Posted on Færðu inn athugasemd

Enska í strætó, taka tvö

Ég ferðast ekki með strætó nema einu sinni eða tvisvar á ári – þegar ég þarf að fara með bílinn minn á verkstæði uppi í óbyggðum. Í hvert skipti tek ég eftir því að ýmsar leiðbeiningar, sem m.a. varða öryggi, eru eingöngu á ensku. Ég fór með tveimur vögnum áðan og þetta gilti um þá báða. Ég hef oftar en einu sinni skrifað upplýsingafulltrúa Strætó um þetta og fyrir þremur árum sagði hann: „Samkvæmt öllum gæðastöðlum þá eiga að vera leiðbeiningar á íslensku í öllum bílunum. Við þurfum greinilega að láta yfirfara alla vagnana“ og bætti við að haft hefði verið samband við viðkomandi verktaka. Það hefur greinilega ekki skilað árangri.

Nú er auðvitað ekki um flóknar leiðbeiningar að ræða, og sjálfsagt finnst mörgum þetta smámál sem ekki taki því að nefna – „það skilja jú allir ensku“. En í fyrsta lagi er það ekki rétt að allir Íslendingar skilji ensku, og í öðru lagi er það bara ekki aðalatriði málsins. Aðalatriðið er að það á að vera sjálfsagt metnaðarmál að allar slíkar upplýsingar, ég tali nú ekki um mikilvægar öryggisleiðbeiningar, séu á íslensku. Það er í samræmi við íslenska málstefnu, og einnig málstefnu Reykjavíkurborgar – ég veit að Strætó er ekki borgarfyrirtæki en mér fyndist samt eðilegt að málstefnan væri þar höfð í heiðri.

Ég legg áherslu á að ég geri engar athugasemdir við að í vögnunum séu leiðbeiningar á ensku. Þvert á móti – mér finnst það sjálfsagt vegna þess að ekki skilja allir farþegar íslensku. En enskan má alls ekki koma í stað íslensku. Það er auðvitað ekki mikil fyrirhöfn eða kostnaður að prenta límmiða á íslensku og setja við hlið ensku miðanna eða fyrir ofan þá. Það er metnaðarleysi og til skammar fyrir fyrirtæki í eigu almennings að hafa þetta svona. Það þýðir ekkert fyrir Strætó að skjóta sér á bak við það að þetta séu vagnar í eigu verktaka – það væri auðvelt að setja í samninga ákvæði um að allar merkingar skuli vera á íslensku.

Posted on Færðu inn athugasemd

Gagnsæi nýyrða

Það er gaman að velta fyrir sér nýjum orðum – hvernig þau verða til, hvernig viðtökur þau fá, og hvernig hægt er að koma þeim í almenna notkun. Hugmyndir okkar um (raunverulegt og ímyndað) gagnsæi íslenskunnar gera það að verkum að við viljum helst geta lesið merkingu orðs út úr myndun þess – ekki bara vísbendingu um merkinguna, og ekki bara hluta hennar, heldur alla merkinguna og ekkert umfram hana. Það getur verið hægara sagt en gert að koma henni allri fyrir í einu orði án þess að nokkuð annað fljóti með. En ekki nóg með það – það er hreint ekki víst að öllum sem nota orðið beri saman um merkingu þess í smáatriðum. Þess vegna er algengt að sumum þyki tiltekið nýyrði villandi eða ónothæft vegna þess að það afvegaleiði málnotendur.

Fyrir allnokkru var farið að nota orðið röskun og samsetningar af því um það sem á ensku heitir disorder – ýmiss konar frávik frá dæmigerðri hegðun, líkamlegu atgervi eða líkamsstarfsemi. Þetta er ágætt orð og ýmsar samsetningar með því vel heppnaðar og mikið notaðar. Ein þessara samsetninga er mótþróaþrjóskuröskun sem er þýðing á oppositional defiant disorder. Þetta er með lengstu orðum – 20 bókstafir, sjö atkvæði og fjórar rætur. Þarna má velta fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að enska heitið skili sér svo nákvæmlega inn í íslenska orðið. Það er ekki langt á milli mótþróa og þrjósku merkingarlega séð, og e.t.v. hefði verið heppilegra að tala annaðhvort um mótþróaröskun eða þrjóskuröskun. En ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði og get ekki fullyrt um það.

