Posted on Færðu inn athugasemd

Ég er oní kjallara niðrí bæ

Í dálknum „Þankabrot Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1942 segir: „Sú hræðilega málvilla virðist breiðast út eins og skæð farsótt, að vera »ofan í« einhverju í stað: »niðri í«.“ Í Útvarpstíðindum 1943 segir: „Menn tala um að vera ofan í bæ, vera ofan í fjöru o. s. frv., í stað þess að segja ber að vera niðri í bæ, vera niðri í fjöru.“ Í „Þankabrotum Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1951 segir: „Önnur slæm málvilla sést öðru hverju í blöðunum og er algeng í talmáli unglinga. Það er að segja „ofan í“ fyrir „niðri í“.“ Í Íslendingi-Ísafold 1972 segir: „Á síðari árum heyrist æ oftar „ofan í“ fyrir „niðri í.“ Blaðamenn dagblaðanna eru óðum að ánetjast þessari nýju málvillu […].“ En „málvillan“ var reyndar alls ekki ný 1942, hvað þá 1972, eins og heimildir sýna vel.

Í Skólablaðinu 1909 skrifar Jón Þórarinsson: „Sunnlendingar (og víst Múlsýslingar og ef til vill fleiri) segja: Eg geymi hnykilinn »ofan í« skúffu; bærinn stendur »ofan í« dalnum o.s.frv. »Ofan í« í merkingunni »niðri í« er svo daglegt brauð hjer í Rvík, að menn er farið að greina á um það, hvort ekki megi alveg á sama standa, hvort heldur sagt er. Og sumir hafa alveg hausavíxl á þessum orðum.“ Jón taldi sig hafa kveðið „þetta sunnlenska »ofan í«  niður“ hjá börnunum. „En svo kemur átta ára stelpan með »Norðurland« í hendinni og segir hróðug: Pabbi, líttu á! Hjerna stendur: Ofan í spiladósinni er ljósastika með logandi kerti; og þetta skrifar Einar Hjörleifsson [Kvaran]; og mátti eg þá ekki líka segja um daginn, að stúlkurnar væru ofan í kjallara að þvo?“

En þótt þessi málvenja sé orðin meira en aldargömul er enn verið að amast við henni. Í Málfarsbankanum segir: „Orðin ofan í og niður í, sem eru sömu merkingar, eru notuð um hreyfingu: þau létu sig síga niður/ofan í hellinn. Orðin niðri í eru notuð um dvöl á stað: þau héldu til niðri í hellinum. Samkvæmt þessu gengi ekki að segja „þau héldu til ofan í hellinum“ sem er þó útbreidd málvenja.“ Málfarsbankinn slær því greinilega dálítið úr og í með þetta. Þar segir einnig: „Atviksorðið niðri er notað um dvöl: vera niðri í fjöru. Atviksorðið niður er nota um hreyfingu: fara niður í fjöru.“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Rétt væri að segja: Hann var uppi á fjallinu en kom ofan hlíðina niður í dalinn og er nú niðri við ána.“

En hvað þótti athugavert við að nota ofan í um dvöl? Vissulega vísar ofan oftast til hreyfingar niður, og í áðurnefndum „Þankabrotum Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1951 segir: „Það er hægt að fara ofan en ekki vera ofan.“ Það er alveg rétt, en það skiptir máli hvort sagt er ofan í eða bara ofan. Það má færa rök að því að ofan í sé orðið að sérstöku orði (sbr. orðalag Málfarsbankans hér að framan) enda er það nánast alltaf borið fram oní (og iðulega skrifað þannig líka – hátt í 6.600 dæmi eru um þann rithátt í Risamálheildinni). Þótt ofan eitt og sér vísi oftast til hreyfingar eins og áður segir þarf oní ekki að gera það. Í nútímamáli er mjög algengt að nota ofan í um dvöl – og líklega ekki mörgum ljóst að eitthvað hafi þótt athugavert við það.

Svipað er með niður í sem Málfarsbankinn bendir á að vísi til hreyfingar – það er oft notað um dvöl, eins og ofan í, og sú notkun er varla yngri en notkun ofan í um dvöl. Í Þjóðólfi 1890 segir: „öll önnur föt hans voru niður í koffortinu.“ Í Plógi 1900 segir: „Hefur það að líkindum verið niður í Akratungum.“ Í eðlilegum framburði falla niðri í og niður í venjulega saman, hvort tveggja borið fram niðrí (og 13.400 dæmi um þann rithátt í Risamálheildinni). Það má þess vegna halda því fram að niðrí sé orðið sjálfstætt orð, eins og oní, sem notað sé bæði um hreyfingu og dvöl. Þótt bæði ofan í og niður í hafi upphaflega aðeins átt við um hreyfingu er því komin löng hefð á að nota samböndin um dvöl og fráleitt að amast við því.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ég þori því ekki

Í mínu ungdæmi þótti hræðileg „málvilla“ að segja ég þori því ekki í stað ég þori það ekki. Þetta var álíka vont og hin illræmda „þágufallssýki“ mér langar, mér vantar o.þ.h., og raunar oft fellt undir hana þótt þágufallið með þora sé annars eðlis. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er nefnt að þágufall sé notað með þora á Vestfjörðum og flest hinna fáu dæma um þágufallið frá fyrsta þriðjungi 20. aldar á tímarit.is eru úr ísfirskum blöðum. Í Vestra 1917 segir: „sumar halda jafnvel að þær hafi ekki leyfi til að ráða kennara fyrir hærri laun, eða þora því ekki vegna almennings.“ Í Skutli 1926 segir: „Og svo fór Wilson úr forsetastól að hann þorði því ekki“. Í Vesturlandi 1934 segir: „Munu þeir máske helzt þora því, er þeir vita Jón Auðunn fjarstaddan.“

Við þessu var lengi amast. Í Samtíðinni 1943 segir Björn Sigfússon: „Þágufallssýkin, sem kölluð er, nær til æ fleiri sagna með hverju ári og veldur glundroða. […] Rangt er að þora því ekki, en rétt að þora það ekki.“ Í Íslendingi 1951 segir: „Þágufallspestin færist með ári hverju í aukana. Má heita, að annarhvor unglingur og nokkuð af fullorðnu fólki segist ekki „þora því“ […].“ Í Vísi 1956 segir Eiríkur Hreinn Finnbogason: „Gömul þágufallssýki er það að nota þgf. með sögninni að þora, segja þora því, þora engu í staðinn fyrir þora það, þora ekkert. Þetta ætti að varast, þó að gamalt sé sums staðar.“ Í Morgunblaðinu 1996 er spurt: „Væri rétt að segja: Hann sagðist ekki þora því?“ og svarað: „Rétt væri: Hann sagðist ekki þora það.

