Hin ýmsu

Íslensk lýsingarorð hafa bæði svokallaða sterka beygingu (góður / góð / gott) og veika ((hinn) góði/ (hin) góða / (hið) góða). Meginreglan er sú að sterka beygingin er notuð þegar lýsingarorðin standa sjálfstæð eða með óákveðnum nafnorðum (án greinis) – hann er góður, góð bók. Veika beygingin er notuð þegar lýsingarorðin standa með ákveðnum nafnorðum (þ.e. með ákveðnum greini) eða ábendingarfornöfnum – góða bókin, hin góða bók. Frá þessu eru þó ýmsar undantekningar. Beyging ýmissa fornafna og töluorða ber talsverðan svip af beygingu lýsingarorða, en þau hafa þó yfirleitt aðeins sterka beygingu. Undantekning er raðtalan fyrstur sem hefur einnig veiku beyginguna fyrsti, og svo raðtölurnar þriðji og fjórði sem aðeins beygjast veikt eins og ég skrifaði nýlega um.

Þó eru þess dæmi að fornöfn eigi sér veikar myndir, einkum óákveðna fornafnið ýmis. Í málfarsþætti í Þjóðviljanum 1958 birtist bréf þar sem segir: „Ég minnist þess ekki, að þeir, sem rætt hafa eða ritað um íslenzka tungu, hafi minnzt á orðtakið hinir ýmsu, sem sjá má og heyra daglega í ræðu og riti, jafnvel lærðra manna. En mér finnst þetta ein hin aumasta rasbaga í íslenzku máli […].“ Þarna er ýmis sem sé notað með ábendingarfornafni, í setningarstöðu þar sem lýsingarorð myndi hafa veika mynd (hinir góðu). En aðeins fáeinir tugir dæma finnast um sterku beyginguna í þessari stöðu, t.d. „Þetta ætlum við að rannsaka og sjá hve djúpt úr jörðu hinar ýmsar bergtegundir eru komnar“ í Morgunblaðinu 1936 og „Annars eru hinir ýmsir hlutar bílsins frá mörgum fyrirtækjum“ í Tímanum 1966.

Mér finnst þessi dæmi mjög óeðlileg en veika beygingin aftur á móti mjög eðlileg. Um hana eru hátt í 160 þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta í Skírni 1851. Það er athyglisvert að af 40 elstu dæmunum, frá 1850-1859, eru 36 úr Þjóðólfi en aðeins fjögur úr öðrum ritum. Á næsta áratug bætast við dæmi úr nokkrum öðrum ritum þótt áfram séu flest dæmin úr Þjóðólfi. Það leikur varla vafi á að þau má rekja til Jóns Guðmundssonar sem varð ritstjóri blaðsins síðla árs 1852, en dæmi um umrætt orðasamband fara að sjást í því árið 1853. Jón var ritstjóri Þjóðólfs til 1874 og eftir það fer dæmum um sambandið fækkandi í blaðinu. Það er líka ekki óhugsandi að áðurnefnt dæmi í Skírni sé einnig komið frá Jóni – hann var ritstjóri Skírnis 1852 en gæti einnig hafa komið nálægt árgangnum 1851 án þess að ég geti fullyrt það.

Ég sé ekki betur en allar hugsanlegar myndir veikrar beygingar af ýmis komi fyrir – í þremur kynjum, tveimur tölum og fjórum föllum. Eintalan er vissulega margfalt sjaldgæfari en fleirtalan en það eru þó hátt í 500 dæmi um hana, svo sem „Sömuleiðis að hinn ýmsi litur jurta og blóma, stafi frá áhrifum sólarljóssins á jurtalífið“ í Dagskrá 1897, „Skólar, verksmiðjur og hin ýmsa starfsemi gengur nú sinn vana gang“ í Vísi 1977 og „Ástæðan fyrir lyktinni er sú að kjötvinnslan Kjarnafæði, sem er í næsta húsi við Rúvak, hefur verið dugleg við að reykja hið ýmsa kjötmeti“ í Degi 1987. Það er rétt að hafa í huga að hið sama gildir um hina „hefðbundnu“ sterku beygingu orðsins, að eintalan er þar margfalt sjaldgæfari en fleirtalan, sem er skiljanlegt út frá merkingu orðsins.

Flest höfum við væntanlega lært að ýmis sé óákveðið fornafn, og í Málfarsbankanum segir: „Orðið ýmis er að uppruna fornafn og því er ekki talið æskilegt að segja „hinir ýmsu menn“ eða „hinir ýmsustu aðilar“ enda er ýmis þá sett í stöðu lýsingarorðs. Fremur: ýmsir menn, alls konar fólk, mismunandi aðilar o.s.frv.“ En ýmis er reyndar greint sem lýsingarorð í flestum uppflettiritum um fornmálið, t.d. orðabók Fritzners, Norrøn grammatikk eftir Iversen, fornmálsorðabókinni í Kaupmannahöfn o.v. Sigfús Blöndal greinir orðið líka þannig í Íslensk-danskri orðabók. Við það bætist svo tilhneiging orðsins til að stigbreytast, hinir ýmsustu, en væntanlega er þar samt ekki um raunverulega stigbreytingu að ræða eins og ég hef áður skrifað um.

Andstaðan við þetta orðalag virðist byggjast á því að sem fornafn „eigi“ það ekki að hafa þessa beygingu eða setningarstöðu. En það er auðvitað fráleitt að halda því fram að eitthvað sé athugavert við orðalag sem á sér 170 ára sögu í málinu og nærri 160 þúsund dæmi eru um á tímarit.is, og rúm 40 þúsund í Risamálheildinni. Í ljósi þess að orðið hefur komið sér upp fullkominni veikri beygingu, og er notað í dæmigerðri setningarstöðu lýsingarorða, finnst mér einboðið að breyta greiningunni og skilgreina ýmis framvegis sem lýsingarorð sem hafi sterka og veika beygingu eins og önnur orð í þeim flokki – og taka orðalagið hin ýmsu í sátt.

