Posted on Færðu inn athugasemd

Lífvænleiki íslenskunnar

Á degi íslenskrar tungu skulum við gleðjast yfir því að íslenskan stendur á margan hátt vel þrátt fyrir að ýmsar ytri aðstæður séu henni óhagstæðar um þessar mundir. Auk sterkrar og samfelldrar bókmenntahefðar og lifandi áhuga almennings byggist styrkur íslenskunnar ekki síst á því að hún er aðaltungumálið eða eina tungumálið á öllum helstu sviðum þjóðlífsins: í stjórnkerfinu, í menntakerfinu, í heilbrigðiskerfinu, í verslun og viðskiptum, í fjölmiðlum, í menningarlífinu, í netsamskiptum, í samskiptum augliti til auglitis, og inni á heimilinu.

Við hugsum ekki alltaf út í hvað það er merkilegt að 360 þúsund manna samfélag skuli eiga sér sérstakt tungumál sem gegnir burðarhlutverki á öllum sviðum í tæknivæddu nútímaþjóðfélagi. Vissulega er til mikill fjöldi tungumála sem færra fólk talar, en langflest þeirra eru tungumál þjóða og þjóðflokka þar sem aðeins fá áðurnefndra sviða koma við sögu. Það er líka til fjöldi tungumála sem milljónir eða milljónatugir fólks eiga að móðurmáli, en eru aukatungumál eða minnihlutamál í viðkomandi samfélagi og aðeins notuð á sumum sviðum og eiga því undir högg að sækja.

Samkvæmt mælikvarða UNESCO um lífvænleik tungumála er íslenska í fimmta og efsta styrkleikaflokki. Þessi kvarði byggist á sex mælistikum sem sýndar eru í töflunni hér fyrir neðan, ásamt þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla til að komast í efsta þrep hverrar stigu. Hingað til hefur verið talið ótvírætt að íslenska sé í efsta þrepi á þeim öllum og sé þar með örugg. En ef til vill er ekki lengur alveg ljóst að íslenska nái efsta þrepi samkvæmt öllum viðmiðum, og hugsanlega kalla tæknibreytingar síðustu ára líka á einhver ný viðmið.

Mælistika Viðmið til að komast í efsta þrep mælistikunnar
Flutningur málsins milli kynslóða Málið er notað af öllum aldurshópum, frá börnum og upp úr
Fjöldi málhafa Útilokað að nefna tölu, en málsamfélög eru því viðkvæmari sem þau eru minni
Hlutfall málhafa af heildaríbúafjölda Allir nota málið
Umdæmi eða svið sem málið er notað í Málið er notað á öllum sviðum og til allra þarfa
Viðbrögð málsins við nýjum sviðum og miðlum Málið er notað á öllum nýjum sviðum
Kennsluefni í máli og læsi Málið á sér stafsetningu, rithefð, málfræðibækur, orðabækur, texta, bókmenntir og fjölmiðla. Ritmálið er notað í stjórnsýslu og menntun

Utanaðkomandi áreiti á tungumálið hefur stóraukist á síðasta áratug, bæði af völdum þjóðfélagsbreytinga og tæknibreytinga. Þeim íbúum landsins sem ekki tala íslensku fer t.d. ört fjölgandi, og enskunotkun fer vaxandi á ýmsum sviðum, t.d. í ferðaþjónustu, háskólakennslu, viðskiptalífinu og víðar. Jafnframt hafa komið fram vangaveltur um hugsanlega truflun á máltöku vegna ónógrar íslensku í málumhverfinu. Þá valda þættir eins og snjalltækjanotkun, áhorf á efni á erlendum efnisveitum eins og YouTube og Netflix, alþjóðavæðing o.fl. auknum þrýsting á íslenskuna og langtímaáhrif þessara þátta eru óljós.

Sem betur fer höfum við það í hendi okkar að bregðast við öllum þessum hugsanlegu ógnunum. Sumt er á ábyrgð stjórnvalda, ekki síst að gera íslensku gjaldgenga í stafrænu umhverfi, og nú er verið að gera átak í því. Það þarf líka að styðja myndarlega við gerð vandaðs og áhugaverðs fræðslu- og afþreyingarefnis á íslensku – bóka, sjónvarpsþátta, margmiðlunarefnis, tölvuleikja o.fl. Einnig er brýnt að stórauka og bæta kennslu í íslensku sem öðru máli fyrir fólk sem hér býr og starfar.

En á endanum byggist þetta ekki síst á foreldrum, heimilum og skólum – við þurfum að tala við börnin, lesa fyrir þau og hvetja þau til lestrar, og vekja með þeim áhuga á íslenskunni og rækta jákvætt viðhorf til hennar. Við þurfum að hætta ófrjóu málfræðistagli í kennslu og láta skapandi vinnu með málið koma í staðinn. Og við þurfum að stuðla að því að börnin verji minni tíma í enskum málheimi – ekki með boðum og bönnum, heldur með því að bjóða þeim upp á áhugavert efni á íslensku í staðinn.

Það er okkar að sjá til þess að íslenskan lifi. Ef við höfum ekki áhuga á því að halda í málið og þar með þau menningarverðmæti sem það geymir er það dauðadæmt. Ábyrgðin er okkar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Áhersluforliðir

Flest algengustu lýsingarorð málsins hafa tiltölulega víða merkingu – eru notuð til að lýsa margs konar hlutum og fyrirbærum, og nákvæm merking þeirra fer eftir orðinu sem þau standa með hverju sinni. Vissulega er sameiginlegur merkingarþáttur í lýsingarorðinu góður í góður maður, góð bók, góð hugmynd, góður bíll, gott skap, góð líðan, gott veður, gott ráð, góð skemmtun, góð ríkisstjórn, en merkingartilbrigði orðsins eru samt jafnmörg og orðin sem það tengist. Þetta kemur líka fram í notkun áhersluforliða. Þeir eru sjaldnast notaðir með tilteknu lýsingarorði í öllum merkingartilbrigðum þess, heldur er notkun þeirra yfirleitt bundin við ákveðið samhengi.