Það kvað þó við annan tón í greininni „Um málvöndun“ eftir Halldór Halldórsson prófessor sem birtist fyrst í Stíganda 1943. Þar segir: „Á Vesturlandi er alþýðumál að segja: Ég þori því ekki. Á Norðlendinga orkar þetta sem ambaga, því að þeir segja: Ég þori það ekki. En þetta myndi á sama hátt vera talin málleysa á Vestfjörðum. Hvorir hafa nú rétt fyrir sér? Ef þetta er athugað í fornum ritum, kemur í jós, að norðlenzkan er upprunalegri. En er hún að réttari? Ég sé ekki rök fyrir því. Ég þori því ekki er orðið sameiginleg villa um Vestfjörðu, og það veitir réttinn […]. Hvort tveggja er því jafnrétt, annað er vestfirzka, en hitt norðlenzka.“ Halldór var frá Ísafirði og trúlegt að hann hafi alist upp við þora því – sem gæti hafa haft áhrif á mat hans.

A.m.k. hafði hann ekki sömu afstöðu til mér langar heldur sagði: „Er þetta rétt mál? Því fer fjarri. Og ástæðan til þess er sú, að það hefir hvergi hlotið almenna viðurkenningu sem rétt mál. Mikill hluti þjóðarinnar í öllum landsfjórðungum finnur, að þetta stríðir gegn málkennd hans, mönnum finnst þetta vera málvilla, og meðan svo er, getur þetta ekki talizt sameiginleg villa og hefir því engan rétt á sér.“ Og hann bætti við: „Það mætti því segja, að það eitt sé rétt mál, sem hlotið hefir þá viðurkenningu að vera rétt mál.“ En síðan þetta var skrifað eru liðin 80 ár og notkun þágufalls með langa, vanta og fleiri sögnum hefur breiðst mjög út. Mörgum finnst þetta ekki vera málvilla, heldur er það eðlilegt mál þeirra. Það er tími til kominn að viðurkenna það.

Þrátt fyrir að Halldór Halldórsson viðurkenndi þora því fyrir 80 árum var lengi haldið áfram að amast við því eins og sýnt er hér að framan. Í Morgunblaðinu 2006 var birt ábending undir fyrirsögninni „Gætum tungunnar“ sem áður hafði birst í samnefndu kveri 1984: „Rétt er að segja: Ég þori það, þú þorir það, hann eða hún þorir það, þeir, þær eða þau þora það.“ Ég hef grun um að mörgum finnist enn að þora því sé rangt – í Morgunblaðinu 2012 birti Baldur Hafstað bréf frá kennara sem sagði: „Þegar ég var barn leiðrétti mamma mig alltaf þegar ég sagði „ég þori því ekki“. Ég átti að segja „ég þori það ekki“ og síðan ég loks lærði það hef ég haldið mig við það. Nú segja flestir þori því ekki, maður tekur eftir ef einhver segir þorir það.“

Þetta er í raun óvenju skýrt dæmi um þá ósamkvæmni og tilviljanir sem birtast í því hvaða tilbrigði í máli eru „viðurkennd“ og hver ekki. Í Málfarsbankanum segir: „Sögnin þora stýrði upprunalega þolfalli en er nú líka farin að stýra þágufalli. Bæði kemur því til greina að segja ég þori það ekki og ég þori því ekki.“ En auðvitað mætti segja nákvæmlega hliðstætt um langa, vanta, dreyma og fleiri sagnir – þær stýrðu upprunalega þolfalli á frumlagi sínu en eru nú líka farnar að stýra þágufalli. Samt er mér langar, mér vantar og mér dreymir enn talið rangt. Þó að það komi ekki fram þykir mér einsýnt að á bak við samþykki Málfarsbankans við þora því liggi áðurnefnd skoðun Halldórs Halldórssonar, sem væntanlega tók mið af hans eigin máli.

En fleiri dæmi má nefna um að málnotkun sumra málnotenda vegi þyngra en annarra þegar spurt er hvað sé „rétt mál“. Í málfarsþætti í Morgunblaðinu sem áður er vísað til sagði Baldur Hafstað, eftir að hafa nefnt að samkvæmt Íslenskri orðabók teldust þora það og þora því jafngild orðasambönd: „Mér hefur verið sagt að þora því tíðkist mjög á Vestfjörðum. Í sinni ágætu skáldsögu, Hjarta mannsins, sem gerist þar vestra, segir Jón Kalman: „… hann þorir ekki öðru en að taka við …“ Hér stýrir sögnin þora semsagt þágufalli.“ Síðan segir: „Jón Kalman er sannur töframaður í stílbrögðum og málbeitingu.“ Á bak við þetta virðist liggja sú hugmynd að málfar slíks stílsnillings hljóti að vera rétt – fyrst hann notar þora því megum við hin það líka.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að koma úr gagnstæðri átt

Í Málvöndunarþættinum sá ég vísað í frétt um bíla sem lentu í árekstri og „komu úr gagnstæðri átt“. Málshefjandi sagðist „freistast til að halda að þeir hafi komið sinn úr hvorri áttinni“. Um þetta hefur nokkrum sinnum áður verið fjallað í Málvöndunarþættinum, m.a. í innleggi sem ég skrifað þar sjálfur fyrir fjórum árum og sagði þá: „Í fréttum af umferðarslysum er mjög oft talað um „gagnstæða átt“, t.d. „bílarnir komu úr gagnstæðum áttum“, „rakst á bíl sem kom úr gagnstæðri átt“ o.s.frv. Mér sýnist á tímarit.is að tíðni þessa sambands hafi aukist verulega á síðustu áratugum. Það er auðvitað ekkert að þessu en vel mætti þó hafa meiri fjölbreytni í orðalagi, segja t.d. „bílarnir komu hvor á móti öðrum“, „rakst á bíl sem kom á móti“ o.s.frv.“

Orðalagið úr gagnstæðri átt er gamalt í árekstralýsingum. Í Heimskringlu 1893 segir: „En þá vildi svo til að inn rauðhærði Merkúríus Mr. Pleggits kom með jafn-hraðri ferð og í álíka vígamóði fyrir sama húshorn úr gagnstæðri átt, og sá hvorugr annan fyrri en þeir runnu hvor í fang öðrum á strætishorninu.“ Í Ísafold 1893 segir: „Eitt sinn kom Smith á flugferð fyrir götuhorn, en í sömu svipan bar hinn unga mann þar að viðlíka hratt úr gagnstæðri átt. Skullu þeir hvor á annan og fjellu af baki.“ Í Reykjavík 1910 segir: „Hraðlest, sem var á leið frá Berlín til Vínarborgar rakst með fullri ferð á flutningslest, sem kom úr gagnstæðri átt.“ Í Vísi 1912 segir: „Bifreið hans rakst á tvær aðrar bifreiðar er komu úr gagnstæðri átt.“

