Hann býr niður við höfnina

Í gær var spurt í „Málspjalli“ hvort ætti að segja hann býr niður við höfnina eða hann býr niðri við höfnina. Í svörum var m.a. vísað í Málfarsbankann þar sem segir: „Atviksorðið niðri er notað um dvöl: vera niðri í fjöru. Atviksorðið niður er nota um hreyfingu: fara niður í fjöru.“ Þetta er vissulega það sem lengi hefur verið boðað og kennt – í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir t.d.: „Rétt væri að segja: Hann var uppi á fjallinu en kom ofan hlíðina niður í dalinn og er nú niðri við ána.“ En í umræðum kom þó fram að sumum fannst bæði niður og niðri ganga og ég tek undir það – ég held meira að segja að ég myndi frekar segja niður við höfnina þótt ég hefði sennilega skrifað niðri við höfnina af því að ég veit að þannig „á“ það að vera.

Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að atviksorðin niður og niðri falla mjög oft saman í framburði vegna þess að áherslulausa sérhljóðið, u í niður og i í enda niðri, fellur yfirleitt brott þegar næsta orð hefst á sérhljóði. Næsta orð er mjög oft annaðhvort á eða í og þá er sagt niðrá og niðrí niður á/í er mjög formlegur framburður og niðri á/í fullkomlega óeðlilegur. Dæmi Málfarsbankans sem vitnað var til hér að framan, vera/fara niðri/niður í fjöru, er þess vegna óheppilegt vegna þess að framburðurinn er nákvæmlega sá sami í báðum tilvikum, niðrí. Munurinn kemur ekki fram nema í riti, og þetta ýtir vitanlega undir það að orðin blandist saman. Svipað gildir um nokkur önnur pör atviksorða, eins og upp og uppi, út og úti, inn og inni.

Á tímarit.is eru samtals rúm þrjátíu dæmi um búa niður við, það elsta í Breiðabliki 1907: „Sumarbústöðum Winnipeg-búa niður við vatnið mikla með sama nafni fer stöðugt fjölgandi.“ Dæmin um búa niðri við eru aðeins færri, tæp þrjátíu, það elsta í Bjarka 1899: „jeg er systir eins bóndans hjer, ameriska mansins, sem býr niðri við ána.“ Í Risamálheildinni eru tíu dæmi um búa niður við en tólf um búa niðri við. Ýmsar fleiri hliðstæður má nefna þar sem niður og niðri hafa verið notuð jöfnum höndum í dvalarmerkingu a.m.k. síðan um aldamótin 1900. Á tímarit.is eru t.d. átján dæmi um eiga heima niður við en tíu um eiga heima niðri við, rúmlega tuttugu dæmi um dvelja niður við en rúmlega þrjátíu um dvelja niðri við.

En notkun niður í dvalarmerkingu er mun eldri – það sýna ýmis dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. „Eg var þá ekki vel til passa, svo eg lá niður í skipi“ segir í texta frá 17. öld í Blöndu V. Í greininni „Um eðli og uppruna jarðarinnar“ eftir Jónas Hallgrímsson í Fjölni 1835 segir: „Niður í jörðinni eru víða gjótur og gjár.“ Í „Úr bréfi frá Íslandi“ eftir Tómas Sæmundsson í sama árgangi Fjölnis segir: „Var eg jafnan uppá þiljum, þegar á fótum gat verið, því niður í skipi var mjög ógurlegt.“ Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1864 segir: „Þokulaust var niður í dalnum.“ Í Sagnakveri Skúla Gíslasonar frá miðri nítjándu öld segir: „Bóndi þessi var eitt sinn að smíðum niður við sjó.“ Fjölmörg önnur nítjándu aldar dæmi mætti tilgreina.

Þetta þýðir samt ekki að alltaf sé hægt að nota niður í dvalarmerkingu – það er bundið við notkun orðsins með forsetningum en gengur ekki ef það er notað eitt og sér. Dæmi eru um vera niður við höfn / á torgi / hjá sjónum / í bæ o.fl., en hins vegar er útilokað að vera bara niður í dvalarmerkingu – spurningunni hvar ertu? er ekki hægt að svara með *(ég er) niður, heldur verður að segja (ég er) niðri. En það er ljóst að notkun niður með forsetningu í dvalarmerkingu á sér a.m.k. tvö hundruð ára óslitna sögu og virðist alla tíð hafa verið algeng, a.m.k. í ákveðnum samböndum. Vitanlega er engin ástæða til annars en telja þá notkun góða og gilda – hann býr niður við höfnina er rétt mál, samkvæmt öllum venjulegum viðmiðum.

Tölum íslensku – en notum túlk ef þarf

Í fréttum á vefmiðlum er vitnað í Facebook-færslu Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar um að fulltrúi Reykjavíkurborgar á fundi um mygluvandamál í leikskóla nokkrum hafi neitað að svara spurningum á ensku og hunsað slíkar spurningar, og hafnað boðum fundargesta um túlkun. Það má búast við að tilvikum af þessu tagi fari fjölgandi og við þurfum að hafa einhverja stefnu í því hvernig brugðist er við. Við viljum halda því til streitu að íslenska sé notuð alltaf og alls staðar á Íslandi, en jafnframt verðum við að vera raunsæ og viðurkenna að hér býr fjöldi fólks sem ekki talar málið og það er mikilvægt að gæta réttinda þess fólks og halda upplýsingum ekki frá því – allra síst þegar málið snýst um hagsmuni barna.

