Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu

Á dögunum kom út eftir mig ný bók, Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu. Um er að ræða memóru (tilraun nemanda til að þýða enska hugtakið memoir) sem er ein tegund sannsögu.

Aðalpersónan í þessari sannsögu er ég sjálfur á ýmsum þroskastigum. Í kjölfar #metoo og eigin tilvistarglímu ákvað ég að takast á við kynjaumræðu samtímans. Úr varð þetta rit þar sem ég tefli nýjustu rannsóknum gegn aldagömlu tregðulögmáli í samfélaginu en þó kannski ekki síst í mér sjálfum.

Það má segja að ég geri hér upp karlmennskuhugmyndir mótunaráranna um leið og ég máta sjálfsmynd mína við þær áherslur sem nú eru efstar á baugi þegar kemur að karlmönnum, karlmennsku og samskiptum kynjanna.

Þetta er fyrsta bókin sem ég skrifa í sannsagnaformi en það felur í sér að tala í fyrstu persónu og nýta miðlunarleiðir frásagnarlistarinnar. Bókin útheimti mjög mikla rannsóknarvinnu en er þó fremur auðveld aflestrar (er mér sagt), þökk sé sannsagnaforminu.

Bókin er gefin út af Græna húsinu og fæst nú í öllum helstu bókabúðum.

Ræddi verk mín á einleikjahátíðinni Act Alone

Í ár var mér boðið að kynna verk mín á einleikjahátíðinni Act Alone sem fram fer árlega helgina eftir verslunarmannahelgina. Hún var nú haldin í 20.  sinn og sem fyrr var orkuboltinn Elfar Logi við stjórnvölinn.

Hátíðin stendur í þrjá daga og fara dagskráratriðin fram í samkomuhúsinu á Suðureyri. Þarna skapast ótrúlega góð stemmning enda er vel mætt á viðburðina. Í þetta sinn voru líka ýmsir hliðarviðburðir, s.s. tónleikar Mugisons. Oft eru valdir einleikir sem hafa vakið athygli syðra og núna var líka seilst til útlanda. Þarna var t.d. franskur trúður. Þá var eitt verk á pólsku (texti fylgdi).

Rithöfundum er yfirleitt boðið að kynna verk sín á hátíðinni og þetta árið vorum við í því hlutverki, ég, Ólína Þorvarðardóttir og Vestfjarðagoðið Eiríkur Örn Norðdahl. Við fengum hvert sína skáldastund.

Ég á 40 ára rithöfundarafmæli í ár og notaði tækifærið til þess að tala stuttlega um allar mínar frumsömdu bækur, Ekkert slor, Nautnastuld, Strandhögg, Ástfóstur, Í allri sinni nekt, Feigðarflan, Ást í meinum, Eftirbát og bókina sem er rétt ókomin úr prentun, Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu. Útgangspunkturinn var að tala um það í þeim sem mér finnst merkilegt núna. Minn viðburður, eins og hinna höfundanna, var vel sóttur. Ég lét gestina sitja í hring eins og ég væri að kenna ritlist. Ekki var þó um kennslustund að ræða. Þetta tókst vel og nokkur umræða skapaðist.

 

Grein í indverska tímaritinu Pratik

Nýjasta hefti indverska tímaritsins Pratik: A Magaine of Contemporary Writing er helgað skrifum um borgir. Þar á ég grein sem ber heitið „When You Don't Live in the City You Live in“ og fjallar um það þegar maður fjarlægist á vissan hátt sína eigin borg, þ.e. þá borg sem ferðalangarnir sjá. Greinin hefst svona:

Excuse me, I‘m looking for the Phallological Museum, can you tell me where it is, I can‘t seem to find it?” asks a woman who looks to be in her late 30s. She smiles a bit tentatively, as if prepared for an unpredictable reaction. 

