Posted on Færðu inn athugasemd

Börn og samtöl

Seinnipartinn í dag röltum við hjónin niður í bæ og litum inn á listsýningu. Á heimleiðinni stungum við okkur inn á veitingahús og fengum okkur léttvínsglas. Á næsta borði voru hjón með barn, á að giska þriggja eða fjögurra ára gamalt. Allan tímann sem við sátum þarna og sötruðum úr glösunum okkar var barnið með síma í höndunum og horfði sem dáleitt á skjáinn án þess að segja orð – og ég varð ekki heldur var við að foreldrarnir yrtu á það.a

Ég get alveg skilið fólk sem fer með ung börn út í búð á annatíma, þreytt að loknum vinnudegi, og réttir börnunum síma til að hafa frið meðan það verslar. En öðru máli gegnir ef maður fer á kaffihús síðdegis á laugardegi. Þá ætti að vera hægt að slappa af og einmitt upplagt að nota tækifærið til að spjalla við barnið. Ég held að ung börn kunni yfirleitt að meta að þeim sé sýndur áhugi og séu til í að tala við foreldra sína.

Ég er ekki að amast við símanotkun ungra barna út af fyrir sig. Það eru skiptar skoðanir um hana og áhrif hennar og ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu að svo stöddu. Ég er ekki að halda því fram að allt hefði verið miklu betra áður og foreldrar sífellt verið að tala við börn sín. Það var auðvitað upp og ofan eins og nú. Ég er eingöngu að minna á mikilvægi samtalsins fyrir máltöku og málþroska – að talað sé við börn og þeim gefinn kostur á að hlusta á samtöl og taka þátt í þeim.

Ýmsar rannsóknir sýna að ekkert skiptir meira máli fyrir málþroska barna en samtöl við fullorðið fólk. Jafnframt er alltaf að koma betur og betur í ljós að góður málþroski skiptir máli fyrir allan annan þroska – félagsþroska, tilfinningagreind, og jafnvel verkgreind. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar noti allan þann tíma sem mögulegt er til að tala við börnin sín og freistist ekki til að nota síma eða tölvu til að kaupa sér frið nema það sé alveg nauðsynlegt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Við berum ábyrgð

Nýlega spruttu miklar umræður á ýmsum miðlum af grein sem birtist á Vísi um mikilvægi þess að læra mál landsins sem maður býr í. Þetta er ekki einfalt mál og fólk er fljótt að fara í skotgrafir í þessari umræðu. Íslenska er opinbert mál þjóðarinnar og það er ekkert óeðlilegt að vilja geta notað hana alls staðar á Íslandi. Ef okkur finnst ekkert athugavert við að íslenska sé víkjandi eða ónothæf við ýmsar aðstæður á Íslandi má búast við að við gerum ekkert í málinu og umdæmi íslenskunnar haldi áfram að skerðast. Það má ekki heldur gleyma því að því fer fjarri að allir Íslendingar tali ensku reiprennandi þótt það sé oft látið í veðri vaka. Það er eðlilegt að því fólki mislíki að geta ekki fengið þjónustu á íslensku og finnist það jafnvel utangátta í eigin landi.

Hins vegar skiptir öllu að kröfunni um að geta notað íslensku á öllum sviðum sé beint í rétta átt – að okkur sjálfum. Það erum við sem höfum ekki getað mannað ýmis láglaunastörf með innlendu vinnuafli og verðum því að fá fólk til landsins til að vinna þau störf. Það erum við sem stöndum okkur ekki nógu vel í því að semja hentugt kennsluefni í íslensku fyrir útlendinga. Það erum við sem bjóðum ekki upp á ókeypis íslenskunámskeið á vinnustöðum og víðar. Það erum við sem gefum fólki ekki tækifæri til að læra íslensku í vinnutímanum. Það erum við sem skiptum alltof oft yfir í ensku ef viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. Það erum við sem látum ergelsi okkar yfir því að geta ekki notað íslensku alls staðar bitna á fólki sem ekkert hefur til saka unnið – annað en tala ekki fullkomna íslensku.

