Hjúkrunarmaður, hjúkrunarkona – og sjúkrunarkona

Fyrir nokkrum árum varð talsvert fjaðrafok út af því að orðið hjúkrunarkona var notað í barnabók. Mörgum fannst það óeðlilegt og bentu á að þetta væri gamaldags og úrelt orð – þegar hjúkrunarnám færðist á háskólastig hefði starfsheitið hjúkrunarfræðingur verið tekið upp í staðinn og teikningar í bókinni ásamt notkun orðsins hjúkrunarkona „ýti undir skaðlegar staðalímyndir um stéttina“. Í þessu sambandi má nefna að áður var eingöngu gert ráð fyrir að konur sinntu þessu starfi og starfsheitið hjúkrunarkona lögverndað með hjúkrunarkvennalögum frá 1933, en í hjúkrunarlögum frá 1974 segir: „Rétt til að stunda hjúkrun hér á landi og kalla sig hjúkrunarkonu eða hjúkrunarmann hefur sá einn, sem til þess hefur fengið leyfi ráðherra.“

Bæði hjúkrunarkona og hjúkrunarmaður voru sem sé lögvernduð starfsheiti um sömu starfsstéttina. Þrátt fyrir það var ekki væri gert ráð fyrir að verkefnin væru ólík þannig að það var eingöngu kyn þeirra sem gegndu störfunum sem réði því hvort starfsheitið var notað. Í greinargerð með frumvarpinu var sagt að tillögur hefðu komið fram um orðin hjúkrir, hjúkri, hjúkrari – og hjúkrunarfræðingur (allt karlkynsorð). En sama ár og lögin voru sett samþykkti Hjúkrunarfélag Íslands „að taka upp starfsheitið hjúkrunarfræðingur“ og „fá það löggilt“. Lögunum var því breytt strax árið eftir og „hjúkrunarfræðing“ sett í stað „hjúkrunarkonu eða hjúkrunarmann“ en tekið fram að þeim sem óskuðu væri heimilt að nota eldri starfsheiti áfram.

Þegar umrædd barnabók var til umræðu á sínum tíma rifjaði ég upp að þegar ég lá á barnadeild Landspítalans haustið 1965 kölluðu strákarnir í rúmunum í kringum mig „sjúkrunarkona!“ þegar þurfti að sinna þeim eitthvað. Þetta hafði ég aldrei heyrt áður og fannst það kjánalegt, en nú þegar ég fer að skoða málið nánar kemur í ljós að fleiri en stofufélagar mínir tengdu orðið við sjúk- fremur en hjúk-. Það má finna slæðing af dæmum um sjúkrunarkona á prenti, það elsta í vesturíslenska blaðinu Heimskringlu 1923: „“Eg held hún hafi ekki ort þetta sjálf”, sagði yfirsjúkrunarkonan og reyndi að brosa ekki.“ Elsta dæmi í íslensku blaði er í Morgunblaðinu 1944: „Virðist mjer starfið hafa gengið vel, enda ágætum sjúkrunarkonum á að skipa.“

Samtals er vel á annan tug dæma um sjúkrunarkona á tímarit.is og um tugur í Risamálheildinni. Sum af síðarnefndu dæmunum eru úr máli barna en augljóst er af dæmum á tímarit.is að þessi skilningur á orðinu hefur ekki verið bundinn við börn. Þótt orðið hjúkrunarkona sé í sjálfu sér gagnsætt orð – fyrir þau sem þekkja sögnina hjúkra á annað borð – er misskilningurinn sjúkrunarkona samt ekkert út í hött. Orðhlutinn sjúk- er algengari og í fleiri orðum en hjúk- –talað er um sjúklinga, sjúkdóma, sjúkrahús, sjúkraliði, vera sjúkur o.fl. Framburðarmunur hj- og sj- í upphafi orðs er oft sáralítill og þess vegna er ekkert undarlegt að hjúkrunarkona skuli stundum vera skilið sem sjúkrunarkona. Það er dæmigerð og bráðskemmtileg alþýðuskýring.

„Enskuslettur“ eru bara ensk orð í íslensku samhengi

Hér hefur iðulega verið talað um „slettur“ í merkingunni 'erlent orð eða orðasamband sem ekki nýtur viðurkenningar í viðtökumálinu vegna ónógrar aðlögunar að hljóð- eða beygingakerfi eða annars konar framandi einkenna' eins og orðið er skilgreint í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þessi merking er gömul í málinu – samsetningin dönskusletta kemur fyrir þegar í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „Málið átti að vera vandað, og er það líka á sumum stöðum, enn nokkurskonar tilgerð og sérílagi dönskusletturnar skemma þó víðahvar gott efni.“ Orðið enskusletta er yngra eins og við er að búast og kemur fyrst fyrir í Vesturheimsblaðinu Heimskringlu 1895: „Það gerir hann með sífeldum enskuslettum, með því að útskýra algengustu íslenzk orð með ensku!“

