Ögurstund

Orðið ögurstund er skemmtilegt dæmi um gamalt orð sem hefur nýlega verið endurvakið. „Það verður ögurstund á morgun. Annað hvort ná menn þessu saman eða ekki“ hafði Fréttablaðið eftir Vilhjálmi Birgissyni 1. desember. Þetta er ævagamalt orð, kemur fyrir í síðasta erindi Völundarkviðu, og í Íslenskri orðsifjabók segir Ásgeir Blöndal Magnússon að talið hafi verið að það merkti þar ‚angursstund‘ eða ‚frygðar- eða lostastund‘. Í Lexicon Poeticum er merkingin hins vegar talin óviss en líklega 'ulykkesstund' eða 'byrdefuld, trykkende stund'. Í Íslenskri orðabók er það sagt merkja 'stund sem er þrungin mikilvægi, örlagarík stund' og þannig er það oftast notað í nútímamáli eins og dæmið hér í upphafi sýnir.

Ásgeir Blöndal skrifaði grein um orðið í Sjötíu ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni árið 1977, en þar sagðist hann fyrst hafa rekist á orðið í nútímamáli hjá Matthíasi Johannessen í Morgunblaðinu 1971. Þar segir Matthías: „Ögurstund er ekki hjá Blöndal. Það er vestfirzkt. Ég lærði það af Jóni Ormari á Sauðárkróki sem allt veit. Það merkir víst: kyrrðin í hafinu rétt eftir háflæði eða háfjöru.“ Ásgeir spurðist svo fyrir um orðið og kom í ljós að það var víða þekkt í töluðu máli. Um þetta sagði Matthías síðar, í Morgunblaðinu 1990: „Ég hirti ögurstund af vörum manns norður í landi og Ásgeir Blöndal Magnússon fjallaði um það sérstaklega af því tilefni. Upprisið úr Eddu er það nánast orðið tízkuorð nú um stundir.“

Það eru orð að sönnu. Á tímarit.is eru aðeins 39 dæmi um orðið fram til 1972, en árið 1973 koma allt í einu 270 dæmi! Skýringin er sú að það haust var verið að sýna leikrit eftir Edward Albee sem á íslensku nefndist „Ótrygg er ögurstundin“ (virðist reyndar hafa heitið „Á ögurstund“ fram undir frumsýningu) og flest dæmin eru úr auglýsingum um sýningar á því. Orðið var þá svo ókunnuglegt að ástæða þótti til að skýra það í fréttum af frumsýningu leikritsins. Þýðandi þess var Thor Vilhjálmsson, sem á þannig heiðurinn af að koma orðinu aftur í almenna notkun. Eftir að hætt var að sýna leikrit Albees datt notkun orðsins niður fyrst um sinn en fór fljótlega að aukast aftur, sérstaklega á tíunda áratugnum og eftir aldamótin.

Í bókinni Orð að sönnu aðhyllist Jón G. Friðjónsson skýringu Lexicon poeticum að merking orðsins í Völundarkviðu sé 'ógæfustund; þungbær og þrúgandi stund' „og kann hún að vera undanfari nútímamerkingarinnar 'úrslitastund, örlagastund'“ segir Jón. Í þeirri merkingu er orðið mjög algengt síðustu þrjá áratugina, ekki síst í íþróttalýsingum og umfjöllun um ýmiss konar samningaviðræður. Stundum getur líka tognað á ögurstundinni eins og fram kom í dag í svari Kristjáns Þórðar Snæbjarnarson forseta ASÍ við spurningu Ríkisútvarpsins „Það er talað um að þið séuð á ögurstundu – er hún núna?“ Kristján svaraði: „Þessi ögurstund er búin að vera í gangi í svolítinn tíma og hún er enn þá svolítið í gangi, það myndi ég segja.“

Er sægur gelískra tökuorða í íslensku?

Í nýrri bók er því haldið fram að gelísk orð í íslensku skipti hundruðum eða þúsundum og gelíska hafi jafnvel verið töluð á Íslandi á undan norrænu. Í umræðu á Facebook um daginn lýsti ég efasemdum um þetta út frá þeim dæmum sem ég hafði séð úr bókinni en tók fram að ég hefði ekki lesið hana. Nú hef ég rennt í gegnum bókina – að vísu ekki lesið hana alla frá orði til orðs en leitað vandlega að rökum fyrir þessum miklu gelísku áhrifum á málið. Þau er ekki að finna í bókinni – allt er byggt á tilgátum. Þótt hundrað öftustu síður bókarinnar séu skrá um ýmiss konar íslensk orð sem gætu verið komin úr gelísku að mati höfundar eru ekki færð nein rök fyrir því og ekki vísað í neinar heimildir.

Dr. Helgi Guðmundsson prófessor emeritus hefur rannsakað þetta mál mjög mikið og kannað mikinn fjölda heimilda. Í Íslenskri orðsifjabók hefur Ásgeir Blöndal Magnússon einnig skýrt megnið af þeim orðum sem fjallað er um í bókinni Keltar á annan hátt en þar er gert. Báðir eru lærðir málfræðingar sem byggja umfjöllun sína á þekkingu á málsögu og orðsifjafræði. Tenging íslenskra orða við gelísk orð í áðurnefndri bók virðist hins vegar einkum byggð á yfirborðslíkindum í rithætti og merkingarlíkindum sem stundum eru langsótt, án tillits til framburðar, hljóðsögu og hljóðþróunar – og án nokkurs tillits til annarra skýringa sem hafa verið settar fram eða tilrauna til að hrekja þær.

