Ást í meinum

Hér birtast á bók fimmtán nýjar smásögur eftir Rúnar Helga Vignisson. Sögurnar tengjast allar efnislega – raða sér í svokallaðan sagnasveig – en þær eiga það sammerkt að fjalla um náin samskipti. Höfundur spyr áleitinna spurninga um ást og kynlíf, hjónaband og barneignir, lífsstíl og heilbrigði og ekki síst um það að eldast saman. Hér er tekist á við lífið í öllum sínum fjölbreytileika, allt frá getnaði til dauða. Stíllinn leiftrar af kímni en þó er undirtónninn alvarlegur, enda gerist margt á langri lífsleið. Fólk getur verið býsna harðskeytt þegar það leitast við að eiga saman farsæla ævi. (Af bókarkápu)

Útgefandi: Uppheimar 2012.

Bókin hreppti Menningarverðlaun DV. Í umsögn dómnefndar segir:

„Ást í meinum geymir fimmtán sögur eftir Rúnar Helga Vignisson, sem er einn snjallasti sagnahöfundur landsins. Mannleg samskipti (eða skortur á þeim) eru hinn rauði þráður í sögum Rúnars Helga, og hann á ótrúlega létt með að draga upp í örfáum orðum persónur sem spretta ljóslifandi upp af síðunum. Þær persónur eru iðulega staddar í einhvers konar öngstræti eða ógöngum, þurfa að takast á við ást og angist, fantasíur og fóbíur, efasemdir og eftirsjá. Rúnar Helgi skrifar einstaklega fallegan stíl, sem iðulega brestur í svellandi húmor, en stílgaldurinn liggur ekki síður í hinu ósagða – því sem lesandinn bætir við þessar eftirminnilegu sögur.“

 

Ritdómar

Andlit á gluggaRúnar Helgi Vignisson er mikill meistari smásöguformsins og sýnir það enn einu sinni í þessari bók. Sögurnar virka einfaldar en eru það ekki. Það ætti að vera viðvörun framan á bókinni þar sem á stæði: Bannað er að lesa þessar sögur hratt og yfirborðslega – þær eru þaulhugsaðar!Rúnar Helgi hefur allt frá skáldsögunni Nautnastuldi (1990), markað sér sérstöðu í íslenskum samtímabókmenntum með því að búa til persónur sem eru ákaflega efnislegar, þar er enginn kartesíanskur aðskilnaður líkama og sálar því að þrá persónanna er líkömnuð, ást og kynlíf skipta miklu máli einkum ef hvorugt gefst og ofan á það bætist einkar nútímalegur ótti við hrörnun og dauða. Tilvistarleg angist er í brennidepli margra smásagnanna fimmtán í nýju bókinni Ást í meinum (2012) en líka ýmiss konar tilfinningarlegur jafnvægisgangur og vandræðagangur sem sagt er frá af hlýju eða íróníu.

Óraplágur

Sá sem tekur þessa bók í hönd og les titilinn býst ef til vill við fimmtán sögum af framhjáhöldum því ást í meinum er forboðin ást – en það er ekki málið. Fáir halda framhjá í sögunum en marga langar til þess. Það eru óraplágur sem herja á friðsæla millistéttarmenn í sögum eins og Þýðingar sem segir frá þýðanda nokkrum sem neyðist til að vera stöðugt að hækka og lækka á ofninum undir glugganum í vinnuherberginu. Ef hann er heppinn sér hann þá í leiðinni unglingsstelpu spegla sig fáklædda og strjúka í blokkinni á móti en hvort hún veit af sjónfróaranum er ósagt látið.

Enn flóknari hlutverkaleik og blætishyggju þarf til að blása í glæðurnar í kulnuðu sambandi mannsins sem fer með konunni í vinnustaðaferð á hótel Búðir í smásögunni Sporbaugar og heldur að verði kannski gaman um nóttina en það gengur ekki eftir. Ekki heldur hjá manninum sem hittir gamla kærustu á ráðstefnu og þó lostinn hafi einu sinni ráðið ríkjum í sambandi þeirra og þó að hún sé orðin enn stæltari og komin með sílíkonbrjóst er eitthvað sem virkar ekki og eitthvað sem er betur geymt í órunum en plágunni og í raun reynir á lesanda að ráða í það sem er í gangi í þessari sögu.