Samhljóma sögn er líka algeng í þessu samhengi – ein skýring hennar í Íslenskri orðabók er 'nota erlend orð í máli sínu'. Elsta dæmi sem ég finn um sletta dönsku er í Þjóðólfi 1848: „Mig minnir ekki betur, en Ármann á alþingi sýni oss það berlega, hversu hlægilegt það er, þegar vjer Íslendingar erum að böglast við að sletta dönskunni í daglegu tali.“ Nafnorðið og sögnin sletta eru hvort tveggja fremur neikvæð orð – aðalmerking sagnarinnar er t.d. sögð 'þeyta, skvetta (e-u blautu)' í Íslenskri nútímamálsorðabók og ein merking hennar í Íslenskri orðabók er 'þeyta, setja hirðuleysislega'. Merking nafnorðsins er sögð 'e-ð sem slett er á e-ð, blettir eftir vökva' í Íslenskri nútímamálsorðabók og ein merking þess í Íslenskri orðabók er 'flekkur, lýti'.

Það var vitanlega ekki tilviljun að svo neikvæð orð voru valin til að nota í þessari merkingu. Á tímum þjóðernisvakningar og sjálfstæðisbaráttu frá því snemma á nítjándu öld var áhersla lögð á að hreinsa málið af dönskum áhrifum og reka til baka ýmsar breytingar sem höfðu orðið frá fornu máli. Dönsk orð í íslensku spilltu hreinleik málsins – voru ljótar slettur á íslenskunni sem nauðsynlegt þótti að þvo af með öllum ráðum. Einn þáttur í þeirri baráttu var að gefa dönskum orðum og notkun þeirra í íslensku neikvætt heiti sem við sitjum enn uppi með, tvö hundruð árum síðar og hundrað árum eftir að sjálfstæðisbaráttunni lauk, þótt dönskuslettur séu nú taldar meinlitlar en enskuslettur þeim mun skæðari. Er kannski mál til komið að endurskoða þetta?

Ég hef iðulega notað hér sögnina sletta og talað um slettur og enskuslettur – síðast fyrir nokkrum dögum. En það er óheppilegt orðalag vegna þess hve gildishlaðið það er. Umræða um mál og málnotkun á ekki að byggjast á neikvæðum orðum eins og „eignarfallsflótti“, „enskusletta“, „flámæli“, „þágufallssýki“ o.þ.h. Það er hvorki til þess fallið að efla jákvæða ímynd íslenskunnar né líklegt til að breyta málnotkun þeirra sem þetta beinist að. „Enskuslettur“ eru bara orð – ensk orð í íslensku samhengi. Stundum eru þau eðlileg og gagnleg, en oft eru þau óþörf. Í stað þess að einblína á þessi orð og tala um þau á neikvæðan hátt eigum við að skoða hvers vegna þau eru notuð í íslensku – og leita ráða til að fækka tilefnum til að nota þau.

Að hesthúsa og graðga í sig matinn – eða matnum

Sögnin hesthúsa er augljóslega mynduð beint af nafnorðinu hesthús frekar en með því að taka sögnina húsa og bæta hest- þar fyrir framan. Bókstafleg merking merking sagnarinnar er 'setja hest í hús' eins og kemur fram í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og um þá merkingu er venjulega notuð sögnin hýsa, ekki húsa. En elsta heimild um sögnina er orðasafn Hallgríms Scheving frá miðri 19. öld. Þar segir: „Hest-húsa pro koma miklu í sig, geta etið mikið.“ Þarna er sögnin notuð í yfirfærðri merkingu og skýrð 'borða (mikið)' í Íslenskri nútímamálsorðabók. En reyndar er sögnin líka notuð um að drekka – í Íslensk-danskri orðabók er tekið dæmið „hún mamma hesthúsar hann“ sem er notað um drykk (Brama-lífs-elexír) í bók frá 1895.

Ástæða þess að ég fór að skoða þessa sögn er sú að ég sá í Málvöndunarþættinum að gerð var athugasemd við sambandið „hesthúsa hamborgurum“ í fyrirsögn í DV. Málshefjandi taldi að þarna ætti fremur að vera þolfall, hesthúsa hamborgara, og vitnaði því til stuðnings í sagnir svipaðrar merkingar eins og borða, éta og snæða sem allar stýra þolfalli – við það mætti bæta gleypa, háma og e.t.v. fleiri sögnum. Það er vissulega rétt að í orðabókum eru aðeins sýnd dæmi um þolfall með hesthúsa, en fjölmörg dæmi um þágufall má þó finna. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Jazzblaðinu 1951: „Auðvitað tók ég til fótanna og náði Kristjáni um það leyti, sem hann var að leggja af stað heimleiðis, eftir að hafa hesthúsað þremur eða fjórum pylsum.“

Dæmum um þágufallið fer svo smátt og smátt fjölgandi, einkum eftir aldamót. Mér sýnist að í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar séu dæmin um þágufall öllu fleiri en um þolfall sem sýnir glöggt að þágufallið er í sókn. En jafnframt hefur merkingin víkkað eins og í „Ég á langt í land með að hesthúsa jólaflóðið þetta árið“ í Stundinni 2019. Sögnin getur líka stundum merkt 'landa' eða 'yfirtaka' eins og í Mannlífi 2021: „Í höndum einkaaðila geta þeir hesthúsað mikinn gróða með smávægilegum verðbreytingum,“ „Myndin hefur hesthúsað nánast öll verðlaun sem staðið hafa í boði til þessa“ í Morgunblaðinu 2009, „Gylfi að hesthúsa Íþróttamaður ársins með þessu marki“ á Twitter 2014, og „Sigurður Ingi að hesthúsa þessum þætti“ á Twitter 2017.