Pólitísk misnotkun tungumálsins

Í stjórnmálum er alltof algengt að tungumálið sé misnotað á einhvern hátt – merkingu orða hnikað til eða umsnúið á meðvitaðan hátt til að kasta ryki í augu almennings. Eitt slíkt dæmi rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég sá frásögn af framboðslista X-flokks og óháðra í ónefndu sveitarfélagi. Þetta er engin ný bóla – hægt væri að tína til ótal hliðstæð dæmi frá undanförnum áratugum og flestir stjórnmálaflokkar hafa tekið þátt í slíku samkrulli.

En hugsið nú aðeins: Hvað merkir eiginlega „óháðir“ í þessu samhengi? Hvernig getur sá hópur sem skilgreinir sig þannig verið óháður flokknum sem hann er í samstarfi við um lista? Auðvitað er ekki glóra í því. Þarna er verið beita blekkingum. Kannski ekki að yfirlögðu ráði – kannski erum við orðin svo vön þessari samvinnu „óháðra“ og annarra að við tökum ekki eftir því hvers lags rugl þetta er. En þarna er verið að misþyrma tungumálinu.

Nú þegar kosningar standa fyrir dyrum er mikilvægt að við veitum stjórnmálafólki aðhald. Látum það ekki komast upp með það að fela sig bak við misbeitingu tungumálsins.

Lagðir bílar

Á Facebook-síðu DV var nýlega eftirfarandi færsla: „„Þessi bíll var lika lagður beint fyrir utan gluggan minn í þrjá daga í vetur, hann var alltaf að vinka mér og vera óviðeigandi,“ segir kona sem gekk á manninn í samtali við DV.“ Í færslunni var hlekkjað á frétt í blaðinu á vefnum, þar sem var næstum orðrétt sami texti en með einni mikilvægri undantekningu: „„Þessum bíl var lagt beint fyrir utan gluggann minn í þrjá daga í vetur. Ökumaðurinn var alltaf að vinka mér og vera óviðeigandi,“ segir konan í samtali við DV.“ Í Facebook-færslunni var sem sé bíll var lagður en í fréttinni sjálfri bíl var lagt. En nefnifallið í Facebook-færslunni er ekki einsdæmi. Vorið 2018 mátti sjá á vef Ríkisútvarpsins fyrirsögn sem vakti talsverða hneykslun á samfélagsmiðlum: „Illa lagðir bílar töfðu slökkvilið í útkalli“. En rætur þessa orðalags ná samt mun lengra aftur.

Elsta dæmi sem ég hef fundi er í Sunnudagsblaðinu 1966: „Maðurinn, sem í fyrsta sinn á lífsleiðinni hafði verið gripinn fyrir ólöglega lagðan bíl, var naumast búinn að leggja frá sér heyrnartólið.“ Þetta er úr þýddri smásögu og gætu verið áhrif frá frumtexta. En næsta dæmi er úr Dagblaðinu 1977: „Við höfum verið með herferð gegn ólöglega lögðum bílum í um það bil fimm mánuði.“ Í Tímanum 1978 segir: „Lögregluþjónar hafa staðið fyrir framan bíóið seinustu þrjár vikur og reynt með litlum árangri að stugga við ólöglega lögðum bílum.“ Í Bæjarins besta 1992 segir: „Erfiðlega gengur stundum að moka götuna vegna illa lagðra bíla.“ Í DV 1999 segir: „Hvað ef slökkviliðið hefði ekki komist fram hjá illa lögðum bílunum?“ Í Morgunblaðinu 2014 segir: „Óviðunandi sé að stöðuverðir þurfi að ganga fram hjá ólöglega lögðum ökutækjum.“ Mun fleiri dæmi frá síðustu 40 árum mætti nefna.

Nú stjórnar sögnin leggja alltaf þágufalli í þessu samhengi þótt hún stjórni þolfalli í samböndum eins og leggja veg, leggja net o.fl. Í þolmynd verður þolfallsandlag að nefnifallsfrumlagi og því er sagt netin voru lögð, vegurinn var lagður o.s.frv. Þágufallsandlag heldur hins vegar falli sínu í þolmynd þótt það sé gert að frumlagi og því mætti búast við bílnum var lagt en ekki bíllinn var lagður. Málið er samt ekki alveg svona einfalt. Með sumum sögnum sem stjórna þágufalli í germynd má finna dæmi um bæði nefnifalls- og þágufallsfrumlag í því sem lítur út fyrir að vera þolmynd. Við segjum ég lokaði húsinu en bæði húsinu var lokað og húsið var lokað – hvort tveggja er gott og gilt. Munurinn er sá að húsinu var lokað er þolmynd, lýsir athöfn – húsinu var lokað kl. 10. En húsið var lokað lýsir ástandi – húsið var lokað þegar ég kom að því.