Annað dæmi, talsvert ólíkt, má taka af heiti farartækis sem á ensku nefnist electric scooter. Það hefur undanfarið breiðst út eins og eldur í sinu hér á landi og því hefur spurningin um hvað eigi að kalla þetta fyrirbæri á íslensku iðulega komið upp. Upphaflega var þetta oft kallað rafmagnshlaupahjól vegna útlitslíkingar við gömlu hlaupahljólin. En bæði er þetta langt og stirt orð og svo finnst sumum orðhlutanum hlaup vera ofaukið – fólk hleypur ekki í neinum skilningi á þessum hjólum eins og á fótknúnum hlaupahjólum. Þess í stað virðist orðið rafskúta vera meira og meira notað um fyrirbærið. Það orð er auðvitað myndað með hliðsjón af enska heitinu – raf sem þýðing á electric og skúta sem hljóðlíking við scooter.

Slíkar hljóðfræðilegar aðlaganir eru auðvitað ekki einsdæmi og margar fullkomlega viðurkenndar, t.d. bæti sem er komið af byte. En ýmsum þykir rafskúta ótækt orð vegna þess að orðið skúta er vitanlega til í málinu, í gerólíkri merkingu. Það er samt ekki endilega næg ástæða til að hafna orðinu. Það eru fjölmörg dæmi í málinu um samhljóma orð – orð sem hljóma eins en merkja ekki það sama og eiga sér mismunandi uppruna. Eitt dæmi er orðið bakki sem getur merkt 'barmur, brún; hóll, hæð; aflangur skýjabólstur (við sjóndeildarhring); bakbrún á eggjárni' og 'grunnt fat, smáskutull (til að bera vistir á borð), bytta'. Fyrra orðið er af germanskri rót en það seinna komið úr latínu og jafnvel upphaflega keltneskt samkvæmt Íslenskri orðsifjabók.

Þessi tvö dæmi eru vissulega gerólík – annað er íðorð úr ákveðinni fræðigrein, hitt er orð úr almennu máli. Þau sýna samt bæði ýmis álitamál sem koma upp þegar verið er að finna íslensk orð fyrir ný hugtök og fyrirbæri. Þar hættir okkur til að vera bókstafstrúar og festa okkur í einhverjum reglum og viðmiðum sem við höfum einhvers staðar lært, eða hafa komið fram hjá einhverjum sem telja sig vita hvernig orðin eigi að vera. Það er ekkert að því að mismunandi skoðanir á nýjum orðum og mismunandi tillögur um orð komi fram, bæði frá sérfræðingum á því sviði sem um er að ræða og frá málfræðingum. En á endanum er það málsamfélagið sem sker úr um það hvaða orð lifa – og hvaða merkingu þau hafa.

Posted on Ein athugasemd

inngilding

Í dag lenti ég alveg óvart inni í umræðu á Facebook um orðið inngilding sem Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent á Menntavísindasviði, bjó til fyrir nokkrum árum sem þýðingu á inclusion. Það orð hefur oft verið þýtt sem án aðgreiningar og talað um skóla án aðgreiningar, samfélag án aðgreiningar o.fl. en það er dálítið stirt. Í þessari umræðu fannst mér koma fram dálítill misskilningur á eðli og merkingu orða.  Sumir þátttakendur í umræðunni eru ekki sáttir við orðið inngilding – segja að það skilgreini hugtakið sem um er að ræða ekki vel, sé gildishlaðið, nái ekki yfir hugtakið, og sé jafnvel orðskrípi.

Áðurnefndur misskilningur er mjög skiljanlegur út frá þeim hugmyndum okkar að orð eigi að vera „gagnsæ“ – segja sjálf hvað þau merki, þannig að fólk átti sig á merkingu þeirra þótt það hafi ekki heyrt þau eða séð áður. Því hefur lengi verið haldið að okkur að íslensk orð séu einmitt svona. Það er vissulega sannleikskjarni í því – en bara kjarni. Þótt orð feli oft í sér einhverja vísbendingu um merkingu þurfum við samt oftast að læra nákvæma merkingu þeirra sérstaklega. Og um leið og orð er komið í almenna notkun öðlast það sjálfstætt líf og hættir að vera háð uppruna sínum – gagnsæið hættir að skipta máli.

Það er auðvelt að benda á tugi og hundruð íslenskra orða sem merkja ekki það sem þau líta út fyrir að merkja, út frá samsetningu sinni og uppruna. En við tökum venjulega ekkert eftir því, vegna þess að við erum vön orðunum og vitum hvað þau merkja án þess að hugsa út í upprunann. Eins og ég hef oft nefnt finnst okkur ný orð oftast skrítin, óheppileg og jafnvel alveg ómöguleg – það þarf að venjast þeim og það tekur tíma. Það getur vel verið að það megi finna ýmislegt að orðinu inngilding – ég var ekkert sérlega hrifinn af því þegar ég sá það fyrst. En mér skilst að það sé komið í talsverða notkun og þess vegna væri ábyrgðarhluti að hafna því, nema fram kæmi eitthvert orð sem almenn sátt yrði um þegar í stað – svona eins og þegar þota leysti þrýstiloftsflugvél af hólmi á sínum tíma. Mér finnst bara ekki líklegt að svo verði.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hjónaband hennar og mín

