Tökum nýjum orðum fagnandi

Iðulega heyrum við eða sjáum íslensk orð sem við könnumst ekki við. Þessi orð geta verið af ýmsum toga. Stundum er um að ræða orð sem hafa verið lengi í málinu en eru þó sjaldgæf, stundum eru orðin staðbundin eða einkum notuð í ákveðnum aldurs- eða þjóðfélagshópi, og stundum eru þau ný í málinu. Ástæður fyrir nýmyndun orða geta líka verið ýmsar. Stundum vantar hreinlega orð yfir tiltekin fyrirbæri eða athafnir, stundum þekkir fólk ekki þau orð sem eru til og býr þess vegna til ný, og stundum þykir fólki þau orð sem eru til vera óheppileg eða óviðeigandi af einhverjum ástæðum og nauðsynlegt að koma með orð í þeirra stað.

En orðum sem fólk þekkir ekki er oft illa tekið – sögð óþörf, ljót, klúðursleg, jafnvel orðskrípi. Ef orð sömu merkingar eru fyrir í málinu amast fólk oft við orðum sem það telur ný vegna ótta um að þau útrými þeim gömlu. Það er þó yfirleitt ástæðulaus ótti. Það þarf mikið til að útrýma úr málinu orði sem á sér langa hefð og fólk þekkir. Það er t.d. ekkert útlit fyrir að snjóstormur sé að útrýma orðum eins og bylur, hríð o.s.frv., eins og oft er haldið fram, eða vera á tánum/tásunum/táslunum sé að útrýma orðinu berfættur.

Fólk talar oft um að tiltekin orð séu óþörf af því að orð sömu merkingar séu fyrir í málinu. En þótt svo kunni að vera er ekki þar með sagt að alltaf sé hægt að skipta gamla orðinu út fyrir það nýja. Þótt orðin hafi strangt tekið sömu merkingu geta þau tilheyrt mismunandi málsniði – annað t.d. verið formlegra en hitt. Gott dæmi eru orðin bíll og bifreið. Þau merkja vissulega það sama, en því fer fjarri að alltaf sé hægt að setja annað í stað hins. Svipað mætti segja um hestur og fákur, vegabréf og passi, og ótal önnur dæmi mætti taka.

En í þessari umræðu kemur fram undarlegur tvískinnungur, því að þótt iðulega sé amast við orðum sem fólk kannast ekki við og þau sögð óþörf er orðauðgi íslenskunnar líka vegsömuð og það talið henni til gildis að hafa t.d. fjölmörg orð yfir snjó. Mörg þessara orða merkja nokkurn veginn það sama, en þau gefa kost á ýmsum blæbrigðum sem okkur þykir æskileg. Það tekur vissulega alltaf tíma að venjast nýjum orðum en það er yfirleitt engin ástæða til að amast við þeim og reyna að hrekja þau úr málinu. Oftast auðga þau málið ef þau komast í notkun.

Stjórnsýslufúsk

Lina Hallberg, sem nýlega lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli og skrifaði mjög fróðlega BA-ritgerð um íslensku sem annað mál, hefur verið að leita upplýsinga um áform stjórnvalda í kennslu íslensku sem annars máls. Hún sendi fyrirspurn til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og vitnaði í framhaldsnámskrá frá 2010 sem lítið virðist hafa verið gert með og spurði m.a.: „Getið þið bent mér á skóla sem býður upp á námskeið samkvæmt framhaldsnámskránni eða sagt mér hvort það sé á dagskrá hjá ykkur að bæta stöðu kennslu ÍSAT nemenda?“

Svarið sem hún fékk var stutt og laggott, afrit af pósti ráðuneytisins til mennta- og barnamálaráðuneytisins: „Félagsmálaráðuneytið framsendir hér með meðfylgjandi erindi til afgreiðslu hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu.“ Samt hafði Lina fengið þær upplýsingar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, bæði í símtali og tölvupósti, að kennsla íslensku sem annars máls heyrði undir það ráðuneyti, að undanskilinni kennslu íslensku sem annars máls í framhaldsskólum sem heyrir undir mennta- og barnamálaráðuneytið. En það á ekki við í þessu tilviki.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið virðist því þvo hendur sínar af ábyrgð á kennslu íslensku sem annars máls, þrátt fyrir að hafa staðfest að það verkefni sé á könnu ráðuneytisins. Þetta er auðvitað forkastanlegt, en því miður dæmigert fyrir íslenska stjórnsýslu. Það er alltof algengt að hver vísi á annan og enginn telji sig eiga að svara fyrirspurnum, hvað þá leysa mál. En þetta er sérstaklega dapurlegt í ljósi margítrekaðra yfirlýsinga stjórnvalda um gildi íslenskunnar og mikilvægi þess að auðvelda fólki sem hingað kemur að læra málið.

