Skammt á milli hláturs og gráturs

Í viðtali sem ég var að lesa í netmiðli var haft eftir viðmælanda: „Já, það er stutt á milli hláturs og gráturs.“ Það minnti mig á að beygingarmyndin gráturs hefur stundum verið til umræðu, bæði í þessum hópi og Málvöndunarþættinum. Oft er þá vitnað í Málfarsbankann sem segir: „Ef.et. gráts (ekki „gráturs“) sbr. oft er skammt milli hláturs og gráts.“ Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eingöngu gefin eignarfallsmyndin gráts. Þótt orðin hlátur og grátur rími saman í nefnifalli er sá munur á þeim að í hlátur er r stofnlægt, þ.e. helst í öllum föllum, en í grátur er það nefnifallsending og ætti því ekki að koma fram í öðrum föllum. En undir hlátur í Íslenskri orðabók er þó gefið dæmið „oft er skammt milli hláturs og gráturs“.

Oft hefur þó verið amast við myndinni gráturs. Í þætti sínum í Morgunblaðinu 1998 greindi Gísli Jónsson frá bréfi sem honum hafði borist um þetta mál og sagði: „Á stuttum tíma, að við ætlum, hafa mjög margir tekið upp á því að beygja karlkynsnafnorðið grátur eins og hlátur. Menn segja þá til dæmis að stutt sé á milli hláturs og ?gráturs.“ Bréfritarinn „kannaði þetta mál og fann ískyggilega mörg dæmi meðal yngra fólks.“ Á tímarit.is eru 314 dæmi um hláturs og gráts, það elsta frá 1923, en 129 dæmi um hláturs og gráturs, það elsta frá 1927. Í Risamálheildinni eru 154 dæmi um hláturs og gráts, en 110 um hláturs og gráturs. Báðar myndir orðasambandsins eru sjaldgæfar fram um 1980 en síðan þá hafa báðar verið algengar.

En jafnframt er ljóst að eignarfallsmyndin gráturs er sjaldgæf nema í þessu sambandi. Ástæðan fyrir notkun hennar er augljós, eins og Helgi Seljan nefndi í Morgunblaðinu 2002: „Rétt mun eignarfallið gráts, en virðingarvert raunar að þeir sem tala um gráturs á móti hláturs eru þó ekki alveg lausir við rétta rímhugsun, en gjarnan mættu þeir hinir sömu nýta rímhugsunina rétt.“ Karl Emil Gunnarsson var á sömu nótum í Morgunblaðinu 2002: „Þarna er komið skólabókardæmi um áhrifsbreytingu. Eignarfallið, sem allajafna er gráts, verður gráturs fyrir áhrif frá hláturs. Mikill er máttur rímsins. Breytingin er þó ekki orðin almenn enn sem komið er og verður vonandi bundin við fáa enn um sinn.“ Sú von virðist ekki hafa ræst.

Það er ljóst að máltækið hljómar miklu betur ef það er haft milli hláturs og gráturs – orðasambandið byggist í raun á þessu rími. Þótt eignarfallið af grátur sé vissulega gráts svona eitt og sér er ekkert einsdæmi að óvenjuleg („röng“) beygingarmynd sé notuð í föstum orðasamböndum. Þetta má bera saman við sambandið komin á steypirinn þar sem viðurkennd þolfallsmynd er steypinn. Í því tilviki segir Málfarsbankinn: „Betur fer á að tala um að vera kominn á steypirinn en „vera kominn á steypinn“ þar sem fyrri rithátturinn styðst við gamla hefð.“ Sama gildir um milli hláturs og gráturs þótt hefðin þar sé kannski ekki jafnlöng. Svipað dæmi er naktri í neyðin kennir naktri konu að spinna þar sem venjuleg mynd er nakinni.

Horbjóður og hroðbjóður

Orðið horbjóður er býsna algengt í óformlegu máli og er að finna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls þótt það hafi ekki komist inn í orðabækur. En það er auðskilið – á bloggi Kolbrúnar Baldursdóttur 2007 segir: „Orðið horbjóður er nú í notkun a.m.k. einhverra ungmenna og merkir viðbjóður. Hugsunin á bak við orðið held ég sé nokkuð skýr. Fyrri hlutinn „hor“ kemur líklega frá enska orðinu horrible og síðari hlutinn „bjóður“ er náttúrulega seinni hluti orðsins viðbjóður.“ En mér finnst líklegt að í huga flestra tengist fyrri hlutinn fremur nafnorðinu hor – sem mörgum býður einmitt við. Jón Gnarr sagði, um annað orð myndað á svipaðan hátt: „Það væri allt í lagi ef það væri töff, eins og til dæmis þegar hor og viðbjóður verður „horbjóður.“

Orð af þessu tagi komast lítið á prent og því er erfitt að segja um aldur þeirra út frá prentuðum heimildum. Á tímarit.is eru aðeins átta dæmi um orðið, það elsta frá 2006. Í Risamálheildinni eru aftur á móti rúmlega 1200 dæmi um orðið af samfélagsmiðlum, það elsta af Hugi.is árið 2000: „Á maður bara að hætta að halda með honum eingöngu vegna þess að hann breyttist í eyrnaætu og horbjóð?“ En tiltækir textar af samfélagsmiðlum ná ekki nema aftur til ársins 2000 þannig að orðið gæti vel verið eldra og í umræðum í hópnum Skemmtileg íslensk orð var nefnt að það væri a.m.k. 30 ára gamalt. A.m.k. er ljóst að á árunum 2003-2004 var það orðið mjög algengt í óformlegu máli. Samsetningarnar horbjóðslegur og horbjóðslega koma einnig fyrir.