Í dæmum eins og húsið var lokað hefur því lýsingarhátturinn lokað orðið að lýsingarorði og setningin er germynd, ekki þolmynd. Sama mynstur má finna hjá fleiri sögnum, t.d. bjóða. Oft hefur verið amast við nefnifalli í setningum eins og ég var boðinn í mat og sagt að þar eigi að vera mér var boðið í mat. En þegar að er gáð kemur í ljós að þessar setningar merkja ekki alveg það sama – sú fyrri lýsir ástandi, sú síðari athöfn. Þegar litið er á fréttina í DV sem vísað var til í upphafi er alveg ljóst að verið er að lýsa ástandi – bíllinn hafði staðið fyrir utan gluggann hjá konunni í þrjá daga. Sama máli gegnir um önnur dæmi sem nefnd eru hér að ofan – það verður ekki betur séð en þar sé alltaf vísað til ástands fremur en athafnar. Það lítur því út fyrir að sögnin leggja sé að þróast í átt til sagna eins og loka, bjóða o.fl. þannig að bæði sé – eða verði – hægt að segja bílnum var lagt og bíllinn var lagður. Fleiri sagnir gætu verið á sömu leið.

Við mat á þessari nýju formgerð finnst mér skipta máli að hún er orðin meira en 40 ára gömul í málinu; hún á sér skýrar hliðstæður í hegðun annarra sagna; hún hefur ákveðið hlutverk, aðgreint frá hlutverki eldri formgerðar; og hún kemur ekki í stað eldri formgerðar nema að hluta. Og er þetta þá bara allt í lagi? spyrjið þið kannski. Ágætur málvöndunarmaður sagði einu sinni: „Málvillur er langoftast auðvelt að skilja og skýra, en þær batna lítið við það. Þær halda áfram að vera villur, þótt auðskildar séu eins og önnur mannleg mistök.“ Ég er að vísu ósammála því að „villur“ sem hafa lengi viðgengist og eru útbreiddar haldi áfram að vera „villur“, en þið getið auðvitað haft aðra skoðun á því. Ég er hins vegar sannfærður um að jafnvel þótt við viljum halda áfram að tala um „villur“ er mikilvægt fyrir okkur að skilja hvað er á ferðum – hvers vegna tiltekin breyting kemur upp. Þekking og skilningur er alltaf til bóta.

Að blasa við

Í Íslenskri orðabók er sögnin blasa skýrð 'sjást vel, liggja opinn og öndverður fyrir e-m'. Í Íslenskri nútímamálsorðabókeru gefin fjögur merkingartilbrigði sambandsins blasa við sem öll eru þó náskyld – sjást vel, vera beint fyrir framan eða fram undan. Aðalatriði í þessu er að sögnin merkir ekki bara 'sjást' heldur 'sjást vel', og annaðhvort blasir eitthvað við eða ekki. Þessar merkingarskýringar gefa sem sé ekki ástæðu til að ætla að eitthvað geti blasað við á mismunandi hátt. Ef sögnin er notuð í spurningum mætti því búast við að það væru /nei-spurningar (blasir þetta við þér?) en ekki spurningar með spurnarorði (hvernig blasir þetta við þér?).

Spurningar með hvernig eru samt algengar á seinustu áratugum. Elsta dæmið sem ég hef fundið er í Neytendablaðinu 1978: „Hvernig blasir neyzlusamfélagið við börnunum?“ Upp úr þessu sjást svo fleiri dæmi, t.d. í Helgarpóstinum 1980: „Hvernig blasir hún við manni, sem er bæði hluti af kerfinu og skriffinnskunni, og stendur utan þess?“ Í Morgunblaðinu 1987 segir: „En hvernig blasir þá nútíðin við út um þennan glugga minn sem ég talaði um?“ Í Ægi 1994 segir: „Hvernig blasir kvótaárið við þér?“ Í Fréttablaðinu 2009 segir: „hvernig blasir staða geðheilbrigðismála við henni í dag?“ Í Breiðholtsblaðinu 2016 segir: „Hvernig blasir Leiknir við þér sem félag?“ Svo mætti lengi telja.

En þetta kemur ekki bara fram í spurningum. Í Þjóðviljanum 1968 segir: „myndin af efnahagsástandinu getur hæglega verið slík, eða blasað þannig við mér […] að ég teldi gengisfellingu hreinlegustu og drengilegustu leiðina.“ DV 1999 segir: „Skyldi borgin í dag blasa þannig við stúlkunni sem kemur suður?“ Í 24 stundum 2007 segir: „Þetta blasir þannig við mér að þarna er um að ræða mjög veika einstaklinga sem þurfa stöðuga vöktun.“ Í þessum dæmum, eins og í spurningunum á undan, er blasa við notað í sömu merkingu og horfa við. Sú merking hefur verið að breiðast út frá því um 1980, þótt hefðbundna merkingin sé enn í fullu gildi og sennilega mun algengari.

Þótt forsetningin við sé langalgengust með blasa eru dæmi um aðrar, eins og fyrir. Í Lanztíðindum 1851 segir: „Það blasir fyrir hugskotssjónum manna, hversu áríðandi er að fá eindreigin vilja þjóðarinnar“. Í Ingólfi 1853 segir: „enda veiztu líka örnefnin á öllu hinu helzta, sem víðsýni vort Reykvíkinga lætur blasa fyrir oss.“ Þetta er nú að mestu horfið en fáein dæmi má þó finna frá síðustu áratugum. Í Morgunblaðinu 1991 segir: „Kommúnistinn viðurkenndi ástandið eins og það blasir fyrir öllum í dag.“ Í Munin 2007 segir: „Útsýnið þegar maður er svona nálægt toppnum er talsvert annað en það sem blasti fyrir manni þegar maður lagði í brekkuna í fyrsta bekk.“

Sambandi blasa fyrir virðist merkja það sama og blasa við – hvort tveggja er notað um fólk (blasir við/fyrir mér). En öðru máli gegnir um blasa mót(i). Það merkir 'snúa móti' og er sjaldnast notað um fólk. Í Fjölni 1835 segir: „Nýa strætið […] mátti verða fallegt stræti, því konúngsgarðurinn blasti rétt á móti því.“ Í Lögréttu 2008 segir: „Staðurinn, þar sem skriðan fjell, blasir móti norðaustanvindunum.“ Í Framtíðinni 1930 segir: „Eyðimörk tilverunnar blasti móti honum eins og að vanda.“ Þetta er einnig að mestu horfið en virðist hafa verið sérstaklega algengt í skáldskap. Ekki er langt síðan dægurlag með línunum „Við byggjum saman bæ í sveit / sem blasir móti sól“ var á allra vörum (e.t.v. á þarna fremur að vera brosir).