Niðurstaða Linu Hallberg í áðurnefndri BA-ritgerð var: „Það má með sanni segja að íslenska ríkið hafi hingað til því miður ekki staðið sig vel á þessu sviði og sýni mikið áhugaleysi í innflytjendamálum.“ Þetta dæmi sýnir vandann í hnotskurn – enginn telur sig bera ábyrgð. Við hljótum að geta gert betur.

Málfar ökuprófa

Í athyglisverðri umfjöllun í Stundinni heldur reyndur ökukennari því fram að málfar ökuprófa „villi um fyrir venjulegu fólki. Texti sé uppskrúfaður og úr takti við almenna málnotkun“. Hann segir: „Ég kom einhvern tíma að máli við þá sem stjórnuðu ökunámsdeildinni hjá Samgöngustofu og benti á þetta. Ég stakk upp á að það yrði fenginn rýnihópur fólks á prófaldri til að lesa yfir prófin og gera athugasemdir. Hvað heldurðu að þeir geri, þessi gáfnaljós? Þeir vísuðu málinu til Íslenskrar málstöðvar og að sjálfsögðu fengu þeir út að það var alveg hundrað prósent rétt íslenska.“

En texti getur verið mjög torskilinn venjulegu fólki þótt hann sé „hundrað prósent rétt íslenska“, og þetta minnti mig á bréf sem ég sendi Samgöngustofu fyrir þremur árum:

„Ég heyrði í gær viðtal við starfsmann Samgöngustofu þar sem kom fram að fallprósenta á skriflegu ökuprófi hefði farið hækkandi á síðustu árum, þótt ekkert benti til að prófin hefðu þyngst. Þetta rifjaði upp fyrir mér að fleiri en einn hafa nefnt það við mig nýlega að málfarið á spurningum í skriflega prófinu sé mjög fjarri daglegu máli og valdi oft vandkvæðum fyrir þá sem ekki eru þeim mun sterkari í íslensku. Athugasemdir við færslu mína um þetta efni á Facebook sýna að ég er ekki einn um þá skoðun að málfar spurninga á ökuprófi sé óeðlilega tyrfið og spurningarnar ekki til þess fallnar að draga fram raunverulega kunnáttu próftaka í námsefninu.

Nú hefur verið mikil umræða um að lesskilningi unglinga fari hrakandi. Spurningin er hvort hækkuð fallprósenta á að einhverju leyti rætur að rekja til versnandi lesskilnings. Það er vitaskuld áhyggjuefni ef lesskilningi fer hrakandi en það ætti ekki að leiða til þess að fleiri falli á ökuprófi. Það hlýtur að vera meginatriði að fá fram raunverulega kunnáttu fólks. Sú kunnátta fæst örugglega frekar fram með spurningum sem eru á einföldu og auðskiljanlegu máli en með torskildum spurningum sem próftakar læra svörin við utanbókar – án þess að skilja endilega hvað í þeim felst.

Faðir sem hafði verið að aðstoða seinfæra dóttur sína við undirbúning ökuprófsins talaði sérstaklega um það við mig hvernig orðalag spurninga hefði þvælst fyrir dóttur hans og valdið því að hún fékk rangt fyrir spurningar um atriði sem hún kunni í raun og veru. Flóknar eða þvælnar spurningar með tvíræðu orðalagi vefjast óhjákvæmilega meira fyrir fólki sem á undir högg að sækja af ýmsum ástæðum – er t.d. seinfært eða lesblint - án þess að slakari frammistaða þessa fólks á skriflegu ökuprófi þurfi að segja nokkuð um ökuhæfni þess og raunverulega kunnáttu í námsefninu.

