Skáldaðar uppskriftir

A thrykk 2015

Hér má sjá hluta hópsins.

Tíu ritlistarnemar vinna nú að útgáfu bókar í samvinnu við sjö ritstjórnarnema. Í þetta sinn ákváðu þau að skrifa efni sérstaklega fyrir bókina og varð niðurstaðan sú að skrifa skáldaðar uppskriftir. Hráefnin eru ljóð, sögur og myndir úr smiðju ritlistarnema, eins og segir á kynningarsíðu verkefnisins.

Á einungis fjórum mánuðum tekst hópurinn á við alla þætti útgáfuferlisins: hann skrifar og ritstýrir textunum, sér um umbrot og kápuhönnun og mun sjálfur sleikja frímerkin þegar kemur að því að póstleggja bækurnar.

Höfundar eru Eygló Jónsdóttir, Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, Halli Civelek, Kristinn Árnason, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, Margrét Bjarnadóttir, Skúli Jónsson, Steinunn Lilja Emilsdóttir, Sunna Dís Másdóttir og Þór Fjalar Hallgrímsson.

Ritstjórar eru Elín Edda Pálsdóttir, Elísabet María Hafsteinsdóttir, Fríða Ísberg, Gréta Sigríður Einarsdóttir, María Harðardóttir, Nína Þorkelsdóttir og Ragnheiður Davíðsdóttir.

Leiðbeinandi er Sigþrúður Gunnarsdóttir, ritstjóri hjá Forlaginu.

Nemendurnir nýta hópfjármögnunarsíðuna Karolina fund og þar getur þú, lesandi góður, tryggt þér eintak af þessu riti og séð sýnishorn af efninu sem í því verður. Bókin er væntanleg í maí.

Áður hafa ritlistarnemar gefið út tvö sambærileg rit í samvinnu við ritstjórnarnema, Hvísl árið 2013 og Flæðarmál árið 2014.

Ófeigur ræðir um Öræfi

OfeigurSugursdsson2014JPV_litÓfeigur Sigurðsson ræðir um hina umtöluðu bók sína, Öræfi, sem hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir árið 2014, í fyrirlestraröðinni „Hvernig verður bók til?“ 19. mars.

Ófeigur er með yngri verðlaunahöfum, fæddur 1975. Fyrsta bók hans, Skál fyrir skammdeginu, kom út árið 2001. Áður en skáldsagan Öræfi kom út hafði hann vakið einna mesta athygli fyrir bókina Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma. Fyrir hana hreppti Ófeigur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins.

Fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? hefur verið haldið úti af námsbraut í ritlist og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands frá 2009. Þar hafa margir af virtustu höfundum þjóðarinnar rætt um ritverk sín. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, milli 12 og 13 fimmtudaginn 19. mars.

Aðgangur ókeypis. Allir velkomnir.

Lóa Hlín tilnefnd til Menningarverðlauna DV

Loa-Hlin-HjalmtysdottirLóa Hlín Hjálmtýsdóttir, meistaranemi í ritlist, er tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir bók sína Lóaboratoríum. Í umsögn dómnefndar segir:

„Eins og svo margar verulega góðar myndir segja teikningar Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur stóra sögu. Í einu vetfangi, einni setningu, einni mynd nær hún að fanga tíðaranda, samfélag og manneskjur – breyskar og grátbroslegar í öllu sínu veldi. Lóaboratoríum hreinsar hismið frá kjarnanum og afhjúpar okkur öll – hún er dásamlega fyndin og óþægilega sönn en merkilega laus við mannfyrirlitningu.“

Áður hefur Lóa Hlín hlotið tilnefningu til Fjöruverðlaunanna fyrir þessa frábæru bók. Ég óska henni til hamingju enn og aftur með verðskuldaða viðurkenningu.

Blaðamenn með ritlistargráðu verðlaunaðir

Bladamannaverdlaun 2014

Jón Bjarki er þriðji frá vinstri, Ólöf önnur frá hægri. Myndin er af vef Vísis.

Blaðamannverðlaun ársins voru afhent í Gerðarsafni á dögunum. Þá bar það til tíðinda að tveir blaðamenn með BA-gráðu í ritlist voru verðlaunaðir. Annars vegar Jón Bjarki Magnússon sem var útnefndur blaðamaður ársins ásamt félaga sínum Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir umfjöllun sína um lekamálið í DV. Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Þrátt fyrir harða gagnrýni og ótal tilraunir til þöggunar stóðu blaðamennirnir í ístaðinu. Þolgæði þeirra varð til þess að ljósi var varpað á það sem raunverulega gerðist á bakvið tjöldin. Það minnir á mikilvægi gagnrýninnar blaðamennsku og að trúnaður blaðamanna sé fyrst og síðast við almenning í landinu og engan annan.“

Jón Bjarki skrifaði BA-verkefni undir handleiðslu Sigurðar Pálssonar, ljóðahandrit sem bar heitið Bútasaumsteppi. Bók byggð á verkefninu kom út hjá Útúrdúr árið 2011 undir heitinu Lömbin í Kambódíu (og þú). Fyrir hana fékk Jón Bjarki Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs 2010.

Hinn blaðamaðurinn sem um ræðir er Ólöf Skaftadóttir en hún hlaut verðlaun fyrir besta viðtalið árið 2014. Það var viðtal við tvíburabræðurna Kára og Halldór Auðar- og Svanssyni um baráttu þeirra við geðræna sjúkdóma. Ólöf útskrifaðist með BA í ritlist árið 2013. Lokaverkefni hennar hét Þvinguð þögn og þar lagði hún drög að fimm sjónvarpsþáttum undir handleiðslu Silju Hauksdóttur. Í umsögn dómnefndar um verðlaunaviðtalið segir m.a.: „Viðtalið er einstaklega hispurslaust um baráttu þeirra bræðra við geðræna sjúkdóma. Þrátt fyrir erfitt umfjöllunarefni nær Ólöf að viðhalda léttleika í gegnum viðtalið en gefur samt ekkert eftir í raunsönnum lýsingum.“ Smellið á hlekkinn hér fyrir ofan til að lesa viðtalið.

Ég óska þeim Jóni Bjarka og Ólöfu til hamingju með verðlaunin en ekki síst með að vera svo skapandi manneskjur.