Stórort hrós

Á vefnum fótbolti.net var í gær fyrirsögnin „Stórorð í garð Sveindísar – „Er að komast í heimsklassa““. Eins og seinni hluti fyrirsagnarinnar bendir til vísar fyrri hlutinn til þess að Sveindísi hafi verið hrósað, og í innleggi hér áðan var spurt: „Er þetta ekki óvenjulegt um hrósyrði?“ Ég tók undir það og benti á að í Íslenskri orðabók er lýsingarorðið stórorður skýrt 'sem notar stór, þung orð, gífuryrtur' eða 'skömmóttur' – í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'sem notar stór og gróf orð'. Ég fékk samt bakþanka og fór að velta því fyrir mér hvort stórorður væri alltaf neikvætt orð og hvort stór orð væru alltaf neikvæð, eða hvort hægt sé að vera stórorður á jákvæðan hátt, eins og orðið er notað í umræddri fyrirsögn.

Í fornu máli virðist stórorður merkja 'yfirlætislegur' eða eitthvað slíkt – ‚er hovmodig i sine Udtalelser‘ segir í Ordbog over det gamle norske Sprog eftir Johan Fritzner. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið skýrt 'som bruger store ord; stortalende' en stortalende merkir 'som praler, overdriver eller virker selvhævdende', þ.e. 'sem gortar, ýkir eða virkar sjálfbirgingslegur'. Samkvæmt þessum skýringum virðist orðið helst vísa til þess að 'taka stórt upp í sig' eða 'taka djúpt í árinni' og sú er t.d. merkingin í „Hann vill þó ekki vera stórorður um framtíðina, enn sem komið er“ á vef Ríkisútvarpsins 2021. Stóru orðin þurfa ekki endilega að vera gróf eins og skýringar nútímamálsorðabókanna benda til, þótt svo sé vissulega oft.

Í Skírni 1936 segir Einar Ólafur Sveinsson: „skrásetjarinn segir þá jarteikn mjög gætilega, en gefur í skyn, að sumir séu stórorðari í lofi um hana, og að svo mundi vera í útlendum jarteiknabókum.“ Hér er stórorður augljóslega notað á jákvæðan hátt í merkingunni 'taka djúpt í árinni', og mér finnst þetta ekkert óeðlilegt. Hins vegar sé ég ekki betur en sambandið stórorður í garð sé ævinlega notað neikvætt – í því felist alltaf einhvers konar ádeila eða árás en aldrei hrós. Niðurstaðan er því sú að fyrirsögn eins og Stórorð í hrósi um Sveindísi hefði samrýmst íslenskri málhefð – og jafnvel Stórorð um Sveindísi í jákvæðri merkingu ef „Er að komast í heimsklassa“ fylgdi á eftir – en fyrirsögnin eins og hún er á fótbolti.net geri það ekki.

Imbi(nn)

Þegar ég var að alast upp í norðlenskri sveit á sjöunda áratugnum hafði maður lítið veður af slangri og hvers kyns unglingamáli – „götumáli“ eða „skrílmáli“ eins og það var stundum kallað í þá daga. Helst var að svoleiðis bærist með frændsystkinum að sunnan sem komu í heimsókn eða sumardvöl. Eitt slíkt tilvik var karlkynsorðið imbi sem ég man eftir að hafa lært af frænda mínum, líklega sumarið 1965, og þótti sniðugt og nýttist oft vel í orðahnippingum. Þetta orð var þá ekki gamalt í málinu eins og marka má af fyrirspurn sem „Póstinum“ í Vikunni barst snemma árs 1963. „Ég hef undanfarið hnotið um orðið imbi, og virðist orðið vera mörgum tamt. Ég finn þetta orð ekki í Blöndal. Getur þú nokkuð frætt mig um uppruna þess?“

„Pósturinn“ var ekki í vandræðum með það og sagði: „Orðið, skilst mér, hefur nýlega rutt sér til rúms, og fer það vel í munni, þótt langt sé frá því, að það eigi sér íslenzkan eða norrænan uppruna. Orðið er komið úr rómönskum málum, t. d. franska: imbécile, enska: imbecile, og þar fram eftir götunum. Þetta þýðir svo fábjáni eða heimskingi og virðist hafa haldið sömu merkingu í sinni nýju, íslenzku mynd.“ Í Nýjum vikutíðindum skömmu síðar sagði: „Tvö orð virðast vera orðin algeng í talmáli Reykvíkinga, og þau eru ,,alki“ og „imbi“. Imbi þýðir fáráðlingur, en alki áfengissjúklingur.“ Í Þjóðviljanum 1967 sagði: „Mér er sagt, að orðið imbi, sem algengt er að verða í Reykjavík, sé dregið af imbecil, sem líklega er latína.“