Þar að auki er hætt við að spurningar af þessu tagi vefjist sérstaklega fyrir fólki sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Innflytjendum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum og trúlegt er að þeim innflytjendum sem þreyta ökupróf hafi einnig fjölgað verulega. Mikilvægt er að kanna hvort hærra hlutfall innflytjenda eigi þátt í hærri fallprósentu á ökuprófi, eða hvort fallprósenta í hópi innflytjenda sé hærri en hjá þeim sem eiga íslensku að móðurmáli. Sé svo bendir það til þess að ökuprófin mismuni innflytjendum á ómálefnalegan hátt og það er vitaskuld alvarlegt.“

Á sínum tíma fékk ég málefnalegt svar frá Samgöngustofu þar sem sagði m.a.:

„Þeir próftakar sem eiga í erfiðleikum með lestur s.s. eru lesblindir eða illa læsir hafa kost á að taka sérpróf þar sem reynt er að koma til móts við vandann með ítarlegri skýringum, aðstoð við að skilning eða upplestri. Við þurfum að þjónusta mikinn meirihluta þjóðarinnar með mismikinn lesskilning. Við erum með próf á erlendum málum fyrir þá nýbúa sem ráða ekki eða illa við íslenska textann. Við höfum próf á ensku, taílensku, pólsku, spænsku og norðurlandamálunum. Á öðrum málum er notast við túlka.“

„Fræðileg próf verða að vera réttmæt og áreiðanleg eins og gildir um öll próf og því reynum við að fremsta megni að hafa framsetningu og orðalag á þessum prófum sem næst eðlilegu málfari. Mikil vinna er lögð í samningu nýrra prófatriða og koma þar að m.a. fulltrúar ökukennara og eftir forprófun og villugreiningu eru þær settar í notkun. Einnig höfum við sent prófspurningar til málfarsgreiningar í Háskóla Íslands þar sem áhersla var lögð á að meta málfar og skýrleika spurninga. Meira en 10 ár eru síðan það var gert og ef til vill kominn tími á að setja þau í slíka greiningu aftur.“

Það er gott og blessað ef fólk getur fengið að taka próf á móðurmáli sínu. En það hefur ekki mikið upp á sig ef námskrár og námsefni er eingöngu til á íslensku eins og fram kemur hjá ökukennaranum. Þarna sé ég ekki betur en verið sé að mismuna fólki gróflega. Ég endurtek það sem ég sagði í bréfi mínu til Samgöngustofu:

„Sem málfræðingi finnst mér mjög slæmt ef tungumálið er notað til þess – þótt óviljandi sé – að mismuna fólki á einhvern hátt. Það er ekki til þess fallið að skapa jákvætt viðhorf til málsins, en ýmsar rannsóknir sýna að jákvætt viðhorf málnotenda, sérstaklega ungs fólks, til tungumálsins er eitt af því sem skiptir mestu máli fyrir framtíð málsins. Þess vegna hvet ég Samgöngustofu til að kanna hvort ástæða sé til að endurskoða framsetningu og orðalag spurninga í skriflegu ökuprófi og færa nær daglegu máli, þannig að kunnátta í námsefninu fremur en íslenskukunnátta ráði frammistöðu próftaka.“

„Butter & salt bragð“

Nói Síríus auglýsir nú í ákafa nýja vöru, Bíó Kropp, sem sagt er „með geggjuðu butter & salt bragði“. Ég þykist vita að stjórnendum fyrirtækisins sé kunnugt um að butter heitir smjör á íslensku. Ef þeim finnst eitthvað óheppilegt eða ólystugt að tala um smjörbragð ætti kannski frekar að huga að því að breyta vörunni en láta íslenskuna víkja. Orðið salt er vissulega skrifað eins á íslensku og ensku en í sjónvarpsauglýsingum er það borið fram sem enskt orð, ekki íslenskt.

Mér er hulin ráðgáta hvers vegna þarna er notuð enska en ekki íslenska. Eina gilda ástæðan væri sú að þetta væri framleitt til útflutnings eða einkum ætlað að höfða til ferðafólks. Það er þó ótrúverð skýring í ljósi þess að íslenska orðið BÍÓ er hluti af heiti vörunnar. Allt bendir því til þess að enska sé þarna notuð vegna þess að stjórnendum fyrirtækisins þyki það smart og söluvænlegt og líklegt til að höfða betur til neytenda.

