Tíu útskrifast með MA-próf í ritlist
Hinn 25. júní útskrifuðust tíu höfundar með meistarapróf í ritlist og hafa aldrei fleiri útskrifast í einu. Hér verða þau kynnt stuttlega.
Dísa Bjarnadóttir. Lokaverkefni hennar, sem hún vann undir minni handleiðslu, heitir Ótemja og er sannsaga um geðhvörf. Dísa átti efni í Jólabók Blekfjelagsins 2014 og vann keppni um bestu 100 orða örsöguna í Stúdentablaðinu sama ár. Hún birti einnig greinar í ferðablöðum á námstímanum.
Heiðar Sumarliðason. Lokaverkefni hans var leikritið (90)210 Garðabær sem hann vann undir leiðsögn Bjarna Jónssonar og var sett upp í Þjóðleikhúsinu af leikfélaginu Geirfugli árið 2015. Heiðar leikstýrði sjálfur og hlaut verkið ágætar viðtökur gagnrýnenda.
Jóhanna María Einarsdóttir. Meistaraverkefni hennar, Pínulítil kenopsía: Varúð, hér leynast krókódílar, póstmódernískt skáldverk, vann hún undir handleiðslu Hermanns Stefánssonar rithöfundar. Jóhanna María var meðhöfundur að bókinni Tímaskekkjur sem kom út í maí. Bókmenntatímaritið Stína birti sögu eftir hana í vorhefti sínu 2016, „Endurtekin sæla“ heitir hún. Á vefsíðunni Sirkustjaldið birtust eftir hana tvö ljóð og bókmenntaleg hugleiðing um leikritið Dúkkuleikhúsið. Jóhanna María kom að gerð listrænna útvarpsþátta vorið 2015, Grimmdarverk, í samvinnu við Trausta Ólafsson, fyrrverandi leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar og fleiri höfunda. Fjalla þættirnir um franska skáldið og leikhúsfræðinginn Antonin Artaud og voru þættirnir fluttir á Rás 1. Hún átti einnig texta í jólabókum Blekfjelagsins árin 2014 og 15.
Jóhannes Ólafsson. Lokaverkefni hans var þýðing á verkinu Fear and Loathing in Las Vegas eftir Hunter S. Thompson, unnið undir handleiðslu Jóns Karls Helgasonar. Heitir verkið Uggur og andstyggð í Las Vegas í þýðingu hans. Jóhannes birti örsögur í Jólabók Blekfjelagsins 2014 og 2015. Hann á einnig efni í safnriti ritlistarnema, Tímaskekkjur, sem kom út 2016. Á næstu dögum er svo væntanlegt eftir hann kver með örsögu, Lífsýni, sem bókaforlagið Rasspotín gefur út í 66 eintökum, handsaumuðum.
Kristín Ragna Gunnarsdóttir. Lokaverkefni hennar heitir Glópagull og galdraskruddur, sem er ætlað ungum lesendum og var unnið undir handleiðslu Ármanns Jakobssonar. Hún fékk Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2015 og listamannalaun í 9 mánuði til að fullvinna bókina. Kristín Ragna birti örsöguna „Gjöf frá Vigdísi“ í Jólabók Blekfjelagsins 2015. Hún fékk ennfremur Vorvindaviðurkenningu IBBY 2015 fyrir framlag sitt til barnamenningar.
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir. Lokaverkefni sitt, Heim og Húðlaus, ljóð og smásögur, vann hún annars vegar undir handleiðslu Haraldar Jónssonar og hins vegar hjá Auði Jónsdóttur. Á námstímanum birti hún tvær teiknimyndabækur, Lóaboratoríum, sem hún var tilnefnd til Fjöruverðlauna og Menningarverðlauna DV fyrir, og Lóaboratoríum – Nýjar rannsóknir. Þá átti Lóa Hlín örsögu í Jólabók Blekfjelagsins 2013 og 2014 sem og í safnriti ritlistarnema, Uppskriftabók.
Ólafur Steinn Ingunnarson. Lokaverkefni hans var smásagnasafnið För sem hann vann undir handleiðslu minni. Hann birti sögur í Jólabók Blekfjelagsins síðustu þrjú ár og skrifaði útvarpsleikrit í tengslum við þátt Trausta Ólafssonar um Artaud, leikstýrði því sjálfur enda líka lærður leikari.
Ragnar Helgi Ólafsson. Lokaverkefni hans, sem hann vann með Sigurði Pálssyni, var í formi tveggja ljóðabóka. Önnur heitir Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum: lög og textar, og fyrir hann hreppti hann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2015, hin heitir Heimsálfur, Vínarljóð, aríur og apókrýfur: ljóð og textar. Tunglið forlag birti sögu hans Bréf frá Bútan árið 2013 og hún kom einnig út á þýsku árið 2015. Í tímaritaröðinni 1005 kom einnig út smásagnasafn hans Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og mótandi áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur. Þá birti hann smásögur, ljóð og ljóðaþýðingar í tímaritum bæði hér heima og erlendis á námstímanum.
Þór Fjalar Hallgrímsson. Lokaverkefni hans var tvískipt, annars vegar vísindasmásagan „Huldutungl“, sem hann vann með Alexander Dan Vilhjálmssyni, og hins vegar sannsagan „Meðferðarsaga“ sem hann vann hjá mér. Þór Fjalar birti söguna „Strand“ í Uppskriftabók, safnriti ritlistarnema 2015, örsögu í Jólabók Blekfjelagsins 2013 og fyrir söguna „Skipti“ fékk hann þriðju verðlaun í smásagnasamkeppni Stúdentablaðsins 2013.
Þóra Björk Þórðardóttir. Lokaverkefni hennar var skáldsagan Söngfuglinn sem missti röddina og var ég leiðbeinandi hennar. Hún átti efni í safnriti ritlistarnema, Tímaskekkjur, sem kom út í maí 2016, auk þess sem hún birti örsögur í jólabókum Blekfjelagsins árin 2014 og 2015.
Ég þakka þessum ágætu höfundum fyrir samstarfið og hvet bókmenntaáhugafólk til að fylgjast vel með þeim á næstu árum.