Þóra Karítas og Jóhanna Friðrika útskrifast með MA-próf

Jóhanna Fridrika

Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir

Laugardaginn 21. febrúar útskrifuðust tveir ritlistarnemar með MA-próf í ritlist við hátíðlega athöfn í Háskólabíói. Það eru þær Þóra Karítas Árnadóttir og Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir.

Lokaverkefni þeirra beggja var í formi sannsögu, þ.e. sannsögulegrar frásagnar þar sem aðferðum skáldskaparins var beitt til að miðla efninu. Þóra Karítas skrifaði undir handleiðslu Vigdísar Grímsdóttur rithöfundar og Jóhanna Friðrika undir handleiðslu Auðar Jónsdóttur rithöfundar. Þær birtu jafnframt frumsamið efni á námstímanum, m.a. í Jólabókum Blekfjelagsins og í bókinni Flæðarmál sem ritlistarnemar unnu í samvinnu við nema í hagnýtri útgáfu og ritstjórn og kom út í fyrra. Þess má geta að þær stöllur eru líka báðar leikkonur að mennt.

Þóra Karítas Árnadóttir

Þóra Karítas Árnadóttir

Um leið og ég óska Jóhönnu Friðriku og Þóru Karítas til hamingju með þennan áfanga þakka ég þeim góða viðkynningu. Þeim er jafnframt árnað heilla á skáldabrautinni. Ef ég þekki þær rétt er ekki ólíklegt að við eigum eftir að sjá meira af frumsömdu efni í einhverju formi frá þeim í framtíðinni.

Þrenna hjá Bryndísi

bryndis_bjorgvinsdottir707266111Bryndís Björgvinsdóttir hefur nú afrekað það að fá þrenn verðlaun fyrir bókina Hafnfirðingarbrandarinn sem er að stofni til meistaraverkefni hennar í ritlist. Fyrst Bóksalaverðlaunin, þá Fjöruverðlaunin og loks Íslensku bókmenntaverðlaunin. Þetta er mikið afrek, ekki síst í ljósi þess að Bryndís er bara rétt rúmlega þrítug.

Ritlistarnemar hafa nú unnið til eða fengið tilnefningu til fjölmargra verðlauna. Þar má nefna, fyrir utan ofangreind verðlaun, Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og Íslensku barnabókaverðlaunin.

Til hamingju, Bryndís!

Sigurður fyrstur til að gegna starfi Jónasar Hallgrímssonar

SP-Jonasarstada 17.2.2015

Sveinn Yngvi Egilsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, Sigurður Pálsson, undirritaður og Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, við athöfn þar sem tilkynnt var um hið nýja starf.

Hugvísindasvið Háskóla Íslands hefur stofnað til starfs sem kennt er við Jónas Hallgrímsson, eitt ástsælasta ljóðskáld Íslendinga fyrr og síðar. Starfið er ætlað rithöfundum sem taka að sér að vinna með nemum í ritlist eitt eða tvö misseri í senn. Tilgangurinn með stöðunni er að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar og að efla ritlistarnám við Háskóla Íslands.

Fyrstur til að gegna starfi Jónasar Hallgrímssonar verður Sigurður Pálsson rithöfundur og þýðandi.

Sigurður er fæddur á Skinnastað í N-Þingeyjarsýslu árið 1948. Að loknu stúdentsprófi frá MR stundaði hann nám við Sorbonne-háskóla í leikhúsfræðum, bókmenntum og kvikmyndum og lauk þaðan meistaranámi og síðan DEA-gráðu í leikhúsfræðum.

Sigurður hefur verið mikilvirkur rithöfundur um langt skeið. Hann hefur m.a. sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur, endurminningabækur, leikrit og þýðingar. Ljóð námu völd var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993 og fyrir Minnisbók hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2007. Þá hlaut hann Grímuverðlaunin árið 2008 fyrir leikritið Utan gátta. Frakkar hafa heiðrað hann fyrir þýðingar sínar og Reykvíkingar hafa gert hann að borgarlistamanni. Nýjasta bók Sigurðar er Táningabók, þriðja bindið í endurminningabálki hans. Þýðingar á ljóðum hans hafa birst á rúmlega tuttugu tungumálum. Ljóðasöfn með úrvali ljóða hans hafa komið út á frönsku, ítölsku, ensku, spænsku, arabísku, búlgörsku, bengölsku og hindí.

Sigurður hefur um árabil komið að kennslu í ritlist við Háskóla Íslands, einkum ljóðagerð. Hann hefur verið vinsæll og virtur kennari sem er vel að því kominn að gegna þessu nýja starfi fyrstur manna.

Fyrsta verkið selt til útlanda

Screen Shot 2015-02-06 at 08.48.31Höfundur með meistaragráðu í ritlist frá HÍ hefur nú í fyrsta skipti selt bók til útlanda. Sagt var frá því á dögunum að franska forlagið Zulma, sem m.a. hefur gefið út verk Auðar Ólafsdóttur, hygðist gefa út frumraun Soffíu BjarnadótturSegulskekkju. Bókin kom út hjá Máli og menningu síðastliðið haust og fékk afar lofsamlega dóma; var þess t.a.m. gjarnan getið hve vel stíluð bókin væri. Hún var að hluta til unnin í meistaranámi Soffíu.

Segulskekkja fjallar um konu sem fær óvænt símtal er sendir hana í ferðalag frá Karijoki til Flateyjar um miðjan vetur til að mæta í jarðarför. Í vetrareyjunni rekur sálma, drauma og minningar á land sem þvinga hana til að rýna í sitt eigið sár og horfast um leið í augu við hina goðsagnakenndu Siggý – móðurina sem rís reglulega úr ösku með sólina í höfðinu, eins og segir í kynningartexta Máls og menningar.

Auk þess að hafa MA-gráðu í ritlist er Soffía menntuð í bókmenntafræðum og leikhúsfræðum. Hún hefur m.a. starfað við skriftir, háskólakennslu og bókmenntarýni. Soffíu er óskað til hamingju með þennan áfanga.

Kanadískt lárviðarskáld heimsótti okkur

mary-pinkoskiMary Pinkoski, borgarlistamaður Edmonton í Kanada, heimsótti okkur í dag. Mary er ungt ljóðskáld sem sérhæfir sig í að flytja ljóðin sín blaðalaust. Hún skrifar þau að vísu á blað fyrst en miðar ljóðagerðina við að flytja ljóðin í eigin persónu. Þá þarf að hafa í huga að þau séu ekki of flókin til að áheyrendur geti numið þau við einn flutning.

Mary flutti okkar þrjú ljóða sinna í heimsókninni og má segja að hún hafi flutt þau með öllum líkamanum, beitti hrynjandi, svipbrigðum og handapati til þess að miðla ljóðunum. Í kjölfarið gaf hún ritlistarnemum góð ráð varðandi flutning á ljóðum.

Mary er á Íslandi í tengslum við Vetrarhátíð og kom til okkar í boði Reykjavíkur Bókmenntaborgar.