Það er fyrirtækinu ekki til sóma að nota ensku í heiti á framleiðsluvörum sínum fullkomlega að ástæðulausu. Það gefur til kynna að íslenska þyki ekki nothæf þegar þarf að vekja athygli, t.d. setja nýja vöru á markað. Þetta grefur meira undan íslenskunni en við áttum okkur á í fljótu bragði vegna þess að það hefur áhrif á viðhorf almennings til málsins. Eftir að athygli var vakin á þessari auglýsingu sendi fyrirtækið frá sér yfirlýsingu. Það er þakkarvert. En í yfirlýsingunni kemur meginatriði málsins einmitt fram:

„Þegar þessi hug­mynd að Nóa kroppi kom upp, þá var horft meira til þess að tengja vör­una við þá stemmn­ingu sem hún á að skapa, sem er bíó, popp og auðvitað bragðið á vör­unni.“

Einmitt. Það er verið að búa til huggulega stemmningu og þá er notuð enska. Mér dettur ekki í hug að á bak við það sé einhver andúð á íslenskunni. Þetta er bara lýsandi fyrir þau ómeðvituðu viðhorf gagnvart íslensku og ensku sem eru alltof rík í okkur. Þessu þarf að breyta. En þetta mál sýnir að það skiptir máli að gera athugasemdir þegar okkur finnst íslenskan fara halloka fyrir ensku.

Óþol fyrir umburðarlyndi

Ég sé að Bakþankar Fréttablaðsins í dag fjalla að verulegu leyti um mig þótt ég sé ekki nefndur á nafn:

„Á dögunum þegar ég var á leið til vinnu var kynntur til sögunnar á RÚV íslenskufræðingur til að ræða um nýútkomna bók sína. Ég flýtti mér að skipta yfir á umfjöllun um heimaslátrun á annarri stöð í óþolinmæðiskasti.

Í starfi mínu hitti ég mikið af fólki sem er vart mælandi lengur á íslensku. Ensk orð og orðatiltæki eru því tamari en móðurmálið. Margir harma þetta en þessi íslenskufræðingur segir að um eðlilega þróun tungumálsins sé að ræða. Hin fræga þágufallssýki hljómar sem hunang í hans eyrum og ber vitni um aðlögunarhæfni málsins.

Það er til merkis um hækkandi aldur og geðvonsku að mér leiðist undanhald íslenskunnar. RÚV hefur algjörlega gefist upp gagnvart enskuslettum og beygingarvillum. Mér finnst það skrítið að íslenskufræðingur skuli reka flóttann og segja málvillur vera ásættanlega og eðlilega þróun.“

Það er athyglisvert að höfundur Bakþanka skipti yfir á aðra stöð um leið og farið var að tala um bók mína. Hann hafði sem sé engan áhuga á að hlusta á þau rök sem ég hafði fram að færa og gerir mér þess vegna upp skoðanir – og er svo sem ekki einn um það. Ég hef aldrei mælt því bót að nota ensk orð og orðatiltæki í íslensku – þvert á móti hef ég iðulega gert athugasemdir við enskunotkun, bæði á þessum vettvangi og annars staðar (m.a. í bókinni sem bakþankahöfundur vildi ekki heyra kynnta).

Vissulega má ýmislegt betur fara í umgengni fólks við tungumálið. Þannig hefur það alltaf verið. En sífellt tal um „undanhald“ íslenskunnar er ekki til annars fallið en skapa neikvætt viðhorf til málsins, sérstaklega meðal unglinga sem oftast eru skotmarkið í þessari umræðu. Haldið þið að það sé upplífgandi fyrir unglinga að sjá sífellt og heyra talað um að þau kunni ekki íslensku, mál þeirra sé uppfullt af enskuslettum og beygingarvillum, orðfærið fátæklegt o.s.frv.? Er þetta líklegt til að efla áhuga þeirra á málinu og fá þau til að þykja vænt um íslenskuna?

Bakþankahöfundur nefnir „hækkandi aldur og geðvonsku“ sem ástæðu fyrir óþoli sínu fyrir „undanhaldi“ íslenskunnar. En það er ekkert náttúrulögmál að óþol og skortur á umburðarlyndi fylgi hækkandi aldri. Við gamlingjarnir erum ekki eilíf og það er unga fólkið sem tekur við keflinu af okkur. Reynum að skilja það og málfar þess, hvetjum það til að nota málið sem mest – á þann hátt sem því er eðlilegt. Íslenska þess er kannski ekki eins og okkar íslenska, en hún er ekki heldur eins og íslenskan sem foreldrar okkar, afar og ömmur töluðu. Það er bara allt í lagi. Það er samt íslenska.