Íslenska er opinbert mál á Íslandi, mál ríkis og sveitarfélaga, og vitanlega er eðlilegt að fundur af þessu tagi fari fram á íslensku. En jafnframt er eðlilegt og óhjákvæmilegt að bjóða upp á túlkun fyrir þau sem skilja ekki íslensku – annað er óþolandi jaðarsetning sem mun koma okkur í koll. Í athugasemd við áðurnefnda frétt segir samskiptastjóri Reykjavíkurborgar að um sé að ræða einkarekinn leikskóla og þess vegna sé það hlutverk skólans en ekki borgarinnar að útvega túlk, og það má til sanns vegar færa. Samskiptastjórinn hafnar því að fulltrúi borgarinnar hafi gert athugasemdir við að fundargestir væru að túlka en reyndar getur verið vafasamt að þiggja slíkt boð. En aðalatriðið er að fundarboðendur sáu ekki til þess að útvega túlk.

Hin hliðin á málinu er sú að fulltrúi borgarinnar á fundinum treysti sér ekki til að tala ensku að sögn samskiptastjórans. Það er ekkert óeðlilegt – þótt Íslendingar geti flestir bjargað sér þokkalega á ensku er það alls ekki algilt, og auk þess þarf meira en hversdagslegan orðaforða til að tala um flókin og sérhæfð mál eins og mygluskemmdir sem þarna voru til umræðu. Auðvitað er ekki hægt að gera kröfu um það að almennt starfsfólk tali ensku ef það er ekki skilgreindur hluti af verksviði þess, og það á ekki að vera og má ekki verða sjálfsögð krafa að fólk skipti yfir í ensku þótt einhver krefjist þess eða þótt einhver viðstaddra skilji ekki íslensku. Það er réttur okkar að tala íslensku á Íslandi og ekki hægt að skylda okkur til annars.

Hin einfalda, augljósa og óhjákvæmilega leið í þessu máli er að sjá til þess að túlkur sé ævinlega til staðar. Þannig gætum við hagsmuna og réttinda allra aðila – þau sem treysta sér til geta talað íslensku, og verða ekki krafin um annað, en túlkað er fyrir þau sem ekki skilja málið. Auðvitað kostar þetta eitthvað – sennilega heilmikið – og auðvitað mun kostnaðurinn vaxa einhverjum í augum. En við höfum í raun ekkert val, nema við viljum troða á réttindum annaðhvort íslenskunnar eða innflytjenda sem eiga það inni hjá okkur að vera ekki hafðir utanveltu – þeir eru komnir hingað til að vinna fyrir okkur, oft störf sem við getum ekki eða viljum ekki sinna, og eiga verulegan þátt í þeim hagvexti og þeim lífskjörum sem við höfum notið undanfarið.

Vertíð

Í „Málspjalli“ var í gær spurt út í orðið vertíð sem í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýrt 'samfelldur tími ársins þegar fiskur er veiddur'. Fyrirspyrjandi benti á að orðið væri nú iðulega notað í ýmsu samhengi þar sem sjór eða fiskur kæmi hvergi nærri, og þá að því er virtist í merkingunni 'tímabil' eða 'törn'. Í Íslenskri orðabók er reyndar merkingin 'mikilvægasti anna- og teknatími' gefin til viðbótar fiskveiðimerkingunni, með dæminu desembersalan var vertíð kaupmannsins, og fjöldi samsetninga með vertíð sem ekki koma fiskveiðum við er til í málinu, ekki síst íþróttamáli, svo sem bókavertíð, ferða(manna)vertíð, golfvertíð, grillvertíð, handboltavertíð, jóla(bóka)vertíð, knattspyrnuvertíð,  körfuboltavertíð, skíðavertíð o.s.frv.

Þessi notkun orðsins vertíð er ekki ný – Gísli Jónsson amaðist margoft við henni í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu á síðustu öld. Hann sagði í þætti 1981 að orðið virtist „notað í tíma og ótíma í stíl við enska orðið season, sem reyndar merkir upphaflega sáðtíð (lat. satio)“ og bætti við: „Einkum verð ég var við áníðsluna á vertíð, þegar sagt er frá íþróttum.“ Í þætti 1987 sagði hann svo: „Það er hreint með ólíkindum hvernig búið er að misþyrma orðinu vertíð í öllum mögulegum samsetningum.“ Gísli vitnaði í orðin keppnisvertíð og siglingavertíð sem hefðu komið fyrir í fréttum og sagði: „Þegar sagt er frá keppnistíð og siglingartíð, á orðið ver ekkert erindi þar inn.“ Gísli vildi sem sé láta -tíð nægja sem seinni lið samsetninga í stað -vertíð.

