Breytum atvinnu- og launastefnu í þágu íslenskunnar

Í dag var ég að tala við innflytjanda sem hefur búið hér í tíu ár. Við töluðum saman á ensku sem er þó ekki móðurmál hans – hann sagðist skilja dálítið í íslensku en ekki nóg til að geta tekið þátt í samræðum. Ég kunni ekki við að spyrja hvers vegna hann hefði ekki lært íslensku en heyrðist á honum að aðalástæðan væri sú að hann hefði ekki þurft á því að halda – þótt hann þurfi að hafa samskipti við Íslendinga í starfi sínu er hann ekki í afgreiðslu- eða þjónustustarfi og það er vel þekkt að vegna almennrar enskukunnáttu Íslendinga er enginn vandi að búa í landinu árum saman án þess að læra málið. Það er vont fyrir íslenskuna, getur verið truflandi fyrir Íslendinga, tvíbent fyrir fólkið sem hingað kemur – en gott fyrir atvinnulífið.

Það eru nefnilega atvinnurekendur sem bera meginábyrgð á því að hér skulu búa tugir þúsunda fólks sem ekki kann íslensku. Atvinnulífið kallar eftir fleira og fleira fólki og gerir enga kröfu um íslenskukunnáttu. Eðlilegt væri að fólki sem hingað kemur til að vinna í afgreiðslu- og þjónustustörfum væri boðið – og gert skylt – að læra íslensku sér að kostnaðarlausu, á vinnutíma. En atvinnurekendur myndu aldrei samþykkja það vegna þess kostnaðar sem af því leiddi. Þegar er talað um að vöxtur ferðaþjónustunnar hafi stöðvast vegna þess að Ísland sé of dýrt, og við séum ekki samkeppnishæf. Ókeypis íslenskukennsla á vinnutíma myndi vitanlega kosta sitt og fara út í verðlagið og þar með auka verðbólgu og draga úr samkeppnishæfi landsins.

Hinn kosturinn er að ríkið taki þennan kostnað á sig. Eins og ég benti á um daginn er ríkið nýbúið að taka á sig 20 milljarða á ári næstu fjögur ár í tengslum við kjarasamninga og fáeinir milljarðar í íslenskukennslu til viðbótar breyta kannski ekki öllu, en myndu samt auka skuldir ríkisins og þar með sennilega tefja fyrir lækkun vaxta og verðbólgu. En miðað við núverandi atvinnustefnu eru bara tveir kostir: Annars vegar að stórauka kennslu í íslensku sem öðru máli, með þeim kostnaði sem því fylgir, og gera þá kröfur um íslenskukunnáttu í ýmsum störfum. Hins vegar að gera ekki neitt – auka ekki íslenskukennslu að marki og gera engar kröfur um íslenskukunnáttu umfram það sem nú er. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að íslenskan hörfar.

Vegna kostnaðar er ólíklegt að fyrri leiðin verði farin, en sú seinni er mjög ófýsileg. Mín skoðun er sú að framtíð íslenskunnar verði ekki tryggð nema með gerbreyttri atvinnu- og launastefnu þar sem hætt verði að leggja áherslu á að fá til landsins tugþúsundir fólks í láglaunastörf þar sem þarf að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman og fólk hefur hvorki tíma né orku, né heldur hvata, til íslenskunáms. Þess í stað þarf að leggja áherslu á atvinnugreinar þar sem eru færri en betur launuð störf sem krefjast menntunar. Vandinn verður þá minni vegna þess að fólkið er færra, og við fáum fólk sem hefur betri aðstæður til íslenskunáms. Jafnframt er mikilvægt að hækka lægstu laun því að auðvitað verða áfram störf sem ekki krefjast menntunar.

Sjálfsagt finnst mörgum þetta óraunhæft, og kannski er það rétt. Kannski verðum við bara að sætta okkur við að fórna íslenskunni fyrir hagvöxtinn – því að það er það sem við erum að gera. Við erum að búa til tvískipt þjóðfélag – íslenskumælandi yfirstétt og svo lágstétt fólks sem talar oft litla íslensku og er fast í láglaunastörfum. Það sem verra er – hætta er á að börn þessa fólks nái ekki heldur fullkomnu valdi á íslensku, detti út úr skóla og séu föst í hlutskipti foreldranna. Það er óviðunandi og hættulegt lýðræðinu. Við verðum að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að þetta gerist. Ég veit að þetta hugnast engum, hvorki stjórnvöldum né almenningi, en það skortir skilning eða vilja eða kjark eða djörfung eða fé til að grípa til róttækra ráðstafana.