Annað orð sem er hljóðfræðilega og merkingarlega líkt og væntanlega myndað á sama hátt er hroðbjóður. Í Fréttablaðinu 2014 segir: „Katrín Júlíusdóttir tók einnig upp nýyrðasmíð í gær þegar hún [...] sagði utanríkisráðherra eiga að sjá sóma sinn í að biðja þingheim afsökunar á þessum „hroðbjóði““. Haft var eftir Merði Árnasyni „að líklegast væri orðið samsett úr orðunum hroðalegt og viðbjóður“. En Katrín er tæpast höfundur þessa orðs. Elsta dæmi sem ég hef séð um það er á Hugi.is 2002: „jesús minn helmáttugur þetter sá allra mesti hroðbjóður sem ég hef séð.“ Níu dæmi eru um orðið á tímarit.is, það elsta frá 2006, en hátt í 800 dæmi í Risamálheildinni, langflest á samfélagsmiðlum þar sem það hefur verið algengt frá 2003-2004.

Orðhlutinn -bjóður í samsetningum getur merkt 'sem býður' – þannig var t.d. vörubjóður áður notað í merkingunni '(farand)sölumaður'. Á Bland.is 2010 segir: „Á íslensku mætti nota orðið horbjóður um þann sem býður upp á hor […].“ Það er hreint ekkert fráleitt að skilja orðið á þennan hátt, og hroðbjóður gæti þá verið 'sem býður upp á hroða' en hroði merkir m.a. 'e-ð lélegt, úrgangur' og 'slím í lungnapípum' – merkingarlega ekki fjarri hor sem skýrt er 'slím í nefi'. Þótt orðin horbjóður og hroðbjóður séu án efa sambræðingar að uppruna má því vel líta á þau sem myndlíkingar – það sem er horbjóður eða hroðbjóður býður upp á eitthvað óviðfelldið eða ógeðslegt, vekur hjá fólki hugrenningatengsl við hor eða hroða.

Ég þykist vita að mörgum finnist horbjóður og hroðbjóður óviðkunnanleg orð – en það á einmitt vel við, þau eiga að vekja slíkar tilfinningar eins og áður segir. Þetta eru engin „orðskrípi“, heldur er þarna um að ræða orð sem koma upp meðal almennra málnotenda og eru góð dæmi um virka orðmyndun sem sýnir tilfinningu fólks fyrir málinu og hæfni til að leika sér með það. Það er ekkert óeðlilegt við það að hver kynslóð komi sér upp nýjum orðum af þessu tagi, en ef fólk hefur áhyggjur af því að horbjóður og hroðbjóður útrými hinu gamalgróna orði viðbjóður er það ástæðulaust – í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru hátt í fjórtán sinnum fleiri dæmi um viðbjóður en um hin orðin samanlagt. Látum þau bara í friði.

Fríkeypis

Í frétt á Vísi nýlega kom fyrir orðið fríkeypis. Það er ekki að finna í neinum orðabókum en merking þess í umræddri frétt var samt augljós af samhengi – það merkir 'án endurgjalds' og er samsláttur orðanna frí(tt) og ókeypis sem bæði eru notuð í þessari merkingu. Þetta orð er ekki nýtt – elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2001: „Þar sem aðgangur á tónlistarhátíðir er ekki fríkeypis er nauðsynlegt að leita á ódýrari mið þegar ölkneyfingar eru annars vegar.“ Á tímarit.is eru 25 dæmi um orðið, þar af allmörg úr auglýsingum Vodafone, en í Risamálheildinni er rúmlega hálft sjöunda hundrað dæma, langflest af samfélagsmiðlum. Orðið er því fyrst og fremst bundið við óformlegt mál en heldur virðist hafa dregið úr notkun þess.

Árið 2009 bannaði Neytendastofa notkun Vodafone á orðinu fríkeypis „við kynningu á áskriftarleiðinni Vodafone Gull […] þar sem ávallt þurfi að greiða mánaðargjald fyrir þjónustuna. Vísaði stofnunin annars vegar til álits Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og til þess að rök Vodafone fyrir því að orðið hefði merkinguna kaupauki fengi ekki staðist.“ Ekki kemur fram hvað staðið hafi í áliti Árnastofnunar en af vísun til þess má ráða að stofnunin hafi talið að fríkeypis merkti 'án endurgjalds' eins og ég held að það sé alltaf skilið. Þau rök að orðið merki 'kaupauki' ganga gegn almennum málskilningi og bera þess merki að vera sett fram til þess eins að losa fyrirtækið úr þeirri klípu sem villandi auglýsing kom því í.

Orðið ókeypis er leitt með i-hljóðvarpi af stofninum kaup- í sögninni kaupa og nafnorðinu kaup, og neitunarforskeytinu ó- þar framan við og viðskeytinu -is aftan við. Það merkir 'sem ekki er keypt' (eða 'ekki þarf að kaupa'), sbr. fá ókeypis, en það getur einnig merkt 'sem ekki er greitt kaup fyrir', sbr. vinna ókeypis. Í báðum tilvikum má segja að neitunarmerking forskeytisins og grunnmerking stofnsins skili sér. Orðið frír merkir upphaflega 'frjáls, óheftur, laus og liðugur' samkvæmt Íslenskri orðsifjabók, en er nú oftast notað í sömu merkingu og ókeypis, í dæmum eins og frír aðgangur, frítt fæði o.s.frv. Sú merking er líklega runnin frá samböndum eins og frír við kostnað, frír við gjald, þ.e. 'laus við kostnað/gjald' o.þ.h., sbr. líka gjaldfrír.