Í bókinni Um haf innan fjallar Helgi um þau gelísku tökorð sem hann hefur fundið í íslensku og telur þau alls 46 – hvorki hundruð né þúsundir. Hann segir að mörg önnur orð hafi „verið talin til gelískra tökuorða, og mörgum upprunaskýringum [...] verið varpað fram án rökstuðnings. Hér er reynt að vinza úr og aðeins það tekið með, sem telst nokkuð sennilegt eða öruggt. Þó er hætt við, að hér sé frekar oftalið en vantalið.“ Í inngangi að skrá og ítarlegri umfjöllun um þessi orð segir Helgi svo: „Margs er að gæta við athugun á orðum, sem má ætla, að séu komin úr gelísku í norræn mál. Þar verður margt að koma heim, til þess að öruggt geti talizt, eða að minnsta kosti sennilegt, að þau séu tökuorð. Það er í stuttu máli þetta.

Myndir orðanna verða að koma saman. Hljóðkerfi norrænu og gelísku voru ólík, og orð breytast, þegar þau flytjast milli mála. Í sumum tilvikum svarar til hvers hljóðs í norrænu það hljóð, sem var líkast í gelísku. Ef einhver frávik eru frá því, verður að leita skýringar. Orð verða einnig að koma saman að merkingu. Stundum eru þar frávik, og þá er að reyna að finna, hvernig á því stendur. Um gelísk orð verða að vera góðar heimildir í gelísku málunum, eða einhverju þeirra, helzt gamlar. Stundum getur verið um að ræða tökuorð í gelísku úr öðrum málum. Norrænt orð getur ekki talizt tökuorð, nema það sé einangrað í norrænu og ekki sé hægt að finna norrænan uppruna þess.“

Ekkert bendir til þess að í umræddri bók hafi verið hugað að þeim forsendum sem Helgi nefnir að þurfi að vera til staðar til að hægt sé að halda því fram að um gelísk tökuorð sé að ræða. Fyrir utan það sem þar er nefnt þarf vitanlega að hafa í huga að þótt norræna og gelíska séu vissulega ekki náskyldar eru hvort tveggja indóevrópsk mál og því má búast við fjölda skyldra orða í málunum án þess að um áhrif annars á hitt sé að ræða. Þegar sameiginleg rót er í íslensku og gelísku orði svipaðrar merkingar er m.ö.o. langlíklegast að bæði orðin megi rekja beint til indóevrópsku. Þar að auki er vitað að ýmis norræn orð komust inn í gelísku á sínum tíma þannig að áhrifin geta líka verið í þá átt.

Meðal þess sem nefnt er til að rökstyðja gelísk áhrif á íslensku er að aðblástur sé „líkur í íslensku og skoskri gelísku“. Athugið að þarna er talað um skoska gelísku þótt áhrifin séu annars oftast rakin til írsku, en þar er enginn aðblástur. Reyndar hefur lengi verið talið að áhrifin séu í hina áttina, að aðblásturinn í skosk-gelísku sé tilkominn fyrir áhrif frá norrænu, en nýjar rannsóknir benda hins vegar til að aðblásturinn í skosk-gelísku sé sjálfstæð þróun. En þar fyrir utan er ekki eins og íslenska sé eina Norðurlandamálið sem hefur aðblástur. Hann er líka að finna í nokkrum norskum mállýskum, og einnig í samísku. Það kippir grundvellinum undan þeirri hugmynd að íslenski aðblásturinn sé tilkominn fyrir gelísk áhrif.

Önnur rök sem nefnd eru fyrir gelískum áhrifum á íslensku eru þessi: „Þá nota Skotar forsetningar til að afmarka eign eins og gert er á íslensku, t.d. þegar sagt er hausinn á mér, hjartað í mér. Þetta er ólíkt því sem tíðkist í hinum Norðurlandamálunum.“ En þetta er ekki heppilegt dæmi. Í fornu máli var nefnilega sagt höfuð mitt, hjarta mitt. Notkun forsetninga í slíkum tilvikum, um „órjúfanlega eign“ eins og líkamshluta og líffæri, er nýjung í íslensku. Vissulega gömul nýjung, frá 14.-15. öld, en samt sem áður þýðir þetta að ekki er hægt að nota þessa setningagerð sem rök fyrir gelískum áhrifum á íslensku vegna þess að á þeim tíma hljóta slík áhrif að hafa verið horfin fyrir löngu – ef þau voru einhvern tíma til staðar.

Það má vel vera að gelísk áhrif séu áberandi á öðrum sviðum íslenskrar sögu og menningar, t.d. í fornleifum og þjóðsögum. Um það hef ég ekki forsendur til að dæma. En það sem sagt er í umræddri bók um mikil gelísk áhrif á tungumálið stenst enga skoðun.

Opnun og lokun getur verið ástand

Orðið opnunartími er tíður gestur í málfarsumræðu og bar nýlega á góma í Facebook-hópnum Málspjall. Ég hef skrifað pistil um þetta orð en finnst ástæða til að hnykkja á nokkrum atriðum í sambandi við það. Orðinu er einkum fundið tvennt til foráttu: Að það sé „ekki gott“ sem ég veit ekki alveg hvað merkir, e.t.v. ljótt – og svo að það sé „órökrétt“. Í greininni „Opnunartími – Hve lengi er verið að opna?“ í Morgunblaðinu 1988 skrifaði Árni Böðvarsson: „Við tölum um að opna og loka íláti, húsi og ýmsu fleiru. Nafnorð um þessar athafnir eru opnun og lokun. Merking þeirra er – eða á að vera – hin sama og sagnorðanna. Þá er opnunartími sá tími þegar opnað er, verið er að opna, en lokunartími þegar verið er að loka.“

