Ritlistarárið 2014

Ritlistarnemar héldu sig vel að verki þetta árið, skrifuðu verk af ýmsu tagi og tóku þátt í mörgum viðburðum. Aðsókn að meistaranáminu er enn jöfn og góð. Í haust voru teknir inn átján nýnemar en því miður urðu fleiri að ganga bónleiðir til búðar. Eru þau hvött til að bæta umsóknir sínar og reyna aftur.

soffiabjarnadottir

Soffía Bjarnadóttir

Í febrúar útskrifuðust sex ritlistarnemar með meistarapróf og í júní bættust níu við. Hafa þá alls tuttugu lokið MA-prófi í ritlist frá því nám hófst á meistarastigi haustið 2011.

Í upphafi árs kom í ljós að þrír ritlistarnemar höfðu hlotið úthlutun úr Launasjóði rithöfunda, þær Bryndís Björgvinsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Soffía Bjarnadóttir. Tvær þeirra gáfu út bækur á árinu eins og nánar verður vikið að síðar.

Þrír nýlega útskrifaðir ritlistarnemar fengu Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta, Atli Sigþórsson fyrir Stálskip, Guðrún Inga Ragnarsdóttir fyrir Plan B og Sverrir Norland fyrir Kvíðasnillingana.

Alzheimertilbrigdin

Hjörtur hreppti Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Bækur streymdu frá ritlistarnemum, fyrrverandi og núverandi, sem aldrei fyrr og eru nú komnar á fimmta tug frá því ritlist varð að fullgildri námsgrein árið 2008. Björk Þorgrímsdóttir gaf út ljóðabókina Neindarkennd hjá Meðgönguljóðum, Atli Sigþórsson gaf út Stálskip hjá Tunglinu forlagi, Kristian Guttesen gaf út ljóðabókina Í landi hinna ófleygu fugla, Hrafnhildur Þórhallsdóttir gaf út ljóðsöguna Saltvatnaskil hjá Nikkunni, Sæmundur gaf út nóvelluna Leið eftir Heiðrúnu Ólafsdóttur, JPV gaf út skáldsöguna Kvíðasnillingana eftir Sverri Norland, Mál og menning gaf út skáldsöguna Segulskekkju eftir Soffíu Bjarnadóttur, Tunglið forlag gaf út ljóðabókina Alzheimertilbrigðin eftir Hjört Marteinsson, Vaka-Helgafell sendi frá sér ungmennasöguna Hafnfirðingabrandarann eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, Meðgönguljóð sendu frá sér ljóðabókina Sjósuðu eftir Bergþóru Einarsdóttur, Ókeibæ gaf út Lóaboratoríum eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur, Andlag gaf út Hrímland eftir Alexander Dan Vilhjálmsson og síðast en ekki síst komu út tvö safnrit ritlistarnema, bókin Flæðarmál leit dagsins ljós í maí sem afrakstur af smiðjunni Á þrykk og í byrjun desember kom Jólabók Blekfjelagsins með 98 orða örsögum sem höfundarnir lásu jafnframt í Víðsjá. Þá var útvarpsleikritið Rökrásin eftir Ingibjörgu Magnadóttur frumflutt á Rás 1 á árinu. Þar að auki birtist efni eftir ritlistarnema í ýmsum tímaritum, m.a. í sérstöku grasrótarhefti Tímarits Máls og menningar.

Ritlistarnemar tóku þátt í mörgum upplestrum og héldu mörg útgáfuhóf. Einþáttungar eftir þau voru leiklesnir bæði í Þjóðleikhúsinu og Iðnó á haustmisseri. Þá tóku þau þátt í að skrifa texta á skáldabekki í garði í Englandi og var það samstarfsverkefni við þarlendan skóla.

Loa-Hlin-Hjalmtysdottir

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir

Nokkrar viðurkenningar komu í hús á árinu. Hjörtur Marteinsson, sem hóf ritlistarnám í haust, hreppti Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Alzheimertilbrigðin, Bryndís Björgvinsdóttir var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna fyrir Hafnfirðingabrandarann og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í flokki fagurbókmennta fyrir Lóaboratoríum sem er teiknimyndabók. Ritlistarnemar urðu einnig hlutskarpir í bókmenntasamkeppnum á vegum Stúdentablaðsins.

Í september stóð ritlistin ásamt öðrum að ráðstefnunni Art in Translation, alþjóðlegri ráðstefnu þar sem listir og fræði mætast. Á hana kom m.a. hin heimskunna skáldkona Amy Tan og var húsfyllir á hennar opinskáa erindi í Hörpu.

Við héldum áfram með fyrirlestraröðina „Hvernig verður bók til?“ Þrír höfundar héldu þar opna fyrirlestra um verk eftir sig, þau Andri Snær Magnason, Þórarinn Eldjárn og Auður Jónsdóttir. Voru fyrirlestrar þeirra vel sóttir og vöktu mikla lukku. Segja má að þessi fyrirlestraröð sé orðin að föstum lið í bókmenntalífinu.