Það er örugglega rétt hjá Gísla að enska orðið season hefur ýtt mjög undir þessa notkun á vertíð en hún er þó eldri en svo að erlend áhrif dugi til að skýra uppruna hennar sem má a.m.k. rekja aftur á sjötta áratug síðustu aldar. Í Vísi 1959 segir: „Fréttamaður Vísis […] spurðist fyrir um, hvers væri helzt að vænta á þeirri bókavertíð, sem í hönd færi.“ Í Alþýðublaðinu 1960 segir: „Menn byrja jólavertíð sína misjafnlega snemma.“ Í Þjóðviljanum 1962 segir: „á hinni skömmu sumarverzlunarvertíð sinni norður hér.“ Notkun orðsins í íþróttafréttum virðist koma aðeins síðar. Í Nýjum vikutíðindum 1963 segir: „Knattspyrnuvertíðin er byrjuð af fullum krafti.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Handknattleiksvertíðin hefst á laugardaginn.“

Ástæðan fyrir því að farið var að nota orðið vertíð í þessu samhengi er væntanlega sú að auk merkingarþáttanna 'fiskveiði' og 'afmarkað tímabil' fékk orðið merkinguna 'vinnutörn' eða 'uppgrip' í huga fólks – sem átti vel við um vertíð í hefðbundinni merkingu (þótt uppgripin brygðust vissulega stundum). Í þeirri notkun orðsins sem hér um ræðir verður síðastnefndi merkingarþátturinn ráðandi en sá fyrstnefndi fellur brott – tengslin við fiskveiði rofna og úr verður eðlileg og sjálfsögð líking sem ótal fordæmi eru fyrir í málinu. Vissulega væri hægt að sleppa -ver- og tala bara um jólabókatíð og knattspyrnutíð í staðinn fyrir jólabókavertíð og knattspyrnuvertíð en þá glatast líkingin og þar með merkingin 'törn'. Það væri skaði.

Besta tökuorð ever?

Í einum af pistlum Eiðs heitins Guðnasonar, „Molar um málfar og miðla“, skrifaði hann um orðið ever og sagði: „Enska orðið ever þrengir sér inn í íslenskuna. Rætt var við tónlistarblaðamann, sem svo var kallaður. Hann sagði um velgengni íslenskrar hljómsveitar að það væri flottasta byrjun ever.  Flottasta byrjun sem sögur fara af, hefði hann til dæmis getað sagt, flottasta byrjun í manna minnum. Bara ekki flottasta byrjun ever. Þetta heyrist því miður býsna oft.“ Þegar þetta var skrifað árið 2012 var það svo sem ekki nýtt að nota ever á þennan hátt í íslensku. Það er mjög algengt í elstu textum af samfélagsmiðlum, frá því um aldamót, og hefur því væntanlega verið orðið útbreitt í talmáli á síðasta áratug tuttugustu aldar eða fyrr.

Nokkur dæmi af Hugi.is frá árinu 2000: „Team fortress 2 verður besti leikur ever“, „En er Starcraft mest spilaði herkænskuleikur ever??“, hver finnst ykkur vera besti Simpsons þáttur ever?“, „Ég var að búa til mína fyrstu heimasíðu, ever“, „Þetta er líka einn mesti sukkari ever“, „Þetta var nú bara barnalegasta svar ever“, „hvað finnst ykkur vera bestu þungarokks hljómsveitir ever?“, „það er talin vera besta útgáfan af windows ever“, „ein af þeim bestu ever“, „stærsta nördamót ever“, og svo mætti lengi telja. Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru rúm tuttugu þúsund dæmi um ever. Eitthvað af þeim er vissulega úr ensku samhengi, en ljóst er að ever er gífurlega algengt í óformlegu málsniði og hefur verið í a.m.k. aldarfjórðung.

En notkun ever í íslensku er þó ekki einskorðuð við óformlegt málsnið – töluvert er farið að bera á henni í formlegra máli og hún fer þar ört vaxandi. Elsta dæmi sem ég fann um það er úr Morgunblaðinu 2004: „Esjan er líka flottasta fjall ever.“ Í Morgunblaðinu 2006 segir: „sem við höfuðborgarbúar borgum reyndar með hæstu sköttum ever.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Hún var alveg ótrúleg manneskja og flottasta kona ever.“ Í ræðu á Alþingi 2015 segir: „við […] stefnum hér kannski inn í bestu ár Íslands ever.“ Í Vísi 2017 segir: „Stærsta stund ever í fótbolta.“ Í Stundinni 2017 segir: „það var besta frí ever.“ Í Kjarnanum 2018 segir: „Versti laugardagur ever.“ Í DV 2023 segir: „Besti dagur ever með besta fólkinu okkar.“

Í ensku hefur ever nokkur skyld merkingarbrigði en í íslensku samhengi er merking þess mun þrengri – þar merkir það alltaf 'frá upphafi', 'nokkru sinni' eða eitthvað slíkt. En það er ekki síður setningarstaða orðsins sem er öðruvísi og afmarkaðri í íslensku en ensku. Í íslensku kemur það ævinlega aftast í setningu eins og framangreind dæmi sýna og á undan því fer oftast lýsingarorð í efsta stigi þótt miðstigi með samanburðartengingunni en bregði einnig fyrir, eins og í „Ég er farin að sofa en vöknuð aftur og hressari en ever“ á Bland.is 2005, og „Hann er nefnilega sprækari en ever!“ á Twitter 2021. En ever kemur aldrei fyrir inni í setningu – dæmi eins og *hefurðu ever séð flottari byrjun? eða *ég hef ever verið viss um þetta finnast ekki.