Það er skiljanlegt að fólk sem kemur hingað til að vinna í skamman tíma hafi lítinn áhuga á því að setjast við að loknum löngum vinnudegi á lágmarkslaunum að læra tungumál sem er því oft mjög framandi – og borga stórfé fyrir. Ég hef hins vegar trú á því að fólk sem flytur hingað og ætlar sér að vera á Íslandi til frambúðar hafi undantekningarlítið fullan vilja til að læra málið – og leggi sig fram um það. En við þurfum að búa því betri aðstæður til þess, og vera þolinmóðari gagnvart ófullkominni íslensku.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fyrir bak við

Samböndin fyrir aftan, aftan við og (á) bak við er öll hægt að nota til að tjá sömu merkingu, þótt merking sambandanna falli ekki alveg saman og stundum eigi eitt þeirra við en hin ekki.  Í umræðu um nýju forsetninguna hliðiná kom fram að fólk, a.m.k. börn og unglingar, væri farið að segja fyrir bak við í stað fyrir aftan eða (á) bak við. Ég kannaðist ekki við þetta en gúgl skilaði mér fáeinum dæmum – þeim elstu frá 2005, þannig að þetta er ekki alveg nýtt. Þessi elstu dæmi eru annars vegar í bloggi pilts á framhaldsskólaaldri og hins vegar höfð eftir börnum innan við 10 ára aldur. Ef þetta hefur haldist í máli þessa fólks mætti því búast við að þess væri farið að gæta hjá fullorðnu fólki núna og komast á prent. Á tímarit.is fann ég tvö dæmi, það eldra frá 2013, og í Risamálheildinni fimm til viðbótar, það elsta frá 2010.

Með gúgli fann ég dæmi um eitt afbrigði enn – fyrir aftan við. Um það er eitt dæmi frá 1966 á tímarit.is en líklega er eðlilegt að líta á það sem villu. Næsta dæmi er frá 2008, og örfá svo eftir það. Hin þekktu og viðurkenndu orðasambönd fyrir aftan, aftan við og bak við hafa sem sé getið af sér tvö ný – fyrir aftan við og fyrir bak við. Það síðarnefnda virðist vera töluvert notað, a.m.k. meðal ungs fólks, en ég veit ekki um hitt. Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt að þessi sambönd blandist saman – fyrst hægt er að segja bæði fyrir aftan og aftan við í sömu merkingu, hvers vegna skyldi þá ekki vera hægt að segja fyrir aftan við? Og fyrst hægt er að segja fyrir aftan og bak við í sömu merkingu, hvers vegna skyldi þá ekki vera hægt að segja fyrir bak við? Það er svona eins og vera bæði með belti og axlabönd.

Ég hélt fyrst að fyrir bak við væri eingöngu hægt að nota þar sem bæði bak við og fyrir aftan gætu gengið. Ég rakst hins vegar á dæmið „Fólkið sem stendur fyrir bakvið …“ í merkingunni  ‘stendur að’, og í þeirri merkingu er eingöngu hægt að nota (á) bak við, ekki fyrir aftan. Það væri fróðlegt að vita hvort einnig er hægt að nota fyrir bak við þar sem aðeins fyrir aftan en ekki bak við kemur til greina. Það væru t.d. setningar eins og hann stóð næst fyrir aftan mig í röðinni þar sem ekki væri hægt að segja *hann stóð næst bak við mig í röðinni. Ég hef ekki fundið nein dæmi um fyrir bak við í slíkri stöðu, en dæmin um sambandið eru svo fá að það er ekki hægt að draga neinar ályktanir af því að þetta hafi ekki fundist.

Hvað á að segja um fyrir bak við (og fyrir aftan við)? Þetta eru auðvitað óþörf orðasambönd, í þeim skilningi að við höfum í málinu sambönd sem þjóna sama hlutverki og eru auk þess styttri. Þessi sambönd víkja líka frá málhefð sem alla jafna er æskilegt að halda sig við. Ef ég ætti börn á máltökuskeiði myndi ég sjálfsagt reyna að hafa hefðbundnu samböndin fyrir þeim í þeirri (veiku) von að þau legðu fyrir bak við af – og ef ég væri kennari myndi ég gera athugasemd við fyrir bak við í skrifum nemenda, nema ég væri orðinn sannfærður um að þetta væri orðið mjög útbreitt og á sigurbraut. Hins vegar eru þetta ekki stórfelld málspjöll og engin ástæða til að láta það raska ró sinni eða draga athygli og tíma frá því sem meira máli skiptir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kafklæddur

Nýlega rakst ég á orðið kafklæddur á Facebook. Þetta orð hafði ég aldrei séð áður en það var greinilega notað í sömu merkingu og kappklæddur sem er vel þekkt orð þótt það sé ekki ýkja algengt (um 78 þúsund orð eru algengari en það samkvæmt Orðtíðnivef Árnastofnunar). Ég þóttist viss um að þessi mynd stafaði af misskilningi sem rekja mætti til framburðar – það þarf ekki að vera ýkja mikill munur á kappklæddur og kafklæddur í framburði. Tvíritað pp er borið fram með svokölluðum aðblæstri, þ.e. hp, og þegar samhljóð kemur á eftir því hljóðasambandi getur það nálgast f í framburði. Orð eins og kappsfullur og kappsmál eru iðulega borin fram eins og þau væru rituð kafsfullur og kafsmál. Þetta gerist vissulega helst á undan s, en getur einnig gerst á undan öðrum samhljóðum og samhljóðaklösum.

