Smásögur heimsins – Afríka

Fjórða bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins kom út hjá bókaforlaginu Bjarti haustið 2019. Bindið geymir nítján sögur frá sautján löndum Afríku. Sú elsta er frá 1952 en sú yngsta frá 2017. Meðal höfunda sem eiga sögu í bindinu má nefna Nadine Gordimer, J. M. Coetzee, Naguib Mahfouz, Chimamanda Ngozi Adichie, Yousuf Idris og Assia Djebar.

Í inngangi segir að í sögum bindisins endurspeglist margt af því sem Afríka og íbúar hennar hafi gengið í gegnum undanfarnar aldir. Eitt af því veigamesta sé nýlendusaga álfunnar en næstum öll lönd Afríku hafi á einhverju tímabili lotið stjórn evrópskra nýlenduherra sem skýri af hverju svo margir höfundanna í þessu bindi hafi kosið að skrifa sögur sínar á málum sem eru upprunnin í Evrópu.

Ellefu þýðendur leggja verkefninu lið í þessu bindi. Auk okkar ritstjóranna, sem þýðum samtals átta sögur, eru það þau Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Freyja Auðunsdóttir, Heiður Agnes Björnsdóttir, Ingunn Snædal, Janus Christiansen, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Sindri Guðjónsson og Þórir Jónsson Hraundal. Þrjú þeirra, þau Freyja, Heiður Agnes og Janus eru núverandi eða fyrrverandi ritlistarnemar og hafa fengið þarna dýrmæta þjálfun.

Sögurnar nítján eru þýddar úr fjórum tungumálum, arabísku, portúgölsku, frönsku og ensku. Í þeim fáu tilfellum þar sem ekki tókst að þýða beint úr frummáli voru fengnir lesarar sem gátu borið íslensku þýðinguna saman við frumtextann. Það gerðu þeir Sindri Freysson og Þórir Jónsson Hraundal. Í einu tilfelli tókst ekki að finna arabíska frumtextann.

Ritstjórar ritraðarinnar eru auk mín þau Jón Karl Helgason og Kristín Guðrún Jónsdóttir.

 

UMSAGNIR

„Bók ársins? Ég er svo sem ekki búin að lesa nógu mikið til þess að vera þess umkomin að velja hana. Samt langar mig að velja mína bók: Smásögur heimsins - Afríka. Þetta er fjórða bindið í ritröðinni, þar sem hvert bindi er helgað einni heimsálfu. Ég er svo stolt af kollegum mínum sem hafa fært okkur heiminn með þessu kröfuharða bókmenntaformi, og enn er von á meiru. Þau eru listaþýðendur og vandvirkir ritstjórar. Takk, og til hamingju, Ásdis Magnusdottir, Kristín Guðrún, Rúnar Helgi og þið öll!“ – Ásdís Egilsdóttir, bókmenntafræðingur, prófessor emerita

„Smásögur heimsins er ritröð þar sem er að finna íslenskar þýðingar á smásögum úr öllum heimsins hornum. Í nýjasta bindinu, því fjórða í röðinni, er að finna á annan tug smásagna frá Afríku. Á undan hverri sögu er sagt frá viðkomandi höfundi og verkum hans í stuttum og skýrum texta. Meðal höfunda eru nokkrir Nóbelsverðlaunahafar, Nadine Gordimer, Naguib Mahfouz og J.M. Coetzee. Aðrir eru ekki vel þekktir eins og Fatmata A. Conteth sem á eina eftirminnilegustu sögu bókarinnar, Bréf til systra minna, en þar skrifa múslimakona, sem svipta á frelsi sínu, átakanlegt bréf þar sem hún skýrir frá áformum sínum. Önnur áhrifamikil saga í látleysi sínu er Prófessorinn eftir Edwige-Renée Dro um einstakt samband kennara og nemanda. Þetta er bók sem unnendur góðs skáldskapar eiga ekki að láta framhjá sér fara.“ – Fréttablaðið 22.22.2019