Margir koma að ritlistinni

Auður Ava ÓlafsdóttirÞó að einungis sé einn fastráðinn kennari í ritlist, sá sem hér skrifar, er ekki þar með sagt að hann sé allt í öllu. Margir aðrir leggja þar hönd á plóg. Meðal þeirra sem stýrt hafa ritsmiðjum síðan ritlist var gerð að aðalgrein til BA-prófs eru  Sigurður Pálsson, Anna Heiða Pálsdóttir, Jason Rotstein, Árni Óli Ásgeirsson, Dagur Kári Pétursson og nú á vormisseri mun Karl Ágúst Úlfsson bætast við. Þá hafa Hlín Agnarsdóttir og Jón Atli Jónasson tekið að sér leiðsögn með BA-verkefnum.

Við höfum einnig efnt til fyrirlestraraðarinnar Hvernig verður bók til?, sem bæði er ætluð ritlistarnemum og almenningi, og þar hafa talað þau Jón Kalman Stefánsson, Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir, Einar Kárason, Auður Ava Ólafsdóttir, Bragi Ólafsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Kristján Árnason, Ragnar Bragason og Kristín Helga Gunnarsdóttir. Auk þeirra hafa þau Guðrún Eva Mínervudóttir, Ágúst Borgþór Sverrisson, Egill Heiðar Anton Pálsson og Tobba Marinósdóttir sótt okkur heim. Þá stóðum við ásamt öðrum að alþjóðlegri ráðstefnu, Art in Translation, sl. vor og fengum alls konar fólk í heimsókn.

Af þessu má ráða að ritlistarnemar heyja sér forða héðan og þaðan. Þar að auki lesa þeir auðvitað ritverk eftir fjölmarga höfunda. Mikið ofboðslega hlýtur að vera gaman að vera ritlistarnemi!



Kristín Helga talar um Fíusól og fleira

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundurMánudaginn 22. nóvember fer fram síðasti fyrirlestur ársins í röðinni „Hvernig verður bók til?“ Þá stígur Kristín Helga Gunnarsdóttir í pontu en undanfarin ár hefur hún verið einn vinsælasti og afkastamesti rithöfundur Íslands. Hún hefur fengið fjölda verðlauna fyrir skrif sín, m.a. verðlaun Vestnorræna ráðsins.

Kristín Helga hyggst fara með okkur í yfirreið um svæðið sitt og segja okkur m.a. frá tilurð hinna vinsælu bóka um Fíusól. Það verður eflaust gaman að hlusta á Kristínu Helgu því hún kann að orða hlutina.

Fyrirlesturinn fer fram í sal 3 í Háskólabíói og hefst kl. 12 á mánudaginn. Fyrirlestraröðin er skipulögð af ritlist við Íslensku- og menningardeild í samvinnu við Bókmennta- og listfræðastofnun. Allir velkomnir.

Stopp! – Ljóðasýning ritlistarnema

STOPP! Ljóðasýning ritlistarnema við Háskóla Íslands verður opnuð á  neðri hæð Háskólatorgs föstudaginn 12. nóvember kl. 17.30. Til sýnis verða tuttugu og sjö ljóð eftir tíu nemendur.

Ljóðskáldin eru Tumi Ferrer, Hlín Ólafsdóttir, Vilhjálmur Pétursson, Gunnar Jónsson, Dagbjört Vésteinsdóttir, Birna Dís Eiðsdóttir, Steinunn María Halldórsdóttir, Finnbogi Þorkell Jónsson, Anna Steinunn Ágústsdóttir og Hertha Richardt Úlfarsdóttir.

Það eru ritlistarnemar sjálfir sem hafa haft veg og vanda af sýningunni og hefur Hertha Richardt Úlfarsdóttir gegnt hlutverki verkefnastjóra.

Kristján Már Gunnarsson hlýtur verðlaun fyrir stuttmyndahandrit

Kristján MárNýlega efndu Ljósvakaljóð til samkeppni um besta stuttmyndahandritið. Tuttugu og þrjú handrit bárust og hlutskarpastur varð Kristján Már Gunnarsson ritlistarnemi fyrir handritið Blóðdögg. Hlaut hann kr. 20.000 í verðlaun. Ég óska Kristjáni Má til hamingju með verðlaunin.

Þess má geta að nú á haustmisseri er einmitt verið að kenna kvikmyndahandritsgerð á vegum ritlistar. Þar leiðbeina þeir Dagur Kári Pétursson og Árni Óli Ásgeirsson en báðir eru þeir nýbúnir að senda frá sér góðar myndir, The Good Heart og Brim.