Category: Málfar

Heggur sá er hlífa skyldi

Hinn 8. nóvember birtist á vef Stjórnarráðsins tilkynning frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu undir fyrirsögninni „Vinnum gullið – TEAM-Iceland til árangurs“. Í tilkynningunni segir: „TEAM-Iceland er framtíðarsýn starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um íþrótta- og afreksmiðstöð.“ Framtíðarsýn ráðuneytisins er sem sé á ensku. Á fleiri stöðum í tilkynningunni er svo talað um „TEAM-Iceland verkefnið“. Það ætti ekki að þurfa að benda á að „TEAM-Iceland“ er ekki íslenska heldur enska. Það er ótrúlegt og óskiljanlegt að Mennta- og barnamálaráðuneytið af öllum aðilum skuli gefa  verkefni sem það stendur fyrir enskt heiti – verkefni sem er ekki síst ætlað að höfða til barna og unglinga á „öllum stigum skólakerfisins“.

Fyrir réttu ári var tilkynnt um stofnun ráðherranefndar um íslenska tungu sem mennta- og barnamálaráðherra situr í ásamt fjórum öðrum ráðherrum. Í fréttatilkynningu sem gefin var út af þessu tilefni var vísað í stjórnarsáttmála þar sem er „lögð sérstök áhersla á að börn og unglingar nýti tungumálið“. Heiti eins og „TEAM-Iceland“ vinnur einmitt gegn því með því að ýta undir þá hugsun sem virðist útbreidd að meira mark sé takandi á því sem hefur enskt heiti – að íslenskan sé of hallærisleg og heimóttarleg til að nota hana í heiti á eitthvað sem á að skipta máli. Einstök ensk heiti, skilti og auglýsingar verða vitanlega ekki til þess að drepa íslenskuna. En þau hafa táknrænt gildi og eru vísbending um afstöðuna til tungumálsins.

Það er svolítið neyðarlegt að á sama tíma og Mennta- og barnamálaráðuneytið fer af stað með þetta verkefni sendir annað ráðuneyti, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, frá sér tilkynningu um vitundarvakningu: „Að þessu sinni er vika íslenskunnar einnig nýtt til þess að vekja athygli á þeim breytingum sem eru að verða og hafa orðið á íslenskunni vegna enskra áhrifa og hvernig þær breytingar birtast í okkur vítt og breitt í samfélaginu og ekki hvað síst á samfélagsmiðlum, í einkaskilaboðum og jafnvel í opinberri umræðu“ (feitletrun mín). Vakin verður athygli á dæmum sem „endurspegla veruleika íslenskunnar eins og hann blasir við okkur“ – kannski væri ráð að hefja vitundarvakninguna innan Stjórnarráðsins og byrja á „TEAM-Iceland“.

Það er oft sagt að ásókn enskunnar sé mesta ógnin við íslensku um þessar mundir en það er í raun og veru ekki rétt – enskan fer ekki lengra en við leyfum henni að fara. Mesta ógnin er miklu fremur andvaraleysi okkar sjálfra – óþörf enskunotkun í hugsunarleysi, metnaðarleysi fyrir hönd íslenskunnar, og skilningsleysi á því að það skipti máli að halda henni á lofti, alltaf og alls staðar. Þetta endurspeglast allt í heitinu „TEAM-Iceland.“ Eftir höfðinu dansa limirnir og ef stjórnvöld hafa ekki meiri metnað fyrir hönd íslenskunnar en þetta heiti bendir til er baráttan vonlítil. Í tilefni af viku íslenskrar tungu vonast ég til að ráðuneytið finni þessu verkefni íslenskt heiti hið snarasta. Í stíl við átakið Áfram íslenska gæti það t.d. heitið Áfram Ísland.

Að meika sens

Að undanförnu hefur tvisvar verið spurt hér hvaða orð eða orðasamband væri hægt að nota í staðinn fyrir meika sens. Ástæðan fyrir því að fólk amast við þessu sambandi er vitaskuld sú að það er komið úr ensku, make sense, sem merkir 'to be clear and easy to understand' eða 'að vera ljóst og auðskilið'. Í íslensku er þetta oft notað í merkingunni 'hljóma skynsamlega' en er ekki síður notað með neitun – sambandið meikar ekki / engan sens er að finna í Slangurorðabókinni frá 1982 í merkingunni 'vera vitleysa, hafa enga þýðingu/merkingu'. Sögnin meika er bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók en merkt „óformleg“ eða „slangur“. Nafnorðið sens er hins vegar í hvorugri bókinni, og ekki sambandið meika sens.