I suppose I might have looked a bit flustered if this hypothetical woman had approached me to ask such a question, not because the museum evokes mixed feelings in a lot of people, but rather because I don‘t have the slightest idea where this well-known tourist attraction is located in my hometown. That‘s not due to plain forgetfulness or dementia (I hope), rather to the fact that I have never visited the place, nor have I ever had plans to do so. Still, I have read a wonderful essay about it by an American friend of mine, A. Kendra Greene, who wrote a whole book about the most obscure museums all around my country, many of which I had never even heard of, let alone visited.“

Ég fer síðan út í umræðu um það hvað túrismi gerir borgum og hvernig hann getur breytt menningarlandslaginu:

„All this begs the question whether we, locals and visitors alike, can ever get direct access to the authentic, if it exists at all. The very act of presenting one’s culture, especially if it’s done in a language that is foreign to the speaker or the listener or both, has a tendency to modify the thing that is being presented.“

Er eitthvað til lengur sem má teljast ekta? Eru þessi skrif ekta?

Heftið má nálgast á Amazon.

Viðtal um ritlistarnámið

Í lok maí birtist í Morgunblaðinu viðtal við mig í tilefni af því að rúm fimmtán ár eru nú liðin frá því að nám í ritlist var gert að fullgildri námsgrein. Það var árið 2008. Þó að ekki sé lengra síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og námið skilað af sér mörgum frambærilegum höfundum.

„Ég held að það fari ekki á milli mála að fólk sem hefur komið héðan hefur auðgað íslenskt bókmenntalíf,“ segi ég m.a. í viðtalinu og get þess að verk sem ritlistarnemar hafi sent frá sér séu að nálgast þrjú hundruð. „Við erum að fá mikið af efni sem við hefðum líklega ekki fengið ella,“ segi ég þarna.

Ég var spurður hvort höfundar yrðu ekki teknir alvarlega ef þeir væru ekki með háskólagráðu í faginu og svaraði þessu til: „Sem prófessor í ritlist ætti ég ekki að segja það sem ég ætla að fara að segja. En mér finnst mikilvægt fyrir íslenskar bókmenntir að höfundar verði til eftir ýmsum leiðum. Það hentar ekki öllum að koma í nám í ritlist. Ég vil að höfundar komi úr öllum geirum mannlífsins, til dæmis vantar okkur fleiri höfunda úr hópi sjómanna. Og þó að mörgum nemendum hafi vegnað vel þá er námið engin trygging fyrir því að þeir verði góðir höfundar...Ég held samt að það hjálpi öllum að fara hérna í gegn, ég fer ekkert ofan af því. Ég þykist hafa nógu mikla reynslu til að vita hvað það verða miklar framfarir á námstímanum.“

Ár nýjunga í ritlistinni

Í ritlistarnáminu kenndi ýmissa grasa á árinu 2023. Nokkrar nýjar smiðjur voru kenndar á árinu, tileinkaðar bókmenntagreinum og sjönrum sem ekki hafa verið í boði hjá okkur áður. Má þar nefna smiðju um sjálfsævisögur, smiðju um samtal ritlistar og ljóðlistar (ekphrastic ljóðagerð), um persónulegar esseyjur, um ritun ritdóma og um hamfarir og vistkreppu. Þar að auki voru boðnar nokkrar örsmiðjur sem leiddar voru af erlendum kennurum.

Gregory Harris

Frá Touroháskóla í New York kom Helen Mitsios og kenndi smiðju um staði og ljóð, frá American University í París kom indverska ljóðskáldið Biswamit Dwibedy og kenndi áðurnefnda smiðju um samtal ritlistar og ljóðlistar og frá Harvardháskóla kom Gregory Harris og las með nemendum bækur um umhverfismál sem þau jafnframt skrifuðu umsagnir um. Okkur finnst mikilvægt að fá til liðs við okkur kennara frá erlendum rithöfundasmiðjum til þess að veita nýjum straumum inn í námið. Yfirleitt eru þetta stuttar smiðjur og þó að nemendur skrifi þar á ensku getur það haft óvænt áhrif á sköpunina eins og indversk-bandaríska skáldkonan Jhumpa Lahiri komst að þegar hún fór að skrifa á ítölsku en um það hefur hún skrifað bókina Translating Myself and Others. Oft gerist eitthvað óvænt í sköpunarferlinu þegar fólk reynir að orða hugsun sína á öðru máli en móðurmálinu og þýðir hana svo yfir á sitt mál. Meginreglan er auðvitað sú að nemendur skrifa á íslensku í náminu enda erum við hluti af námsbraut í íslensku.