Orðið eldheitur er t.d. auðskiljanleg líking, 'heitur eins og eldur', en samt er ekki hægt að tala um eldheitt vatn eða eldheitan ofn. Forliðurinn er bundinn við óeiginlega merkingu orðsins heitur, þ.e. 'ákafur' – við getum talað um eldheitan aðdáanda, eldheitan stuðningsmann o.s.frv. En þótt við tölum ekki um eldheitan ofn getum við talað um funheitan ofn – samt merkir funi 'eldur' og því mætti búast við að hægt væri að nota eldheitur og funheitur í sama samhengi. Við getum notað funheitt um lofthita, en aðeins innan dyra – ég held að við myndum aldrei segja að það væri funheitt úti jafnvel þótt við værum stödd í 30 stiga hita. Mörg fleiri hliðstæð dæmi mætti tína til.

Lýsingarorðið fullur er áhugavert í þessu sambandi. Það getur tekið með sér mikinn fjölda forliða, en flestir þeirra eiga við eina merkingu orðsins, þ.e. 'drukkinn'. Meðal samsetninga sem hafa þá merkingu eru augafullur, blekfullur, blindfullur, draugfullur, drullufullur, haugfullur, hrútfullur, kengfullur, kolfullur, kóffullur, moldfullur, perufullur, pissfullur, pöddufullur, sjóðfullur, svartfullur, svínfullur, þéttfullur, öskufullur og örugglega mörg fleiri. Stundum er hægt að tengja tvo eða jafnvel þrjá forliði saman og vera blindaugafullur, blindöskufullur, blindöskuaugafullur, blindaugaöskufullur o.s.frv. Þó er varla hægt að segja *draugkengfullur eða *kófpissfullur eða *bleksjóðfullur svo að dæmi séu tekin.

Þegar fullur er notað í annarri merkingu verður að nota aðra áhersluforliði – barmafullur, kjaftfullur, kúffullur, sneisafullur o.s.frv. Sumar þessara samsetninga með -fullur hafa bókstaflega merkingu, t.d. barmafullur, aðrar eru líkingar af ýmsu tagi, misjafnlega augljósar, t.d. kjaftfullur, og enn aðrar tengja venjulegir málnotendur tæpast við upprunann. Undir það fellur sneisafullur, en samkvæmt Íslenskri orðsifjabók var sneis 'teinn eða spýta notuð til að loka sláturkepp' – þegar keppurinn er sneisafullur er mál til komið að loka honum með sneisinni. Svo eru einhver orðanna tökuorð eða gerð að erlendri fyrirmynd – pissfullur er t.d. væntanlega komið úr dönsku, pissefuld.

Allt sýnir þetta að notkun áhersluforliða er mjög háð málvenjum og ekki fyrirsegjanleg út frá merkingunni einni saman – við þurfum að læra hvaða forliði er hægt að nota með hvaða lýsingarorðum við hvaða aðstæður. Sú kunnátta kemur ekki öll í einu, heldur byggist upp smátt og smátt, og börn nota t.d. oft forliði á annan hátt en fullorðið fólk – þau eru búin að læra forliðina og átta sig á hlutverki þeirra, en ekki á öllum takmörkunum sem gilda um notkun þeirra. Og notkun forliðanna er ekki heldur klöppuð í stein – stundum notar fólk nýja forliði til áherslu, eða þekkta forliði í öðru samhengi en venja er. Ástæðulaust er að hafna slíkri tilbreytingu fortakslaust – í henni getur oft falist skemmtileg nýsköpun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að á undanhaldi

Fjöldi íslenskra sagna tekur með sér nafnháttarsamband, en með því er átt við „sögn í nafnhætti og þá setningarliði sem tengjast henni náið, svo sem andlög hennar og aðra fylliliði“ segir Höskuldur Þráinsson í bókinni Setningar. Á eftir sumum þessara sagna hefst nafnháttarsambandið á nafnháttarmerkinu , en á eftir öðrum getur ekki staðið.

Hér eru taldar helstu sagnir í hvorum hópi fyrir sig – seinni hópnum fylgja þrjár sagnir sem taka með sér nafnháttarsamband þegar þær eru í þolmynd:

  • reyna að (gera eitthvað), lofa að (gera eitthvað), eiga að (gera eitthvað), hljóta að (gera eitthvað), kunna að (gera eitthvað), verða að (gera eitthvað), þurfa að (gera eitthvað), ætla að (gera eitthvað)
  • mega (gera eitthvað), munu (gera eitthvað), skulu (gera eitthvað), vilja (gera eitthvað), hyggjast (gera eitthvað), reynast (gera eitthvað), sýnast (gera eitthvað), virðast (gera eitthvað); (vera) álitinn (gera eitthvað), (vera) talinn (gera eitthvað), (vera) sagður (gera eitthvað)

Þessum samböndum má skipta í nokkra flokka á setningafræðilegum og merkingarlegum forsendum en það er of flókið til að fara út í hér. Nóg er að nefna að sú flokkun stjórnar því ekki hvort sögnin tekur með sér eða ekki; t.d. tekur reyna með sér en hyggjast ekki þótt þær séu í sama flokki, og eiga tekur með sér en mega ekki þótt þær séu í sama flokki.

Ég veit ekki til að sagnir séu mikið að flakka milli þessara hópa í nútímamáli, en það er samt ekki langt síðan margar þessara sagna breyttu um hegðun. Fram yfir miðja 20. öld gátu allar sagnirnar í seinni hópnum, að undanteknum núþálegu sögunum mega, munu, skulu og vilja, tekið með sér nafnháttarsamband sem byrjaði á .