Um miðjan sjöunda áratuginn var orðið útbreitt og hafði getið af sér afkvæmi eins og kemur fram í Þjóðviljanum 1966: „Nýju orði skýtur upp í viðræðum manna og virðist eiga enskan uppruna eins og fleiri á hinum síðustu dögum. „Heldurðu að ég sé imbi?“ spyrja krakkar ef telja á þeim trú um eitthvað ótrúlegt. Og nú sé ég prentað í Alþýðublaðinu á sunnudaginn orðið „imbakassi“, sem virðist orðið allalgengt nafn á sjónvarpstæki. Mér skilst að „imbi“ sé notað í merkingunni auli eða flón og er líklega komið gegnum enska orðið „imbecile“ úr hinu latneska „imbecillus“, sem mun svipaðrar merkingar. Orðið imbakassi segir þá nokkra sögu um álit manna á hermannasjónvarpinu, en það er eina sjónvarpið sem Íslendingum hefur verið tiltækt.“

Elsta dæmi um orðið imbakassi á tímarit.is er þó aðeins eldra, í Fálkanum í ársbyrjun 1965: „Þá er sjónvarpið, eða „imbakassinn“, komið inn á annað hvert heimili Reykjavíkur, og í þetta þokkatæki glápir fólkið daginn út og daginn inn.“ Eins og bent er á í Slangurorðabókinni er orðið hliðstætt idiot box sem hafði verið notað í sömu merkingu í ensku síðan um miðjan sjötta áratuginn. Það er athyglisvert að enska orðið skuli ekki hafa verið tekið beint inn sem *idjótabox (eða *idjótakassi) því að bæði idjót og box voru algeng tökuorð í málinu á þessum tíma. Þótt einhver dæmi finnist vissulega um imbecile box í þessari merkingu í ensku virðist það vera mjög sjaldgæft og allar líkur eru þess vegna á því að imbakassi sé íslensk nýmyndun.

En fljótlega var farið að stytta imbakassi í imbi – elsta dæmi sem ég finn um þá merkingu er í Vísi 1976. Orðið var þá oftast haft með ákveðnum greini eins og sést í samtali í smásögu í Vikunni 1983: „Sést ekkert illa í imbanum hjá þér?“ – „Imbanum?“ – „Já, sko sjónvarpinu. Maður kallar það stundum imbakassa, eða barasta imba, af því maður verður algjör imbi af því að horfa of mikið á það. Imbi er sko bjáni.“ Þetta er í raun mjög áhugaverð orðmyndun – enska orðið imbecile er stytt í imbi og af því er mynduð samsetningin imbakassi sem síðan er aftur stytt í imbi – sem varð fljótlega aðalmerking orðsins. Í Risamálheildinni virðast vera a.m.k. tíu sinnum fleiri dæmi um orðið í merkingunni ‚sjónvarp‘ en í merkingunni ‚fábjáni‘.

Orðið imbi fer ágætlega í málinu, bæði hljóðfræðilega og beygingarlega, og í þættinum „Tungutak“ í Morgunblaðinu 2011 segir að það hafi „greinlega öðlast þegnrétt“ í íslensku, enda er það gefið athugasemdalaust í Íslenskri nútímamálsorðabók – þó aðeins í merkingunni 'sá eða sú sem er heimskur, heimskingi' – en imbakassi er þar merkt „óformlegt“. Í Íslenskri orðabók en imbi merkt „óforml.“ en þar er imbinn einnig flettiorð merkt „slangur“ og vísað á imbakassi. Bæði imbi(nn) og imbakassi áttu sinn blómatíma á seinustu tveim áratugum tuttugustu aldar en eru nú orðin frekar sjaldgæf og jafnvel hallærisleg – í Morgunblaðinu 2014 segir: „Ég fletti upp orðinu sjónvarp í samheitaorðabók enda imbi eða imbakassi löngu orðið klént.“

„Ágústi vantar gúmmístígvél“

Vefverslunin Boozt.com fór að auglýsa vörur sínar á Íslandi fyrir fáum árum og framan af eingöngu á ensku, e.t.v. að viðbættu einu íslensku orði eða tveimur. Ég skrifaði oft um þetta hér fyrir tveimur árum og kvartaði þrisvar yfir því til Neytendastofu sem á að hafa eftirlit með því að Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sé framfylgt, m.a. ákvæðinu „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku“. Ég skrifaði einnig ritstjórum fjölmiðla sem birtu þessar auglýsingar og benti á ábyrgð fjölmiðla í þessu efni. Ég veit ekki hvort þessar kvartanir og þessi skrif höfðu einhver áhrif, en nokkuð er það að skömmu eftir þetta fór verslunin að auglýsa á íslensku að mestu leyti og hefur gert það síðan, að ég held.