Í hópnum Málspjall á Facebook var nýlega spurt hvers vegna við segjum fyrir þína hönd þar sem þína er í þolfalli, en fyrir hennar hönd þar sem hennar er í eignarfalli, þótt setningafræðileg staða orðanna sé sú sama – bæði standa með nafnorðinu hönd. Ástæðan er sú að þína og hennar eru mismunandi tegundir fornafna. Þína er eignarfornafn og þau sambeygjast nafnorðinu sem þau standa með, þ.e. standa í sama kyni, tölu og falli – þína stendur í kvenkyni, eintölu, þolfalli, eins og hönd.

En eignarfornöfn eru bara til í fyrstu og annarri persónu, minn og þinn, en ekki í þriðju persónu (nema afturbeygða eignarfornafnið sinn sem ekki á við í þessu samhengi). Í þriðju persónu verðum við þess vegna að nota persónufornöfn í staðinn. En þau hafa aðra setningafræðilega eiginleika – persónufornafn sem stendur með nafnorði sambeygist því ekki, heldur stendur í eignarfalli sem stýrist af nafnorðinu og því segjum við hennar / hans hönd. Sama gildir um nafnorð – fyrir Jóns hönd / hönd Jóns, fyrir Guðrúnar hönd / hönd Guðrúnar, o.s.frv.

Þetta er samt ekki alveg einfalt eins og sést þegar við notum bæði þriðju og fyrstu eða aðra persónu saman með nafnorði. Við segjum vinur hennar og vinur minn, og þegar þessu er steypt saman til að tvítaka ekki nafnorðið myndi maður búast við vinur hennar og minn. Ýmsum finnst það eðlilegt, en mörgum virðist finnast eðlilegra að segja vinur hennar og mín – þó að öllum þyki væntanlega *vinur mín alveg ótækt. Í Fálkanum 1938 segir t.d.: „þjer getið þó hugsað yður hjónaband hennar og mín innan takmarka möguleikans“, og ýmis önnur dæmi má finna á netinu.

Þarna er ljóst að mín er ekki eignarfornafn – ef svo væri hlyti það að sambeygjast nafnorðinu og vera vinur minn og hjónaband mitt í dæmunum hér að framan. Hins vegar getur mín líka verið eignarfall af fyrstu persónu fornafninu ég, og það hlýtur að vera það sem um er að ræða í þessum dæmum. Öðru máli gegnir ef fyrsta persónan kemur á undan þeirri þriðju, nær nafnorðinu. Þá er stundum hægt – og verður í máli sumra – að nota eignarfornafn, þannig að vinur minn og hennar og hjónaband mitt og hennar er í góðu lagi, en *vinur mín og hennar og *hjónaband mín og hennar ótækt.

Það er því eins og sumum finnist ekki megi rjúfa samband nafnorðs og eignarfornafns – þegar persónufornafn (eða nafnorð) í eignarfalli er komið næst á eftir nafnorðinu sé ekki hægt að nota eignarfornafn þar á eftir eins og við væri að búast, heldur verði að halda áfram að nota persónufornafn í eignarfalli, mín. Málhafar voru spurðir um setningar af þessu tagi í rannsókninni „Tilbrigði í íslenskri setningagerð“ og niðurstöður birtar í 2. bindi samnefndra bóka, bls. 267-270. Það kom í ljós að margir málnotendur höfnuðu báðum gerðum slíkra setninga, en dæmin með persónufornafni (hennar og mín) fengu heldur betri dóma en hin.

Posted on Færðu inn athugasemd

Enska sem hluti af íslensku málsamfélagi

Í gær birtist í Stundinni mjög áhugaverð grein sem m.a. fjallar um málefni sem við verðum að sinna betur: Íslenskukennslu og íslenskukunnáttu fólks sem kemur hingað til að vinna – fólksins sem að verulegu leyti hélt uppi góðærinu á undanförnum árum. Ef við gerum ekki betur á þessu sviði er mikil hætta á að hér verði til mjög lagskipt þjóðfélag, með lítt menntaðri lágstétt sem hefur íslensku ekki almennilega á valdi sínu og er föst í láglaunastörfum. Það er stórhættuleg þróun – auðvitað fyrir fólkið sjálft, en ekki síður fyrir þjóðfélagið, fyrir lýðræðið, og fyrir íslenskuna.

