Förum varlega í leiðréttingar
16. Íslensk málrækt felst í því að hneykslast ekki á málnotkun annarra eða vera sífellt að leiðrétta fólk og gera athugasemdir við málfar þess.
Hnökrar á málfari náungans hafa lengi verið vinsælt umræðuefni Íslendinga. Leiðréttingar á algengum „málvillum“ hafa verið eitt helsta viðfangsefni málfarspistla í blöðum, haldið hefur verið úti bloggsíðum með það að megintilgangi að gagnrýna og leiðrétta málfar fólks, og á Facebook er hópur með meira en átta þúsund þátttakendum þar sem mörg innlegg snúast um hneykslun og leiðréttingu á málfari. Reyndar byggjast þær athugasemdir sem þar eru gerðar iðulega á fordómum, útúrsnúningum eða þekkingarskorti á málfræði og þekktum tilbrigðum í málinu.
Það er engin kurteisi að gera óumbeðnar athugasemdir við málfar annarra – slíkar athugasemdir eru iðulega til bölvunar og geta leitt til þess sem Stefán Karlsson kallaði „málótta“, þar sem málnotendur veigra sér við „að tjá sig í riti, þó ekki sé nema í sendibréfi, eða að taka til máls á opinberum vettvangi, því að þeir óttast að brjóta þá bannhelgi orða og orðmynda, sem þeim hefur verið innrætt. Eftir því sem amazt er við fleiru, eftir því verður nemendum torveldara að muna hvað talið er óæskilegt, og þetta eykur á óöryggi málnotandans gagnvart því máli sem er þó hans eigið móðurmál og getur gert það fátæklegra eða annarlegra en vera þyrfti“.
Þetta á við um leiðréttingar sem gerðar eru í persónulegum samskiptum við fólk sem er komið af máltökuskeiði og á íslensku að móðurmáli. Öðru máli gegnir hins vegar um fólk sem kemur fram á opinberum vettvangi og hefur atvinnu af því að nota málið í ræðu eða riti. Við eigum kröfu á að það fólk vandi sig og beiti málinu af kunnáttu og þekkingu. Það er ekkert að því að benda á það sem betur má fara í máli þess, þótt auðvitað skipti máli hvernig þær ábendingar eru settar fram.
Alkunna er að á máltökuskeiði gera börn ýmsar villur í málnotkun, sé miðað við mál fullorðinna. Þekkt er t.d. að börn beygja sterkar sagnir veikt og segja hlaupaði, bítti, látti í stað hljóp, beit, lét o.s.frv. Það er ekkert óeðlilegt að foreldrar leitist við að leiðrétta börnin, þótt rannsóknir sýni reyndar að beinar leiðréttingar skili litlu. Árangursríkara er að hafa réttar myndir fyrir börnunum, en aðalatriðið er þó að sjá til þess að þau hafi næga íslensku í málumhverfi sínu – í samtali, lestri, hlustun og áhorfi. Þá koma réttu myndirnar oftast inn í mál þeirra fyrr en seinna, þótt vissulega geti stundum eitthvað breyst í máltökunni.
Fólk sem ekki á íslensku að móðurmáli gerir vitanlega ýmiss konar villur þegar það er að læra málið. Vissulega má halda því fram að því sé greiði gerður með því að leiðrétta þessar villur – það flýti fyrir því að það nái fullu valdi á málinu en festist ekki í óeðlilegu eða röngu málfari. Þetta er samt vandmeðfarið og viðhorf þeirra sem eru að læra málið til slíkra leiðréttinga er misjafnt – sumir taka þeim fegins hendi en öðrum finnst þær stuðandi. Áður en farið er að leiðrétta málfar fólks er þess vegna er æskilegt að reyna að komast að því hvort það vilji láta leiðrétta sig – og virða óskir þess.