Sex útskrifast með meistarapróf í ritlist

Hinn 20. júní útskrifuðust sex nemar með MA-próf í ritlist frá Háskóla Íslands. Þau eru:

Disa BjarnaDísa Sigurðardóttir. Lokaverkefni hennar var ljóðasafnið Hvörf sem hún orti undir handleiðslu Sigurbjargar Þrastardóttur og hrollvekjusagnasveigurinn Í landi náa sem hún skrifaði undir handleiðslu Úlfhildar Dagsdóttur. Á námstímanum birti Dísa sögur í Jólabókum Blekfjelagsins, nemendafélags ritlistarnema, árin 2013 og 2014.

Inga MInga Mekkin Guðmundsdóttir Beck. Lokaverkefni hennar var einnig tvíþætt, annars vegar þýðing úr The Graveyard Book eftir Neil Gaiman sem hún vann með Önnu Heiðu Pálsdóttur, hins vegar ungmennabókin Kirkjugarðsbókin sem hún vann undir handleiðslu Sigþrúðar Gunnarsdóttur. Inga birti örsögur í jólabókum Blekfjelagsins og einnig birti hún pistil á Hugrás á námstímanum. Undanfarið hefur hún einnig vakið athygli fyrir síðuna Loðin í kjól sem hún heldur úti á Fasbók.

Ingibjorg MagnaIngibjörg Magnadóttir. Lokaverkefni hennar var annars vegar útvarpsleikritið Rökrásin sem hún vann undir handleiðslu Bjarna Jónssonar og leikritið Hrörnum og hverfum sem hún vann undir handleiðslu Sölku Guðmundsdóttur. Rökrásin hefur verið flutt í Útvarpsleikhúsinu og fyrir hana fékk hún á dögunum tilnefningu til Grímuverðlauna. Ingibjörg hefur birt efni í safnritum ritlistarnema, m.a. Flæðarmáli, og tvö af ljóðunum sem hún birti þar rötuðu inn í nýja útgáfu af bókinni Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna. Einnig hefur hún birt efni í Sirkustjaldinu.

Screen Shot 2015-06-21 at 15.29.03Jónas Reynir Gunnarsson. Lokaverkefni hans var þríþætt. Í fyrsta lagi sagnasveigurinn Bær sem hann vann undir handarjaðri mínum, þá ljóðabókin Að komast af í Reykjavík sem hann vann með Sigurði Pálssyni og loks grínþátturinn Bransinn sem hann vann hjá Styrmi Sigurðssyni. Jónas Reynir hefur birt ljóð í Tímariti Máls og menningar á námstímanum, örsögur í jólabókum Blekfjelagsins, grein á Hugrás og þá vann ljóð eftir hann ljóðasamkeppni Stúdentablaðsins 2014.

Julia MargretJúlía Margrét Einarsdóttir. Lokaverkefni hennar var skáldsagan Sirkustjaldið sem hún vann undir handleiðslu Vigdísar Grímsdóttur og undirritaðs. Júlía Margrét birti á námstímanum þrjár smásögur í Flæðarmáli, safnriti ritlistarnema, smásöguna „Krókódílar gráta ekki“ í tímaritinu Stínu og tvö ljóð í Ljóðagalleríinu á netinu. Þá var hún meðhöfundur að leikgerðinni Skáldmöld sem sýnd var í Landnámssetrinu og fékk nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir Sirkustjaldið.

Steinunn LiljaSteinunn Lilja Emilsdóttir. Hún orti ljóðabókina Tíu mínútur í tvö undir handleiðslu Sigurðar Pálssonar og þýddi hluta bókarinnar Three Day Road eftir Kanadamanninn Joseph Boyden undir minni handleiðslu. Steinunn Lilja hefur birt hér og þar á námstímanum, sannsöguna „Svarthvítur raunveruleiki“ í Tímariti Máls og menningar, smásöguna „Maður og tré“ í Stínu og  örsögur í jólabókum Blekfjelagsins. Þá hefur hún birt efni í Listvísi, Uppskriftabókinni, safnriti ritlistarnema, á skáldabekk í York á Englandi sem og greinar á Hugrás og Sirkustjaldinu.