Sömu rök má finna víða, t.d. í pistlum Gísla Jónssonar og Jóns G. Friðjónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu. „Ekki tekur nema andartak að opna búðina“ sagði Gísli, og opnunartími væri því „sem örskotsstund, þegar snúið er lykli eða handfang hreyft“. Og í bréfi sem Jón birti var sagt: „Þegar sagt er að opnunartími verslunar sé frá 9:00 til 18:00, þá er, stranglega til tekið, því lýst, að verið sé að opna verslunina allan liðlangan daginn, eða alls í 9 klukkustundir.“ En við þetta er ýmislegt að athuga. Tengslin milli sagna og nafnorða sem leidd eru af þeim með viðskeytinu -un eru alls ekki alltaf þau sömu – þótt merking nafnorðanna sé oftast 'það að gera' vísa þau líka stundum til ástands sem leiðir af verknaðinum.

Það er alls ekki svo að orðið opnun vísi alltaf til verknaðar eða atburðar sem taki aðeins örskotsstund. Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Ef til vill er tímabundin opnun landhelginnar spor í þá átt.“ Í Fréttablaðinu 2013 segir: „Um tímabundna opnun er að ræða í sumar en ef vel tekst til verður áframhaldandi opnun næsta sumar.“ Í Norðurlandi 1906 er birt fjögurra erinda kvæði sem sagt er hafa verið flutt „við opnun sýningar „Iðnaðarmannafélags Akureyrarkaupstaðar“ 26. júní 1906“. Varla dettur fólki í hug að kvæðið hafi allt verið flutt á þeirri örskotsstund sem það tók að opna dyr sýningarsalarins. Hliðstæð dæmi þar sem opnun vísar til atburðar eða ástands sem stendur yfir í nokkurn tíma eru ótalmörg.

Sama gildir um lokun. Þótt það taki oftast aðeins örskotsstund að loka, rétt eins og opna, getur nafnorðið lokun vísað til verknaðar eða atburðar sem stendur yfir í nokkurn tíma. Þannig segir t.d. í Morgunblaðinu 1965: „Fyrri lokun vegarins var gerð klukkan átta í morgun að ísl. tíma og var henni aflétt klukkan ellefu.“ Í Morgunblaðinu 1979 segir: „Með ströngu eftirliti og tímabundnum lokunum veiðisvæða ætti að vera unnt að koma í veg fyrir þetta að mestu leyti.“ Í Fréttablaðinu 2021 segir: „Þá hefur mat eigna lækkað í kjölfar faraldurs, rekstrarerfiðleika og tímabundinnar lokunar.“ Í öllum þessum tilvikum, og ótalmörgum öðrum, er ljóst að lokun vísar ekki til einstaks atburðar sem tekur örskotsstund, heldur til viðvarandi ástands.

Það er sem sé ljóst að nafnorðin opnun og lokun geta vísað til verknaðar eða ástands sem stendur yfir í nokkurn tíma. Og þegar að er gáð er það ekki heldur svo að sagnirnar opna og loka vísi alltaf til einhvers sem stendur bara yfir í örskotsstund. Í Fiskifréttum 2016 segir: „Er rætt var við Ægi beið hann eftir því að ákveðið hólf eða hafsvæði yrði opnað fyrir siglingum frá kl. 17:00 til 05:00 að íslenskum tíma.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Þetta er í fjórða skipti sem þeir opna tímabundið verslun af þessu tagi.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Af þeim sökum stóð til að loka hluta Miklubrautar frá miðnætti til kl. 6 í morgun.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir „stendur til að loka göngunum frá 5. til 7 júní“. Sambærileg dæmi eru fjölmörg.

Það er því ekki nokkur leið að hafna orðinu opnunartími á þeim forsendum að það sé „órökrétt“ eða „ætti að“ merkja eitthvað annað. Það er fjöldi viðurkenndra fordæma fyrir því að bæði opna og opnun vísi til athafnar eða ástands sem stendur yfir í lengri tíma. Það er ekki heldur hægt að amast við opnunartíma á þeim forsendum að það sé hrá yfirfærsla á opening hours í ensku eins og nefnt hefur verið. Elsta dæmi um orðið er hundrað ára gamalt, frá því löngu áður en enska fór að hafa áhrif á íslensku að ráði. Miklu nær er að segja að danska orðið åbningstid liggi að baki. Eftir sem áður getur fólki auðvitað fundist orðið opnunartími ljótt og amast við því á þeim forsendum, en slík smekksatriði eru ekki til umræðu hér.

Hvað merkir auðmýkjandi?

Í gær birtist frétt á Vísi um val á fulltrúa Íslands á Feneyjatvíæringnum 2024 undir fyrirsögninni „Tilfinningin er auðmýkjandi“. Fyrirsögnin var innan gæsalappa og því sett fram eins og hún væri höfð orðrétt eftir listakonunni sem um ræðir, en þegar fréttin er lesin kemur í ljós að svo virðist ekki vera, því að það sem er haft eftir henni þar er „það er auðmjúk tilfinning sem fylgir því að hafa fengið að vera valin“. Fyrirsögnin virðist því vera umorðun Vísis, og hefur reyndar verið breytt í „Hildigunnur fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2024“. Væntanlega hafa verið gerðar athugasemdir við notkun lýsingarorðsins auðmýkjandi í upphaflegri fyrirsögn, enda er hún í ósamræmi við það sem hefur verið venja.

