Opna og loka hurð eða dyrum
Því er oft haldið fram að það sé „órökrétt“ – og þar af leiðandi rangt –að tala um að opna hurðina og loka hurðinni vegna þess að hurðin sé ekki op, heldur fleki sem er notaður til að loka dyrum. Í Málfarsbankanum er sagt „eðlilegt að tala um að opna og loka dyrunum sem maður fer inn um (eins og talað er um að opna og loka gati eða opi). Síður skyldi segja: „opna hurðina, loka hurðinni“. Það er þó ljóst að þegar í fornu máli var talað um að opna, loka og lúka upp/aftur hurðum.
Í Eyrbyggju segir „Hurðin var opin en heimakona ein var í dyrunum“, í Sturlungu segir „Hann skyldi geyma að hurðir væru opnar ef þeir Þorvarður kæmu þar um nóttina“, í Laxdælu segir „hér hafa hurðir verið loknar eftir þessum manni“ og „Þeir lúka aftur hurðina og taka vopn sín“ og svo mætti lengi telja. Mikill fjöldi dæma um opna/loka hurð er líka á tímarit.is, frá 19. öld og allar götur síðan. Einnig má nefna dæmi úr bókmenntum – „Opnar Öngull hurð“ kvað Hannes Pétursson í kvæðinu „Í Grettisbúri“.
Í ýmsum orðasamböndum sem þykja góð og gild mætti líka halda því fram að notkun orðanna hurð og dyr sé ekki „rökrétt“. Það er talað um að berja á dyr eða berja að dyrum enda þótt venjulega sé barið á hurðina, ekki dyrnar. Eins er talað um að drepa á dyr og knýja dyra – þótt í Grettis sögu segi Illugi reyndar „Knýr Hösmagi hurð bróðir“. Málfarsbankinn segir líka „Bæði er hægt að læsa hurð og læsa dyrum enda er lás á hvorutveggja“ – sem fer reyndar eftir því hvernig lás er skilgreindur.
Sagnirnar opna og loka fela vitanlega í sér hreyfingu eða breytingu á ástandi, og það er óneitanlega staða hurðarinnar sem breytist en ekki dyranna. Þess vegna er ekki augljóst að einhver rökleysa felist í því að nota hurð í þessum samböndum. En það er mjög athyglisvert að skoða muninn á loka og opna í þessu samhengi í tveimur gríðarstórum textasöfnum – tímarit.is og Risamálheildinni. Sé aðeins litið á ótvíræðar sagnmyndir kemur í ljós að hlutfall dæma um hurð með loka er 38-39%, en talsvert lægra með opna, eða kringum 26-27%.
Það er sem sé talsvert algengara hlutfallslega að tala um að loka hurð en opna hurð, og merkilegt að hlutföllin eru nánast þau sömu í báðum söfnunum þótt textarnir á tímarit.is spanni 200 ár en Risamálheildin taki aðallega til texta frá 21. öld. En munurinn á loka og opna er athyglisverður og ég hef á tilfinningunni að hann sé ekki tilviljun. Þegar þarf að loka er hurðin og hreyfing hennar meira í fókus en þegar þarf að opna beinist athyglin meira að dyrunum.
Þetta styrkist enn frekar þegar skoðuð eru dæmi með lýsingarorði, lokuð/opin hurð og lokaðar/opnar dyr. Það eru sárafá dæmi um hurð í slíkum samböndum – um eða innan við 4% af heildinni. Þar er um kyrrstöðu að ræða, verið að lýsa ástandi en ekki hreyfingu. Vegna þess að hreyfingin virðist vera forsenda þeirrar tilhneigingar að nota hurð fremur en dyr með loka og opna er eðlilegt að þeirrar tilhneigingar gæti lítið þegar hreyfingin er ekki til staðar.
Merkingarleg skil dyra og hurðar hafa því alltaf verið óskýr og orðin löngum getað komið hvort í annars stað í ýmsum samböndum. Það er því engin furða að upp komi dæmi eins og standa í hurðinni, ganga út um hurðina o.fl. Ég mæli samt ekki með slíkum dæmum og fyndist æskilegt að halda sig við að tala um dyr í þeim. Hins vegar finnst mér alveg einboðið að opna hurðina og loka hurðinni sé talið gott og gilt mál.