Fjöldi orða hefur komið inn í málið úr ensku á undanförnum árum og áratugum, en orðið ever hefur þá sérstöðu að vera atviksorð þótt flokkur atviksorða sé venjulega talinn fremur lokaður og sjaldgæft að ný orð bætist í hann, hvað þá tökuorð. Auðvitað má hafa ýmislegt á móti ever, bæði enskan uppruna og ekki síður hljóðafarið – íslensk orð hafa yfirleitt ekki e í áherslulausum atkvæðum. En á móti kemur að notkun orðsins hefur þróast á sérstakan hátt í íslensku og er önnur en í ensku. Hvað sem því líður er ljóst að ever er komið inn í íslensku og er ekkert á leiðinni út – það sýnir tíðni þess í óformlegu máli og vaxandi notkun í formlegra málsniði. Ég nota það stundum sjálfur og get því ekki verið að agnúast út í notkun annarra á því.

Gefum sénsinum séns

Nú berast þær gleðifréttir að hið stórmerka átak „Gefum íslensku séns“ sem er upprunnið í Háskólasetri Vestfjarða sé að breiðast út og verði tekið upp í Sveitarfélaginu Árborg. Það er mikið fagnaðarefni, en hefur þó orðið sumum tilefni til að hnýta í heiti átaksins og benda á að séns sé ekki íslenska heldur erlend sletta og betra væri að nota orð eins og möguleiki eða tækifæri. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem ég sé sambærilegar athugasemdir og þær eru svo sem skiljanlegar – við erum flest alin upp við að gjalda varhug við tökuorðum og vissulega hefur oft verið amast við séns sem er sagt „óformlegt“ í síðustu útgáfu Íslenskrar orðabókar en var í fyrri útgáfum bókarinnar merkt með spurningarmerki sem táknar „vont mál“.

Af orðinu eru einnig til afbrigðin sjens og sjans. Það fyrrnefnda er eingöngu ritháttarafbrigði við séns en það síðarnefnda stendur fyrir svolítið annan framburð. Í Íslenskri orðsifjabók segir að orðið sé líklega komið úr chance í ensku en ekki virðist þó ólíklegt að myndin sjans, sem er elst þessara mynda, sé komin úr chance í dönsku sem aftur er sagt komið af chance í frönsku. Þessi mynd bendir til framburðar með a sem samræmist framburði orðsins í dönsku og breskri ensku. Elsta dæmi um sjans er í Glettingi 1924: „Glettingur er að hugsa um að kaupa síldartunnur af norskum síldarskipum sem fiska »fyrir utan«, því það er »sjans« til að fá þær ódýrar.“ Allnokkur dæmi eru um myndina sjans á næstu árum, fram yfir 1940.

Myndin sjens sést fyrst í Vikunni 1941: „hún er á leið í síldina með svefnroða í kinnum, dynjandi músik í eyrunum og ,,sjensinn“ við hliðina.“ Árið eftir kemur myndin séns fyrir í umfjöllun um enskuslettur í Tímanum: „Þó að ég sé „sjúr“ (sure) á því, að það sé enginn „séns“ (chance) að spilla íslenzkunni.“ Þarna er komið fram á stríðsárin og bandaríski herinn kominn til landsins, en í amerískri ensku er chance borið fram með hljóðinu [æ] sem í íslenskum eyrum er nálægt e. Mér finnst því ekki ólíklegt að orðið hafi í raun komið tvisvar inn í málið – fyrst úr dönsku eða hugsanlega breskri ensku á þriðja áratugnum eða fyrr, í myndinni sjans, en svo úr amerískri ensku upp úr 1940, í myndinni séns sem varð fljótlega mun algengari en hin.

Myndin sjans var þó nokkuð notuð fram um 1980 en hefur síðan verið á stöðugri niðurleið og virðist nú vera að hverfa úr málinu – aðeins eru sárafá dæmi um hana í Risamálheildinni. En ef til vill hefur sumum þótt sjans skömminni til skárra en séns. Til þess bendir það sem Guðmundur G. Hagalín segir í ritdómi í Alþýðublaðinu 1949 þar sem hann hneykslast á málfari höfundar nokkurs: „Hann notar sjens – ekki einu sinni sjans.“ En þótt iðulega væri amast við þessu orði fannst málvöndunarmanninum Gísla Jónssyni ekki frágangssök að nota það – hann sagði í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1987: „Mér finnst koma til greina að nota orðin apparat (flt. apparöt) og sjans (séns), svona í vissum samböndum og stíltegundum.“

Orðið sjans/séns er a.m.k. hundrað ára gamalt í málinu og er orðið gífurlega algengt – dæmin um það í Risamálheildinni eru á níunda tug þúsunda. Það kemur fyrir í ýmsum algengum orðasamböndum – gefa séns, taka sénsinn, eiga ekki séns, komast á séns, á síðasta séns o.s.frv. Vitanlega er þetta löngu orðið gott og gilt íslenskt orð sem fráleitt er að amast við þótt uppruninn sé vissulega erlendur – eins og í ótalmörgum öðrum íslenskum orðum. Heiti eins og gefum íslensku tækifæri eða gefum íslensku möguleika eru of formleg og merkja þar að auki alls ekki nákvæmlega það sama og gefum íslensku séns. Heiti átaksins er einmitt sérlega vel valið – það er á þeirri hversdagslegu og eðlilegu íslensku sem fólk sem er að læra málið þarf að ná valdi á.