Að öfunda frægð og velgengni

Í fyrirsögn fréttar á mbl.is í dag segir „Öfunda frægð og velgengni yngri systra sinna“ og í fréttinni sjálfri segir: „Hudson og Lively, sem starfa einnig sem leikarar, viðurkenndu að öfunda velgengni yngri systra sinna sem og öll tækifærin sem þeim býðst í Hollywood.“ Ég staldraði við þetta vegna þess að sögnin öfunda er þarna notuð á óvenjulegan hátt. Venjulega er hún notuð um fólk en einnig er hægt að nota hana um hópa, félög og samfélög fólks. Einnig er öfunda stundum notuð með staðaheitum en þá er í raun vísað til fólks líka, þ.e. samfélagsins á staðnum – „Ég held að enginn vafi sé á því að stjórnendur margra stórborga úti í heimi öfunda Reykjavík af legu flugvallarins svo nærri miðbænum“ segir í Morgunblaðinu 2001.

Það er hins vegar ekki hefð fyrir því að öfunda óáþreifanlega hluti eins og frægð og velgengni. Um það má þó finna nokkur dæmi á netinu en sum þeirra virðast vera vélþýdd og eru því ekki marktæk. Önnur dæmi eru sárafá: „Þessi pirringur hjá Joel endurspeglar bara mótlætið sem hann fær frá fólki sem öfundar velgengni hans“ á Hugi.is 2008, „Konur um allan heim öfunda hugarfar og sjálfsöryggi franskra kvenna“ á Bleikt.is 2014, „Tiger Woods öfundar golfsveiflu sex ára sonar síns“ á Kylfingur.vf.is 2015 og „Ég get samt ekki gert upp við mig hvort ég öfunda kastíþróttir af þessum seríum“ á twitter 2021. Svo eru auðvitað dæmi eins og „Ég veit ég öfunda vorið“ í „Ég leitaði blárra blóma“ eftir Tómas Guðmundsson en þar er vorið persónugert.

Þetta eru sem sé algerar undantekningar, og það er nokkuð ljóst að í fréttinni sem vitnað var til í upphafi er um ensk áhrif að ræða – í samsvarandi frásögn á ensku segir: „Kate Hudson’s and Blake Lively’s siblings Oliver and Robyn admit they’re envious of sisters’ fame.“ Nú er svo sem ekkert stórmál þótt ein sögn verði fyrir áhrifum frá ensku og breyti hegðun sinni en samt er alltaf æskilegast að halda í hefðbundna málnotkun ef þess er kostur, og þarna hefði verið hægt – og eðlilegt – að segja öfunda yngri systur sínar af frægð þeirra og velgengni. Sambandið öfundast út í er líka notað bæði um fólk og óáþreifanlega hluti – hægt hefði verið að segja öfundast út í frægð og velgengni systra sinna og á tímarit.is má finna nokkur hliðstæð dæmi.

Það slitnar ekki slefan

Undir nafnorðinu slefa í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar er að finna sambandið það slitnar ekki slefan á milli þeirra sem sagt er „óformlegt“ og vera notað á tvennan hátt: '1. (í háði, um ástfangið fólk) þau láta sífellt vel hvort að öðru, eru alltaf að kyssast' og '2. (niðrandi) þeir (þær …) eru algerlega sammála, dást hvor af öðrum'. Fyrri merkingin er auðvitað mjög myndræn lýsing en sú seinni líking við hana. Þessi notkun sambandsins virðist ekki vera mjög gömul – hana er t.d. hvorki að finna í Slangurorðabókinni frá 1982 né annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983. Elsta dæmi sem ég finn um hana er frá 1985, en rétt er að benda á að óformlegt orðalag af þessu tagi getur tíðkast í talmáli árum saman án þess að komast á prent.

Í Þjóðviljanum 1985 segir: „Finnst ykkur kannski breska stjórnin æðislega líkleg til að lenda í andstöðu við Bandaríkin, þótt ekki slitni slefan á milli Reagans og Thatschers.“ Í Degi 1988 segir: „Þetta var fyrir um fjórum mánuðum og það hefur varla slitnað slefið á milli þeirra síðan.“ Í Vikunni 1990 segir: „Það hallærislegasta sem ég sé er þegar slitnar ekki slefið milli fólks við næsta borð.“ Í Alþýðublaðinu 1995 segir: „Það hefur ekki ennþá slitnað slefan á milli þeirra Kristjáns Ragnarssonar og Þorsteins Pálssonar í að viðhalda þessu kerfi.“ Í Degi 1999 segir: „Þessa dagana slitnar ekki slefið á milli stjórnarflokkanna.“ Í DV 2011 segir: „Við vorum í skíðaferð með fólki sem var svo ástfangið að það slitnaði ekki slefið á milli þeirra.“

Þarna er að finna dæmi um bæði hina lýsandi merkingu sambandsins og yfirfærðu merkinguna, og ýmist er notuð kvenkynsmyndin slefa eða hvorugkynsmyndin slef sem hefur sótt mjög á síðustu áratugina. Í Risamálheildinni eru um 75 dæmi um sambandið, meirihlutinn vissulega af samfélagsmiðlum en drjúgur hluti þó úr formlegra máli, þ. á m. úr ræðum á Alþingi. En þótt þessi notkun sambandsins virðist ekki ýkja gömul hefur það verið notað áður í annarri merkingu. Það er að finna undir nafnorðinu slefa í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, skýrt 'de ævler og snakker i det uendelige (siges om Sladdertasker)', þ.e. 'þær rausa og masa út í eitt (sagt um kjaftakerlingar)' – sagt „Talem.“, þ.e. talmál, og merkt Skaftafellssýslu.