Fyrsta skáldsaga Þórdísar Helgadóttur vakti athygli.

Samstarfsmaður minn, Huldar Breiðfjörð, hefur verið greinarformaður frá síðustu áramótum og er það í fyrsta skipti sem þeirri formennsku er létt af mér síðan ég var ráðinn fyrir rúmum fimmtán árum. Ég gat því einbeitt mér að skrifum á fyrrihluta ársins þegar ég var í rannsóknaleyfi. Þar var unnið að ýmsum verkefnum sem flest eiga enn eftir að líta dagsins ljós. Ég tek svo aftur við greinarformennsku 1. júlí 2024.

Ritlistarnemar, núverandi og fyrrverandi, sendu frá sér á fjórða tug bóka á árinu 2023, ýmist sem höfundar eða þýðendur. Bækurnar raða sér í ýmsa flokka í Bókatíðindum og nálgunin er af ýmsu tagi. Á listanum eru skáldsögur sem vöktu talsverða athygli, þar eru barna- og ungmennabækur sem voru tilnefndar til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna, þar eru furðusögur, þar eru ljóðabækur, sannsögur, smáprósasafn og sjálfshjálparbækur. Að ógleymdum ástarsögunum sem hið nýstofnaða Ástarsögufélag sendi frá sér rétt fyrir jól. Þar sem ég kenni aðallega sagnagerð, hvort sem um er að ræða sannar eða skáldaðar sögur, er ánægjulegt að fylgjast með árangri útskriftarnema okkar á því sviði. Það færist einnig í vöxt að okkar fólki þýði en ég hef einmitt staðið fyrir þýðinganámskeiðum öðru hverju.

Það eru vissulega blikur á lofti hjá bókaþjóðinni, lesskilningi virðist hraka og við verðum vör við að tök ungs fólks á íslensku máli eru ekki að batna. Enn fáum við þó nemendur sem hafa framúrskarandi tök á íslensku máli. Neikvæð umræða um tekjumódel rithöfunda í kjölfarið á innkomu Storytel hefur sjálfsagt ekki verið ungu fólki sérstök hvatning til að leggja ritstörf fyrir sig. Sagan sem slík mun þó ævinlega halda velli að mínu mati, bara spurning í hvaða miðla hún leitar. Við höfum séð aukinn áhuga á handritsgerð á undanförnum árum og svarað honum með auknu framboði námskeiða í slíkum skrifum.

Flest árin hafa konur verið í miklum meirihluta í ritlistarnáminu, að jafnaði um tveir þriðju. Þetta endurspeglast í þeim bókum sem okkar fólk sendi frá sér á árinu, þar eru bækur sem konurnar koma að um þrisvar sinnum fleiri. Námið okkar hefur því stuðlað að því að fjölga kvenkyns höfundum og jafna hlutföllin. Í hausthefti Skírnis má einmitt sjá tölulega úttekt á íslenskum bókamarkaði þar sem fram kemur að kynjahlutföllin eru orðin nokkurn veginn jöfn þegar miðað er við fjölda útgefinna bóka. Konur eru víða í forystu í bókabransanum nú um stundir og breyttar áherslur fara ekki á milli mála. Það skekkir líka bókaheiminn að karlar virðast vera miklir eftirbátar kvenna þegar að lestri og bókakaupum kemur. Það mun hafa sínar afleiðingar á næstu árum og verður trúlega til þess að fjölga enn útgefnum bókum eftir konur. Almennt séð finnst mér vera meiri gerjun og framsókn í verkum kvenna en í verkum karlanna.

Að svo mæltu þakka ég öllum ritlistarnemum samstarfið á árinu sem er að líða og hlakka til samstarfsins á komandi ári. Megi ritlistin lifa enn um ókomin ár og íslensk tunga.