Ég hef oft bent á að tungumálið er ekki alltaf „rökrétt“ – og þarf ekki að vera það. Hins vegar er ljóst að mörgum finnst eðlilegt að gera þá kröfu til nýrra orða að þau séu „rökrétt“, og það virðist í fljótu bragði eðlilegt að beita þeirri röksemd gegn fríkeypis sem lítur út eins og órökréttur samsláttur úr frí(tt) og ókeypis. En þótt orðið hafi örugglega orðið til við samslátt þýðir það ekki endilega að það sé rökleysa. Samkvæmt framansögðu má nefnilega vel halda því fram að fríkeypis sé rökrétt orð sem merki bókstaflega 'laus við kaup' – og sé því nokkurn veginn hliðstætt við ókeypis. Þetta þýðir ekki að ég sé að mæla sérstaklega með þessu orði – ég nota það ekki og finnst það óþarft. En ég sé samt ekki að sérstök málspjöll séu að því.

Er ókei ókei?

Örugglega hefur ekkert íslenskt orð verið hrakyrt jafnmikið og ókei. Það hefur verið kallað „orðskrípi“, „átakanlegt dæmi um orðfátækt“, „óyrði“, „„graftrarkýli“ á fögrum líkama máls okkar“, o.s.frv. Orðið er yfirleitt rakið til ol korrekt, framburðarstafsetningar á all correct, í bandarísku slangri kringum 1840, þótt gælunafn Martins van Buren Bandaríkjaforseta, Old Kinderhook, sé talið hafa ýtt undir notkunina og skammstöfunin lifði „because it filled a need for a quick way to write an approval on a document, bill, etc.“, þ.e. uppfyllti þörf fyrir fljótlega aðferð til að staðfesta skjal, samþykkja reikning o.s.frv. Orðið er ritað á ýmsa vegu í íslensku samhengi – OK, O.K., ókey, en ókei hefur alla tíð verið langsamlega algengasti rithátturinn.

Elstu dæmi sem ég finn á prenti eru frá fjórða áratug síðustu aldar. Í þýddri sögu í Alþýðublaðinu 1936 segir: „Það er ókei póli, sagði Minchin.“ Í sama blaði sama ár segir: „Nú svoleiðis! Þá er það O.K.“ Í Morgunblaðinu 1940 er sagt frá titilsögunni í smásagnasafninu Hótelrottur eftir Guðmund K. Eiríksson sem kom út árið áður. „Í þessari stuttu sögu er dregin upp mynd af Reykjavíkuræskunni [...] og vitanlega fylgir málskrúðið „vemmilegt“, „gasalegt body“, „chance“ og ,„ókey“ og fleira því líkt sögunni.“ Í Vísi 1944 segir: „Þá stakk eg upp á að hann kæmi með mér i einn hópinn, en hann afþakkaði og sagðist vera ókei.“ Orðið sást þó ekki mikið á prenti fyrr en eftir 1970 og einkum eftir síðustu aldamót.

Þótt ókei sé stutt orð og láti lítið yfir sér leynir það á sér – kemur fram í ýmsum setningarstöðum og hefur margar mismunandi merkingar. Í Íslenskri orðabók er orðið greint sem upphrópun og merkt „óforml.“. Tvær merkingar orðsins eru gefnar: „(sem svar eða kveðja) allt í lagi“ og „(við útskýringu eða frásögn annars sem samþykki eða boð um skilning, eða sem spurning um skilning annars) þannig já, það er einmitt það, ég skil“ eða „(sem spurning um skilning eða samþykki annars) skilið? allt í lagi?“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið greint sem atviksorð og tvær merkingar gefnar: „táknar samþykki, allt í lagi“, dæmi „ókei, ég skal þvo upp“ og „táknar hik eða samþykki, jæja“, dæmi „ókei, þá er þetta tilbúið“.

Oft er nefnt að merking ókei fari „eftir því í hvaða tóntegund menn gubba því út úr sér“ eins og Gísli Jónsson sagði. Að þessu leyti er það svipað jæja. Sum notkun ókei er sérstaklega háð hljómfalli og er algeng í talmáli en líklega sjaldgæf í ritmáli, enda erfitt að tákna hljómfallið í riti. Þetta eru dæmi eins og „Ég er á leið til Ástralíu.“ „Ó-kei!“, og borið fram með spurnar- eða efasemdahreim, þar sem áherslan kemur oftast á seinna atkvæði orðsins. Þarna merkir ókei ýmist 'er það (virkilega)?' eða 'ég trúi þessu ekki'. Einnig má nefna dæmi eins og „Það er eitt sem ég þarf að segja þér.“ „Ó-kei“. Þarna merkir ókei eiginlega 'haltu áfram, sannfærðu mig' og er borið fram með áherslu á seinni hluta og hækkandi tón sem ýtir undir framhald.

