Ritlistarnemar hreppa styrki og taka þátt í höfundasmiðju

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti nýræktarstyrki Bókmenntasjóðs í Gunnarshúsi 19. september síðastliðinn. Þrír ritlistarnemar fengu styrk að þessu sinni. Dagur Hjartarson fékk styrk fyrir smásagnasafnið Fjarlægðir og fleiri sögur, Heiðrún Ólafsdóttir fyrir ljóðabókina Á milli okkar allt, sem þegar er komin út, og Soffía Bjarnadóttir fyrir textasafnið Segulskekkja. Þau eru öll á öðru ári í meistaranámi í ritlist.

Þá voru tveir ritlistarnemar valdir úr hópi 30 umsækjenda til þátttöku í höfundasmiðju Leikskáldafélags Íslands og Þjóðleikhússins. Það voru þær Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Soffía Bjarnadóttir og voru brot úr verkum þeirra leiklesin 17. september. Tveir aðrir ritlistarnemar tóku þátt í höfundasmiðjunni sem leiðbeinendur, þær Harpa Arnardóttir og Halla Margrét Jóhannesdóttir. Ég óska þeim öllum til hamingju með þessa áfanga.

Kristian Guttesen og Heiðrún Ólafsdóttir gefa út ljóðabækur

Tveir meistaranemar í ritlist, þau Kristian Guttesen og Heiðrún Ólafsdóttir, sendu nýverið frá sér ljóðabækur. Þar tala tvær gjörólíkar raddir, vel skilgreindar og aðlaðandi báðar.

Bók Kristians nefnist Vegurinn um Dimmuheiði og geymir bæði frumsamin ljóð og þýðingu á ljóði eftir Bukowski. Ljóðin eru margbrotin, í aðra röndina heimspekileg, eins og t.d. ljóðið „Nafnlaust ljóð um dauða og dauðastundir“ sem hefst svona: „Hafði ég tekið þátt í nauðgun / með aðgerðaleysi mínu? / Hafði ég með aðgerðaleysi mínu svelt lítið barn í Afríku? / Ég sé mömmuna dána, / ég sé barnið með bumbuna útí loftið / svo stóra að það vekur viðbjóð.“

Bók Heiðrúnar ber titilinn Á milli okkar allt og fjallar um samskipti pars, allt frá tilhugalífi og fram yfir skilnað að því er virðist. Heiðrún beitir kímni óspart í ljóðum sínum, oft með góðum árangri: „Hin fegurstu sólarlög / færi ég þér. / Ég set þau á vesturhimininn / þegar vel viðrar, síðdegis. / Þú getur nálgast þau þar.“

Ég óska Kristian og Heiðrúnu til hamingju með þessar prýðilegu ljóðabækur. Ég held að þær gætu glatt marga sem á annað borð unna ljóðum.

„Úr umferð“ – Kveðja

Það var gott að hafa Önnu Steinunni Ágústsdóttur í tímum, hún var næm og hafði ævinlega eitthvað bitastætt til málanna að leggja. Hún hafði ekki hátt en var þeim mun lunknari. Sjálf var hún afar vel skrifandi, smekkmanneskja sem hafði gott vald á máli og stíl;  þar þurfti hún ekki mikillar leiðbeiningar við. Hún var virk í félagsstarfi samnemenda sinna, las upp með þeim, tók þátt í ljóðasýningu og birti efni í safnritunum sem þau gáfu út. Í einu ljóðanna í bókinni III., sem kom út sl. vetur, er að finna ljóðið „Alltaf sama“. Þar fjallar hún um fallegu augnablikin í lífinu, eilífðina í hversdeginum, og segir m.a.: „Hamingja hreiðrar um sig eins og ókunnur köttur.“

Síðast þegar hún sat tíma hjá mér lét hún mig vita af því að meinið hefði tekið sig upp að nýju eins og ein sagan hennar, „Úr umferð“, bar með sér. Ekki vildi hún þó að ég hefði hátt um það, vegna þess að hún vildi taka þátt í tímum á venjulegum forsendum. Þótt hún hefði ekki fulla starfsorku lauk hún áfanganum með miklum sóma og skrifaði marga fallega texta. Ekki óraði mig samt fyrir því að hamingjukötturinn væri búinn með öll lífin sín og að Anna yrði sjálf tekin úr umferð innan skamms.

Ég votta aðstandendum öllum samúð og vona að þau geti þegar frá líður ornað sér við skrifin sem Anna lét eftir sig.