Neindarkennd og Stálskip
Það var óþarfi að efast; ritlistarnemar eru þegar farinn að setja svip sinn á bókmenntalífið og þau ykkar sem eru á höttunum eftir nýjabrumi ættu að fylgjast vel með þeim.
Í vikunni hafa komið út tvö ný verk eftir ritlistarnema.
Á miðvikudaginn kom út ljóðabók Bjarkar Þorgrímsdóttur, Neindarkennd, á vegum Meðgönguljóða. Þetta er önnur bók Bjarkar en í fyrra kom út bókin Bananasól. Í stuttu viðtali í Fréttablaðinu segir Björk bókina fjalla um eftirköst ástarinnar. Eins og aðrar bækur Meðgönguljóða verður Neindarkennd prentuð í takmörkuðu upplagi og er hver bók einstök, sérmerkt og handsaumuð, eins og segir í Fréttablaðinu.
Í dag kemur svo út bókin Stálskip – nokkur ævintýri eftir Atla Sigþórsson á vegum bókaútgáfunnar Tunglsins en sú útgáfa spratt upp úr ritlistinni. Atli birtir hér lausamálstexta en útgefendur hafa eftir Hermanni Stefánssyni að Atli sé „Julio Cortázarokkar daga, okkar tungu“. Þess má geta að Atli komst á topp vinsældarlista sl. sumar með laginu Aheybaró með sveit sinni Kött Grá Pjé.
Í kvöld verður haldið útgáfuteiti á vegum Tunglsins forlags í Nýlistasafninu og hefst það kl. 20:30. Í kvöld er nefnilega fullt tungl og bækur þessa sérstaka forlags koma eingöngu út þegar þannig háttar til. Þær eru einungis gefnar út í 69 eintökum svo það er betra að hafa hraðan á enda hafa fyrri bækur iðulega selst upp í útgáfuteitinu.