Ritlistarannáll 2015
Ritlistarnemar hafa látið hendur standa fram úr ermum á árinu, engin ritstífla hjá þeim enda er hér unnið á þeim forsendum að fóðra þurfi vitundina og halda sig að verki til að ritstörf gangi vel. Mörg perlan hefur litið dagsins ljós og ritlistarnemar, núverandi og útskrifaðir, hafa margir hverjir komið verkum sínum á framfæri, hlotið jafnvel viðurkenningu fyrir.
Mikil aðsókn er enn að meistaranámi í ritlist og var einungis unnt að taka inn rúman þriðjung umsækjenda að þessu sinni. Sérstök inntökunefnd, sem í sitja undirritaður og tveir höfundar sem tilnefndir eru árlega af Rithöfundasambandi Íslands, velur inn í námið á grundvelli innsends efnis. Margar góðar umsóknir bárust og eru þau sem ekki komust að hvött til að reyna aftur í vor.
Hér á eftir verður stiklað á stóru í starfinu á árinu sem nú er að líða.
Níu luku meistaraprófi
Í febrúar útskrifuðust Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Þóra Karítas Árnadóttir með meistaragráðu í ritlist. Í júní úrskrifuðust sex: Dísa Sigurðardóttir, Inga Mekkin Guðmundsdóttir Beck, Ingibjörg Magnadóttir, Jónas Reynir Gunnarsson, Júlía Margrét Einarsdóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir.
Í október útskrifaðist Helga Ágústsdóttir og hún er sú eina sem ég hef ekki getið um áður á þessari síðu. Helga skrifaði lokaverkefni í formi handrits að barnabók hjá Ármanni Jakobssyni. Á námstímanum birti hún efni í safnritum ritlistarnema, Flæðarmáli og Jólabókum Blekfjelagsins sem er nemendafélag ritlistarnema.
Öllum er þeim óskað til hamingju með áfangann. Tvær hinna útskrifuðu hafa þegar gefið út bækur byggðar á lokaverkefnum sínum og ég þykist vita að fleiri séu á leiðinni.
Útgáfa og uppfærslur
Útgefin og flutt verk fylla nú sex tugi frá því að ritlist var gerð að fullgildri námsgrein við HÍ árið 2008. Þá er ekki getið ýmissa smærri verka sem hafa komið út í tímaritum, s.s. Tímariti Máls og menningar og Stínu. Mér telst til að eftirfarandi bók- og leikverk hafi verið birt á árinu:
Beinhvít skurn, ljóðabók eftir Soffíu Bjarnadóttur.
Ormstunga, ungmennabók sem ritlistarneminn Kjartan Yngvi Björnsson skrifaði í félagi við Snæbjörn Brynjarsson.
Mörk – saga mömmu eftir Þóru Karítas Árnadóttur.
Uppskriftabók, sýnisrit með efni eftir tíu ritlistarnema, þau Eygló Jónsdóttur, Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur, Halla Civelek, Kristin Árnason, Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur, Margréti Bjarnadóttur, Skúla Jónsson, Steinunni Lilju Emilsdóttur, Sunnu Dís Másdóttur og Þór Fjalar Hallgrímsson.
Himnaljós, smásagnasafn eftir Áslaugu Björt Guðmundardóttur.
Vetrarfrí, ungmennabók eftir Hildi Knútsdóttur.
Jarðvist, skáldsaga eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur.
Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984, smásögur eftir Ragnar Helga Ólafsson.
Draugaljósið, auðlesin sögubók, eftir Hildi Knútsdóttur.
Bryndís Björgvinsdóttir var einn af þremur höfundum bókarinnar Leitin að tilgangi unglingsins.
Ljóðaúrvalið Eilífðir eftir Kristian Guttesen.
Ljóðabókin Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum eftir Ragnar Helga Ólafsson.
Lóaboratoríum - Nýjar rannsóknir eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur.
Hvörf, ljóðabók eftir Dísu Sigurðardóttur.
Ljóðabókin Ég erfði dimman skóg eftir sjö útskrifaðar skáldkonur, þær Guðrúnu Ingu Ragnarsdóttur, Höllu Margréti Jóhannesdóttur, Heiðrúnu Ólafsdóttur, Hrafnhildi Þórhallsdóttur, Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur, Soffíu Bjarnadóttur og Æsu Strand Viðarsdóttur.
