Nærgætni og tillitssemi í orðavali

Eitt af því vandmeðfarnasta og viðkvæmasta í málnotkun er orðafar um minnihlutahópa og fólk sem á undir högg að sækja af ýmsum ástæðum. Sum slík orð sem þóttu eðlileg á sinni tíð hafa verið gerð útlæg úr venjulegu máli vegna þess að þau þykja sýna fordóma í garð þeirra sem þau vísa til – orð eins og fáviti, kynvillingur, negri o.fl. Ef fólk notar slík orð nú er það gert á meðvitaðan hátt til að sýna andúð eða fyrirlitningu á viðkomandi hópum. En erfiðara er að fást við orð sem ekki fela í sér augljósa fordóma og eru (yfirleitt) ekki notuð í því skyni að láta andúð í ljósi – en fólk úr þeim hópum sem vísað er til upplifir samt sem smættandi eða niðurlægjandi á einhvern hátt. Þetta er líka sífellt að breytast og ný orð að bætast í þennan hóp.

Í gær var ég að skrifa hér um orðið fíkn og ýmis orð sem það hefur getið af sér, m.a. nafnorðið fíkill sem var búið til um 1980 í stað orða eins og dópisti og eiturlyfjasjúklingur. Frá málfræðilegu sjónarmiði er fíkill mjög gott orð – rétt myndað, lipurt og gagnsætt. En í umræðu um þetta kom fram það sjónarmið að fíkill væri samt sem áður vont orð vegna þess að með því væri „fólk skilgreint út frá sjúkdómi sínum en ekki mennsku sinni eða hverju öðru sem við merkjum fólk með“. Ég hafði ekki hugsað út í þetta, enda var ég eingöngu að skrifa um orðið frá málfræðilegu sjónarmiði. En þegar að er gáð er þetta rétt og ég tek undir það, án þess að ég ætli að ganga svo langt að leggja til að við hættum að nota orðið fíkill. En aðrir kostir eru til.

Þetta minnir á að á seinni árum hefur verið unnið gegn því að lýsingarorð ein og sér séu notuð til að skilgreina hópa fólks. Í staðinn er haft viðeigandi lýsingarorð með orðinu fólk eða talað um fólk með – og svo viðeigandi nafnorð. Á vef Öryrkjabandalags Íslands er ágæt síða um orðræðu þar sem segir: „Notum orð um fólk sem sátt er um að séu notuð.“ Meðal dæma sem þar eru tekin eru fatlað fólk, hreyfihamlað fólk, blint fólk, fólk með sjónskerðingu, fólk með heyrnarskerðingu, fólk með þroskahömlun, fólk með geðraskanir o.fl. Í stað þess að tala um einhverfa má tala um fólk með einhverfu, í staðinn fyrir að tala um geðsjúklinga eða geðfatlaða má tala um fólk með geðfötlun – og í staðinn fyrir að tala um fíkla má tala um fók með fíkn.

Hugsunin á bak við þessar breytingar er sú sama og nefnd var að framan – að forðast að láta sjúkdóma eða hamlanir skilgreina fólk. Fólkið sjálft er aðalatriðið, en sjúkdómurinn eða hömlunin fylgir með til að ná utan um viðkomandi hóp. Þetta snýst um tilfinningu þeirra sem tilheyra þessum hópum og mér finnst mikilvægt að við séum meðvituð um hana – og tökum tillit til hennar ef þess er kostur. Fólk er almennt séð gott, og yfirleitt hvorki ætlum við að meiða fólk með orðfæri okkar né gerum okkur grein fyrir því að við séum að því. En með því að fara eftir óskum af þessu tagi um breytta orðanotkun hættum við vissulega á að vera sökuð um vekni (wokeness) – að vera óeðlilega meðvirk og hlaupa eftir pólitískri rétthugsun, vera „woke“.

Ég hef svo sem engar áhyggjur af því, en þetta er samt oft snúið vegna þess að við höfum flest alist upp við „óæskilegu“ orðin sem hin venjulegu orð um viðkomandi hópa, og auk þess er orðalagið sem mælt er með iðulega lengra og stirðara en orðin sem hafa verið notuð. Það er ekkert undarlegt að það vefjist fyrir mörgum að gefa upp á bátinn lipur orð sem löng hefð er fyrir í málinu og taka í staðinn upp orðasambönd sem engin hefð er fyrir í málinu og virðast stundum beinþýdd úr ensku. Því skiptir það máli að fólk upplifi ekki óeðlilegan þrýsting til að breyta orðafari sínu – það getur haft þveröfug áhrif. Þess vegna er fræðsla um þetta svo mikilvæg – ásamt tillitssemi og virðingu fyrir öðru fólki, tilfinningum þess og málnotkun.