Önnur sögn svipaðrar merkingar er graðga 'háma í sig, éta græðgislega' sem Íslensk orðsifjabók segir að sé sennilega komin af *gráðga eða *græðga (af gráðugur). Elsta dæmi um þessa sögn er í þýðingu Halldórs Laxness á Vikivaka eftir Gunnar Gunnarsson frá 1948 og það næsta úr Kristnihald undir Jökli eftir Halldór frá 1968. Elsta dæmi á tímarit.is er í Vísi 1971: „Meðan pupullinn graðgaði í sig súra, fúla, vísitölufjötraða þjóðarrétti á þorrablótunum. komust ráðherrar í kosningaskap og í sæluvímu.“ Aðeins sex dæmi eru um orðið á tímarit.is fram til aldamóta, en síðan hefur tíðni þess aukist verulega og í Risamálheildinni eru um 140 dæmi um það, meginhlutinn úr formlegu máli en þó einnig allmörg dæmi af samfélagsmiðlum.

Sögnin graðga stjórnar þolfalli í dæmunum frá Halldóri Laxness og í elsta dæminu á tímarit.is sem vitnað var í hér að framan, en í öðru dæmi frá sama ári tekur hún með sér þágufall: „Hágleði var hjá hestum í Viðey, sem brutust inn í veitingaskála Hafsteins Sveinssonar og gröðguðu þar í sig pönnukökum og kleinum“ segir í Morgunblaðinu 1971. Þolfallið virðist algengara með sögninni en þágufallið er þó greinilega í sókn, einkum á samfélagsmiðlum – „Graðgaði í mig tveim hamborgurum yfir kvöldvinnunni“ segir t.d. á Twitter 2020. Þróun fallstjórnar hjá graðga virðist því vera mjög svipuð og hjá hesthúsa, og sama máli gegnir um þróun merkingarinnar – „Ég graðgaði þættina í mig á þremur kvöldstundum“ segir í Morgunblaðinu 2021.

Bæði hesthúsa og graðga taka sem sé æ oftar með sér þágufall, og sagnir eins og torga 'borða (e-ð) upp, ljúka við að borða (e-ð)' og sporðrenna 'borða hratt og af mikilli matarlyst' stýra alltaf þágufalli. Munurinn á þessum sögnum og þeim sem stjórna alltaf þolfalli, eins og borða, éta, snæða o.fl., er sá að í setningum með þeim fyrrnefndu, eins og ég torgaði matnum, ég sporðrenndi matnum, ég hesthúsaði matinn / matnum og ég graðgaði matinn / matnum í mig er ekki bara vísað til athafnar heldur einnig til endaloka hennar – þess að maturinn klárast. Sagnir með þann merkingarþátt („verbs of finishing and stopping“ eins og Joan Maling kallaði þær) stjórna oftast þágufalli og því eðlilegt að fallstjórn hesthúsa og graðga sé að breytast í þá átt.

Af hverju notum við ensk orð?

Í gær gagnrýndi ég hér auglýsingaherferð stjórnvalda sem rekin er undir formerkjum „vitundarvakningar“ um ensk áhrif á íslensku. Það þýðir ekki að ég sé sáttur við fjölda enskra orða í íslensku. Því fer fjarri, enda tók ég fram að ég væri ekki að mæla þeim bót og þeim mætti fækka. En ég held að auglýsingar af þessu tagi séu ekki rétta aðferðin til að fækka þeim. Þær gera ekki annað en gefa þeim sem það vilja færi á að skammast yfir, hneykslast á og hæðast að málfari annarra – einkum ungu kynslóðarinnar. En að horfa eingöngu á ensku orðin í stað þess að einbeita sér að því að skoða hvers vegna fólk notar þau – og bregðast við því – er svipað því að láta nægja að setja plástur á sár þar sem bullandi gröftur og sýking er undir. Það fer ekki vel.

Ástæðurnar fyrir því að fólk notar ensk orð í íslensku samhengi eru eflaust ýmsar. Stundum er það vegna þess að íslensk orð eru ekki til – orð um nýjungar í tækni, nýjungar í vísindum, nýjungar í hugmyndum o.s.frv. Við því er hægt að bregðast að einhverju marki með öflugri nýyrðasmíð eins og lengi hefur tíðkast þótt líklega hafi dregið úr skipulegu nýyrðastarfi á síðari árum enda nær eingöngu um sjálfboðavinnu að ræða. En önnur leið er að taka upp erlend (yfirleitt ensk) orð og laga þau að íslensku í hljóðafari og beygingum. Þetta á sér líka langa hefð þótt oft hafi tekið tíma fyrir slík orð að öðlast viðurkenningu. Mikilvægt er að stjórnvöld ýti undir bæði nýyrðasmíð og aðlögun erlendra orða með sérstökum aðgerðum og styrkjum.