  • Skipshöfnin fór þá í bátana og hugðist að draga skipið áfram (Norðurland 1905)
  • Meðalvigtin á þessum 111 kúm reyndist að vera 720 pd. (Fjallkonan 1903)
  • Þetta virðist að vera reglulegur stjarfi (Vísir 1915)
  • Ef tungl sýnist að vera myrkt og dimmt og hornalítið (Veðrið 1963)
  • Hann er sagður að vera vel mentaður maður (Heimskringla 1898)
  • Hann var álitinn að vera með lærðustu mönnum (Norðanfari 1879)
  • Veðurhraðinn er talinn að hafa verið 60 til 70 mílur á kl.tíma (Heimskringla 1903)

Sumar þessara sagna, a.m.k. sýnast, virðast, hyggjast, koma fyrir með þegar í fornu máli en elstu dæmi um með þolmyndarsögnunum sagður, álitinn, talinn eru frá miðri 19. öld. Blómatími sambanda með virðist vera síðustu áratugir 19. aldar fyrir sýnast að og virðast að, fyrsti þriðjungur 20. aldar fyrir sagður að, álitinn að og talinn að, og þriðji til fimmti áratugur 20. aldar fyrir reynast að og hyggjast að.

Síðustu leifar allra sambandanna eru svo að fjara út um og upp úr 1960 ef marka má tímarit.is. Eftir það má finna fáein dæmi um þolmyndarsagnirnar talinn að og álitinn að, en nær eingöngu að finna í textum tveggja manna sem skrifuðu mikið í blöð og voru fæddir kringum aldamótin 1900.

Það er athyglisvert að á síðustu áratugum 19. aldar og fram á miðja 20. öld er hlutfall dæma með margfalt hærra í vesturíslensku blöðunum Lögbergi og Heimskringlu en í blöðum sem gefin voru út á Íslandi. Þessi setningagerð virðist því hafa verið mun meira áberandi og varðveist betur í vesturíslensku en í málinu sem talað var hér heima. Óvíst er hvernig megi skýra það.

Vitað er að hátt hlutfall vesturfara kom af Norðausturlandi – hugsanlegt er að þessi setningagerð hafi verið algengari þar og það endurspeglist í vesturíslenskunni. En svo má benda á að samsvarandi sagnir í ensku taka með sér nafnháttarmerkið to (intends to be, seems to be, appears to be, proves to be, is considered to be, is said to be, is believed to be). Það gæti hafa stuðlað að því að halda þessari setningagerð við.

Hvað sem þessu líður svarar það ekki þeirri spurningu hvers vegna þessar sagnir hafi misst . Þó er rétt að hafa í huga að var aldrei einrátt, eins og það er og hefur verið með sögnunum í fyrri flokknum hér að framan (reyna að o.s.frv.) – alltaf voru líka til myndir án . Hugsanlegt er að amast hafi verið við -myndunum í kennslu, en ég hef þó ekki fundið nein dæmi um það. Þetta verður því að vera óráðin gáta enn um sinn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Jóakim frændi, Ástríkur og Steinríkur

Áhersluforliðir lýsingarorða eru fjölmargir og uppruni þeirra mismunandi. Í flestum tilvikum er um að ræða upphaflegar líkingar, eins og í eldrauður 'rauður eins og eldur', eldheitur 'heitur eins og eldur' o.s.frv., En vegna þess að í líkingunni felst oft áhersluauki fer fólk að skynja forliðinn þannig að áherslan sé meginhlutverk hans, og áherslumerkingin yfirtekur þá bókstaflegu merkinguna og þá er hægt að nota hann án þess að um nokkra líkingu sé að ræða – eins og í eldklár, eldhress, eldfjörugur, eldsnöggur o.s.frv. Stundum getur leikið vafi á því hvort um líkingu eða áherslu er að ræða – í orðum eins og eldsnemma gæti eld- bara merkt 'mjög', þótt vissulega megi hugsa sér að um sé að ræða líkingu við sólarupprásina.

Einn slíkur áhersluforliður er stein-, í orðum eins og steindauður, steingeldur, steinsofandi o.fl. Í þeim orðum má líta á það sem líkingu – steindauður er 'dauður eins og steinn'. En áhersluforliðurinn stein- kemur einnig fyrir án þess að um líkingu sé að ræða, a.m.k. í lýsingarorðinu steinríkur, sem aldrei hefur verið mikið notað. Í elsta dæmi sem ég hef fundið um það orð er reyndar ekki um lýsingarorð að ræða, heldur mannsnafn. Í revíunni Halló Ameríka sem var sýnd í Reykjavík 1942 kom fyrir persónan Steinríkur milljóneri, riddari af Petsamó-orðunni. Það er lítill vafi á því hvaðan þetta nafn er fengið – við sem höfum lesið Andrés Önd á dönsku vitum að þar er lýsingarorðið stenrig iðulega notað um Jóakim frænda.

Elstu dæmin um steinríkur sem lýsingarorð eru litlu yngri, en óvíst er hvort revían hefur flutt orðið inn í málið eða hvort það hefur eitthvað verið notað áður og verið tekið til handargagns í revíunni. Þegar farið var að þýða bækurnar um Asterix á íslensku seint á áttunda áratug síðustu aldar þótti eðlilegt að gefa persónunum íslensk nöfn og aðalpersónunni var valið nafn sem hljómaði svipað og erlenda heitið – Ástríkur. Besti vinur hans hét nafni með sömu endingu, Obelix, og þar sem hann bar iðulega bautastein á bakinu lá beint við að gefa honum nafnið Steinríkur. Þar hefur stein- því bókstaflega merkingu – 'ríkur af steinum'.

