Fimm greinar
Fimm greinar eftir mig eru nú á leiðinni fyrir almenningssjónir. Þær eru af ýmsu tagi og í ýmsum miðlum.
Fyrst er að nefna pistil í nýjasta hefti tímaritsins Börn og menning sem Ibbý gefur út. Pistillinn ber heitið „Vistvæn börn“ og fjallar um þá áráttu foreldra að senda börnin sín í vistun stóran hluta dagsins, rétt eins og þau séu munaðarlaus, og hvaða gildismat liggi að baki slíku ráðslagi.
Í Skírni, sem er nýkominn út, er þýðing mín á grein eftir Daisy Neijmann. Greinin fékk titilinn „Óboðinn gestur, fyrstu birtingarmyndir hernámsins í íslenskum skáldskap“ og lýsir hann inntaki greinarinnar mjög vel. Daisy hefur gruflað mikið í bókum þar sem fengist er við viðbrögð Íslendinga við hernáminu og reynast þær vera allmargar og eftir merka höfunda. Margir tóku hernámið mjög nærri sér og ef marka má sögurnar sem Daisy fjallar um kom það miklu róti á heimilislíf landsmanna, klauf jafnvel fjölskyldur. Það athyglisverðasta við greinina finnst mér þó vera tenging við annað ástand: „Nú þegar bandaríski herinn er á brott, og þjóðin í öngum sínum út af nýju „ástandi“, sýnir umfjöllun um hernámið í íslenskum skáldskap að hve miklu leyti þessi mál eru óuppgerð og að Íslendingar eru dæmdir til að endurtaka fortíðina ef þeir vinna ekki úr henni.“
Þriðja greinin birtist á Hugrás, vef Hugvísindasviðs HÍ, í júníbyrjun og ber heitið „Ein stök mynd“. Þar fjalla ég um bókina Mynd af Ragnari í Smára eftir Jón Karl Helgason. Ég skoða aðferð Jóns Karls við að draga upp mynd af útgefandanum og tengi hana við það sem kalla má listræna skáldleysu (e. creative nonfiction). Jafnframt ræði ég hvað kann að vinnast með því að nota svo skáldlega aðferð við ævisagnaritun.
Fjórða greinin er á leiðinni í Tímariti Máls og menningar. Þar er um að ræða svolítið óhefðbundinn ritdóm um ferðabók Huldars Breiðfjörð, Færeyskur dansur. Ég fer í rannsóknarlögregluleik og reyni að grafast fyrir um hvað sé rétt í þeirri bók, hringi m.a. í bókavörðinn í Hveragerði til þess, en Huldar lýsir samskiptum sínum við hann í bókinni.
Fimmta greinin er væntanleg í Læknablaðinu og þar er ég meðhöfundur en Einar Stefánsson augnlæknir aðalhöfundur. Í greininni er reynt að gefa hagnýtar leiðbeiningar um ritun fræðigreina. Þarna mættust rithöfundur og vísindamaður með ólíka nálgun á ritstörf og hafði ég gaman af.