Sú málnotkunin er þó ekki einsdæmi eins og ég skrifaði um í pistli fyrr á árinu. Lýsingarorðið auðmýkjandi er upphaflega lýsingarháttur nútíðar af sögninni auðmýkja, og af sama stofni eru lýsingarorðið auðmjúkur og nafnorðið auðmýkt. Sögnin er skýrð 'gera lítið úr (e-m), vanvirða (e-n)' í Íslenskri nútímamálsorðabók en lýsingarorðið auðmjúkur er þar skýrt 'bljúgur og undirgefinn' og nafnorðið auðmýkt er skýrt 'það að vera auðmjúkur'. Það er því merkingarmunur á auðmýkja og auðmýkjandi annars vegar og auðmjúkur og auðmýkt hins vegar, en auðmýkjandi virðist vera að breyta um merkingu og færa sig yfir í flokk með auðmjúkur og auðmýkt. Það er svo sem ekki undarlegt að eitthvað slíkt gerist.

Í fyrri pistli mínum um þessi orð sagði ég: „Það er æskilegt að halda sig við málhefð og halda áfram að gera skýran greinarmun á auðmjúkur og auðmýkt annars vegar og auðmýkja og auðmýkjandi hins vegar.“ En málið er flóknara en ég hélt. Í fornu máli er sögnin auðmýkja (auðmýkva) sig afturbeygð og merkir samkvæmt Orbog over det norrøne prosasprog 'vise ydmyghed / underdanighed / velvilje', þ.e. 'sýna auðmýkt / undirgefni / hlýhug'. Þessa merkingu hefur sögnin a.m.k. stundum allt fram á 20. öld – „Hvað getur hrifið hjarta mannsins meira eða fremur komið því til að auðmýkja sig fyrir Drottni?“ segir í Norðanfara 1877. Þarna er merkingin 'sýna auðmýkt' fremur en 'lítillækka' þótt vissulega sé stutt á milli.

Sama virðist gilda um lýsingarháttinn/lýsingarorðið auðmýkjandi. Þannig segir í Lögbergi 1889: „Það er opt og tíðum ofur auðmýkjandi, hefur mjer fundizt, að vera maður.“ Í Kennaranum 1900 segir: „Hann fær þeim korn og skilar þeim aftur peningunum. Þotta göfuglyndi hans hefur auðmýkjandi áhrif á þá.“ Í þessum dæmum, og nokkrum fleiri frá svipuðum tíma, virðist auðmýkjandi fremur merkja 'gera auðmjúkan' en 'lítillækka'. En seint á 19. öld fara að sjást dæmi þar sem sögnin er ekki notuð afturbeygð og hefur greinilega merkinguna 'lítillækka', t.d. í Ísafold 1892: „þótt ekkert sjerstakt kæmi fyrir, gerðu menn sjer að skyldu að kvelja þá og pína og auðmýkja, sem mest mátti verða.“

Á 20. öld virðist auðmýkja og auðmýkjandi yfirleitt merkja 'gera lítið úr, vanvirða‘ og vera neikvætt þótt vissulega geti það oft verið túlkunaratriði, ekki síst þegar orðin eru notuð í tengslum við trúarbrögð. Sögnin auðmýkja hefur enn þessa neikvæðu merkingu í öllum tilvikum, held ég, en á síðustu árum eru farin að sjást dæmi um lýsingarorðið auðmýkjandi í jákvæðri merkingu, eins og í fyrirsögninni sem vísað var til í upphafi. Samkvæmt því sem að framan segir má halda því fram að orðið sé með þessu að hverfa aftur til upprunans og því er kannski ekki ástæða til að amast við þessari merkingarbreytingu þótt hún sé vissulega í andstöðu við þá merkingu sem orðið hefur venjulega haft í meira en heila öld.

Metfé

Orðið metfé merkti upphaflega 'e-ð sem ekki var fast verðlag á en meta varð til fjár hverju sinni' eins og segir í Íslenskri orðabók, en þar er tekið fram að sú merking sé úrelt. Þessi merking kemur t.d. fram í Eimreiðinni 1903 þar sem segir: „Víghestar vóru líka í miklu hærra verði en aðrir hestar. Þeir vóru metfé, en verð á öðrum hestum var lögákveðið.“ En á 19. öld hnikaðist merkingin til eins og ýmis dæmi sýna. Í Norðanfara 1867 segir „þó finnst mjer kertaformsályktunin mikla á síðasta þingi vera enn meira afbragð; hún er, „hreint út sagt“, metfje“. Í Iðunni 1887 segir „það hafði verið hin mesta metfje-skepna“, í Austra 1893 segir „hér er kíkir, metfé mest“ og í Fjallkonunni 1897 segir „Var hann hið mesta metfé á vöxt“.

Eldri merking orðsins átti einungis við áþreifanlega gripi, oftast búfénað, en þarna sést að farið er að nota orðið um óáþreifanleg fyrirbæri eins og ályktun. Í eldri merkingunni voru gripirnir annaðhvort metfé eða ekki og ákvæðisorð eins og hin/hið mesta/mest og skilgreiningin á vöxt sýna því glöggt að merkingin hefur breyst og er orðin 'verðmikill hlutur, úrvalsgripur' sem gefin er sem aðalmerking í Íslenskri orðabók. Þessi merkingarbreyting er í sjálfu sér mjög eðlileg – ástæðan fyrir því að það þurfti að meta eitthvað sérstaklega var yfirleitt mikið verðmæti þess og þess vegna hafa málnotendur farið að skilja metfé þannig að það merkti 'verðmætur hlutur'. Þetta var aðalmerking orðsins mestalla 20. öldina.