Elsta dæmi sem ég finn á prenti um meika sens er í skálduðu samtali í Morgunblaðinu 1971: „Þetta „meikar ekki sens“.“ Annað dæmi er í Þjóðviljanum 1979, úr texta Kamarorghestanna: „Því þú ert bara flippað frík sem engan meikar sens.“ Í Helgarpóstinum 1982 er verið að snúa út úr dagskrá útvarps og sjónvarps og þar er einn dagskrárliður: „Íslenskt mál. Fríkaður flippari meikar engan sens. Jón Aðalsteinn Jónsson flytur.“ Í Morgunblaðinu 1984 segir: „T.d. er skólunum kennt um að unglingar vita ekki lengur skil á „einföldum staðreyndum“ Íslandssögunnar en augunum lokað fyrir því að þessar staðreyndir „meika ekki sens“ í veruleika unglinganna.“ Fleiri dæmi frá níunda áratugnum hef ég ekki fundið á prenti.

Stundum er amast við þessu sambandi. Jón G. Friðjónsson segir t.d. í Morgunblaðinu 2003: „Ensk áhrif á íslensku blasa við öllum þeim sem sjá og heyra vilja. Í sumum tilvikum er slíkt góss lítt lagað að íslensku og ætla má að þeir sem það nota beiti því sem nokkurs konar slangri. Sem dæmi þessa má nefna: […] e-ð meikar ekki sens […]. Slík málbeiting getur ekki talist til fyrirmyndar en hún að því leyti meinlaus að ætla má að hún sé í flestum tilvikum einstaklingsbundin, hún er ekki hluti af viðurkenndu málfari.“ En þessi pistill er orðinn átján ára gamall og notkun meika sens hefur margfaldast á þeim tíma. Tíðni sambandsins sýnir að það er orðið hluti af eðlilegu máli margra og notkunin ekki einstaklingsbundin, heldur almenn.

Dæmum um sambandið meika sens hefur smátt og smátt farið fjölgandi síðan á síðasta áratug 20. aldar og það verður mjög algengt á þessari öld. Í Risamálheildinni eru hátt á tólfta þúsund dæmi um það, vissulega langflest úr óformlegu málsniði samfélagsmiðla en þó yfir fimm hundruð úr formlegra máli. Þótt sambandið sé vissulega ættað úr ensku fellur það ágætlega að íslensku – sögnin meika er hliðstæð t.d. reika. Það er kannski ekki alveg eins ljóst að nafnorðið sens falli fullkomlega inn í málið – við höfum vissulega hvorugkynsorð eins og glens og skens, en sens er alltaf haft í karlkyni eins og sést á því að sagt er meika engan / einhvern sens, ekki *ekkert / eitthvert sens. Þó má bera þetta saman við séns, sem vitanlega er tökuorð líka.

Vitanlega er meika sens löngu orðið góð og gild íslenska þótt ekkert sé að því að leita annarra sambanda í staðinn, en ástæða þess hvað sambandið hefur náð mikilli útbreiðslu hlýtur að vera sú að það svarar einhverri þörf. Þetta kemur vel fram í samtali Hugleiks Dagssonar og Jóhönnu Kristjónsdóttur í Fréttablaðinu 2009. Hugleikur: „Ég stend mig oft að því að finna ekki íslenskt orðasamband yfir hlutina. Til dæmis þegar manni finnst eitthvað meika sens. Ég bara finn ekki ekki íslenska orðasambandið yfir það.“ Jóhanna: „Já, það meikar alveg sens. Ekki kem ég því fyrir mig hvert íslenska orðasambandið yfir það er.“ Hugleikur: „Við erum þá kannski ekki með meika sens í orðaforðanum okkar, Íslendingar. Það útskýrir alveg rosalega margt.“

Leikurinn var frestaður

Um daginn sá ég á Facebook-síðunni „Sportið á Vísi“ setninguna „Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var afar ósáttur út í vinnubrögð HSÍ og afstöðu Hauka yfir því að leikur kvöldsins gegn Haukum var ekki frestaður.“ Í frétt Vísis sem hlekkjað var á stóð hins vegar „ÍBV óskaði ítrekað eftir því að leiknum yrði frestað.“ Í báðum setningum er notuð þolmynd en í þeirri fyrri er frumlagið í nefnifalli og lýsingarhátturinn sambeygist því, leikurinn var frestaður, en í þeirri seinni er frumlagið í þágufalli og lýsingarhátturinn í hvorugkyni eintölu, leiknum yrði frest. Sögnin fresta stjórnar þágufalli á andlagi sínu, fresta leiknum, og þágufallsandlag í germynd heldur falli sínu þótt það sé gert að frumlagi í þolmynd og lýsingarhátturinn er þá í hvorugkyni.