Fíknir, fíklar og fíkniefni

Kvenkynsorðið fíkn á sér rætur í lýsingarorðinu fíkinn og sögninni fíkjast. Orðið kemur fyrst fyrir kringum 1800 en seint á 19. öld kemur myndin fíkni einnig til. Sú mynd hefur þó alltaf verið mun sjaldgæfari og kemur tæpast fyrir í nútímamáli nema í samsetningum. Ég kann ekki að skýra tengslin milli þessara tveggja mynda en þau gætu verið mynduð með mismunandi kvenkynsviðskeytum, -n (eins og í sókn, sbr. sækja) og -ni (eins og í fælni, af fælinn) sem bæði eru til í málinu. En einnig gætu tvímyndir átt rætur í mynd orðanna með greini sem er sú sama af bæði fíkn og fíkni, þ.e. fíknin. Sé gert ráð fyrir því að fíkn sé eldri mynd er hugsanlegt að myndin fíkni hafi orðið til þannig að fíknin hafi verið túlkað sem fíkni+n í stað fíkn+in.

Í Íslenskri orðabók er fíkn skýrt 'áköf löngun, sjúkleg fýsn' en í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin orðin tæknilegri, ef svo má segja – 'það að vera háður einhverju og fá fráhvarfseinkenni þegar ástundun eða neyslu er hætt, ávanabinding'. Orðið hefur sem sé eiginlega verið gert að íðorði og er komið inn í nokkur söfn í Íðorðabankanum sem samsvörun við addiction í ensku. Orðið virðist hafa fengið þetta hlutverk á níunda áratugnum eins og ráða má af breytingum á tíðni þess sem jókst mjög á þeim tíma, og ekki síður af breyttri beygingarlegri hegðun. Þessi merkingarbreyting hefur nefnilega leitt til þess að farið er að tala um og skilgreina margar tegundir af fíkn – sem verður eðlilega margar fíknir.

Fram á níunda áratuginn var orðið nær eingöngu notað í eintölu. Ég hef aðeins rekist á fjögur dæmi um fleirtölumyndir þess fyrir 1985, það elsta í Hauki 1898: „þeir þvert á móti, með hinum dýrslegu fíknum sínum, hafa algerlega afmáð rjett sinn til þess, að byggja heiminn.“ Íslensk orðabók gerir ekki ráð fyrir að orðið sé í fleirtölu og eingöngu eintölubeyging er gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. En árið 1985 eru nokkur dæmi um fleirtölu orðsins í blöðum, og þeim fer ört fjölgandi upp frá því. Í Risamálheildinni er á áttunda hundrað dæma um fleirtölumyndir orðsins og fáum kemur nú til hugar að gera athugasemdir við það, þótt Málfarsbankinn segi reyndar: „Ekki er mælt með því að nota nafnorðið fíkn í fleirtölu.“

Fleiri málfarslegar nýjungar tengjast orðunum fíkinn og fíkn. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1979 birti Gísli Jónsson bréf frá Herði Jónassyni á Höfn þar sem segir: „[M]ér fannst orðið „dópisti“ ljótt og sjálfsagt ekki íslenskt og einnig að orðið eiturlyfjaneytandi er ekki nógu mikið notað og fannst mér því að fíkill gæti átt við í þessu tilefni. Þetta er í ætt við að vera fíkinn í eitthvað.“ Þetta er elsta dæmi sem ég finn um orðið og tvö næstu dæmi um það á tímarit.is eru einnig úr þáttum Gísla, 1980 og 1984, þar sem hann er að hnykkja á þessu orði. En 1985 koma nokkur dæmi og upp úr því fjölgar þeim ört, rétt eins og fleirtölumyndum orðsins fíkn. Nú er orðið gífurlega algengt – yfir 19 þúsund dæmi eru um það í Risamálheildinni.

Í samsetningum er myndin fíkn ekki notuð heldur hliðarmyndin fíkni eins og áður er nefnt, enda eru orð sem enda á samhljóðaklasa eins og kn mun stirðari í samsetningum. Elsta samsetningin virðist vera fíknilyf en elsta dæmið um það orð er í yfirliti um væntanleg fræðsluerindi Háskóla Íslands í Alþýðublaðinu 1966 – erindi Þorkels Jóhannessonar heitir „Um fíknilyf“. Áður hafði oftast verið talað um eiturlyf og því ekki óeðlilegt að búin sé til samsetning með -lyf en líklega hefur við nánari athugun þótt óheppilegt að nota það orð og því var farið að nota orðið fíkniefni í staðinn – elsta dæmi um það er í Heilbrigðisskýrslum 1969 þar sem vísað er í „Reglugerð […] um ávana- og fíkniefni“. Það orð varð fljótt yfirgnæfandi en fíknilyf hefur að mestu horfið.

Óttar, hræðslur, fælnir – og fíknir

Í innleggi í hópnum Skemmtileg íslensk orð var í gær spurt hvort orðið ótti væri til í fleirtölu en fyrirspyrjandi hafði heyrt talað um að fólk væri oft með marga ótta. Stutta svarið er auðvitað að úr því að orðið var notað í fleirtölu þá er það til í fleirtölu – annars hefði ekki verið hægt að nota það. Um leið og einhver orðmynd eða beyging er notuð þá er hún orðin til. Það þýðir samt ekki að hún sé viðurkennd eða hægt sé að mæla með notkun hennar, og vissulega er engin fleirtölubeyging gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, enda engin hefð fyrir því að nota orðið ótti í fleirtölu. En í framhaldi af þessu má spyrja um tvennt: Er farið að nota þetta orð eitthvað að ráði í fleirtölu; og ætti þá að láta slíka notkun afskiptalausa eða amast við henni?