Það er þó ekki nóg að flokka ókei sem upphrópun eða atviksorð – orðið hefur líka oft setningarstöðu lýsingarorðs, oftast þá sem sagnfylling með sögninni vera. „Það er líka alltaf gaman að láta hafa eitthvað eftir sér, sem er ókei og smart“ segir í Speglinum 1944. „Kennedy er ókei, Ameríka er all ræght, en Ísland er líka gott land“ segir í Alþýðublaðinu 1962. „Salurinn er ókei“, segir í Þjóðviljanum 1975. Stundum stendur ókei líka hliðstætt með nafnorði þótt það sé kannski ekki mjög algengt – „Það er ókei staður en mér finnst skemmtilegra hérna“ segir í Vísi 1981. „Þetta er ókei hugmynd“ segir í Morgunblaðinu 1984. „Svona skyndibitalitteratúr er ókei spaug en grunnurinn í textanum býður uppá meira“ segir í DV 2004.

En ókei hefur líka eignast afkvæmi í íslensku – sambandið allt í kei(inu) sem er augljóslega samsláttur úr allt í lagi og ókei. Þarna bætir kei við sig greini og því er eðlilegt að greina það sem nafnorð, eins og gert er í dálknum „Slangrið“ í Morgunblaðinu 2007: „Kei: Hvorugkynsorð, samanber allt í keiinu, allt í lagi.“ Elsta dæmi sem ég finn um þetta samband er í Frjálsri verslun 1961: „Allt í keiinu góði, þú ert ekkert klikkaður.“ Í Rétti 1968 segir: Jæja, það skilur þetta enginn, þá er allt í keyinu.“ Í Morgunblaðinu 1972 segir: „Allt er í keiinu hjá okkur ennþá.“ Í Lystræningjanum 1978 segir: „Jájá – allt í keiinu.“ Stöku sinnum er kei(inu) notað sér, án allt í: „Er ekki pústið enn í lagi eða réttara í kei-inu“ segir í Tímanum 1984.

„Títt amast menn við óþjóðlegu orðfæri og sjá í því vísan dauða íslenskrar tungu – gott ef íslensk menning er ekki komin að fótum fram þegar menn segja ókei í stað allt í lagi“ sagði Árni Matthíasson í Morgunblaðinu 2010. Rökin gegn notkun ókei í íslensku eru vissulega ýmis. Það er tekið hrátt úr ensku; það er óþarft því að önnur orð eru til sem þjóna sama tilgangi; það hefur oft óskýra merkingu; það fellur illa að íslensku hljóðkerfi. Allt þetta má til sanns vegar færa. Það breytir því ekki að orðið er gífurlega mikið notað og tíðni þess á prenti, þótt töluverð sé, segir lítið um tíðnina í talmáli. Barátta gegn því hefur litlu skilað og ég held að óhætt sé að segja að meginhluti málnotenda bregði orðinu fyrir sig. Er ekki bara rétt að taka ókei í sátt?

Stærðarinnar, heljarinnar – og heljarins

Í gær var á Vísi frétt með fyrirsögninni „Stærðarinnar tré féll á Tjarnargötu.“ Þessi fyrirsögn varð tilefni fyrirspurnar hér í dag um notkun orðsins stærðarinnar í þessu samhengi – og vissulega er það verðugt athugunarefni sem ég hef aldrei leitt hugann að. Þetta er augljóslega eignarfall eintölu með greini af nafnorðinu stærð, en hefur þarna setningafræðilega stöðu og merkingarlegt hlutverk lýsingarorðs – lýsir nafnorðinu sem það stendur með. Merkinguna í stærðarinnar X má e.t.v. orða sem 'í stærri kantinum miðað við það sem X er vant að vera'. Það er hægt að tala um stærðarinnar kónguló, stærðarinnar frekjuskarð, stærðarinnar glóðarauga, stærðarinnar randaflugu o.s.frv. þótt ekkert af þessu sé sérlega stórt.

Í umræðum kom fram að áður hefði eignarfall eintölu án greinis af stærð, stærðar, verið notað í sama hlutverki. Sú notkun er gömul og vel þekkt allt frá 19. öld a.m.k. Þannig segir t.d. í Austra 1884: „Stærðar foss steyptist niður fyrir neðan þá.“ Í Austra 1900 segir: „Hitt skipið sem hér steytti var franska spítalaskipið „St. Paul,“ stærðar skip.“ Í Þjóðviljanum 1901 segir: „Etazráðið hafði meðferðis stærðar blómsveig úr lárberjalaufum.“ Oft er stærðar- tengt eftirfarandi nafnorði með bandstriki og má þá stundum líta svo á að um samsett orð sé að ræða. Í Fjallkonunni 1893 segir: „þá fauk stærðar-uppskipunarbátr á Papósi.“ Í Ísafold 1893 segir: „hjer eru engin stærðar-gistihús með afarverði á öllum lífsnauðsynjum.“

Notkun myndarinnar stærðarinnar með greini er miklu yngri. Elsta dæmi sem ég finn um hana er í frásögn eftir Kristin R. Ólafsson í Morgunblaðinu 1972: „Hjá honum höfðum við lagt undir okkur stærðarinnar verelsi.“ Annað dæmi er í Morgunblaðinu 1976: „Á gólfinu fyrir framan var stærðarinnar bjarnarskinn.“ En árið 1977 koma nokkur dæmi, þ. á m. þessi: Í Morgunblaðinu segir: „Stærðarinnar kvenmaður situr við skrifborðið.“ Í Þjóðviljanum segir: „Í hverju blaðinu á fætur öðru blasa við stærðarinnar auglýsingar á viðbjóði kapitalismans og neysluþjóöfélagsins.“ Í Dagblaðinu segir: „Þetta er hún Aníta litla frá Esbjerg í Danmörku sem er ekki nema 20 ára að aldri, nýkomin á þetta stærðarinnar Honda mótorhjól.“