Þarna er alltaf byrjað að nefna annan aðilann en hinn kemur svo úr gagnstæðri átt við hann. Það er ekki fyrr en mun síðar að farið er að nefna báða aðila í sömu andrá og þeir sagðir koma úr gagnstæðum áttum – í fleirtölu. Í Alþýðublaðinu 1960 segir: „Ökumenn og hestamenn þurfa á mun meiri viðbragðsflýti að halda, ef hestar og bifreiðar koma úr gagnstæðum áttum á sama vegarhelmingi.“ Í Vísi 1965 segir: „Annar bíllinn var vörubifreið en hinn sendiferðabifreið og komu þeir úr gagnstæðum áttum.“ Í Vísi 1970 segir: „Tveir bílar, sem komu úr gagnstæðum áttum, rákust þar á á töluverðum hraða.“ Í Morgunblaðinu 1971 segir: „Bílarnir komu úr gagnstæðum áttum, en sá er var á norðurleið ætlaði hins vegar að beygja vestur Álfheima.“

En fljótlega var einnig farið að nota eintöluna, úr gagnstæðri átt, í dæmum af þessu tagi. Í Alþýðublaðinu 1971 segir: „Tildrög voru þau, að um klukkan hálf eitt í nótt komu tveir bílar úr gagnstæðri átt eftir Hringbraut og mættust þeir á móts við hús nr. 81.“ Í sama blaði sama ár segir: „Þar komu tveir jeppar úr gagnstæðri átt, en í stað þess að mætast eðlilega, óku þeir beint saman og var höggið mikið.“ Í Alþýðublaðinu 1973 segir: „Þeir komu úr gagnstæðri átt og mættust á miðri leið.“ Í Vísi 1976 segir: „Komu bílarnir úr gagnstæðri átt og lentu saman á blindhæð.“ Í Morgunblaðinu 1977 segir: „Engin boð- eða bannmerki eru þarna, sem gefa ökumönnum er koma úr gagnstæðri átt til kynna hvor skuli víkja fyrir hinum.“

Bæði eintala og fleirtala hafa því tíðkast í setningum af þessu tagi í meira en hálfa öld, en eintalan virðist þó talsvert algengari. Sumum finnst þó órökrétt að nota eintölu þar sem áttirnar eru ómótmælanlega tvær og því hljóti að vera eðlilegra að segja komu úr gagnstæðum áttum. En hvor bíll (eða hvað svo sem það er sem lendir í árekstri) kemur þó aðeins úr einni átt – hinn kemur úr gagnstæðri átt. Þegar sagt er bílarnir komu úr gagnstæðri átt merkir það 'gagnstæðri átt hvor við annan' en óþarft er að segja hvor við annan því að það segir sig sjálft. Það er komin löng hefð á bæði eintölu og fleirtölu í slíkum setningum og engin hætta á misskilningi. Það breytir því ekki að ekkert væri á móti því að nota stundum annað orðalag til tilbreytingar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvernig aukum við íslenskan orðaforða unglinga?

Í framhaldi af viðtali við Þorgrím Þráinsson á Bylgjunni fyrir viku hafa orðið miklar umræður um orðaforða barna og unglinga sem fer minnkandi að margra mati. Þar skiptir þó viðmiðið öllu máli. Ég sé enga ástæðu til að efast um að þetta sé rétt út frá eðlilegu viðmiði okkar flestra, sem er okkar eigin orðaforði. Þegar yngra fólk kann ekki einhver orð sem við kunnum og teljum almennt mál drögum við þá ályktun að orðaforði unga fólksins sé minni en okkar. Að einhverju leyti er þetta auðvitað eðlilegt og óhjákvæmilegt. Þjóðfélagið breytist hratt og ný hugtök og fyrirbæri koma til en önnur verða úrelt á móti. Þessu fylgir breyttur orðaforði og ekkert við því að segja þótt eðlilegt sé að við sem eldri erum sjáum eftir orðum sem við ólumst upp við.

En öðru máli gegnir þegar ensk orð koma í stað íslenskra um hugtök og fyrirbæri sem enn eru í fullri notkun í samfélaginu. Þorgrímur Þráinsson nefndi dæmi um að unglingar þekktu ekki orðið afgangur og töluðu um change-ið í staðinn og í viðtali við Lindu Björk Markúsardóttir í framhaldi af grein sem hún skrifaði fyrir átta árum nefndi hún að mörg íslensk börn þekktu ekki orðið blýantur og töluðu um pencil í staðinn. Það er enginn skortur á hliðstæðum dæmum og frá sjónarmiði íslenskunnar er þetta auðvitað áhyggjuefni, en það táknar samt ekki að orðaforði barnanna hafi minnkað, í þeim skilningi að þau eigi í einhverjum vandræðum með að tala um tiltekna hluti. Þetta bendir hins vegar til þess að tiltekin orð skorti í íslenskan orðaforða þeirra.

Sumum finnst væntanlega að íslenski orðaforðinn sé það eina sem skipti máli. En ef unga fólkið getur talað um tiltekin efni þótt það noti ensk orð en ekki íslensk sýnir það að hæpið er að nota orð eins og „fáfræði“, „vanþekking“ og önnur slík, hvað þá „heimska“, til að lýsa ástandinu. Ég gæti reyndar best trúað að íslenskir unglingar nú á dögum geti talað um fleiri og fjölbreyttari efni en jafnaldrar þeirra fyrir hálfri öld eða svo, en málumhverfi þeirra, einkum hið stafræna, veldur því að ensk orð eru oft nærtækari en þau íslensku. Það er ekki unglingunum að kenna. Og það er ekki heldur foreldrunum að kenna nema þá að litlu leyti. Það stafar af breytingum á samfélagi og tækni sem eru miklu meiri og hafa miklu víðtækari áhrif en við áttum okkur á.

