Ritlistin kynnt
Laugardaginn 9. mars verður allsherjar námskynning við Háskólann, nánar tiltekið milli 12 og 4. Þar verða allar námsgreinar skólans kynntar, líka sú sem ég hef umsjón með, ritlist. Ég verð á staðnum ásamt nokkrum af nemendum mínum og veiti upplýsingar um námið. Þá má búast við óvæntum gjörningi.
Ritlist er nú í boði sem aukagrein í grunnnámi og sem meistaranám. Allir sem skrá sig í Háskólann geta sótt námskeið í ritlist og ritfærni (nýtt) í grunnnáminu. Með þessu svörum við í Íslensku- og menningardeild kalli margra háskólakennara um að auka þurfi þjálfun í ritun. Það er jú eins með hana og annað sem mannfólkið tekur sér fyrir hendur, æfingin skapar meistarann.
Til að komast inn í meistaranám í ritlist þarf að sækja um fyrir 15. apríl. Með umsókn þurfa að fylgja sýnishorn af ritsmíðum umsækjanda og á grundvelli þeirra velur þriggja manna dómnefnd inn í námið. Fram að þessu hefur ekki verið unnt að taka inn nema tæplega helming umsækjenda. Nú eru 38 virkir nemar í meistaranáminu. Tekið er inn árlega.
Ritlistarnemum hefur vegnað vel á undanförnum árum. Í haust hlutu tveir þeirra virt bókmenntaverðlaun, Dagur Hjartarson hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og Kjartan Yngvi Björnsson hreppti ásamt félaga sínum Íslensku barnabókaverðlaunin. Fleiri smærri verðlaun hafa komið í hús. Þá fengu nokkrir ritlistarnemar listamannalaun við síðustu úthlutun.
Nám í ritlist er mjög persónulegt. Þar gefur fólk mikið af sér, jafnt í skrifum sem umræðum. Við leggjum mikið upp úr samtalinu. Þess vegna kynnist fólk vel og mikil samkennd skapast í hópnum. Ekki furða þótt oft sé gaman hjá okkur.
Ef þú ert tilfinning heimsins, eins og Laxness sagði um rithöfunda, þá átt þú heima hjá okkur – ef þér þykir gaman að skrifa.