Jóakim frændi var sannarlega steinríkur en það hefði líka mátt lýsa honum sem moldríkum. Það orð merkir eingöngu 'vellauðugur', 'ákaflega ríkur' samkvæmt orðabókum, og á Vísindavefnum er gert ráð fyrir að þetta sé líking, „sótt til þess að moldin er duftkennd blanda með fleiri kornum en tölu verður á komið með góðu móti“. En þegar að er gáð kemur í ljós að lengi framan af var orðið bara notað í bókstaflegri merkingu, 'ríkur af mold', en ekki sem líking. Elsta dæmið um orðið er í Búnaðarritinu 1890 þar sem segir: „Í ræktaðri jörð er moldin vanalega eigi meiri en frá 3-10% af matjörðinni; sje hún meiri, þá er jörðin kölluð moldrík.“

Langt fram eftir 20. öldinni er þetta orð eingöngu notað um jarðveg – fyrsta dæmið þar sem það er notað um fólk er í Vísi 1966: „Þeir sem kaupa miða í dag eða næstu daga, gætu átt von á því að vera ef til vill orðnir moldríkir bílaeigendur á þriðjudaginn.“ Þarna virðist mold- vera skynjað sem áhersluforliður án tengsla við orðið mold, og notkun orðsins moldríkur í þessari merkingu verður mjög algeng á níunda áratug síðustu aldar. En þótt mold- hafi bókstaflega merkingu í moldríkur lengi framan af virðist liðurinn nokkuð snemma hafa fengið áherslumerkingu í öðrum orðum, a.m.k. með fullur. Í Iðunni 1918 segir t.d.: „Já, ég hefi nú ekki gott af að drekka meira, ég er orðinn moldfullur.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Fram fyrir skjöldu

Langflest íslensk karlkynsnafnorð enda í nefnifalli fleirtölu annaðhvort á -ar (hestur – hestar, hani – hanar) eða -ir (vinur – vinir, Dani – Danir). Nokkur karlkynsorð enda reyndar á -ur í nefnifalli fleirtölu en það er afmarkaður og lokaður hópur – orð komin af lýsingarhætti þátíðar (eigandi – eigendur, nemandi – nemendur, bóndi – bændur, frændi – frændur, fjandi - fjendur), tvö frændsemisorð (faðir – feður, bróðir – bræður) og þrjú að auki (fingur – fingur, fótur – fætur, vetur – vetur). Öll orðin sem fá -ur-fleirtölu hafa það sameiginlegt að þolfall fleirtölu er eins og nefnifallið.

Í öllum öðrum karlkynsorðum er þolfallið hins vegar eins og nefnifall að frádregnu -r (hestar – hesta, hanar – hana; vinir – vini, Danir – Dani).  Þetta er undantekningarlaust í nútímamáli – en þannig hefur það ekki alltaf verið. Í fornu máli var hópur karlkynsorða (svonefndir u-stofnar) sem hafði endinguna -ir í nefnifalli fleirtölu en endaði þó ekki á -i í þolfalli. Flest þessara orða hafa stofnsérhljóðið (j)ö í nefnifalli – höttur, knöttur, köttur, völlur, þröstur; björn, fjörður, hjörtur, kjölur, skjöldur o.fl. Einnig voru þetta orð eins og háttur, þáttur, friður, viður, tugur o.fl. Þolfall fleirtölu þessara orða endaði áður á -u: kettir – köttu, vellir – völlu, firðir – fjörðu, skildir – skjöldu, hættir – háttu, viðir – viðu, o.s.frv.

Nú hefur þolfall fleirtölu allra þessara orða breyst, og þau beygjast í nútímamáli eins og önnur karlkynsorð sem hafa -ir í nefnifalli fleirtölu (vinur, Dani o.s.frv.) – þ.e., fá -i í stað -u í þolfalli fleirtölu. Flest þessara orða hafa sérhljóðavíxl í stofni og ákveðin tengsl eru milli stofnsérhljóðs og endingar, þannig að um leið og endingin breytist verður stofnsérhljóð þeirra það sama og í nefnifallinu (köttu verður ketti, sbr. kettir; fjöu verður fii, sbr. fiir; háttu verður hætti, sbr. hættir; o.s.frv.). Það eru ótal önnur dæmi um að beyging orða hafi breyst frá fornu máli, en þessi breyting er sérstök að því leyti að með henni hvarf í raun heill beygingarflokkur úr málinu – það eru ekki eftir nein orð sem beygjast á þennan hátt.

Þessi breyting er mjög auðskiljanleg og eðlileg. Yfirgnæfandi meirihluti karlkynsorða sem enduðu á -ir í nefnifalli fleirtölu hafði þolfall sem endaði á -i (vinir – vini) og þau orð voru því í miklu betri stöðu til að hafa áhrif á orðin sem höfðu þolfall sem endaði á -u (kettir – köttu) en öfugt. Við það bætist að eldri beyging orðanna gekk gegn þeirri meginreglu í beygingu karlkynsorða sem áður hefur verið nefnd, að þolfall fleirtölu sé eins og nefnifall að frádregnu -r. En þótt eldri beyging orðanna sé alveg horfin úr almennu máli bregður henni fyrir í einstöku tilvikum, einkum í föstum orðasamböndum eins og ganga fram fyrir skjöldu, koma einhverjum í opna skjöldu, fara vestur á fjörðu, o.fl. Einnig er myndin háttu nokkuð algeng.

Posted on Færðu inn athugasemd

Beyging kvenmannsnafna

Beyging kvenmannsnafna, annarra en þeirra sem hafa veika beygingu og enda á -a, er með þrennu móti. Öll eru þau annaðhvort endingarlaus eða enda á -ur í nefnifalli (Kristín, Sigrún, Björk, Hrönn; Sigríður, Hildur), og öll enda þau á -ar í eignarfalli – eða hafa gert fram undir þetta. En munurinn kemur fram í þolfalli og þágufalli, sem alltaf fylgjast að eins og í öðrum kvenkynsorðum. Sum nöfnin enda á -i í þessum föllum (Sigríði, Hildi), önnur á -u (Kristínu, Sigrúnu), og enn önnur eru endingarlaus (Björk, Hrönn). Á seinni árum eru þó farin að koma fram ýmis tilbrigði í beygingu margra þessara nafna.