Ef við viljum reyna að stöðva þessa þróun og snúa henni við þurfum við þess vegna að breyta málumhverfi barna og unglinga og hugsa máluppeldi þeirra upp á nýtt. Við þurfum að sjá til þess að þau kynnist sem flestum fyrirbærum og hugtökum í gegnum efni á íslensku, hvort sem það er fræðsluefni, afþreying, skemmtiefni eða annað. Með því móti stuðlum við að því að þau tileinki sér íslenskan orðaforða fremur en enskan – eða a.m.k. samhliða þeim enska. Vandinn er auðvitað sá að það er tilfinnanlegur skortur á fjölbreyttu efni á íslensku sem höfðar til barna og unglinga – þess vegna leita þau í efni á ensku. Þarna stendur upp á stjórnvöld að stórauka styrki til þess að framleiða hvers kyns íslenskt efni, og einnig til að þýða erlent efni á íslensku.

En það táknar auðvitað ekki að foreldrar og aðrir uppalendur séu stikkfrí. Þau þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum – átta sig á því að íslensku orðin lærast ekki af sjálfu sér, eins og þau gerðu kannski áður, heldur þarf að halda íslenskunni að börnunum. Hugsanlega þarf að takmarka sjónvarpsáhorf, skjátíma og símanotkun – ég hef ekki næga þekkingu til að hafa neina skoðun á því og hef almennt séð ekki mikla trú á að stýra máli og málnotkun með boðum og bönnum. Foreldrar geta hins vegar reynt að bjóða börnunum upp á efni á íslensku eins og kostur er, hvatt þau til að lesa bækur á íslensku og lesið fyrir þau. Aðalatriðið er þó að tala sem mest við börnin – bæði um hversdagslega hluti og um fjölbreytt efni sem þau hafa áhuga á.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þemað, þeman eða þeminn?

Í innleggi hér fyrir helgi var spurt: „Hefur fólk tekið eftir því að fólk virðist farið að nota „þema“ í bæði karl- og kvenkyni?“ Ég hafði ekki tekið eftir því en fann slæðing af dæmum um hvort tveggja, flest á samfélagsmiðlum. Á Málefnin.com segir 2013: „En samt er þeman í fjölmiðlum alltaf sú sama.“ Á Hugi.is segir 2004: „Að mínu mati finnst mér þetta koma miklu betur út, og rautt passar betur við þemuna.“ Á Málefnin.com segir 2013: „Ég skil þetta þannig að klámið sé að breyta þemunni.“ Á Vísi 2009 segir: „Einhver skrýtinn spænskur þemi í króatíska laginu.“ Í DV 2009 segir: „Með henni voru dansarar með horn og svo virtist sem þeminn væri nautabanar.“ Á Hugi.is segir 2011: „Þetta er málað með þemanum svart, rautt, dökkblátt.“

Farið var að nota orðið í íslensku í þessari mynd á sjöunda áratugnum. Elsta dæmi sem ég finn á prenti er í Þjóðviljanum 1966, í heiti á þýddu ljóði: „Þema með tilbrigðum.“ Í Alþýðublaðinu 1968 segir: „Reynt verði að velja ætíð þau viðfangsefni (þemu) til meðferðar, sem þykja eiga brýnt erindi við fólkið sem sýnt er fyrir og eru tímabærar.“ Í Morgunblaðinu 1968 segir: „Eins og fyrr er þema þeirra ástin, syndin, dauðinn og goðsögnin.“ En myndin tema hafði verið notuð töluvert frá því snemma á öldinni. Elsta dæmi sem ég finn er í Morgunblaðinu 1921 þar sem segir: „Þau tvö temu, sem þátturinn flytur, eru að jafnaði gagnólík.“ Þessi mynd er enn stundum notuð – í Morgunblaðinu 2018 segir: „Þetta er ákaflega blönduð sýning, engin sérstök temu.“

Orðið þema/tema er skýrt 'megininntak verkefnis eða listaverks' í Íslenskri nútímamálsorðabók og er tökuorð úr dönsku þar sem það er skrifað tema og borið fram með t sem skýrir notkun myndarinnar tema fyrstu áratugina. Í ensku er orðið aftur á móti skrifað theme og borið fram með þ og tilkomu myndarinnar þema má væntanlega skýra með auknum enskum áhrifum. Orðið er hvorugkynsorð og eins í öllum föllum eintölu. En flokkur veikra hvorugkynsorða er mjög lítill og hefur nær eingöngu að geyma heiti líffæra og líkamshluta – auga, eyra, hjarta, nýra, milta, eista. Örfá orð annars eðlis slæðast með, eins og bjúga. Orðið þema fellur því ekki að flokknum merkingarlega sem gæti skýrt tilhneigingu til að breyta kyni þess og beygingu.

Langflest nafnorð sem enda á -a í nefnifalli eintölu – og þau eru gífurlega mörg – eru kvenkynsorð. Því er engin furða að þessi sægur togi þema til sín og orðið fái stundum kvenkynsbeygingu, sérstaklega þar sem það rekst illa í sínum hvorugkynsflokki merkingarlega eins og áður segir. Karlkynsmyndir orðsins má aftur á móti skýra út frá aukaföllunum – veik karlkynsorð, sem eru mjög mörg, enda á -a í aukaföllum eins og þema. Það er ekkert einsdæmi að ný nefnifallsmynd sé búin til út frá aukaföllum. Þekkt dæmi um slíkt er myndin talva sem er búin til út frá aukaföllunum tölvu, eftir mynstrinu kaka – köku. Þannig er þemi búið til út frá þema eftir mynstrinu hani – hana. En ég mæli samt með að við höldum okkur við hvorugkynið.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hrynjandin eða hrynjandinn?

Í tölvupósti sem ég fékk fyrir helgi var bent á að orðið hrynjandi hefði verið notað í karlkyni á fréttavef Ríkisútvarpsins – „Ekki alveg sami hrynjandi í fyrirsögninni við þennan mola og í upphafi kvæðis Jónasar.“ Bréfritari sagði að sér hefði „alltaf þótt fara best á að hafa þetta sem karlkynsorð“ en Málfarsbankinn og orðabækur hefðu það í kvenkyni, og bætti við: „Málfarsbankinn nefnir raunar fleiri orð sem kvenkynsorð sem málvitund mín býður að séu karlkyns, til dæmis stígandi, sem ég held nú að sé í huga meirihluta fólks karlkynsorð.“ Þetta er alveg rétt – Málfarsbankinn segir: „Orðið hrynjandi er kvenkynsorð frá fornu fari ásamt nokkrum fleiri orðum sem enda á -andi: fögur hrynjandi, fögur kveðandi, mikil stígandi.

