Ár nýjunga í ritlistinni

Í ritlistarnáminu kenndi ýmissa grasa á árinu 2023. Nokkrar nýjar smiðjur voru kenndar á árinu, tileinkaðar bókmenntagreinum og sjönrum sem ekki hafa verið í boði hjá okkur áður. Má þar nefna smiðju um sjálfsævisögur, smiðju um samtal ritlistar og ljóðlistar (ekphrastic ljóðagerð), um persónulegar esseyjur, um ritun ritdóma og um hamfarir og vistkreppu. Þar að auki voru boðnar nokkrar örsmiðjur sem leiddar voru af erlendum kennurum.

Gregory Harris

Frá Touroháskóla í New York kom Helen Mitsios og kenndi smiðju um staði og ljóð, frá American University í París kom indverska ljóðskáldið Biswamit Dwibedy og kenndi áðurnefnda smiðju um samtal ritlistar og ljóðlistar og frá Harvardháskóla kom Gregory Harris og las með nemendum bækur um umhverfismál sem þau jafnframt skrifuðu umsagnir um. Okkur finnst mikilvægt að fá til liðs við okkur kennara frá erlendum rithöfundasmiðjum til þess að veita nýjum straumum inn í námið. Yfirleitt eru þetta stuttar smiðjur og þó að nemendur skrifi þar á ensku getur það haft óvænt áhrif á sköpunina eins og indversk-bandaríska skáldkonan Jhumpa Lahiri komst að þegar hún fór að skrifa á ítölsku en um það hefur hún skrifað bókina Translating Myself and Others. Oft gerist eitthvað óvænt í sköpunarferlinu þegar fólk reynir að orða hugsun sína á öðru máli en móðurmálinu og þýðir hana svo yfir á sitt mál. Meginreglan er auðvitað sú að nemendur skrifa á íslensku í náminu enda erum við hluti af námsbraut í íslensku.

Fyrsta skáldsaga Þórdísar Helgadóttur vakti athygli.

Samstarfsmaður minn, Huldar Breiðfjörð, hefur verið greinarformaður frá síðustu áramótum og er það í fyrsta skipti sem þeirri formennsku er létt af mér síðan ég var ráðinn fyrir rúmum fimmtán árum. Ég gat því einbeitt mér að skrifum á fyrrihluta ársins þegar ég var í rannsóknaleyfi. Þar var unnið að ýmsum verkefnum sem flest eiga enn eftir að líta dagsins ljós. Ég tek svo aftur við greinarformennsku 1. júlí 2024.

Ritlistarnemar, núverandi og fyrrverandi, sendu frá sér á fjórða tug bóka á árinu 2023, ýmist sem höfundar eða þýðendur. Bækurnar raða sér í ýmsa flokka í Bókatíðindum og nálgunin er af ýmsu tagi. Á listanum eru skáldsögur sem vöktu talsverða athygli, þar eru barna- og ungmennabækur sem voru tilnefndar til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna, þar eru furðusögur, þar eru ljóðabækur, sannsögur, smáprósasafn og sjálfshjálparbækur. Að ógleymdum ástarsögunum sem hið nýstofnaða Ástarsögufélag sendi frá sér rétt fyrir jól. Þar sem ég kenni aðallega sagnagerð, hvort sem um er að ræða sannar eða skáldaðar sögur, er ánægjulegt að fylgjast með árangri útskriftarnema okkar á því sviði. Það færist einnig í vöxt að okkar fólki þýði en ég hef einmitt staðið fyrir þýðinganámskeiðum öðru hverju.

Það eru vissulega blikur á lofti hjá bókaþjóðinni, lesskilningi virðist hraka og við verðum vör við að tök ungs fólks á íslensku máli eru ekki að batna. Enn fáum við þó nemendur sem hafa framúrskarandi tök á íslensku máli. Neikvæð umræða um tekjumódel rithöfunda í kjölfarið á innkomu Storytel hefur sjálfsagt ekki verið ungu fólki sérstök hvatning til að leggja ritstörf fyrir sig. Sagan sem slík mun þó ævinlega halda velli að mínu mati, bara spurning í hvaða miðla hún leitar. Við höfum séð aukinn áhuga á handritsgerð á undanförnum árum og svarað honum með auknu framboði námskeiða í slíkum skrifum.

Flest árin hafa konur verið í miklum meirihluta í ritlistarnáminu, að jafnaði um tveir þriðju. Þetta endurspeglast í þeim bókum sem okkar fólk sendi frá sér á árinu, þar eru bækur sem konurnar koma að um þrisvar sinnum fleiri. Námið okkar hefur því stuðlað að því að fjölga kvenkyns höfundum og jafna hlutföllin. Í hausthefti Skírnis má einmitt sjá tölulega úttekt á íslenskum bókamarkaði þar sem fram kemur að kynjahlutföllin eru orðin nokkurn veginn jöfn þegar miðað er við fjölda útgefinna bóka. Konur eru víða í forystu í bókabransanum nú um stundir og breyttar áherslur fara ekki á milli mála. Það skekkir líka bókaheiminn að karlar virðast vera miklir eftirbátar kvenna þegar að lestri og bókakaupum kemur. Það mun hafa sínar afleiðingar á næstu árum og verður trúlega til þess að fjölga enn útgefnum bókum eftir konur. Almennt séð finnst mér vera meiri gerjun og framsókn í verkum kvenna en í verkum karlanna.

Að svo mæltu þakka ég öllum ritlistarnemum samstarfið á árinu sem er að líða og hlakka til samstarfsins á komandi ári. Megi ritlistin lifa enn um ókomin ár og íslensk tunga.