Upp úr þessu eykst tíðni þessarar notkunar jafnt og þétt og hún er nú mjög algeng. Jafnframt fækkar dæmum um að greinislausa myndin stærðar sé notuð í þessu hlutverki og það virðist nú orðið frekar sjaldgæft. Þannig eru u.þ.b. fjórum sinnum fleiri dæmi um stærðarinnar en stærðar í þessu hlutverki frá árunum 2020-2022 á tímarit.is. En þótt stærðarinnar hafi þannig að miklu leyti komið í stað stærðar þýðir það ekki að myndirnar séu jafngildar. Mér finnst stærðarinnar vera óformlegra en stærðar og leggja meiri áherslu á stærðina. Þar að auki er oft hægt að líta svo á að stærðar + nafnorð sé í raun samsett orð eins og áður segir, óháð því hvort það er skrifað í einu eða tvennu lagi, en sá möguleiki er ekki fyrir hendi með stærðarinnar.

Óljóst er hvernig þessi notkun stærðar er til komin – eða hvers vegna stærðarinnar hefur komið í staðinn. Ég veit ekki til að önnur merkingarlega sambærileg orð séu notuð á þennan hátt, svo sem smæð, hæð, lengd o.s.frv. Helsta hliðstæðan sem ég man eftir er heljar sem hefur verið notað sem áhersluorð a.m.k. síðan á 19. öld – „þvílík heljar vitleysa“ segir í Bónda 1851. Myndin heljarinnar sést fyrst í Hamri 1956: „Guðbjartur bjó til heljarinnar mikið deig.“ Þar stendur orðið reyndar í stöðu atviksorðs, þ.e. sem ákvæðisorð með lýsingarorði, en fljótlega fór heljarinnar að koma í stað lýsingarorðsins og yfirtaka merkingu þess – „Þessi nýi frelsisher hefur líka sett upp einn heljarinnar pott með hinni gömlu áletrun“ segir í Frjálsri þjóð 1960.

En um svipað leyti og farið er að nota heljarinnar kemur einnig til myndin heljarins, bæði í stöðu atviksorðs og lýsingarorðs – „Eftir dálítinn tíma kom hann svo aftur og þá sem heljarins mikil svertingjakerling“ segir í Skátablaðinu 1952; „átti þar að fara fram heljarins bardagi“ segir í Alþýðublaðinu 1975. Myndin heljarins lítur út eins og karlkynsorð með greini, þótt hel sé vitanlega kvenkynsorð. En e.t.v. er ekki augljóst fyrir öllum að heljar sé eignarfall af hel, heldur er það skilið sem karlkynsorð og þess vegna bætt við það karlkyns greini. Þessi mynd var talsvert notuð upp úr 1980 en virðist nú orðin frekar sjaldgæf. Aftur á móti hefur heljarinnar verið mjög algeng mynd frá 1980 og sérstaklega frá aldamótum.

Að eiga þakkir skilið – eða skildar – eða skyldar?

Í Málvöndunarþættinum var í dag bent á að í auglýsingu í Morgunblaðinu stæði „eiga miklar þakkir skyldar“ og spurt hvort þetta væri nýtt og komið til að vera. Því er til að svara að þetta er fjarri því að vera nýtt. Á tímarit.is eru 1750 dæmi um þakkir skyldar, það elsta í Nýjum félagsritum 1841: „eiga þeir kammerráð Melsteð og Bjarni amtmaður Thórarensen enar mestu þakkir skyldar af landsmönnum.“ Í Málfarsbankanum segir: „Frekar er mælt með því að segja eiga þakkir skildar en eiga þakkir skilið enda þótt hið síðarnefnda sé einnig tækt.“ Þarna er sem sé mælt með myndinni skildar með i, en myndin skyldar með y ekki nefnd. Látum hana bíða í bili en skoðum aðeins þá tvo kosti sem Málfarsbankinn nefnir.

Um sambandið sem Málfarsbankinn mælir með, eiga þakkir skildar, er hátt á sjötta þúsund dæma á tímarit.is, það elsta í Skírni 1848: „og þessi viðleitni er það, sem Konáll á hvað mestar þakkir skildar fyrir af Írlendingum.“ Þarna er lýsingarorðið (eða lýsingarhátturinn) skilinn látið sambeygjast þakkir og standa í fleirtölu, og þolfalli sem stýrist af sögninni eiga. Orðaröðin er óvenjuleg, lýsingarorðið á eftir nafnorðinu, en það er ekki óalgengt í föstum orðasamböndum – og raunar er einnig hægt að segja eiga skildar þakkir þótt það sé miklu sjaldgæfara, aðeins 86 dæmi á tímarit.is. Þetta má t.d. bera saman við dæmi eins og eiga þrjá kílómetra ófarna þar sem lýsingarorðið ófarinn stendur í þolfalli fleirtölu og sambeygist þrjá kílómetra.