Það er hins vegar rétt að benda á að í Íslenskri orðabók eru þessi þrjú orð, hrynjandi, kveðandi og stígandi, öll gefin upp bæði í karlkyni og kvenkyni, en með mismunandi merkingu. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er hrynjandi sagt „kvk/kk“ en aðeins merkingin 'háttbundinn flutningur tóna, hljómfall, taktur' gefin. Aftur á móti eru kveðandi og stígandi aðeins gefin sem kvenkynsorð, það fyrrnefnda í merkingunni 'hljóðfall í flutningi bundins máls, hrynjandi' en það síðarnefnda í merkingunni 'það að e-ð hækkar og magnast jafnt og þétt (t.d. í kveðskap og bókmenntum)'. Í Íslenskri orðsifjabók er stígandi eingöngu gefið sem karlkynsorð og fornmálsdæmi um það eru öll í karlkyni, en það kemur eingöngu fyrir sem nafn eða viðurnefni.

Nafnorð sem enda á -andi eru upphaflega lýsingarháttur nútíðar af sögn og eru langflest karlkynsorð – eigandi, gerandi, nemandi, neytandi, sendandi, þiggjandi, þolandi o.s.frv. Það er því engin furða að orðin hrynjandi, kveðandi og stígandi hafi tilhneigingu til að feta í fótspor þeirra og verða karlkynsorð, sérstaklega þar sem samhljóma karlkynsmyndir eru til í annarri merkingu eins og áður segir. Gömul dæmi eru um öll orðin í karlkyni í sömu merkingu og kvenkynsorðin – um hrynjandi frá 18. öld, um kveðandi frá 19. öld og um stígandi einnig frá 19. öld. Raunar er óljóst á hverju sú fullyrðing Málfarsbankans stígandi sé kvenkynsorð „frá fornu fari“ byggist – e.t.v. hefur það fengið kvenkyn vegna merkingarlíkinda við hin orðin tvö.

Í áðurnefndu bréfi til mín klykkti bréfritari út með því að segja: „Mætti ekki endurorða umvandanir málfarsbankans og segja að karlkynsmyndir þessara orða hafi fyrir löngu hlotið fastan sess og fari ekki í neinum meginatriðum gegn málfræði íslensku?“ Ég ræð vitaskuld ekki orðalagi Málfarsbankans en get alveg tekið undir þetta. Eins og hér hefur komið fram eiga karlkynsmyndir orðanna sér langa hefð og viðskeytið -andi er langoftast karlkynsviðskeyti. Ég get ekki séð neitt að því að viðurkenna bæði karlkyn og kvenkyn þessara orða sem gott og gilt mál. Málið þolir alveg tilbrigði – það er ekkert nauðsynlegt að við notum það öll á sama hátt. Lifi fjölbreytileikinn!

Posted on Færðu inn athugasemd

Orðlausir unglingar?

Undanfarna daga hefur talsvert verið fjallað um viðtal við Þorgrím Þráinsson rithöfund á Bylgjunni á fimmtudaginn var. Þorgrímur hefur verið gífurlega ötull við að fara í grunnskóla og ræða við nemendur og á skilið mikið hrós fyrir það. Hann talaði mikið um símanotkun og mikilvægi þess að banna farsíma í skólum. Ég ætla ekki að hafa skoðun á því – aðeins ræða um það sem hann sagði um samtal sitt við fjóra 15 ára stráka í Hafnarfirði. „Ég spurði strákana: „Strákar, hvað þýðir „orðaforði“? Ekki glætu. Hvað þýðir „hvoru tveggja“? Ekki hugmynd. Þjálfari sagði við mig í gær: „Ég bað um meiri gæði á æfingu. Leikmenn spurðu: „Hvað meinarðu gæði?“ [...] Afgangur? Hvað meinarðu afgangur? Ertu að tala um change-ið?“

Það er auðvelt fyrir okkur fullorðna fólkið að hneykslast á þessu enda sýnist mér enginn skortur á því. Dæmisögur af þessu tagi geta vissulega verið stuðandi en hafa lítið almennt gildi – ekki er hægt að alhæfa neitt um orðaforða unglinga út frá þeim. En spyrjum okkur samt: Af hverju ættu 15 ára unglingar að kunna orð eins og orðaforði, hvoru tveggja, gæði og afgangur? Eða réttara sagt: Hvernig hefðu þau átt að læra þessi orð? Koma þau fyrir í venjulegu málumhverfi þeirra eða í því sem þau lesa eða horfa á? Og við þetta má bæta: Þurfa þau eitthvað á þessum orðum að halda í því þjóðfélagi sem þau eru að alast upp í? Er ekki miklu skynsamlegra og gagnlegra fyrir þau að leggja áherslu á orð sem nýtast og þörf er á í samtímanum?

Áhyggjur af minnkandi orðaforða barna og unglinga eru ekki nýjar. Í Menntamálum 1942 fjallar Stefán Jónsson um „þær breytingar, sem ég tel mig hafa orðið varan við á málfari barna á liðnum 20 árum, og sem að mínum dómi boða alvarlega hættu. Þessi hætta […] er vaxandi útbreiðsla þágufallsvitleysunnar og minnkandi orðaforði barna og unglinga á skólaaldri.“ Í ályktun kennara á Mið-Vesturlandi 1954 segir: „Fundurinn lítur svo á, að minnkandi orðaforði barna sé alvarleg hætta fyrir íslenzkt mál og menningu.“ Í ályktun Kennarafélags Eyjafjarðar 1959 segir: „Mörg rök hníga að því, að íslenzk tunga eigi nú í vök að verjast, bæði vegna áhrifa frá erlendu máli, enskunni, og minnkandi orðaforða barna og stíllausri frásögn.“

Fjölda annarra sambærilegra dæma mætti tína til, bæði eldri og yngri, og samkvæmt þessu hefur orðaforði barna og unglinga stöðugt farið minnkandi undanfarna öld a.m.k. Ef rétt væri mætti búast við að ungt fólk gæti varla stunið upp einu orði nú á tímum. En auðvitað er það ekki svo. Málið er að það er ekki til neinn mælikvarði á stærð orðaforða fólks. Fyrir ýmis erlend mál eru vissulega til stöðluð orðaforðapróf en þau byggjast alltaf á gefnum forsendum um tiltekin orð sem börn og unglingar á tilteknum aldri eigi að kunna – að mati fullorðna fólksins sem semur prófin. En engin slík próf eru til fyrir íslensku, og fullyrðingar um minnkandi orðaforða íslenskra barna og unglinga byggjast eingöngu á tilfinningu – tilfinningu fullorðna fólksins.