Sá sem les Ást í meinum verður óhjákvæmilega „andlit á glugga“. Seint gleymist þannig sagan Í meinum sagan um unga manninn sem splæsir sólarlandaferð á konu og börn og vill fá ríkulega fullnægingu í staðinn. Hann fær ekkert slíkt og árásargirni og gredda hlaðast upp. Sagan er sögð frá sjónarhóli konunnar sem horfir á tímasprengjuna tikka og endar á því að draga viðþolslausan manninn upp á sig uppi í íbúðinni á meðan smábörnin eru eftirlitslaus við sundlaugina. Það sem hún hefur í huga er mjög stuttur dráttur, það sem hann hefur í huga er klámmynd í fullri lengd. Lesandi bíður hins vegar eftir því að börnin drukkni á meðan þessi misráðni samningafundur er í gangi og spennan í textanum verður óbærileg.

Básar

Þrjár aðrar smásögur skera sig líka úr. Þær eru óhefðbundnar og erfiðari aflestrar en aðrar sögur í safninu og fylgja lesandanum þar af leiðandi eftir að bók er lokað. Ein heitir Misheitir og inniheldur samtal sem byrjar merkingarlega hvergi og endar hvergi heldur virkar eins og sneið úr veruleika sem reynist afar marglaga. Eins konar randalínusneið. Sagan rúmar tilviljanakennt samtal lítt tengdra manna um útivist, fjallaferðir, hjólreiðar, skíðaferðir, jöklagöngur o.sfrv. Hver sá sem hefur upplifað stigveldið milli þjálfaðra og ekki þjálfaðra fjallafara, hlustað á meting um gæði merkjaútbúnaðar og græja á fjöllum og skilið hvar hann sjálfur stendur í virðingarröð göngugarpa getur afkóðað þá spennu sem er á ferðinni í sögunni.

Eins koma margar sögur saman í hinum fámála en spennta texta Samferða þar sem þjálfuð og hæf kona leggur nátttúruna kvíðalaust undir sig í ferð fjallagarpa um Hornstrandir og stjórnar fjölskyldunni heima með sms skilaboðum af fjallstoppunum. Hún gnæfir við himin í ferðum sínum, líkamlega, en samband hennar við eiginmanninn er í upplausn og lesandi veit eiginlega aldrei inni í hvaða huga hann er í þessari undarlegu textahringekju.

Þriðja sagan Hinum megin við tjaldið felur í sér einstaklega þjappaða frásögn manns sem er alveg óvirkur í sögunni, hefur verið í aðgerð og liggur í afstúkuðu rúmi en sitt hvoru megin við tjöldin koma og fara aðrir sjúklingar og hann hlustar á sögu þeirra og samtöl við lækna og hjúkrunarfræðinga og milli bása. Eins og fréttamaður eða sagnaritari, höfundur eða lesandi miðlar sögumaður þessum samræðum. Allar þessar þrjár sögur fjalla um líkama og tilfinningar, ótta og flótta undan einhverju – kannski líkamanum.

Sagnasveigur?

Í baksíðutexta bókarkápunnar er það ítrekað að bókin sé sagnasveigur þar sem sögurnar „eigi það sammerkt að fjalla um náin samskipti. Ég get alls ekki kallað þessa bók sagnasveig af því að sögurnar tengjast alltof lauslega til að mynda heild – það ég fái séð. Hins vegar nálgast þær ástina, depurðina, sambandsleysi og samheldni úr mörgum áttum og áhugaverðum.

Ég mæli eindregið með því að þið verðið ykkur úti um þessa bók og lesið hana hægt og vel og endurlesið hana, sögu fyrir sögu, fram að þarnæstu jólum.

Dagný Kristjánsdóttir,
prófessor í íslenskum nútímabókmenntum, www.hugras.is

 

Á sálarháskaslóð

Smásögur Rúnars Helga Vignissonar fjalla um ástina en eiga lítið sameiginlegt með skvísubókmenntum eða blágráum fantasíum sumarsins. Í gegnum smásagnasafnið rennur samþættur þráður enda kallar höfundurinn heildina sagnasveig. Flestar sögurnar fjalla um fólk sem er að basla við að eyða saman ævinni. Sambandið milli þeirra er ef til vill svo sem nógu sterkt en forsendurnar, viðmiðin og grunnurinn eru á skakk og skjön og útkoman stundum allt annað en viðkunnanleg. Við bætist að Rúnar Helgi bregður upp íslenskum samtímaspegli með gönguferðum í óbyggðum, SMS-sendingum, árshátíðum með morðgátuleik og klámi í tölvupóstinum. Ósköp getur verið erfitt að vera manneskja og oft er það mesta bras.