 

Alls konar aðferðir við ritlistarkennslu

Í byrjun árs sendi bókaforlagið Bloomsbury frá sér bókina A to Z of Creative Writing Methods þar sem ritlistarkennarar frá ýmsum löndum deila aðferðum sem að gagni mega koma við ritun skapandi texta.
Ég er einn þessara kennara og á þarna kafla um það hvernig nota má þýðingar, ekki síst það sem ég kalla sjónrænar þýðingar úr málum sem maður skilur ekkert í, við frumsamningu texta, oft með óvæntri útkomu.
Bókin er sett saman að frumkvæði ástralskra ritlistarkennara en þeir hafa fengið til liðs við sig marga sjóaða kennara aðra. Hér er því upplagt tækifæri fyrir þau sem vilja tileinka sér spennandi aðferðir við að laða fram óvæntar hugmyndir í ritlistarkennslu.

Þegar þýtt er úr millimáli

Nýlega kom út eftir mig grein um þýðingar úr millimálum, þ.e. um það þegar ekki er þýtt beint úr málinu sem bókin var upphaflega skrifuð á. Stundum kallað óbein þýðing. Greinin spratt úr ýmsu undarlegu sem skaut upp kollinum þegar þýddar voru sögur í ritröðina Smásögur heimsins. Þar munaði iðulega talsvert miklu á þýðingum, stundum var það meira að segja upp á líf og dauða því að í einni þýðingunni var persóna lifandi í lok sögunnar en dauð í frumtexta.
Við Íslendingar reiðum okkur mjög á enskar þýðingar þegar þýða þarf úr millimáli. Hjá þeim sem þýða á ensku vill hins vegar gæta menningarlegs yfirgangs sem birtist í því að þýðendur leyfa sér iðulega að víkja meira frá frumtexta en gengur og gerist. Það gera þeir meðal annars í krafti þess að enska er heimsmál og getur ráðið úrslitum um velgengni höfundar. Dæmi eru um að umdeildar enskar þýðingar úr framandi málum hafi síðan verið þýddar á íslensku.
Þar sem lítið sem ekkert hefur verið skrifað um þetta á íslensku lagðist ég yfir eitt og annað sem hugsað hefur verið um þetta annars staðar í heiminum. Og viti menn, málið reyndist miklu margslungnara en ég hafði ímyndað mér. Í ljós kom að slíkar þýðingar eru víða stundaðar enn þó að UNESCO mæli ekki með því. Nóbelsverðlaun hafa meira að segja verið veitt á grundvelli þeirra. Aðalástæða þess að enn er víða gripið til þýðinga úr millimálum er skortur á þýðendum úr tilteknum frummálum, ekki síst málum sem töluð eru í Asíu. Sá skortur er aðkallandi hér á litla Íslandi og við eigum satt að segja fáa eða enga þýðendur úr mörgum „stórum“ málum. Við yrðum því snöggtum snauðari ef þýðingar úr millimálum væru ekki stundaðar hérlendis og reyndar er það svo að mörg af grundvallarritum íslenskrar menningar hafa fyrst komið til okkar úr millimálum. Margar íslenskar bækur hafa verið og eru enn þýddar á aðrar tungur úr millimáli.
Vegna minnkandi áhuga á tungumálanámi gæti svo farið að við yrðum að reiða okkur enn meira á millimálsþýðingar úr ensku í framtíðinni sem getur verið viðsjárvert eins og ég rek í greininni. En ætli þýðing úr millimáli sé endilega lakari en þýðing sem er gerð úr upprunalega málinu? Hér er tilvalið efni í doktorsritgerð fyrir þýðingafræðing sem talar tungum.
Greinin mín heitir „Þegar þýtt er úr millimáli – Neyðarbrauð eða nauðsyn?“ og birtist í tímaritinu Milli mála sem gefið er út af Stofnun Vigísar Finnbogadóttur.

„Engin tunga bragðast eins“ – ritlistarannáll 2022

Gæði ritlistarnáms eru gjarnan metin út frá því hvernig nemendum vegnar í bókmenntaheiminum að námi loknu. Það er alls ekki eini mælikvarðinn, vel mætti t.d. nefna framfarir í þessu samhengi; öllum fer mikið fram á námstímanum, bæði sem lesendum og höfundum. En skoðum aðeins árangur nemenda í hinum harða heimi bókmenntanna á árinu 2022.