Við Þorgrímur erum á svipuðum aldri þótt hann sé aðeins yngri – báðir aldir upp úti á landi í þjóðfélagi sem var svo gerólíkt því sem nú er að það er erfitt að gera sér breytinguna í hugarlund nema hafa upplifað hana. Breyttu þjóðfélagi fylgja breytingar í máli – það er óhjákvæmilegt. Mikill fjöldi nýrra orða bætist við en önnur falla í gleymsku á móti. Þannig hefur þetta alltaf verið þótt endurnýjunin sé væntanlega örari nú en oftast áður vegna hraðra þjóðfélagsbreytinga. Auðvitað er eftirsjá að orðum sem gleymast. En er eitthvað meiri skaði að þeim en sjónvarpslausum fimmtudögum, sendibréfum, sveitaböllum og Bítlunum, svo að nefnd séu fáein horfin fyrirbæri úr hversdagsmenningu unglingsára okkar sem erum á sjötugsaldri?

Ég legg áherslu á að ég er alls ekki að gera lítið úr áhyggjum Þorgríms og annarra af stöðu íslenskunnar. Það má vel vera að orðaforði barna og unglinga fari minnkandi þótt ekkert sé hægt að fullyrða um það og þrátt fyrir nokkuð galgopalegt tal hér að framan er ég sannarlega á því að samfella í málinu sé mikilvæg og óheppilegt ef orðaforðinn endurnýjast of ört. Það er gífurlega mikilvægt að foreldrar tali við börn og lesi fyrir þau og með þeim. Það er svo sameiginlegt verkefni foreldra og skóla að hvetja börn og unglinga til lestrar og skapandi skrifa. Stjórnvöld þurfa svo að stuðla að því með fjárveitingum að til sé gott úrval af hvers kyns fræðslu, list, skemmtun og afþreyingu á íslensku. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Posted on Færðu inn athugasemd

Brast hann eða honum hæfi?

Nýlega var hér vísað til umræðu um blaðafrétt þar sem sagði í myndatexta „Bjarni Benediktsson segir af sér sem fjármálaráðherra eftir álit umboðsmanns Alþingis um að honum hafi brostið hæfi við söluna á hlut ríkisins“ og í fréttinni sjálfri sagði að Bjarni væri „miður sín að hafa séð þá niðurstöðu að sér hafi brostið hæfi í söluferlinu.“ Þetta vildu sumir þátttakendur í umræðunni kalla dæmigerða „þágufallssýki“, og í Málfarsbankanum segir vissulega: „Sögnin bresta getur verið ópersónuleg og stendur þá með henni frumlag í þolfalli. Hana brestur kjark.“ Ég fór að hugsa um þetta aftur eftir fyrirspurn sem kom hér í gær og þegar ég skoðaði málið komst ég að því að þetta er fjarri því að vera svo einfalt að hægt sé að afgreiða það sem „þágufallssýki“.

Jón G. Friðjónsson nefnir fjögur mismunandi fallamynstur frumlags og andlags þegar sögnin bresta er notuð með aukafallsfrumlagi. Tvö þeirra skipta máli hér: þolfall + bresta + þolfall, eins og mig brestur þekkingu, og þágufall + bresta + nefnifall. Um það mynstur nefnir Jón dæmi úr fornu máli: „en þó brestur þeim stundum vísdómurinn, þá er þeim liggur mest við“ úr Göngu-Hrólfs sögu, og „öngvan tíma brestur honum sín regla“ og „takandi það ráð er þeim hafði aldrei brostið“ úr Nikuláss sögu erkibiskups, handriti frá 1375-1400. Jón segir dæmi af þessari gerð „úrelt enda eru slík dæmi nánast eingöngu kunn í fornu máli“ og bætir við: „Rétt er að taka það fram að dæmi af [þessari] gerð eru óskyld því sem kallað er þgf.-sýki eða þágufallshneigð.“

Þar er væntanlega vísað til dæma eins og mér brestur kjarkur sem eru algeng í nútímamáli og hafa verið a.m.k. undanfarna öld – „þeim brast vit og kjarkur til að greiða atkvæði með vantraustsyfirlýsingu Sigurðar prests Stefánssonar“ segir t.d. í Íslendingi 1918 og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er tekið dæmiðe-n (sj. e-m) brestur e-ð“. Hér stendur „sj.“ fyrir „sjældent“ sem sýnir að þágufallið hefur verið þekkt, og er gefið athugasemdalaust. Jón útskýrir ekki hvers vegna hann segir slík dæmi óskyld fornmálsdæmum með sama fallamynstur en það er trúlega vegna þess að hann telur merkinguna ekki þá sömu. Í fornmálsdæmunum er merkingin 'bregðast, svíkja' eða eitthvað slíkt en í nútímamáli oftast ‚'vanta (e-ð), skorta (e-ð)'.

Vitanlega er það algengt að mismunandi merkingartilbrigðum sagna fylgi mismunandi föll. Þannig tekur bresta t.d. nefnifallsfrumlag í merkingunni 'brotna, slitna, gefa sig'. En í þessu tilviki er munurinn á 'vanta, skorta' og 'bregðast, svíkja' oft óljós. Hvað merkir t.d. að bresta minni? Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Fram kom einnig í máli sumra stjórnarmanna að þá brast minni varðandi einstaka þætti málsins“ og í Morgunblaðinu 2003 segir: „Oft var það að þegar mér brast minni ef rifja þurfti upp gamalt vísubrot.“ Merkir þetta að minnið hafi skort eða það hafi brugðist á ögurstundu? Í fyrra tilvikinu væri eðlilegt að segja mig brast minni samkvæmt framansögðu, en í því seinna væri mér brast minni eðlilegt – og alls engin „þágufallssýki“.

Orðið kjarkur er sérlega áhugavert í þessu sambandi vegna þess að fallmyndir þess eru ólíkar. Þegar það fær þágufallsfrumlag kemur andlagið nefnilega oftast fram í nefnifalli í stað þolfalls. Þetta má sjá á tveimur dæmum úr Morgunblaðinu 2003: „stjórnmálamenn brestur kjarkinn og þora ekki að framfylgja settum lögum og reglum“ og „mönnum bresti kjarkurinn til að afmarka raunveruleg viðfangsefni“. Í fyrra dæminu er þolfall + bresta + þolfall, í því seinna þágufall + bresta + nefnifall. Hliðstætt gerist aldrei með sögnina vanta sem einnig hefur mynstrið þolfall + vanta + þolfall – við fáum aldrei *mér vantar matur eða neitt slíkt. Þetta bendir til þess að í bresta sé um að ræða færslu úr einu fallamynstri í annað, frekar en „þágufallssýki“.