En önnur ástæða fyrir notkun enskra orða í íslensku er sú að fólk þekkir ekki samsvarandi íslensk orð þótt þau séu til – eða er ekki vant þeim og grípur því frekar til ensku. Það er auðvelt – og algengt – að hneykslast á slíku og tala um fáfræði, vankunnáttu og jafnvel heimsku, en oftast stafar þetta væntanlega af því að íslensku orðin eru ekki algeng í málumhverfi fólks. Það er staðreynd að enska er mjög áberandi í málumhverfi mjög margra um þessar mundir, bæði í raunheimum og ekki síður í hinum stafræna heimi sem við mörg lifum og hrærumst í. Það vantar einfaldlega miklu meiri íslensku í málumhverfi margra og það er hið undirliggjandi mein sem við þurfum að bregðast við – í stað þess að einblína á birtingarmyndir þess, ensku orðin.

Svo getur auðvitað verið að fólk þekki íslensku orðin en noti fremur ensk orð vegna þess að íslenskan þyki gamaldags og hallærisleg en enskan nútímalegri og smartari. Það hugarfar er t.d. áberandi þegar verið er að gefa veitingastöðum, verslunum og öðrum fyrirtækjum ensk heiti, eða þegar verkefni ráðuneytis er kallað „TEAM-Iceland“. En einnig er trúlegt að ástæða fyrir enskunotkun sé stundum sú að fólk kann einfaldlega ekki að tala um tiltekin efni með íslenskum orðum af því að það hefur ekki vanist því. Það er t.d. ekkert óhugsandi að íslenskir unglingar hafi oftar heyrt fólk tala um tilfinningar sínar í amerískum bíómyndum en í sínu eigin íslenska málumhverfi og þá er ekki óeðlilegt að þau grípi til enskunnar þegar þau ræða sín hjartans mál.

Það liggur alveg fyrir hvað þarf að gera til að bregðast við þessu öllu: Það þarf að stórauka íslensku í málumhverfi okkar, einkum barna og ungs fólks, og skapa henni jákvæða ímynd í huga fólks. Það er vissulega einfaldara að segja þetta en framkvæma og það er ljóst að þarna þurfum við öll að leggjast á árar – heimilin, skólakerfið, fyrirtæki og stjórnvöld. Það þarf að tala við börnin og lesa fyrir þau. Það þarf að sjá til þess að börn af erlendum uppruna fái miklu meiri stuðning í íslensku. Það þarf að stórauka framleiðslu hvers kyns fræðslu- og afþreyingarefnis á íslensku. Og það þarf að hætta tuði um „villur“ og „slettur“ í máli fólks en snúa sér þess í stað að því að sýna og nýta alla þá stórkostlegu möguleika sem búa í íslenskunni.

Nei, þetta er ekki málið

Í fréttatilkynningu sem birtist á vef Stjórnarráðsins fyrr í vikunni undir fyrirsögninni „Íslenskan er aðalmálið“ er kynnt vitundarvakning „til þess að vekja athygli á þeim breytingum sem eru að verða og hafa orðið á íslenskunni vegna enskra áhrifa. Við skoðum hvernig þær breytingar birtast í okkur vítt og breitt í samfélaginu, á samfélagsmiðlum og jafnvel í opinberri umræðu.“ Þessari vitundarvakningu „er ætlað að ýta við fólki, stjaka við því, hnippa í það og jafnvel gefa því olnbogaskot. Dæmin eru ekki valin út í bláinn heldur sýna þau tungutak sem hugsanlega endurspeglar nýjan veruleika íslenskrar tungu.“ Undanfarna daga hafa þessi dæmi svo verið að birtast smátt og smátt í auglýsingum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Dæmunum fylgir spurningin „Er þetta málið?“. Meðal þeirra setninga sem ég hef séð eru þessar: „Á að joina í happí á rooftoppinu?“, „Á íslensku má beisikklí alltaf finna svar“, „Ertu að expecta legendary jólagjöf?“, „Ég literally meika þetta ekki“, „Fannstu eitthvað fashionable að sjoppa“, „Hlíðin er slay“, „Sjitt hvað þetta er fokkings mikil snilld“, „Sorry með allar þessar slettur“, „Það verður kreisí veður all over the place“, „Þeim var ég the worst er ég unni the most“, „Þetta er ákaflega satisfying“, „Þetta er frekar convincing“, „Þetta er væbið sem við vorum going for“, „Þetta experience var svo humbling“, „Þetta dress var á kreisí góðum díl“ „Þú getur beisikklí bara skrollað áfram án þess að læka þetta“ – og ýmsar fleiri í sama dúr.