Í Risamálheildinni má finna fáein dæmi um að ótti sé notað í fleirtölu, langflest af samfélagsmiðlum. Í Vísi 2021 segir: „Á sama tíma þarf Jin að takast á við gamla ótta.“ Í fréttum Ríkisútvarpsins 2021 segir: „Hljómsveitarmeðlimir takast jafnvel á við ýmsa ótta þegar kemur að búningavali.“ Á Bland.is 2006 segir: „Mínir verstu óttar eru að missa einhvern náinn úr fjölskyldunni og/eða vera grafin lifandi.“ Á Bland.is 2007 segir: „Þegar ég var ólétt, var einn af mínum óttum einmitt sá að eignast rauðhært barn.“ Á Bland.is 2016 segir: „Að baki báðum óttum liggja ekki neikvæðar hugsanir til hvors annars heldur til ykkar sjálfs.“„Á Twitter 2021 segir: „Te sem lætur mig upplifa mína verstu ótta og hræðilegustu minningar.“

Ótti birtist í ýmsum myndum og það eru til ýmsar samsetningar með -ótti, svo sem guðsótti, innilokunarótti, málótti, þrælsótti, þótt samheitið -hræðsla sé oftar notað í samsetningum – flughræðsla, lofthræðsla, sjóhræðsla, þjófhræðsla o.m.fl. Einnig er oft talað um fælni í svipuðu samhengi þótt það sé stundum sterkara og merki 'sjúkleg hræðsla við eða óbeit á einhverju' – áhættufælni, hommafælni, myrkfælni, vatnsfælni o.fl. Þegar ótti er notað í fleirtölu virðist oftast vera vísað til mismunandi tegunda af ótta, hræðslu eða fælni, eins og þegar sagt er „Allir mínir óttar hafa komið fram í þessari bílferð“ í Vísi 2018 eða „Meira að segja í Heljarkambinum og Kattarhrygginum naut ég þess að geta þetta og sigra mína ótta“ á mbl.is 2019.

Orðin hræðsla og fælni eru yfirleitt ekki notuð í fleirtölu frekar en ótti, en eins og við er að búast má samt finna slæðing af fleirtöludæmum um þau orð. Í Morgunblaðinu 1982 segir: „Þetta er ritgerð mín um undarlegar hræðslur“ (í myndasögu, þýðing á „strange phobias“). Í Morgunblaðinu 2017 segir: „Þú varðst opnari við mig, byrjaðir að tala um tilfinningar, drauma, þrár og hræðslur.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „Þar hef ég náð góðum árangri, sem og með lofthræðslu og aðrar fælnir“ og „Það er líka þannig með fælnir að það er auðvelt að mæla árangurinn“. Í Vísi 2019 segir: „Sífellt fleiri einstaklingar líta nú á dáleiðslumeðferðir sem raunhæfan kost í því að losna við kvíða, þunglyndi, óæskilega ávana, fælnir o.s.frv.“

Hér hefur margoft verið skrifað um orð sem áður voru eingöngu höfð í eintölu en sjást nú iðulega í fleirtölu, síðast um orðið húsnæði. Oftast stafar breytingin af því að farið er að nota orðin um einstök afbrigði eða birtingarmyndir þess sem um ræðir – í þessu tilviki ótta, hræðslu eða fælni. En mörg orð hafa breyst á sama hátt á undanförnum árum, jafnvel án þess að við höfum tekið eftir því. Orðið fíkn var fram á níunda áratuginn nær eingöngu notað í eintölu og er sýnt þannig í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en fáum öðrum en Málfarsbankanum kemur nú til hugar að gera athugasemdir við fleirtöluna fíknir. Vel má vera að ýmsir óttar, hræðslur og fælnir þróist á sama hátt – það er ekki óeðlilegt þótt auðvitað þurfi að venjast því.

Notum íslensku ef það er mögulegt

Talsverðar umræður hafa orðið um skrif mín hér í gær um sölusíðu á Facebook sem er eingöngu á ensku, og þar sem allar pantanir og önnur samskipti fara fram á ensku. Ég vil taka fram að með því að segja þetta vera á gráu svæði, og vísa í tiltekna lagagrein, átti ég við að þetta færi gegn anda laganna að mínu mati. En eins og bent var á í umræðum er auðvitað hægt að skilgreina markhóp að vild, og auk þess telur Facebook sig væntanlega ekki þurfa að hlíta íslenskum lögum, þannig að ég geri ekki ráð fyrir að síðan brjóti nokkur lög. Enda hef ég enga trú á því að íslenskunni verði viðhaldið með lögum. Hún lifir því aðeins að málnotendur vilji það, vinni að því, og noti hana þegar kostur er, og það var einmitt ástæða skrifa minna.

Það sem ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á, og umræður um, var að þarna eru Íslendingar í stórhópum að panta á ensku – á síðu sem augljóslega er einkum beint að Íslendingum, enda þótt hún sé á ensku. Er það eðlilegt – eigum við að gera kröfu um að geta notað íslensku í viðskiptum á Íslandi? Eða er alltaf sjálfsagt að nota ensku af minnsta tilefni – eða jafnvel að tilefnislausu? Erum við kannski komin í þá stöðu að enskan gengur alltaf, íslenskan bara stundum? Eftir því sem þeim tilvikum fjölgar þar sem við notum ensku finnst okkur það sjálfsagðara og eðlilegra – hættum smám saman að prófa að nota íslensku í ýmsum aðstæðum, og hættum á endanum að taka eftir því hvort við erum að nota íslensku eða ensku.

