Fröken Peabody hlotnast arfur

Fröken Peabody er ógift kona á miðjum aldri. Hún lifir fábreyttu lífi í Lundúnaborg, bundin yfir móður sinni. Dag einn sendir hún bréf til ástralskrar skáldkonu sem hefur heillað hana með seiðandi lýsingum. Skáldkonan svarar og fer að senda henni kafla úr skáldsögu sem hún vinnur að. Þar er fjallað um samkynhneigða skólastýru sem fer í viðburðaríkt ferðalag til Evrópu ásamt vinkonum sínum og nemanda. Dagar fröken Peabody fara að snúast um bréf skáldkonunnar sem brátt valda óvæntum straumhvörfum í lífi hennar.

Fröken Peabody hlotnast arfur er saga um ást og einmanaleik, sögð af einstöku næmi á mannlegar tilfinningar. Hún kraumar af sérstæðu skopi sem einatt beinist að alvarlegum málum.

Elizabeth Jolley er einn vinsælasti og virtasti höfundur Ástrala. Hún hefur unnið til allra helstu bókmenntaverðlauna síns heimalands og skáldverk hennar hafa verið gefin út víða um heim. Þetta er fyrsta bók hennar sem kemur út á íslensku.

Útgefandi: Strandhögg (forveri Græna hússins).

Ritdómar

„Elizabeth Jolley er höfundur sem getur fengið mann til að skella upp úr og finna til um leið."

National Times

„Rúnar Helgi skilar stílbrögðum höfundarins ágætlega og nýtur sagan sín vel á þýðingu hans."

Hávar Sigurjónsson Morgunblaðinu