Þar sem bananasólin skín – annáll 2013

Björk Þorgrímsdóttir les upp í útgáfuhófi sem haldið var í tilefni af útkomu bókarinnar Hvísl.

Björk Þorgrímsdóttir les upp í útgáfuhófi sem haldið var í tilefni af útkomu bókarinnar Hvísl.

Ritlistarnemar hafa verið í banastuði þetta árið. Þeir hafa hamrað lyklaborðið af miklum móð og þar að auki verið duglegir að gefa út bækur og efna til bókmenntaviðburða.

Fyrstu meistaranemarnir í ritlist útskrifuðust í júní og tveir til viðbótar á haustmánuðum. Nokkuð hefur borið á því að ritlistarnemar vilji helst ekki hætta námi og sækist jafnvel eftir því að fá að taka umframeiningar.

Mikil aðsókn var að meistaranáminu sem fyrr og komust færri að en vildu. Inntökunefnd valdi að lokum tuttugu nema úr hópi umsækjenda og hafa þeir látið hendur standa fram úr ermum. Þeir dvöldu m.a. á Laugarvatni í rúma tvo daga og stunduðu ritstörf í húsinu þar sem Halldór Laxness vann að Sjálfstæðu fólki fyrir margt löngu.

Ritlist sem aukagrein var endurvakin sl. haust og er að komast á flug. Hana er æskilegt að taka meðfram aðalgrein til BA-prófs á tveimur árum. Ný lína, Ritfærni, hóf líka göngu sína og mun hún tengjast Ritveri Hugvísindasviðs sem verður opnað um áramótin. Mikill áhugi reyndist vera á þessari nýju línu og luku yfir 40 manns fyrsta smiðjunámskeiðinu sem boðið var upp á.

Jolabok blekfjelagsins 2013Talsverð útgáfustarfsemi hefur farið fram á vegum meistaranema í ritlist þetta árið. Í vor var efnt til sérstaks smiðjunámskeiðs um útgáfu sem Guðrún Sigfúsdóttir, ritstjóri hjá Forlaginu, stýrði. Afrakstur þess varð bókin Hvísl sem er nokkurs konar útskriftarsýning ritlistarnema, safn lengri og styttri verka sem unnin höfðu verið á námstímanum. „Lesendur geta gengið um bókina eins og hverja aðra sýningu,“ segir á kápu. Sjaldan hefur nokkru verki verið ritstýrt af jafn mikilli natni því fyrir utan Guðrúnu komu fimm ritstjórnarnemar að þeirri vinnu.

Rétt fyrir jól tóku meistaranemar sig saman og bjuggu til Jólabók Blekfjelagsins 2013. Þar er að finna 37 jólasögur eftir 37 höfunda og er hver saga nákvæmlega 99 orð. Nemendur lásu sögurnar í Víðsjá á Rás 1 í desembermánuði og um jólin voru svo allar sögurnar teknar saman í þátt sem fékk heitið Þegar hvískrið þagnaði.

Tveir ritlistarnemar og einn ritstjórnarnemi stofnuðu í sumar útgáfufélagið Tunglið. Gáfu þeir út sex bækur á fullu tungli, tvær í senn, og voru fjórar þeirra eftir ritlistarnema: Bréf frá Bútan eftir Ragnar Helga Ólafsson, Bananasól eftir Björk Þorgrímsdóttur, Líf mitt, til dæmis eftir Margréti Bjarnadóttur og Kvíðasnillingurinn, skáldsaga í hæfilegri lengd eftir hinn útskrifaða Sverri Norland. Auk þeirra fengu Kristín Ómarsdóttir og Pétur Gunnarsson inni í ritröðinni. Með stuðningi Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO var efnt til útgáfuhófs á fullu tungli og einungis þar var hægt að nálgast bækurnar. Þær voru aðeins gefnar út í 69 eintökum og eru nú allar uppseldar að því er fram kemur í Bókatíðindum. Þessi gjörningur lífgaði upp á bókmenntalífið yfir sumarmánuðina.

