Verk eftir tvo ritlistarkennara valin á alþjóðlega leikritaráðstefnu

Í sumar verður haldin í Stokkhólmi alþjóðleg ráðstefna um leikrit eftir konur, Women Playwrights International Conference. Þar verða leikrit eftir konur til umfjöllunar og skoðunar. Gaman er að segja frá því að verk eftir tvær íslenskar konur sem hafa kennt við ritlistardeild Háskóla Íslands hafa verið valin til skoðunar og leiklestrar á ráðstefnunni. Það eru verk eftir þær Hlín Agnarsdóttur og Sölku Guðmundsdóttur og óska ég þeim innilega til hamingju með þessa upphefð.

Ráðstefna þessi hefur verið haldin á þriggja ára fresti frá 1988 og að þessu sinni verður hún haldin í Stokkhólmi eins og áður segir. Þarna gefst gott tækifæri til þess að koma leikverkum eftir íslenskar konur á framfæri en nokkur umræða hefur orðið um það hérlendis undanfarið hve lítið er sett upp af íslenskum leikritum, ekki síst eftir konur. Verk eftir tvær aðrar íslenskar konur voru einnig valin á ráðstefnuna, eftir þær Jónínu Leósdóttur og Völu Þórsdóttur.