Þessi nokkru skipti

Í „Málspjalli“ var í gær spurt hvort fólk kannaðist við að orðið nokkur væri beygt veikt, t.d. þau nokkru skipti. Venja er að telja nokkur til óákveðinna fornafna en beyging þeirra skiptist ekki í sterka og veika beygingu heldur er ævinlega sterk, þ.e. samsvarar sterkri beygingu lýsingarorða eins og t.d. kemur fram í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Mér fannst samt þau nokkru skipti ekki hljóma sérlega framandi og við nánari athugun kom í ljós að veikar myndir orðsins eru fjarri því að vera nýjung, og notkun þeirra virðist hafa aukist verulega á síðustu árum. Elsta dæmið sem ég fann er frá nítjándu öld, í Þjóðólfi 1858: „Hirðir skýrir eigi frá, hverir hinir af þessum „nokkru mönnum“ hafi verið.“ Þetta er þó alger undantekning.

Það er ekki fyrr en undir miðja tuttugustu öld sem stöku dæmi af þessu tagi fara að sjást. Í Morgunblaðinu 1944 segir: „Jeg þykist vita, að ekki þurfti nema að minna þetta blessað fólk á, að ganga hljóðlega þessi nokkru skref framhjá spítalanum.“ Í Siglfirðingi 1946 segir: „Kannske, að maðurinn, sem kallar sjálfan sig „hinn fátæka sjómansson“ hafi átt að borga þessar „nokkru krónur“.“ Í Morgunblaðinu 1948 segir: „Hvernig ætli það væri að nota tillöguna hans Jónasar og taka nokkrar kvikmyndir af þessum nokkru drukknu mönnum?“ Í Þjóðviljanum 1950 segir: „Og hann bætti því við að þessar nokkru tylftir óháðra fyrirtækja yrðu tengdar saman í hópa vegna ónógra afkasta.“ Örfá dæmi eru svo frá næstu áratugum á tímarit.is.

Undir 1990 fer dæmum svo fjölgandi og sú þróun virðist hafa haldið áfram allt til þessa. Mikill fjöldi dæma um veiku myndirnar er í Risamálheildinni, meginhluti þeirra vissulega af samfélagsmiðlum en töluvert er einnig úr formlegra málsniði – „Ég ætla ekki að taka hinar nokkru sekúndur sem eftir eru í þær“ segir t.d. í ræðu á Alþingi 2005; „Ekki er hægt að loka veginum þessa nokkru daga meðan á viðgerð stendur“ segir í Tímanum 1990. Það er eingöngu fleirtölumyndin nokkru sem kemur fyrir – engin dæmi virðast vera um eintölumyndirnar sem ættu að vera *() nokkri og *() nokkra. Það er í sjálfu sér ekki skrítið – það er erfitt að hugsa upp aðstæður þar sem slíkar myndir væru merkingarlega eðlilegar.

Það er ekki einsdæmi að orð sem venja er að flokka sem óákveðin fornöfn fái veika beygingu. Þar er helst að nefna ýmis sem reyndar er oft flokkað sem lýsingarorð, enda dæmi eins og hinir / hinar / hin ýmsu mjög algeng. Orðið fáeinir er oft talið óákveðið fornafn en hefur iðulega veikar myndir, svo sem þessi fáeinu dæmi, og er flokkað sem lýsingarorð í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eins og ýmis. En einstöku dæmi má líka finna um veikar myndir einhverra annarra orða úr þessum flokki. Í tillögu til þingsályktunar frá 2012 segir: „skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og yfirvöld sem bera ábyrgð á eftirliti með þessum öðru félögum hafa með sér náið samstarf.“ Á Hugi.is 2002 segir: „þessar sumu myndir vilja bara ekki koma.“

Þetta eru þó algerar undantekningar sem ástæðulaust er að draga nokkrar ályktanir af. Veik beyging orðsins nokkur er hins vegar svo algeng að útilokað er að líta fram hjá henni. Við höfum í raun tvo kosti. Annars vegar getum við sagt að veika beygingin sýni að nokkur hafi breytt um orðflokk og rétt sé að flokka það framvegis sem lýsingarorð – eins og ýmis. Vissulega stigbreytist nokkur ekki eins og flest lýsingarorð gera, en auðvelt er að rökstyðja að fyrir því séu merkingarlegar ástæður. Hins vegar getum við sagt að beyging óákveðinna fornafna sé að breytast – þau geti nú haft bæði sterka og veika beygingu. Þessi kostur væri eðlilegri ef flest óákveðnu fornöfnin væru farin að beygjast veikt – en svo er ekki, enn sem komið er a.m.k.

En orðflokkur er hvort eð er bara merkimiði sem við hengjum á orð til að glöggva okkur betur á hegðun þeirra og skýra hana, og fjölmörg orð falla ekki ótvírætt í einhvern ákveðinn flokk heldur bera einkenni tveggja flokka. Aðalatriðið í þessu máli er að það er ástæða til að fagna þessari nýjung vegna þess að hún sýnir styrk beygingakerfisins í huga málnotenda – þeir búa til beygingu sem þeim finnst vanta. Fleiri svipuð dæmi má finna eins og ég hef skrifað um áður, svo sem sterkar myndir af raðtölunum þriðji og fjórði og veika mynd af fjórir. Veik beyging nokkur er áratuga gömul í málinu og orðin talsvert útbreidd og það er engin ástæða til að amast við henni. Þvert á móti er full ástæða til að fagna henni sem gagnlegri viðbót við málkerfið.

