Kristín Marja talar um Karitas á Háskólatorgi

Fyrsti fyrirlestur ársins í röðinni „Hvernig verður bók til?“ fer fram fimmtudaginn 27. janúar. Það er skáldkonan Kristín Marja Baldursdóttir sem heiðrar okkur með nærveru sinni að þessu sinni og hyggst hún ræða um stórvirki sitt, bækurnar um Karitas sem hafa vakið mikla athygli heima og erlendis.

Kristín Marja hefur sent frá sér efni af ýmsu tagi, skáldsögur, smásögur og ævisögu auk hundraða blaðagreina. Bækur hennar hafa verið þýddar á mörg tungumál og hafa vakið svo mikla athygli erlendis að bókasöfn eru farin að skipuleggja ferðir í fótspor Karitasar. Karitas án titils var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2006. Margir kannast líka við bókina Mávahlátur sem vakti verulega lukku og var síðar kvikmynduð.

Ég vek athygli á því að fyrirlesturinn fer nú fram á Háskólatorgi, nánar tiltekið í stofu 105, og hefst kl. 12. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Fjallað um ritlistarnám í Samfélaginu í nærmynd

Í dag var útvarpað innslagi sem Ólöf Anna Jóhannsdóttir, nemi í ritlist og þjóðfræði, gerði um ritlistarnám. Hún ræðir þar við Kristínu Steinsdóttur, rithöfund og formann Rithöfundasambands Íslands, um viðhorf hennar til ritlistarnáms og undirritaðan sem gerir sitt besta til að lýsa því hvernig ritlistarnám við Háskóla Íslands fer fram. Nálgast má innslagið á vef RÚV og slóðin er: http://dagskra.ruv.is/ras1/4555959/2011/01/12/1/. Innslagið heitir „Þjóðbrók“.

Gunnar Hersveinn leggur út af þýðingum mínum í Þjóðgildunum

Í bók sinni Þjóðgildin, sem kom út sl. haust, vinnur Gunnar Hersveinn heimspekingur á skapandi hátt með sagnir og sögur héðan og þaðan úr heiminum, fléttar þær saman við umfjöllun sína um gildi. Hann leggur m.a. út af tveimur bókum sem ég hef þýtt, Veginum eftir Cormac McCarthy og Hvað er þetta Hvað? eftir Dave Eggers en báðar komu þær út hjá Bjarti. Um þá síðarnefndu birtir hann hliðarkafla þar sem hann sýður niður þjóðargoðsagnir Súdana og tengir íslenskri umræðu um lýðræði:

„Sköpunarsaga framandi þjóðar hljómar eitthvað á þessa leið: Guð skapaði ljós og myrkur, himin og jörð og höfin, gróðurinn, dýrin og mennina og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá kom að því að Guð bauð fólkinu upp á tvo kosti til lífsviðurværis: nautgripi eða þetta hvað. Fólkið þekkti frjósamt landið og nautgripina, það vissi hvað það átti – en spurði svo: „Hvað er þetta hvað?“ og Guð svarði: „Þið komist að því ef þið veljið það.“ Hvað er þetta Ísland? Þjóð er hugtak og ef það merkir almenning, þá rúmar það ekki valdstjórn sem vill gefa almenningi eitthvert eðli sem hentar tímabundnum hagsmunum hans. Þjóðin þarf að ráða sér sjálf.“

Veginn tekur Gunnar inn í umfjöllun um kærleikann og segir m.a.:

„Í skáldsögunni Vegurinn eftir Cormac McCarthy er veröld lýst þar sem kærleikurinn er öllum horfinn nema einni smáveru. Höfundurinn hefur sennilega gert sér í hugarlund hvernig heimurinn án kærleika liti út. Drengurinn í sögunni er sá eini sem finnur til með öðrum og er ekki sama um örlög annarra. Hann þjáist með öðrum og vill rétta þeim hjálparhönd. Jafnvel faðir hans hefur glatað kærleikanum þótt hann skynji og ræki ábyrgð sína gagnvart drengnum. Bera má kennsl á kærleikann í brjósti drengsins þótt flestallt sé horfið sem fólk unni og veröldin sé án fugla, jurta, dýra og vonar og ekki sjáist lengur til sólar sökum ösku.“