Við myndum því búast við leiknum var frest en ekki leikurinn var frestaður, rétt eins og við segjum leiknum var flýtt en ekki *leikurinn var flýttur vegna þess að flýta stjórnar líka þágufalli – flýta leiknum. Samt sem áður má finna fjölda dæma um sambandið frestaður leikur. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1952: „Oft er þó frestuðum leikjum komið fyrir á þeim laugardögum, þegar bikarkeppnin fer fram.“ Í Þjóðviljanum 1958 segir: „hver veit svo hvaða áhrif allur ruglingurinn útaf frestuðum leik getur haft“. Í Morgunblaðinu 1963 segir: „Á þriðjudag átti að leika 10 „frestaða“ leiki, en aðeins 1 gat farið fram.“ Örfá dæmi eru svo um þetta samband frá næstu árum, fram undir 1980, og stundum gæsalappir um „frestaður“.

Ástæðan fyrir því að hægt er að tala um frestaðan leik er sú að í þessum dæmum er ekki þolmynd, heldur er frestaður lýsingarorð sem sambeygist orðinu sem það á við. Það er algengt að myndir sem upphaflega eru lýsingarháttur þátíðar fái setningarhlutverk lýsingarorðs – ég hef áður skrifað um ýmis slík tilvik eins og lagða bíla, ósvaraðar spurningar o.fl. Það er samt ekki þannig að allir lýsingarhættir geri þetta – við getum ekki sagt *bjargaður maður í merkingunni 'maður sem var bjargað' eða eitthvað slíkt. En það lítur út fyrir að lýsingarhátturinn frestaður hafi verið að bæta við sig hlutverki lýsingarorðs á árunum fyrir 1980. Það sýna gæsalappirnar sem eru oft notaðar um orðið fyrir þann tíma, og skyndileg fjölgun dæma um það kringum 1980.

Munurinn á notkun sömu orðmyndar sem lýsingarháttar í þolmynd og sem lýsingarorðs í germynd felst í því að í þolmyndinni er sagt frá athöfn, í germyndinni er lýst (kyrr)stöðu. Stundum líta setningar með frestaður leikur út eins og þolmynd, t.d. á fótbolti.net 2010: „5. umferð Pepsi deildar karla lauk í gær er KR vann Fram en leikurinn var frestaður.“ Þarna sýnir samhengið að ekki er um þolmynd að ræða – ekki er verið að lýsa athöfn, heldur kyrrstöðu. Öðru máli gegnir ef staðið hefði KR átti að leika við Fram en leiknum var frestað – þá er verið að segja frá athöfn. En þá hefði sem sé verið sagt var frest, ekki *KR átti að leika við Fram en leikurinn var frestaður. Setningin sem vitnað var til í upphafi er ekki í samræmi við málhefð.

Veðurstyggt fólk – og dagstyggt

Um daginn sagði hópverji í færslu hér: „Ég kalla þá vini mína „veðurstygga“ sem skirrast við að fara út með mér að hlaupa ef þeir heyra í vindi – og finnst það eðlilegasta mál.“ En hann bætti því við að þetta orð fyndist hvergi í bókum. Ég hef ekki heldur fundið það en tek undir að veðurstyggur hljómar eðlilega og er gagnsætt. Í framhaldi af þessu fór ég að skoða aðeins aðrar samsetningar með lýsingarorðinu -styggur. Það orð eitt og sér er skýrt 'sem fælist auðveldlega' (um dýr) í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'sem ógjarnan lætur handsama sig' í Íslenskri orðabók – þá merkingu þekki ég vel síðan ég var sveitamaður. Einnig getur orðið merkt 'önugur í skapi, móðgaður, skapstyggur'. En ýmsar samsetningar sem hafa -styggur sem seinni lið eru til, flestar þó sjaldgæfar.