Góð smásagnasöfn eru eins og sköpuð fyrir nútímann. Stystu sögunum má koma á eina síðu á spjaldtölvu og jafnvel lesa af farsíma. Lesturinn tekur enda og sagan er öll. Þetta er ólíkt lengri lesningu, en þegar verst gengur veit lesandinn enn ekki hvar hann er staddur þegar bók er upp lokið á bls. 43 eina ferðina enn.

Rúnar Helgi dregur upp skissur í fáum en hnitmiðuðum línum. Ekki endilega nákvæma frásögn en eftir sitja hughrif sem negla lesandann ofan í efnið. Hver saga verður beittari en mögulegt hefði verið í lengri samfelldri frásögn. Stemning er til dæmis alls ráðandi og frásögnin í gátustíl í sögunni um hjónin sem sitja ein með veisluglauminn í næstu íbúð – einhvers staðar úti á landi – hafa lent í einhvers konar deilum sem ekki er hægt að leysa af því að persónur og leikendur eru mikilvægir í plássinu og sagan verður aldrei sögð eða þá að hana má ekki segja þó það væri mögulegt. Allt snýst um atvik, viðburð sem við fáum aldrei að vita hver var. Atvikið er löngu liðið en skiptir perónurnar miklu máli, svo miklu að sögumaður hefur skrifað blaðagrein eða pistil á vef. Umfjölluninni er ekki vel tekið því efnið má ekki útkljá. Tap þorpsins, heildarinnar, yrði þá of stórt. Einkum þeirra sem hafa öll örnefnin á hreinu og reyna að rétta afvegaleiddum kortið.

Heildaryfirbragð sagnasveigsins Ást í meinum er lýsing á tilfinningum útkeyrðra nútímamanna sem ofan á annað ná ekki nema lausatökum á einkalífi sínu. Sumir þrá að vera saman en líður einmitt best í sundur, helst í daufu sambandi milli landshorna, koma svo miklu betur fram hvort við annað þegar þau eru í burtu hvort frá öðru og þrá hvort annað. Það er alveg afleitt að þurfa að kljást við hversdagsleikann og búa undir sama þaki.

Í nokkrum sagnanna er umfjöllunarefnið vandamál sem hvíla þyngst á konum, sifjaspell, fóstureyðing og krafan um að halda alltof mörgum boltum á lofti í einu; barnauppeldið, makinn, vinnan, áhugamálin og vinirnar. Þar eru vítin að varast þau eftir mætti og þegar allt er komið í kalda kol er best að iðrast, ganga endanlega frá brúðarkjólnum og veita sjálfum sér svo aflausn og hreinsun. Ókunnugir skilja líklega aldrei innstu rök ógæfunnar.

Rúnar Helgi glæðir textann lífi með kímni og varpar á atburðina ljósi undir óvæntum vinkli. Svo fjölbreyttar eru myndirnar að hægt er að lesa sömu söguna sem allegóríu, samtímaspegil, innlegg í jafnréttisumræðu og fyrirgefningu dauðasynda. Ræður hver á bókinni heldur.

Við aðra lestrargleði bætist svo að mikið yndi er að lesa svo vel stílaða íslensku. Málið á Ást í meinum er hreint og beint, fágað án þess að verða tilgerðarlegt. Auðvitað er ef til vill ekki við öðru að búast – Rúnar Helgi er reyndur rithöfundur og þýðandi og lektor í ritlist við Háskóla Íslands – en samt er ekki hægt að láta vera að minnast á hve ljúft er að lesa bókina. Besti mælikvarðinn er ef til vill að lesa upphátt og finna að textinn vöðlast hvergi uppí lesandanum heldur rennur þýðlega fram á tungu, tær og skýr. Sannkallaður yndislestur.

Solveig K. Jónsdóttir, Ský

 

Áhugaverðar sögur um samskipti

Eitt af bestu skáldum okkar Íslendinga hefur sagt að margir íslenskir rithöfundar kunni ekki að skrifa samtöl. Þessi gagnrýni á ekki við um Rúnar Helga Vignisson sem hefur nú sent frá sér bókina Ást í meinum, fimmtán smásögur sem eiga það sameiginlegt að fjalla um náin samskipti. Bókin er sérlega vel skrifuð og vert er að mæla með henni við fólk sem vill lesa áhugaverðar sögur um samskipti manna, m.a. ástina í öllum sínum furðulegu myndum.