Nú ber hins vegar svo við að Boozt birtir auglýsingu sem vekur mun meiri neikvæð viðbrögð en auglýsingar á ensku gerðu nokkurn tíma, þrátt fyrir að vera á íslensku, vegna þess eins að í henni kemur fyrir setningin „Ágústi vantar gúmmístígvél“. Þarna er komin hin hryllilega „þágufallssýki“ sem barið hefur verið inn í þjóðina áratugum saman að séu einhver verstu málspjöll sem hægt er að hugsa sér. Fólk heitir því að versla aldrei við Boozt vegna þessa og segir „vekur furðu að þetta sé ekki leiðrétt“, „ósköp aumkunarvert að heyra“, „óþolandi þágufallssýki“, „skelfilegt að hlusta á þetta“, „mér verður illt“, „guð minn góður“, „fáráðar eru víst illa að sér“, „tek andköf í hvert sinn“, „óskiljanlegt, af hverju er þetta leyft?“ – o.s.frv.

Þetta er aðeins lítið brot af athugasemdum við áðurnefnda setningu úr hópunum Skemmtileg íslensk orð og Málvöndunarþátturinn og við innlegg um setninguna hafa verið skrifaðar hátt í tvö hundruð athugasemdir sem langflestar taka undir hneykslunina í upphafsinnleggjunum. Ég fann hins vegar ekki nema eitt dæmi um það í þessum hópum að vakin hefði verið athygli á auglýsingum Boozt á ensku á sínum tíma, og sárafá ummæli voru um það innlegg – fólkið sem nú hneykslast sem mest þagði þunnu hljóði. Það mætti ætla að fólk hugsaði svipað og höfundur lesendabréfs í Þjóðviljanum 1950: „En þó leiðinlegt sé, að daglegt mál sé mengað útlendum orðum, með meira og minna röngum framburði, er það illskárra en þágufallssýki og flámæli.“

Mér finnst þetta vera einkar skýrt en jafnframt dapurlegt dæmi um þær villigötur sem umhyggja fyrir íslensku máli leiðist oft út á. Það er engin ástæða til að ætla annað en flest þeirra sem leggja þarna orð í belg beri hag tungunnar fyrir brjósti, en hneykslun og fordæming er ekki til þess fallin að efla íslenskuna eða vekja jákvæðar tilfinningar í garð hennar. Við það bætist að þarna er um að ræða einstaklega lítilfjörlegt atriði sem skiptir í raun engu máli – hefur engin áhrif á málkerfið og skiptir engu fyrir framtíð íslenskunnar eða samhengið í íslensku máli. Bæði frumlags- og andlagsfall mikils fjölda sagna hefur breyst á undanförnum öldum án þess að það trufli okkur nokkuð og oftast án þess að við vitum af því eða tökum eftir því.

En af einhverjum ástæðum hefur hin svokallaða „þágufallssýki“ orðið að tákni hins illa í huga þjóðarinnar – e.t.v. að hluta til vegna sjúkdómsvæðingarinnar sem felst í heitinu sem festist við þessa smávægilegu breytingu sem breiðist smám saman út þrátt fyrir áratuga baráttu gegn henni og er nú eðlilegt mál talsverðs hluta þjóðarinnar. „Þágufallssýki“ hefur iðulega verið notuð til að gera lítið úr fólki og niðurlægja það á ýmsan hátt – ef þið efist um það skuluð þið leita að „þágufallssýki“ á tímarit.is. Það er ljótt og vont – bæði fyrir fólkið sem á í hlut en ekki síður fyrir íslenskuna. Ég treysti því að Ágústi verið útveguð gúmmístígvél á næstunni, en aðalatriðið er að þjóðinni hætti að skorta umburðarlyndi gagnvart tilbrigðum í máli.

Að elska fast

Um daginn var spurt um það í Málvöndunarþættinum hvort rétt væri að tala um að elska fast. Flestum fannst þetta fráleitt en einn þátttakenda í umræðunni sagðist hafa séð það nýlega í bók. Í Risamálheildinni má finna um fimmtíu dæmi um þetta samband, öll af samfélagsmiðlum nema eitt: „frænka var glæsileg og hjartahlý manneskja sem elskaði fast og innilega“ í Morgunblaðinu 2021. Elstu dæmin eru frá 2008: „Eins gott að þau elskist ekki fast“ og „Ég elska þig, fast!“ á Bland.is og „ég elska þig svo fast“ á Hugi.is. Flest dæmin um þetta eru þó á twitter frá síðustu fimm árum, þar á meðal þessi tvö frá 2021: „Er eg su eina sem finnst “elska svo fast” bara ekki meika sens?“ og „Skrítnasta málfarstrendið þessa dagana finnst mér „að elska svo fast“.“

Þessar athugsemdir benda til þess að sambandið elska fast sé orðið nokkuð útbreitt en sýna jafnframt að það fellur ekki öllum í geð. Það er eðlilegt þar sem um nýjung er að ræða, en elska fast er samt ekki endilega merkingarlega fráleitt. Atviksorðið fast getur merkt 'af ákefð' eða 'alveg eindregið' eins og í drekka fast, sækja fast, horfa fast á, standa fast á, leggja fast að einhverjum o.fl. Merking orðsins í elska fast er svipuð og í þessum samböndum og þess vegna er ekki hægt að halda því fram að sambandið sé „órökrétt“ á nokkurn hátt. Ekki er gott að segja hvers vegna farið er að nota fast með sögninni elska en hugsanlegt er að þar spili inn í áhrif frá öðrum samböndum á sama merkingarsviði, svo sem kyssa fast og knúsa fast.