Ég veit vel að þetta er viðkvæm umræða sem auðveldlega snýst upp í – og auðvelt er að snúa upp í – einhvers konar útlendingaandúð. Það má ekki gerast, og við megum ekki gera óraunhæfar eða ómálefnalegar kröfur um íslenskukunnáttu til fólks sem hingað flyst, eða halda því niðri vegna skorts á íslenskukunnáttu. Ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá okkur sem eigum íslensku að móðurmáli – það er okkar að halda íslenskunni á lofti, nota hana þar sem kostur er, og auðvelda innflytjendum að læra hana og nota. En mér finnst ekki ómálefnalegt að koma því á framfæri við fólk sem stundar viðskipti eða þjónustustörf að okkur finnist skipta máli að geta átt samskipti á íslensku, og metum það mikils ef okkur er gert það kleift.

Í umræðum var nefnt að fólki fyndist væntanlega skrítið að eiga samskipti á tveimur tungumálum og vegna þess að umrædd síða væri á ensku skrifi fólk þar sjálfkrafa á ensku. Það er örugglega rétt en þá má hafa í huga að innflytjendur skilja oft miklu meira í íslensku en þeir treysta sér til að tala eða skrifa – eins og raunar kemur fram í samskiptum á síðunni. Ég held einmitt að það sé mikilvægt að við venjum okkur á tvímála samskipti – prófum alltaf að nota íslensku og höldum því áfram ef við sjáum að það skilst, en kippum okkur ekkert upp við þótt svarað sé á ensku. Þannig veitum við fólkinu þjálfun í íslensku og hvetjum það til að reyna sjálft að nota málið í stað þess að koma þeirri hugmynd inn hjá fólki að enska sé alltaf sjálfsögð.

Andvaraleysi gagnvart ensku

Mér var bent á síðu á Facebook sem heitir East Iceland Food Coop og er kynnt þannig: „We are importing fresh organic produce directly to East Iceland, and distribute all over the country.“ Þarna getur fólk sem sé pantað grænmeti og ávexti og fengið afhent víða um land, og þetta virðist vera mjög vinsæl þjónusta. Ég finn engar upplýsingar um aðstandendur síðunnar en vegna þess að hún er eingöngu á ensku finnst mér líklegt að það sé fólk sem ekki er íslenskumælandi. Það er a.m.k. á gráu svæði að hafa slíka síðu eingöngu á ensku – þetta hlýtur að teljast auglýsingasíða og í Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu segir í 6. grein: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“

Það sem mér fannst samt umhugsunarverðast er að langflestar pantanir eru líka á ensku, enda þótt það séu Íslendingar sem eru að panta. Stöku sinnum bregður þó fyrir pöntunum á íslensku og þeim er svarað (á ensku) þannig að ljóst er að þau sem sjá um síðuna skilja íslensku. Hvernig stendur á því að við látum bjóða okkur það að gera pantanir á ensku, á síðu sem gefur sig út fyrir að vera íslensk og dreifir vörum á Íslandi? Af hverju finnst okkur ekki sjálfsagt að nota íslensku? Þetta er einstaklega gott – eða öllu heldur vont – dæmi um meðvitundarleysi okkar gagnvart enskunni í umhverfinu. Við getum þusað um enskunotkun unglinga og fólks í þjónustustörfum en lúmskustu áhrif enskunnar felast í andvaraleysi okkar sjálfra.

Að ausa

Í hópnum Skemmtileg íslensk orð sá ég að bent var á Facebook-færslu um mann sem „ausar heita súkkulaðinu á könnur“. Höfundur innleggsins taldi að þarna ætti fremur að vera eys en ausar, og vissulega er það hin hefðbundna og viðurkennda beyging sagnarinnar ausa. Þessu fylgdu svo hinar venjulegu, lítt uppbyggilegu og kolröngu athugasemdir um að fólk kynni ekki að beygja lengur, ekkert væri lengur kennt í skólum, það mætti ekkert leiðrétta lengur, beygingar væru að fara úr tísku, þetta væri eins og smábarn að tala o.s.frv. Í staðinn fyrir að taka undir með þeim kór skulum við skoða aðeins beygingu sagnarinnar ausa og velta fyrir okkur hvers vegna myndir eins og ausar komi upp í stað hefðbundinna mynda.

Sögnin ausa er sögulega séð ein svonefndra tvöföldunarsagna en í nútímamáli er ástæðulaust að greina þær frá sterkum sögnum. Þessar sagnir eiga það sameiginlegt að mynda þátíð með hljóðbreytingum (hljóðskiptum) í stofni en ekki með sérstakri þátíðarendingu, -ði, -di eða -ti. Auk þess eru oft ýmsar hljóðbreytingar í nútíðarbeygingu sagnanna. Þannig er ey- í stað au- í framsöguhætti eintölu af ausa (ég eys þú eyst hann/hún/hán eys). Í framsöguhætti eintölu í þátíð kemur jó- í stað au- (ég jós þú jóst hann/hún/hán jós), og í fleirtölunni kemur ju- í staðinn (við jusum þið jusuð þeir/þær/þau jusu). Þessi hljóðavíxl eru ekki algeng en sagnirnar auka og hlaupa beygjast þó eins (nema hlaupa hefur nú hlupum í stað hljópum).