„Vestlendinga uggir“

Í „Málvöndunarþættinum“ var umræða um fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í gær: „Vestlendinga uggir vegna veiðigjalda.“ Merkingarlega séð er ekkert athugavert við notkun sagnarinnar ugga þarna – ljóst er af fréttinni að hún er notuð í merkingunni 'óttast, vera hræddur um (e-ð)' sem er önnur aðalmerking hennar samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók. Sögnin ugga í þessari notkun hefur raunar lengi verið sjaldgæf eins og m.a. kemur fram í grein Halldórs Halldórssonar í Íslensku máli 1982 þar sem hann segir frá könnun á notkun frumlagsfalls meðal 19-20 ára nemenda árið 1981. „Þá virtust nokkuð margir aldrei hafa heyrt mig sundlaði og mig uggir, og sögnin ugga yfirleitt virtist líka heldur lítt kunnugt dæmi.“

Í þessari merkingu tekur ugga venjulega þolfallsfrumlag eins og hún gerir í fyrirsögn Morgunblaðsins, en þó er ekki hægt að segja að notkunin sé þar í fullu samræmi við málhefð. Í öllum notkunardæmum, í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók tekur hún nefnilega með sér skýringarsetningu, t.d mig uggir að illt muni hljótast af; hann uggði að hann yrði ekki langlífur. Ég sé ekki betur en þannig sé sögnin undantekningarlítið notuð, a.m.k. á síðari öldum – auk þolfallsfrumlagsins þarf hún að taka með sér annan röklið (fallorð eða fallsetningu). „Vestlendinga uggir“ er því hliðstætt við mig langar, mig vantar án upplýsinga um það hvað mig langar í eða hvað mig vantar.

Nú gætu einhver auðvitað sagt að það kæmi fram í framhaldinu „vegna veiðigjalda“ hvað veldur þessum ugg. Það er út af fyrir sig rétt að merkingin kemst til skila með því. En það er ekki nóg því að sagnir gera ekki bara merkingarlegar kröfur til þeirra liða sem standa með þeim, heldur einnig setningafræðilegar kröfur. Sumar sagnir taka ekkert andlag, t.d. ég sef, aðrar geta tekið andlag en þurfa þess ekki eins og ég les (bókina), enn aðrar verða að taka andlag eins og ég óttast veiðigjöldin – *ég óttast gengur ekki eitt og sér, ekki frekar en *mig uggir. Svo eru sagnir sem taka eða geta tekið tvö andlög, eins og ég gaf henni bókina. Sumar sagnir geta svo tekið fallsetningu (-setningu) sem andlag og ugga er ein af þeim sem verða að taka slíkt andlag.

Hins vegar hefur lýsingarháttur nútíðar af sögninni, uggandi, öðlast sjálfstætt líf sem lýsingarorð og er sérstök fletta í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem hann er skýrður 'kvíðafullur, sem býst við illu' – sem passar nákvæmlega í þessu tilviki. Það er auðvitað ekkert einsdæmi að lýsingarháttur nútíðar verði að sjálfstæðu lýsingarorði en ekki algengt að hann verði svo margfalt algengari en sögnin sem hann er leiddur af – rúm fimm þúsund dæmi eru um uggandi í Risamálheildinni. Það er líka sérkennilegt við lýsingarorðið að ólíkt sögninni getur það staðið án framhalds – Vestlendingar uggandi (vegna veiðigjalda) væri fullkomlega eðlileg setning. E.t.v. hefur það ruglað höfund áðurnefndrar fyrirsagnar í ríminu.

„Kyn orðsins kemur kyni viðkomandi bara ekkert við!“

„Kyn orðsins kemur kyni viðkomandi bara ekkert við!“ Þetta var fullyrt í „Málspjalli“ í gær og fjöldi fólks hefur tekið undir það. Svipaðar fullyrðingar sjást oft í umræðu um mál og kyn, þrátt fyrir að þetta sé svo augljóslega rangt að það ætti ekki að þurfa að ræða það. Vitanlega eru bæði sterk og náin tengsl á milli málfræðilegs kyns orða og kyns þess fólks sem orðin eru notuð um. Með því að halda því fram að málfræðilegt kyn komi kyni fólks „ekkert við“ er í raun verið að segja að það sé helber tilviljun að orð eins og karl, sveinn, piltur, strákur, hnokki, faðir, sonur, bróðir eru málfræðilega karlkyns en orð eins og kona, meyja, stúlka, stelpa, hnáta, móðir, dóttir, systir eru málfræðilega kvenkyns. Auðvitað dettur engum í hug að halda slíku fram.

Hitt er annað mál – sem er væntanlega það sem fólk á við þegar það afneitar tengslum málfræðilegs kyns og kyns fólks – að þessi tengsl eru hvorki einkvæm né algild. Oft eru dregin fram dæmi eins og orðið kvenmaður sem er málfræðilega karlkyns en vísar til konu, orðið fljóð sem vísar einnig til konu en er málfræðilega hvorugkyns, og fáein önnur. En þessi orð eru undantekningar. Aðalfrávikið frá tengslum málfræðilegs kyns við kyn fólks felst í kynhlutleysi karlkynsins – málfræðilegt karlkyn er mjög oft notað í vísun til annarra en karlmanna í fornöfnum, lýsingarorðum og töluorðum, og fjölmörg nafnorð sem hafa almenna vísun eru karlkyns. Þetta hefur margoft verið rakið hér og annars staðar og á sér sögulegar rætur.