Einstakir ritlistarnemar hafa líka verið iðnir við að gefa út bækur. Á vormánuðum gaf Mál og menning út ljóðabókina Bjarg eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur og var henni vel tekið. Halla Margrét Jóhannesdóttir sendi einnig frá sér ljóðabók, 48 hét hún og var henni líka vel tekið. Þá sendi Heiðrún Af hjaranumÓlafsdóttir frá sér ljóðabókina Af hjaranum í haust og var hún tilnefnd til Fjöruverðlaunanna skömmu fyrir jól. Á vormánuðum sendi Daníel Geir Moritz frá sér nýstárlega sjálfshjálparbók sem ber heitið Að prumpa glimmeri. Þá sendi  Kjartan Yngvi Björnsson frá sér bókina Draumsverð sem hann skrifaði ásamt Snæbirni Brynjarssyni og varð hún í öðru sæti yfir bestu táningabækurnar hjá starfsfólki bókaverslana. Bragi Páll Sigurðarson, sem er með BA-gráðu í ritlist, gaf út ljóðabókina Hold rétt fyrir jól og vakti kápa hennar sérstaka athygli enda tjaldar höfundurinn þar öllu sínu. Þá gaf bókaútgáfan Rúnatýr út skáldsöguna Flóttinn til skýjanna eftir Kristján Má Gunnarsson, sem er einnig með BA-gráðu í ritlist. Bókin er sögð vera fyrsta íslenska gufupönkssagan en í fréttatilkynningu segir að gufupönk sé vaxandi bókmenntagrein þar sem vísindaskáldskapur rennur saman við fantasíu.

Bjartur gaf í vor út rafbókina Eldhafið yfir okkur eftir Dag Hjartarson og var hún síðan gefin út í prentuðu formi í haust. Þar er að finna þrettán smásögur en fyrir þær hlaut Dagur Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs. Nokkur umræða spratt upp um eðli ritlistarnáms í kjölfar þeirra ummæla gagnrýnandans Friðriku Benónýsdóttur í Kiljunni að Dagur væri undir áhrifum frá undirrituðum kennara sínum. Ritaði Dagur bloggpistilinn „Til varnar ritlistinni“ af því tilefni og hrakti þar meintar ávirðingar Friðriku. Dagur sagði m.a.:

„Auðvitað munu einhverjir ritlistarnemar einhvern tíma skrifa miðlungsgóðar og ófrumlegar bækur (þá kannski sérstaklega ég) en það segir ekkert um ritlistarnámið. Aldrei í náminu hef ég upplifað það að einhver kennari hafi reynt að veita mér í einn sérstakan farveg. Sá sem setið hefur tíma í ritlist áttar sig fljótt á hverslags fásinna það væri. Það hefur verið mikil aðsókn í námið þessi fyrstu tvö ár sem það hefur verið kennt á meistarastigi og nemendahópurinn er mjög fjölbreyttur. Þeir sem nenna að kynna sér það sem þetta fólk hefur verið að bralla munu fljótt sjá að allt tal um að eitthvað sé „ritlistarlegt“ er aðeins vísbending um leti þess sem lætur slíkt frá sér.“

Að lokum má geta þess að ritlistarkennararnir hafa ekki setið auðum höndum heldur. Sigurður Pálsson sendi frá sér bókina Líf annarra en mín þar sem hann snarar verki eftir Emmanuel Carrère. Einnig kom út ljóðasafnið Ljóðtímasafn þar sem þrír ljóðabálkar eftir hann koma saman. Magnea J. Matthíasdóttir var að vanda mikilvirk á þýðingavellinum og sendi m.a. frá sér þýðinguna Afbrigði eftir Veronicu Roth sem bóksölum þótti besta þýdda táningabókin í ár. Þá var hin kunna bók hennar, Hægara pælt en kýlt, endurútgefin á árinu með nýjum eftirmála Dagnýjar Kristjánsdóttur. Undirritaður gaf svo út þýðingu á hinni þekktu bók Williams Faulkner, As I Lay Dying, og heitir hún Sem ég lá fyrir dauðanum í minni útgáfu. Henni fylgir líka allítarlegur eftirmáli.

Hér hefur frjóvgandi bananasólin sem sagt skinið skært þetta árið og þakka ég jafnt ritlistarnemum sem samkennurum ánægjulegt samstarf á árinu. Það er einmitt samfélagið í ritlistinni sem er svo dýrmætt.