Fáein dæmi er hægt að finna um reglulega beygingu sagnarinnar ausa, þó nær eingöngu á samfélagsmiðlum. Meðal örfárra dæma úr formlegra máli má nefna „Drogba ausar lofi yfir Essien“ í Vísi 2006, og „þáttarstjórnandi þáttarins […] ausaði aðeins úr brunni sínum“ í Vísi 2016. Alls eru um 40 dæmi um reglulegar persónuháttarmyndir ausa í Risamálheildinniausa og ausar í stað eys, ausaði í stað jós, ausaðir í stað jóst og ausuðu í stað jusu. Lýsingarhátturinn sker sig svo úr – hátt í 40 dæmi eru um veiku myndina ausað í stað sterku myndarinnar ausið, það elsta í Morgunblaðinu 1999: „Húsið tók ekki nema um klukkustund að brenna til grunna þótt að vatni hafi verið ausað á það.“ Sennilega stafar þetta af því hversu líkar myndirnar eru.

En framsöguháttarmyndirnar eru samt ekki það flóknasta í beygingu sagnarinnar ausa. Í athugasemd í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Í Stafsetningarorðabókinni (2016) er viðtengingarháttur þátíðar af sögninni ausa hafður ysi. Hjá Valtý Guðmundssyni (Islandsk grammatik 1922) er þriðja kennimynd jusum (usum) og viðtengingarháttur þátíðar jysi (ysi). Í Ritmálssafni, Íslensku textasafni og Risamálheildinni eru dæmi um báðar beygingarmyndirnar í viðtengingarhætti þátíðar.“ Sömu tilbrigði koma fram í beygingu sagnarinnar auka. Mér finnst bæði jysi og ysi koma ankannalega fyrir sjónir enda eru allar þessar myndir ákaflega sjaldgæfar – virðast vera innan við tíu dæmi um þær samtals í Risamálheildinni, flestar með ju-/jy-.

Það er ekkert undarlegt að sögn með svona fjölbreytta og flókna beygingu hafi tilhneigingu til að einfaldast, og vitanlega eru ýmis dæmi um að sagnir sem voru sterkar í fornu máli hafi nú fengið reglulega beygingu eða sýni tilhneigingar til þess. Ýmis dæmi um þetta eru fullkomlega viðurkennd og sterka myndin horfin úr málinu – hjálpaði er komið í stað halp, bjargaði í stað barg, blandaði í stað blett o.fl. Nýlega var hér líka skrifað um myndina bjóu í stað bjuggu sem stundum bregður fyrir, en búa er einmitt tvöföldunarsögn eins og ausa og beygist svipað. En reglulega beygingin af ausa virðist vera mjög sjaldgæf, enn sem komið er að minnsta kosti, og þess vegna eðlilegt að sporna við henni og reyna að halda í hefðbundna beygingu sagnarinnar.

Árið 2023 gert upp

Þetta hefur verið gott ár fyrir Málspjall. Innlegg á árinu voru 2.003 eða að meðaltali 5,6 á dag, athugasemdir 33.429 eða að meðaltali 93 á dag, viðbrögð (læk) 141.085 eða að meðaltali 393 á dag, og 3.999 fóru að meðaltali inn á síðu hópsins á dag. Allt er þetta veruleg aukning frá fyrra ári. Hópverjar eru nú tæplega 9.300 – hefur fjölgað um 2.500 á árinu. Vegna fjölda nýrra félaga finnst mér rétt að hnykkja hér á meginviðfangsefnum hópsins, sem eru í fyrsta lagi að efla jákvæða umræðu um íslenskuna; í öðru lagi að svara spurningum um íslenskt mál og málnotkun; í þriðja lagi að andæfa óþarfri enskunotkun; í fjórða lagi að birta fræðandi pistla um málið; og í fimmta lagi að vera vettvangur umræðu um mál jaðarsettra hópa.

Jákvæð umræða. Megintilgangurinn með stofnun hópsins var upphaflega sá að hvetja til jákvæðrar umræðu um íslenskt mál og málnotkun og reyna að ýta undir slíka umræðu. Mér hefur lengi blöskrað umræðan í málfarshópum á samfélagsmiðlum og athugasemdadálkum vefmiðla og er þess fullviss að sú umræða sé stórskaðleg fyrir íslenskuna – fæli fólk frá því að tjá sig opinberlega og geri ungt fólk fráhverft málinu. Ég á mér þá hugsjón að breyta þessu – auka umburðarlyndi fólks gagnvart málfari annarra og tilbrigðum í máli. Mér finnst mikilvægt að berjast gegn þeirri tvíhyggju sem við höfum flest alist upp við, að málfar sé annaðhvort rétt eða rangt og aðeins eitt sé rétt en allt annað rangt. Það er ekki þannig – íslenskan er alls konar.