Þetta eru staðreyndir sem eru óumdeilanlegar. Það sem er deilt um er hvort þessir yfirburðir hins málfræðilega karlkyns fram yfir önnur málfræðileg kyn skipti einhverju máli utan tungumálsins – hvort hinn óumdeilanlegi kynjahalli tungumálsins hafi einhver meðvituð eða ómeðvituð áhrif á málnotkun og viðhorf málnotenda, og hvort andóf gegn honum sé misskilin jafnréttisbarátta eða eigi sér raunverulegar rætur í tilfinningu fólks. Um þetta er erfitt að fullyrða nokkuð vegna þess að tilfinnanlegur skortur er á íslenskum rannsóknum á þessu sviði. Ýmsar erlendar rannsóknir eru vissulega til en málfræðilegt kynjakerfi íslenskunnar er sér á báti og þess vegna hæpið að yfirfæra erlendar rannsóknaniðurstöður á íslenskt málsamfélag.

Ég hef þó gert nokkrar athuganir (ofrausn væri að kalla það „rannsóknir“) á málnotkun í Risamálheildinni eins og ég hef rakið í nokkrum pistlum í „Málspjalli“. Þessar athuganir sýna ótvírætt að málnotendur nota síður karlkynsorð í vísun til kvenna en karla. Það er mun algengara að vísa til kvenna með kynbeygðu lýsingarorð að viðbættu kvenkyns nafnorði (bandaríska konan Hillary, danska sóknarkonan Pernille) en að vísa til karla á sambærilegan hátt. Ómögulegt er að túlka þetta öðruvísi en svo að í huga (margra) málnotenda eigi karlkyns starfs-, hlutverks- og þjóðaheiti síður við konur en karla og (margt) fólk hafi þess vegna tilhneigingu til að nota aðra aðferð (lýsingarorð + kvenkynsnafnorð) í vísun til kvenna.

Textamagnið sem er undir í þessum athugunum er svo mikið og fjölbreytt að þessar niðurstöður sýna ótvírætt að sú (oft ómeðvitaða) tilfinning að karlkyns starfs-, hlutverks- og þjóðaheiti tengist karlmönnum meira en konum er ekki bundin við fámennan hóp, heldur er útbreidd í málsamfélaginu og endurspeglast í málnotkun margra. Hitt er svo allt annað mál hvort þetta hafi einhver áhrif út fyrir tungumálið, og hvort ástæða sé til – eða yfirleitt mögulegt – að gera eitthvað í því að leiðrétta kynjahalla tungumálsins. Um það hefur fólk deilt og heldur sjálfsagt áfram að gera, en mikilvægt er að sú umræða sé byggð á staðreyndum en ekki misskilningi, eins og sú fullyrðing að kyn orða sé kyni fólksins sem þau vísa til alls óviðkomandi.

Hefð eða nauðung?

Nú hafa nokkrir þingmenn Viðreisnar lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um mannanöfn, þar sem m.a. er gert ráð fyrir almennri heimild til að bera ættarnafn en samkvæmt núgildandi lögum er sú heimild takmörkuð við ákveðna skilgreinda hópa fólks. Í frétt á Vísi í dag er því spáð að fólk myndi í stórhópum leggja niður föður- og móðurnöfn og taka upp ættarnöfn í staðinn ef slíkt yrði leyft. En ég sé í raun engar líkur til þess að svo færi. Stundum er vísað til þess að föðurnöfn hafi horfið í Danmörku og Noregi á stuttum tíma, en slíkar vísanir til ólíkra samfélaga á öðrum tímum hafa takmarkað gildi. Nútímaviðhorf í jafnréttismálum eru t.d. líkleg til að valda því að konur séu ófúsari en áður að taka upp ættarnafn eiginmannsins.

Hér má enn fremur benda á að vegna þess að Íslendingar hafa haldið þeim sið að kenna sig til föður (eða móður) er það ákveðið þjóðareinkenni sem vel má hugsa sér að margir vilji halda í þess vegna, en um slíkt var ekki að ræða í Danmörku og Noregi. Í Færeyjum hefur þróunin á undanförnum árum einmitt verið í þá átt að styrkja færeysk eftirnöfn eins og kom fram í frétt sem birtist nýlega á vef Ríkisútvarpsins: „Milli 2001 og 2015 fækkaði Færeyingum með hið danska -sen í eftirnafni sínu um 1.771. Á sama tíma fjölgaði fólki sem kenndi sig til foreldra sinna og er með annað hvort -son eða -dóttir í eftirnafninu sínu um tæplega fjórtán hundruð.“ Vel má hugsa sér að þróunin á Íslandi yrði sú að styrkja föður- og móðurnafnakerfið.

Í áðurnefndri frétt á Vísi er reglum um ættarnöfn líkt við umferðarlög: „Svo er þetta eins og umferðarlög. Við höfum hérna hægri umferð en það væri ekki gott að hafa bæði vinstri og hægri umferð.“ En þetta er sérlega óheppileg líking. Við höfum nefnilega bæði vinstri og hægri umferð nú þegar. Flest okkar eru skikkuð til að keyra hægra megin en svo er hópur fólks sem keyrir vinstra megin og má það – en mætti líka keyra hægra megin ef það vildi. Það skapar auðvitað margs konar vanda og óánægju sem á endanum vinnur gegn hefðinni. Ég tek heils hugar undir það að kenning til föður eða móður er menningarhefð sem æskilegt er að viðhalda. En hefðir eru lítils virði nema samfélagið þar sem þær gilda hafi áhuga á að halda í þær.