Í umræðu sem spratt af því að ég setti hlekk á þessa grein í hópinn Málspjall á Facebook nefndu tvær erlendar konur sem búa hér að þeim fyndist íslenskan oft notuð til að mismuna fólki og halda því niðri – ekki bara í þjónustustörfum, heldur einnig í ýmsum sérhæfðum störfum t.d. á sviði viðskipta og tækni. Það skyti skökku við að sækjast eftir kunnáttu fólks og sérfræðiþekkingu og hreykja sér af því að stuðla að og fagna fjölbreytileika en ýta fólki samt út á jaðar umræðunnar og samfélagsins vegna skorts á íslenskukunnáttu. Þetta er alveg rétt.

Við viljum geta notað íslensku á öllum sviðum þjóðlífsins en það má ekki bitna á fólk sem býr hér og starfar en kann ekki málið til fulls. Við þurfum að horfast í augu við það að sú krafa að geta notað íslensku alltaf, við allar aðstæður, er ósamrýmanleg virkri þátttöku í tæknivæddu þekkingarsamfélagi á tímum alþjóðavæðingar og frjáls flæðis vinnuafls og getur leitt til þess að við lokum okkur af og einöngrumst. Við þurfum að átta okkur á því að enskan er komin til að vera í samfélaginu og það er óhjákvæmilegt að hún verði hér fyrirferðarmikil í framtíðinni, samhliða íslensku.

Þetta er engin uppgjöf – þetta er staðreynd. Það er ekki íslenskunni til framdráttar að berja hausnum við steininn og neita að viðurkenna þetta. Enskunotkun á Íslandi má ekki vera feimnismál eins og ég hef stundum á tilfinningunni að hún sé. Enskan er alþjóðamál, gífurlega mikilvægt hjálpartæki sem gerir okkur kleift að taka þátt í margs kyns alþjóðlegu samstarfi og sækja okkur þekkingu og sérhæfingu. Hún er ekki óvinur eða eitthvað sem við þurfum að hræðast – en við þurfum að hefja öfluga og markvissa umræðu um það hvaða hlutverk og stöðu við ætlum henni í málsamfélaginu.

Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig auðveldum við fólki með annað móðurmál að taka fullan þátt í samfélaginu? Hvernig eflum við íslenskuna þannig að hún verði nothæf á öllum sviðum þjóðlífsins? Hvernig gerum við íslenskuna áhugaverðari og eftirsóknarverðara að nota hana? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?

Þetta eru nokkur dæmi um það sem þarf að ræða á næstunni – og byrja strax. Ég kann ekki svarið við neinni af framangreindum spurningum – og er ekki viss um að nokkurt svar sé til, a.m.k. varla svar sem öllum líki. En svörin eru ekki aðalatriðið, heldur umræðan, umhugsunin og vitundarvakningin um þetta. Núna fljótum við nefnilega sofandi að feigðarósi og vöknum upp við það einn daginn að við höfum ekki lengur neina yfirsýn yfir stöðuna, hvað þá stjórn á henni. Látum það ekki gerast.

Posted on Færðu inn athugasemd

Upp á sett

Í Kastljósi í gær var Kári Stefánsson spurður hvort hann teldi að lögmenn fólks sem sat nauðugt í sóttvarnarhúsi hefðu gert það „upp á sett“ að skila greinargerðum svo seint að sóttkví skjólstæðinga þeirra yrði runnin út þegar málið kæmi fyrir Landsrétt. Kári hváði og virtist ekki skilja sambandið upp á sett. Út frá þessu varð mikil umræða í hópnum Málspjall á Facebook. Fyrir sumum – þ. á m. mér – er þetta venjulegt mál, en í umræðunni kom í ljós að sambandið virðist vera fáum kunnugt. Í orðabókum virðast engin dæmi um það, og í Risamálheildinni er ekki eitt einasta dæmi. Google fann ekki heldur nein dæmi nema sum þeirra sem eru á tímarit.is en þau virðast aðeins vera átta samtals:

