Vertu sæll, Kólumbus eftir Philip Roth

Hann er bókavörður, hún er háskólastúdent, dóttir nýríks iðnrekanda. Þau eru gyðingar og hittast í sundlaugunum einn sumardag, hún biður hann að halda á gleraugunum sínum. Síðan stingur hún sér út í ástarævintýri sem hún sér ekki fyrir endann á.

Ameríski draumurinn virðist vera í uppsiglingu. En í ástinni leynast sannindi sem hafa óvænt áhrif á framvindu þessarar þekktustu ástarsögu bandarískra nútímabókmennta.

Philip Roth er heimsfrægur skáldjöfur sem hefur verið kallaður umdeildasti rithöfundur Bandaríkjanna, enda óvenjubeittur penni. Skrif hans hafa verið gyðingum þyrnir í augum. Útkoma Vertu sæll, Kólumbus vakti mikinn úlfaþyt og harðar deilur. Eigi að síður hlaut hún virtustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna, National Book-verðlaunin.

Útgefandi: Bjartur.

„En þessa stemmningu alla hefur þýðandanum, Rúnari Helga Vignissyni, tekist mjög vel að skapa. Hann hefur líka fullt vald yfir svona snöggum og skvísulegum samtölum sem eru dálítið amerísk og þýðir þau af fimi yfir á okkar tungu."

Kristín Ómarsdóttir Morgunblaðinu