Vissulega er ekki ótrúlegt að hin alþekkta þágufallshneigð sem kemur fram með ýmsum sögnum eins og vanta, langa, dreyma, hlakka til o.fl. hafi þarna einhver áhrif og ýti undir notkun þágufalls með bresta, enda kemur fyrir að frumlagsfall eitt breytist, ekki andlagsfall – á Eyjunni 2012 segir að „Þorvaldi hafi brostið kjark“. En það breytir því ekki að mynstrið þágufall + bresta + nefnifall er gamalt í málinu og fullkomlega eðlilegt frá merkingarlegu sjónarmiði þegar um er að ræða eitthvað sem getur brugðist við tilteknar aðstæður, svo sem minni, þor, kjarkur o.fl. Svo má velta fyrir sér hver merkingin sé í dæmunum sem vitnað var til í upphafi – hvað merkir það að bresta hæfi? Merkir það að hæfið skorti, eða það hafi brugðist í tilteknu máli?

Posted on Færðu inn athugasemd

Að keyra hart – eða hratt

Í innleggi hér í morgun var nefnt sambandið keyra hart sem málshefjandi, sem er frá Siglufirði, sagðist hafa alist upp við. Ég segi það sama – ég ólst upp við þetta í Skagafirði og í umræðum um þetta nefndu fleiri Skagfirðingar að þeir hefðu vanist því að nota atviksorðið hart í þessari merkingu. En einhvern tíma heyrði ég, væntanlega annaðhvort í skóla eða í þættinum „Daglegt mál“ í útvarpinu, að þetta væri rangt – hart væri af lýsingarorðinu harður en þarna ætti að nota atviksorðið hratt, af lýsingarorðinu hraður, sbr. líka nafnorði hraði. Á þessum tíma var ég mikill málvöndunarmaður og tók þetta því alvarlega og hef síðan forðast að keyra hart. Athugasemdir í blöðum sýna að amast hefur verið við notkun orðsins hart í þessari merkingu.

Þannig segir t.d. í dálknum „Þankabrot Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1955: „„Hlauptu harðara“ var algengt að heyra sagt í ungdæmi mínu, þegar hvetja þurfti unglinga til að flýta sér, m.ö.o. auka „hraðann“. Orðunum „hart“ og „hratt“ var mjög ruglað saman. Nú vita menn, að „harður“ og „hraður“ er ekki hið sama.“ Í Vikunni 1962 kvartar „Særð móðir“ yfir lestrarbók frá Ríkisútgáfu námsbóka þar sem er „sagt að menn hlaupi hart, bílar aki hart, hlutir snúizt hart í hring o.s.frv. Þar er einnig sagt frá því að grjót sé hart viðkomu og aðrir harðir hlutir. Það er langt síðan ég kenndi börnunum mínum að þau hlypu aldrei hart, heldur hratt, og þóttist vel hafa gert, þegar þau vöndu sig á að gera greinarmun á þessum tveim orðum.“

Gísli Jónsson virðist ekki hafa verið andstæðingur þess að nota hart í merkingunni 'hratt' ef marka má eftirfarandi tilvitnun: „Þá hafa menn fyrir satt að hraður sé að uppruna sama og harður, enda fyrir löngu ýmist talað um að ríða hratt eða hart. í Njálu segir Skammkell: „Hart ríðið þér, sveinar,“ í för þeirra félaga að Hlíðarenda.“ Jón G. Friðjónsson nefnir dæmi um ríða hart í Vatnsdælu þar sem hart merkir 'harkalega; á miklum hraða' og telur „að hvort tveggja sé rétt: ríða hart og ríða hratt. Fyrra afbrigðið á sér stoð í fornu máli og styðst við málvenju en vera má að merkingin í fornu máli sé ekki alveg sú sama og í nútímamáli. Síðara afbrigðið á sér ýmsar hliðstæður í fornu máli og fellur vel að merkingu lýsingarorðsins hraður.“

Merkingin 'hurtigt' í hart er gefin athugasemdalaust í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og af dæmum á tímarit.is um sambönd eins og aka hart, fara hart, keyra hart og ríða hart má ráða að notkun hart í merkingunni 'hratt' hefur verið mjög algeng á fyrri hluta 20. aldar. Í Íslenskri orðabók er sambandið ríða hratt gefið með skýringunni 'mjög hratt'. Notkun hart í þessari merkingu fór minnkandi um og eftir miðja öldina, væntanlega vegna þess að barist hefur verið gegn henni – í Íslenskri nútímamálsorðabók er merkingin 'hratt' gefin með dæminu hann ók mjög hratt en þetta er sagt „gamalt“, og nær engin dæmi eru um hart í þessari merkingu í Risamálheildinni. En það er samt enginn vafi á því að hart í merkingunni 'hratt' er rétt mál.

Posted on Færðu inn athugasemd

Það er ekkert til sem heitir „þágufallssýki“

Í Málvöndunarþættinum var í fyrradag bent á myndatexta á mbl.is þar sem sagði: „Bjarni Benediktsson segir af sér sem fjármálaráðherra eftir álit umboðsmanns Alþingis um að honum hafi brostið hæfi við söluna á hlut ríkisins.“ Í sömu frétt sagði einnig að Bjarni væri „miður sín að hafa séð þá niðurstöðu að sér hafi brostið hæfi í söluferlinu.“ Í umræðum um þetta sagði einn þátttakenda: „Sú var tíðin að „honum brast hæfi“ hét þágufallssýki, en nú er öldin önnur, heitir víst þróun.“ Þetta er alveg rétt – orðið „þágufallssýki“ hefur lengi verið notað um það að hafa frumlag með tilteknum sögnum í þágufalli. En það var ekki notað sem hlutlaust fræðiorð, heldur til að gera lítið úr fólki, niðurlægja það og hæðast að því vegna málnotkunar sinnar.