Hvorugkynsorðið slef getur merkt 'söguburður, þvættingur' eins og fram kemur í Íslenskri orðabók en þarna er kvenkynsmyndin slefa greinilega höfð í sömu merkingu. Þetta er sama orðið og slef(a) í merkingunni 'munnvatn sem rennur út úr munninum' og væntanlega verið að líkja kjaftasögunum sem streyma út úr munninum við slef(u). Það er hins vegar óljóst hvernig stendur á því að þetta samband sem sagt er staðbundið í talmáli fyrir hundrað árum dúkkar upp í annarri merkingu meira en hálfri öld síðar. Breiddist það út og lifði allan tímann og fékk svo nýja merkingu þegar hætt var að nota slef í merkingunni ‚söguburður, þvættingur‘? Eða rakst einhver á það í Íslensk-danskri orðabók, fannst það fyndið og tók það upp í nýrri merkingu?

Slef

Í innleggi hér í gær var sagt: „Hér í eina tíð heyrði maður og sagði slefa. Nú er slefan komin í hvorugkyn hjá fjölda fólks, eða var hún alltaf tvíkynja?“ Því er til að svara að upphaflega er orðið kvenkyns. Í Snorra-Eddu segir: „Hann grenjar illilega og slefa rennur úr munni hans.“ Í Íslenskri orðabók er kvenkynsorðið slefa skýrt 'vökvi sem rennur úr munni' en þar er einnig að  finna hvorugkynsorðið slef sem er skýrt 'það að slefa; slefa, munnvatnsrennsli'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er slef skýrt 'munnvatn sem rennur út úr munninum, einkum á ungbörnum' en slefa er aðeins skýrt 'slef'. Það er því ljóst að þar er litið á hvorugkynsmyndina slef sem aðalmyndina. Þarna hefur greinilega orðið breyting á notkun orðsins á undanförnum áratugum.

Elsta dæmi sem ég finn um hvorugkynið slef er í Lesbók Morgunblaðsins 1926 þar sem sagt er frá „rannsóknum Pawlow’s, hins rússneska lífeðlisfræðings, á slefi og meltingarvökvum hunda“. En síðan sést það ekki fyrr en í kvæði í Speglinum 1970: „Þar norræn froða og norrænt slef / norrænum vall úr munni.“ Upp úr þessu fer dæmum að fjölga. Í Hús og búnaður 1972 segir: „úr munnvikum hans draup slef milli slappra varanna.“ Í Kvæðum Þórarins Eldjárn frá 1974 segir: „og Grettir verður undireins við það / svo hræddur að hann heldur varla slefi.“ Í Vikunni 1979 segir: „Inn um hana sýgst slef, vatn og annað.“ Í Lystræningjanum 1981 segir: „Grænu slefi?“ Í Hallærisplanið eftir Pál Pálsson frá 1982 segir: „Hún var að drukkna úr slefi.“

Í fyrsta dæminu hefur slef merkinguna ‚það að slefa‘ en í öllum hinum dæmunum merkir það ‚slefa‘ sem er aðalmerking þess í nútímamáli. Hvorugkynið verður smátt og smátt algengara á níunda og einkum tíunda áratugnum og sækir enn í sig veðrið. Samkvæmt Risamálheildinni er það margfalt algengara en kvenkynið á síðustu árum – myndin slefa virðist á útleið úr málinu. Það er ekki gott að vita hvers vegna þetta hefur breyst, en þó gæti verið um að ræða áhrif frá hvorugkynsorðum með -ef- í stofni sem eru nokkur – kvef, nef, sef, skref, stef, þref o.fl. Hins vegar er slefa eina kvenkynsorðið með -ef- (fyrir utan ellefa sem er dálítið sérstakt orð). En svo má ekki gleyma því að slef var til í málinu fyrir, í annarri merkingu – eða öðrum merkingum.

Eins og kemur fram í Íslenskri orðabók gat slef merkt 'söguburður, þvættingur', eins og í slefberi. Í Þjóðólfi 1900 segir: „Það eru sorpblöð ein, en heiðvirð blöð engin, sem láta sér sæma að bera út um sveitir slef og lygasögur.“ Í þessari merkingu, þar sem væntanlega er um líkingu að ræða (að bera út sögur líkt við að slefa), er orðið frá 17. öld. En í Íslenskri orðabók kemur líka fram að orðið gat að auki merkt 'það að draga (skip, bát) á eftir sér, dráttur'. Í Einherja 1936 segir: „Brúni hafði brotið stýri og tók Garðar hann þegar í slef áleiðis til hafnar.“ Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Gætu sjerstakir dráttarbátar þá farið með marga slíka þróarpramma á slefi.“ Þetta er tökuorð úr dönsku þar sem talað er umtage / have nogen / noget på slæb.