En á seinasta hluta aldarinnar fékk orðið nýja merkingu. Fyrsta dæmi þess sem ég hef fundið er í Morgunblaðinu 1962, þar sem segir frá kaupum Manchester United á skoska knattspyrnumanninum Dennis Law: „Kaupverðið var um 14 millj. ísl. króna og er það hæsta verð sem enskt félag hefur greitt fyrir knattspyrnumann. Þetta er í annað sinn sem Dennis Law er seldur fyrir metfé.“ Í Vísi 1963 er fyrirsögnin „Ure til Arsenal fyrir metfé!“ en í fréttinni segir „Það var Arsenal sem keypti hann á metfjárhæð 65.000 pund.“ Í Fálkanum 1963 segir: „Árangurinn varð sá, að myndir hans voru seldar fyrir metfé.“ Það er þó fyrst undir 1980 sem þessi merking fer að verða áberandi, einkum um sölu á knattspyrnumönnum og listaverkum.

Undir 1990 er nýja merkingin orðin yfirgnæfandi og þá skrifar Gísli Jónsson í Morgunblaðinu 1989: „Hins vegar finnst mér hæpið að fara með orðið metfé yfir merkinguna hærri upphæð en áður hefur þekkst í einhverju sambandi.“ En tólf árum síðar hafði Gísli linast í andstöðunni og sagði 2001: „Mér þótti þetta svolítið hæpið fyrst, en ég sætti mig við það. Metfé er í sjálfu sér mjög gott orð, og merking orða hefur oft breyst í aldanna rás, enda má tunga okkar ekki verða steingervingur, þótt við vöndum hana og verjum.“ Í blöðum frá þessari öld hefur orðið langoftast merkinguna 'fjárupphæð sem slær met' og hún er komin inn í Íslenska nútímamálsorðabók, auk merkingarinnar 'sérstaklega gott húsdýr eða góður gripur'.

Orðið hefur þó stundum aðra merkingu í óformlegu tali, a.m.k. í máli sumra. Sú merking er einkum höfð um fólk og kemur fram í setningum eins og hann/hún/hán er nú algert metfé. Þarna getur orðið vissulega merkt 'dýrgripur‘ en virðist oftast merkja fremur 'sér á báti' eða jafnvel 'skrítin skrúfa'. Þetta er sem sé notað um fólk sem sker sig úr hópnum á einhvern hátt – í orði, hugmyndum eða athöfnum – og er frekar góðlátlegt en hæðnislegt að ég held þótt erfitt sé að átta sig nákvæmlega á því vegna heimildaskorts. Þessarar merkingar verður naumast vart í rituðu máli að því er virðist og því er erfitt að segja hversu útbreidd hún er, en fróðlegt væri að vita hvort lesendur nota orðið á þennan hátt eða kannast við þessa merkingu.

Að fjárafla

Nýlega var ég spurður um sögnina fjárafla sem fyrirspyrjandi sagðist oft hafa rekist á undanfarið í merkingunni 'afla fjár'. Ég kannaðist ekki við þessa sögn og hana er ekki að finna í neinum orðabókum. Hún kom mér samt ekkert á óvart vegna þess að á síðustu árum hefur það færst mjög í vöxt að nota samsettar sagnir í stað orðasambands með sögn og nafnorði eða sögn og forsetningu eða atviksorði. Þetta eru sagnir eins og haldleggja í stað leggja hald á, frelsissvipta í stað svipta frelsi, nafnbirta í stað birta nafn, ökuleyfissvipta í stað svipta ökuleyfi, brottvísa í stað vísa brott, o.s.frv. Stundum eru samsettar sagnir líka myndaðar af nafnorði án þess að nokkur sögn liggi að baki, eins og t.d. jólaskreyta af jólaskraut.

En ég fór að leita dæma um fjárafla og fann fleiri, eldri og fjölbreyttari dæmi en ég átti von á. Elsta dæmið sem ég fann var fimmtíu ára gamalt, úr Vikunni 1972: „United Artists, fyrirtækið sem framleiðir myndina, hefur lofað mér því að þeir muni fjárafla tvær kvikmyndir.“ Þarna er merkingin augljóslega ekki 'afla fjár', heldur 'fjármagna'. Elsta dæmi þar sem merkingin 'afla fjár' er skýr er í Fréttamolanum 1986: „Fyrir páska þótti gjaldkera félagsins […] kominn tími til að fjárafla eitthvað.“ Í Bæjarbót 1989 segir: „Að undanförnu hafa strákarnir verið, eins og bæjarbúar hafa eflaust tekið eftir, að fjárafla fyrir ferðinni.“ En iðulega gæti hvor merkingin sem er átt við og kemur í sama stað niður hvor er valin.

Í Morgunblaðinu 1980 segir: „sá styrkur hefur hvergi nærri nægt og framleiðendur átt í erfiðleikum með að fjárafla sinn hluta.“ Þetta gæti merkt bæði 'afla fjár til síns hluta' og 'fjármagna sinn hluta'. Í Foringjanum 1980 segir: „Til að fjárafla alla þessa starfsemi okkar erum við með flugeldasölu um hver áramót“. Í Fréttum 1986 segir: „Meistaraflokkur og 2. flokkur ÍBV í handbolta selur um þessar mundir svokölluð lukkudagatöl, til að fjárafla rekstur handboltadeildarinnar.“ Í Morgunblaðinu 1986 segir: „Knattspyrnuhátíðin er til að fjárafla gerð íþróttavallar við Litla-Hraun.“ Í Íþróttablaðinu 1991 segir: „Hún hefur selt nokkur hundruð kílómetra af klósettpappír til þess að fjárafla utanlandsferðir.“

Eins og dæmin sýna tekur fjárafla oft andlag í þolfalli – „fjárafla tvær kvikmyndir“, „fjárafla sinn hluta“, „fjárafla alla þessa starfsemi“, „fjárafla þátttöku“ o.s.frv. En í dæmum þar sem merkingin 'afla fjár' er skýr er hægt að hafa sögnina án andlags – „fjárafla í nafni félagsins“, „fjárafla eins og skepnur“, „allir fjárafla nema einn“, „við erum reyndar mjög dugleg að fjárafla“ o.s.frv. Í þessari merkingu tekur sögnin líka stundum forsetningarlið með fyrir – „fjárafla fyrir ferðinni“, „fjárafla fyrir skuldum“, „fjárafla fyrir starf félagsins“, „fjárafla fyrir deildina“ o.s.frv. Í tveimur fyrrnefndu dæmunum er merkingin 'til að greiða' og þá stjórnar fyrir þágufalli en í tveim þeim seinni er merkingin 'í þágu' og þá stjórnar sögnin þolfalli.