  • Ég hef trassað ögn að svara þér, rétt „uppá sett,“ af því ég sá af „Kringlu,“ að þú brázt þér til Nýja-íslands og bjóst ég við þú mundir, ef til vill, tefja þar nokkuð.
  • En eg get ekki trúað því að þetta sé satt. Eg ímynda mér að Dingaan hafi verið að skrökva þessu upp á sett.
  • Las bæjarstjóri það þá upp og taldi hann, að ég hefði gert þetta upp á sett til þess, að hægt væri að nota málið til árásar á meirihlutann.
  • Á undanförnum árum hefur verið ljóst að Rússar og Bandarikjamenn gera það aðallega upp á sett að vera að deila.
  • „Ég gerði það svona upp á sett að fara í níunda sætið,“ sagði Gunnlaugur Finnsson [...], en á kjördæmisþingi framsóknarmanna í Vestfjarðakjördæmi um helgina tapaði Gunnlaugur öðru sætinu til Ólafs Þ. Þórðarsonar.
  • Ef Magdalena Schram eða aðrir sem nú sjá sér leik á borði með áróður gegn Flugleiðum halda að flugfélag geri það upp á sett að halda ekki áætlun þá er hún haldin miklum misskilningi.
  • Samt er þessi grein, sem höfundur kallar „Að hlæja upp á sett“ allrar athygli verð, þótt ég kunni ekki við það málfar „að hlæja upp á sett“. Ég held að þetta sé óþörf tiktúra. Þetta heitir á gamalgróinni íslensku að gera sér upp hlátur – látast.
  • Fréttaljósið lýsir á Ólaf Davíðsson forstjóra Þjóðhagsstofnunar og svona uppá sett spyrjum við hvað verðbólgan sé.

Í umræðunni var nefnt að sambandið myndi vera gömul dönskusletta, og það má vel vera – hugsanlega gæti það verið komið af påsat, t.d. í sambandinu påsat brand 'íkveikja', eða átt eitthvað skylt við på sæt og vis. Það er hins vegar athyglisvert að elsta dæmið hér að ofan er úr bréfi Stephans G. Stephanssonar frá 1901 og það næsta úr vesturíslenska blaðinu Lögbergi frá 1912, en svo kemur sambandið ekki fyrir aftur fyrr en 1953, og hin dæmin eru öll frá áttunda áratugnum. Út frá þessu er freistandi að geta þess til að þetta sé úr ensku – það skýri fyrstu tvö dæmin, en svo fari sambandið að sjást á Íslandi með auknum enskum áhrifum eftir stríð. En þetta er bara hugdetta.

En hvað merkir sambandið? Í umræðunni var nefnt að það merkti 'af ásettu ráði', og það má til sanns vegar færa – sú merking á vel við notkun þess í Kastljósinu í gær. En ég held að það sé fleira í þessu. Ég held að merkingu sambandsins sé best lýst með 'setja upp leiktjöld / leikmynd'. Leiktjöld eru sett upp til að eitthvað sé á sviðinu – en þau geta líka verið sett upp til að fela eitthvað sem áhorfendur eiga ekki að sjá. Það sem er gert upp á sett er stundum gert án ástæðu, „af því bara“, en stundum er það gert til að breiða yfir eitthvað. Ég held að dæmin hér að ofan staðfesti þennan skilning. Orðið sett bendir líka til leikhúsmáls.

Posted on Færðu inn athugasemd

reiðbrennandi

Það er alþekkt í tungumálum að orð breytist og brenglist vegna endurtúlkunar eða misskilnings. Iðulega er þetta vegna þess að málnotendur átta sig ekki á uppruna orðanna og reyna að tengja þau við önnur orð eða orðhluta sem þeir þekkja og skilja. Þetta eru kallaðar alþýðuskýringar og um þær hefur mikið verið ritað. Það íslenska dæmi um alþýðuskýringu sem oftast er vitnað til er líklega þegar þröskuldur breytist í þrepskjöldur. Fyrri liður orðsins er skyldur sögninni þreskja og orðið merkir sennilega í upphafi ‘þreskitré, þreskifjöl eða gangfjöl’ samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. En þessi uppruni liggur ekki í augum uppi, og til að reyna að fá eitthvert vit í orðið tengja málnotendur það við þrepþröskuldur er auðvitað eins konar þrep í dyrum – og skjöldþröskuldurinn er einhvers konar hlíf.

En það er samt ekki svo að allar breytingar á torskildum orðum verði til þess að gera þau skiljanlegri. Dæmi um það er breyting orðsins reiprennandi. Í pistli í Morgunblaðinu 1993 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson: „Þegar ég var að alast upp í Reykjavík á þriðja og fjórða áratug aldarinnar, var algengt að segja um þann, sem kunni eða fór með eitthvað, t.d. kvæði, viðstöðulaust utanbókar, að hann kynni eða færi með það reiðbrennandi.“ Frá hljóðfræðilegu sjónarmiði er þetta eðlileg breyting – í venjulegu samfelldu tali er mjög lítill framburðarmunur á reiprennandi og reiðbrennandi. Enginn munur er á /b/ og /p/ í þessari stöðu, og /ð/ fellur oft að mestu eða öllu leyti brott í framburði samhljóðaklasa eins og þarna. Málnotendur þekkja orðið reið betur en reip(i), átta sig ekki á líkingunni, og greina orðið rangt.