Það hvaða atviksorð er notað með tiltekinni sögn fer ekki bara eftir merkingu orðanna heldur einnig og ekki síður eftir hefð. Þótt merkingarlega sé í sjálfu sér ekkert síðra að nota atviksorðið fast en atviksorðið heitt með sögninni elska er hefð fyrir því síðarnefnda en ekki því fyrrnefnda. Sambandið elska fast er nýlegt og enn fremur sjaldgæft og þess vegna mæli ég með því að við höldum okkur við hefðina. En hefðir af þessu tagi geta breyst, og það væru engin málspjöll þótt elska fast breiddist út og yrði viðtekin málnotkun. Til gamans má reyndar nefna að þótt stutt sé síðan elska fast fór að heyrast kemur það fyrir í kvæði frá miðri sautjándu öld eftir séra Stefán Ólafsson í Vallanesi  – „Ingunni gerði hann elska fast / áður en hún lét fallerast.“

Þú komst við kaunin í mér

Nýlega sá ég í Málvöndunarþættinum að gerð var athugasemd við setninguna „Það kom við kaunin í mér“ sem innleggshöfundur hafði heyrt í útvarpi og vildi frekar hafa kaunin á mér. Um forsetninguna í í þessu sambandi eru þó gömul dæmi og henni bregður fyrir öðru hverju. Elsta dæmið er í Skírni 1886: „en þar óvægilega komið við kaunin í landstjórnarfarinu.“ Í Nýjum kvöldvökum 1924 segir: „jeg hafði gaman af að koma við kaunin í trúarvinglssamvisku hans.“ Í Lífi og list 1950 segir: „sú list, sem kemur svo oft við kaunin í friðsömum og raunhæfum borgurum.“ Í Alþýðublaðinu 1957 segir: „Þetta virðist hafa komið heldur illa við kaunin í aðalritstjóranum.“ Í Vísi 2010 segir: „Fjármálakreppan kom við kaunin í rekstri Hamleys.“

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er hvorki að finna koma við kaunin á kaunin í en þar er hins vegar gefið sambandið koma við kaunin hjá e-m í sömu merkingu. Þessu sambandi bregður fyrir öðru hverju – elsta dæmi um það er í Vestra 1905: „Það virðist hafa komið við kaunin hjá ritstj.“ Í Morgunblaðinu 1930 segir: „Mjer er það sjerstök ánægja að dómur norðlensku kvennanna um „óvandaða lesmálið“ hefir komið við kaunin hjá ritstjóra Tímans.“ Í Vikunni 1954 segir: „En það kom við kaunin hjá republikunum.“ Í Skírni 1960 segir: „Víða í sögunni er og komið við kaunin hjá auðstéttunum.“ Í Vísi 2010 segir: „Matvælafyrirtæki segja óhjákvæmilegt að þessar miklu verðhækkanir komi við kaunin hjá neytendum.“

Í umræðum í Málvöndunarþættinum kom fram að flestum fannst óeðlilegt að tala um kaunin í mér og vildu tala um kaunin á mér – orðið kaun merkir 'sár' og sár eru utan á líkamanum, ekki inni í honum. Þetta er út af fyrir sig rétt svo langt sem það nær, en hér skiptir máli að sambandið koma við kaunin er aldrei notað um líkamleg sár heldur ævinlega í yfirfærðri merkingu – koma við kaunin á er skýrt 'nefna það sem er viðkvæmast' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'koma við aumu blettina á e-m' í Íslenskri orðabók. Þess vegna er ekki endilega ljóst að það þurfi að nota sömu forsetningu og er notuð þegar talað er um líkamleg sár – þeir aumu blettir sem um er að ræða eru ekki líkamlegs eðlis heldur tilfinningalegs, og því ekki útvortis.

Vitanlega getur fólk eftir sem áður kosið að halda upphaflegu líkingunni og tala um kaunin á – það er elst þessara sambanda: „Konáll hefir komið við kaunin á þeim sambandsríkjamönnum“ segir í Skírni 1844. Næsta dæmi kemur reyndar ekki fyrr en hálfri öld síðar og sambandið var sárasjaldgæft fram um 1930 en hefur verið algengt síðan, einkum eftir 1970. Það er ljóst að rík málvenja er fyrir því að tala um kaunin á og mér dettur ekki annað í hug en mæla með að fólk haldi sig við hana. En þótt eitt sé rétt þarf annað ekki að vera rangt – það er skiljanlegt að í eða hjá sé notað í þessu sambandi vegna þess að um yfirfærða merkingu er að ræða, og engin ástæða til þess að amast við því að það sé gert enda gömul fordæmi fyrir því úr vönduðu máli.