Einleikurinn Þú kemst þinn veg eftir Finnboga Þorkel Jónsson sem höfundur lék í.
(90)210 Garðabær eftir Heiðar Sumarliðason, höfundur leikstýrði.
Júlía Margrét Einarsdóttir vann leikgerð að sýningunni Skálmöld ásamt Einari Kárasyni og kom fram í sýningunni.
Hvít mýkt, Svarthol, smásagnakver eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur.
Þau stara á mig, smásagnakver eftir Jónas Reyni Gunnarsson.
Jólabók Blekfjelagsins 2015, 31 örsaga eftir 31 höfund.
Viðurkenningar
Bryndís Björgvinsdóttir hreppti þrenn verðlaun fyrir ungmennabókina Hafnfirðingabrandarinn, sem byggð er á meistaraverkefni hennar – Íslensku bókmenntaverðlaunin, Fjöruverðlaunin og Bóksalaverðlaunin.
Á haustdögum var tilkynnt að Ragnar Helgi Ólafsson hefði fengið Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum.
Hildur Knútsdóttir var tilnefnd bæði til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna fyrir ungmennabókina Vetrarfrí.
Þóra Karítas Árnadóttir var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna fyrir Mörk – sögu mömmu.
Æsa Strand Viðarsdóttir var tilnefnd til Dundee International Book Prize fyrir handrit að skáldsögu, A Life out of Key.
Ingibjörg Magnadóttir var tilnefnd til Grímuverðlauna fyrir útvarpsleikritið Rökrásin. Annar útskrifaður ritlistarnemi, Harpa Árnadóttir, leikstýrði.
Blaðamenn með ritlistargráðu hirtu tvenn verðlaun á uppskeruhátíð blaðamanna í febrúar. Jón Bjarki Magnússon var útnefndur blaðamaður ársins og Ólöf Skaftadóttir hlaut verðlaun fyrir besta viðtalið árið 2014.
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir var tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir bókina Lóaboratoríum.
Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands auglýsti í vor eftir leikverkum handa útskriftarnemum sínum 2016 og var verk eftir hinn nýútskrifaða ritlistarnema Jónas Reyni Gunnarsson valið til sýninga.
Eyþór Gylfason hlaut fyrstu verðlaun í textasamkepninni Ungskáld sem efnt var til á Akureyri. Vinningssaga hans heitir „Lést samstundis“.
Lárus Jón Guðmundsson hreppti þriðju verðlaun í ritlistarsamkeppni Stúdentablaðsins fyrir ljóðin „Tígur I, II og III“ en þar eru sömu orðin nýtt til að yrkja þrjú mismunandi ljóð.
Ásdís Ingólfsdóttir hlaut styrk úr Menningar og minningarsjóði kvenna fyrir verkefnið Af konum.
Þrír ritlistarnemar fengu Nýræktarstyrki á árinu, þau Áslaug Björt Guðmundardóttir fyrir smásagnasafnið Himnaljós, Kristín Ragna Gunnarsdóttir fyrir barnabókina Glópagull og galdraskruddur og Júlía Margrét Einarsdóttir fyrir skáldsöguna Sirkús.
Tvö verk komu út erlendis
Á árinu komu út fyrstu verk ritlistarnema á öðrum tungumálum:
Skáldsaga Soffíu Bjarnadóttur, Segulskekkja, kom út hjá franska forlaginu Zulma undir heitinu J’ai toujours ton cœur avec moi.
Tunglbók Ragnars Helga Ólafssonar, Bréf frá Bútan, kom út í Sviss undir heitinu Briefe aus Bhutan.
Fyrirlestrar, heimsóknir, samstarfsverkefni
Eins og mörg undanfarin ár stóð ritlistin í samstarfi við Bókmennta- og listfræðastofnun HÍ að fyrirlestraröðinni „Hvernig verðu bók til?“ þar sem höfundar fjalla um tilurð verka sinna. Þrír góðir gestir komu í heimsókn á árinu: Ófeigur Sigurðsson ræddi um Öræfi, Bryndís Björgvinsdóttir um Hafnfirðingabrandarann og Vilborg Davíðsdóttir um bækurnar Ástin, drekinn og dauðinn og Auður. Fyrirlestrarnir voru gjörólíkir en þóttu takast vel og voru vel sóttir. Bryndís er fyrsti ritlistarneminn sem stígur á stokk í fyrirlestraröðinni.