Að lokum má spyrja hvernig eigi að bregðast við sögninni fjárafla – er þetta gagnleg viðbót við málið sem sjálfsagt er að bjóða velkomna, eða er þetta óþarft orð sem rétt er að stugga við? Það er auðvitað smekksatriði. Sögnin er óþörf í þeim skilningi að hægt er – og venja – að orða merkingu hennar á annan hátt, en það sama gildir auðvitað um mikinn fjölda orða í málinu. Það má alveg halda því fram að samsettar sagnir séu almennt frekar stirðar, en svo má líka segja að það sé liprara að tala um að fjárafla starfsemina eða fjárafla fyrir ferðinni en afla fjár til starfseminnar og afla fjár til ferðarinnar. Ég get ekki heldur séð að fjárafla sé neitt verri sögn en fjármagna sem er auðvitað fullkomlega viðurkennd.

Margvísleg menning

Orðið menning er vitanlega gamalt í málinu og hefur ýmsar merkingar. Í fornmáli merkir það 'lærdom, kundskab, dannelse' eða 'lærdómur, þekking, siðfágun' samkvæmt Ordbog over det norrøne sprosasprog. Skilgreiningin í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'þroska- eða þróunarstig mannlegs samfélags, andlegt líf þess og efnisleg gæði' en í Íslenskri orðabók eru fleiri merkingar gefnar, m.a. 'rótgróinn háttur, siður'. Einnig hefur orðið merkinguna 'manndómur' í samböndum eins og hafa menningu í sér til einhvers, og áður fyrr var það oft notað í merkingunni 'að koma fólki til manns' – „hann varði miklu fé til menningar barna sinna“ segir í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga 1957.

En fleiri skilgreiningar eru til en þær sem finna má í orðabókum. Haft er eftir Steini Steinarr að þegar hann var barn hafi hann heyrt orðið menning sem hann skildi ekki og spurði því fóstru sína um merkingu orðsins. „Það er rímorð,“ sagði fóstran, „það er rímorð, drengur minn, sem þeir nota fyrir sunnan til þess að ríma á móti þrenningunni … og þar hefur þú það.“ Og oft er vitnað til Þorsteins Gylfasonar sem sagði „Menning er að gera hlutina vel“ – hvað sem verið er að gera. Það rímar við þá tilfinningu margra að menning sé jákvætt orð og því óheppilegt í ýmsum samsetningum sem nú eru áberandi í umræðunni, svo sem ofbeldismenning og nauðgunarmenning sem hér hafa áður verið til umfjöllunar.

Í Risamálheildinnisjá að orðið menning er mjög frjótt í samsetningum – þar er að finna á annað þúsund mismunandi orð með þennan seinni lið, en í Íslenskri orðabók eru aðeins 25 samsetningar með -menning og í Íslenskri nútímamálsorðabók 19. Í listanum sem hér fylgir eru sýnd dæmi um hundrað þessara orða sem eiga það sameiginlegt að þau er ekki að finna í neinni íslenskri orðabók og raunar ekki í neinu þeirra gagnasafna sem eru á Málið.is eða Snara.is. En fæst þessara orða ættu reyndar erindi í orðabók, ýmist vegna þess að þau eru mjög sjaldgæf og jafnvel „einnota“ eða vegna þess að þau eru fullkomlega gagnsæ og þarfnast því ekki skýringar – nema hvorttveggja sé. Frá því eru þó ýmsar undantekningar.

Í fljótu bragði sýnist mér að það megi skipta þessum samsetningum í þrjá flokka. Einn er 'siðir og venjur tengd ákveðnu sviði þjóðlífsins eða ákveðnum neysluvörum' (bíómenning, deitmenning, kaffimenning, kynlífsmenning, partímenning) og annar er 'siðir og venjur tengd ákveðnum stöðum' (kaffihúsamenning, klósettmenning, miðborgarmenning, pöbbamenning, veitingastaðamenning). Þriðji flokkurinn eru svo 'siðir og venjur sem einkennast af tilteknu ástandi eða athöfnum' (eineltismenning, hernaðarmenning, nauðgunarmenning, slaufunarmenning, tálmunarmenning). Það eru einkum orð í þessum síðastnefnda flokki sem fara fyrir brjóstið á mörgum og þykja ekki samræmast merkingunni í menning.

Þessi síðastnefndi flokkur er þó ekki fjarri merkingunni 'rótgróinn háttur, siður' sem gefinn er í Íslenskri orðabók eins og áður segir. Þar eru tekin dæmin umferðarmenning, umgengnismenning og líkamsmenning. Auðvitað getur umferðarmenning verið bæði góð og slæm, rétt eins og matarmenning, vínmenning, kráarmenning, miðborgarmenning o.s.frv. Það er því alls ekki svo að samsetningar með -menning hafi alltaf jákvæða merkingu – sbr. líka orðið ómenning. En í tveimur fyrrnefndu flokkunum er fyrri liður samsetningarinnar hlutlaus en orðið getur fengið jákvæða eða neikvæða merkingu með hjálp lýsingarorðs – frábær matarmenning, ömurleg vínmenning, skemmtileg miðborgarmenning o.s.frv.