Merkingin 'söguburður, þvættingur' í orðinu slef virðist vera alveg horfin úr málinu og merkingin ‚dráttur, tog‘ virðist vera orðin frekar sjaldgæf. Notkun orðsins í þessum merkingum hefur því farið dalandi á sama tíma og notkun þess í merkingunni 'slefa' hefur aukist. Þarna var sem sé tiltækt orð sem ekki var lengur mikið notað í eldri merkingum sínum og þess vegna hægt að taka það til handargagns og fara að nota það í nýrri merkingu, án þess að það rækist alvarlega á við eldri merkingarnar. Við það bætist svo að stofngerðin er dæmigerðari fyrir hvorugkynsorð en kvenkynsorð eins og áður segir. Þetta er gott dæmi um kynskipti sem hafa orðið á stuttum tíma, síðustu þrjátíu árum eða svo. Sumar breytingar líða hjá án þess að við tökum eftir þeim.

Til skamms tíma

Í frétt á vef Feykis stendur í dag: „Það má geta þess að Arna Rún er svolítill Króksari, bjó til skamms tíma í foreldrahúsum hjá Óskari Jónssyni lækni og Aðalheiði Arnórsdóttur.“ Það vill svo til að ég þekki til á Króknum og veit því að til skamms tíma merkir þarna 'í stuttan tíma' – annars hefði ég skilið þetta sem 'þar til nú fyrir stuttu'. Á Vísindavefnum var eitt sinn spurt: „Mig langar líka að fá að vita um „til skamms tíma“. Það virðist vera mjög skipt milli þeirra sem ég hef spurt. Sumir vilja meina að það þýði „í stuttan tíma“ án tillits til hvort það var í nýlega eða fyrir löngu. En ég ólst upp við að það þýddi „var lengi en hætti fyrir stuttu“, sem sagt „var kennari til skamms tíma“ þýðir „var kennari í langan tíma en hætti fyrir stuttu síðan“.“

Ég ólst líka upp við þessa merkingu, og í svari Guðrúnar Kvaran var sagt að merkingin væri 'fram til þessa, þar til nú fyrir skemmstu' og vísað því til staðfestingar í dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar – og einnig í Íslenska orðabók, þar sem þó eru gefnar tvær merkingar – 'í stuttan tíma' og 'þar til nú fyrir stuttu'. Það er ljóst að mjög oft hefur sambandið fyrrnefndu merkinguna og sú síðarnefnda er útilokuð, t.d. ef setningin er í nútíð. Í Samtíðinni 1943 segir: „Húsgögnin eru fremur fátækleg og flest fengin að láni hér og hvar í þorpinu, því að tjaldað er til skamms tíma.“ Í Vísi 1946 segir: „Samningurinn er gerður til skamms tíma“. Í DV 1993 segir: „má gefa út sérstakt vegabréf sem gildir til skamms tíma og rennur út að áætlaðri ferð lokinni.“

Sé setningin aftur á móti í þátíð flækist málið. Stundum er þó ótvírætt að merkingin er 'í stuttan tíma', eins og í „Samningurinn var til skamms tíma“ í Morgunblaðinu 2020. En oft verður samhengið að skera úr. Í Tímanum 1987 segir: „Nú í haust fékk Natalja loks leyfi til að heimsækja mann sinn til München. […] Leyfið gilti til skamms tíma.“ Þarna er merkingin augljóslega 'í stuttan tíma'. Í Lesbók Morgunblaðsins 1992 segir: „Fyrirkomulagið var í gildi til skamms tíma og þurfti úrskurð alþjóðadómstóls til að afnema það“ en í Morgunblaðinu 2009 segir: „Hann var í gildi til skamms tíma í senn, viku eða tvær vikur.“ Þarna sýnir samhengið ótvírætt að fyrra dæmið merkir 'þar til nú fyrir stuttu' en það seinna 'í stuttan tíma'.

Í sjálfu sér má segja að það liggi miklu beinna við að skilja til skamms tíma sem 'í stuttan tíma' en 'þar til nú fyrir stuttu' – í fyrrnefnda tilvikinu hafa orðin sína venjulegu merkingu hvert fyrir sig, en í síðarnefnda tilvikinu hefur sambandið sem heild ákveðna merkingu sem ekki verður ráðin af merkingu einstakra orða þess. Þetta má bera saman við hliðstæð sambönd eins og til langs tíma og til lengri tíma sem merkja 'í langan tíma' og til stutts tíma, til styttri tíma og til skemmri tíma sem merkja 'í stuttan tíma'. Í öllum þessum samböndum halda orðin venjulegri merkingu sinni og því er ekkert undarlegt að skilningur málnotenda á sambandinu til skamms tíma breytist og farið sé að skilja það á hliðstæðan hátt og hin samböndin, þ.e. 'í stuttan tíma'.

