Þrenna hjá Bryndísi

bryndis_bjorgvinsdottir707266111Bryndís Björgvinsdóttir hefur nú afrekað það að fá þrenn verðlaun fyrir bókina Hafnfirðingarbrandarinn sem er að stofni til meistaraverkefni hennar í ritlist. Fyrst Bóksalaverðlaunin, þá Fjöruverðlaunin og loks Íslensku bókmenntaverðlaunin. Þetta er mikið afrek, ekki síst í ljósi þess að Bryndís er bara rétt rúmlega þrítug.

Ritlistarnemar hafa nú unnið til eða fengið tilnefningu til fjölmargra verðlauna. Þar má nefna, fyrir utan ofangreind verðlaun, Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og Íslensku barnabókaverðlaunin.

Til hamingju, Bryndís!

Sigurður fyrstur til að gegna starfi Jónasar Hallgrímssonar

SP-Jonasarstada 17.2.2015

Sveinn Yngvi Egilsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, Sigurður Pálsson, undirritaður og Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, við athöfn þar sem tilkynnt var um hið nýja starf.

Hugvísindasvið Háskóla Íslands hefur stofnað til starfs sem kennt er við Jónas Hallgrímsson, eitt ástsælasta ljóðskáld Íslendinga fyrr og síðar. Starfið er ætlað rithöfundum sem taka að sér að vinna með nemum í ritlist eitt eða tvö misseri í senn. Tilgangurinn með stöðunni er að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar og að efla ritlistarnám við Háskóla Íslands.

Fyrstur til að gegna starfi Jónasar Hallgrímssonar verður Sigurður Pálsson rithöfundur og þýðandi.

Sigurður er fæddur á Skinnastað í N-Þingeyjarsýslu árið 1948. Að loknu stúdentsprófi frá MR stundaði hann nám við Sorbonne-háskóla í leikhúsfræðum, bókmenntum og kvikmyndum og lauk þaðan meistaranámi og síðan DEA-gráðu í leikhúsfræðum.

Sigurður hefur verið mikilvirkur rithöfundur um langt skeið. Hann hefur m.a. sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur, endurminningabækur, leikrit og þýðingar. Ljóð námu völd var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993 og fyrir Minnisbók hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2007. Þá hlaut hann Grímuverðlaunin árið 2008 fyrir leikritið Utan gátta. Frakkar hafa heiðrað hann fyrir þýðingar sínar og Reykvíkingar hafa gert hann að borgarlistamanni. Nýjasta bók Sigurðar er Táningabók, þriðja bindið í endurminningabálki hans. Þýðingar á ljóðum hans hafa birst á rúmlega tuttugu tungumálum. Ljóðasöfn með úrvali ljóða hans hafa komið út á frönsku, ítölsku, ensku, spænsku, arabísku, búlgörsku, bengölsku og hindí.

Sigurður hefur um árabil komið að kennslu í ritlist við Háskóla Íslands, einkum ljóðagerð. Hann hefur verið vinsæll og virtur kennari sem er vel að því kominn að gegna þessu nýja starfi fyrstur manna.