Sú breyting sem mest ber á er að mörg nöfn sem hafa endað á -u hafa nú tilbrigði með -i. Þannig var Margrét áður Margrétu í þolfalli og þágufalli en er nú langoftast Margréti. Margrétu verkar dálítið formlegt eða uppskrúfað, og Margréti virðist vera algengari myndin allt frá miðri 19. öld a.m.k., ef marka má tímarit.is. Nöfn sem enda á -rún (Bergrún, Guðrún, Heiðrún, Kristrún, Sigrún, Sólrún o.fl.) hafa einnig oft -i-endingu í þessum föllum, a.m.k. sum hver. Á tímarit.is má finna dæmi um Guðrúni og Sigrúni frá því um 1900, og í Nöfnum Íslendinga er sagt að -i-ending í þessum nöfnum sé staðbundin. Ýmis önnur dæmi um myndir með -i af nöfnum sem venjulega hafa -u í þolfalli og þágufalli mætti nefna, s.s. Elíni, Elísabeti, Ingibjörgi, Kristíni o.fl.

Áhugavert dæmi er Berglind, sem er nýlegt nafn þannig að beyging þess styðst ekki við langa hefð. Seinni liður þess er nafnorðið lind, sem er endingarlaust í þolfalli og þágufalli, og því mætti búast við að sama gilti um Berglind. En samsett kvenmannsnöfn fá yfirleitt endingu í þessum föllum þótt seinni liður þeirra einn og sér sé endingarlaus – laug um laug, en Sigurlaug um Sigurlaugu, borg um borg, en Valborg um Valborgu, rún um rún, en Sigrún um Sigrúnu, ey um ey, en Laufey um Laufeyju, o.s.frv. Þess vegna hafa margir málnotendur tilhneigingu til að gefa nafninu Berglind endingu í þessum föllum – stundum -u en þó frekar -i. Báðar endingarnar eru skiljanlegar.

Það eru líka ýmis dæmi um víxl milli -u-endingar og endingarleysis í kvenmannsnöfnum. Margir nafnberar og aðrir málnotendur fella sig ekki við -u-endingu í þolfalli og þágufalli ýmissa nafna og vilja heldur hafa þau endingarlaus. Þetta á ekki síst við samsett nöfn með seinni liðina -ey (Fanney, Laufey o.fl.) og -ný (Bergný, Signý o.fl.) – þessi nöfn gátu raunar einnig verið endingarlaus í þolfalli og þágufalli í fornu máli. En svo er líka einhver tilhneiging til að bæta -u-endingu við samsett nöfn sem áður voru endingarlaus, t.d. nöfn með seinni liðinn -rós (Bergrós, Sigurrós). Ósamsetta nafnið Björk fær líka stundum -u í þolfalli og þágufalli, sennilega fyrir áhrif frá nöfnum eins og Björg.

En það er ekki bara þolfall og þágufall ýmissa kvenmannsnafna sem er á hreyfingu. Sú tilhneiging að -u-ið í þolfalli og þágufalli kvenkynsorða sem enda á -ing leggi einnig undir sig eignarfallið er þekkt, og hún nær líka til kvenmannsnafna. Eignarfallsmyndir eins og Guðrúnu, Sigrúnu, Ingibjörgu, Þorbjörgu, Áslaugu, Guðlaugu, Sólveigu o.fl. eru (misjafnlega) þekktar og a.m.k. sumar nokkurra áratuga gamlar. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að þessar myndir komi upp. Hvort tveggja er, að yfirgnæfandi meirihluti kvenkynsorða sem enda á -u í þolfalli og þágufalli endar líka á -u í eignarfalli (veika beygingin, saga – sögu, kona – konu o.s.frv.), og með þessu móti falla orðin að því meginmynstri kvenkynsorða að hafa bara tvær mismunandi myndir í eintölu.

Í kvenmannsnöfnum sem enda á -i í þolfalli og þágufalli eru aðstæður nokkuð aðrar en í nöfnunum sem hafa -u í þessum föllum – -i-nöfnin verða ekki fyrir sams konar þrýstingi frá hinum geysistóra hópi veikra kvenkynsorða með -u í aukaföllunum. Samt sem áður má búast við einhverri tilhneigingu til að fækka mismunandi myndum, og sú tilhneiging kemur vissulega fram. Hægt er að finna á netinu dæmi um eignarfallsmyndirnar Unni, Sigríði, Hildi, Margréti o.fl. í stað Unnar, Sigríðar, Hildar, Margrétar. Ég hef hins vegar ekki fundið dæmi þar sem breytingum á þolfalli og þágufalli annars vegar og eignarfalli hins vegar slær saman, þ.e. að -i komi í stað -u í þolfalli og þágufalli, og það -i breiðist síðan út í eignarfallið. Undantekning er að vísu Margrét en þar er -i eiginlega löngu orðið fast.

Posted on Færðu inn athugasemd

Blær

Íslensk kvenkynsorð hafa aldrei fleiri en þrjár mismunandi myndir í eintölu, og eru ævinlega eins í þolfalli og þágufalli. Undantekning frá þessu er þó kvenmannsnafnið Blær, ef það er beygt eins og t.d. er gert á Málið.is (þar segir reyndar að það „beygist líklega“ svona), þ.e. Blær – Blæ – Blævi – Blævar. Nafnorðið blær er og hefur alltaf verið karlkynsorð, og enginn vafi leikur á karlkynsbeygingu þess – blær – blæ – blæ – blæs. En hvernig á að beygja það sem kvenmannsnafn?

Blær var fyrst notað sem kvenmannsnafn í Brekkukotsannál Halldórs Laxness árið 1957. Það var fyrst gefið stúlku árið 1973 en varð vinsælt sem karlmannsnafn seint á síðustu öld. Eftir að ákvæðið „Hvorki má gefa stúlku karlmannsnafn né dreng kvenmannsnafn“ var sett í lög um mannanöfn árið 1991 var talið óheimilt að gefa stúlkum það, þar eð um karlkynsorð væri að ræða sem þegar væri í notkun sem karlmannsnafn. Árið 2013 felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi synjun mannanafnanefndar á að gefa stúlku nafnið, og með lögum um kynrænt sjálfræði árið 2019 var flokkun nafna í karlmanns- og kvenmannsnöfn felld úr gildi. Nú er því heimilt að gefa bæði drengjum og stúlkum nafnið Blær.