Er nálgun tískuorð?

Nafnorðið nálgun lítur út fyrir að vera myndað af sögninni nálga en sú sögn er sárasjaldgæf í germynd þótt miðmyndin nálgast sé algeng. Það er óvanalegt að -un-orð tengist miðmynd en ekki germynd en þó ekki einsdæmi – við höfum orð eins og afvopnun sem oftast merkir 'afvopnast' frekar en 'afvopna', blygðun sem tengist blygðast (germyndin blygða er löngu úrelt), sturlun sem tengist sturlast (germyndin sturla er ekki notuð í nútímamáli), og svo nýyrðið skólaforðun sem tengist forðast en ekki forða. Elsta þekkt dæmi um nálgun er frá 1823, en framan af var orðið mjög sjaldgæft – fram til 1950 eru aðeins 16 dæmi um það á tímarit.is og það er ekki að finna í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983. Oftast er merkingin sú að 'færast nær' í tíma eða rúmi, en einnig í skoðunum eða viðhorfum.

Fram til 1977 bætast svo við um 70 dæmi, mörg af sama toga en einnig er þar fjöldi dæma um orðið sem íðorð í verkfræði og stærðfræði, í merkingunni 'námundun' (approximation). En seint á áttunda áratugnum fer ný merking orðsins að birtast. Í Þjóðviljanum 1977 segir „Tveir stórsigrar, tvær ólíkar nálganir lausnar vandamálsins.“ Í Norðurlandi 1978 segir: „En þessi nálgun er hentug til að leysa aðsteðjandi vandamál kerfisins á forsendum þess sjálfs.“ Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Til þess að svara þeirri spurningu, hvort tiltekin fjárfesting sé arðbær, þarf þannig aðra nálgun.“ Í Morgunblaðinu 1979 segir: „Jónas Bjarnason sagði í samtali við Morgunblaðið, að þessi starfsaðferð væri ný nálgun, öðruvísi nálgun að þessum málum en verið hefur.“

Þarna er merkingin ekki bókstaflega 'það að nálgast', heldur fremur 'álit, sjónarmið' eða 'aðferð, aðferðafræði'. Þetta verður sérstaklega skýrt þegar farið er að tala um nýja nálgun og öðruvísi nálgun eins og í síðasta dæminu. Vorið 1982 skrifaði Óskar Guðmundsson grein sem heitir „Kvennaframboðið – Tilraun til „nálgunar“ í Þjóðviljann. Þar segir m.a.: „Með aðstoð tímans og vatnsins vonast ég til að það sem á nútíma máli er kallað nálgun lukkist að einhverju marki.“ Þetta orðalag, sem og gæsalappirnar í titli greinarinnar, sýna að þessi notkun orðsins hefur verið ný, en þó farin að breiðast nokkuð út. Sú útbreiðsla hélt áfram næstu árin og tók stökk á miðjum tíunda áratugnum og síðan þá hefur verið nokkuð jöfn og stöðug aukning í notkun orðsins – árið 2013 voru dæmin t.d. rúmlega 11 sinnum fleiri en 20 árum áður, 1993.

Það er auðvitað ekkert að því að nota nálgun í þessari merkingu. Jafnvel kringum 1980, þegar fyrst fer að bera á henni, hefði varla verið ástæða til að gera athugasemd við hana vegna þess að hún er svo nálægt eldri merkingu. En þó svo væri ekki myndi 40 ára saga og mikil tíðni þessarar notkunar duga til þess að afla henni viðurkenningar. Hún er líka komin inn í orðabækur – í Íslenskri orðabók er orðið skýrt 'það að nálgast, kynnast, greina' og í Íslenskri nútímamálsorðabók 'það að nálgast eitthvað, aðferð til lausnar'. Mér fyndist reyndar eðlilegt að brjóta þessar skýringar upp og segja að 'greina' og 'aðferð til lausnar' sé sérstök merking, dálítið annað en 'það að nálgast eitthvað'.

Hins vegar má vel halda því fram að þegar tíðni orðs af þessu tagi, sem ekki vísar til neinnar nýjungar, eykst hundrað og fertugfalt á 40 árum (úr 64 dæmum 1970-1979 upp í 8925 dæmi 2010-2019 á tímarit.is) megi alveg huga að því hvort ekki sé ástæða til að nota stundum annað orðalag.

Nýjungar í orðfæri um bækur og lestur

Iðulega hafa tæknibreytingar og þjóðfélagsbreytingar áhrif á orðfæri okkar um hversdagslegar athafnir og hluti. Stundum leiða þær til þess að orð hverfa úr málinu vegna þess að fyrirbærið sem þau vísuðu til verður úrelt án þess að nokkuð komi beinlínis í staðinn. Þannig eru t.d. orð sem tengjast fráfærum og hjásetu horfin úr málinu í þeim skilningi að þau eru ekki lengur í virkri notkun þótt þau varðveitist vitaskuld á bókum. Í öðrum tilvikum, t.d. þegar ný tækni leysir eldri tækni af hólmi, geta orð úr eldri tækni haldist þótt tengslin við upprunann rofni. Þannig er t.d. með sögnina elda sem er leidd af nafnorðinu eldur enda var matur áður soðinn eða steiktur yfir opnum eldi. En nú hefur merking sagnarinnar víkkað og hún merkir 'búa til mat' án þess að eldur þurfi nokkuð að koma þar við sögu.