Sumar þessara samsetninga eru einungis notaðar í (fornu) skáldamáli en þær sem eru notaðar í nútímamáli eru helst skapstyggur 'sem bregst oft við með reiði eða geðvonsku' og svefnstyggur 'sem vaknar fljótt við minnstu ókyrrð eða hávaða'. Í flestum samsetninganna hefur -styggur merkinguna ‚forðast‘ en merkingartengsl liðanna eru mismunandi. Þannig merkir hlaupstyggur (sem nú er horfið úr málinu) 'fælinn og styggur, sem erfitt er að ná' (um hesta) samkvæmt Íslenskri orðabók en ef við þekkjum orðið ekki gætum við eins ímyndað okkur að það merki 'sem forðast að hlaupa, latur'. Annað orð sem notað er í svipuðu hlutverki í mörgum samsetningum er -fælinn ákvarðanafælinn, áhættufælinn, vatnsfælinn o.s.frv. Reyndar er til orðið veðurfælni.

Mannsnafnið Dagstyggur kemur fyrir í Sturlungu og einnig á 17. öld. Í textanum „Ó þú“ eftir Magnús Eiríksson segir: „Dagstyggur aldrei því gleymir / að hafa þig elskað og kysst.“ Þarna er óljóst hvort þetta er hugsað sem mannsnafn eða lýsingarorð – mannlýsing. Í Morgunblaðinu 2000 er ungur maður spurður: „Hver er þinn helsti veikleiki?“ og hann svarar: „Óþolinmóður, dagstyggur (þykir gott að sofa á morgnana).“ Svigagreinin bendir til þess að ekki sé gert ráð fyrir að þessi merking sé alkunn og þetta er eina ótvíræða dæmið sem ég finn um hana en dagstyggur í þessari merkingu er lipurt og gagnsætt orð. Það er um að gera að taka orðin dagstyggur og veðurstyggur í notkun í þeim merkingum sem hér hefur verið lýst og nota -styggur í fleiri orð í stað þess að nota alltaf -fælinn.

„Drög að stefnu“ frá 2020 eru enn bara drög

Í maí 2020 kynnti Mennta- og menningarmálaráðuneytið með pompi og prakt ítarlega skýrslu starfshóps á vegum ráðuneytisins: „Drög að stefnu: Menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn“. Þar er m.a. að finna tillögur um íslensku sem annað mál: „Börn og ungmenni, sem læra íslensku sem annað mál, fái íslenskukennslu við hæfi og viðeigandi stuðning í námi svo lengi sem þörf er á. Lögð verði áhersla á að þau geti sem fyrst stundað nám jafnfætis jafnöldrum sínum sem eiga íslensku að móðurmáli. Sérstaklega þarf að styðja börn, sem eru fædd hér á landi eða koma ung til landsins, að þau fái strax í leikskóla málörvun í íslensku og fylgst sé með að þau taki reglulegum framförum.“

Síðan er liðið hálft fjórða ár og umrædd „drög að stefnu“ eru ekki komin lengra – sem sé ekki enn orðin að stefnu. Ekki nóg með það – lítið ber á því að unnið hafi verið eftir drögunum og einn skýrsluhöfunda segist ekki vita „hvort nokkuð af þeim tillögum varðandi íslensku séu komnar í framkvæmd“ þrátt fyrir að aðgerðum á sviði íslensku sem annars máls sé í drögunum settur tímaramminn 2020-2023. Það er sem sé bara hálfur annar mánuður eftir af verktímanum. Ég efast ekki um að leikskólar og grunnskólar geri sitt besta til að koma til móts við börn með annað móðurmál en íslensku en aðstæður þeirra til þess eru óviðunandi. Því miður verður ekki séð að stjórnvöld átti sig á því hversu alvarlegt ástandið er á þessu sviði. Því verður að breyta.

Mörg húsnæði

Í Málvöndunarþættinum sá ég að gerð var athugasemd við setninguna „María segist vonast til þess að félagslegu húsnæði muni fjölga á komandi misserum“ í frétt Ríkisútvarpsins og sagt að hún stæðist ekki vegna þess að orðið húsnæði væri ekki til í fleirtölu samkvæmt Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Það er vissulega rétt en eins og oft hefur verið bent á er það ekki hlutverk BÍN að úrskurða hvaða orð eða orðmyndir séu til í málinu. Þótt tiltekin beygingarmynd komi ekki fyrir þar getur hún vel verið til, en hefur ekki verið talin nægilega algeng eða útbreidd til að taka hana með. Þannig er það um fleirtölu orðsins húsnæði – en reyndar er orðið alls ekki í fleirtölu í umræddri frétt því að þá stæði þar félagslegum húsnæðum. Athugasemdin var réttmæt en forsendan röng.