Spurningar og svör. Mér finnst mikilvægt að almennir málnotendur eigi sér vettvang þar sem hægt er að bera fram spurningar um hvaðeina sem varðar mál og málnotkun og fá svar við þeim samstundis eða því sem næst. Skilyrði er þó að spurningarnar séu bornar fram á jákvæðum eða hlutlausum nótum og fyrirspyrjendur gefi sér ekki forsendur eða séu að leita staðfestingar á eigin fordómum. Ég reyni að svara öllum spurningum eftir megni, en auðvitað er æskilegt að aðrir hópverjar svari einnig, eins og algengt er. Eftir því sem fjölgar í hópnum aukast einnig líkur á því að einhverjir hópverja geti svarað því sem um er spurt. Ég held að fyrirspyrjendur hafi oftast fengið hér einhverja úrlausn mála þótt vitanlega séu undantekningar frá því.

Óþörf enska. Ein helsta ógnin við íslenskuna um þessar mundir er meðvitundarleysi okkar gagnvart áhrifum enskunnar – við erum orðin alltof ónæm fyrir enskunni í málumhverfi okkar og tökum oft ekki eftir því að enska er notuð þar sem væri auðvelt og eðlilegt – og jafnvel stundum lagaskylda – að nota íslensku. Ég hef lagt áherslu á að berjast gegn óþarfri enskunotkun fyrirtækja og stofnana – í auglýsingum, á matseðlum, á skiltum, í vöruheitum og víðar. Margir hópverjar hafa tekið virkan þátt í þessari baráttu sem hefur stundum skilað árangri – ýmis dæmi eru um að skiltum og auglýsingum hafi verið breytt í framhaldi af athugasemdum hér. En því miður er líka algengt að athugasemdir séu hunsaðar – baráttan heldur áfram.

Fræðsla. Ég var kennari í nærri 40 ár og hef gaman af að fræða fólk – og hef trú á því að mörgum þyki fengur að fræðslu um íslenskuna. Þess vegna skrifa ég hér pistla um hvaðeina sem varðar hana – um tungumálið sjálft og tilbrigði í formi og merkingu þess, en einnig um notkun þess á ýmsum sviðum, orðræðugreiningu, íslenskukennslu innflytjenda, íslenska málstefnu, o.fl. Þetta eru oft langir pistlar, flestir á bilinu 400-700 orð, og ólíklegt að mörgum endist tími og áhugi til að lesa þá alla til enda. En það er í góðu lagi – ég geri þetta ekki síst sjálfum mér til fróðleiks og skemmtunar. Það er líka alltaf hægt að nálgast pistlana, sem nú eru orðnir hálft níunda hundrað, á heimasíðu minni, https://uni.hi.is/eirikur/ritaskra/malfarspistlar/.

Vettvangur jaðarsettra. Ég hef auðvitað lengi vitað að sem síðmiðaldra menntaður hvítur karlmaður að norðan í efri millistétt tilheyri ég forréttindahópi. En það hefur smátt og smátt verið að renna upp fyrir mér hvernig þau forréttindi ná einnig til tungumálsins, og að stórir hópar í þjóðfélaginu – ekki síst hinsegin fólk og fólk með annað móðurmál en íslensku – eiga undir högg að sækja í málfarslegum efnum og eru jaðarsettir, ýmist af tungumálinu sjálfu eða notendum þess. Þetta er mjög alvarlegt fyrir þessa hópa en líka fyrir íslenskuna – og fyrir lýðræðið í landinu. Þess vegna finnst mér mikilvægt að jaðarsettir hópar hafi rödd og málfar þeirra hafi vettvang og hef reynt að skýra málstað þeirra og tala máli þeirra eftir mætti.

Hér hefur frá upphafi verið lögð áhersla á að forðast neikvæða umræðu og athugasemdir við málfar einstaklinga og hópa, og ég hef miskunnarlaust eytt innleggjum og athugasemdum sem brjóta í bága við þessa stefnu eða virðast ekki hafa annan tilgang en benda á einhverja meinta hnökra á máli og málnotkun. Félagar í hópnum hafa líka verið duglegir við að benda mér á ef út af er brugðið. Ég hef þurft að útiloka nokkra frá hópnum vegna innleggja sem ekki eiga hér heima (einkum auglýsinga um óskyld efni) eða óviðurkvæmilegs orðbragðs. Ég legg hins vegar áherslu á að engum hefur verið eða verður vísað úr hópnum vegna skoðana sinna á máli og málfari, séu þær settar fram á málefnalegan hátt.

Sáttur með/við árangurinn

Fyrr í dag var hér spurt um sambandið sáttur við/með sem fyrirspyrjanda fannst ofnotað, ekki síst í íþróttamáli – „virðist jafnvel hafa tekið yfir orðið ánægður“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar tvær merkingar lýsingarorðsins sáttur: 'sem hefur sæst við e-n' og 'ánægður, sammála'. Þegar sambandið sáttur við vísar til fólks er oft erfitt að greina milli merkinganna – ég er sáttur við þig getur merkt bæði 'við erum sátt(ir)' og 'ég er ánægður með þig / ég sætti mig við þig'. En í dæmum eins og sáttur við niðurstöðuna /útkomuna eða sáttur við að tapa getur sáttur við eingöngu merkt 'ég er ánægður með' eða 'ég sætti mig við', og sama máli gegnir um sambandið sáttur með – það getur ekki merkt 'sem hefur sæst við'.