Að mínu mati væri langsamlega eðlilegast að láta orðið halda beygingu sinni og beygjast Blær – Blæ – Blæ – Blæs, rétt eins og karlmannsnafnið Blær og samnafnið blær. Einnig kæmi til greina að hafa eignarfallið frekar Blævar, a.m.k. í kvenmannsnafninu, vegna þess að -ar er eignarfallsending bæði í karlkyni og kvenkyni. Það er engin nauðsyn að breyta um beygingu þótt orðið sé gert að kvenmannsnafni. Til samanburðar má benda á karlmannsnafnið Sturla sem beygist eins og kvenkynsorð, Sturla – Sturlu – Sturlu – Sturlu, sbr. stelpa – stelpu – stelpu – stelpu. Sama máli gegnir um nafnið Skúta sem er notað nú á dögum þótt sjaldgæft sé, Órækja sem ekki er notað lengur, viðurnefnið Bjóla og fleiri.

En vilji fólk greina kvenmannsnafnið frá karlmannsnafninu í beygingu liggur beinast við að beygja það Blær – Blævi – Blævi – Blævar, þ.e. láta það enda á -i í þolfalli og þágufalli. Beygingin fylgir þá sama mynstri og beyging fjölda kvenmannsnafna sem enda á -ur í nefnifalli, s.s. Hildur, Gerður o.s.frv., nema nefnifallið er -r en ekki -ur vegna þess að stofninn endar á sérhljóði, og -v- er skotið inn milli stofns og endingar til að komast hjá því að tvö sérhljóð standi saman. Þetta á sér þá stoð að þótt blæ – blæ – blæ – blæs sé hin venjulega beyging orðsins að fornu kemur -v- stundum fyrir í beygingu þess í eldra máli – beygingin er þá blær – blæ – blævi – blævar, hliðstætt snær – snæ – snævi – snævar.

Beygingin Blær – Blæ – Blævi – Blævar á sér hins vegar enga stoð í nútímamáli. Þau fáu karlkynsorð sem áður enduðu á -vi í þágufalli hafa fyrir löngu misst endinguna nema í einstöku föstum orðasamböndum, eins og snævi þakinn. Í kvenkyni er þessi beyging enn fráleitari. Kvenmannsnöfn sem enda á -(u)r í nefnifalli fá alltaf -i í þolfalli og þágufalli bæði að fornu og nýju. Aðalmálið er þó að engin kvenkynsorð hafa fjórar mismunandi myndir í eintölu í nútímamáli, og öll kvenkynsorð eru eins í þolfalli og þágufalli. Beygingin Blær – Blæ – Blævi – Blævar er því í algeru ósamræmi við málkerfið.

Auðvitað er – sem betur fer – enginn sem getur mælt fyrir um hvernig beygja skuli nöfn fólks. Þótt mannanöfn séu eini þáttur íslensks máls sem lög gilda um segja þau aðeins að nöfn skuli hafa eignarfallsendingu, og það hefur Blær, hvernig sem orðið er beygt að öðru leyti. Auðvitað heldur fólk áfram að beygja þetta nafn – og önnur orð málsins – eins og það vill. Mér finnst samt óheppilegt að verið sé að búa til beygingu sem ekki á sér neina stoð í málkerfinu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Beygingarmynstur kvenkynsorða

Þótt íslensk nafnorð hafi fjögur föll eru það aðeins tiltölulega fá orð sem hafa fjórar mismunandi beygingarmyndir í eintölu – allt karlkynsorð. Flest kvenkynsorð hafa bara tvær mismunandi myndir í eintölu (án greinis) – annaðhvort eru nefnifall, þolfall og þágufall eins en eignarfall frábrugðið (sterk beyging, orð eins og mynd – mynd – mynd – myndar) eða nefnifall sérstök mynd en þolfall, þágufall og eignarfall eins (veik beyging, orð eins og sæla – sælu – sælu – sælu). Auk þess eru afbrigðilegu orðin ær og kýr þar sem nefnifall og eignarfall eru eins, og sömuleiðis þolfall og þágufall (ær – á – á – ær).

Fáein kvenkynsorð sem enda á -i eru eins í öllum föllum eintölu (gleði – gleði – gleði – gleði). Einu kvenkynsorðin sem hafa þrjár mismunandi myndir í eintölu í nútímamáli eru nokkur kvenmannsnöfn (Hildur – Hildi – Hildi – Hildar, Sigrún – Sigrúnu – Sigrúnu – Sigrúnar) og orð sem enda á –ing (drottning – drottningu – drottningu – drottningar). En hvort sem kvenkynsorðin hafa eina, tvær eða þrjár mismunandi beygingarmyndir í eintölunni eiga þau það öll sameiginlegt að þolfall og þágufall hafa sömu mynd. Þannig hefur þetta þó ekki alltaf verið.

Orð sem enda á -ing voru áður endingarlaus í þolfalli en höfðu -u endingu í þágufalli (drottning – drottning – drottningu – drottningar). En nú hefur þolfallið fyrir löngu lagað sig að þágufallinu og bætt við sig -u þannig að þessi tvö föll eru samhljóða eins og í flestum öðrum kvenkynsorðum. Orð sem enda á -ung eins og nýjung beygðust áður eins og -ing-orðin (nýjung – nýjung – nýjungu – nýjungar). Þau hafa hins vegar flest farið þá leið að fella -u-ið brott úr þágufallinu en útkoman verður sú sama og í -ing-orðunum – þolfall og þágufall verða eins. Orðið sundrung fær þó ýmist -u eða er endingarlaust í þolfalli og þágufalli.