Heiða Vigdís Sigfúsdóttir. Ljósm. Fréttablaðið/Ernir

Árið byrjaði með því að forseti Íslands veitti Fríðu Ísberg, einum af okkar þekktustu útskriftarnemum, Íslensku bjartsýnisverðlaunin fyrir ritstörf sín. Þremur vikum síðar stóð nemandi sem þá var í miðju ritlistarnámi, Þórunn Rakel Gylfadóttir, í ræðupúltinu á Bessastöðum sem handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka fyrir söguna Akam, ég og Annika. Brynja Hjálmsdóttir hreppti síðan ljóðstaf Jóns úr Vör í febrúar fyrir ljóðið „Þegar dagar aldrei dagar aldrei“. Þess má geta að ljóð eftir Brynju var ávarp fjallkonunnar við 17. júní hátíðarhöldin i Reykjavík. Fríða Ísberg hreppti síðan Fjöruverðlaunin fyrir skáldsöguna Merkingu. Heiða Vigdís Sigfúsdóttir varð hlutskörpust í handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, með sagnasveignum Getnaði. Karítas Hrundar Pálsdóttir fékk viðurkenningu Íslenskrar málnefndar fyrir sögur á einföldu máli, ætlaðar byrjendum í íslensku, en þær er að finna í bókunum Dagatal og Árstíðir. Arndís Þórarinsdóttir var meðal þeirra sem tilnefnd höfðu verið til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs sem afhent voru í Helsinki 1. nóvember. Þá voru þau Arndís, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Dagur Hjartarson tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2022 og þær Arndís og Lóa Hlín þar að auki til Fjöruverðlaunanna. Ljóðsaga Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Allt sem rennur, hreppti Bóksalaverðlaunin. Árinu lauk svo með því að Fríða Ísberg hlaut hin virtu Per Olov Enquist verðlaun, sem miðast við unga höfunda, fyrir Merkingu.

Jakub Stachowiak

Margir núverandi og fyrrverandi nemendur aðrir gáfu einnig út bækur af ýmsu tagi, flest hjá viðurkenndum forlögum, önnur undir merkjum Blekfjelagsins, nemendafélags meistaranema í ritlist, enn önnur stóðu sjálf að útgáfunni. Sumar þessara bóka vöktu talsverða athygli. Þannig var ljóðabók Elínar Eddu Þorsteinsdóttur, Núningur, valin ljóðabók ársins af gagnrýnendum Morgunblaðsins. Ljóðabók hins pólskættaða Jakubs Stachowiaks, Úti bíður skáldleg veröld, var töluvert í umræðunni um höfunda af erlendu bergi sem hafa óðum verið að kveða sér hljóðs. Einnig vakti smásagnasafn Berglindar Óskar, Breytt ástand, verulega athygli, ekki síst fyrir það að innihalda sögur af ungu fólki í neyslu. Bloggfærsla Berglindar um svokölluð kúltúrbörn varði tilefni til mikilla umræðna um forréttindi í menningarlífinu undir lok ársins. Báðar eru þær Berglind Ósk og Elín Edda nýútskrifaðar og voru verk þeirra unnin að miklu leyti í náminu. Sama á reyndar við um fleiri verk sem út komu.

Árlega gefa nemendur út safnrit sem er eins konar útskriftarsýning þeirra. Í ár bar það heitið Takk fyrir komuna – hótelsögur og tengjast sögurnar og ljóðin í bókinni Hótel Sögu. Því var fagnað, sem og jólabók Blekfjelagsins, sem einnig kemur út árlega, með fjörlegum útgáfuhófum. Ritlistarnemar, núverandi og fyrrverandi, efndu líka til margra viðburða annarra.

Sérstaka athygli verkur hve vel konum úr náminu vegnar. Frá því að námið var sett á stofn hafa þær verið í miklum meirihluta í nemendahópnum og ef í því er fólgin vísbending verða konur mun fleiri meðal íslenskra rithöfunda en karlar áður en langt um líður.