Þótt þetta þýði ekki endilega að reiðbrennandi sé eitthvað skiljanlegri mynd fyrir þá sem nota hana en reiprennandi hefur hún lifað í málinu í a.m.k. hundrað ár en sárasjaldan komist á prent – einna helst þegar bent hefur verið á það í málfarsþáttum að hún sé röng. Gísli Jónsson nefndi hana t.d. nokkrum sinnum á níunda áratugnum í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu. Þetta hefur hins vegar breyst á síðustu árum – á netinu má finna allnokkur dæmi um reiðbrennandi. Það er mjög skiljanlegt. Til skamms tíma var mestallt prentað mál prófarkalesið vandlega og orðmyndir sem voru taldar rangar strikaðar út, ef þær sáust í handritum. Nú á tímum nets og samfélagsmiðla getur hver sem er skrifað texta sem enginn fer yfir fyrir birtingu en allur heimurinn getur lesið – og þá kemur ýmislegt í ljós sem er okkur hulið í talmálinu.

Þess vegna er við því að búast að við sjáum nú miklu meira en áður af myndum á borð við reiðbrennandi – myndum sem jafnvel hafa lifað í málsamfélaginu áratugum saman en fáir hafa tekið eftir vegna þess að framburðarmunur þeirra og „réttu“ myndanna er svo lítill, og við höfum tilhneigingu til að heyra það sem við búumst við að heyra. Það er m.ö.o. vel hugsanlegt að fjöldi fólks hafi tileinkað sér myndina reiðbrennandi – og aðrar af sama tagi – á máltökuskeiði og notað áratugum saman án þess að aðrir tækju eftir því. Þegar þessar myndir fara að birtast í óhreinsuðu ritmáli er hulunni svipt af þeim og fólk áttar sig á því að þær eru til. Það er hins vegar ómögulegt að segja hvaða áhrif það hefur. Það getur eflt þær, vegna þess að þær verða sýnilegri en áður – en á hinn bóginn gerir sýnileikinn þær varnarlausari fyrir gagnrýni.

Posted on Færðu inn athugasemd

úð

Orð sem enda á -úð eru allnokkur til í málinu – sum gömul, eins og ástúð og harðúð, en önnur mynduð á 20. öld, eins og samúð og andúð. Eins og kemur fram í Íslenskri orðsifjabók er orðhlutinn -úð kominn af -hugð við það að g fellur brott og u lengist í staðinn (uppbótarlenging). Þessi breyting er bundin við áherslulaus atkvæði og verður ekki í orðinu hugð þegar það stendur eitt og sér eða er fyrri hluti samsetninga, svo sem hugðarefni. En þegar ég var að skoða þetta rakst ég á skemmtileg skoðanaskipti sem þetta varða, rúmlega hundrað ára gömul.

Árið 1915 hafði Sigurður Nordal skrifað: „Mér finst sjálfsagt að málið taki orð eins og stemning, sem særir ekki nokkurt íslenzkt eyra, er komið á allra varir og aldrei verður þýtt, svo að gagni sé.“ En um þetta var ekki almenn sátt, og sumarið 1918 lagði höfundur sem skrifaði undir nafninu Viðfinnur – og mun vera dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði – það til í grein í Morgunblaðinu að í staðinn fyrir stemning væri notað orðið úð. Þá mætti tala um kvöldúð, náttúð eða næturúð, árúð eða morgunúð, dagúð, og einnig fjallúð, sævarúð o.s.frv.

En Björn lagði líka til að orðið úð yrði notað eitt og sér, og sem fyrri liður samsetninga eins og úðfagur, úðmikill o.fl. Þetta leist höfundi sem skrifaði undir stöfunum AJ – sennilega dr. Alexander Jóhannesson, síðar prófessor – ekki á, og sagði í dagblaðinu Fréttum: „En Viðfinni skjátlast, er hann vill nota úð í upphafi orðs: lögmál íslenzkrar tungu heimtar hugð, og væri því ef til vill ekki úr vegi að nota hugð fyrir stemning?“ Hann taldi það vel koma til greina, en samræmis vegna væri þá rétt að nota myndina -hugð einnig í seinni lið orða, og tala um kvöldhugð, nátthugð o.s.frv.

Björn sat við sinn keip og svaraði í Fréttum: „orðið úð er í fullu samræmi við íslenzkt tungutak og hljómeðli málsins; það er þess eiginn afspringur; liggur jafnvel léttara á tungu en móðir þess hugð; og því síður kemur það í bága við beygingareðli málsins. Það er ramm-íslenzkt að hljómi og hneiging.“ Hann benti á ýmis dæmi um að seinni liður samsetningar væri gerður að sjálfstæðu orði, og vakti einnig athygli á því að Einar Benediktsson hefði notað orðið úð sjálfstætt í kvæði – „og djúp var hans úð“. Alexander svaraði aftur og taldi dæmi Björns léttvæg, og benti á að Einar Benediktsson væri „ekki óskeikull í íslenzkri tungu“ og finna mætti „fjölda mállýta í kvæðum hans“.

