Smásögur heimsins – Rómanska-Ameríka

Annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins kom út á haustmánuðum og hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges, Clarice Lispector og Gabriel García Márquez.

Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006. Langflestar sögurnar eru þýddar úr spænsku, en einnig eru þarna sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku.

Í viðtali við DV sagði ég m.a. um þetta bindi:

„Þetta eru sögur sem rífa í, sem róta í manni en bjóða fagurkerum um leið upp á mikinn lestrarunað. Þarna er látið reyna á smásagnaformið á annan hátt en í Norður-Ameríku þar sem raunsæið er ofar hverri kröfu. Hjá smásagnahöfundum í Suður-Ameríku eru ýmsar stílfærslur algengar, töfraraunsæi er beitt og fantasíu af ýmsu tagi en þó má einnig finna þarna flottar raunsæissögur, t.d. frá Brasilíu og Jamaíka. Útkoman er ofurlítill konfektkassi þar sem lesandinn getur bragðað á ýmsum molum og fengið um leið góða tilfinningu fyrir því sem stendur hjarta fólks næst í þessum heimshluta. Það þykjumst við í ritnefndinni geta fullyrt vegna þess að við höfum lesið margfalt fleiri sögur en þær sem birtast í bókinni.“

Aðalritstjóri þessa bindis er Kristín Guðrún Jónsdóttir, en við Jón Karl Helgason erum meðritstjórar.