En þótt skilinn sé þarna væntanlega komið af sögninni skilja eru merkingarleg tengsl við hana ekki augljós, og sambandið eiga skilið er yfirleitt skýrt sérstaklega í orðabókum. Þess vegna er eðlilegt að málnotendur skynji skilið ekki sem lýsingarorð sem eigi að sambeygjast þakkir heldur sem fast form, eins konar sagnbót sem ekki sambeygist neinu heldur er alltaf óbreytt. Þetta má bera saman við breytingu sem varð í fornu máli þegar beygðum lýsingarhætti eins og í hann hafði vísu orta var skipt út fyrir sagnbót eins og í hann hafði ort vísu. Á sjöunda þúsund dæmi eru um þakkir skilið á tímarit.is, það elsta í Skírni 1845: „og ættu þeir fyrir það miklar þakkir skilið“. Röðin skilið þakkir er einnig til en mun sjaldgæfari – 332 dæmi á tímarit.is.

Komum þá aftur að dæminu þakkir skyldar. Venjulega er litið svo á að munurinn á þakkir skildar og þakkir skyldar sé eingöngu stafsetningarmunur – í seinna dæminu sé y ranglega ritað fyrir i. En sama villa er nánast aldrei gerð í þakkir skylið – um það eru aðeins átta dæmi á tímarit.is, móti 1750 um þakkir skyldar. Það hlýtur því að vera eitthvað í myndinni skildar sem veldur því að málnotendum finnst eðlilegt að rita skyldar. Trúlegt er að þetta sé tengt við þakkarskuld í huga margra – við vitum að u og y skiptast oft á í skyldum orðum. Lýsingarorðið skyldur getur líka merkt 'skyldugur' þannig að hugsanlegt er að málnotendur skilji sambandið svo að skylt sé að þakka einhverjum. Slík merkingartengsl eru nærtækari en við skilinn.

Afbrigðin eiga þakkir skilið, eiga þakkir skildar og eiga þakkir skyldar virðast vera álíka gömul – koma öll fram laust fyrir miðja nítjándu öld samkvæmt tímarit.is. Eins og áður segir eru aðeins tvö þau fyrrnefndu viðurkennd og það fyrstnefnda þó talið síðra, en það síðastnefnda hins vegar talið rangt ritað, þrátt fyrir að það sé algengt og eigi sér álíka langa hefð og hin. Þar að auki má vel halda því fram að það liggi beinna við merkingarlega séð að tengja sambandið eiga þakkir skildar/skyldar við skyldur en skilinn. Þótt sú tenging sé væntanlega ekki í samræmi við upprunann þýðir það ekki endilega að ástæða sé til að hafna henni. Mér finnst engin ástæða til annars en viðurkenna eiga þakkir skyldar til jafns við hin afbrigðin.

Húsgerska og lóðarmál

Ég hugsa að við þekkjum öll einhver dæmi um orð eða orðasambönd sem eru eingöngu notuð innan ákveðinnar fjölskyldu, vinahóps eða vinnustaðar. Þetta geta verið hnyttin orð úr barnamáli, oft byggð á misskilningi barna sem eru að tileinka sér málið; skemmtileg mismæli; vísvitandi afbakanir; óvænt, sérkennileg eða fyndin tilsvör; erlendar slettur o.fl., sem eru þá notuð í tíma og ótíma innan viðkomandi hóps en eru óþekkt og oft óskiljanleg utan hans. Stöku sinnum komast slík orð og orðasambönd inn í almennt mál, sérstaklega ef þau þjóna einhverju hlutverki sem almenna málið sinnir ekki sem skyldi. En oftast hverfa þau samt og skilja ekki eftir sig neinar menjar þegar hópurinn sem notar þau líður undir lok af einhverjum ástæðum.

Orðið húsgerska sem er leitt af húsagarður hefur verið notað um mál af þessu tagi – ég held að það sé komið frá Baldri Jónssyni prófessor. Það var líka kallað lóðarmál í bókarkafla sem Halldór Halldórsson prófessor skrifaði um sérstakt málfar í tengdafjölskyldu sinni og er eitt af því fáa sem til er á prenti um þetta. Það væri mjög forvitnilegt að vita meira um málnotkun af þessu tagi en henni hefur sáralítið verið sinnt af málfræðingum. Þetta er hluti tungumálsins sem þykir líklega léttvægur og ekki málfræðilega áhugaverður – en þannig var líka litið á barnamál og mismæli áður fyrr þótt nú sé vitað að hvort tveggja getur fært okkur ómetanlega vitneskju um eðli tungumálsins. En fyrir skorti á lýsingum á þessu málfari eru eflaust ýmsar ástæður.

Ein er sú að þetta er óformlegt mál og hefur þótt léttvægt, og íslenskar mállýsingar hafa byggst að miklu leyti á fremur formlegu málsniði. Önnur ástæða er sú að þetta er undantekningarlítið eingöngu talmál sem ekki kemst á prent, og því litlar heimildir um það að hafa nema vera beinlínis þátttakandi í þeim hópi þar sem þetta er notað. Þriðja ástæðan er sú að vegna þess að þetta málfar er yfirleitt bundið við litla hópa er engin almenn lýsing möguleg, heldur verður að lýsa orðanotkun innan hvers hóps sérstaklega. Af þessum ástæðum vitum við ákaflega lítið um slíkt málfar og getum ekkert sagt um almenn einkenni þess – hvað sé sameiginlegt og hvað ólíkt. Það væri sannarlega verðugt viðfangsefni málfræðinga að bæta eitthvað úr því.