Þetta væri þá hliðstætt því sem gerist þegar afbrýðisamur verður afbrigði(s)samur, reiprennandi verður reiðbrennandi, og fyrst að verður víst að. Eðlilegur framburður upphaflega afbrigðisins í samfelldu tali er þannig að það er hægt að túlka hann á fleiri en einn veg, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða orð sem eru ekki sérlega gagnsæ og eru því viðkvæmari fyrir breytingum en ella. Vel má vera að mismunandi skilningur á þessum orðum sé gamall í málsamfélaginu þótt hann hafi ekki komið í ljós fyrr en á síðustu árum. Vegna þess hve framburðarmunurinn er lítill tökum við ekki eftir því hvort viðmælandi okkar segir t.d. afbrýðisamur eða afbrigðissamur, en þetta kemur auðvitað í ljós þegar farið er að skrifa orðið. Nú sjáum við miklu meira af óyfirlesnum textum frá fólki sem er ekki vant að skrifa.

Ég þóttist sem sé viss um að kafklæddur væri misskilin orðmynd sem stafaði af því að framburður orðsins kappklæddur hefði verið ranglega túlkaður. En málið reyndist ekki alveg svo einfalt. Það kom nefnilega í ljós að myndin kafklæddur er ekki einsdæmi og ekki ný – elsta dæmi sem ég fann um hana er í Fjallkonunni frá 1893, þar sem segir „Á sama hátt eru börnin kafklædd inni“. Það er ljóst að merkingin er þarna sú sama og í kappklæddur. Samtals eru sex dæmi um kafklæddur á tímarit.is, það yngsta frá 1946. Auk þess fann ég dæmi úr tveimur skáldsögum eftir viðurkennda rithöfunda – Leysingu eftir Jón Trausta frá 1907 og Systrunum eftir Guðrúnu Lárusdóttur frá 1938. Elsta dæmi um kappklæddur á tímarit.is er frá 1862, og fram um 1940 eru dæmi um orðið sárafá – litlu fleiri en um kafklæddur. Hvorugt orðið kemur fyrir í orðabók Blöndals 1920-24.

Þessar myndir, kappklæddur og kafklæddur, virðast því koma upp um svipað leyti á seinni hluta 19. aldar – þótt elsta dæmið um þá fyrrnefndu sé 30 árum eldra er hæpið að leggja mikið upp úr því vegna þess hve dæmin eru fá. Ég veit ekkert um uppruna orðanna og verð bara að giska. Hvorug myndin er sérlega gagnsæ, en ef fólk reynir að skilja þær má ímynda sér að hugsunin á bak við kappklæddur sé ‘klæddur af kappi‘, þ.e. ákafa, eða eitthvað slíkt; kafklæddur sé aftur á móti ‘klæddur í kaf‘, þ.e. á kafi í fötum. Væntanlega hefur önnur þessara mynda orðið til fyrst en vegna þess að hún var ekki mjög gagnsæ, og framburðurinn bauð upp á aðra túlkun, skildu einhverjir málnotendur orðið á hinn veginn og því komu upp tvímyndir. Líklegra er að framburður á kappklæddur leiði til ritmyndarinnar kafklæddur en öfugt.

Hvernig sem upprunanum er varið er ljóst að með tímanum varð kappklæddur ofan á og kafklæddur hvarf úr rituðu máli – þangað til núna, þegar orðið dúkkar allt í einu upp á Facebook 75 árum eftir að það sást síðast á prenti svo að ég viti. Hvernig á að túlka það? Hér kemur tvennt til greina. Annar möguleikinn er sá sem ég nefndi í upphafi – að um sé að ræða misskilning þess sem setti orðið á Facebook á framburði orðsins kappklæddur. Hinn möguleikinn er að sá sem notaði orðið á Facebook hafi ekki misskilið neitt, heldur notað orðið eins og hann lærði það – myndin kafklæddur hafi sem sé lifað í málinu frá því á 19. öld þótt hún hafi ekki komist á prent í marga áratugi. Fróðlegt væri að vita hvort lesendur þekkja þessa mynd.