„Úr umferð“ – Kveðja

Það var gott að hafa Önnu Steinunni Ágústsdóttur í tímum, hún var næm og hafði ævinlega eitthvað bitastætt til málanna að leggja. Hún hafði ekki hátt en var þeim mun lunknari. Sjálf var hún afar vel skrifandi, smekkmanneskja sem hafði gott vald á máli og stíl;  þar þurfti hún ekki mikillar leiðbeiningar við. Hún var virk í félagsstarfi samnemenda sinna, las upp með þeim, tók þátt í ljóðasýningu og birti efni í safnritunum sem þau gáfu út. Í einu ljóðanna í bókinni III., sem kom út sl. vetur, er að finna ljóðið „Alltaf sama“. Þar fjallar hún um fallegu augnablikin í lífinu, eilífðina í hversdeginum, og segir m.a.: „Hamingja hreiðrar um sig eins og ókunnur köttur.“

Síðast þegar hún sat tíma hjá mér lét hún mig vita af því að meinið hefði tekið sig upp að nýju eins og ein sagan hennar, „Úr umferð“, bar með sér. Ekki vildi hún þó að ég hefði hátt um það, vegna þess að hún vildi taka þátt í tímum á venjulegum forsendum. Þótt hún hefði ekki fulla starfsorku lauk hún áfanganum með miklum sóma og skrifaði marga fallega texta. Ekki óraði mig samt fyrir því að hamingjukötturinn væri búinn með öll lífin sín og að Anna yrði sjálf tekin úr umferð innan skamms.

Ég votta aðstandendum öllum samúð og vona að þau geti þegar frá líður ornað sér við skrifin sem Anna lét eftir sig.