Þar með lauk þessum skoðanaskiptum og tillögur Björns um að nota úð og samsetningar af því í merkingunni 'stemning' virðast ekki hafa fengið mikinn hljómgrunn. Halldór Laxness notaði þó morgunúð og kvöldúð í Kvæðakveri og Pétur Gunnarsson notar síðarnefnda orðið í Punktur punktur komma strik, auk þess sem það hefur verið notað sem þýðing á heiti lagsins „Abendempfindung“ eftir Mozart. Ólafur Jóhann Sigurðsson notar svo næturúð í Seiður og hélog. En mætti ekki alveg endurvekja þessar tillögur? Rök Alexanders gegn þeim eru ekki þungvæg og orðin eru lipur og fara vel í málinu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Já við fjölbreytni - nei við nýjungum?

Oft er lögð áhersla á gildi og mikilvægi þess að hafa góðan orðaforða og tala og skrifa auðugt og blæbrigðaríkt mál – tönnlast ekki alltaf á sömu orðunum og sama orðalaginu, heldur breyta til og orða sömu merkingu á mismunandi hátt. Þessu er ég hjartanlega sammála, og til að stuðla að þessu er mikilvægt að fólk æfist í að nota málið á fjölbreyttan hátt – tali saman og tali við börn, og lesi og skrifi margs konar texta.

En svo er líka oft amast við hvers kyns nýsköpun í máli – nýyrðum smíðuðum úr íslensku hráefni, tökuorðum sem löguð eru að íslensku, fleirtölu orða sem aðallega eða eingöngu hafa verið notuð í eintölu, nýjum orðasamböndum og orðatiltækjum, nýjum merkingartilbrigðum þekktra orða og svo framvegis. Slíkar nýjungar eru iðulega sagðar „ekki til“, afbökun, ljótar, hrá enska, barnamál, rangt mál, óþarfar og ég veit ekki hvað og hvað.

Það undarlega er að það virðist að verulegu leyti vera sama fólkið sem leggur áherslu á góðan orðaforða og blæbrigðaríkt mál og það sem amast við nýjungum í máli. Þetta er fólkið sem telur sig eiga tungumálið, fólkið sem vill að málið sé eins og því var kennt í uppvextinum að það ætti að vera. Þótt margt af þessu fólki vilji vel og athugasemdir þess eigi rætur í umhyggju fyrir íslenskunni er alltof algengt að athugasemdirnar séu settar fram af hroka og yfirlæti þeirra sem þykjast hafa höndlað sannleikann.

Vitanlega er ekki öll nýsköpun jafnvel heppnuð. Sumar nýjungar slá strax í gegn, aðrar eru andvana fæddar, en flestar einhvers staðar þar á milli. En það er eingöngu málsamfélagið sem getur skorið þar úr. Ef það tekur nýjungina upp á sína arma lifir hún, annars ekki. Það þýðir ekki að við sem almennir málnotendur getum ekki haft skoðun á nýjungum, og látið þá skoðun í ljósi. En þá er mikilvægt að við styðjum hana málefnalegum rökum en höfnum nýjungum ekki umsvifalaust á þeim forsendum einum að við ólumst ekki upp við þær.

Posted on Færðu inn athugasemd

afbrygðisemi

Í fyrra skrifaði ég pistil um ýmsar breytingar á orðum sem ég taldi stafa af misheyrn, svo sem þegar reiprennandi verður reiðbrennandi og fyrst að verður víst að. Til viðbótar þessum dæmum, sem áður hafði verið bent á, nefndi ég að á netinu hefði ég rekist á nokkur dæmi um afbrigði(s)samur og afbrigði(s)semi fyrir afbrýðisamur og afbrýðisemi. Ég sagði um þessi dæmi: „Þar gegnir sama máli – framburðarmunur í eðlilegu tali er mjög lítill. Önghljóðið g veiklast oft eða hverfur í framburði í þessari stöðu, og hljóðfræðilegur munur i og í (ý) er lítill. Það er því ekkert óeðlilegt að sumir greini orðið ranglega – og skrifi það í samræmi við þessa röngu greiningu.“