Merkingin 'ánægður' í orðinu sáttur er ekki ný, og t.d. gefin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, en virðist þó lengi vel hafa verið fremur sjaldgæf. En tíðni hennar hefur aukist mjög mikið á síðustu áratugum, einkum eftir 1980, eins og marka má af því að samböndin sáttur með og sáttur við að voru sjaldgæf fyrir þann tíma en eru nú mjög algeng – í Risamálheildinni eru tæp 38 þúsund dæmi um fyrrnefnda sambandið en rúm 13 þúsund um það síðarnefnda. En þótt þessi merking sé í mikilli sókn er samt langt í að þessi sambönd útrými sambandinu ánægður með – um það eru rúm 240 þúsund dæmi í Risamálheildinni. Lausleg athugun bendir þó til þess að það sé rétt hjá fyrirspyrjanda að hlutfall sambanda með sáttur sé hærra í íþróttamáli.

En fyrirspyrjandi hafði ekki bara athugasemdir við tíðni sambandsins sáttur við/með, heldur einnig merkinguna, og sagði: „„Ég er bara mjög sáttur með (við) árangurinn,“ segir viðmælandi þegar hann er í raun hæstánægður. Í mínum huga merkir það að vera sáttur að eitthvað sé nógu gott miðað við aðstæður.“ Ég held reyndar að merking sambandsins fari mjög eftir aðstæðum, tónfalli og áherslu. Ef sagt er ég er mjög sáttur með árangurinn, með áherslu á mjög, merkir þetta vissulega 'ég er hæstánægður með árangurinn'. En ef þetta er sagt með hlutlausu tónfalli held ég að það merki einmitt það sem fyrirspyrjandi telur það merkja, þ.e. 'ég sætti mig við árangurinn'. Þetta getur þó sjálfsagt oft verið túlkunaratriði.

Að ráðleggja frá

Í gær var hér spurt um sambandið ráðleggja frá sem fyrirspyrjandi hafði rekist á og komið ókunnuglega fyrir sjónir. Vissulega er oftast talað um að ráðleggja einhverjum eitthvað en ráða einhverjum frá einhverju, en í ráðleggja einhverjum frá einhverju lítur út fyrir að þessu tvennu sé blandað saman. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er ráðleggja skýrt 'segja (e-m) hvað best sé að gera, gefa (e-m) ráð' en ráða (í viðeigandi merkingu) skýrt 'gefa (e-m) ráð, ráðleggingu, heilræði'. Grunnmerking sagnanna er því u.þ.b. sú sama, en munurinn felst í því að hefð er fyrir sambandinu ráða frá í neitandi merkingu – það er að finna undir ráða með dæminu hann ræður mér frá að fara í langa sjóferð. Ekkert slíkt samband er að finna undir ráðleggja.

Sagnirnar ráða og ráðleggja eru báðar gamlar í málinu – koma fyrir þegar í fornu máli, og sambandið ráða frá í nútímamerkingu er a.m.k. síðan á 19. öld. Elstu dæmi sem ég hef fundið um ráðleggja frá eru aftur á móti frá frá því upp úr 1940. Í Lesbók Morgunblaðsins 1941 segir: „Allir eru þessir spilabankastjórar efnaðir menn og allir ráðlögðu þeir vinum sínum eindregið frá að spila.“ Í ræðu á Alþingi 1942 sagði Hermann Jónasson: „Ég ætlaði eitt sinn að gróðursetja trjáplöntur í röðum, en var stranglega ráðlagt frá því, með því að þær þrifust þá ekki.“ Í Morgunblaðinu 1943 segir: „Mönnum hefur verið ráðlagt frá því að heimsækja Gandhi.“ Í Ljósberanum 1947 segir: „Hann ráðlagði þeim eindregið frá því að fara inn í veitingasalinn.“

Fáein dæmi má finna um ráðleggja frá í blöðum og tímaritum frá næstu áratugum, en meðan aðeins eitt og eitt dæmi um sambandið er á stangli má vissulega halda því fram að um mistök eða villu sé að ræða – höfundur hafi einfaldlega ruglast og þetta sé í raun ekki mál neins. En dæmum fer fjölgandi eftir 1970 og einkum á síðustu árum. Í Risamálheildinni eru um 670 dæmi um sambandið, meginhluti þeirra frá síðasta áratug. Meira en helmingur þeirra er úr formlegu máli en hlutfallið á samfélagsmiðlum er þó mun hærra – þar eru um 320 dæmi en dæmin um ráða frá um 510. Það er því ljóst að sambandið ráðleggja frá er í mikilli sókn og engin leið að afgreiða það sem mistök eða villu lengur heldur er þetta orðið eðlilegt mál margra.