Samtölin í bókinni eru trúverðug og eðlileg. Þau lýsa vel tilfinningum persónanna þegar það á við, varpa stundum ljósi á persónuleika þeirra, aukk þess að mjatla upplýsingum til lesandans og fleyta sögunum fram. Samtölin eru blessunarlega laus við tilgerðarlegar slettur.

Höfundurinn kann líka að búa til áhugaverðar persónur. Sumum höfundum hættir til að gera persónurnar svo heimskar – hugsanlega til að upphefja sjálfa sig – að lesandinn kærir sig kollóttan um þær og frásögnin missir marks. Rúnar Helgi er alveg laus við yfirlæti í persónusköpun sinni.

Sögurnar eru fjölbreytilegar, stíllinn látlaus og fágaður og útkoman er læsileg bók sem vekur mann til umhugsunar. Stíllinn er stundum gáskafullur en undirónninn oft alvarlegur og dregin er upp raunsönn mynd af brölti okkar mannanna á lífsleiðinni. Sögurnar eru um lífið í öllum sínum fjölbreytilegu myndum, allt frá getnaði til grafar. Til að mynda er fjallað af næmu innsæi um togstreitu í samlífi hjóna, barneignir, ást og ástleysi. Kynhvötin flækir oft samskipti sögupersóna, ýmist er í ökkla eða eyra eins og gengur. Vegir ástarinnar eru ekki alltaf fyrirsjáanlegir, til að mynda þegar ungur og fjallmyndarlegur maður fellur fyrir ellihrumri konu.

Ein af áhrifaríkustu sögunum fjallar um innri baráttu konu sem reynir að sætta sig við það að eiginmaður hennar er hommi og vill skilnað. Í annarri sögu ferðast áhyggjufullur eiginmaður með konu sinni í huganumum Hornstrandir og óttast að hún komi aldrei aftur vegna þess að hún hefur fengið nóg af kvíða hans, óánægju, þreytu og kvörtunum. Lesendur fá sinn skammt af „raðum slettum upp um alla veggi“ vegna þess að eiginmaðurinn snappaði.

Þetta er samt alls ekki enn einn blóðugi reyfarinn. Þvert á móti. Höfundinum þykir vænt um fólkið sem hann skapar og vill því vel, þótt það sé breyskt. Hann hefði til að mynda hæglega getað látið litla stúlku drukkna í einni sögunni, en af gæsku sinni lætur hann það ógert. Og þegar litið er yfir allt það sem höfundurinn hefur gert má sjá að verk hans er harla gott.

Bogi Þór Arason, Morgunblaðinu 11.8.2012

 

Látið ykkur falla

„Sambúðin er undirliggjandi þema í sagnasveig Rúnars Helga Vignissonar sem kominn er út á forlagi Uppheima. Kallast smásagnasafnið Ást í meinum og geymir fimmtán nýjar smásögur sem allar gerast á okkar tímum og fjalla með einum og öðrum þætti um samlíf fólks, oftast af gagnstæðu kyni sem býr saman en hér hljóma líka raddir af sjúkrastofu, lýst er samveru kvenna í sturtuklefa sundlaugar og víða skýst Rúnar inn og þreifar eftir glufum í lífi fólks.

Frásagnarhátturinn er ýkjulaus, hljóðlátur og vindur sögunum fram með samtölum og ytri lýsingum rétt eins og í innra lífi persóna, oftast bundið við eina miðju aðalpersónu. Hér er allt vel gert, höfundurinn talar ekki hástöfum heldur leiðir okkur af öryggi sögumeistara um þaulunninn sagnaheim af mikilli smekkvísi. Millistéttin er undir og hennar veiku vonir og djúpu þrár um erindi á jörðina og hamingju í sambúð. Á þessari fimmtán skrefa göngu yrkir skáldið upp margar eftirminnilegar smámyndir, sumar nokkuð bersöglislegar eins og söguefnið heimtar, alltaf með björtum augum umburðarlyndis og mildu brosi fyrir skoplegum hliðum. Fyrir bragðið glyttir víða í miklar tragedíur sem skáldið lætur sér duga að gefa í skyn.