Það táknar samt ekki að orðið komi ekki fyrir í fleirtölu. Vegna þess að myndir nefnifalls og þolfalls eintölu og fleirtölu án greinis falla saman – eru allar húsnæði – er þó ekki hlaupið að því að leita að dæmum um fleirtöluna, og verður að byggja á sjaldgæfari beygingarmyndum þar sem eintala og fleirtala falla ekki saman. Myndin húsnæðin getur aðeins verið fleirtala – nefnifall eða þolfall með greini. Um þá mynd eru 135 dæmi á tímarit.is, það elsta í Þjóðólfi 1886: „Fyrir hina miklu eptirsókn eptir sjálfsmennsku ganga sumir einfeldningar að svo hörðum kostum hjá þeim, sem leigja þeim húsnæðin, að þeir ekki geta komizt af til lengdar.“ Stöku dæmi eru svo um þessa mynd alla 20. öldina, 1-5 á hverjum áratug, en fer fjölgandi á síðasta áratug aldarinnar og sérstaklega eftir aldamót.

Myndin húsnæðum getur ekki verið annað en þágufall fleirtölu. Um hana eru 127 dæmi á tímarit.is, það elsta í Reykjavík 1907: „Húsnæðisskrifstofan Grettisgötu 88, Talsími 129 hefir mikið úrval af húsnæðum til leigu frá 14. Maí n.k.“ Einnig eru 17 dæmi um myndina með greini, húsnæðunum. Um eignarfall fleirtölu húsnæða eru 80 dæmi, það elsta í Alþýðublaðinu 1926: „þá væri uppsagnarfrestur húsnæða ekki útrunninn á næsta þingi.“ Sex dæmi eru svo um húsnæðanna með greini. Þarna er hátt á fjórða hundrað dæma en þó vantar bæði nefnifall og þolfall án greinis sem myndi hækka töluna um nokkur hundruð. T.d. eru 23 dæmi um þessi húsnæði, 7 um öll húsnæði og 6 um mörg húsnæði. Tíðniþróun allra þessara mynda er svipuð og húsnæðin.

Risamálheildin staðfestir að notkun fleirtölunnar fer mjög í vöxt. Allar þær beygingarmyndir sem nefndar voru hér að framan koma þar fyrir, ekki síður í formlegu máli en óformlegu, og eru talsvert algengari en á tímarit.is. Ljóst er að notkun fleirtölunnar sprettur af þörf – ekkert eitt orð getur komið í stað hennar í dæmum eins og „Við erum að tala um svo svakalega mörg húsnæði þar sem komið hefur upp mygla“ í mbl.is 2017 eða „Reykjavíkurborg keypti húsnæðin sem um ræðir og fær afhent á árinu“ í Vísi 2019 eða „Hefur DV staðfestar heimildir fyrir því að fjöldi fólks býr í þessum tveim húsnæðum“ í DV 2020. Þarna væri hvorki hægt að nota íbúð hús í staðinn – merking beggja orða er of þröng. Ég sé ekkert að því að nota húsnæði í fleirtölu þegar þess er þörf.

Auðvitað má andmæla þessu og segja að húsnæði sé ekki teljanlegt og þess vegna sé ekki hægt að hafa það í fleirtölu – frekar en hveiti, sykur, mjólk o.s.frv. Það er vissulega rétt að þannig var orðið notað áður fyrr og er oftast enn – þá hefur það almenna merkingu en ekki sértæka. En fleirtalan af húsnæði er gömul – hana er t.d. að finna í kvæðinu „Patrekur frændi“ eftir Stephan G. Stephansson: „En hringinn í kring vóru húsnæði stór / og hálendar ekrur og frjóar.“ Ýmis dæmi önnur eru um að orð þar sem merkingin hefur víkkað á sama hátt þannig að nú er hægt að nota þau í afmarkaðri vísun – orð eins og smit, þjónusta, keppni og ýmis fleiri. Vissulega þarf að venjast þessu og sumum hugnast það ekki, en í mörgum tilvikum er komin löng hefð á slíka merkingarbreytingu.