Hér vegur þó þyngst að núgildandi lög standast ekki með nokkru móti jafnræðiskröfur samtímans – og eru raunar að því er best verður séð brot á 65. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir m.a. að allir „skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannrétt­inda án tillits til […] ætternis […]“. Það stenst því ekki að sumum sé leyft það sem öðrum leyfist ekki. Á þetta hefur oft verið bent, t.d. í athugasemdum nefndar sem samdi frumvarp að gildandi mannanafnalögum, og í athugasemdum Íslenskrar málnefndar við það frumvarp. Það er vitanlega ekki verið að „kasta [hefðinni] á glæ“ þótt reglur um upptöku ættarnafna verði rýmkaðar. Hefð sem þarf að viðhalda með lögum er ekki hefð – heldur nauðung.

Ensk áhrif eða ekki?

Það er enginn vafi á því að ensk áhrif á íslenska setningagerð hafa farið vaxandi á síðustu árum. Þessi áhrif eru oft mjög lúmsk vegna þess að orðin eru íslensk og notuð í hefðbundinni merkingu (þótt vissulega geti hún líka hnikast til) en eitthvað í því hvernig orðin standa í setningu er frábrugðið því sem venja er í íslensku. Munurinn er þó oft svo lítill að við tökum ekki eftir honum í máli annarra, enda erum við sjálf oft orðin gegnsósa í ensku. En í frétt á vefmiðli í morgun staldraði ég þó við setninguna „Trump hótar enn fleiri tollgjöldum skyldi Pútín ekki halda áfram í vopnahlésviðræðum“ vegna þess að mér fannst notkun sagnmyndarinnar skyldi þarna einhvern veginn bera keim af enskri setningagerð – should Putin not.

Formlega séð virðist ekkert athugavert við þetta. Þarna er skilyrðissetning, „skyldi Pútín ekki halda áfram í vopnahlésviðræðum“ sem er ekki tengd er við aðalsetninguna „Trump hótar enn fleiri tollgjöldum“ með hinni dæmigerðu skilyrðistengingu ef – einnig væri hægt að segja Trump hótar enn fleiri tollgjöldum ef Pútín heldur ekki áfram í vopnahlésviðræðum. En það er alkunna að skilyrðissetningar hafa þá sérstöðu meðal aukasetninga að hægt er að sleppa tengingunni en byrja aukasetninguna þess í stað á sögn í viðtengingarhætti – hægt er að segja bæði ég verð glaður ef hún getur hjálpað mér og ég verð glaður geti hún hjálpað mér. Er þá ekki skilyrðissetningin skyldi Pútín ekki halda áfram í vopnahlésviðræðum í góðu lagi?

Ég hef samt á tilfinningunni að ekki sé venja í íslensku að nota sögnina skulu alveg svona, en vissulega er þetta ekki einsdæmi og ég finn slæðing af svipuðum setningum frá síðustu árum, svo sem „hindra að Bush forseti grípi til þess að ákveða að ráðast á Íran, skyldi hann vilja gera það“ í Fréttablaðinu 2007 „Ég skal taka það á mig að láta Carlsen vita að Íslendingar taka óþekkum skákmönnum opnum örmum skyldi hann vilja ísl. ríkisfang“ á Twitter 2015, „Það verður áhugavert að fylgjast með samskiptum Suarez og varnarmanna Juventus skyldu liðin mætast í úrslitum“ á fótbolti.net 2015, „Endurnýjun á miðju United gæti gert Skotanum kleift að yfirgefa herbúðir félagsins, skyldi hann vilja það“ í mbl.is 2023, og nokkrar fleiri.

En svo er þetta kannski ekkert nýtt. Í leikritinu „Gizurr Þorvaldsson“ eftir séra Eggert Ó. Briem, sem birtist í Draupni 1895, segir t.d.: „En skyldi hann vilja heyra tillögur mínar um það mál í dag, mun eg mæla svo, sem mér þá þykir sannlegast.“ Þarna er skyldi notað í upphafi skilyrðissetningar eins og í dæmunum að framan. Vegna þess að við vitum af vaxandi enskum áhrifum má alltaf búast við því að við þykjumst sjá slík áhrif víðar en þau eru í raun – höldum að eitthvað sem svipar til ensku hljóti að vera komið þaðan þótt það hafi lengi tíðkast í málinu. Það má ekki gleyma því að íslenska og enska eru skyld mál. Mér finnst samt enn að setningin sem vitnað var til í upphafi sé eitthvað enskulegri en aðrar – en átta mig ekki alveg á muninum.

En ef það kæmi nú í ljós við nánari athugun að þarna væri um ensk áhrif að ræða – hvaða áhrif hefði það á mat okkar á slíkum setningum og viðhorf til þeirra? Það er ljóst að um smávægilega breytingu væri að ræða sem tekur bara til einnar sagnar, skulu, og hefur ekki áhrif á kerfið í heild. Ótal sambærilegar breytingar hafa orðið á málinu á undanförnum áratugum og öldum án þess að við sjáum ástæðu til að amast við þeim – og oftast reyndar án þess að við gerum okkur grein fyrir þeim. Þótt við viljum vitanlega halda í íslenska setningagerð sé ég því enga ástæðu til að ergja sig sérstaklega á þessari breytingu – ef þetta er breyting. Hins vegar er sjálfsagt að vera á varðbergi gagnvart enskum áhrifum sem gera sig líkleg til að hafa áhrif á málkerfið.