Alvarlegust er sú sjúkdómsvæðing sem felst í heitinu. Í Samtíðinni 1943 sagði Björn Sigfússon: „Þágufallssýki er gömul á Íslandi […] En landfarsótt hefir hún aldrei verið nema á okkar dögum“ og í Austurlandi 1952 sagði hann: „Þágufallssýki er alvarlegur kvilli og smitar ört.“ Gísli Jónsson sagði eitt sinn að „þágufallsýki“ minnti „reyndar leiðinlega á limafallssýki og niðurfallssýki“ og Bubbi Morthens sagði í Fréttablaðinu 2019: „Orðið þágufallssýki er þrútið af hroka enda hafa menn gegnum tíðina notað tungumálið nánast sem valdatæki þeirra sem töluðu rétt mál og skrifuðu rétt og beitt því gegn þeim sem notuðu það ekki rétt eða gátu ekki skrifað rétt. Þeir voru settir á lúserabásinn og urðu niðursetningar íslenskrar tungu.“

Um þetta má nefna ótal dæmi. Í Morgunblaðinu 1952 segir: „Kona, sem hafði laglega rödd gerði sig seka um mikla yfirsjón í kvennatíma útvarpsins í fyrrakvöld. Tunga hennar var heltekin slæmum sjúkdómi, þágufallssýkinni illræmdu. […] Það var óskaplegt að hlusta á þetta. Ung kona með fallega rödd má ekki segja svona vitleysur. Hvorki ungir né gamlir mega syndga svona gegn frumreglum íslenzkrar tungu, sízt af öllu í útvarpinu.“ Í Morgunblaðinu 1954 segir: „Fyrir utan allt annað þjáðist flutningsmaður af magnaðri þágufallssýki. Svona manni ætti ríkisútvarpið ekki að hleypa að, það er blátt áfram skaðlegt máli og mennt. Það er krafa okkar útvarpsnotenda, að útvarpið hafi gát á, hverjum það hleypir að hljóðnemanum.“

Í Vísi 1956 segir: „Eitt var þó tilfinnanlegt í orðræðum hennar, og það var, að þessi prúða unga stúlka, sem nú stundar nám í þriðja bekk Menntaskólans, var haldin slíkri þágufallssýki, að hún gat ekki beygt þriðju persónufornafn í eintölu rétt. Sagði orðrétt: „Honum langar að tala við þig“ í stað „Hann langar að tala við þig.“ Vonandi rækir blómarósin skólanám sitt svo samvizkusamlega, að henni takist að vinna bug á þessari hvimleiðu sýki, sem virðist vera meira en lítið útbreidd hér í höfuðstaðnum.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Sennilega hefur allt verið gott og rétt, er þessir menn sögðu, en einn þeirra var svo hljóðvilltur, og þar að auki þágufallssjúkur, að hann átti sannarlega ekkert erindi að hljóðnemanum.“

En ummæli af þessu tagi birtust ekki bara í lesendabréfum í dagblöðum. Sjálft Nóbelsskáldið Halldór Laxness skrifaði í Þjóðviljanum 1959: „En skrílmenníngin hefndi sín þegar flámælinu var útrýmt: þágufallssýkin, krakkamál úr Reykjavík, óhugsandi fyrirbrigði hjá fullorðnu fólki fyrir tveim-þrem áratugum, hefur risið einsog pestarbylgja úr göturæsum höfuðstaðarins og ekki aðeins sýkt heimilin, þannig að fullorðna fólkið hefur tekið þágufallsambögurnar eftir málviltum börnum sínum, heldur brotið veggi skólanna, svo sjálfir barnakennararnir hafa í mörgu falli lyppast niður fyrir túngutaki óburðugustu skjólstæðínga sinna; þágufallssjúkir menn eru útskrifaðir úr Háskóla Íslands.“ Hér eru stóryrðin sannarlega ekki spöruð.

Og Halldór Halldórsson prófessor segir í Morgunblaðinu 1976: „Á fundinum barst talið að svo nefndri þágufallssýki. Sagði námstjórinn, að hann hefði sjálfur gefizt upp við að venja börn sín af henni. Áhrif götunnar væru svo mikil, að hann teldi það tilgangslaust og ráðlagði kennurunum að fara að dæmi sínu og láta afskiptalaust, hvort nemendurnir væru þágufallssjúkir eða ekki. […] Ég lít ekki svo á, að það sé hlutverk skóla að gefast upp fyrir áhrifum götunnar né stuðla að því, að út úr þeim komi linjumenni. Þessi stefna virðist þó eiga nokkru fylgi að fagna nú. Samkvæmt mínum skilningi er það hlutverk skóla að vinna á móti áhrifum götunnar, með öðrum orðum að leitast við að gera menn að menntamönnum, en ekki götustrákum.“

„Þágufallssýkin“ var  oft tengd við höfuðborgarsvæðið en talin lítt áberandi á Norðurlandi. Þetta kemur vel fram í lesendabréfi í Tímanum 1955 þar sem sagt er að „hlakkar mig nú til“ hafi verið haft eftir nafngreindri konu í Vísi, en konan sé „góður Norðlendingur, og þess vegna útilokað, að hún hafi sagt þessa ambögu“ sem „særir […] eyru hreinna Norðlendinga“. Í Þjóðviljanum 1963 segir um nýtt leikrit: „„Elektrónískum“ áhrifum er beitt í leiknum og það óspart, en af hinum smærri stílbrögðum má nefna þágufallssjúkan Suður-Þingeying.“ Augljóslega þótti fráleitt að Þingeyingur væri þágufallssjúkur. Í Norðurlandi 1978 segir Þingeyingur um heimasveit sína: „Þágufallssýki brá fyrir á einum þremur bæjum, og var nokkuð skopast að.“

Á seinni árum er vissulega minna um það í fjölmiðlum en áður að gert sé lítið úr fólki vegna „þágufallssýki“ og annarra tilbrigða í máli. Þó bregður því fyrir enn – í Vísbendingu 2004 segir: „Þágufallssjúkur fræðimaður vekur samstundis efasemdir um færni á sínu sérsviði.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir í grein eftir (fyrrverandi) alþingismann, undir millifyrirsögninni „Þágufallssjúkur lögfræðingur“: „Næstur til að fræðast af sýslumanni og lögfræðingum hans var lögfræðingur sem sagði „mér langar að spyrja“. Að öðru leyti voru spurningarnar óskiljanlegar.“ Þarna er augljóslega verið að nota málfar til að ómerkja málflutning mælanda (reyndar kom í ljós að um misheyrn var að ræða og engin „þágufallssýki“ á ferðum).

En þótt niðrandi ummæli af þessu tagi séu sem betur fer orðin sjaldgæf í fjölmiðlum vaða þau enn uppi í athugasemdadálkum vefmiðla og á samfélagsmiðlum. Enn má eiga von á að rekast á fordómafull ummæli eins og í Bæjarblaðinu 1957: „Hins vegar stafar þágufallssýkin bæði af vanþekkingu og trassaskap. Það er hreint og beint viðbjóðslegt að heyra fólk segja: „Mér langar á bíó“, eða „Henni hlakkar til jólanna“.“ Þetta er ljótt – þetta er mannfjandsamlegt. Og það er einnig og ekki síður fjandsamlegt íslenskunni. Guðbergur Bergsson sagði í viðtali í blaðinu 2006: „Ég kunni ekki að skammast mín fyrir það að fólkið heima var þágufallssjúkt og flámælt.“ Við eigum ekki að skammast okkar fyrir það mál sem við erum alin upp við.