Í skýringu orðsins afbrýði í Íslenskri orðsifjabók (undir ábrúðig(u)r) kemur fram að einnig séu til myndirnar ábrýði og afbrygði, og ekki sé víst hvort upphaflegt forskeyti sé á- eða af-. Síðan segir: „Upphaflegt g í síðara lið orðsins hefur fallið niður og valdið uppbótarlengingu, -brugðigr > -brúðig(u)r, -brygði > -brýði.“ Uppbótarlenging er þekkt og algengt fyrirbæri í málsögunni og vísar til þess þegar samhljóð fellur brott en aðliggjandi sérhljóð lengist í staðinn, eins og til að bæta upp fyrir brottfallið. Áður fyrr var lengdarmunur á y og ý, en í nútímamáli felst munurinn ekki í lengd heldur í hljóðgildi, auk þess sem y hefur fallið saman við i og ý við í. En þarna var myndin -brygði komin svo að ég fór að kanna málið nánar.

Í safni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn er afbrygði aðaluppflettimynd, en afbrýði höfð á eftir. Um þessi orð eru fimm dæmi sem eru skrifuð svo í handritum: afbrygdis (2); af bryþes (1); abbryde (1); af bryþe (1). Auk þess er í safninu gefin uppflettimyndin ábrýði, með spurningarmerki á undan til marks um að hún sé vafasöm. Myndin ábrýði kemur fyrir í kvæði frá seinni hluta 18. aldar – reyndar skrifuð ábríði en þetta er löngu eftir að ý féll saman við í í framburði þannig að stafsetningin segir ekkert. Fáein dæmi eru svo um ábrýði frá síðustu árum 19. aldar og fram undir miðja 20. öld – flest úr vesturíslensku blöðunum. Hún er líka gefin upp í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal og í Íslenskri orðabók.

Af myndinni afbrygði segir ekki aftur fyrr en í upphafi 20. aldar – í blaðinu Bjarka segir árið 1902: „Jesús opinberar oss, að synd og lygar, órjettvísi og eftirlátsemi eigingirninnar sje ónáttúra og afbyrgði hjá manninum.“ Þarna stendur að vísu afbyrgði en það virðist nokkuð ljóst að það sé prentvilla fyrir afbrygði. Árið 1924 er sýning á gamanleiknum Afbrygðissemin auglýst í Vísi og afbrygðissemi kemur fyrir í blaðinu Brautinni árið 1929. Eftir það má finna í blöðum örfá dæmi um nafnorðið afbrigði(s)semi og lýsingarorðið afbrigði(s)samur – öll með i en ekki y, en það segir lítið vegna þess að málnotendur tengja þetta væntanlega ekki við neitt annað og vita því ekki hvort á að nota i eða y.

Athyglisverðasta dæmið er úr grein tveggja lögreglumanna í Morgunblaðinu 1995, þar sem fjallað er um ástæður þess að ofbeldi er beitt. Meðal ástæðna er talin afbrigðisemi. Þetta sýnir að orðið er ekki bundið við óvandaðan eða óprófarkalesinn texta á netinu eins og ég hélt. Það er ljóst að myndin afbrygði kemur fyrir þegar í fornu máli, og frá því í upphafi 20. aldar, en spurningin er hvort hún eigi sér óslitna sögu þar á milli þótt hún hafi ekki ratað á bækur í margar aldir. Sé svo, sem ég hef tilhneigingu til að halda, eiga myndirnar afbrigði(s)samur og afbrigði(s)semi sem ég hélt að ættu rætur í misheyrn eða misskilningi á 21. öldinni sér í raun jafnlanga sögu og afbrýðisamur og afbrýðisemi – þótt strangt tekið ætti að skrifa fyrrnefndu myndirnar með y frekar en i.

Það er í raun stórmerkilegt – en ekki einsdæmi – ef orðmyndir geta lifað í talmálinu í margar aldir án þess að komast á bækur svo að heitið geti. En vissulega er líka hugsanlegt að umræddar myndir hafi orðið til nýlega á þann hátt sem ég taldi í upphafi og séu óháðar eldri samhljóða myndum. Í því máli er erfitt að sanna nokkuð. En ef saga myndanna afbrygðisamur og afbrygðisemi er óslitin frá fornu máli, ættum við þá að viðurkenna þær sem fullgildar orðmyndir í nútímamáli?  Það kæmi auðvitað ekki til greina að hafna afbrýðisamur og afbrýðisemi, þannig að þetta yrðu þá hliðarmyndir. Ég hef svo sem ekki ákveðna skoðun á þessu. Það er ljóst að myndir með afbrygði hafa alla tíð verið sjaldgæfar og spurning hvort hægt sé að segja að hefð sé fyrir þeim, þrátt fyrir að virðist geta verið ættaðar úr fornu máli. En ég hef a.m.k. aðra afstöðu til þessara mynda en áður, og myndi ekki vilja kalla þær rangt mál.