Þetta er alveg eðlilegur skilningur og því ekki lengur hægt að halda því fram að til skamms tíma merki eingöngu 'þar til nú fyrir stuttu'. Í Málfarsbankanum segir líka: „Orðasambandið til skamms tíma merkir að jafnaði: þar til fyrir stuttu.“ Athyglisvert er að þarna er sagt „að jafnaði“ og því viðurkennt að þessi merking er ekki algild. Það er hins vegar óheppilegt að þessi breytti skilningur á sambandinu leiðir til þess að í mörgum tilvikum er það tvírætt og þarf að reiða sig á samhengi til að skilja það eins og til var ætlast – og í sumum tilvikum dugir mállegt samhengi ekki einu sinni, heldur þarf þekkingu á aðstæðum eins og í dæminu sem vísað var til í upphafi. En við það verðum við líklega bara að búa – það er enginn heimsendir.

Er að bera virðingu fyrir það sama og virða?

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær sagði: „Guðveig segist bera virðingu fyrir þessum sjónarmiðum.“ Þetta er algeng málnotkun og hvarflar ekki að mér að nýta í hana eða halda því fram að hún sé röng í einhverjum skilningi, en þarna hefði ég fremur sagt Guðveig segist virða þessi sjónarmið. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið virðing skýrt 'viðurkenning og gott álit sem maður ávinnur sér frá öðrum, heiður' og í Íslenskri orðabók er orðið skýrt 'álit, heiður; það að virða'. Þótt sögnin virða sé vissulega skýrð 'bera virðingu fyrir' í Íslenskri nútímamálsorðabók mætti skilja skýringarnar á nafnorðinu virðing á þann veg að það sé einkum fólk fremur en skoðanir sem getur notið virðingar – sem hægt er að bera virðingu fyrir.

Þetta er samt ekki svo einfalt – það má finna ótal gömul dæmi um að virðing sé notað um annað en fólk. Í Kvennablaðinu 1913 segir: „þær bera þá virðingu fyrir þessu mikilvægasta máli íslenzku þjóðarinnar.“ Í Íslandi 1927 segir: „Maður hefir ekki getað séð það á blaðinu, að það bæri sérlega virðingu fyrir þessu ríki.“ Í Alþýðublaðinu 1935 segir: „Ég hafði borið svo óstjórnlega virðingu fyrir þessu bréfi.“ Í Morgunblaðinu 1941 segir: „En alt í einu hjer um daginn fjekk jeg djúpa virðingu fyrir þessu gamla húsi.“ Í Morgunblaðinu 1955 segir: „Við verðum að bera mikla virðingu fyrir þessu framtaki.“ Í Morgunblaðinu 1958 segir: „Þegar maður gengur um götur Varsjár, setur mann hljóðan af virðingu fyrir þessu minnismerki.“

Í staðinn fyrir virðing væri í flestum eða öllum þessum dæmum hægt að setja orðið lotning sem einmitt er skýrt 'djúp virðing' bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók. En það eru líka dæmi frá ýmsum tímum um að bera virðingu fyrir skoðunum eða sjónarmiðum og þar væri tæpast eðlilegt að tala um lotningu. Í Dagskrá 1899 segir: „látum oss líka bera virðingu fyrir skoðunum annara manna.“ Í Heimskringlu 1902 segir: „Hann sýndi virðingu fyrir skoðununum og talaði heiðarlega um mótstöðumenn sína.“ Í Alþýðublaðinu 1966 segir: „en berum fulla virðingu fyrir sjónarmiðum hvors annars.“ Í Tímanum 1982 segir: „Staðreyndin er jafnframt sú að ég ber mikla virðingu fyrir sjónarmiðum landverndarmanna.“

Í þessum dæmum myndi ég nota sögnina virða í stað bera virðingu fyrir. Mér finnst virða í samhengi af þessu tagi merkja 'taka tillit til, taka mark á, taka alvarlega, gera ekki lítið úr' eða eitthvað slíkt fremur en tengjast áliti eða heiðri. En mér sýnist notkun sambandsins bera virðingu fyrir í þessari merkingu hafa aukist mjög á síðustu árum. Í Alþingisræðum í Risamálheildinni eru 129 dæmi um bera virðingu fyrir skoðun / sjónarmiði, þar af aðeins ellefu frá því fyrir aldamót. Auðvitað er ekkert athugavert við það eins og áður segir – þetta sýnir bara að við leggjum ekki öll nákvæmlega sömu merkingu í ýmis orð og orðasambönd. Það er í fínu lagi, svo framarlega sem það veldur ekki alvarlegum misskilningi – sem sjaldnast er.

