Vansæmd

Af fimmtíu og tveggja ára gömlum manni að vera, fráskildum, þykist hann hafa fundið ágæta lausn á kynlífsvanda sínum.“

Á þessum orðum hefst sagan af David Lurie, háskólaprófessor í Höfðaborg. En vandi hans er síður en svo úr sögunni. Hann fellur fyrir nemanda og það sem átti einungis að vera stutt ævintýri kallar yfir hann ófyrirsjáanlega vansæmd.

Í sárum leitar hann athvarfs hjá dóttur sinni sem rekur lítinn búgarð og hundahótel í uppsveitum Suður-Afríku. En valdahlutföll eru að breytast í sveitinni og einn daginn verða feðginin fyrir svívirðilegri árás sem veitir þeim nýja sýn á samfélag sitt.

J. M. Coetzee hefur hér skrifað magnaða samtímasögu sem kemur lesanda hvað eftir annað í opna skjöldu. Coetzee er einn þekktasti rithöfundur Suður-Afríku og hefur tvívegis hlotið hin virtu Bookerverðlaun. Árið 2003 hlaut hann Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Útgefandi: Bjartur.

Umsagnir

„I’m talking about J.M Coetzee’s Disgrace which I chose to read in Rúnar Helgi Vignisson’s Icelandic translation since Hjördís already had that version on the bookshelf. Wow! This man knows how to write a novel and while praising the work considerable credit must be given to the translation, I doubt there is any noticable loss of quality between the original and the Icelandic version. What I liked most about Disgrace was perhaps the only thing that bothered me about the excellent Circle’s end I wrote about in my last entry. That is the ability to create beautful flowing literature without the reader getting the feeling the author is trying very (or too) hard.“

Blogg Antons: http://my.opera.com/theanton/blog/

Vansæmd besta bók síðustu 25 ára
10.10.06
Í tilefni af því að Bookerverðlaunin verða afhent í kvöld birti breska blaðið Guardian í dag lista yfir tíu bestu skáldsögurnar sem skrifaðar hefðu verið á Bretlandi, Írlandi eða í Breska samveldinu síðustu 25 árin. Hundrað og fimmtíu álitsgjafar voru fengnir og niðurstaða þeirra var að Vansæmd eftir J. M. Coetzee væri besta bókin. Það gleður náttúrlega Grænhýsinga því annar þeirra þýddi bókina, að vísu fyrir Bjart. Svo skemmtilega vill til að í fjórða sæti varð skáldsagan Friðþæging eftir Ian McEwan sem Grænhýsingur þýddi líka.

Það er merkilegt að okkur vitanlega hefur ekki birst einn einasti ridómur um þýðinguna á Vansæmd á Íslandi.

En fréttir af þessu tagi gleðja auðvitað þýðanda sem sveist hefur yfir þessum frábæru verkum – kannski til einhvers. Að sama skapi gremst honum að hafa hvorki tíma né fjármagn til þess að þýða allar þær bækur sem hann langar til að þýða. Og þær eru sannarlega í lange baner, svo lange baner að honum mundi ekki endast ævin þótt hann gerði ekkert annað.

„Coetzee bestur“
16.09.07

Daniel Kehlmann, höfundur bókarinnar Mæling heimsins, er mikill aðdáandi J.M. Coetzees. Í viðtali í Lesbók Morgunblaðsins 15. september 2007, sagði Kehlmann:

„Ég held að hann sé einn besti og áhugaverðasti rithöfundur heims um þessar mundir. Margir rithöfundar gera tilkall til þess að vera tilraunakenndir og uppáfinningasamir en eru síðan alltaf að skrifa sömu bókina aftur og aftur. Coetzee er algjör andstæða þessara höfunda. Hann kannar ný lönd í hverri einustu bók. Skáldsaga hans Elizabeth Costello var opinberun fyrir mér. Hún kom mér algerlega í opna skjöldu. Hún er sett saman úr háskólafyrirlestrum sem Coetzee flutti í nafni skáldaðrar persónu, Elizabeth Costello. Það mætti ætla að það væri ekki auðvelt að búa til skáldsögu úr slíku efni en það virðist ekki flækjast fyrir Coetzee. Þrátt fyrir að innihalda mjög yfirvegaða umfjöllun um ákveðin málefni, eins og fyrirlestrar gera gjarnan, þá inniheldur hún líka magnaðan skáldskap. Slow Man er síðan alveg ný nálgun við margtogað efni þar sem höfundurinn leikur aðalhlutverkið eins og svo oft í verkum Coetzees. Nýja bókin, Diary of a Bad Year, er svo marglaga bók sem mér þykir mjög áhugaverð. Ef þú myndir biðja mig um að nefna framsæknasta rithöfund samtímans myndi ég ekki nefna einhverja nýdadaista í kráarkjöllurum Parísarborgar heldur Coetzee.“