Kynþáttamörkun

Hugtakið racial profiling er nýkomið inn í umræðuna hér á landi. Með því er átt við það þegar kynþáttur og/eða húðlitur er notaður til þess að skilgreina einstaklinga eða hópa fólks og mis­munun gagnvart þeim réttlætt á þeim forsendum. Slík flokkun fólks byggist oft á ómeðvitaðri hlutdrægni. Í löggæslu birtist þetta með þeim hætti að einstaklingur eða hópur fólks er grunaður um saknæmt athæfi vegna kynþáttar og/eða húðlitar frekar en sönnunargagna. Ýmsar þýðingar hafa komið fram á racial profiling, t.d. kynþáttamiðuð löggæsla, kynþátta­miðuð greining, kyn­þátta­blóri og sjálfsagt fleiri. Við teljum ekkert þessara orða heppilegt en mikilvægt að hafa gott íslenskt orð um þetta hugtak.

Enska orðið profiling merkir „the recording and analysis of a person's psychological and be­havi­oural characteristics, so as to assess or predict their capabilities in a certain sphere or to assist in identifying categories of people“ þ.e. „skráning og greining á sálrænum eiginleikum og hegðunarmynstri einstaklinga, í þeim tilgangi að meta eða spá fyrir um færni þeirra á til­teknu sviði eða hjálpa til við flokkun fólks“. Orðið er notað í ýmsum samböndum – ekki bara racial profiling heldur líka criminal profiling, gender profiling, age profiling o.fl. Þess vegna væri æskilegt að eiga íslenska samsvörun sem hægt væri að nota, með mismunandi forliðum, í öllum þessum samböndum.

Við leggjum til að orðið mörkun verði tekið upp sem þýðing á profiling. Sögnin marka merkir m.a. ‘merkja, auðkenna’, og með því að marka fólk eru því gefin eða ætluð ákveðin auðkenni og skipað í ákveðinn flokk. Verknaðarnafnorðið mörkun er svo myndað af marka. Við teljum að það nái merkingunni í profiling vel – það er verið að marka (e. profile) tiltekna einstaklinga eða hópa, skilgreina eiginleika og hegðun þeirra, gefa þeim tiltekið mark (e. profile). Hugtakið racial profiling má því þýða sem kynþáttamörkun. Á sama hátt má þýða criminal profiling sem afbrotamörkun, gender profiling sem kynjamörkun, age profiling sem aldursmörkun o.s. frv. Til að átta sig á hvernig orðið væri notað má vitna í nýlegar fréttir.

Í frétt á mbl.is 17. maí segir: „„Þetta er engu að síður mikið áfall fyr­ir dreng­inn,“ sagði Sig­ríður og bætti við að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða lög­gæslu að ræða.“ Í Fréttablaðinu sama dag segir: „Arn­dís Anna spurði um kyn­þátta­miðaða lög­gæslu [e. Ra­cial profiling] innan bæði lög­­reglunnar og sér­sveitar.“ Í Kjarnanum sama dag segir: „Segir ekki um kynþáttamiðaða lög­gæslu að ræða.“ Auðvelt væri að skipta hér kynþáttamiðaða löggæslu út fyrir kynþáttamörk­un: „„Þetta er engu að síður mikið áfall fyr­ir dreng­inn,“ sagði Sig­ríður og bætti við að ekki hafi verið um kynþáttamörkun að ræða.“ „Arn­dís Anna spurði um kynþáttamörkun [e. Ra­cial profil­ing] innan bæði lög­reglunnar og sér­sveitar.“ „Segir ekki um kynþáttamörkun að ræða.“

Þótt umræða um racial profiling sé ný hér á landi má búast við að hún skjóti oftar upp kollinum á næstunni og eigi eftir að verða meira áberandi. Þess vegna teljum við mikilvægt að lipurt og lýsandi íslenskt orð um þetta hugtak komi fram sem fyrst og festist í sessi. Við teljum að orðið kynþáttamörkun henti vel í þessu skyni og hvetjum þau sem fjalla um þetta efni á opinberum vettvangi til að nota það orð – með enska hugtakið innan sviga í fyrstu ef þörf þykir. Vitanlega kann þetta orð að hljóma framandlega í fyrstu eins og ný orð gera venjulega, en komist það í einhverja notkun mun það án efa venjast fljótt.

