Veitum ungu fólki hlutdeild í málinu

23. Íslensk málrækt felst í því að veita ungu kynslóðinni hlutdeild í málinu – láta hana finna að hún hafi eitthvað um íslenskuna að segja.

Í meira en þúsund ár var íslenskt þjóðfélag tiltölulega stöðugt. Þetta var bændasamfélag þar sem kynslóðirnar bjuggu undir sama þaki og fengust í sameiningu við þau verk sem þurfti að sinna. Það var fátt um nýjungar í atvinnuháttum og hugmyndum og ef um eitthvað slíkt var að ræða náði það til allra aldurshópa. Reynsluheimur flestra var svipaður öldum saman og það þýddi vitanlega að sáralítill munur var á tungutaki og orðaforða ungs fólks og gamals – það komu engin ný umræðuefni til.

Nú hefur þetta gerbreyst eins og alkunna er og ekki þarf að útlista. Reynsluheimur ungs fólks er að verulegu leyti annar en þeirra sem eldri eru, og þá um leið málfar og orðaforði. Það leiðir til þess að fullorðna fólkið – sem ávallt er hinn sjálfskipaði dómari og ákveður viðmiðið – telur að málinu sé alltaf að hraka, orðaforði skreppi saman og beygingar brenglist. Það hneykslast á því að unglingarnir kunni ekki ýmis orð og orðtök sem tengjast úreltum atvinnuháttum í land­bún­aði og sjávarútvegi en áttar sig ekki á – eða telur lítilsvert – að unglingarnir kunna í staðinn ótal orð og orðasambönd sem tengjast þeirra reynsluheimi.

Við erum alltaf að segja unglingunum að nota íslensku, að þau beri ábyrgð á að vernda hana og varðveita – en við gefum þeim enga hlutdeild í henni. Þau eiga að nota íslenskuna eins og við viljum hafa hana, ekki eins og þeim er eiginlegt. Þau eiga að tileinka sér reglur sem samrýmast ekki málkennd þeirra. Þau eiga að tala eins og við en ekki eins og þau sjálf. En við þurfum að átta okkur á því og viðurkenna að við eigum íslenskuna öll saman – unga fólkið líka. Þess vegna má ungt fólk nota íslenskuna á sinn hátt.

Það kemur ekki í veg fyrir að við brýnum það fyrir því að fara vel með hana. En ef við látum alltaf eins og unga fólkið sé að skemma íslenskuna fyrir okkur hinum er ekki von til þess að það fái jákvætt viðhorf til hennar og rækti með sér áhuga á að skila henni áfram til sinna barna. Forsenda þess að íslenskan lifi áfram er auðvitað sú að nýjar og nýjar kynslóðir vilji nota hana. En þá þarf hún að þjóna þörfum þeirra – gera þeim kleift að tala um viðfangsefni sín og hugðar­efni á þann hátt sem þeim er eiginlegt, með þeim orðum og því málfari sem þær kjósa.

Það gerir hún ekki ef við leggjum áherslu á þekkingu á orðum og orðasamböndum frá fyrri tíð og reglur sem eru í ósamræmi við málkennd fólks, t.d. um beygingar og fallstjórn. Þess í stað þarf að þjálfa nemendur á öllum skólastigum í að leika sér með málið, átta sig á fjölbreytileik þess, og reyna á sköpunarmátt þess. Ég efast ekki um að margir kennarar geri einmitt þetta. En hendur þeirra eru ansi bundnar meðan enn er verið að prófa í „réttu“ máli og „röngu“. Hættum því – og ræktum málið þess í stað með því að leyfa því að leika lausum hala. Það margborgar sig.