Alls konar aðferðir við ritlistarkennslu

Í byrjun árs sendi bókaforlagið Bloomsbury frá sér bókina A to Z of Creative Writing Methods þar sem ritlistarkennarar frá ýmsum löndum deila aðferðum sem að gagni mega koma við ritun skapandi texta.
Ég er einn þessara kennara og á þarna kafla um það hvernig nota má þýðingar, ekki síst það sem ég kalla sjónrænar þýðingar úr málum sem maður skilur ekkert í, við frumsamningu texta, oft með óvæntri útkomu.
Bókin er sett saman að frumkvæði ástralskra ritlistarkennara en þeir hafa fengið til liðs við sig marga sjóaða kennara aðra. Hér er því upplagt tækifæri fyrir þau sem vilja tileinka sér spennandi aðferðir við að laða fram óvæntar hugmyndir í ritlistarkennslu.

Þegar þýtt er úr millimáli

Nýlega kom út eftir mig grein um þýðingar úr millimálum, þ.e. um það þegar ekki er þýtt beint úr málinu sem bókin var upphaflega skrifuð á. Stundum kallað óbein þýðing. Greinin spratt úr ýmsu undarlegu sem skaut upp kollinum þegar þýddar voru sögur í ritröðina Smásögur heimsins. Þar munaði iðulega talsvert miklu á þýðingum, stundum var það meira að segja upp á líf og dauða því að í einni þýðingunni var persóna lifandi í lok sögunnar en dauð í frumtexta.
Við Íslendingar reiðum okkur mjög á enskar þýðingar þegar þýða þarf úr millimáli. Hjá þeim sem þýða á ensku vill hins vegar gæta menningarlegs yfirgangs sem birtist í því að þýðendur leyfa sér iðulega að víkja meira frá frumtexta en gengur og gerist. Það gera þeir meðal annars í krafti þess að enska er heimsmál og getur ráðið úrslitum um velgengni höfundar. Dæmi eru um að umdeildar enskar þýðingar úr framandi málum hafi síðan verið þýddar á íslensku.
Þar sem lítið sem ekkert hefur verið skrifað um þetta á íslensku lagðist ég yfir eitt og annað sem hugsað hefur verið um þetta annars staðar í heiminum. Og viti menn, málið reyndist miklu margslungnara en ég hafði ímyndað mér. Í ljós kom að slíkar þýðingar eru víða stundaðar enn þó að UNESCO mæli ekki með því. Nóbelsverðlaun hafa meira að segja verið veitt á grundvelli þeirra. Aðalástæða þess að enn er víða gripið til þýðinga úr millimálum er skortur á þýðendum úr tilteknum frummálum, ekki síst málum sem töluð eru í Asíu. Sá skortur er aðkallandi hér á litla Íslandi og við eigum satt að segja fáa eða enga þýðendur úr mörgum „stórum“ málum. Við yrðum því snöggtum snauðari ef þýðingar úr millimálum væru ekki stundaðar hérlendis og reyndar er það svo að mörg af grundvallarritum íslenskrar menningar hafa fyrst komið til okkar úr millimálum. Margar íslenskar bækur hafa verið og eru enn þýddar á aðrar tungur úr millimáli.
Vegna minnkandi áhuga á tungumálanámi gæti svo farið að við yrðum að reiða okkur enn meira á millimálsþýðingar úr ensku í framtíðinni sem getur verið viðsjárvert eins og ég rek í greininni. En ætli þýðing úr millimáli sé endilega lakari en þýðing sem er gerð úr upprunalega málinu? Hér er tilvalið efni í doktorsritgerð fyrir þýðingafræðing sem talar tungum.
Greinin mín heitir „Þegar þýtt er úr millimáli – Neyðarbrauð eða nauðsyn?“ og birtist í tímaritinu Milli mála sem gefið er út af Stofnun Vigísar Finnbogadóttur.