Þótt sambandið ráðleggja frá sé væntanlega tilkomið fyrir blöndun sambanda (eða rugling, ef fólk vill orða það þannig) á það sér meira en 80 ára sögu í málinu og er orðið það algengt að enginn vafi er á því að það er rétt mál samkvæmt venjulegum viðmiðum. Auðvitað er samt ljóst að hefðin fyrir ráða frá er miklu eldri og ríkari og ekkert óeðlilegt að fólk sem er alið upp við það samband vilji halda í það. Samt má hafa í huga að kannski eru góðar og gildar ástæður fyrir uppkomu sambandsins ráðleggja frá. Sögnin ráðleggja hefur nefnilega eina og ótvíræða merkingu en ráða hefur fjölmargar og fjölbreyttar merkingar og því má segja að ráðleggja frá sé í vissum skilningi gagnsærra og skýrara samband en ráða frá.

Hann var slaufaður

Sögnin slaufa er tökuorð eins og hljóðafar hennar sýnir – í erfðaorðum er aldrei borið fram óraddað f milli sérhljóða þótt svo sé ritað, heldur raddað v eins og í gaufa, paufast o.s.frv. Reyndar er einnig til myndin slauffa sem fellur betur að íslensku hljóðafari því að langt ff kemur fyrir í allmörgum orðum í málinu – „Papa Roach eru hálfnaðir með næstu plötu og eru við það að slauffa túrnum sínum“ segir í Morgunblaðinu 2003. Orðið er komið af dönsku sögninni sløjfe sem merkir 'taka burt (draga, rífa til grunna)' og er aftur komin af schleifen í þýsku. Elsta dæmi sem ég finn um orðið í íslensku er í Heimskringlu 1895: „útlit er fyrir að honum […] hafi […] þótt það úrræðabest, að „slaufa“ það að innfæra þann fundargerning í gjörðabók héraðsins.“

Sögnin er skýrð 'hætta við (e-ð), sleppa (e-u)' í Íslenskri nútímamálsorðabók en hefur til skamms tíma verið fremur sjaldgæf á prenti enda merkt „óformlegt“ í orðabókum. En á seinustu árum hefur hún fengið nýja merkingu og er nú aðallega notuð um að sniðganga fólk á einhvern hátt, í orði eða verki, vegna einhvers sem það hefur sagt eða gert og tengist oft kynferðislegri áreitni, rasisma eða einhverju slíku. Í þessari notkun samsvarar orðið enska orðinu cancel en ein merking þess er 'to completely reject and stop supporting someone, especially because they have said something that offends you' eða 'að hafna einhverjum algerlega og hætta stuðningi við þau, einkum vegna þess að þau hafa sagt eitthvað sem hneykslar þig'.

Í dag var hér spurt um notkun myndarinnar slaufaður sem er að forminu til lýsingarháttur þátíðar af slaufa. Fyrirspyrjandi hafði heyrt sagt hann var slaufaður þar sem búast mætti við honum var slaufað vegna þess að sögnin stjórnar þágufalli á andlagi sínu og germyndarandlag í þágufalli heldur yfirleitt falli sínu þótt það sé gert að frumlagi í þolmynd, t.d. (einhver) hjálpaði honum honum var hjálpað, ekki *hann var hjálpaður. En þessi fallbreyting er þó ekki einsdæmi. Það er nefnilega algengt að lýsingarhátturinn fái setningafræðilegt hlutverk lýsingarorðs og þá er ekki um að ræða þolmynd, lýsingu á athöfn, heldur germynd, lýsingu á ástandi. Honum var slaufað er þolmynd, hann var slaufaður germynd.

Um þetta má nefna fjölda dæma sem þykja góð og gild og eiga sér langa sögu í málinu, svo sem hliðinu var lokað sem lýsir athöfn og hliðið var lokað sem lýsir ástandi. Nærtækast er þó að benda á sögnina útskúfa sem er merkingarlega mjög lík slaufa en lýsingarháttur hennar hefur lengi getað gegnt hlutverki lýsingarorðs. Í Þjóðviljanum 1904 segir: „hengdi á hann danskan stórkross, um leið og honum var útskúfað úr þjónustu landsins“ en í sama blaði 1905 segir: „Það er hjá Hómer som nú er útskúfaður eins og allt annað sem öll Evrópu-menntun hvílir á.“ Það verður því ekki séð að neitt í merkingu sagnarinnar slaufa ætti að koma í veg fyrir setningar eins og hann var slaufaður – við erum bara ekki vön þeim enn sem komið er.

Hin nýja notkun slaufa sem vísað var til hér að framan er nefnilega ekki nema tveggja eða þriggja ára gömul, og það er ekki fyrr en með henni sem þörf skapast fyrir lýsingarorð af sögninni – elstu dæmi sem ég finn um slaufaður eru frá 2021, svo sem „Svo ertu slaufaður ef þú ert á móti skoðunum fréttastofu sem á ekki að hafa skoðun heldur segja fréttir“ í Fréttablaðinu það ár. Vissulega má halda því fram að slaufaður sé tilkomið fyrir ensk áhrif, sé þýðing á cancelled, en þá er litið fram hjá því að hin nýja merking sagnarinnar kallar á þessa mynd. Eins og áður segir er fjöldi hliðstæðra dæma í málinu við hann var slaufaður og engin ástæða til að amast við því – við þurfum bara að venjast því eins og öðrum nýjungum.