Þarna er m.a. að finna orð sem vissulega eru upprunnin í ensku en falla fullkomlega að íslensku og verða að teljast komin inn í málið, eins og nafnorðin díll og dress og sagnirnar læka, meika og skrolla. Svo eru orð sem lengi hafa verið algeng í málinu en falla ekki að því að öllu leyti, eins og beisikklí, fokkings, kreisí, sorry og væb. Flest dæmin eru þó um orð sem vissulega koma fyrir í íslensku samhengi en eru ekki algeng og notendur virðast oftast meðvitaðir um að þeir eru að sletta enda halda þau yfirleitt enskri stafsetningu – orð eins og convincing, experience, humbling, rooftoppinu, fashionable, literally og satisfying. Að lokum eru dæmi sem virðast eiga að vera brandarar, eins og Hlíðin er slay og Þeim var ég the worst er ég unni the most.

Ég átta mig satt að segja ekki á því hvernig þessi dæmi eiga að vera liður í „vitundarvakningu“. Þarna er ýmsu blandað saman og eins og áður segir eru sum þessara orða (orðin) góð og gild íslenska sem engin ástæða er til að amast við – þótt það sé vissulega oft gert. En þessar setningar eru fyrst og fremst til þess fallnar að fóðra hneykslunarumræðu og gefa þeim sem telja að unga kynslóðin sé að fara með íslenskuna í hundana eitthvað til að kjamsa á. Það er ekki vitundarvakning. Þau sem sletta ensku á þann hátt sem gert er í sumum þessara dæma (og ég tek fram að ég er ekki að mæla því bót) eru ekki líkleg til að hætta því vegna auglýsinga af þessu tagi. Þvert á móti – það er miklu líklegra að fólk bregðist öndvert við og forherðist.

Vitundarvakning er vissulega nauðsynleg eins og ég hef oft lagt áherslu á og markmiðið með þessari auglýsingaherferð er væntanlega að vekja athygli á óþarfri enskunotkun. Markmiðið er gott en aðferðin er röng. Vitundarvakning getur ekki falist í því að hneykslast. Vitundarvakning verður að vera jákvæð – annars er hætta á að hún hafi þveröfug áhrif við það sem að var stefnt. Það þarf að vekja athygli á því sem vel er gert, sýna dæmi um hvernig hægt er að nota íslenskuna á frjóan og skapandi hátt í ýmsu samhengi. Að því leyti eru auglýsingar verslunarinnar Blush í tilefni dags íslenskrar tungu margfalt betur heppnaðar – þar er verið að leika sér með tungumálið á mjög skemmtilegan hátt (af velsæmisástæðum veigra ég mér þó við að birta hér dæmi).

Íslenskunni stendur ekki sérstök ógn af einstökum enskuslettum í máli almennings þótt þeim mætti vissulega fækka. Íslenskunni stendur miklu fremur ógn af andvaraleysi, hugsunarleysi, metnaðarleysi og skilningsleysi fyrirtækja og opinberra aðila sem t.d. kemur fram í því að ráðuneyti kynnir verkefni undir ensku heiti; í því að umsækjendum um störf hjá opinberum aðilum var gert að skrifa undir skilmála á ensku; í því að ferðaþjónustan hefur enga málstefnu; í því að samtök í íslensku atvinnulífi skrifa íslenskum ráðherra bréf á ensku; í því að flest sveitarfélög hafa trassað að setja sér málstefnu; í því að auglýsingar verslana eru iðulega á ensku; í því að lagaákvæðum um íslenskt mál er iðulega ekki framfylgt; o.s.frv. Byrjum þar!

Svar ráðuneytis

Ég hef tvisvar skrifað Mennta- og barnamálaráðuneytinu vegna verkefnisins TEAM-Iceland en það var ekki fyrr en grein mín um málið, og frétt unnin upp úr henni, birtist á Vísi í morgun sem ég fékk viðbrögð frá ráðuneytinu í eftirfarandi tölvupósti:

„Takk fyrir góða athugasemd og áhuga á þessu málefni. Á ráðstefnunni Vinnum gullið verður fjallað um nýja stefnu í afreksíþróttum á Íslandi og ýmsa þætti sem tengjast því verkefni. Team Iceland er fyrst og fremst vinnuheiti sem notað er í erlendum samskiptum og ekki hefur verið fastsett viðeigandi nafn á íslensku á væntanlega afreksmiðstöð. Ráðuneytið mun einnig velja íslenskt vinnuheiti til notkunar á ráðstefnunni og til framtíðar og væri gott að geta leitað til þín í því sambandi.“

Ég svaraði og sagði:

„Það er gott að til stendur að finna íslenskt heiti á verkefnið. En skýringin „Team Iceland er fyrst og fremst vinnuheiti sem notað er í erlendum samskiptum“ lítur satt að segja út eins og dæmigerð eftiráskýring. Tilkynning ráðuneytisins undir fyrirsögninni „Vinnum gullið – TEAM-Iceland til árangurs“ er enn á vef stjórnarráðsins og í henni segir m.a:

  • TEAM-Iceland er framtíðarsýn starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um íþrótta- og afreksmiðstöð.
  • Lagt er upp með að innan TEAM-Iceland verði fremstu sérfræðingar á sviði íþrótta sem vinni saman að því markmiði að hámarka árangur íslensks íþróttafólks.
  • TEAM-Iceland verkefnið verður til umfjöllunar á ráðstefnunni Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi […].
  • Með verkefninu TEAM-Iceland er stefnt að því að bæta umhverfi afreksíþróttafólks, s.s. líkamlega þjálfun þeirra og heilsu, efla þátt mælinga og stöðumata, og efla jafnframt þjónustu næringarfræðinga.
  • […] markmið TEAM-Iceland væri jafnframt að styðja við framgang og faglega umgjörð Afrekssviða og -brauta í framhaldsskólum landsins.