Enskt heiti á verkefni ráðuneytis

Mennta- og barnamálaráðuneytið var að setja af stað verkefni undir heitinu „TEAM-Iceland“. Í kynningu á því segir: „TEAM-Iceland er framtíðarsýn starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um íþrótta- og afreksmiðstöð.“ Framtíðarsýn ráðuneytisins er sem sé á ensku. Verkefnið er eflaust gott en heitið er til skammar. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins er ekki að finna neina skýringu á því að það er haft á ensku – hún virðist einhvern veginn vera sjálfgefin og ekki þarfnast útskýringar. Það er ótrúlegt að íslenskt ráðuneyti – og það Mennta- og barnamálaráðuneytið – skuli ekki geta fundið íslenskt heiti á verkefni sem það stendur fyrir. Enskan þrengir að íslensku á öllum sviðum og íslenskan þarf síst af öllu á því að halda að stjórnvöld hunsi hana á þennan hátt.

Ég minni á að mennta- og barnamálaráðherra á sæti í ráðherranefnd um íslenska tungu sem var sett á fót fyrir ári – og lítið hefur heyrst frá. Eftir höfðinu dansa limirnir og ef stjórnvöld hafa ekki meiri metnað fyrir hönd íslenskunnar en þetta heiti bendir til er baráttan vonlítil. Eins og ég hef oft sagt verða einstök ensk heiti, skilti og auglýsingar auðvitað ekki til að drepa íslenskuna. En þau hafa samt táknrænt gildi og eru vísbending um afstöðuna til tungumálsins, ekki síst þegar þau koma frá aðilum sem ættu að vera í forystu um að halda íslenskunni á lofti. Ég vonast til að ráðuneytið finni þessu verkefni íslenskt heiti hið snarasta – a.m.k. fyrir dag íslenskrar tungu eftir viku. Ég hef skrifað ráðuneytinu um þetta og bíð spenntur eftir skýringu. Hún þarf að vera góð.

Skrekkur

Undanfarin þrjú kvöld hef ég setið í Borgarleikhúsinu og horft á undankeppni Skrekks, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Ástæðan er sú að í fyrra var ákveðið að taka upp sérstaka íslenskuviðurkenningu í keppninni, „Skrekkstunguna“, til að hvetja til skapandi og jákvæðrar málnotkunar og ég var beðinn um að taka sæti í dómnefnd – og svo aftur í ár. Þetta var einstaklega ánægjulegt starf og gaman að sjá hversu metnaðarfull, vönduð og fjölbreytt atriðin 24 voru. Þar var sannarlega að finna skapandi og jákvæða málnotkun, og líka dans, söng og gleði. En þarna var líka mikil alvara – fjallað m.a. um loftslagsbreytingar, símafíkn, einelti, ofbeldi, kynferðislega misnotkun, sjálfsvíg og mikilvægi samkenndar og inngildingar.

Mér fannst fara meira fyrir íslensku en í keppninni í fyrra og skilst að þá hafi hún verið meira áberandi en árin á undan – vonandi er það fyrir áhrif þessarar viðurkenningar. Dómnefndin hittist á morgun til að velja sigurvegara, sem verður að sjálfsögðu ekki tilkynntur fyrr en á úrslitakvöldinu 13. nóvember. Nokkur atriði koma til greina og valið verður ekki auðvelt en ég er ekki í vafa um að nefndin kemst að niðurstöðu sem hún getur verið stolt af – eins og auðvitað skólinn sem ber sigur úr býtum. Ég hvet ykkur til að horfa á útsendingu frá úrslitakeppninni í Ríkissjónvarpinu á mánudagskvöld, en í millitíðinni getið þið skemmt ykkur við upptökur frá undankeppninni og sannfærst um að unglingarnir eru ekki á leið með íslenskuna í hundana.

Er „ósamræmi“ í máli í eðli sínu vont?

Í umræðu um tvenns konar fleirtölu orðsins Japani sagði Árni Böðvarsson í bókinn Íslenskt málfar: „En það er illt að rugla saman þessum beygingum og nota til dæmis Japanar í nefnifalli og svo Japani í þolfalli. Slíkt bendir til málkenndar sem eftir er að þroska betur.“ Ég veit reyndar ekki hvort til er fólk sem beygir fleirtölumyndir orðsins Japani á þennan hátt, en miðað við hvernig nefnifallsmyndirnar Japanar og Japanir eru notaðar til skiptis í sömu greinum eins og ég hef skrifað um finnst mér það mjög líklegt. En vissulega er það rétt að slík beyging væri óvenjuleg – reglan er að sama sérhljóð sé í endingum nefnifalls og þolfalls fleirtölu í íslenskum karlkynsnafnorðum. Við segjum hestar um hesta, gestir um gesti, nemendur um nemendur.