Ég þakka ritlistarnemum öllum fyrir samstarfið á árinu og óska þeim góðs gengis við að auðga íslenskar bókmenntir enn frekar í framtíðinni.

Lóa Hlín og Bryndís tilnefndar til Fjöruverðlaunanna

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Bryndís Björgvinsdóttir, sem báðar stunda nú meistaranám í ritlist, hafa verið tilnefndar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna.

Lóa Hlín er tilnefnd í flokki fagurbókmennta fyrir bókina Lóaboratoríum. Í umsögn dómnefndar um bókina segir:

loaboratoriumbok-175x184„Rannsókn Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur  á þjóðarsálinni hefur heppnast sérstaklega vel í bók hennar, Lóaboratoríum. Teikningarnar í bókinni hafa sterk höfundareinkenni og textinn er meinhæðinn og beittur og vísar beint í nútímann.

Lóa reynir ekki að fegra veruleikann og gerir óspart grín að hversdagsleika íslenskra kvenna. Lóa snertir sammannlegan streng með teikningum af ófrýnilegu, illa tenntu fólki og nöktum skrokkum sem við þekkjum vel og þykir vænt um. Henni tekst einkar vel að fanga tíðarandann og erkitýpur úr daglega lífinu sem flestir kannast við einsog: alkann, hollustu-fasistann, ástarsjúklinginn, afskiptasömu frænkuna og bjartsýna Eurovisionaðdándann.

Það er einkennileg fegurð í ljótleikanum því myndirnar eru bæði fallegar og gróteskar í senn og svo sannar að það er stundum óþægilegt að spegla sig í þeim.  Lóa sýnir okkur í þessu verki að hún er ótrúlega nösk að greina íslenska þjóðarsál í sinni rannsóknarstofu.“

Bryndís er tilnefnd í flokki barna- og unglingabóka fyrir Hafnfirðingabrandarann og um hana segir dómnefndin:

Hafnfirdingabrandarinn-175x275„Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur er vel skrifuð og skemmtileg. Hún kemur inn á samskipti kynslóða og dregur upp óvenju margbrotnar og flóknar sögupersónur af eldri kynslóðinni, sem flóknu og skemmtilegu fólki sem væri gaman að kynnast. Heimur eldri borgara er gerður merkingarbær og spennandi fyrir ungt fólk og veitt er ný og óvenjuleg innsýn í líf þeirra, sem aðalsöguhetjan Klara getur notað til að máta sig og sín lífsgildi við. Höfundur lýsir hreyfingum á skemmtilegan hátt og oft minna karakterarnir á teiknimyndapersónur. Þessi bók snertir á viðkvæmum málefnum eins og einelti, kvíðaröskun unglinga, ástina og ástarsorgina og fjallar um þessi mál á rausæislegan hátt, án þessa að bjóða upp á einfaldar lausnir. Átakafletir sögunnar eru ekki settir upp eins og vandamál sem þurfi að sigrast á heldur áskoranir til að lifa með. Engin stendur uppi sem sigurvegari. Sagan fjallar í raun fyrst og síðast um það að taka ábyrgð á eigin lífi og sínum nánustu og horfast í augu við sjálfan sig.“

Þess má geta að fyrir nokkrum dögum var Bryndís jafnframt tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir sömu bók. Þeim stöllum er óskað til hamingju með þennan heiður.

Bryndís Björgvinsdóttir tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Hafnfirdingabrandarinn-175x275Ritlistarneminn Bryndís Björgvinsdóttir hefur verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2014 í flokki barna- og ungmennabóka. Tilnefninguna fær hún fyrir bókina Hafnfirðingarandarinn sem Vaka-Helgafell gefur út. Bókin hefur undanfarið fengið afbragðsgóða dóma, þykir bæði fyndin og spennandi. Eiríkur Örn Norðdahl segir t.d. í umsögn á Starafugli að þetta sé bók af því tagi sem „gæti kannski bjargað heilli kynslóð frá ólæsi“.

Þess má geta að bókin er byggð á meistaraverkefni í ritlist sem Bryndís vann undir handleiðslu Ármanns Jakobssonar, sem sjálfur er tilnefndur í sama flokki fyrir bókina Síðasti galdrameistarinn.

Þetta er í fyrsta skipti sem ritlistarnemi er tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Með þessu hafa ritlistarnemar komið við sögu flestra bókmenntaverðlauna landsins. Dagur Hjartarson og Hjörtur Marteinsson hafa hreppt Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, Kjartan Yngvi Björnsson hefur fengið Íslensku barnabókaverðlaunin og Bóksalaverðlaunin og Heiðrún Ólafsdóttir fékk í fyrra tilnefningu til Fjöruverðlaunanna. Þá hafa ritlistarnemar hreppt ýmis smærri verðlaun og viðurkenningar, s.s. Nýræktarstyrki, Ljósvakaljóð fyrir stuttmyndahandrit, fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni Vikunnar og verið útnefndir Háskólaskáld af Stúdentablaðinu.