Sex útskrifuðust með MA-gráðu í ritlist

Screen Shot 2014-03-12 at 11.27.44Sex útskrifuðust með meistaragráðu í ritlist nú í febrúar. Þetta eru þær Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Soffía Bjarnadóttir og Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir og er þeim öllum óskað til hamingju með gráðuna.

Lokaverkefni Guðrúnar Ingu var smásagnasafn sem hún vann undir minni handleiðslu. Meðan á náminu stóð birti hún smásögu í bókinni Hvísl sem og örsögur í Jólabók Blekfjelagsins 2012 og 2013.

Lokaverkefni Höllu Margrétar Jóhannesdóttur var tvískipt, annars vegar ljóðahandrit sem hún vann undir handleiðslu Sigurðar Pálssonar og hins vegar saga fyrir unga lesendur sem hún vann með Önnu Heiðu Pálsdóttur. Halla, sem einnig hefur BA-gráðu í ritlist, hefur birt talsvert af efni á námstímanum, í nokkrum safnritum ritlistarnema, jafnt ljóð sem lausamálstexta. Í fyrra gaf hún út ljóðahluta meistaraverkefnisins undir titlinum 48.

Lokaverkefni Hrafnhildar Þórhallsdóttur var þýðing á skáldverki sem hún vann í samvinnu við mig. Hún birti einnig lausamálstexta í Hvísli og örsögur í Jólabókum Blekfjelagsins á námstímanum.

Lokaverkefni Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur var annars vegar nóvella sem hún vann undir minni handleiðslu og hins vegar leikrit sem hún vann með Sigurði Pálssyni. Sigurlín Bjarney birti örsögur og smásögur í Hvísli sem og í  Jólabók Blekfjelagsins 2012. Þá gaf hún út ljóðabókina Bjarg á námstímanum og var valin í höfundasmiðju Leikskáldafélags Íslands og Þjóðleikhússins.

Lokaverkefni Soffíu Bjarnadóttur var tvískipt, annars vegar leikrit, hins vegar ljóðasafn; hvort tveggja unnið undir handleiðslu Sigurðar Pálssonar. Soffía birti á námstímanum örsögur í Jólabókum Blekfjelagsins. Þá hreppti hún einnig nýræktarstyrk frá Bókmenntasjóði og var boðið að taka þátt í höfundasmiðju Leikskáldafélags Íslands og Þjóðleikhússins.

Lokaverkefni Þóreyjar Mjallhvítar var myndasaga sem hún vann undir handleiðslu Úlfhildar Dagsdóttur. Þórey birti smásögur í Hvísli í fyrra og átti örsögu í Jólabók Blekfjelagsins 2012.

Ég þakka þessum ágætu konum fyrir samstarfið undanfarin ár og óska þeim alls hins besta.