Í fornu máli var líka hópur einkvæðra kvenkynsorða sem voru endingarlaus í þolfalli en enduðu á -u í þágufalli. Þetta voru orð eins og grund, jörð, mold, rödd, sól, stund og nokkur fleiri, sem beygðust þá grund – grund – grundu – grundar o.s.frv. Flest þessara orða gátu reyndar líka verið endingarlaus í þágufalli og í nútímamáli hafa þau öll fellt -u-ið brott – nema í ýmsum meira og minna föstum orðasamböndum. Við getum sagt á erlendri grundu, hér á jörðu, ausinn moldu, kalla hárri röddu, snúa móti sólu, á hverri stundu, o.fl.

Fleiri orð höfðu eða gátu haft -u í þágufalli. Á tímarit.is má finna einstöku dæmi um brautu, hjörðu, hurðu, höllu, laugu, ullu, þjóðu, öldu, öndu og e.t.v. fleiri, en þar er þá oftast um að ræða setningar úr eldri textum. Með því að fella brott -u-ið í þágufallinu hafa framangreind orð sem sé færst undir þá almennu reglu að kvenkynsorð séu eins í þolfalli og þágufalli. Hinn möguleikinn væri auðvitað að bæta ­-u við þolfallið, og þess eru einnig dæmi í föstum orðasamböndum með sumum af þessum orðum a.m.k. Þannig segjum við út um græna grundu, jafna við jörðu, dró ský fyrir sólu, o.fl.

Auk þessara orða hafði orðið ey og kvenmannsnöfn leidd af því -u í þágufalli en ekki þolfalli – ey – ey – eyju – eyjar. Kvenmannsnöfnin hafa yfirleitt -u bæði í þolfalli og þágufalli í nútímamáli, þótt samhljóða samnöfn séu endingarlaus (Sóley – Sóleyju – Sóleyju – Sóleyjar, en sóley – sóley – sóley – sóleyjar). Reyndar eru skoðanir málnotenda á beygingu ýmissa kvenmannsnafna skiptar – sumir vilja hafa -u í þolfalli og þágufalli en aðrir vilja hafa þessi föll endingarlaus. En engin dæmi er um það svo að ég viti að sami málnotandi hafi þolfallið endingarlaust en -u í þágufalli – þessi föll eru alltaf eins.

Þarna hafa orðið tvær breytingar sem í fljótu bragði virðast stefna hvor í sína átt – önnur fellir brott -u í þágufalli en hin bætir -u við í þolfalli. En báðar stuðla að auknu samræmi í kerfinu með því að fella öll kvenkynsorð undir það mynstur að þolfall og þágufall séu eins. Þessar breytingar eru gengnar yfir, en ein til viðbótar er í gangi, sem leitast við að fella kvenkynsorð að þeirri tilhneigingu sem nefnd var í upphafi að eintalan hafi aðeins tvær mismunandi myndir. Það er breyting á eignarfalli orða eins og drottning, úr drottningar í drottningu, sem einnig kemur fram í ýmsum kvenmannsnöfnum – Sigrúnar verður stundum Sigrúnu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þetta reddast

Á undanförnum árum hefur orðtakið þetta reddast orðið þekkt sem einhvers konar einkunnarorð eða lífsspeki Íslendinga, sem lýsi kæruleysi, æðruleysi og óbilandi (jafnvel óraunsærri) bjartsýni í bland. Frægð þess hefur náð út fyrir landsteinana og kannski upphaflega komið að utan; elsta dæmi sem ég þekki um það er frá 1979, þegar danskur blaðamaður fjallaði um það í grein í Weekendavisen Berlingske Aften, og sagði það vera „einkennandi í fari Íslendinga að þeir hafi „Það reddast hugsun“ (det ordner sig)“ að því er Dagblaðið sagði frá.

Snemma árs fékk ég póst frá bandarískum blaðamanni sem vildi ræða við mig um þetta reddast. Hann sagðist hafa komið nokkrum sinnum til Íslands og þegar hann heyrði fyrst talað um þetta orðtak hélt hann að þetta væri bara einhver klisja sem útlendingar tengdu við Íslendinga og þætti skondin. En eftir að hafa kynnst lífinu á Íslandi væri hann kominn á þá skoðun að þetta lýsti í raun og veru lífsmáta margra Íslendinga. Hann skrifaði svo grein um þetta og birti í ritinu Success undir fyrirsögninni „Why We Should All Live Like Icelanders Live“. BBC hefur einnig nýlega fjallað um orðtakið undir fyrirsögninni „The unexpected philosophy Icelanders live by“.

Því hefur verið haldið framþetta reddast sé bein þýðing úr dönsku þar sem det reddes sé notað á sama hátt, en það er tæplega rétt. Vissulega er det reddes danska, en danskir heimildarmenn mínir kannast ekki við að það sé notað á sama hátt og það reddast í íslensku. Á dönsku er sagt det ordner sig, det ordnes, det skal nok gå eða eitthvað slíkt. Þótt elsta dæmi sem ég þekki um germyndina redda sé að finna í blaðinu Gretti á Ísafirði 1894 kemur miðmyndin reddast ekki fyrir á prenti fyrr en um 1960, löngu eftir að danska hætti að hafa áhrif á íslensku. Myndin er oftast höfð innan gæsalappa í upphafi sem bendir til þess að gert sé ráð fyrir að hún sé lesendum ekki vel kunn.