Ekki fer saman hljóð og mynd

Ein algengasta klisja í máli fólks sem tekur þátt í opinberri umræðu um þessar mundir er að ekki fari saman hljóð og mynd hjá einhverjum öðrum. Áður hefði verið sagt að ekki færu saman orð og gerðir eða orð og athafnir en líkingin er augljós og auðskilin. Þetta orðasamband hefur verið notað í bókstaflegri merkingu í a.m.k. fimmtíu ár, frá því skömmu eftir að farið var að gera sjónvarpsefni á Íslandi, en yfirfærða merkingin er miklu yngri. Elsta dæmi sem ég finn um hana er á Bland.is 2006: „Einhvervegin bara fer ekki saman hljóð og mynd í þessu öllu.“ Annað dæmi er úr viðtali í fréttum Ríkisútvarpsins 2008: „Því það fer bara hvergi saman og alls ekki saman hljóð og mynd í nokkrum sköpuðum hlut í þessu sko.“

Elsta dæmi á prenti er í DV 2009: „er alls ekki að sjá að saman fari hljóð og mynd hjá annars vegar ráðherrunum og landsfeðrunum […].“ Á næstu árum má finna eitt og eitt dæmi á stangli um þessa líkingu og hún var t.d. notuð í fyrsta skipti í ræðu á Alþingi 2014: „Það var eins og verið væri að útvarpa eða sjónvarpa einhverju efni og hljóð og mynd færu ekki saman.“ En á árunum 2016-2017 verður sprenging í notkun sambandsins og það er notað margoft í flestum fjölmiðlum, og notkunin hefur vaxið ár frá ári síðan. Ólíkt mörgum nýjungum í máli er þetta samband mun algengara í formlegu málsniði en óformlegu og alþingismenn virðast hafa tekið sérstöku ástfóstri við það – alls eru 75 dæmi um það í þingræðum á fimm árum, 2017-2021.

Sambandið ekki fer saman hljóð og mynd er fín líking og skemmtilegt dæmi um það hvernig tækninýjungar verða uppspretta nýjunga í málnotkun. En það er æskilegast að nýjungar auðgi málið, komi til viðbótar því sem fyrir er í stað þess að ryðja því brott. Það er samt það sem virðist vera að gerast – samböndin ekki fara saman orð og athafnir og ekki fara saman orð og gerðir sem áður voru algeng, m.a. í máli alþingismanna, eru á hröðu undanhaldi – á árunum 2017-2021 eru aðeins fjögur dæmi um það fyrrnefnda í þingræðum en ekkert um það síðarnefnda. Þessi sambönd eru þó góð og gild og því væri æskilegt að fólk hugaði að því hvort ekki mætti stundum nota þau í stað þess að þrástagast á ekki fer saman hljóð og mynd.

Einu megin og hinu megin

Ég sá í Málvöndunarþættinum að í fréttum hefði verið notað orðalagið einu(m) megin þar sem venja væri að segja öðru(m) megin. Í fréttinni sem um er að ræða sagði: „Einu(m) megin fer blandaður úrgangur og hinu(m) megin fara matarleifar.“ (Útilokað er að vita hvort sagt var einu megin eða einum megin.) Augljóst var að þeim sem nefndu þetta orðalag þótti það rangt, og vissulega er það ekki algengt í nútímamáli. En það er samt gamalgróið í málinu og kemur iðulega fyrir í fornu máli. Þannig segir t.d. í Grettis sögu: „Þar mátti einum megin að leggja og eigi fleirum en fimm senn.“ Í Sturlungu segir: „Þar gæta gjár þrem megin en virkisgarður einum megin.“ Í Finnboga sögu ramma segir: „Hann var stórlega hár og mátti einum megin að sækja.“

Fornmálsdæmin eru vissulega frábrugðin dæminu í fréttinni að því leyti að í þeim er um fleiri en einn kost að ræða. Þegar kostirnir eru aðeins tveir hefur yfirleitt verið talað um öðru(m) megin og hinu(m) megin. Þó má finna nokkur 19. aldar dæmi um að einu(m) megin sé notað um annan tveggja kosta. Þannig segir t.d. í Þjóðólfi 1871: „Í Michigan er breitt nes eitt skógi vaxið, er gengr út í Huronvatnið milli Saginawfjarðarins einu megin og árinnar St. Clair hinu megin.“ Í Norðlingi 1877 segir: „Nú er skriðið til skara á þingi Dana, og þingi slitið með fullum fjandskap á milli stjórnarinnar og landþingsins einu megin, en þjóðþingsins á hina hliðina.“ Í Austra 1898 segir: „Einu megin er fámenni og strjálbyggð, og hins vegar er fátækt landsmanna.“

Dæmi af þessu tagi, þar sem einu(m) megin er andstæða við hinu(m) megin, eru hins vegar sárafá á 20. öld, en fara að sjást aftur upp úr síðustu aldamótum – fyrst á samfélagsmiðlum en síðar einnig í fjölmiðlum. Í Morgunblaðinu 2005 segir: „meginkjarni þorpsins var einum megin við hraðbrautina og hinum megin við hraðbrautina var svo skólinn.“ Í DV 2013 segir: „Áhugavert var t.d. í Silfri Egils um helgina að sjá Evrópuflokkana BF og Samfylkingu sitja einum megin við Egil og Evrópuandstæðingana VG og sjalla hinum megin.“ Á mbl.is 2017 segir: „Á seðlinum má sjá andlit Assad einu megin en sýrlenska þingið hinu megin.“ Í Vísi 2018 segir: „Að lokinni sókn einum megin geystist hitt liðið í aðra sókn hinum megin á vellinum.“

Dæmi í Risamálheildinni benda til að þessi notkun á einu(m) megin fari vaxandi og sé orðin nokkuð algeng, einkum í óformlegu málsniði, og nógu langt er frá endurvakningu hennar til að trúlegt er að sá sem flutti fréttina sem varð kveikjan að þessum pistli hafi alist upp við hana. Það er auðvitað ljóst að einu(m) megin er í sjálfu sér gott og gilt orðalag sem á sér langa hefð þótt vissulega geti skoðanir verið skiptar um hvort eðlilegt sé að nota það sem andstæðu við hinu(m) megin eins og gert var í fréttinni. En í ljósi þess að slík notkun tíðkaðist á 19. öld, og kom upp aftur (hafi hún einhvern tíma horfið alveg) fyrir a.m.k. tuttugu árum, sé ég ekki sérstaka ástæðu til að amast við henni. Þetta virðist orðið málvenja margra, og þar með rétt mál.

