fara á þennan hátt forgörðum, eða »fara í hundana«, sem slíkt var í æsku minni kallað á danósa íslenzku.“ Magnús virðist hafa talið að Sigurður væri höfundur orðsins danósa, enda var hann þekktur nýyrðasmiður, en svo er þó ekki, þótt sárafá eldri dæmi séu til.

En elsta dæmið um danósa er í bréfi Konráðs Gíslasonar prófessors til Björns M. Ólsen frá 1885. Þar segir: „Ósköp þætti mjer vænt um, ef þjer vilduð taka að yður […] kvennvæflu, sem hefur verið sæmilegur kvennmaður á unga aldri, enn nú er orðinn púta, og hefur »f . . . . ós« eða er að minsta kosti danósa. Þessi aumingja kvennvæfla er íslenzkan. Mjer er nærri því sama, hvernig hún er, ef hún er ekki danósa. Við Íslendingar, að minsta kosti vel flestir, förum með hana eins og við værum djöflar enn ekki menn.“ Þetta er gott dæmi um það hvernig íslenskan hefur lengi verið talin á leið í hundana. Konráð líkir henni við vændiskonu sem sé með fransós ('sárasótt', þótt orðið sé ekki skrifað fullum stöfum) eða sé að minnsta kosti danósa sem er skýrt í Íslenskri orðabók sem „gegnsýrður af dönskum áhrifum“.

Ekki er ólíklegt að Konráð hafi myndað orðið danósa og þá með hliðsjón af orðum eins og flaumósa og spánósa sem bæði eru eldri, en af samhenginu mætti ætla að hann hafi einnig haft fransós í huga við myndun orðins, þótt orðhlutinn -ós sé þar annarrar ættar. En viðskeytið -ósa kemur fyrir í fáeinum orðum þótt fæst þeirra séu notuð í nútímamáli – varla nema flaumósa og vatnsósa. Í bók Alexanders Jóhannessonar prófessors frá 1927, Die Suffixe im Isländischen, eru auk þessara orða nefnd „bjórósa (Neuisl.) biertrunken, […] reykósa von Rauch durchdrungen, spánósa neu (nach Span riechend)“. Auk þess nefnir Alexander að orðið danósa sé nýmyndun undir áhrifum þessara orða. Orðið bjórósa kemur fyrir í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 í merkingunni ‚'øllet' en spánósa kemur fyrir þegar í fornu máli og merkir 'spánnýr'.

Mér finnst -ósa vera dæmi um vannýtt viðskeyti sem upplagt er að nota meira – bæði í orðum sem fyrir eru og ekki síður til að búa til ný orð hliðstæðrar merkingar. Ekki er lengur mikil þörf á orðinu danósa en í stíl við það mætti mynda enskósa um það sem er „gegnsýrt af enskum áhrifum“ (enósa væri meiri hliðstæða við danósa en orðhlutinn en- veitir ekki nægar upplýsingar). Fyrir nokkrum árum þegar reykingar voru almennari var algengt að tala um ákvarðanir sem voru teknar í reykfylltum bakherbergjum – það hefði farið vel á að tala um reykósa bakherbergi. Orðið bjórósa er augljóslega gagnlegt og í stíl við það mætti nota vínósa í merkingunni 'fullur'. Þá má hugsa sér lyfósa í stað uppdópaður, sykrósa í merkingunni 'í sykursjokki', svefnósa í merkingunni 'svefndrukkinn' og margt fleira.