Mjór munur

Í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í dag segir: „Trump sigurstranglegri en munurinn þó afar mjór“. Mér kom þetta orðalag ókunnuglega fyrir sjónir og datt fyrst í hug að það væri bein yfirfærsla úr ensku þar sem talað er um narrow margin / edge eða eitthvað slíkt í þessari merkingu. Örfá dæmi má finna um þetta orðalag – níu á tímarit.is og þrjú í Risamálheildinni, m.a. „við Ólafur Ragnar skiptum um sæti, en á afskaplega mjóum mun“ í Morgunblaðinu 1983, „Annars er mjór munur á honum og Haughey og Fitzgerald“ í DV 1987, „Í sumum fylkjum er svo mjór munur á frambjóðendunum að ekki er hægt að skera úr um hver muni fara með sigur af hólmi“ í DV 2008 og „Aldrei eins mjór munur“ á vef Ríkisútvarpsins 2020.

En þegar betur er að gáð er ástæðulaust að rekja orðalag fyrirsagnarinnar til ensku. Í umræddri frétt er nefnilega notað mjög svipað orðalag, „Afar mjótt er á munum“, sem er gamalt og mjög algengt í málinu – oft með greini, mununum. Annað skylt og þekkt orðalag er þar munaði mjóu sem er einnig gamalt. Þriðja orðalagið þessu skylt, sem ég þekkti ekki áður, er mjórra muna vant sem tíðkaðist nokkuð á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, t.d. „Milli þessara tveggja ríkja hefir opt verið grunt á vináttunni, og einatt mjórra muna vant að friður héldist“ í Skírni 1862. Þetta er nú líklega horfið – yngsta dæmi sem ég finn er í Vestfirska fréttablaðinu 1994: „Enginn varð fyrir alvarlegu slysi, þó að oft væri mjórra muna vant.“

Þarna eru sem sé þrjú mismunandi orðasambönd með langa hefð í málinu þar sem lýsingarorðið mjór er notað með nafnorðinu munur eða sögninni munamjótt á mun(un)um, muna mjóu og mjórra muna vant. Sambandið sem notað er í áðurnefndri fyrirsögn, mjór munur, fellur eðlilega í þennan hóp. Vissulega er hugsanlegt að orðalag enskrar fréttar hafi legið að baki áðurnefndri fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins en það skiptir ekki máli – orðalag fyrirsagnarinnar er fullkomlega eðlileg útvíkkun á orðalagi sem á sér langa hefð í málinu. Þetta er gott dæmi um að við þurfum að varast að afgreiða orðalag sem við þekkjum ekki sem ensk áhrif jafnvel þótt það virðist eiga sér hliðstæður í ensku. Stundum er uppruninn nefnilega alíslenskur.

Andvaraleysi er varasamara en enskættað orðalag

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær sagði: „Næfurþunnur meirihluti virðist vera fyrir tillögu um að aðild að Evrópusambandinu verði fest í stjórnarskrá landsins.“ Ég mundi ekki eftir að hafa séð þetta orðalag áður en fann fáein dæmi um það á netinu, það elsta í Morgunblaðinu 2008: „eftir tímabil brothætts og næfurþunns meirihluta vinstrimanna undanfarin ár.“ Í fyrirsögn á Vísi 2018 segir: „Þunnur meirihluti hjá Netanjahú“ og í fréttinni segir „er meirihluti ríkisstjórnarinnar á þingi orðinn ansi þunnur“. Í Viðskiptablaðinu 2019 segir: „skv. BBC er um næfu þunnan [svo] meirihluta að ræða.“ Nokkur dæmi eru í Kjarnanum 2021, m.a. „Það gæti dugað til þess að flokkarnir nái næfurþunnum meirihluta eftir kosningar.“

Varla leikur vafi á að þetta orðalag er ættað úr ensku – þar er talað um thin majority og í mörgum erlendum fréttum af atkvæðagreiðslunni sem fjallað var um í fréttinni sem vísað var til í upphafi er einmitt notað orðalagið razor-thin majority / margin. Vitanlega er ekkert að því að þýða razor-thin sem næfurþunnur – það er einmitt mjög góð þýðing, margfalt betra en orðrétta þýðingin *rakhnífsþunnur. Og vitanlega er (næfur)þunnur meirihluti íslenska – orðin eru íslensk og sambandið brýtur engar reglur málsins. Það er bara ekki venja að orða þetta svona á íslensku, heldur tala um nauman meirihluta, og mjög nauman ef ástæða þykir til – ég hef líka séð orðalagið örnauman meirihluta. Í fyrirsögn fréttarinnar er reyndar talað um nauman sigur.