Þetta er dæileg lesning, ekkert uppistand hér. Margt er litað lifnaðarháttum okkar, rétt eins og í sjónvarpssögum eru samskiptaæki nútímafrásagnar bíll og farsími nærri, heimurinn teygir sig til annarra meginlanda en þungamiðja, ytri lýsingar á híbýlum bara það allra nauðsynlegast enda er þungamiðjan samskiptamáti okkar í kulnuðum glóðum ástar, ösku liðinna vona. Viðkvæmt efni en afar vel með það farið.

Nú má fagna því að höfundar á borð við Guðmund Andra, Kristínu Eiríksdóttur og Rúnar leggi fyrir sig hið merkilega form smásögunnar. Eini óttinn er sá að þessar bækur fái ekki vigt í innkaupi lestrarhestanna, en því má bæta úr. Nú er einmitt sá tími að gott er að hafa við höndina vel unna texta sem heimta ekki lotulestur; þetta sögusafn er ekki svikinn héri,heldur afbragðs bókmenntaverk."

Páll Baldvin Baldvinsson, Fréttatíminn 22.6.2012

Sú ást er heitust...

Smásagnasafnið Ást í meinum eftir Rúnar Helga Vignisson inniheldur fimmtán smásögur sem allar fjalla um ástina í einhverri mynd og fylgifiska hennar bæði ljúfa og sára. Eins og nafn bókarinnar ber með sér eru sárari hliðar ástarinnar fyrirferðarmeiri í sögunum, svik, ofbeldi, sambandsleysi og kúgun, en inn á milli eru þó hugljúfari sögur eins og til dæmis sagan um ást tveggja kvenna sem kviknar í sturtuklefa sundlaugar.Annars er skilgreining Rúnars Helga á ástinni ansi víð, einskorðast ekki við kynferðislega ást eins og algengast er heldur eru hér sögur af ást tengdaföður til tengdasonar, ungs manns til gamallar konu sem hann sinnir heimilishjáp hjá og ást barns á foreldri og fleiri afbrigði ástarinnar skjóta hér upp kollinum. Sögurnar tengjast ekki innbyrðis, eiga það eitt sameiginlegt að fjalla um þennan drifkraft í mannlegum samskiiptum frá ólíkum sjónarhornum.Rúnar Helgi hefur sýnt það áður að hann hefur hið erfiða form smásögunnar fullkomlega á valdi sínu og hnykkir enn á því hér. Sögurnar eru hver annarri betur smíðaðar, allt er tálgað og fágað þar til það glansar á yfirborðinu en um leið komast þungir undirtónar vel til skila og þessar stuttu myndir segja mun lengri og dýpri sögur en orðin á blaðinu gefa til kynna. Óhugnaðurinn kraumar undir yfirborðinu og lesanda rennur á köflum kalt vatn milli skinns og hörunds við að skyggnast inn í sálarlíf þess „venjulega“ fólks sem sögurnar fjalla um. Maður er svo sannarlega manni úlfur í þessum sögum en um leið er gefið skýrt til kynna að þótt ástin geti vissulega valdið böli er hún þó þrátt fyrir allt það sem gerir lífið einhvers virði. Stíll sagnanna er mismunandi en alls staðar er fágunin alls ráðandi. Hér er ekki bruðlað með orðin og alveg ljóst að höfundur gerir sér skýra grein fyrir því að orð eru dýr, eins og Sigfús Daðason benti svo eftirminnilega á í frægu ljóði. Persónusköpunin er með eindæmum góð, hver einasta persóna öðlast líf á síðunum, jafnvel þótt henni bregði ekki fyrir nema í mýflugumynd. Þær eru misgeðfelldar en engin þeirra lætur lesandann ósnortinn.Í heild er sagnasveigurinn Ást í meinum meðal best heppnuðu smásagnasafna sem hér hafa komið út lengi og hrein nautn að lesa svo vel skrifaðar, vel byggðar og vel hugsaðar sögur um jafn vandmeðfarið efni og ástina.Niðurstaða: Eitt best heppnaða smásagnasafn sem komið hefur út lengi. Vel byggðar, vel skrifaðar og vel hugsaðar sögur sem snerta lesandann djúpt.“

Friðrika Benónýsdóttir, Fréttablaðið 13.7.2012