Íslensk málnefnd

Íslensk málnefnd var stofnuð árið 1964. Hlutverk hennar er samkvæmt lögum „að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu“. Nefndina skipuðu upphaflega þrír og síðar fimm menn, allt háskólakennarar í íslensku eða akademískir starfsmenn rannsóknastofnana. Árið 1989 var nefndin stækkuð að mun í þeim tilgangi að fá inn fleiri sjónarmið, og í hana bætt fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila. Vegna stærðar nefndarinnar þótti þá nauðsynlegt að hún kysi sér sérstaka fimm manna stjórn. Þetta skipulag stendur enn, þótt smávægilegar breytingar hafi verið gerðar á fjölda nefndarmanna og tilnefningaraðilum.

Í fullskipaðri málnefnd sitja nú 16 manns. Tíu þeirra eru fulltrúar félaga og stofnana sem vinna með íslenskt mál á einn eða annan hátt. Þetta eru Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Samtök móðurmálskennara, Rit­höf­unda­samband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, Íðorðafélagið (fyrir hönd orðanefnda), Banda­lag þýðenda og túlka, Staðlaráð Íslands, Upplýsing (félag bókasafns- og upplýsingafræðinga) og Hagþenkir. Að auki er fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfé­laga og fulltrúi skipaður úr hópi innflytjenda, tveir fulltrúar samstarfsnefndar háskólastigsins, og svo formaður og varaformaður skipaðir af ráðherra. 14 af 16 nefndarmönnum nú eru með einhverja háskólamenntun í íslensku.

Þetta skipulag endurspeglar úrelt viðhorf til tungumálsins og hverjum það komi við. Það má segja að næstum allir nefndarmenn séu fulltrúar „framleiðenda“ (eða „eigenda“) tungumálsins, fólks sem hefur atvinnu af því að vinna með íslenskt mál, en fulltrúa „neytenda“ málsins, almennra málnotenda, vanti nær algerlega í nefndina. Því verður að breyta. Það mætti hugsa sér að í henni væru t.d. fulltrúar samtaka atvinnurekenda og launafólks, Ör­yrkja­bandalagsins, Samtakanna ´78, Kvenréttindafélagsins, Íþróttasambands Íslands, Heimilis og skóla, Lands­sam­taka íslenskra stúdenta, Sambands íslenskra framhaldsskólanema og Samtaka Pól­verja á Ís­landi. Þar með væru komnir jafnmargir fulltrúar „neytenda“ og „framleiðenda“ í nefndina.

Nefndin væri þá orðin 25 manna. Slík nefnd er vitaskuld of stór til að hægt sé að gera ráð fyrir að hún fundi oft eða fundir hennar verði skil­virkir. Hins vegar byði þessi skipan upp á að nefndinni yrði skipt í undirnefndir þar sem fjöl­breytt sjónarmið fengju að njóta sín í hverri nefnd. Þetta gætu t.d. verið fimm nefndir sem hver væri skipuð fimm manns og fjölluðu um mismunandi viðfangsefni. Ein nefndin gæti fjallað um stöðu íslenskunnar og íslenskan málstaðal, önnur um skólamál og málefni ungs fólks, sú þriðja um málefni fjölmiðla og atvinnulífs, sú fjórða um mál og mannréttindi með sérstöku tilliti til viðkvæmra hópa eins og samkynhneigðra og fatlaðs fólks, og sú fimmta um íslensku sem annað mál og málefni innflytjenda.

Formenn nefndanna fimm gætu síðan myndað stjórn Íslenskrar málnefndar. Til greina kæmi að endurraða í undirnefndirnar á hverju ári eða annað hvert ár og mikil­vægt væri að raða í nefndirnar eftir þekkingu eða áhuga á viðfangsefni þeirra, en jafn­framt þyrfti að gæta þess að mismunandi sjónarmið fengju að njóta sín í öllum nefndum. Ég er sannfærður um að þessi nefndarskipun gæti höfðað betur til almennra málnotenda en sú sem nú er, að núverandi nefndarfólki ólöstuðu. Málnefndin á sextugsafmæli eftir tvö ár, 2024 – það væri góð afmælisgjöf til hennar og íslenskra málnotenda að ný lög um nefndina tækju gildi á afmælisárinu.

Alla leið – yfir í ensku

Undanfarin laugardagskvöld hef ég horft á þættina „Alla leið“ í Ríkssjónvarpinu. Þetta hafa yfirleitt verið fjörugir og skemmtilegir þættir, en á þeim er einn stór galli: Það er slett óheyrilega mikilli ensku í þeim. Þar eiga bæði stjórnandi og gestir hlut að máli. Vitanlega væri fráleitt að gera kröfu um formlegt mál í léttum skemmtiþætti eins og þessum og ég geri ekki athugasemdir við ensk orð sem hafa verið notuð lengi og eru meira og minna komin inn í málið – orð eins og fíla og fílingur, agressífur, læf o.s.frv.