En þótt (næfur)þunnur meirihluti eigi sér fyrirmynd í ensku, og hefð sé fyrir að nota annað orðalag í þessari merkingu í íslensku, er það ekki næg ástæða til þess að hafna þessu orðalagi eða fordæma það. Mikill fjöldi íslenskra orðasambanda sem nú þykja góð og gild á sér erlendar fyrirmyndir án þess að við áttum okkur á því. Endurnýjun og nýsköpun er málinu nauðsynleg og ekkert að því að koma með ný orðasambönd og nýjar líkingar, jafnvel þótt kveikjan sé erlend. Það skiptir hins vegar máli að einhver hugsun sé að baki – að erlent orðalag sé ekki yfirfært hugsunarlaust. Stærsta ógnin sem steðjar að íslenskunni um þessar mundir er nefnilega ekki ensk áhrif út af fyrir sig, heldur andvaraleysi gagnvart áhrifum og þrýstingi enskunnar.

Súrdeigsdeig

Ég fékk senda mynd af auglýsingu um súrdeigsdeig. Mér fannst þetta í fyrstu mjög sérkennilegt orð – þarna kemur deig tvisvar í röð þótt súrdeig virðist alveg ná merkingunni, án tvítekningar. En við nánari athugun fann ég fleiri dæmi um orðið, m.a. eitt á tímarit.is: „Margir segja að súrdeigsdeig fari mun betur í meltinguna en venjulegt gerdeig“ segir í Fréttablaðinu 2020. Á vefnum meniga.is segir: „Svo á ég alltaf í frystinum súrdeigsdeig frá Garra.“ Auk þess eru nokkur dæmi um súrdeigspizzadeig, ýmist í einu eða tveimur orðum – það hljómar ekki eins undarlega vegna þess að þar kemur orðið eða orðhlutinn deig ekki tvisvar í röð. Orðið hljómar því frekar eins og bílaleigubíll, borðstofuborð, pönnukökupanna og aðrar þekktar samsetningar.

Forsendurnar fyrir því að orð eins og súrdeigsdeig getur komið upp eru tvær – báðar vel þekktar og eiga við um fjölda orða. Annars vegar hafa skilin milli orðhlutanna súr og deig í súrdeig dofnað og hlutarnir renna saman í eina merkingarheild í huga okkar. Orðið fer þá að vísa til ákveðinnar tegundar af deigi frekar en til deigsins sjálfs, í merkingunni 'blandað, hrært eða hnoðað efni í brauð og kökur áður en bakað er' eins og skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók hljóðar, og því merkir súrdeigsdeig í raun 'hrært eða hnoðað efni af tegundinni súrdeig' í dæminu úr Fréttablaðinu. Hins vegar hefur orðið deig svo bætt við sig merkingunni 'afmarkað efnismagn (oft kúla eða klumpur) úr deigi' eins og sést á því að farið er að nota það í fleirtölu.

Fleirtalan er þó ekki ný – elsta dæmi sem ég finn um hana er í frétt í Alþýðublaðinu 1948. Það er reyndar sérlega gott dæmi vegna þess að þar koma mismunandi merkingar orðsins deig vel fram. Í fréttinni er talað um hrærivélar „sem hver getur búið til um 400 kg af deigi í einu“. Síðan koma lyftivélar sem „steypa […] deiginu í vélar á næstu hæð fyrir neðan, er móta brauðin og flytja […] deigin að bökunarofnunum“. Í fyrri dæmunum tveimur er deig safnheiti og því í eintölu, en í seinasta dæminu er búið að móta deigið í mátulega klumpa og þá er fleirtalan deigin notuð um óbökuðu brauðin. Í dæminu af meniga.is hér að framan hefur súrdeigsdeig sambærilega merkingu og merkir því í raun 'kúla eða klumpur úr súrdeigi'.

Merkingarlega séð er því í raun ekkert við orðið súrdeigsdeig að athuga. Orðhlutinn deig hefur þar tvær mismunandi merkingar og því er ekki um merkingarlega tvítekningu að ræða – ekki frekar en í t.d. tréherðatré þar sem aðeins fyrra tré-ið vísar til efnis en það seinna er merkingarlega runnið saman við herða- í orðinu herðatré sem vísar til gerðar og hlutverks en ekki (lengur) til efnis. Frá orðfræðilegu sjónarmiði er hins vegar óneitanlega dálítið klúðurslegt að sami orðhluti sé tvítekinn í einu og sama orðinu, einkum tvisvar í röð. Einhverjar hliðstæður eru þó til, svo sem aflandsland, ferskvatnsvatn og djúpsjávarsjór, og sjálfsagt myndum við venjast súrdeigsdeigi ef það kæmist í verulega notkun – það verður bara að koma í ljós.

