„Engin tunga bragðast eins“ – ritlistarannáll 2022

Gæði ritlistarnáms eru gjarnan metin út frá því hvernig nemendum vegnar í bókmenntaheiminum að námi loknu. Það er alls ekki eini mælikvarðinn, vel mætti t.d. nefna framfarir í þessu samhengi; öllum fer mikið fram á námstímanum, bæði sem lesendum og höfundum. En skoðum aðeins árangur nemenda í hinum harða heimi bókmenntanna á árinu 2022.

Heiða Vigdís Sigfúsdóttir. Ljósm. Fréttablaðið/Ernir

Árið byrjaði með því að forseti Íslands veitti Fríðu Ísberg, einum af okkar þekktustu útskriftarnemum, Íslensku bjartsýnisverðlaunin fyrir ritstörf sín. Þremur vikum síðar stóð nemandi sem þá var í miðju ritlistarnámi, Þórunn Rakel Gylfadóttir, í ræðupúltinu á Bessastöðum sem handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka fyrir söguna Akam, ég og Annika. Brynja Hjálmsdóttir hreppti síðan ljóðstaf Jóns úr Vör í febrúar fyrir ljóðið „Þegar dagar aldrei dagar aldrei“. Þess má geta að ljóð eftir Brynju var ávarp fjallkonunnar við 17. júní hátíðarhöldin i Reykjavík. Fríða Ísberg hreppti síðan Fjöruverðlaunin fyrir skáldsöguna Merkingu. Heiða Vigdís Sigfúsdóttir varð hlutskörpust í handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, með sagnasveignum Getnaði. Karítas Hrundar Pálsdóttir fékk viðurkenningu Íslenskrar málnefndar fyrir sögur á einföldu máli, ætlaðar byrjendum í íslensku, en þær er að finna í bókunum Dagatal og Árstíðir. Arndís Þórarinsdóttir var meðal þeirra sem tilnefnd höfðu verið til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs sem afhent voru í Helsinki 1. nóvember. Þá voru þau Arndís, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Dagur Hjartarson tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2022 og þær Arndís og Lóa Hlín þar að auki til Fjöruverðlaunanna. Ljóðsaga Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Allt sem rennur, hreppti Bóksalaverðlaunin. Árinu lauk svo með því að Fríða Ísberg hlaut hin virtu Per Olov Enquist verðlaun, sem miðast við unga höfunda, fyrir Merkingu.

Jakub Stachowiak

Margir núverandi og fyrrverandi nemendur aðrir gáfu einnig út bækur af ýmsu tagi, flest hjá viðurkenndum forlögum, önnur undir merkjum Blekfjelagsins, nemendafélags meistaranema í ritlist, enn önnur stóðu sjálf að útgáfunni. Sumar þessara bóka vöktu talsverða athygli. Þannig var ljóðabók Elínar Eddu Þorsteinsdóttur, Núningur, valin ljóðabók ársins af gagnrýnendum Morgunblaðsins. Ljóðabók hins pólskættaða Jakubs Stachowiaks, Úti bíður skáldleg veröld, var töluvert í umræðunni um höfunda af erlendu bergi sem hafa óðum verið að kveða sér hljóðs. Einnig vakti smásagnasafn Berglindar Óskar, Breytt ástand, verulega athygli, ekki síst fyrir það að innihalda sögur af ungu fólki í neyslu. Bloggfærsla Berglindar um svokölluð kúltúrbörn varði tilefni til mikilla umræðna um forréttindi í menningarlífinu undir lok ársins. Báðar eru þær Berglind Ósk og Elín Edda nýútskrifaðar og voru verk þeirra unnin að miklu leyti í náminu. Sama á reyndar við um fleiri verk sem út komu.

Árlega gefa nemendur út safnrit sem er eins konar útskriftarsýning þeirra. Í ár bar það heitið Takk fyrir komuna – hótelsögur og tengjast sögurnar og ljóðin í bókinni Hótel Sögu. Því var fagnað, sem og jólabók Blekfjelagsins, sem einnig kemur út árlega, með fjörlegum útgáfuhófum. Ritlistarnemar, núverandi og fyrrverandi, efndu líka til margra viðburða annarra.

Sérstaka athygli verkur hve vel konum úr náminu vegnar. Frá því að námið var sett á stofn hafa þær verið í miklum meirihluta í nemendahópnum og ef í því er fólgin vísbending verða konur mun fleiri meðal íslenskra rithöfunda en karlar áður en langt um líður.

Það er ánægjulegt fyrir mig persónulega að þetta góða fólk, sem og næstum allir útskrifaðir ritlistarnemar, skuli hafa verið hjá mér í ritsmiðjum á námstímanum. Þær eru orðnar allmargar bækurnar sem hafa verið unnar að einhverju leyti undir minni handleiðslu, frumsamdar og þýddar. Verkin eru gjörólík enda hefur markmið okkar alltaf verið að fóstra ólíkar raddir. „Engin tunga bragðast eins,“ eins og segir í fjallkonuávarpi Brynju Hjálmsdóttur. Rétt er að nefna að fjölmargir kennarar koma að náminu og eru flestir þeirra viðurkenndir höfundar. Fastir kennarar eru tveir, ég og Huldar Breiðfjörð sem nú um áramótin leysir mig af í hlutverki greinarformanns eftir tæplega 15 ára samfellda setu þar sem ég er á leiðinni í rannsóknaleyfi.