En öðru máli gegnir þegar heilu frasarnir eru teknir beint úr ensku án þess að nokkur nauðsyn sé á því. Í þættinum í gær var einu lagi t.d. lýst með því að það væri middle of the road, annað var painted by numbers, og það þriðja potential winner – og ýmis hliðstæð dæmi mætti nefna úr fyrri þáttum. Það er ekki nokkur vandi að orða allar þessar lýsingar á íslensku. Ég heyrði meira að segja ekki betur en orðið singer væri notað nokkrum sinnum í stað söngvari – vona að mér hafi misheyrst. Ég tek hér upp bút úr bók minni Alls konar íslenska – texta sem reyndar var upphaflega skrifaður í tilefni af söngvakeppni Sjónvarpsins fyrir nokkrum árum.

„Í þáttum um sérhæfð efni sem hafa afmarkaðan markhóp er kannski ekkert óeðlilegt að sletta stundum og nota erlend orð sem búast má við að áheyrendur þekki, enda er þá oft um að ræða orð sem ekki eiga sér íslenskar samsvaranir. En öðru máli gegnir um dagskrárliði þar sem vitað er að áhorfendur eru mjög margir, á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum – ekki síst ýmsa afþreyingar- og skemmtiþætti. Þar er í raun engin afsökun fyrir að nota slettur sem þar að auki eru iðulega alveg óþarfar. Vegna stöðu sinnar og hlutverks ber Ríkisútvarpið vitaskuld alveg sérstaka ábyrgð í þessu sambandi.

Notkun á slettum við slíkar aðstæður er óvirðing við íslenskuna – en líka við hlustendur. Það skilja nefnilega ekki allir Íslendingar ensku þótt svo sé oft látið í veðri vaka. Með því að sletta ensku ótæpilega í þáttum sem eru ætlaðir allri þjóðinni er stuðlað að málfarslegri stéttaskiptingu. Skiptingu í fólk sem er „hipp og kúl“ svo að notuð sé enskusletta, unga fólkið sem skilur enskusletturnar og hlær á réttum stöðum og svo öll hin – eldra fólk og aðra hópa sem af ýmsum ástæðum hafa ekki tileinkað sér tískuslettur samtímans. Við eigum á hættu að þetta fólk fyllist minnimáttarkennd eða skömm yfir því að skilja ekki flotta fólkið.“

Mér finnst þetta sem sagt ekki boðlegt. Við eigum kröfu á því að það sé töluð íslenska í sjónvarpi okkar allra.

Tungumál og vald

Af ýmsum ástæðum hef ég undanfarið verið dálítið upptekinn af því að velta fyrir mér tungumálinu sem valdatæki. Á þetta er sjaldan minnst í íslenskri málfarsumræðu en ef umræða undanfarinna áratuga er skoðuð er samt augljóst hvernig tungumálið hefur verið notað til að halda fólki niðri og gera lítið úr því – fólki sem átti undir högg að sækja í þjóðfélaginu. Ég hef enga ástæðu til að ætla að þetta hafi alltaf verið meðvitað. Þvert á móti – ég held að á bak við umvandanir og leiðréttingar liggi oftast einlægur áhugi á því að vernda og varðveita íslenskuna. En þetta hefur samt alltaf þau áhrif að spilla möguleikum þeirra sem standa höllum fæti til að nota tungumálið til að berjast fyrir bættri stöðu sinni.

Fyrir nokkrum árum kynnti ég mér svolítið það sem heitir forensic linguistics á ensku og hefur verið þýtt sem réttarmálvísindi – fræðin um notkun tungumálsins í sakamálum og fyrir dómstólum. Það er mjög áhugavert svið sem ekki hefur verið áberandi hér á landi en ætti sannarlega skilið meiri athygli. Í einni bók sem ég las um þetta efni var meðal annars fjallað um aðstöðumun almennra málnotenda og þjálfaðra lögmanna fyrir dómi. Lögmennirnir eru þjálfaðir í að beita tungumálinu á ákveðinn hátt og það gefur þeim málfarslega yfirburðastöðu í samskiptum við fólk sem hefur ekki þessa þjálfun. Auðvitað er í raun óhjákvæmilegt að fólk sem hefur menntun og reynslu á ákveðnu sviði standi betur að vígi á því sviði en allur almenningur.