Annað dæmi má taka af nafnorðinu sími sem í fornu máli merkti 'þráður' en var tekið upp skömmu fyrir 1900 í merkingunni 'telefón' enda voru loftlínurnar, þræðirnir, þá helstu einkenni símans. Þegar þráðlausir símar komu til sögunnar voru þeir áfram kallaðir símar þótt tengslin við upprunann væru þar með rofin. En til að greina nýju tæknina frá þeirri eldri var upphaflega talað um farsíma, gsm-síma eða gemsa. Svo komu snjallsímar til sögunnar og nú eru þeir orðnir normið, þannig að sími merkir oftast 'snjallsími'. „Gamaldags“ símar sem eru tengdir við línu eru á útleið en ef þörf krefur er hægt að tala um þá sem fastlínusíma, borðsíma eða eitthvað slíkt. En þeir hafa misst stöðu sína sem sjálfgefið merkingarmið orðsins sími.

En hvað á að gera þegar ný tækni breiðist út en sú eldri er samt enn í fullu gildi? Þetta kemur upp í tengslum við bækur og lestur. Til skamms tíma mátti skilgreina bók sem 'samanheft blöð (með kápu eða spjöld utan um), auð, skrifuð eða prentuð, ætluð til að skrifa (teikna) eða lesa í' eins og segir í Íslenskri orðabók. En þessi skilgreining er úrelt. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er því bætt við að bók geti verið 'á rafrænu formi' til að ná utan um rafbækur en það dugir ekki heldur, því að nú eru hljóðbækur orðnar mjög útbreiddar. Þessi orð, hljóðbók og rafbók, eru í sjálfu sér mjög lipur og enginn vandi að nota þau. Vandinn skapast þegar þarf að tala um „hefðbundnar“ bækur og greina þær frá hljóðbókum og rafbókum – hvað á að kalla þær?

Ég hef séð ýmis orð notuð í þessu skyni, t.d. pappírsbækur, prentbækur og físískar bækur. Bæði pappírsbók og prentbók eru gömul orð, upphaflega notuð til annarrar aðgreiningar. Orðið pappírsbók er a.m.k. frá 17. öld og var notað til að greina bækur sem voru skrifaðar eða prentaðar á pappír frá skinnhandritum. Orðið prentbók er a.m.k. frá 19. öld og var notað til að greina prentaðar bækur frá handskrifuðum bókum. Mér finnst prentbók heppilegasta orðið til aðgreiningar frá rafbók og hljóðbók – það er stutt og lipurt, tvö atkvæði eins og hin. Eftir sem áður er auðvitað sjálfsagt að nota bara bók þar sem aðgreiningar er ekki þörf – og sjálfgefin merking orðsins er enn sem komið er 'prentbók' þótt það kunni að breytast í náinni framtíð, eins og gerst hefur með orðið sími.

En ekki eru öll vandamál þar með leyst. Hvaða orð eigum við að nota um „neyslu“ hljóðbóka? Get ég sagt ég var að lesa Sextíu kíló af kjaftshöggum ef ég hlustaði á hljóðbókina? Í Íslenskri orðabók er merking sagnarinnar lesa sögð vera 'ráða úr leturtáknum (þannig að úr verði samfellt mál, orð og setningar)' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skilgreiningin 'greina orð úr bókstöfum; ráða í texta eða tákn'. Séu þessar skilgreiningar teknar bókstaflega er ljóst að sögnin lesa nær ekki yfir það að hlusta á hljóðbók. En vitanlega er sá kostur fyrir hendi að láta sögnina elta tæknina, ef svo má segja, eins og sögnin elda gerði – segja að lesa merki 'beita sjón eða heyrn til að skynja undirbúinn texta' eða hvernig sem ætti að orða skilgreininguna.

En það getur líka þurft að greina á milli þess að nota prentbækur og hljóðbækur. E.t.v. er best að halda sig við sögnina hlusta um hljóðbækur en það er þó ekki alltaf einfalt. Nýlega heyrði ég sagt: „Þriðja hver bók sem er lesin á Íslandi er hlustuð.“ Þetta er í sjálfu sér auðskilið, en þarna er hlusta notuð á óvanalegan hátt. Í germynd tekur hún með sér forsetninguna á – við hlustum á eitthvað. Íslenska hefur ekki svokallaða „forsetningarþolmynd“ eins og t.d. enska hefur, í setningum eins og he was spoken to. Við getum ekki sagt *hann var talaður við heldur verðum að segja það var talað við hann. Þess vegna mætti búast við það er hlustað á þriðju hverja bók sem er lesin á Íslandi, en það hljómar ekki eðlilega. E.t.v. mætti sleppa forsetningunni með hlusta í þessari merkingu, eins og gert er þegar læknar hlusta sjúklinga, og segja ég hlustaði Sextíu kíló af kjaftshöggum.

Til að tjá það að um hefðbundinn lestur sé að ræða mætti hugsa sér að búa til sögnina sjónlesa – og þá hlustlesa um lestur hljóðbóka og snertilesa um lestur bóka á blindraletri. Ég legg samt áherslu á að ég set þetta fram sem hugmyndir en ekki beinar tillögur. Tilgangurinn með þessum pistli er ekki að koma með einhverjar töfralausnir enda enginn brýnn vandi á ferðum, heldur benda á dæmi um það hvernig samfélags- og tæknibreytingar hafa áhrif á tungumálið og hvernig þau álitamál sem upp koma í því sambandi leysast – eða hvernig hugsanlegt væri að leysa þau.