Þetta er samt ekki algilt. Mörg karlkynsorð með viðskeytinu -leik- eiga sér tvímyndir, veika og sterka – sannleiki og sannleikur, kærleiki og kærleikur, biturleiki og biturleikur, einfaldleiki og einfaldleikur, o.fl. Veiku og sterku myndirnar beygjast á mismunandi hátt – sú veika endar á -a í öllum aukaföllum eintölu (sannleiki sannleika), en sú sterka er endingarlaus í þolfalli og þágufalli en fær -s-endingu í eignarfalli (sannleikur – sannleiksannleiks). Og þó – þetta er vissulega sú beyging sem búast mætti við út frá kerfinu en í sumum þessara orða, a.m.k. sannleiki /sannleikur, blandast þetta venjulega saman – við segjum yfirleitt sannleikurinn er sagna bestur, en hins vegar segðu sannleikann og þetta er sannleikanum samkvæmt.

Í fyrsta dæminu er beygingin sterk en veik í þeim seinni. Þarna blandast sem sé saman beyging tveggja orða – eða tveggja beygingaflokka, eftir því hvernig við lítum á þetta – án þess að við tökum eftir því eða það trufli okkur nokkuð. Hins vegar hljómar það undarlega að nota veiku beyginguna í sannleikinn er sagna bestur og þá sterku í segðu sannleikinn og þetta er sannleiknum samkvæmt. (Svo má bæta því við að sterka myndin er notuð í samsetningum – sannleiksást, sannleikskorn, ekki *sannleikaást, *sannleikakorn.) En í raun er þessi beyging sem flestum er eðlileg, sannleikur um sannleika í stað sannleikur um sannleik eða sannleiki um sannleika, alveg hliðstæð við það að beygja Japanar um Japani – eða Japanir um Japana.

Fjölmörg svipuð dæmi má nefna og ég hef skrifað um þau sum, eins og þágufallið greftri og eignarfallið graftrar sem „ætti“ að vera grefti og graftar; eignarfallið jarðgangna sem „ætti“ að vera jarðganga; fleirtölumyndirnar fæturnar og fingurnar sem „ættu“ að vera fæturna og fingurna; o.m.fl. Vissulega ber ekki að gera lítið úr reglum málsins – þær eru ekki síst mikilvægar fyrir börn á máltökuskeiði og auðvelda þeim það risavaxna verkefni að læra móðurmál sitt á fáum árum. En „óregla“ eins og hér hefur verið til umræðu ber samt alls ekki vott um óþroskaða málkennd heldur eru þetta einfaldlega eðlileg tilbrigði í málinu sem sýna að kerfið er ekki alltaf jafn reglulegt og málfræðingum hættir til að halda – eða telja fólki trú um.

Albanir, Búlgarir, Japanir, Portúgalir

Í bókinni Íslenskt málfar segir Árni Böðvarsson: „Japani er í fleirtölu bæði Japanar og Japanir […]. Til samræmis við flest önnur þjóðaheiti og til að vinna á móti afskræmdum þjóðaheitum eins og „Albanir, Búlgarir, Portúgalir“ þótti hins vegar rétt að styðja fleirtölumyndina Japanar.“ Í Málfarsbankanum er fleirtala umræddra þjóðaheita sögð Albanar, Búlgarar, Portúgalar – og Japanar. Ekki er þó einhugur um þetta – þannig sagði Gísli Jónsson í Morgunblaðinu 1994: „Árni Böðvarsson telur að íbúi í Japan sé réttnefndur Japani og því sé rétt fleirtala Japanar. Umsjónarmaður á erfitt með að venja sig af fleirtölunni Japanir.“ Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er bæði gefið Albanar og Albanir, Japanir og Japanar, Portúgalar og Portúgalir.