En þetta rifjaði upp fyrir mér að einu sinni las ég uppskrift af yfirheyrslum þar sem lögmaður var að yfirheyra vitni í dómsmáli. Vitnið var af alþýðustétt, hafði ekki mikla formlega menntun eða æfingu í að lesa og skrifa formlegt mál. Lögmaðurinn var mjög fær og hafði áratuga reynslu á sínu sviði. Það var augljóst hvernig hann vafði vitninu um fingur sér og gat nánast fengið það fram sem hann vildi með mælskubrögðum og flókinni málbeitingu. Ég gat ekki betur séð en vitnið hefði staðfest eitt og annað sem það ætlaði sér örugglega ekki að staðfesta, einfaldlega vegna þess að lögmaðurinn hagaði orðum sínum á ákveðinn veg þannig að vitnið áttaði sig ekki á því hvað hann var að fara og gekk þannig í gildru. Málfarsgildru.

Það má auðvitað segja að lögmaðurinn hafi bara verið að vinna vinnuna sína, í þágu þess sem hann var fulltrúi fyrir – gera það sem hann var góður í. En það ætti samt að gera þá siðferðiskröfu til fólks sem hefur gott vald á málinu að það misnoti þetta vald ekki gagnvart þeim sem minna mega sín.

Skítamix og skítaredding

Um daginn var ég spurður hvort ég kynni ráð til að leysa ákveðið atriði í umbroti skjals í Word. Ég sagðist halda að kerfið byði ekki upp á neina leið til að leysa málið, en það væri hins vegar alltaf til einhver skítaredding. Í framhaldi af því fór ég að hugsa um þetta orð sem ég þekki vel og nota stundum. Það merkir eitthvað í átt við 'lausn sem ekki lýtur viðurkenndum reglum eða vinnubrögðum en gripið er til, oft til bráðabirgða, vegna þess að ekki er völ á öðru við tilteknar aðstæður'. Skylt þessu er orðið skítamix sem kemur fyrir í frásögn Fréttablaðsins 2010 af tilurð drykkjarins Mix:

„Það ku hafa verið bakarinn Björgvin Júníusson sem bjó þennan drykk til fyrstur manna með aðstoð vinnufélaga sinna. Fyrir ein jólin átti að vanda að leggja í appelsínugosdrykkinn Valash, en sá drykkur var að uppistöðu appelsínuþykkni en lítill hluti var úr ananasþykkni. Fyrir mistök barst efnagerðinni hráefni í drykkinn í öfugum hlutföllum, mest af ananasþykkni en lítið af appelsínuþykkni. Björgvin náði að blanda drykkjarhæfan mjöð úr þykkninu og kallaði til vinnufélaga sína til að smakka „skítamixið“ eins og hann kallaði útkomuna. Mönnum féll drykkurinn ágætlega en töldu ófært að kalla hann Skítamix svo niðurstaðan var einfaldlega Mix.“

Á ensku er talað um shit mix sem er eins konar ógeðsdrykkur búinn til með því að blanda saman ýmsum víntegundum. Ekki er ótrúlegt að upphafsmaður drykkjarins Mix hafi haft þetta í huga, en í íslensku hefur merking orðsins orðið miklu víðari. Það getur merkt svipað og skítaredding, en þó er skítamix líklega frekar notað um einhverjar áþreifanlegar lausnir (smíði, viðgerð, blöndun efna o.þ.h.). En skítamix er líka notað um t.d. eitthvert vafasamt athæfi sem er á mörkum hins löglega – eitthvað sem skítalykt er af. Af þessu hefur líka verið mynduð sögnin skítamixa.

Bæði skítamix og skítaredding eru óformleg orð eins og ýmis önnur með þennan fyrripart – koma sjaldan fyrir á prenti og finnast ekki í neinum orðabókum (skítamix er þó í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls). Alls eru 58 dæmi um skítamix og skítamixa á tímarit.is, það elsta frá 1995, og 87 dæmi í Risamálheildinni, það elsta frá 2010. Um skítaredding eru 25 dæmi um það á tímarit.is, það elsta frá 2005, og 69 í Risamálheildinni, það elsta frá 2004. Þetta eru því ekki gömul orð í málinu, a.m.k. ekki í ritmáli, en í ljósi þess hversu óformlegt þau eru kemur nokkuð á óvart að fleiri dæmi eru um þau úr umræðum á Alþingi en úr nokkurri annarri heimild.