Í síðastnefnda flokknum er fyrri liður orðanna hins vegar neikvæður og samsetningin verður þess vegna neikvæð alveg hjálparlaust, án þess að nokkur lýsingarorð þurfi til. Það er tæpast nokkur ágreiningur um að einelti og ofbeldi sé óæskilegt og neikvætt og þess vegna eiga lýsingarorð eins og góð og slæm ekki við – hins vegar er hægt að nota lýsingarorð eins og mikil, rótgróin o.s.frv. Ég sé sem sagt ekki annað en það sé alveg hægt að nota orðið -menning í samsetningum af þessu tagi, enda vel þekkt að merking orða í samsetningum getur vikið nokkuð frá þeirri merkingu sem orðin hafa ein sér. Ég hef a.m.k. ekki fundið neitt annað orð sem hentar betur til þessara nota.

Bráðafrétt!

Í gær var vitnað hér í fyrirsögn á vefmiðli þar sem stóð „Brjótandi tíðindi“. Þetta orðalag er auðvitað hrá þýðing á Breaking News í ensku og á sér ekki hefð í íslensku þótt það hafi svo sem sést stöku sinnum áður. Þá rifjaðist upp að fyrir tæpum fimm árum var auglýst á Facebook-síðu Ríkisútvarpsins eftir góðri íslenskri samsvörun við Breaking News. Hér er rétt að athuga að Breaking News merkir ekki endilega 'stórfrétt' þótt sú merking ætti vissulega oft við, heldur 'information that is being received and broadcast about an event that has just happened or just begun', þ.e. 'upplýsingar sem eru að berast og verið að dreifa um atburð sem er nýorðinn eða nýhafinn'.

Fjöldi tillagna kom fram eins og sjá má í viðbrögðum við áðurnefndri auglýsingu RÚV en ég veit ekki hvort stofnunin hefur tekið einhverja þeirra upp á sína arma. Eitt þeirra orða sem stungið var upp á var bráðafrétt sem svipar til orðsins bráðtíðindi sem nefnt var í umræðunni í gær að Færeyingar notuðu yfir Breaking News. Ekki virðist bráðafrétt hafa komist í notkun þótt örfá dæmi megi finna um orðið á netinu. Fyrri liðurinn bráða- er skyldur lýsingarorðinu bráður 'sem ber fljótt að, skyndilegur; mikill', nafnorðinu bráð 'fljótlega, á næstunni' og sögninni bráða 'flýta sér' og tengist yfirleitt einhverju sem er brýnt eða gerist snögglega – bráðamóttaka, bráðaofnæmi o.s.frv.

Notkun orðhlutans bráða- í bráðafrétt fellur ágætlega að öðrum orðum með þennan fyrri lið, og orðið er gagnsætt og auðskilið. Ég fæ ekki betur séð en bráðafrétt sé afbragðsgott orð yfir Breaking News og mæli með því að það verði tekið upp.

Við eigum að leiðbeina, ekki leiðrétta

Ég veit að mörgum í þessum hópi (og ekki síður utan hans) finnst ég oft tala gáleysislega um málbreytingar – leggja blessun mína yfir þær og jafnvel fagna þeim. Ég skil þetta vel og það er fullkomlega eðlilegt út frá því uppeldi sem við höfum flest fengið á heimili og í skóla. Alla síðustu öld ríkti ströng tvíhyggja í málfarsefnum – allt var annaðhvort rétt eða rangt, og yfirleitt var aðeins eitt tilbrigði talið rétt en öll önnur röng. Þetta viðhorf var innprentað í okkur og það er meira en að segja það að rífa sig frá því. Ég er samt sannfærður um að það þurfum við að gera. Það er bæði tungumálinu og okkur sjálfum til góðs að rækta með okkur umburðarlyndi gagnvart öðrum tilbrigðum en þeim sem okkur var kennt að væru rétt.

Fæstar þær breytingar sem hafa verið og eru í gangi í íslensku eru þess eðlis að ástæða sé til að hafa áhyggjur af áhrifum þeirra á framtíð málsins. Þetta eru aðallega breytingar á fallstjórn einstakra sagna og forsetninga (mig langar > mér langar, spá í þetta > spá í þessu) breytingar á einstökum beygingarmyndum (ég vil > ég vill, til drottningar > til drottningu), breytingar á merkingu einstakra orða (dingla 'lafa niður, hanga' > 'hringja bjöllu') og breytingar á framburði (göngum yfir brúna > göngum yfir brúnna). Sumar breytingar eru vissulega róttækari, eins og „nýja þolmyndin“ svokallaða (það var barið mig) og „útvíkkað framvinduhorf“ (ég er ekki að skilja þetta) en hvorug breytingin útrýmir eldra formi.

Það sem væri hins vegar ástæða til að hafa áhyggjur af, og mikilvægt að berjast gegn ef þess yrði vart, eru grundvallarbreytingar á málkerfinu. Það væri t.d. ef einstakir beygingarflokkar hyrfu úr málinu eða beygingin færi að veiklast á einhvern hátt, svo sem þannig að óbeygðum orðum fjölgaði eða eignarfallið léti verulega undan síga. Oft er nefnt að viðtengingarhátturinn sé í viðkvæmri stöðu og brottfall hans væri vissulega mikill skaði en ylli þó ekki hruni kerfisins. Sömuleiðis væri það alvarlegt og gæti haft víðtæk áhrif ef reglur um orðaröð breyttust verulega. Verulegar breytingar á framburði gætu líka orðið afdrifaríkar, einkum ef beygingarendingar og önnur áherslulaus atkvæði veikluðust að ráði.

