Opnunartími

Orðið opnunartími er þyrnir í augum margra málvöndunarmanna. Málfarsbankinn segir: „Betra er að tala um afgreiðslutíma, þjónustutíma eða opið frá/milli en „opnunartíma“. Orðið er ekki nýtt – elsta dæmi um það á tímarit.is er tæplega hundrað ára. Dæmum fjölgar hægt framan af en alger sprenging varð í notkun orðsins á níunda áratug síðustu aldar þegar mikil umræða hófst um opnunartíma verslana. Ástæðan fyrir því að amast er við orðinu er sú að sagt er að opnun merki 'verknaðinn að opna' og þess vegna hljóti opnunartími að merkja 'tími sem það tekur að opna' – sem geti ekki verið langur. Árið 1988 skrifaði Árni Böðvarsson grein í Morgunblaðið um það sem kann kallaði „rugling“ í notkun orðsins, og sagði m.a.: „Fleiri og fleiri glepjast til að kalla opnunartíma allan tímann sem opið er, það er allan afgreiðslutímann þangað til lokað er.“

Iðulega er bent á önnur orð sem hægt sé og rétt að nota í staðinn – einkum afgreiðslutími, en einnig þjónustutími o.fl. En stundum er hvorki verið að afgreiða nokkuð né veita nokkra þjónustu á þeim stöðum sem um er að ræða, t.d. í biðskýlum o.v. Þar að auki getur afgreiðslutími haft aðra merkingu, þ.e. 'tíminn sem það tekur að afgreiða vöru'. Besta tillagan sem ég hef séð er opnutími en það orð hefur ekki breiðst mikið út. Einnig hefur verið bent á að hægt sé að nota lýsingarorðið opinn – segja skrifstofan er opin frá 9-4 í staðinn fyrir opnunartími frá 9-4. Vissulega – en er það eitthvað rökréttara? Það er ljóst að opinn merkir ekki það sama í dyrnar eru opnar og skrifstofan er opin, enda getum við sagt skrifstofan er opin þótt dyrnar séu ekki opnar – það er engin mótsögn í því.

En er endilega víst að opnun merki bara 'verknaðinn að opna'? Vissulega er það rétt að viðskeytið -un merkir venjulega verknað – könnun merkir 'það að kanna', litun merkir 'það að lita', verslun merkir 'það að versla', o.s.frv. En mörg þessara orða geta líka merkt einhvers konar afurð verknaðarins, stað þar sem hann fer fram, o.fl. Þannig merkir verslun ekki bara 'það að versla' heldur líka 'fyrirtæki eða staður þar sem verslað er'. Á sama hátt merkir opnun ekki bara 'það að opna', heldur 'ástandið að vera opið'. Í Heimskringlu 1912 er t.d. fjallað um „risavaxnar framfarir hér, sem stafa af mörgu: opnun Panama skurðarins, sem hefir stórkostleg áhrif á alla ströndina“. Hér merkir opnun ekki bara atburðinn þegar skurðurinn var opnaður, heldur líka það ástand hans að vera opinn.

Hvað sem þessu líður, og hvaða merkingu sem við viljum leggja í orðið opnun, dylst engum hvað orðið opnunartími merkir – ekki heldur þeim sem amast við því. Fyrst við getum komið okkur saman um að skrifstofan er opin merki 'afgreiðsla er veitt á skrifstofunni' (óháð því hvort dyrnar eru opnar eða lokaðar) ættum við eins að geta komið okkur saman um að opnunartími skrifstofunnar merki 'sá tími sem afgreiðsla er veitt á skrifstofunni'. Orð merkja nefnilega ekki alltaf það sem þau „ættu að“ merkja frá einhverju röklegu sjónarmiði. Orð merkja það sem við komum okkur saman um að þau merki. Enginn misskilur orðið opnunartími.