Langlokur sem enginn les?

Ég fékk þá athugasemd nýlega við einn af mínum löngu pistlum hér hvort unga fólkið sem ég tala oft um myndi nenna að lesa þetta. Það veit ég auðvitað ekkert um, og kannski er það ekki líklegt miðað við útbreiddar skoðanir á lestrarhæfni og lestraráhuga ungs fólks. Hvorugt skyldi samt vanmeta. En ég er ekki að skrifa þessa pistla fyrir unga fólkið sérstaklega. Tilgangur minn með þeim er ekki síst að ná til fullorðins fólks, jafnvel fólks á mínum aldri, sem ólst upp við það eins og ég að eitt tilbrigði málsins væri ótvírætt rétt en önnur röng, og jafnvel við það að hafa skömm á öðrum tilbrigðum en því rétta og líta niður á fólk sem notaði röngu tilbrigðin.

Mig langar nefnilega til að sýna fólki fram á að þetta er ekki svona einfalt. Íslenskan á sér ýmis tilbrigði og iðulega er hægt að skýra hvernig og hvers vegna þau koma upp, og það er það sem ég er að reyna að gera. Ég á þá hugsjón að auka jákvæðni, umburðarlyndi og virðingu í íslenskri málfarsumræðu og hef þá bjargföstu trú að skilningur og þekking á tilbrigðunum stuðli að umburðarlyndi gagnvart þeim og geri okkur víðsýnni. Þetta umburðarlyndi nái þá jafnframt til viðhorfa okkar til máls unga fólksins, geri okkur jákvæðara og skilningsríkara gagnvart því, og þannig komi pistlar mínir unga fólkinu að gagni hvort sem það les þá eða ekki.

En svo getur auðvitað verið að það sé ekki bara unga fólkið sem finnst þessar langlokur óárennilegar – ég hef ekki hugmynd um hversu mörg endast til að lesa þær og kannski eru það bara sárafá. Það er líka í góðu lagi því að ég er fyrst og fremst að gera þetta fyrir sjálfan mig. Þegar ég fór á eftirlaun auglýsti ég eftir hugmyndum að einhverju hobbíi sem ég gæti farið að stunda. Ég fékk tvær tillögur: ættfræði og golf. Hvorugt fannst mér sérlega fýsilegt, og ekki heldur bingóspil, harmonikuleikur, gömlu dansarnir eða hvað það nú er sem fólk heldur að hæfi gamlingjum. Þess vegna hélt ég bara áfram því sem ég hafði verið að gera – að skrifa um málfræði.

Nema nú er það hobbí en ekki vinna. Og ég gæti ekki hugsað mér skemmtilegra hobbí. Þótt ég vonist vissulega til að hafa einhver áhrif á viðhorf fólks eins og áður segir er það því ekkert aðalatriði fyrir mér hvort fólk endist til að lesa pistlana mína. Ég hef allavega ofan af fyrir mér með því að skrifa þá.

Hinir fjóru stóru funduðu í fjóran og hálfan dag

Í gær var ég að skrifa um það þegar búnar eru til sterkar myndir af raðtölum eins og þriðji, fjórði og fimmti sem venjulega hafa aðeins veika beygingu. Þetta gerist stöku sinnum þegar raðtölurnar standa í setningarstöðu þar sem sterk beyging lýsingarorða væri notuð, eins og Reykjavíkurdætur voru þriðjar á svið. En öfugt við raðtölur hafa frumtölur aðeins sterka beygingu. Við segjum fjórir menn, sbr. góðir menn, en ekki *hinir fjóru menn þótt sagt sé hinir góðu menn. Reyndar er alls ekki hægt að hafa neina mynd töluorða í þessari setningarstöðu því að það er ekki heldur hægt að nota sterku beyginguna – „„hinir fjórir menn“ er því rangt mál fyrir: þeir fjórir“ segir Valdimar Ásmundsson í Ritreglum (1899).

Það eru samt til dæmi um veika beygingu töluorðsins fjórir, í sambandinu (hinir/hinar/hin) fjóru stóru sem 142 dæmi eru um á tímarit.is og hefur verið notað um margs konar fereyki. Elsta dæmið er í myndatexta í Fálkanum 1938: „Efst á myndinni er húsið í München, þar sem „hinir fjóru stóru“, Hitler, Chamberlain, Mussolini og Daladier, komu saman á dögunum til þess að gera út um örlög Evrópu.“ Síðar var þetta iðulega notað um Bandaríkin, Sovétríkin, Bretland og Frakkland, og um leiðtoga þeirra. Í DV 2010 segir „Chelsea hefur átt mögnuðu gengi að fagna gegn hinum þremur liðunum af þeim fjóru stóru, Manchester United, Arsenal og Liverpool.“ Fjöldamargt fleira mætti nefna.

Af frumtölunum eru það bara fjórar þær fyrstu, einn, tveir, þrír og fjórir, sem beygjast í kynjum og föllum og hafa eingöngu sterka beygingu eins og áður segir – nema einn sem hefur veiku myndina eini en hún er þó yfirleitt frekar talin til lýsingarorðsins einn. En veik mynd kemur aðeins fyrir af fjórir sem er eðlilegt. Karlkyns- og kvenkynsmyndirnar, fjórir og fjórar, hafa sömu endingar og lýsingarorð – góðir, góðar. Það er því ekki óeðlilegt að að út frá sterku beygingunni sé búin til veik mynd hliðstæð veikri beygingu lýsingarorða – fjórir/fjórar – fjóru, sbr. góðir/góðar góðu. Myndirnar tveir/tvær og þrír/þrjár eru ólíkar lýsingarorðsmyndum og bjóða ekki upp á samsvarandi veika mynd. Við þetta bætist auðvitað rímið – fjóru – stóru.