Þarna er alls staðar verið að tala um framkvæmd verkefnisins innanlands. Erlend samskipti koma þessu máli ekki við – og jafnvel þótt ætlunin væri að nota þetta heiti einkum í erlendum samskiptum á það vitanlega ekki við á þessari ráðstefnu sem væntanlega fer að miklu leyti fram á íslensku. Það er reyndar athyglisvert að í titlum erinda sem fjalla um hliðstæður í öðrum löndum eru heiti þeirra íslenskuð – „Afreksíþróttamiðstöð Lúxemborgar“ og „Afreksíþróttamiðstöð Noregs“. En við tölum um „Team Iceland“. Ekki er annað að sjá en þetta sé opinbert heiti verkefnisins og hvergi kemur fram að þetta sé aðeins vinnuheiti. Mér fyndist hreinlegra að það væri bara viðurkennt að þarna varð ráðuneytinu á í messunni.“

Hlustum á innflytjendur!

Í dag var ég á mjög áhugaverðu málþingi í Eddu á vegum Félags kvenna í atvinnulífinu þar sem var „fjallað um mikilvægi íslenskunnar fyrir okkur öll og hvernig tungumálið er í raun valdatæki og lykill að samfélaginu og atvinnumarkaði“ og m.a. rætt „um leiðir atvinnulífsins til að geta stutt við starfsfólk sem þarf og vill tileinka sér íslensku“. Þar voru flutt fimm stutt en mjög áhugaverð erindi, en það sem mér fannst merkilegast var að heyra persónulegar reynslusögur þriggja kvenna af erlendum uppruna sem koma frá ólíkum löndum og hafa búið mislengi á Íslandi. Þær tala allar mjög vel skiljanlega íslensku – en vissulega með mismiklum erlendum hreim og mismiklum frávikum frá hefðbundinni beygingu og setningaskipan. Það er í góðu lagi.

Þessar konur höfðu allar sömu skilaboðin til Íslendinga: Hlustið á okkur! Sameiginleg reynsla þeirra er sem sé sú að Íslendingar gefa sér ekki tíma til – eða hafa ekki áhuga á – að hlusta á fólk sem er að læra málið og hefur ekki enn náð fullu valdi á því. Við erum óþolinmóð, við grípum fram í fyrir fólki, við leiðréttum fólk óumbeðið, við gerum gys að villum sem fólk gerir, við skiptum yfir í ensku – við hlustum ekki. Afleiðingin er sú að margir innflytjendur fá enga þjálfun í að tala íslensku og fer þess vegna ekki fram í henni. En það er ekki það versta. Viðtökurnar geta dregið kjark úr fólki, brotið það niður og leitt til þess að það missi allan áhuga á íslenskunámi – og geta jafnvel orðið til þess að fólk dragi sig inn í skel og einangrist.

Vitnisburður þessara kvenna rímar fullkomlega við það sem segir í nýrri skýrslu frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, „Samfélög án aðgreiningar: Mat innflytjenda á eigin færni í Íslensku“: „Innflytjendur reyna almennt að nota íslensku í ýmsum aðstæðum og þannig segja um 60% þeirra sem ekki telja sig hafa góða færni í íslensku það vera mjög eða frekar líklegt að þau noti íslensku í verslun. Mun lægra hlutfall gera það hins vegar við meira krefjandi aðstæður, svo sem í óformlegum samræðum við vini eða í læknisheimsókn. Algengt er að innflytjendum sé svarað á ensku þegar þau tala íslensku og nokkuð er um að gert sé grín að þeim sem tala íslensku með hreim og að komið sé óvingjarnlega fram við innflytjendur vegna íslenskukunnáttu þeirra.“

Ef við viljum að íslenska verði áfram aðalsamskiptatungumálið á Íslandi og sameign þeirra sem búa á landinu, óháð uppruna þeirra, verðum við að breyta þessu. Innflytjendur vilja yfirleitt læra íslensku og við verðum að gera þeim það kleift, m.a. með því að bjóða ókeypis nám sem hægt er að stunda á vinnutíma. Á málþinginu í dag var lögð áhersla á nauðsyn þess að setja innleiðingarstefnu eða innleiðingaráætlun fyrir innflytjendur eins og tíðkast víðast í nágrannalöndunum – hafa eitthvert skipulag á því hvernig tekið er á móti innflytjendum og hvernig þeim er auðveldað að koma inn í samfélagið, verða hluti af því og festa rætur í því. Þetta er gífurlega mikilvægt fyrir fólkið sjálft – en ekki síður fyrir íslenskuna.