Þótt þarna sé sjálfsagt að vera á varðbergi á megináherslan að vera á því að verja umdæmi íslenskunnar og auka notkun hennar. Það er grundvallaratriði að íslenska sé nothæf – og notuð – við allar aðstæður og á öllum sviðum. Það er líka grundvallaratriði að auka orðaforða ungs fólks. Iðulega er amast við enskættuðu orðalagi en eins og ég hef sagt er enskur uppruni í sjálfu sér ekki næg ástæða til að fordæma tiltekið orðalag. Á hinn bóginn er notkun enskættaðra orða og orðasambanda þar sem íslenskar hliðstæður eru til oft vísbending um að þau sem notað þessi orð og sambönd hafi ekki fengið næga þjálfun í að lesa og skrifa íslensku. Sú þjálfun er miklu áhrifaríkari vörn gegn málbreytingum en leiðréttingar.

Ég vil líka leggja áherslu á að ég held því ekki fram, og hef aldrei gert, að kennarar eigi ekki að eða megi ekki fræða nemendur um hvað er og hefur verið talið rétt og viðurkennt mál, og benda á þegar út af því er brugðið. Þvert á móti – kennari sem lætur hjá líða að benda nemendum á að mér langar og ég vill og það var barið mig og hliðiná sé ekki viðurkennt mál er að bregðast skyldu sinni að mínu mati. Nemendur eiga rétt á að fá fræðslu um þetta og eiga þá val um hvort þau (reyna að) breyta máli sínu ef það er frábrugðið viðmiðunum. En þótt sjálfsagt sé að leiðbeina nemendum á ekki að leiðrétta það mál sem þau hafa alist upp við eða draga þau niður í einkunn fyrir að tala og skrifa eins og þeim er eiginlegt.

Ný forsetning

Nú er komin ný útgáfa af Risamálheildinni (2022) sem hefur að geyma hátt í 2,7 milljarða orða – rúmum milljarði meira en fyrri útgáfa frá 2019. Þótt þessi stækkun sé mikilvæg skiptir samt meira máli að þarna eru komnar inn nýjar textategundir þannig að fjölbreytni málheildarinnar eykst að mun. Þar munar mest um rúmlega 800 milljónir orða af samfélagsmiðlum – texta af spjallþráðum og bloggsíðum og tvít af Twitter. Málsnið þessara texta er óformlegt og stendur nærri talmáli og þeir eru því ómetanlegir til margs kyns málrannsókna. Vitað er að málbreytingar koma yfirleitt upp í talmáli og oft getur liðið töluverður tími þar til fer að bóla á þeim í formlegu ritmáli.

Eitt slíkt dæmi er orðið hliðiná. Um það skrifaði ég pistil fyrir tæpum tveimur árum og sagði: „Nýlega var mér bent á að ungt fólk væri farið að nota hliðiná í stað sambandsins við hliðina á, t.d. ég stóð hliðiná henni, húsið er hliðiná búðinni. Ég hafði ekki tekið eftir þessu en slæðingur af dæmum finnst með gúgli og í Risamálheildinni eru 17 dæmi. Talsvert fleiri dæmi, 76 talsins, eru um við hliðiná, þar sem fyrri forsetningin heldur sér en nafnorðið og sú seinni renna saman. Slíkur samruni er vitaskuld fullkomlega eðlilegur í framburði en venjulega ekki viðurkenndur í ritmáli, þar sem reglan er sú að fara eftir uppruna – þótt stundum sé ritað oní, niðrí, uppí o.fl. samræmist það ekki ritreglum.“

Nú leitaði ég aftur að hliðiná í nýju Risamálheildinni og þar varð aldeilis annað uppi á teningnum. Nú fannst alls 1881 dæmi um hliðiná án við, setningar eins og „hann situr nú oftast með tölvuna hliðiná mér í sófanum“. Nærri öll dæmin, 1860, eru af samfélagsmiðlum. Dæmi um við hliðiná eru 4579 – langflest, 4663, af samfélagsmiðlum. Einnig er hliðina á iðulega skrifað í tvennu lagi án þess að við sé á undan, dæmi eins og „Skólinn minn er hliðina á húsinu mínu“. Slík dæmi skipta hundruðum á samfélagsmiðlum, en ekki er hægt að tilgreina nákvæma tölu vegna þess að það er útilokað að greina slík dæmi vélrænt frá dæmum þar sem við á ekki að vera, eins og „Ég hef bara verið að tala um lagalegu hliðina á þessu“.

Þetta er því mjög skýrt dæmi um málbreytingu sem greinilega er orðin mjög útbreidd í óformlegu málsniði en vart farið að gæta í venjulegu ritmáli. Eins og ég nefndi í fyrri pistli um hliðiná á þetta sér skýra hliðstæðu í tilurð forsetninga eins og bak við, sakir og sökum – í öllum tilvikum hefur forsetning fallið framan af nafnorði sem við það hefur orðið forsetning. Í fyrri pistli sagði ég: „Það er auðvitað hægt að amast við þessari breytingu ef fólk vill og kalla þetta hina örgustu málvillu. Mér finnst þetta hins vegar bráðskemmtilegt dæmi um að íslenskan er sprelllifandi og getur jafnvel bætt orðum í hóp forsetninga sem venjulega er talinn lokaður orðflokkur. […] Mér finnst að við eigum að taka hliðiná fagnandi.“