Mér finnst allt benda til þess að þetta reddast sé íslensk nýsmíði, þótt hráefnið sé vissulega að hluta til danskt að uppruna. Hlutirnir hafa nefnilega ekki alltaf reddast á Íslandi. Sambandið þetta reddast kemur fyrst fyrir á prenti 1966 og er sjaldgæft fyrstu árin, en svo verður sprenging í notkun þess upp úr 1980 – og væntanlega eitthvað fyrr í talmáli, eins og danska tilvitnunin í upphafi sýnir. Þetta er athyglisvert – og segir kannski meiri sögu en virst gæti í fljótu bragði. Það er freistandi að ímynda sér að fram að því hafi þurft einhvern til að redda málunum, en með verðbólguhugsunarhættinum eftir 1960 og sérstaklega 1980 hafi fólk farið að trúa því að þetta reddaðist af sjálfu sér, án þess að einhvern geranda þyrfti til.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ég vill

Ein sú „málvilla“ sem oftast er amast við er þegar fólk segir ég vill í stað hins hefðbundna ég vil. Þessi málbreyting virðist ekki vera ýkja gömul – einstöku dæmi má finna um hana í ritum frá fyrsta hluta 20. aldar og eldri en þau gætu verið rit- eða prentvillur. Elsta dæmið á tímarit.is er úr Framblaðinu 1933: „Þó vill ég engan þeirra.“ Í auglýsingu frá Lofti Guðmundssyni ljósmyndara í Kirkjuritinu 1936 segir: „15 Foto myndatakan er sú EINA sem ég vill mæla með — en hún fæst hjá mér.“ Í Íslendingi 1937 segir: „Ennfremur vill ég taka það fram, að svo að segja öll störf í verksmiðju minni eru unnin í ákvæðisvinnu.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1943 segir: „Ég vill fá bílstjóra, sem er aðgætinn og varkár og á aldrei neitt á hættunni.“

Dæmi um ég vill á tímarit.is eru mjög fá framan af, en fer fjölgandi upp úr 1960. Þau verða þó aldrei mörg, enda má búast við að prófarkalesarar hafi yfirleitt leiðrétt þau fyrir prentun. Elsta dæmi sem ég finn um að amast sé við þessari beygingu er í móðurmálsþætti Vísis (eftir Eirík Hrein Finnbogason) 1956 þar sem segir: „Margir kunna eigi með sögnina að vilja að fara, segja ég vill í staðinn fyrir ég vil, sem er hið rétta. Þetta, ég vill, lætur í eyrum þeirra, sem með sögnina kunna að fara, eins og sagt væri ég syngur í staðinn fyrir ég syng, ég talar í staðinn fyrir ég tala.“ Í kveri Helga Hálfdanarsonar frá 1984, Gætum tungunnar, segir: „Rétt er að segja: Ég vil, þú vilt, hann vill, hún vill, barnið vill. (Ath.: ég vill er rangt; ég vil er rétt.)“

Haraldur Bernharðsson skrifaði ítarlega grein um þessa breytingu í Íslenskt mál 2005. Hann bendir á að langflestar sagnir málsins hafa aðeins tvær mismunandi myndir í framsöguhætti eintölu nútíðar, þótt persónurnar séu þrjár. Annaðhvort eru fyrsta og þriðja persóna eins, en önnur persóna frábrugðin (ég lesþú lesthann/hún/hán les, ég ferþú ferðhann/hún/hán fer) eða önnur og þriðja persóna eru eins, en fyrsta persóna frábrugðin (ég talaþú talarhann/hún/hán talar, ég horfiþú horfirhann/hún/hán horfir). Sögnin vilja hefur aftur á móti þrjár mismunandi myndir – engar tvær persónur eru eins: ég vilþú vilthann/hún/hán vill. Það má líta á ég vill sem tilhneigingu til að fella sögnina að fyrrnefnda mynstrinu. Einnig eru dæmi um að þriðja persónan verði hann/hún/hán vil í stað vill – þar er verið að fella sögnina að hinu mynstrinu.

En kannski hangir meira á spýtunni. Gísli Jónsson skrifaði í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1981: „Þegar krakkar, og jafnvel fullorðið fólk, segir ég vill, hélt ég um sinn að málið væri svo einfalt að um hreina áhrifsbreytingu væri að ræða frá þriðju persónu: hann, hún eða það vill. En þetta reyndist ekki svo. Sannorðar, málnæmar mæður, sem vandlega hafa gaumgæft orð barna sinna, hafa tjáð mér að málið sé miklu flóknara. Hér skiptir afstaða máli, eða það sem kalla mætti horf. Barn segir ég vill, í jákvæðri merkingu og til áherslu, þetta er kröfutónn og frekjutónn: ég vill fá þetta, en sama barn segir: ég vil ekki. Ég vil ekki borða hafragraut. Og það sem meira er: Þetta fer þannig inn í þriðju persónu, að börn segja líka: Hann vill fá þetta, en hann vil þetta ekki.“

Og fleira kemur til. Í áðurnefndri grein hefur Haraldur Bernharðsson það eftir Stefáni Karlssyni handritafræðingi „að hann hafi í kringum 1950 unnið með manni sem jafnan sagði ég vill; sá mun hafa verið Eyfirðingur, fæddur um 1930. Þegar fundið var að þessum talshætti svaraði maðurinn því til að sér fyndist eðlilegt að konur segðu ég vil en karlar ég vill“. Ég hef líka heyrt fleiri dæmi um þetta. Trúlegt er að þarna séu einhvers konar áhrif frá kynbeygingu lýsingarorða eins og sæll, þar sem sagt er komdu/vertu sæll við karlmenn og komdu/vertu sæl við konur. Hins vegar beygjast íslenskar sagnir vitaskuld ekki í kynjum þannig að það er ekki trúlegt að þetta eigi eftir að breiðast út.

Það er ljóst að fjölmargar hliðstæðar breytingar hafa orðið á undanförnum öldum án þess að þær trufli okkur hið minnsta og án þess að þær hafi spillt beygingarkerfinu eða veikt það. Í raun má færa rök að því að þessi breyting styrki kerfið með því að færa sögnina undir reglulegt beygingarmynstur. En ég veit að mjög mörgum er mikið í nöp við ég vill og finnst það hræðilega ljótt, og ég vil ekki verða þess valdandi að fólki svelgist á morgunkaffinu með því að mæla þessari breytingu sérstaklega bót.