Leikur hlæjandi láns

Hér segir frá fjórum konum sem ólust upp í Kína við ólíkar aðstæður og eiga sér leyndardóma og harmsögur. Allar fluttust til Bandaríkjanna og þar vaxa dætur þeirra úr grasi, í samfélagi gjörólíku því sem mæðurnar eru sprottnar úr. Þær hittast reglulega í spila- og matarklúbbi, segja sögur og láta sig dreyma um betri tíð fyrir næstu kynslóðir. Dæturnar fjórar skilja hins vegar ekki viðhorf og siði mæðranna enda eru þær mótaðar af fortíð sem dæturnar vita lítið um. Leikur hlæjandi láns fjallar eftirminnilega um hyldýpisgjána milli kynslóða, milli austrænnar og vestrænnar menningar en ekki síður um samband móður og dóttur – það sem glatast og það sem varðveitist.

Amy Tan er bandarískur höfundur af kínverskum ættum og hefur sent frá sér allmargar metsölubækur. Leikur hlæjandi láns var fyrsta skáldverk hennar og hlaut gífurlega góðar viðtökur, var þýtt á 35 tungumál og eftir því gerð vinsæl kvikmynd, The Joy Luck Club.

Þetta er þriðja útgáfan af bókinni sem kom fyrst út á íslensku árið 1992. Í bæði skiptin sem hún hefur verið endurútgefin (1998, 2014) hefur þýðingin verið uppfærð. Eftirmáli um bókina og höfundarverk Amyar fylgir.

„Rúnar Helgi Vignisson hefur þýtt Leik hlæjandi láns og ferst það vel úr hendi. Íslenskan býður ekki upp á mállýskur eins og þær sem þróast með minnihlutahópum í stórum samfélögum, en Rúnari Helga tekst engu að síður að gera góða grein fyrir muninum á orðfæri kynslóðanna tveggja."

Einar Falur Ingólfsson Morgunblaðinu