Eins og hér hefur komið fram er ýmist ritað m eða ekki í enda orða sem standa með meginbáðu(m) megin, einu(m) megin, hinu(m) megin, hvoru(m) megin, öðru(m) megin o.s.frv. Samkvæmt íslenskum ritreglum á að rita þessi orð með m vegna þess að uppruninn er báðum vegum, öðrum vegum o.s.frv. þar sem fornafnið sambeygist nafnorðinu. Í Íslenskri orðsifjabók segir að -megin sé „blendingsmynd úr -(v)eginn og vegum“ en m-ið er komið til vegna samlögunar við lokahljóð orðsins á undan (m-v > m-m). En úr því að vegum má breytast í megin sé ég ekki hvers vegna báðum og öðrum má ekki breytast í báðu og öðru. Það er ljóst að megin hefur fyrir löngu slitið tengslin við uppruna sinn og fráleitt að láta hann ráða mynd fornafnanna.

Að synda kúm

Í bókinni Bréf til Haralds er frásögn Sveins Skorra Höskuldssonar af ferð hans um Skagafjörð sumarið 1951. Þar segir m.a. svo frá komu hans til afa míns og ömmu í Eyhildarholti: „Í sama mund og mig bar upp á bæjarhlaðið blasti við mér sýn sem ég gleymi aldrei: Yfir breiða kvísl austari Héraðsvatna kom syndandi allstór kúahópur, milli tíu og tuttugu gripir, auk kálfa, og héldu allir hölum sínum hátt til lofts upp úr lygnu vatninu. Þær voru að koma til mjalta úr allstórri eyju þar sem þær voru á beit á daginn. Ekki sá ég neinn kúasmala reka hópinn, heldur fylgdi hann gamalli, viturri forystukú sem vissi hvað tímanum leið. Ég undraðist hve léttilega þær syntu og sé enn fyrir mér tvo tugi kýrhala líða upprétta yfir skollita gára Héraðsvatna.“

Kýrnar í Eyhildarholti syntu sem sé yfir Héraðsvötnin tvisvar á dag – til beitar á morgnana og til mjalta á kvöldin. Þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég var á Suðureyjum og leiðsögumaður sagði okkur frá því að bændur þar hefðu rekið nautgripi sína yfir breitt sund til slátrunar. „They swam the cows“, sagði hann – þeir syntu kúnum yfir sundið. Og þá er loksins komið að ástæðunni fyrir því að ég segi þessa sögu hér. Þótt hægt sé að nota ensku sögnina swim á þennan hátt sem áhrifssögn (sögn sem tekur með sér andlag) í merkingunni 'láta synda' er ekki venja að nota íslensku sögnina synda svona. Þess í stað verðum við að segja Gísli lét kýrnar synda yfir kvíslina. Sögnin synda er nefnilega áhrifslaus (tekur ekki andlag) í íslensku.

En það gerist stundum að áhrifslaus sögn verður áhrifssögn og fer að taka andlag. Eitt slíkt dæmi er sögnin fljúga. Hún var áður yfirleitt áhrifslaus – fuglar flugu, skeyti flugu, og örvar flugu, en það flaug þeim enginn. Það var varla fyrr en með tilkomu manngerðra hluta eins og loftbelgja og flugvéla sem var farið að fljúga einhverjufljúga flugvél, fljúga loftbelg. Annað dæmi er af sögninni streyma sem var líka áhrifslaus – lækir streymdu, ár streymdu, og blóð streymdi, en það streymdi þessu enginn. En nýlega var farið að nota streyma í nýrri merkingu fyrir áhrif frá stream í ensku, og nú tölum við hiklaust um að streyma fyrirlestri, streyma tónlist o.s.frv. Einnig hafa sést dæmi um að klæja sé notuð á þennan hátt þótt á það sé ekki komin hefð.

Nú eru aðstæður svo sem óvíða svipaðar og í Eyhildarholti og ekki gert mikið af því að hleypa kúm á sund og því tæpast mikil þörf á sérstakri sögn um þá athöfn (þótt kýr geti reyndar verið miklir sundgarpar eins og Sæunn sannaði hér um árið). Þess vegna á ég ekki von á því að synda verði áhrifssögn í almennu máli – og finnst ekki líklegt að farið verði að tala um að *synda börnum þegar þau eru látin synda í skólasundi. Tilgangur þessa pistils er bara að benda á hvernig málið lagar sig oft að breyttum þörfum samfélagsins án þess að nokkur málspjöll hljótist af – þótt vitanlega þurfi tíma til að venjast nýjungum. En við erum fullkomlega sátt við fljúga og streyma sem áhrifssagnir – sama gæti örugglega orðið um klæja og synda ef á þyrfti að halda.