Málfar í Skrekk

Eins og ég sagði hér frá um daginn tók ég þátt í því í síðustu viku að velja sigurvegara „Skrekkstungunnar“ sem veitt er fyrir jákvæða og skapandi notkun á íslensku máli í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Það er ljóst að málnotkun í keppninni féll ekki að smekk allra því að í morgun fékk ég tölvupóst: „[Þ]ú átt alla mína samúð fyrir að hafa þurft að sitja undir Skrekk í gær – og eiga að finna ljósan punkt í notktun [svo] íslensku hjá einhverjum skólanna. Það virðist hafa tekist skv. fréttum. En gengdarlausar [svo] sletttur [svo], meira að segja þegar verið var að höfða til íslenskufræðingsins í hópi dómara, ullu [svo] vanlíðan hjá áhorfendum á mínu heimili. Spurning hvort RÚV gæti ekki fylgt stefnu um að sleppa slettum?“

Nú skal ég ekki gera lítið úr því að óhefðbundin málnotkun geti valdið fólki hugarangri eins og nýlegar rannsóknir hafa sýnt. En markmiðið með því að meta málnotkun í keppni af þessu tagi getur ekki verið að fá fram eitthvert dauðhreinsað mál sem er fjarri eðlilegu máli unglinga heldur að ýta undir það að íslenska sé notuð. Það markmið náðist – það var sungið á ensku í mörgum atriðum en enska var ekki töluð, og ýmis atriði voru eingöngu á íslensku, bæði tal og söngur. Vissulega var eitthvað um enskuslettur en þær þjónuðu yfirleitt tilgangi og féllu eðlilega inn í textann. Við völdum atriði Langholtsskóla og erum stolt af því vali en satt að segja var valið alls ekki auðvelt því að í ýmsum atriðum var íslenskan notuð á frjóan og frumlegan hátt.

Mér sýnist sem sé að sendandi töluvupóstsins hafi verið að horfa á einhverja aðra keppni en ég – eða a.m.k. með öðru hugarfari. Það gleymist nefnilega stundum að ef við viljum að íslenska verði töluð áfram á Íslandi verðum við að fá unga fólkið í lið með okkur. En það gerum við ekki með því að vera sífellt að gagnrýna það fyrir enskuslettur og annan ósóma sem við þykjumst finna í máli þess, heldur með jákvæðri hvatningu og hrósi fyrir það sem vel er gert. Ég hvet ykkur til að horfa á keppnina með jákvæðu hugarfari og hugsa um hversu stórkostlegt það er að við skulum eiga svona glæsilega unglinga sem hafa íslensku á valdi sínu og vilja nota hana – kannski ekki alveg sömu íslensku og við gamlingjarnir tölum, en íslenska er það samt.

Glatað ár

Fyrir réttu ári, 14. nóvember 2022, var haldið málþing í Veröld þar sem tilkynnt var um stofnun sérstakrar ráðherranefndar um íslenska tungu sem er „ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Þá mun ráðherranefndin vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins.“ Í tilkynningu um nefndina segir einnig: „Forsætisráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eiga fast sæti í ráðherranefndinni. Munu ráðuneyti þeirra hafa umsjón með skilgreindum áherslum sem verða útfærð í aðgerðaáætlun um íslenska tungu.“

Stofnun þessarar nefndar vakti miklar vonir um að ráðist yrði í átak til að efla og styrkja íslenskuna, en á því ári sem liðið er hefur lítið heyrst frá nefndinni. Í endurskoðaðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar síðan í janúar var gert ráð fyrir að „Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ yrði lögð fram 27. mars en ekkert varð úr því. Vissulega voru Drög að aðgerðaáætlun sem „inniheldur 18 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta en markmið þeirra er að forgangsraða verkefnum stjórnvalda þegar kemur að verndun og þróun tungumálsins“ sett í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun júní. Þessi drög eru ágæt svo langt sem þau ná en ýmislegt vantar í þau og þau ganga allt of skammt.

Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi þing er umrædd tillaga á dagskrá í október en hefur ekki verið lögð fram enn.  Í frétt sem birtist í gær á vef Stjórnarráðsins segir að tillagan verði „brátt lögð fram á Alþingi“. Í ljósi þess að áður kynntar dagsetningar hafa ekki staðist er ástæða til að taka „brátt“ með fyrirvara (enda er jafnvel „strax“ teygjanlegt hugtak í stjórnmálum). En jafnvel þótt tillagan yrði lögð fram á næstu dögum eru engar líkur á að hún verði samþykkt fyrr en á vorþingi 2024. Þar með er titillinn „aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ þegar úreltur. Það er vitanlega aukaatriði – aðalatriðið er að heilt ár er glatað. Ár sem hefði verið hægt að nýta til brýnna aðgerða í þágu íslenskunnar.