Á að segja niðurstöður prófkjöranna eða prófkjaranna?

Eins og við er að búast þegar kosningar nálgast ber orðið prófkjör stundum á góma, þótt minna sé reyndar um prófkjör nú en venjulega vegna skamms fyrirvara á kosningum. Orðið er hálfrar annarrar aldar gamalt í málinu – elsta dæmi um það er í Víkverja 1874: „Nokkru á undan kjörþingi koma menn erlendis saman, þeir er kjósa eiga, og halda pá prófkjör.“ En orðið sést ekki aftur á tímarit.is fyrr en rúmri hálfri öld síðar og var sárasjaldgæft lengi vel. Upphaflega vísaði það til aðferðarinnar prófkjör fremur en einstakra kosninga, eins og í „Sjálfstæðismenn boða til prófkjörs í öllum kjördæmum“ í Morgunblaðinu 2009 og var þá eðlilega eingöngu notað í eintölu, en um miðja öldina var farið að nota það til að vísa til einstakra kosninga.

Samfara þessari breytingu snarfjölgaði dæmum um orðið, og breytingin kallaði á að hægt væri að nota orðið í fleirtölu. Elsta dæmi sem ég finn um fleirtöluna er í Tímanum 1946: „Miðstjórnarmaður flokksins í Suður-Þingeyjarsýslu […] færði almenn prófkjör flokksmanna í sýslunni tal við hann í vetur.“ Í Tímanum 1952 segir: „Eins og sakir standa er erfitt að spá um úrslitin í prófkjörunum hjá republikönum.“ En ekki hugnaðist öllum þetta – í bréfi í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1986 sagði að „ekki fyrir margt löngu“ hefði orðið „fallið í kviksyndi fleirtölunnar“ og Gísli Jónsson sagði í sama þætti: „Prófkjör fer illa í fleirtölu“ og bætti við: „Hugsum okkur bara eignarfallið. Á það að vera prófkjara eða prófkjöra?“

Elstu dæmi um báðar eignarfallsmyndirnar eru jafngömul, frá árinu 1970. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru báðar myndir gefnar og í athugasemd þar við orðið kjör segir: „Í merkingunni skilmálar; hagur; laun er orðið aðeins notað í fleirtölu og þar er eignarfallið alltaf kjara“ en „Í merkingunni val, kosning er orðið yfirleitt haft í eintölu. Í þessari merkingu er fleirtalan fágætari og þá er eignarfallið yfirleitt kjöra, t.d. í samsetta orðinu prófkjör.“ Þetta er þó ekki rétt – á tímarit.is er hlutfallið milli prófkjara og prófkjöra u.þ.b. 3:4, en í Risamálheildinni er það u.þ.b. 5,5:4,5. Myndin prófkjara sækir því greinilega á og í Málfarsbankanum er ekki gert upp á milli myndanna og sagt: „Ef.ft. prófkjara eða prófkjöra.“

Langflest hvorugkynsorð sem hafa ö í stofni í nefnifalli, þolfalli og þágufalli fleirtölu fá a í eignarfalli fleirtölu. Þetta eru orð eins og börn – barna, lönd – landa, göt gata o.m.fl. Sama gildir um orð sem aðeins eru til í fleirtölu (í tiltekinni merkingu) eins og kjör, lög o.fl. – eignarfall þeirra er kjara og laga. Út frá þessu mynstri mætti búast við eignarfallinu prófkjara af nefnifalli fleirtölu prófkjör. En öfugt við prófkjör hafa þessi orð a í stofni í eintölunni, ef þau hafa eintölu á annað borð: barn, land, gat. Hvorugkynsorð sem hafa ö í stofni í eintölunni, eins og prófkjör, halda því hins vegar í allri fleirtölunni – líka eignarfalli. Þetta eru orð eins og rör, uppgjör, ör sem eru röra, uppgjöra, öra í eignarfalli fleirtölu – ekki *rara, *uppgjara, *ara.

Þegar málnotendur þurfa að nota tiltölulega sjaldgæfar beygingarmyndir eins og eignarfall fleirtölu, sem óvíst er að þeir hafi lært sérstaklega, leita þeir – ósjálfrátt og ómeðvitað – að mynstri til að fara eftir, og í þessu tilviki er um tvennt að ræða. Annars vegar er hægt að miða við beygingardæmið í heild og þá verður eignarfallið prófkjöra af því að orðið hefur ö í stofni í eintölunni. Hins vegar er hægt að miða eingöngu við fleirtöluna og þá verður eignarfallið prófkjara af því að þannig er það oftast af orðum með ö í nefnifalli fleirtölu – auk þess sem líklegt er að eignarfall fleirtöluorðsins kjör styrki þessa mynd. En þetta val milli mynstra getur verið truflandi – „Mér þykir hvort tveggja álíka hallærislegt“ sagði Gísli Jónsson.