En þetta er ekki eina afbrigðilega beygingarmyndin sem fjórir getur fengið. Sambandið fjóran og hálfan kemur fyrir 133 sinnum á tímarit.is, fyrst í Morgunblaðinu 1914. Dæmum um þetta fjölgar verulega á níunda áratugnum. Oftast er talað um fjóran og hálfan vinning en ýmis önnur nafnorð koma einnig fyrir í þessu sambandi. Gísli Jónsson tók þetta nokkrum sinnum fyrir í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu, og Haraldur Bernharðsson fjallaði um það í Íslensku máli 2004 og sagði: „Það er líka ekki alveg dæmalaust að töluorð fái lýsingarorðsbeygingu í nútímamáli; að minnsta kosti fær fjórir gjarna lýsingarorðsbeyginguna fjóran í stað töluorðsbeygingarinnar fjóra í þolfalli í karlkyni […] Það er […] nábýlið við lýsingarorðið hálfur sem truflar og hefur áhrif á töluorðið.“

Hér gegnir sama máli: Vegna þess að fjórir hefur dæmigerða mynd lýsingarorðs í sterkri beygingu hafa málnotendur tilhneigingu til að fara með það sem slíkt. Það gerist þó ekki nema fyrir ákveðin umhverfisáhrif. Í fyrra dæminu, fjóru stóru, er það rímið við stóru sem veldur – myndin fjóru kemur nær eingöngu fyrir í því sambandi þótt reyndar megi finna tvö dæmi um fjóru sterku á tímarit.is. Myndin fjóran sem lítur út eins og lýsingarorð í þolfalli eintölu karlkyni (sbr. stóran) kemur eingöngu fyrir með hálfan sem tengist væntanlega því að á eftir hálfan kemur nafnorð í eintölu en ekki fleirtölu. Málnotendum finnst þá að töluorðið á undan, fjórir, eigi einnig að hafa dæmigerða eintölumynd. Þetta getur eingöngu komið til með töluorðinu fjórir því að myndirnar tveir og þrír eru ólíkar lýsingarorðum eins og áður segir.

Þriðjar á svið

Í frásögn vefmiðils af söngvakeppni sjónvarpsins síðasta laugardagskvöld stóð: „Reykjavíkurdætur voru þriðjar á svið í kvöld með lagið Tökum af stað.“ Sumum brá við að sjá orðmyndina þriðjar og könnuðust ekki við hana sem beygingarmynd af raðtölunni þriðji eins og hún átti þó augljóslega að vera. Eins og allar aðrar raðtölur nema fyrstur og annar beygist þriðji eins og lýsingarorð í veikri beygingu þar sem fleirtala allra kynja endar á -u í öllum föllum (hinir góðu karlar, hinar góðu konur, hin góðu börn). Þarna ætti því að réttu lagi að standa Reykjavíkurdætur voru þriðju á svið í kvöld með lagið Tökum af stað. En hvernig í ósköpunum stendur á myndinni þriðjar? Er hægt að skýra hana á einhvern hátt?

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Fyrstur er eina raðtalan sem beygist bæði sterkt og veikt.“ Ef Reykjavíkurdætur hefðu riðið á vaðið í keppninni hefði staðið Reykjavíkurdætur voru fyrstar á svið, ekki *fyrstu á svið – sterka beygingin hefði verið notuð en ekki sú veika. Sama máli gegnir ef þarna hefði verið lýsingarorð en ekki raðtala – þá hefði staðið Reykjavíkurdætur voru fljótar / snöggar / snarar á svið, ekki *fljótu / *snöggu / *snöru. Ef Reykjavíkurdætur hefðu verið næstfyrstar á svið hefði staðið Reykjavíkurdætur voru aðrar á svið, enda er það eini möguleikinn eins og bent er á í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls þar sem segir: „Raðtalan annar beygist ekki veikt en hefur sömu stöðu í setningu og aðrar raðtölur.“

Í þessari setningarstöðu, Reykjavíkurdætur voru ___ á svið, kemur því alltaf orð í sterkri beygingu ef hún er í boði – af raðtölunum fyrstur og annar, og af öllum lýsingarorðum. Þegar búið er að segja hverjar voru fyrstar á svið og aðrar á svið mætti því virðast eðlilegt að segja hverjar voru þriðjar á svið. Það er eiginlega afbrigðilegt að fá þarna orð í veikri beygingu þannig að þriðjar er í raun og veru myndin sem búast mætti við – lítur út eins og dæmigerð sterk beyging lýsingarorðs í kvenkyni fleirtölu. Gallinn er bara að þessi mynd er ekki til sem hluti af beygingardæmi raðtölunnar þriðji í hefðbundnu máli – „Raðtölur aðrar en fyrstur og annar beygjast eins og lýsingarorð í veikri beygingu“ eins og segir í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Það má samt finna slæðing af sambærilegum dæmum. Í Tímanum 1960 segir: „Þriðjan og síðastan hittum við Þorstein Vilhjálmsson.“ Í DV 1986 segir: „Langstærstur hluti viðskiptavina Guðmundar Jónassonar eru útlendingar, þar eru Svisslendingar og Þjóðverjar fjölmennastir en þriðjir er Bretar.“ Í Helgarpóstinum 1995 segir: „Árið 1992 valdi Dallas Jimmy Jackson fjórðan.“ Í Vísi 2012 segir: „Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins, er þriðjur í röðinni.“ Á mbl.is 2014 segir: „Pollapönkararnir eru fjórðir á svið.“ Á fótbolti.net 2021 segir: „Hann var fimmtur á svið fyrir England og varð að skora.“ Í Vísi 2015 segir: „hann er tilnefndur til Óskarsverðlaunanna, fimmtur Íslendinga.“ Hér finnst mér veika beygingin, fimmti Íslendinga, vera frekar óeðlileg þótt slík dæmi megi vissulega finna.