Smellhitta, smellpassa og aðrar smell-sagnir

Í fyrradag rakst ég á fyrirsögnina „Brasilíumaðurinn smellhitti boltann“ á mbl.is. Ég hef svo sem ótal sinnum sé sögnina smellhitta en fór samt af einhverjum ástæðum að velta henni fyrir mér. Þótt hún sé í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er hana hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en í íslensk-enskri Orðabók Aldamóta á Snöru er hún þýdd 'smash'. Hún merkir 'hitta vel eða nákvæmlega' og væntanlega liggur sögnin smella að baki – ein merking hennar er 'hrökkva (á sinn stað), passa vel (á sínum stað)‚ ganga upp, klárast', t.d. þetta er allt að smella (saman). En smella merkir einnig 'gera snöggt hljóð' og e.t.v. vísar smell- í smellhitta einnig til smellsins sem verður þegar slegið er eða sparkað í bolta.

Eins og ég þóttist vita er sögnin ekki ýkja gömul – elsta dæmi um hana á tímarit.is er í Víkurfréttum 1985: „Margeir notaði 6-járn, smellhitti og … „lenti inn á gríni og rúllaði beint í holu“.“ Þarna er sögnin notuð um golf og líka í næstelsta dæminu, „Bingó, hann smellhitti boltann“ í DV 1985, en í DV 1989 er merkingin óeiginleg: „Kringlan hefur gengið vel og með henni virðist Pálmi hafa smellhitt naglann á höfuðið.“ Þetta eru einu dæmin um sögnina fyrir 1992 en í DV það ár er hún fyrst notuð um fótbolta: „Ég smellhitti boltann og það var frábært að sjá hann í netinu.“ Eftir það fer dæmum smátt og smátt fjölgandi og langflest eru úr fótboltamáli. Á tímarit.is eru tæp 170 dæmi um hana en í Risamálheildinni eru dæmin rúm 500.

Nokkrar aðrar samsettar sagnir með smell- sem fyrri lið má finna í Risamálheildinni. Þrettán dæmi eru um smellvirka, t.d. „Síðast en ekki síst er það svo meginatriðið, þetta samspil mynda og texta, sem smellvirkar“ í Morgunblaðinu 2008. Átta dæmi eru um smellganga, t.d. „Sumir hafa látið í sér heyra síðar og þá hefur allt smellgengið upp“ í Vísi 2015. Fjögur dæmi eru um smellfalla, t.d. „Allan Fall er að smellfalla inn í liðið“ í Morgunblaðinu 2008. Sögnin smellkyssa er hins vegar miklu eldri og líklega annars eðlis– elsta dæmi um hana er „augun ætluðu blátt áfram út úr hausnum á honum, þegar hann sá hana smellkyssa stjúpuna“ í Alþýðublaðinu 1951. Þar er væntanlega vísað til hljóðsins, enda orðið kossasmellur til – elsta dæmi um það frá 1943.

En langalgengasta sögnin með þennan fyrri lið er smellpassa sem mér fannst ég hafa kunnað alla tíð og hélt að væri gömul, er í raun litlu eldri en smellhitta ef marka má tímarit.is – elsta dæmið um hana er í Íþróttablaðinu 1978: „Einhver áhorfandanna hafði verið við þessum úrslitum búinn og dró upp úr pússi sínu gulllitaða kórónu sem smellpassaði á hálfsköllótt höfuð Stenzels.“ Fáein dæmi eru um sögnina frá næstu árum en það er ekki fyrr en um miðjan tíunda áratuginn sem hún fer að verða algeng og tekur svo við sér svo að um munar á þessari öld. Alls eru tæplega 2.600 dæmi um hana á tímarit.is og nærri 4.500 í Risamálheildinni. Þarna er augljóst að um er að ræða merkinguna ‚passa vel‘ en merkingin ‚gera snöggt hljóð‘ á ekki við.

Þetta skýrist senn

Forseti Íslands sagði á Bessastöðum áðan að hann vænti þess að það myndi skýrast „senn“ hver tæki við af Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra. Þetta endurtók hann nokkrum sinnum og þrátt fyrir að vera þráspurður fékkst hann ekki til að nefna nánari tímasetningu þótt á honum mætti skilja að hann væri að vísa til fáeinna daga í mesta lagi. En er hægt að negla nákvæma merkingu atviksorðsins senn niður? Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'bráðum' en bráðum er aftur skýrt 'innan skamms tíma'. Í Íslenskri orðabók er senn skýrt 'bráðum, fljótlega, rétt strax'. Í fornu máli merkir orðið yfirleitt 'á sama tíma, í einu' eða 'strax, umsvifalaust'. Það er því að sjá að frá fornu máli hafi heldur teygst á þeim tíma sem orðið vísar til.