Fleirtala umræddra orða hefur lengi verið á reiki og ótal dæmi má finna um að tvenns konar fleirtala sé notuð í sömu grein, jafnvel í samliggjandi málsgreinum. Í Rökkri 1944 segir: „þar hafa Japanir flotastöð mikla, og safnast þar saman skipalestir þær, sem Japanar senda til Suðvestur-Kyrrahafssvæðisins.“ Í Vísi 1940 segir: „Búlgarar óttast að svo muni ekki vera. Búlgarir óttast ekkert af Rússa hendi.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Sagði hann að margir Albanar hefðu tekið þátt í innrás Ítala í Grikkland […]. Hefðu Albanir síður en svo verið mótfallnir fasistum Mussolinis á þessu tímabili.“ Í Alþýðublaðinu 1972 segir: „Portúgalar læra af Bandaríkjamönnum. Þær aðferðir sem þeir nota í Indo-Kína taka Portúgalir upp í Afríku.“

Allar „röngu“ fleirtölumyndirnar eru gamlar og algengar þótt þær „réttu“ séu vissulega oftast eldri. Á tímarit.is er elsta dæmi um Búlgarar frá 1849 en um Búlgarir frá 1886; um Japanar frá 1860 en um Japanir frá 1896; og um Portúgalar frá 1872 en um Portúgalir frá 1931. Hins vegar er elsta dæmi um Albanir frá 1849, 30 árum eldra en Albanar frá 1878. „Réttu“ myndirnar Búlgarar og Portúgalar eru líka mun algengari en þær „röngu“ – 82% af heildarfjölda dæma um nefnifall fleirtölu í fyrrnefnda orðinu og 60% í því síðarnefnda. Hins vegar eru „réttu“ myndirnar Albanar og Japanar mun sjaldgæfari en þær „röngu“ – sú fyrrnefnda er aðeins um 33% af heildarfjölda dæma um nefnifall fleirtölu og sú síðarnefnda um 30%.

Veik karlkynsorð (sem enda á -i í nefnifalli eintölu) fá vissulega nær alltaf endinguna -ar í nefnifalli fleirtölu (að undanskildum orðum sem eru upphaflega lýsingarháttur nútíðar, eins og nemandi). Það getur því í fljótu bragði virst undarlegt að umrædd orð skuli hafa tilhneigingu til að hverfa frá endingunni -ar – en það á sér einfalda skýringu. Þrjú orð, Dani, Grikki og Ítali, „eiga“ nefnilega að fá -ir-endingu í fleirtölu – Danir, Grikkir, Ítalir. Þetta eru allt þjóðaheiti, rétt eins og orðin sem hér eru til umræðu. Engin önnur veik karlkynsorð sýna tilhneigingu til að fá -ir-endingu í fleirtölu þannig að það er nokkuð augljóst að málnotendur skynja þarna reglu sem þeir leitast við að fella önnur þjóðaheiti undir. Það er fullkomlega eðlilegt.

Ástæðan fyrir því að Dani og Grikki fá fleirtöluendinguna -ir í stað hinnar venjulegu -ar-endingar er væntanlega sú að í fornu máli voru þessi orð sterk, Danr og Grikkr sem hefði átt að verða Danur og Grikkur í nútímamáli. Eðlileg fleirtala orða með slíka stofngerð er einmitt Danir og Grikkir. En vegna þess að þessi orð eru af merkingarlegum ástæðum margfalt algengari í fleirtölu en eintölu hafa orðið til nýjar eintölumyndir út frá fleirtölunni – Dani og Grikki. Ítali er yngra orð sem væntanlega hefur lagað sig að þessu mynstri – eins og Albani, Búlgari, Japani og Portúgali hafa tilhneigingu til. Einnig kemur fyrir að tilhneigingin gangi í öfuga átt þótt það sé mun sjaldgæfara – slæðingur af dæmum er um bæði Grikkjar og Ítalar.

Ástæður þess að -ir-fleirtölumyndirnar Albanir, Búlgarir, Japanir og Portúgalir er taldar „rangar“ eru væntanlega annars vegar sú að -ar-myndirnar eru (oftast) eldri, og hins vegar að -ar-fleirtala er meginregla í veikum karlkynsorðum. En eins og hér hefur komið fram er -ir-fleirtala greinilega í samræmi við málkennd margra málnotenda. „Leiðréttingar“ sem vinna gegn málkennd fólks geta verið varasamar og skapað óöryggi og rugling eins og Höskuldur Þráinsson hefur sýnt fram á, og ekki kæmi á óvart þótt einhver þeirra dæma sem vitnað var til hér að framan stöfuðu einmitt af slíku. Hvað sem því líður er algerlega ástæðulaust að tala um -ir-myndirnar sem „afskræmd þjóðaheiti“ – notum þær endilega ef þær eru eðlilegt mál okkar.