Þá kom kanadíska skáldkonan Mary Pinkoski, borgarlistamaður Edmonton í Kanada, í heimsókn og flutti fyrir okkur ljóð blaðalaust. Hún las þau ekki heldur fór með þau á áhrifaríkan hátt.
Ritlistarnemar voru duglegir að koma fram og lesa upp úr verkum sínum, m.a. í Hörpu á Menningarnótt. Einnig efndu þeir til margra útgáfuteita, s.s. þegar Uppskriftabók kom út.
Þá var efnt til samstarfsverkefna með Listaháskólanum þar sem ritlistarnemar tóku þátt í að semja og setja upp örleikrit ásamt leikaranemum. Einnig bjuggu þau til útvarpsþætti fyrir Útvarpsleikhúsið. Var þar um að ræða stuttleikrit og fleira sem tengist leikritaskáldinu Antonin Artaud. Þættirnir verða fluttir bráðlega á Rás 1. Við efndum einnig til sameiginlegrar smiðju með myndlistardeild LHÍ þar sem þess var freistað að samþætta mál og mynd. Ritlistarnemar tóku ennfremur þátt í Iceland Writers Retreat, vinnustofu sem nú er haldin árlega hér á landi og er einkum ætluð útlendum höfundum.
Starf Jónasar Hallgrímssonar í ritlist
Hugvísindasvið Háskóla Íslands stofnaði í ársbyrjun til starfs sem kennt er við Jónas Hallgrímsson, eitt ástsælasta ljóðskáld Íslendinga fyrr og síðar. Starfið er ætlað rithöfundum sem taka að sér að vinna með nemum í ritlist eitt eða tvö misseri í senn. Tilgangurinn með stöðunni er að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar og að efla ritlistarnám við Háskóla Íslands.
Fyrstur til að gegna stöðunni var Sigurður Pálsson sem kennt hefur ljóðagerð hjá okkur í mörg ár og uppskorið miklar vinsældir og væntumþykju nemenda. Sigurður hefur verið afar dýrmætur kennari og framlag hans til námsins ómetanlegt.
Tilkynnt verður um næsta Jónasarkennara eftir áramótin.
Föstu liðirnir
Á árinu keyrðum við að sjálfsögðu ritsmiðjurnar okkar en þar semja þátttakendur nánast allt námsefnið. Meðal þess sem var í boði var sagnagerðarsmiðja, ljóðasmiðja þar sem þátttakendum gafst kostur á að nýta hefðbundna bragarhætti, smiðjur helgaðar leikritun og kvikmyndahandritsgerð og smiðja um útgáfu bókar. Þá brugðu meistaranemar undir sig betri fætinum og héldu helgarsmiðju á Flateyri undir handleiðslu Auðar Övu Ólafsdóttur.
Í grunnnámi er boðið upp á stök ritlistarnámskeið sem má safna í aukagrein. Til að ljúka aukagrein þarf 40 einingar í smiðjum auk bókmenntafræðinámskeiðs og eins valnámskeiðs. Mikil aðsókn hefur verið að þessum smiðjum og stundum komist færri að en vildu. Á árinu var boðið upp á leikritunar- og þýðingasmiðjur. Einnig geta nemendur á BA-stigi fengið svokölluð ritfærninámskeið metin sem smiðjur. Ritfærninámskeiðin eru opin öllum háskólanemum og þar er áherslan á almenna ritfærni sem og fræðileg skrif. Þessi námskeið hafa líka notið mikilla vinsælda.
Fyrir skömmu var sett á stofn Ritver á vegum Hugvísindasviðs. Þar er hægt að panta viðtalsfund og fá ráðgjöf um fræðileg skrif. Á heimasíðu Ritvers má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um slík skrif. Ritverið stendur einnig fyrir örnámskeiðum um ýmislegt sem lýtur að skrifum og eru þau haldin í hádeginu allt að tíu sinnum á hverju misseri. Æ fleiri nýta sér þjónustu Ritvers.
Ég þakka ritlistarnemum fyrir ánægjulegt samstarf á árinu. Einnig þakka ég stundakennurum, leiðbeinendum lokaverkefna, prófdómurum og öðrum sem liðsinntu okkur fyrir vel unnin störf. Gleðilegt ár!