Þetta er alls ekki tæmandi upptalning á þeim dæmum sem ég hef rekist á þótt þau séu vissulega ekki ýkja mörg. Þau sýna að ákveðinnar tilhneigingar gætir til að fella raðtölurnar að beygingu lýsingarorða – gefa þeim sterka beygingu þegar þau eru notuð í setningarstöðu þar sem lýsingarorð (og fyrstur og annar) myndu hafa sterka beygingu. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt og raunar jákvætt að því leyti að það sýnir tilfinningu málnotenda fyrir kerfinu – sýnir að þeir átta sig á því að þarna „ætti“ ekki að vera veik beyging og leitast við að bæta úr því. En jafnframt er þetta vissulega neikvætt að því leyti að þarna er gengið gegn málhefð – ekki bara búnar til orðmyndir sem ekki eru fyrir í beygingunni, heldur beinlínis búa til nýja málfræðilega formdeild í raðtölunum, sterka beygingu.

Ég get ekki neitað því að sem málfræðingi finnst mér þessi dæmi bæði merkileg og skemmtileg – og þau hljóma ekki sérlega óeðlilega í mínum eyrum. En þótt þau eigi sér eðlilegar og auðfundnar skýringar eru þau vissulega ekki í samræmi við málvenju og geta þess vegna ekki talist rétt mál.

Fjórð

Það virðist ekki vera fyrr en seint á 19. öld sem farið er að tala um einstaka hluta klukkustundar með sérstökum nöfnum. Þannig kemur orðið hálftími ekki fyrir á tímarit.is fyrr en 1870, og þótt talað sé um fjórðung stundar a.m.k. frá 1863 kemur sérstakt orð, stundarfjórðungur, fyrst fyrir 1874. Elsta dæmi um kortér er svo í Iðunni 1865 þar sem segir: „Oskar leit á úrið sitt; klukkan var 9¼; það voru þrjú kortér enn þangað til hann gat komizt um borð.“ Myndin korter kemur fyrst fyrir á tímarit.is í Vestra 1903: „Korteri síðar heyrðu þau James og Alika rödd Murbrigde í anddyrinu.“ Eldra dæmi er þó til í málinu; samkvæmt Ritmálsskrá Árnastofnunar kemur orðið fyrir í bréfi frá 1865 í bókinni Skrifarinn á Stapa: „Kl. eitt korter til 8 kom litla Sigga inn.“ Orðið korter/kortér er tökuorð úr dönsku – þótt venjulega myndin sé þar kvarter kom myndin korter einnig fyrir áður fyrr.

Stundum hefur verið amast við þessu orði og það ekki þótt nógu íslenskulegt. Í Kennslubók í enskri tungu eftir Halldór Briem frá 1875 segir: „Hún er eitt „kortjer“ yfir átta.“ Í neðanmálsgrein segir: „Á hreinni íslenzku væri þetta: Það lifa þrír fjórðungar hinnar níundu stundar“ (tekið úr Ritmálssafni Árnastofnunar). En málvöndunarmenn hafa þó yfirleitt sætt sig við þetta orð, kannski með smávegis óbragð í munni: „Ég býst ekki við, að þeir séu mjög margir, sem tala um stundarfjórðung, heldur aðeins korter (eða kortél), enda þótt það sé danskt tökuorð og ekki eldra en frá 19. öld“ sagði Jón Aðalsteinn Jónsson í Morgunblaðinu 1998, og Gísli Jónsson segir í Morgunblaðinu 1997: „Auk þess fær Jón Ormar Edwald væna plúsa fyrir góða skjátexta fyrr og síðar, og ekki gleymir hann orðinu fjórðungur í stað „kortér (korter, kortél)“.“

Það er kannski ekki undarlegt að korter hafi haft betur í baráttunni við stundarfjórðung sem er miklu lengra og stirðara orð. En reyndar hefur verið gerð tilraun til að innleiða lipurt íslenskt orð í þessari merkingu. Í Reykjavík 1903 segir: „Miss Loveday var eitthvað þrjár fjórðir að rannsaka alt í herberginu“ og á eftir fjórðir er vísað í neðanmálsgrein þar sem segir: „ein fjórð = ¼ klukkustundar. Mál vort hefir skort eitt handhægt orð yfir það.“ Næstu ár á eftir koma svo fyrir fáein dæmi um orðið fjórð, nær öll í Reykjavík en eitt þó í Fjallkonunni 1910: „Hann var þrjár fjórðir stundar á leiðinni.“ Samsetningin stundarfjórð kemur líka nokkrum sinnum fyrir, oftast í Reykjavík en einu sinni í Dagblaðinu 1906. Orðið er líka notað í annarri samsetningu sem vísar ekki til tíma í Reykjavík 1905: „Skipum og bátum er hér með aðvörun gefin um að koma ekki nær beitiskipinu en tvær mílu-fjórðir (½ mílu).“

Ég hef ekki fundið dæmi um að orðið fjórð hafi verið notað eftir 1910, og það virðist ekki hafa komist í neinar orðabækur. Þetta er samt ágætt orð sem íslenskan væri fullsæmd af, en líklega er of seint að koma því inn í málið í staðinn fyrir korter.