„Veðurfregnir og jarðarfarir“

Í sjónvarpsþættinum „Kiljunni“ var í síðustu viku rætt við skáldkonuna Maó Alheimsdóttur sem er upprunnin í Póllandi en býr á Íslandi. Hún er nú að gefa út skáldsögu og segir að ekki hafi annað komið til greina en skrifa á íslensku: „Ég tileinkaði mér hana og nota hana eftir mínu höfði. Ég skrifa íslensku eins og ég skynja hana. Ég veit ekki alltaf hvort það sé rétt en ég gerði þetta eins og ég finn fyrir tungumálinu.“ Þegar bókin er lesin má vissulega finna sitthvað sem ekki er í samræmi við venjulega íslenska málnotkun og málhefð. Það þýðir samt ekki að þetta sé rangt eða ástæða hefði verið til að breyta því, eins og ég komst að þegar ég skoðaði þrjú dæmi af þessu tagi – að gráta lágum stöfum, að koma augum á og að brjóta þögnina.

gráta lágum stöfum. Orðmyndin hástöfum í sambandinu gráta hástöfum – og einnig með sögnum eins og hljóða, hrópa, kalla, kveina, æpa o.fl. – er vitanlega gömul í málinu og vel þekkt, og til eru dæmi um háum stöfum í sömu merkingu. Í Dagskrá 1897 segir: „það jafnrjetti […] sem franska byltingin milda kunngjörði svo háum stöfum um síðustu aldamót.“ Í Morgunblaðinu 1930 segir: „Það er erfitt, þegar annar lastar það niður fyrir allar hellur, sem hinn lofar háum stöfum.“ Hins vegar eru engin dæmi um að *gráta lágstöfum eða *gráta lágum stöfum. En þótt ekki sé hefð fyrir þeim samböndum er gráta lágum stöfum sem kemur fyrir í bók Maó vitanlega auðskilið – og alveg rökrétt – út frá gráta hástöfum.

koma augum á. Sambandið koma auga á er einnig gamalt í málinu og mjög algengt – dæmi um það á tímarit.is skipta tugum þúsunda. Þar er eintalan auga langoftast notuð þótt færa megi rök að því að fleirtalan væri „rökréttari“ – það sem við sjáum á annað borð sjáum við oftast með báðum augum en ekki bara öðru. Því er ekkert undarlegt að Maó skuli tala um að koma augum á í bók sinni og það á sér reyndar ýmis fordæmi, það elsta „Ef mey þú kemur augum á / um aptanstund“ í kvæði eftir Björn M. Ólsen í Norðanfara 1877. Í Þjóðviljanum 1967 segir: „Ég hamaðist við að koma augum á alla þessa kröm og neyð.“ Í Austra 1999 segir: „Þau eru nefnilega alltaf í felulitunum og ekki alltaf gott að koma augum á þau.“

brjóta þögnina. Í íslensku er talað um að rjúfa þögn – það samband hefur tíðkast a.m.k. síðan á nítjándu öld en ekki verður séð að neitt órökréttara sé að tala um að brjóta þögn í sömu merkingu eins og gert er í bók Maó. Vissulega gæti það samband hljómað eins og bein yfirfærsla úr break silence í ensku – og er það kannski upphaflega, en ýmis gömul dæmi um það má samt finna, ekki öll í þýðingum úr ensku. Í Norðanfara 1875 segir: „ekki nema einstaka fugl þorði að brjóta þögnina syndandi í himinblámanum.“ Í Norðurljósinu 1888 segir: „Hann efast um, hvort hann hafi verið heppinn í því, að brjóta þögnina um verzlunina á Húsavík.“ Auk þess er algengt að tala um að brjóta þagnarmúrinn þótt rjúfa þagnarmúrinn sé algengara.

Þótt málnotkunin í þessum þremur dæmum sé ekki í samræmi við málhefð hefði verið fráleitt að „leiðrétta“ hana – hún er fullkomlega rökrétt og á sér að auki bein eða óbein fordæmi í eldri textum. Vissulega er samt ýmislegt annað í bók Maó sem víkur frá málhefð og sumu hefði ég kannski breytt ef ég hefði verið í hlutverki yfirlesara – en það hefði ekki verið rétt. Við eigum að fagna því að fólk sem ekki á íslensku að móðurmáli skuli vilja nota málið til listrænnar sköpunar, og það verður að fá að gera það á þann hátt sem það kýs – verður að fá að eignast hlut í íslenskunni. Eins og dæmin hér að framan sýna getur óhefðbundin málnotkun þess iðulega sýnt okkur íslenskuna í nýju ljósi og vakið okkur til umhugsunar um fjölbreytileik málsins.