Strandhögg

Í fjörðum norður liggur ættfaðir grafinn þversum og horfir á bak niðjum sínum renna sér fótskriðu niður jörðina, í suðlægari sveitir og landsfjórðunga, í önnur lönd og álfur, allt suður til Ástralíu.

Í strandhögg á fjarlægum slóðum.

Hvað varð um þetta fólk? Hvernig vegnar því í nýjum heimi? Hefur það gert upp sakirnar við sinn fæðingarhrepp og Íslands þúsund ár, við ástvinaleysið og það ástkæra ylhýra, við leyndar hvatir og svikna drauma?

Svo margar spurningar - en hvaða svör? Þau gefast hverjum þeim sem þorir út á rúmsjó skáldskaparins og hættir sér í land á framandi strönd.

Útgefandi: Forlagið 1993

 

R I T D Ó M A R

„. . . frumlegt og óvenjulegt form á skáldsögu . . . Þessi margradda frásögn er sérlega vel heppnuð og nær kannski óvæntum hápunkti í miðhlutanum . . . Strandhögg er mjög vel heppnað verk, djörf og læsileg bók sem skipar Rúnari Helga Vignissyni í hóp framsæknustu og áhugaverðustu höfunda okkar." – Jón Hallur Stefánsson, Rás 1

„Þegar á heildina er litið er gaman að Strandhöggi og byggingin er vel heppnuð. Rúnar Helgi segir skemmtilega frá, er orðheppinn og oft drepfyndinn á einhvern kæruleysislega kvikindislegan hátt." – Sigríður Albertsdóttir, DV

„Bókin byrjar mjög vel með sterkum sögum sem eru afbragðsvel skrifaðar. Benda má sérstaklega á sögurnar Strandstöð og Hendur sundurleitar." – Soffía Auður Birgisdóttir Morgunblaðinu

„Sögurnar í Strandhöggi eru fjölbreyttar að efni og yfirbragði. Þær eru vandaðar og koma lesandanum ævinlega á óvart . . . Rúnar Helgi Vignisson hefur hér bætt ágætu verki við höfundarverk sitt og fest sig í sessi sem einn athyglisverðasti höfundur okkar af yngri kynslóð." – Gunnlaugur Ástgeirsson, Tímariti Máls og menningar

„. . . þetta er hans besta bók. Hér er fengist við hlutina af krafti." – Kristján B. Jónasson, Dagsljósi, Sjónvarpinu