En vissulega hefur ákveðið undirbúningsstarf verið unnið. Í gær voru kynntar fimm úttektir á vegum samstarfshóps Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um framhaldsfræðslu, þar af þrjár sem varða íslensku – „Samfélög án aðgreiningar: Mat innflytjenda á eigin færni í Íslensku“, „Úttekt á gæðamálum íslenskukennslu fyrir fullorðið fólk með annað móðurmál en íslensku“ og „Fullorðinsfræðsla meðal innflytjenda. Greining á stefnu og rannsóknum“. Þetta er góðra gjalda vert en því miður er alltof algengt að skrifaðar séu úttektir og skýrslur og samdar stefnur sem síðan er ekkert fylgt eftir, eins og t.d. „Drög að stefnu: Menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn“ frá 2020 sem ekkert hefur verið gert með.

Það kostar nefnilega peninga að framfylgja fallegum og vel útfærðum stefnum, og þótt umrædd þingsályktun yrði samþykkt á vorþingi fylgir henni ekkert kostnaðarmat og engar fjárveitingar. Það sem verra er – engar horfur eru á að þær aðgerðir sem taldar eru upp í tillögunni verði fjármagnaðar. Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2024 er ekki að finna neinar vísbendingar um aukið fé til að hrinda aðgerðaáætluninni í framkvæmd. Vissulega er eftir að samþykkja fjárlög og ekki loku fyrir það skotið að einhverju verði bætt við í lokaafgreiðslu þeirra þótt fjármálaáætlun næstu fimm ára gefi litlar vonir um slíkt. Það kostar marga milljarða að viðhalda íslenskunni sem aðalsamskiptamáli í landinu – en það eru samt smámunir miðað við það sem í húfi er.

Að deita og deit

Hvorugkynsnafnorðið deit og sögnin deita eru mjög algeng tökuorð í nútímamáli, komin af nafnorðinu date og samhljóma sögn í ensku. Hvorugt orðanna er í Íslenskri orðabók en sögnin er í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrð 'fara á stefnumót við e-n' og sögð „óformleg“. Elsta dæmi sem ég finn um nafnorðið er í Vísi 1979: „Síðan fékk „deitið“ hans, sem heitir Virginia Christian, vænan skammt af kossum og þvílíku.“ Annað dæmi er í DV 1984, en fleiri dæmi finn ég ekki frá níunda áratugnum. Vitanlega geta orð af þessu tagi verið orðin algeng í talmáli löngu áður en þau fara að sjást á prenti, en hvorugt orðanna er þó að finna í Slangurorðabókinni frá 1982 sem bendir til að þau hafi lítið verið farin að heyrast í íslensku um það leyti.

Þetta breyttist upp úr 1990. Í Pressunni 1992 segir: „Mig langar til að gerast klæðskiptingur, detta í það á frumsýningunni og verða „deitið“ hans Júlla“ og elsta dæmi sem ég finn um sögnina er í Helgarpóstinum 1996: „Hefurðu stefnt lífi þínu í hættu að nauðsynjalausu með djarfræðisathöfn; svo sem eins og að „deita“ tvíbura.“ Fram yfir aldamót voru orðin oft höfð innan gæsalappa og jafnvel útskýrð sérstaklega. Í DV 1999 segir: „Það var þó ekki fyrr en í byrjun þessa árs að þau George og Danielle fóru að vera saman, eða deita, eins og það heitir í Ameríku.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Flestir ógiftir ,,deita“, eins og það er kallað og yfirleitt ,,deitar“ fólk hvort annað í marga mánuði áður en það segir orðin kærasta og kærasti.“

Síðan um aldamót hafa bæði nafnorðið og sögnin verið mjög algeng og löngu hætt að hafa þau innan gæsalappa. Í Risamálheildinni eru hátt í 23 þúsund dæmi samtals um orðin og samsetningar með deit- sem fyrri lið, einkum deitmenning en einnig deitsíða, deitmarkaður o.fl. Meginhluti dæmanna er vissulega af samfélagsmiðlum en þó eru hátt í 1900 dæmi úr formlegra máli þannig að orðin hafa fest sig rækilega í sessi í íslensku. Rétt er að benda á að nafnorðið deit hefur tvær merkingar – annars vegar 'stefnumót' eins og „Þegar við förum á deit tölum við ekki um neitt leiðinlegt“ og hins vegar 'persóna sem einhver á stefnumót við' eins og „Við kynntumst þannig að deitið mitt á tónleika komst ekki“ – bæði dæmin úr Fréttablaðinu 2014.

Orðin deit og deita eru vitanlega komin úr ensku en eins og ég hef oft sagt eiga orð ekki að gjalda uppruna síns ef þau falla fullkomlega að íslensku eins og þessi orð gera – deit er hliðstætt heit og deita er hliðstætt leita og neita. Vissulega eiga þau enga ættingja í íslensku en sama máli gegnir um ótal önnur orð í málinu. Þetta eru lipur orð sem bæta úr brýnni þörf, sérstaklega sögnin – ég veit ekki um neina sögn sem væri hægt að nota í stað deita. Stundum er sögnin hitta notuð en merking hennar í þessu samhengi er óljósari. Þar að auki getur deita verið áhrifslaus eins og í „Ertu eitthvað að deita?“ í mbl.is 2015 – þannig er ekki hægt að nota hitta. Því er mál til komið að taka nafnorðið deit og sögnina deita inn í orðabækur – athugasemdalaust.