Það er ekki einsdæmi að fólk velti fyrir sé merkingu atviksorða sem vísa til tíma. Þekkt dæmi um það eru orð Vigdísar Hauksdóttur, þáverandi þingmanns Framsóknarflokksins, í Kastljósi 3. október 2013: „Og þegar er verið að ræða svona mál, svona brýn mál, þá er kannski strax teygjanlegt hugtak.“ Þetta vakti mikla athygli og á Vísindavefnum er að finna ítarlegt svar við spurningunni hvort strax sé virkilega teygjanlegt hugtak. Þar segir m.a. að „þegar orðið ‚strax‘ er notað sé mikilvægt fyrir árangursrík tjáskipti að gagnkvæmur skilningur sé á samhenginu sem orðið er notað í“ og slíkur skilningur þurfi „að vera til staðar til að báðir aðilar komi sér saman um hve langt sé í teygjunni“. Nú er spurningin: Hve löng er teygjan í senn?

Ef þörf kræfi

Í dag sá ég sagnmyndina kræfist í frétt á vefmiðli: „Selenskí hafði áður sagt að hann myndi ekki undirrita lögin nema nauðsyn kræfist.“ Þarna er vissulega venja að nota myndina krefðist en kræfist er þó ekki einsdæmi. Elsta dæmið sem ég finn á tímarit.is er í Ísafold 1904: „eg aftalaði það strax daginn eftir, þó gegn því að greiða Jóni Helgasyni af mínum hálfparti […] ef hann kræfist þess.“ Í Munin 1936 segir: „Þetta gæti stafað af því, að námið kræfist slíks.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Mönnum hefir verið sagt að málið væri undirbúið og kræfist framkvæmda.“ En þetta er ekki bundið við miðmynd sagnarinnar krefja – dæmin um kræfi í stað krefði í germynd eru mun fleiri, einkum í samböndunum nauðsyn kræfi og þörf kræfi.

Í ræðu á Alþingi 1911 segir: „Og mundi hún ekki verða notuð, nema ef nauðsyn kræfi.“ Lesbók Morgunblaðsins 1929 segir: „verða þar sæti fyrir 80 áheyrendur, en koma mætti um 100 fyrir, ef nauðsyn kræfi.“ Í Rétti 1938 segir: „Varðliðið var aukið og gefin út skipun um að skjóta á fólkið, ef þörf kræfi.“ Í Fréttablaðinu 2009 segir: „Hraða átti vinnu ráðherranefndar og gera tillögur í samráði við aðila vinnumarkaðarins um viðbótarúrræði ef þörf kræfi.“ Í héraðsdómi frá 2011 segir: „Skyldi gera tímasetta áætlun um framkvæmd úrbóta ef þörf kræfi.“ Alls er á annað hundrað dæma um myndir með kræf- í stað krefð- á tímarit.is og í Risamálheildinni eru dæmin um 100, þar af um 60 í samböndunum nauðsyn kræfi eða þörf kræfi.

Það er nokkuð augljóst að þessi beyging sagnarinnar krefja er tilkomin fyrir áhrif frá beygingu sagna eins og gefa, hefja og sofa. Til (ég) gef svarar (þótt ég) gæfi, til (ég) hef svarar (þótt ég) hæfi, til (ég) sef svarar (þótt ég) svæfi, þannig að það liggur beint við að álykta að til (ég) kref svari (þótt ég) kræfi. Við það bætist að til er í málinu lýsingarorðið kræfur í merkingunni ‚sem unnt er að krefjast‘, sbr. afturkræfur, endurkræfur o.fl. Þetta orð „gæti verið ísl. nýmyndun af krefja til samræmis við hefja: hæfur, skafa: skæfur o.fl.“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Svipaðar áhrifsbreytingar eru ótalmargar í beygingu sagna og annarra beygjanlegra orða í málinu, margar hverjar fullkomlega viðurkenndar. Þessi breyting er það ekki, en er eðlileg og saklaus.

Mál og mannréttindi

Ég var í Eistlandi um páskana og hef verið að hugsa dálítið um samanburð á eistneska málsamfélaginu og því íslenska. Eistneska og íslenska eru óskyld tungumál en eiga það sameiginlegt að vera smáþjóðamál – þótt u.þ.b. þrisvar sinnum fleiri eigi eistnesku að móðurmáli en íslensku er eistneska málsamfélagið samt eitt það minnsta í Evrópu. Eistnesk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á verndun og eflingu eistneskunnar og m.a. sett lög sem taka til bæði opinberra aðila og einkaaðila og kveða á um eflingu og notkun eistnesku á öllum sviðum, t.d. í heitum staða og fyrirtækja, á hvers kyns skiltum, í auglýsingum og upplýsingum um vörur, í sjónvarps- og útvarpsefni, á vefsíðum o.fl. Mér sýnist að þessu sé fylgt fast eftir.