Það er ánægjulegt fyrir mig persónulega að þetta góða fólk, sem og næstum allir útskrifaðir ritlistarnemar, skuli hafa verið hjá mér í ritsmiðjum á námstímanum. Þær eru orðnar allmargar bækurnar sem hafa verið unnar að einhverju leyti undir minni handleiðslu, frumsamdar og þýddar. Verkin eru gjörólík enda hefur markmið okkar alltaf verið að fóstra ólíkar raddir. „Engin tunga bragðast eins,“ eins og segir í fjallkonuávarpi Brynju Hjálmsdóttur. Rétt er að nefna að fjölmargir kennarar koma að náminu og eru flestir þeirra viðurkenndir höfundar. Fastir kennarar eru tveir, ég og Huldar Breiðfjörð sem nú um áramótin leysir mig af í hlutverki greinarformanns eftir tæplega 15 ára samfellda setu þar sem ég er á leiðinni í rannsóknaleyfi.

 

Leikur hlæjandi láns komin út sem hljóðbók

Leikur hlæjandi láns, sem hefur nú þegar fengið stöðu sígildra verka, er komin út sem hljóðbók í stórgóðum lestri Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur.

Bókin var mín fyrsta prentaða þýðing, kom upphaflega út árið 1992, en hafið ekki áhyggjur, Þuríður er ekki að lesa þýðingu byrjanda, því að bókin hefur tvisvar verið endurútgefin síðan og í bæði skiptin þykist ég hafa bætt þýðinguna. Myndin sem hér fylgir er af kápu nýjustu útgáfunnar sem kom út árið 2014 í tilefni af því að við fengum Amy Tan hingað til lands til að flytja fyrirlestur á ráðstefnunni Art in Translation. Hann flutti hún fyrir fullum sal í Hörpu.

Ég gæti haldið fyrirlestur um þessa bók en læt nægja að benda á hið sérstaka form hennar, þar skiptast fernar mæðgur af kínversku bergi brotnar á um að segja söguna. Bókin hefur oft verið kynnt sem skáldsaga en að mati höfundar er hér um svokallaðn sagnsveig að ræða. Það sem helst einkennir sagnasveiga er að sjálfstæðar smásögur tengjast í eina heild. Amy Tan er mikill sagnameistari og ég get lofað ykkur því að þið eigið mikið eyrnakonfekt í vændum. Bókina má nálgast hjá Storytel.

Þýðing á Rip Van Winkle

Út er komin þýðing mín á einni þekktustu smásögu bandarískra bókmennta, „Rip Van Winkle“ eftir Washington Irving. Sagan er frá 1819, árdögum smásagnagerðar í Vesturheimi og reyndar í heiminum. Í henni nýtir Irving þýska þjóðsögu til þess að segja sögu af manni sem sofnar í tuttugu ár og sefur af sér byltinguna sem leiddi til stofnunar Bandaríkja Norður-Ameríku.

Þýðing mín er ekki sú fyrsta sem birtist á íslenskri tungu því að árið 1966 birtist sagan í Vikunni en án þess að þýðanda væri getið. Sú þýðing er þó gjörólík minni og ætli munurinn á þeim sýni ekki með ótvíræðum hætti þá breytingu sem orðið hefur á íslensku máli en þó ekki síður á þýðingahefðinni. Oft á tíðum er þýðingin í Vikunni mjög frjálsleg og sums staðar er hún endursögn.

Með þýðingu minni fylgir inngangur þar sem ég fjalla um Irving og söguna. Hvort tveggja birtist í tímaritinu Milli mála sem gefið er út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Söguna má nálgast hér og innganginn hér.

Meðfylgjandi mynd er af styttu sem var afhjúpuð í Irvington, New Jersey, árið 2002 og sýnir Rip Van Winkle. Hann er með hálfopin augun eins og hann sé nývaknaður og hlutar af honum virðast renna saman við jörðina. Rip hefur gengið aftur í ýmsum gerðum allar götur, svo sem í bíómyndum, teiknimyndum, teiknimyndasögum og leikritum, enda eftirminnileg persóna sem hefur lifað með þjóðinni. Þess má geta að borgin Irvington heitir eftir Washington Irving.