Skáldatal – Hlín Agnarsdóttir
Skáldatal er fyrirlestraröð á vegum ritlistar og Bókmennta- og listfræðastofnunar þar sem skáld ræða það sem brennur á þeim og á þann hátt sem efnið krefst. Viðfangsefnið er ekki gefið upp fyrirfram. Pétur Gunnarsson reið á vaðið sl. haust og flutti okkur hugvekju um tímana tvenna.
Hlín Agnarsdóttir er næst í pontu. Hlín er sjálfstætt starfandi listamaður sem hefur aðallega fengist við leikstjórn og skrif fyrir leiksvið og sjónvarp. Þá hefur hún gefið út tvær skáldsögur, Hátt uppi við Norðurbrún 2001 og Blómin frá Maó 2009, og eina sjálfsævisögulega bók, Að láta lífið rætast, sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2003. Hlín hefur ennfremur stýrt leikritunaráföngum í ritlistarnáminu við HÍ.
Eins og áður sagði er ekki gefið upp fyrirfram um hvað verður talað. Skyldi Hlín ræða stöðu leikhúsmála á Íslandi? Eða jafnréttisbaráttuna? Þið komist að því með því að mæta í sal 105 á Háskólatorgi fimmtudaginn 16. febrúar kl. 12. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.