Lagasetning um notkun þjóðtungna eins og íslensku og eistnesku hefur það markmið að stuðla að notkun málanna á öllum sviðum samfélagsins og styrkja þau gagnvart ásókn erlendra tungumála. Það er eðlilegt og göfugt markmið – tungumálið er mikilvægur hluti af sjálfsmynd einstaklinga og menningu þjóðarinnar. Sérhvert tungumál er hluti af sameiginlegum menningararfi mannkyns sem æskilegt er að varðveita og smáþjóðatungumál eins og íslenska og eistneska eru í sérlega viðkvæmri stöðu vegna þess að þau nýtast hvergi utan heimalandsins. Við lagasetningu sem á að tryggja hagsmuni eins opinbers tungumáls verður hins vegar að gæta þess vel að ekki sé gengið óeðlilega á rétt þeirra sem tala önnur tungumál.

Í Eistlandi er stór rússneskumælandi minnihluti, u.þ.b. fjórðungur íbúa landsins – hluti þeirra afkomendur fólks sem var flutt til Eistlands á Sovéttímanum. Það sem gerir málið sérstaklega viðkvæmt er að rússneska er mál stórþjóðarinnar sem var löngum herraþjóð í Eistlandi – í rúm tvö hundruð ár fram til 1918 og aftur í nærri hálfa öld frá seinni heimsstyrjöldinni, og ógn frá Rússlandi vofir vitanlega enn yfir. Þess vegna er mjög eðlilegt að eistnesk stjórnvöld vilji efla eistnesku og draga úr notkun rússnesku í landinu – rússneskan tengist svo mörgu óþægilegu í sögu landsins og minnir á rússnesk yfirráð og kúgun. Við getum auðvitað tengt þetta við Danahatur og andúð á dönsku hér á landi þótt slíkt sé blessunarlega liðin tíð.

Lagasetning til styrktar eistneskunni leiðir óhjákvæmilega til þess að málleg réttindi þeirra sem eiga hana að móðurmáli verða mun meiri en réttindi þeirra sem eiga rússnesku að móðurmáli. Í ljósi þess að eistneskan er þjóðtunga og móðurmál mikils meirihluta þjóðarinnar er það ekki óeðlilegt, en spurningin er samt sú hvort stundum sé of langt gengið – hvort gengið sé á eðlileg og sjálfsögð mannréttindi hins rússneskumælandi minnihluta. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur lýst áhyggjum sínum af því að svo kunni stundum að vera en þetta er álitamál sem ég skal ekki dæma um. Hvað sem því líður er ljóst að þarna geta orðið ýmsir árekstrar milli réttinda þjóðtungunnar annars vegar og mannréttinda borgaranna hins vegar.

Staðan á Íslandi er vitanlega allt önnur en í Eistlandi. Hér hafa ekki verið nein minnihlutamál – til skamms tíma höfðu nánast allir íbúar landsins íslensku að móðurmáli og engin þörf var á að taka tillit til annarra tungumála enda er ekki vikið að stöðu annarra mála en íslensku og íslensks táknmáls í Lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011. Öfugt við eistnesku lögin taka þau eingöngu til opinberra aðila en ekki einkaaðila, og að auki hefur þeim verið mjög slælega framfylgt. Vegna þessa hefur enska getað orðið sífellt meira áberandi í almannarýminu á undanförnum árum, bæði í raunheimi og stafrænum heimi, án þess að verulega hafi verið spornað við því – stjórnvöld og almenningur hafa látið það viðgangast.

Þetta sinnuleysi hefur leitt til þess að enskan hefur unnið sér eins konar hefðarrétt – það er mjög erfitt að snúa til baka og hverfa frá þessari miklu enskunotkun án þess að það hafi margvíslegar afleiðingar. Fólk hefur flust hingað og búið hér árum saman án þess að til þess hafi verið gerðar kröfur um íslenskukunnáttu – hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúum landsins nálgast 20% og á án efa eftir að hækka, og verulegur hluti þessa fólks talar ekki íslensku. Þess vegna væri umdeilanlegt að setja mjög takmarkandi reglur um enskunotkun fyrirvaralaust – það mætti segja að þar væri komið aftan að fólki. Því fara að vakna spurningar um málleg réttindi þeirra sem eiga annað móðurmál en íslensku – er tími til kominn að kveða á um þau í lögum?

Að mínu mati skiptir meginmáli í þessu hvaða skilyrði við búum fólki sem hingað kemur til að læra íslensku. Ef íslenska á áfram að standa undir nafni sem þjóðtunga þurfum við að leggja megináherslu á að fólk sem sest hér að læri málið, sjá því fyrir ókeypis íslenskunámskeiðum, gera því kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma og flétta það saman við starf sitt, og vera jákvæð og hvetjandi gagnvart ófullkominni íslensku. En ef við sinnum þessu ekki leiðir það til þess að sífellt stærri hluti íbúanna verður ekki íslenskumælandi, og þá hlýtur að koma að því að við verðum að veita öðrum tungumálum en íslensku meiri réttindi í samfélaginu en þau hafa nú. Annað væri beinlínis bæði andstætt mannréttindum og hættulegt lýðræðinu.